Tag Archive for: hestaslóð

Litlistekkur

Gengið var upp frá Breiðagerði með það að markmiði að skoða „Breiðgerðisstekk“ sbr. fornleifaskráningu fyrir Voga, sem og Litlastekk ofar í heiðinni. FERLIRsfélagar hafa um stund dundað sér við að skoða áreiðanleika fyrrum fornleifaskráninga á Vatnsleysuströnd. Ljóst er að margar fornleifar á svæðinu hafa enn ekki verið skráðar og sumar hinna skráðu minja verða að teljast í besta falli hæpnar með hliðsjón af dregnum ályktunum. Mikilvægt er að allar fornleifar séu skráðar og að þær séu rétt skráðar.

Hestaslóðin

Hestalóðin – Almenningsvegur.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar var fyrst komið að „Hestaslóðinni“, sem Sesselja nefnir í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins); „Ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd“.
„Varðan er um 440 m sunnan við bæ, á fremur lágu holti í hraunmóa sem er að hluta gróinn. Varðan er ferköntuð í grunninn, er um 1 m á kant. Hún er um 1,5 m á hæð og sjást 8 umför hleðslu í henni. Hún hefur líklega verið endurhlaðin að hluta. Líklegt er að varðan hafi vísað Almenningsveginn“, segir í fornleifaskráningunni. Sú ályktun virðist, af öllum ummerkjum við nána skoðnun,  vera rétt.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur.

Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ frá árinu 2014 segir um framangreindan stekk: „Ofan Vatnsleysustrandarvegar er tóft, um 530 m sunnan við bæ. Tóftin stendur nokkuð hátt á grónum hól í hraunmóa. Tóftin virðist vera þrískipt og garðlag liggur frá henni til norðurs, líklega aðrekstrargarður. Tóftin er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 10×6,5 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Með aðrekstrargarðinum er hún um 10×6,5 m að stærð. Hólf I er norðaustast í tóftinni. Það er um 1×3 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er inn í það úr norðvestri.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur – teikning.

Hólf II er samsíða hólfi I og skilur hæsti veggur tóftarinnar þessi tvö hólf að. Það er um 2×2,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ógreinileg hleðsla er fyrir norðvesturenda þessa hólfs sem heldur áfram til norðurs og verður greinilegri. Óskýrt op er inn í hólf II, í norðurhorni þess. Hólf III er norðvestast í tóftinni. Í veggjum þess er einföld röð stórgrýtis. Það er um 2×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést skýrt op inn í það. Hólf II hallar lítillega til suðvesturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 1 m og sjást 3 umför. Líklegt er að þessi tóft sé af stekk en til þess bendir helst fjarlægð frá bæ og gerð tóftarinnar.“

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisborg – smalaskjól.

Á samliggjandi klapparholti eru jarðlægar hleðslur; mjög líklega leifar smalaskjóls. Lögun skjólsins sést þó enn, auk þess að það ber þess merki að hafa verið hlaðið af unglingi (smásteinahleðslan bendir til þess).

Augljóst er að framangreindur stekkur hafi verið hlaðinn upp úr eldri fjárborg. Neðstu lög hennar sjást allt umleikis. Líklega er verið að rugla þarna saman örnefnum þar sem segir í fornleifaskráningu fyrir Stærra-Knarrarnes um Borg; tóftir/stekk: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg.

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisstekkur/-fjárborg – uppdráttur ÓSÁ.

Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum.“
Síðan er fjallað um beitahús og stekkjartóft, en ekki minnst á „borg“. Þessi lýsing á aftur á móti við um minjar í Sauðholtum ofan Minna-Knarrarness, en ekki nefnds stekks ofan Breiðagerðis. Hins vegar er augljóst, sem fyrr sagði, að stekkurinn sá á uppruna sinn í eldri fjárborg á tilteknum stað; „um 530 metrum sunnan við bæ“.

Breiðagerði

Breiðagerði – heiðargerði.

Ofar í heiðinni var gengið fram á fornt gerði utan í klapparhól. Hleðslurnar voru orðnar nær jarðlægar, en þó sást vel móta fyrir þeim. Þarna gæti hafa verið rúningsrétt fyrrum. Tóft þessi hefur ekki verið fornleifaskráð.

