Færslur

Helluvatn

Örnefni eru ekki bara örnefni. Þau geta einnig verið rangnefni í minni annarra er telja sig veita betur. Örnefni eiga það nefnilega til að breytast, bæði mann fram af manni sem og á milli manna í gegnum tíðina. Fólk flytur á brott og nýtt flytur að. Örnefni skráð á einum tíma af tilteknum aðila haft eftir öðrum slíkum geta haft gildi sem slík, en þau þurfa hvorki að vera hin einu réttu frá upphafi né endanleg. Þegar fjallað er opinberlega um örnefni á tilteknu landssvæði má telja víst að ekki verða allir sammála.

Í Morgunblaðinu í maí 1957 er grein; “Svipast um eftir sumrinu“, á bls. 5.:

“Sumrinu hefur dvalizt á leið sinni til Reykjavíkur. Tré standa nakin í görðum og knattspyrnuvellir nýorðnir færir.

Svipast um eftir sumrinu

Mynd með meðfylgjandi grein í Mbl.

Fréttamenn Morgunblaðsins ákváðu þess vegna að leggja land undir fót og svipast um eftir fyrsta þætti sumarsins. Ekki höfðu þeir lengi farið er vestanblærinn og fuglar sungu. Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru ung svanahjón á sundi og fögnuðu blíðunni. Þau voru feimin við gestkomuna, litust á, hófu sig af pollinum og flugu hratt til heiða.
Hretleifar í Hengli blikuðu í sólskini og bliknuðu. Skýjaslitur hurfu hvert af öðru austur fyrir fjall. Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá. Fiskurinn var latur í birtunni og sinnti ekki táli. Það lagast með kvöldinu.

Fé

Fé.

Árið er stór sólarhringur. Á morgni þess vaknar landið, skríður undan hvítum næturfeldi og klæðist gróðri, fuglum og ferðamönnum.
Fólkið í landinu hristir af sér skammdegisdrungann og fyllist verkmóði og lífsgleði á ný. Borgarbúar fara um helgar að dytta að sumarhreiðrinu síðan í fyrra eins og maríuerlan. Fátt bragðast þeim ljúfar en bröndur, sem þeir hafa veitt sjálfir, soðnar á primus uppi í hrauni og étnar með jurtum úr eigin garði. Lömbin fylgja sumrinu. Þau brölta klaufalega umhverfis mæður sínar, þegar nálin birtist í túnum, dafna með henni, verða stríðin og státa og hlaupa spretti í hóp um á lygnum síðkvöldum.
Þegar sumri lýkur eru þau ekki lengur lömb, þau eru vísast vaxin mæðrum sínum yfir höfuð. Þá fáum við dilka kjöt og sultu.
Engir fagna sumrinu jafnmjög og nautgipir. Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur vetrarins taka á rás eftir gljúpum túnum og vita halar upp. Kálfar, sem aldrei hafa séð víðari veröld en fjósið, staðnæmast ráðvana og litast um áður en þeir hlaupa í fyrsta sinn. Eftir nokkra stund róast hópurinn og fer að bíta sinuvafinn nýgræðing.
Skuggar teygjast í austur þegar fréttamenn komu þreyttir úr sumarleit sinni. Þeir höfðu erindi sem erfiði.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Í Morgunblaðinu í júní 1967 skrifaði Rg eftirfarandi í velvakanda, í framhaldi af framangreindri grein, undir fyrirsögninni “Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum”: “Í Morgunblaðinu í dag (11. maí) er á 5. síðu efst mynd af á og tveim lömbum hennar, sem horfa upp yfir skilrúm í kró. Undir er svo smágrein: „Svipast um eftir sumrinu”. Þar standa eftirfarandi setningarhlutar, sem ég gjarna ætla að gjöra við smá athugasemdir höfundi til athugunar, en þó aðallega honum og öðrum, sem lesa kunna þessi orð mín, til umhugsunar eftirleiðis og fróðleiks.
Því bæti ég við einu málfræðilegu hugtaksatriði, sem ég hjó eftir í upphafi greinar í fylgiriti, er lá innan í Morgunblaðinu. Þetta eru athugunarklausur mínar. Eru þær merktar bókstöfum a) til c). — Þær gefa aðallega tilefni til að skjalfesta til athugunar nokkur örnefni og notkun fárra orða og hugtaka.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

