Tag Archive for: Herforingjaráðskort

Herforingjaráðskort

Upp úr aldamótunum 1900 var lagður grunnur að þeim mælingum hér á landi sem stór hluti korta af Íslandi hefur byggst á til þessa.

Herforingjaráðskort

Mælingamenn við Kirkjuvog í Höfnum.

Danska hermálaráðuneytið gaf út tilskipun til landmælingadeildar herforingjaráðsins um að leggja grundvöll að nýjum landmælingum og kortagerð á Íslandi. Þetta mikla verkefni stóð yfir í 27 sumur á árunum 1900 til 1940, þar með talinn allur undirbúningur. Árið 1928 var danska landmælingastofnunin Geodætisk Institut stofnuð og leysti hún herforingjaráðið af hólmi með Íslandsmælingarnar.

Herforingjakort

Herforingjarðaskort – Seltún í Krýsuvík 1908.

Í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari höfðu Danir, á grundvelli framangreindra mælinga, gefið út Atlaskort í mælikvarða 1:100 000, alls 87 kortblöð sem þekja allt landið. Að Atlaskortagerðinni stóðu 70 landmælinga- og kortagerðarmenn og um það bil 300 aðstoðarmenn, íslenskir og danskir. Þessi kort ásamt fleirum má sjá í Kortsjá og sækja í Kortasafn Landmælinga Íslands.

Hafnarfjörður

Herforingjaráðskort – Hafnarfjörður 1902.

Dönsku landmælingamennirnir gerðu uppdrátt af íslenskum bæjum, þéttbýlissvæðum og þorpum sem sjá má í Kortasjánni. Gerð uppdráttanna fór fram á tímabilinu 1902-1920.

Þá er að finna í Kortasjánni nokkuð af ljósmyndum sem dönsku landmælingamennirnir tóku í upphafi síðustu aldar, flestar frá árunum 1900 til 1910. Myndirnar bárust í stórri gjöf frá dönsku landmælingastofnuninni til Landmælinga Íslands vorið 1985. Ljósmyndirnar voru á glerplötum og myndaspjöldum, flestar þrívíddarmyndir/steriomyndir og um 70 myndir voru í tví- eða þrítökum svo að heildarfjöldi myndanna telst vera 594 myndir.

Heimild:
-https://www.lmi.is/is/landupplysingar/soguleg-gogn/soguleg-gogn

Herforingjaráðskort

Herforingjarnir dönsku í náttstað. Mikill farangur fylgdi mælingaflokkunum.