Miðsvegar í heiðinni er Litlistekkur. Í forleifaskráningu fyrir Breiðagerði segir: „Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. „Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Litlistekkur er um 1,1 km suðaustan við bæ. Stekkurinn er norðaustan undir allháum, grónum hraunhól, ofarlega í heiðinni. Dálítill grösugur kragi er umhverfis stekkinn og hólinn.
Svo virðist sem tvö byggingarstig séu í Litlastekk. Tvískipt grjóthlaðin stekkjartóft, B, virðist vera hlaðin inn í eldri gróna tóft, A, sem er um 9×6 m að stærð og snýr SSA-NNV. Í SSA-enda eldri tóftarinnar er eitt nokkuð skýrt en gróið hólf sem er um 1×1,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Ekki sést op á því. Tóft B er hlaðin inn í aðalrými tóftar A. Inngangur í tóft A virðist vera í norðurhorni. Mesta hæð veggja er um 1 m í SSA-enda.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Tóft B er um 5×4,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Inngangur er á norðvesturgafli. Hólf I er um 2×3 m að innanmáli og snýr eins og tóft. Hólf II er um 1×3 m að innanmáli og er samsíða hólfi I. Opið er á milli hólfa í norðvesturenda tóftarinnar. Mesta hleðsluhæð er um 1 m og mest sjást 3 umför hleðslu.“

Litlistekkur ber ekki nafn með réttu. Þarna er greinilega um seinni tíma heimasel að ræða frá Breiðagerði. Vel er gróið í kringum stekkinn, einkum suðurhlutann. Þar virðist hafa verið búr tengt utanverðum stekknum. Stekkurinn sá er síst minni en þekkist í nærliggjandi stekkjum í heiðinni. Umfang og stærð stekkjanna markaðist jafnan af fjölda fjár frá einstökum bæjum á hverjum tíma.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þegar staðið er á ofanverðum hólnum er stekkurinn liggur norðlægt undir kallast staðsetningin greinilega á við stekkinn skammt vestar í Knarrarneslandi. Þar er líklegt að hafi einnig verið heimasel um tíma. Þarna á millum er hlaðinn varða á klapparhól, skammt ofar; landamerki jarðanna millum Digruvörðu ofan bæjar og vörðunnar á Knarrarnesklapparholti.

Báðir stekkirnir gefa sterklega til kynna að um heimasel hafi verið að ræða. Stekkirnir og aðliggjandi tóftir báru þess glögg merki að um slíkar minjar hafi verið um að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðunum í Breiðagerðis- og Knarrarnesseli ofar í heiðinni síðla á 19. öld.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur/-fjárborg.

Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Í lok stekkjartímans, sem hafði tíðkast allt frá landnámi, færðust stekkirnir nær alfarið um stund að útjaðri heimajarðanna. Við tók afréttatímabilið, er enn þekkist. Allt þetta er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.

Mikilvægt er að gaumgæta búsetuminjar vorar í hinu sögulega samhengi – og ekki síður að kunna að staðsetja þær í því samhengi.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 1 mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Minna-Knarranes

Heimasel Minna-Knarrarness í Sauðholtum.

Hestaslóðin

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ segir m.a. um fjárskýli á Vatnsleysuströnd:

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

„Alls voru skráð sjö fjárskýli á svæðinu, auk þess sem Gvendarstekkur var einnig notaður sem fjárskýli. Á öllum stöðunum nema einum voru sýnilegar minjar. Ekki tókst að staðsetja Byrgishól en mögulega dregur hann nafn sitt af smalabyrgi eða skotbyrgi. Þekktasta og stæðilegasta fjárborgin sem skráð var er án efa Staðarborg í landi Kálfatjarnar. Hún er hringlaga og hleðslur hennar standa enn. Pétursborg í landi Stóru-Voga er önnur heilleg borg. Hún er sporöskjulaga og eru hleðslur hennar hrundar að hluta. Skammt frá Pétursborg eru tvær tóftir sem eru skráðar með borginni.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Þórustaðaborg er nokkuð hringlaga tóft en eins og áður segir hefur stekkur verið hlaðinn inn í hana. Með Þórustaðaborg var skráð fornleg, tvískipt tóft, garðlag, vatnsstæði og vörðubrot. Auðnaborg er ekki dæmigerð fjárborg en þar voru skráðar fjórar tóftir, þar af mögulega einn stekkur, renna og rétt. Gíslaborg er ekki heldur dæmigerð fjárborg. Innan hennar má greina 6 aðskilin hólf en vera má að þau hafi verið hlaðin eftir að hætt var að nýta hana sem fjárskýli. Enn er ónefnt fjárskýli í Kálffelli þar sem fjárskýli eru í tveimur hellisskútum og vörslugarður er í gíg fellsins. Þetta fjárskýli er heila 7 km frá bæ. Það var notað um aldamótin 1900 og er sennilega til marks um þverrandi beitarland þar sem sífellt þurfti að fara lengra frá bæ til að finna haglendi. Önnur fjárskýli sem hægt var að staðsetja eru 1-2,9 km frá bæjum.“