a) „Á lítilli tjörn í mýrinni austan Rauðhóla voru…svanahjón”. Eftir þessum orðum að dæma (og framhaldi þeirra) virðist greinarhöfundur hafa skroppið suður yfir Bugðu á brúninni, sem setuliðið — hér á árunum eftir 1940 — lagði yfir ána af Tryppanefsoddanum, og þá um leið veginn beggja vegna að brúnnni, og fluttu síðan eftir vegi og brú Rauðhólana burtu. (Því að nú er aðeins lítill hluti eftir af Rauðhólunum eins og þeir voru frá náttúruinnar hendi). Brú þessi er handriðalaus hleri, en slíkar trébrýr yfir smáár, læki og vegaræsi voru á áratugunum í kringum síðustu aldamót, nefndar: „hlemmur”. (Þaðan er nafnið: Hlemmtorg neðan við Laugarveginn, þar sem Rauðaráin féll niður áður en hún var leidd í rör neðanjarðar, því á henni var „hlemmur” þar sem Laugavegurinn lá yfir ána (lækinn réttara).
Verið getur að „litla tjörnin”, sem höf. nefnir þarna, sé Hrauntúnsvatn, nema um smátjörn, nánast vorleysingapoll sé að ræða, en af þeim er venjulega töluvert þarna í Hólmsengjunum um þetta leyti árs og lengi fram – eftir, því alfestaðar er hraun undir.

Hrauntún

Hrauntúnsvatn – minjar eru við vatnið miðsvæðis.

Hrauntúnsvatn (Hrauntún mun hafa verið þarna — um eitthvert skeið — smáhjáleiga frá Hólmi) er stærst af vötnunum þarna og liggur rétt suður af austurenda Rauðhólanna. Í vatnið, og áður gegnum Helluvatn, rennur Suðurá (nafngift frá Hólmi). Hún kemur austan og ofan fyrir Silungapoll, og með afrennsli úr honum. Það kom einnig með vatnsmagnið úr Gvendarbrunnum áður en það var gert að neyzluvatni. Reykvík (ekki „vis”) inga, (sbr.: Reykvískur). Aðeins sunnan við Hrauntúnsvatn er Kirkjuhólmatjörn hjá Jaðri í Heiðmörk. Vatnsmagn það, er rann úr þessum vötnum, myndaði nokkuð vatnsmikla á, er hét „Dimma” og fellur hún í Elliðavatn. Brúin á veginum að bænum Elliðavatni, að Jaðri og þeim megin í Heiðmörk, er yfir Dimmu. En nú er venjulega haft svo hátt í Elliðavatni (Rafmagnsupphitaða stífla), að árinnar gætir ekki.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

b) „Drengir stóðu að silungsveiðum í Hólmsá”. Hvorki af þessum orðum höf. né þeim, er á undan standa eða á eftir koma er hægt að sjá hvar þetta var. Þarna nálægt Rauðhólunum er engin á, sem heitir Hólmsá — réttu nafni. En norðan við hólana og fast norðan við túnið á bænum Hólmi rennur áin Bugða, sem ég hef nefnt hér á undan, og sem með einni af þeim óteljandi bugðum myndar Tryppanefið áður nefnda. — Áin er ekki löng. Hún var aðeins um 10 km. áður en Rafmagnsuppistöðustíflan var gerð fyrir neðan Elliðavatn, en við það var Bugða leidd inn í lónið, nú Elliðavatn, um tveim km. ofar.

Hólmsá

Hólmsá.

Bugða myndast af tveimur vatnsföllum: Fossvallaá, sem kemur alla leið austan undan Hengilfjöllunum, af Bolavöllum og víðar og fellur vestur og niður milli bæjanna Lækjarbotna í Seltjarnarnesshreppi, og Elliðakots í Mosfellssveit, síðast um skeið í tveimur kvíslum og rennur sú nyrðri í gegn um Nátthagavatn, lítið vatn skammt sunnan við túnið að Elliðakoti. Í einum farvegi mætir hún þó Selvatnslæk (öðru nafni: Selvatns-ÓS) beint norður af Neðrahraunsnefinu fyrir neðan Lækjarbotna, — en vestan í og á Neðra-Hrautjarnnefinu er nýbýlið (frá um 1925) Gunnarshólmi. — Um 2 km. neðar var vað á Bugðu, þar lá Suðurlands(Austurlands-) vegurinn yfir ána. Þeir ferðamenn, sem komu austan yfir „Heiði” og ætluðu til Reykjavíkur, Bessastaða, Hafnarfjarðar og Suðurnesja, sáu aðeins einn bæ nokkurn spöl neðar með ánni, Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Vaðið var því nefnt: Hólmsvað á Bugðu. En flestir létu sér nægja að segja aðeins: Hólmsá. Þannig er þetta ranga nafn komið inn í málið, og hefur því líka verið klínt inn á kortin. Brúin, sem vegurinn liggur nú um, var gerð á ána fast ofan við vaðið og sér enn fyrir vaðinu á árbökkunum beggja vegna. Neðri endi (ós) Bugðu mætti Dimmu þar neðan við er hún féll aftur úr Elliðavatni, rétt suður af suðurenda slakkans, sem liggur suður frá skörpu beygjunni á Rauðavatni, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshlykkinn. Þar, sem árnar komu saman, stendur enn dálítil hraunstrýta; heitir hún Hólmaskyggnir. Er þar nú sumarbústaður og hafa verið gerðir stallar neðst um skyggninn og plantað í stallana. Það er vatnsmagin Dimmu og Bugðu, sem þarna myndar Elliðaárnar. Þarna féllu þær strax fram í tveimur kvíslum þegar ekki var sáralítið vatn í ánum, en þó aðalkvíslin að suðvestan. Sléttlendið, — upp gróið hraun, — á milli kvíslanna, heitir: Vatnsendahólmar; þaðan er nafnið á Hólmaskyggni. Rangnefnið á Bugðu mun líklega reynast nokkuð lífseigt eins og títt er um margar málvitleysur og drauga. En fáir munu veita því athygli að áin sýnir og skrifar sjálf með rennsli sínu að hún heitir Bugða.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

c) „Rosknar kýr, síðvembdar og stirðfættar eftir kyrrsetur (auðkennt hér) vetrarins”. Segið mér! Hefur nokkur séð kýr sitja? Ég man ekki til þess að ég hafi nokkru sinni séð kýr eða aðrar nautkindur sitja á rassinum — ótilneyddar. Man ekki betur en að þær leggist niður með því að krjúpa á kné framfóta og láti síðan afturhlutan hníga á eftir níður á aðrahvora hliðina. Og upp minnir mig að þær rísi aftur með afturhlutan á undan. Minnir að hitt sé undantekning og þá af einhverjum sérstökum ástæðum. Nei, Ég held að „kyrrsetakreppa” (Stgr. Th.) mannfólksins eigi ekki við um húsdýrin — eða dýr yfirleitt — heldur kyrrstöðu stirðnun (sem kallað var: innistaða) vetrarins, og sé kyrrstaðan sízt betri, er til lengdar lætur. Munu ýmsir menn, bæði karlar og konur, geta um það borið, þeir er mikið verða að vinna standandi, — t.d. prentararnir, handsetjararnir við leturkassanna.
HólmurÞá vil ég loks benda á eitt orðatiltæki, sem ég aldrei get fellt mig við, en sem mikið kveður að bæði í ræðu og riti, og líklega hjá þorra manna, því að það mun vera orðið gamalt í málinu okkar. Eitt af því marga, sem við höfum látið okkur sæma að apa hugsunarlaust, og að óþörfu, eftir Dönum. Sannast hér sem jafnan að „auðlærð er ill danska”, og það bókstaflega.
Ég tek þetta hér með af því að ég hnaut um þetta orðatiltæki strax í annarri línu og efst á síðu í fjórblöðungi, er lá innan í Morgunbl. í dag (11/5) — (í réttri íslenzkri merkingu, en ekki í ensku merkingunni: today, sem flestir virðast nú hafa gleypt til notkunar bæði í ræðu og riti, íslenzku máli til stórskemmda af því að íslenzkan: „í dag” þýðir alveg bundinn tíma, en ekki lítt takmarkaðan tíma, bæði fram og aftur, eins og enskan: „today” gerir).
Orðatiltækið er: „menn og konur. ” Seg mér (og öðrum) hver þú, sem geitur: Hvaða dýrategund eru konurnar fyrst að taka þarf fram svona skýrt að þær séu ekki menn?
Ég þarf ekki að skrifa meira um þetta. Hver einasti heilvita og hugsandi maður, hvort sem er karl eða kona (orðin: karl þýðir ekki gamal karlmaður og kona þýðir ekki aðeins gift kona, slíkt eru síðari tíma rangtúlkanir orðanna) getur svarað spurningunni sjálfur rétt, ef hann aðeins vill hugsa út fyrir áunnin vanatakmörk, sem eru í raun og veru heimska.”
Vinsamlegast,
Rg”.

Í Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar skrifar Karl E. Norðdahl, bóndi á Hólmi athugasemdir við áður fram komnar athugsasemdir undir fyrirsögninni “Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm”:
„Velvakandi!

Hólmur

Hólmur – Karl E. Norðdahl lengst til hægri.

Í dálkum þínum fimmtudaginn 15. júní sl. er birt langt bréf frá bréfritara, sem nefnir sig Rg., og ber það yfirskriftina „Litazt um eftir réttu máli (íslenzku) og réttum örnefnum.” Tilefni ritsmíðar Rg. er smágrein, sem birtist í Mbl. 11. maí sl. Rg. hefur fundið sig knúinn til að „fræða” höfund þeirrar greinar sem og aðra lesendur Mbl. um ýmis örnefni umhverfis Hólm og gengur honum vafalaust gott eitt til. Því miður hefur Rg. þó ekki ekkert betur til en svo, að óhjákvæmilegt er að leiðrétta fjölmörg atriði í grein hans.

Bugða

Bugða.

Nafnið Hólmsá er mjög gamalt. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá, þar sem núverandi Hólmsárbrú er (og þjóðvegur austur fyrir fjall). Þá brú, sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888, sbr. Árferði Íslands í þúsund ár, eftir Þorvald Thoroddsen. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur. Fossvallaá, sem Rg. talar um er nú ekki nema nafnið eitt.
Fyrir 1920 rann hún meiri hluta ársins en undanfarna áratugi hefur hún verið þurr nærri allt árið, rennur aðeins í stórleysingum.” Upptök Fossvallaárinnar (hún hét reyndar Lyklafellsá austan Fóelluvatna) voru í Engidal og Marardal í Hengli (ekki á Bolavöllum) og heitir hún þar Mará. Sú á hverfur í jörð á Norðurvöllum.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Rg. talar um Selvatnslæk (öðru nafni Selvatnsós). Þau örnefni eru ekki til og hafa aldrei verið það. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur. Þaðan rennur Hólmsá norðan við bæinn Gunnarshólma (hann var byggður 1928) undir Hólmsárbrú suður um Heiðartagl. Þar féll Ármótakvísl (stífluð 1961) úr Hólmsá í Suðurá.

Hrauntúnstjörn og nágrenni

Hrauntúnstjörn og nágrenni.

Hólmsá fellur síðan sem leið liggur vestur með þjóðveginum norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá, ekki Bugða, allt vestur á móts við Baldurshaga. Síðan heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða þar til hún fellur í Rafveitulónið. Nafnið Bugða á þessum hluta árinnar var notað af ábúendum Elliðavatns og Grafar (Grafarholts). Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá og lagði veg af Suðurlandsvegi í Rauðhóla árið 1926, ekki „setuliðið hér á árunum eftir 1940″, eins og greinarhöfundur Rg. kemst að orði.
Rg. talar um vað á Hólmsá (eða Bugðu, eins og komizt er að orði) fast neðan við núverandi Hólmsárbrú, og að þar hafi þjóðleiðin áður legið. Þetta er rangt. Þarna befur aldrei verið vað. Þjóðleiðin lá hér áður fyrr yfir Ármótakvísl, sunnan við bæinn Hólm og yfir Hólmsá um 1/2 km neðan við Hólm.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Hraunsnef er aðeins eitt, ekki tvö eins og greinarhöfundur telur. Í Silungapoll fellur Hraunlækur að norðan og kem ur upp í Hraunsnefi. Úr Silungapolli fellur Silungapollsá sunnan við Höfuðleðurhól, jökulnúna grágrýtisklettaborg. Silungapollsá sameinast Ármótakvísl við Ármót og heitir eftir það Suðurá. Stóra tjörnin vestur af Gvendarbrunnum heitir Hrauntúnsvatn og því síður Helluvatn eins og Rg. talar um.

Helluvatn

Helluvatn.

Helluvatn er vatnið sunnan Rauðhóla. Segja má að Rg. sé nokkur vorkunn að rugla saman örnefnunum Hrauntúnstjörn og Helluvatni, þar sem nafnavíxl hafa orðið á þessum vötnum á herforingjaráðskortinu frá 1908 af þessu svæði. Og enn gengur þessi sama vitleysa aftur á endurskoðuðu korti Landmœlinga Íslands frá útgefnu korti 1966 (blað 27, mælikvarði 1:100000). Má því segja, að erfiðlega ætli að ganga að kveða þennan draug niður. Suðurá féll áður í Hrauntúnstjörn í tveimur kvíslum um Hrauntúnshólma. Sunnan Hrauntúnstjarnar má enn sjá tóftarbrot af eyðibýlinu Hrauntúni. Úr Hrauntúnstjörn féll Krikjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmakvísl til norðvesturs í Helluvatn og Kirkjuhólmaá til suðvesturs í Kirkjuhólmatjörn og þaðan í norðvestur í Helluvatn. Á milli þessara kvísla er Kirkjuhólmi.

Hólmur

Hólmur og nágrenni.

Helluvatn (suður af Rauðhólum) dregur nafn af Hellunni, sléttri hraunklöpp í Helluvaði, sem er neðst í Kirkjuhólmaá. Þar sem sú á fellur í Helluvatn, er mjög djúpur
hylur (um 4:—5 faðmar á dýpt) og heitir Helluvatnsker eða Kerið, kunnur veiðistaður. Vatnsveita Reykjavíkur hefur nú „lokað” Hrauntúnstjörn og hefur hún hvorki að- né frárennsli.

Suðurá

Suðurá.

Hefur Suðurá nú verið veitt beint í Helluvatn, Áin, sem fellur úr Helluvatni í Elliðavatn heitir alls ekki Dimma eins og Rg. heldur fram og hefur aldrei heitið, heldur Elliðavatnsáll oftast nær kölluð aðeins Állinn. Yfir hann liggur brú af Sundholti og þaðan vegur í Heiðmörk. Áður fyrr voru vötnin tvö, Elliðavatn og Vatnsendavatn. Tanginn Þingnes (nú eyja) skipti þeim að sunnan. Úr Vatnsendavatni féll Dimma og dró nafn af djúpum og dökkum hyljum. Nú er þetta breytt. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur gert stíflu þvert yfir Elliðavatnsengjar og báðar árnar (Dimmu og Bugðu) og myndað eitt stórt stöðuvatn núverandi Elliðavatn.
Greinarhöfundur Rg. virðist ekki vita, að slakkinn frá Rauðavatni til suðurs, þar sem vegurinn liggur yfir vatnshornið, heitir Margróf (það ðrnefni vantar rcyndar einnig á kort af Reykjavík og nágrenni, sem út kom í fyrra) og hann talar um dálitla hraunstrýtu með nafninu Hólmaskyggnir þar, sem árnar komu saman. Ekki er þetta hraunstrýta, heldur melhóll, og nafnið mun vera Vatnsendaskyggnir, en ekki Hólmaskyggnir.
Mun nú látið staðar numið að sinni, en margt er enn ósagt um örnefni á þessum slóðum.”
Með þökk fyrir birtinguna.” – Karl E. Norðdahl – Hólmi.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 133. tbl. 15.06.1967, Litast um eftir réttu máli (íslensku) og réttum örnefnum, Rg, bls. 4.
-Morgunblaðið, 143. tbl. 29.06.1967, Ár, vötn og örnefni umhveris Hólm – Karl E. Norðdahl, bls. 4.
-Morgunblaðið, 104. tbl. 11. 05. 1957, Svipast um eftir sumrinu, bls. 5.

Hrauntúnstjörn

Hrauntúnstjörn – minjar.