Skógarnef

Skógarnefsskúti.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III“ segir um fjárskýlin:
„Engin beitarhús voru skráð á skráningarsvæðinu en þar voru skráð 12 fjárskýli. Flest þeirra, eða níu fjárskýli, voru skráð í landi Hvassahrauns. Í landi Hvassahrauns er mikið um hellisskúta sem nýttir hafa verið sem fjárskýli. Hefur Hvassahraun ákveðna sérstöðu í sveitarfélaginu hvað þetta varðar. Öll fjárskýlin í landi Hvassahrauns eru í skútum eða jarðföllum og sjást hleðslur við sex þeirra. Áður hefur komið fram að hringlaga tóft sem skráð er með Stekk í landi Hvassahrauns er að líkindum fjárskýli. Ekki tókst að staðsetja fjárskýli í Skógarnefsskúta og óvíst er að Sauðhólsskúti sé rétt staðsettur. Þar sáust engar hleðslur. Þrjú fjárskýli voru skráð í landi Brunnastaða. Þar eru fjárskýlin hlaðnar fjárborgir. Lúsaborg er nánast horfin en grjót úr henni hefur verið notað í vegagerð.

Hringurinn

Hringurinn – fjárborg.

Hringurinn er grjóthlaðin tóft sem er reyndar ekki hringmynduð eins og nafnið gefur til kynna. Henni kann að hafa verið breytt í ferkantað mannvirki á síðari tímum. Á Grænhóli er gróin þúst sem líkur eru til að sé leifar af fjárborg. Það er hinsvegar óstaðfest. Þrjú fjárskýli í landi Hvassahrauns skera sig úr í þessari töflu. Það er annars vegar Skógarnefsskúti sem er líklega nærri 5 km frá bæ. Hins vegar eru tvö fjárskýli, Hjallhólaskýli og nafnlaust fjárskýli í jarðfalli sem eru um 200 m frá bæ. Önnur fjárskýli sem skráð voru á svæðinu eru 1-2 km frá bæ. Það er athyglisvert að engin beitarhús hafi verið skráð á svæðinu. Greinilega hafa fjárskýli frekar verið notuð en beitarhús fyrir fé að skýla sér í á úthagabeit um vetur. Eins hefur fjörubeit verið mikil á þessu svæði á veturna og því minni þörf á beitarhúsum í úthögum en í sveitum inn til landsins.“

 Í fornleifaskráningunni er getið um horfið fjárskýli (fjárborg), Lúsaborg. Þar segir: „Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Ógreinileg tóft af fjárskýli er á sunnanverðum hól um 20 m SSA við beygju á malbikaða Strandarveginum þar sem Strandavegur/Gamlivegur liggur á hann. Tóftin er um 1,4 km sunnan við Efri-Brunnastaði.
Hóllinn sem tóftin er á er í hraunmóa og er hann gróinn en ekki hár eða mikill um sig. Netagirðing liggur yfir suðaustanverða tóftina.
Tóftin sést mjög illa vegna þess að búið er að taka megnið af grjótinu úr henni. Það hefur sennilega verið notað í vegagerð. Hún er um 10×12 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Rof er komið í veggina þar sem grjótið var tekið en þar sem hún er gróin sést enn stöku steinn upp úr sverði. Innanmál tóftarinnar er um 6×3 m en hún hefur aflagast mikið og má ætla að hún hafi verið því sem næst hringlaga eins og algengt er með fjárborgir. Mesta hæð veggja er um 0,5 m en víðast eru þeir 0,2-0,3 m á hæð. Ekki sést hvar op hefur verið á tóftinni.“

Lúsaborg

Lúsaborg.

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ segir um Lúsaborg: „Næst flytjum við okkur um set og höldum suður að vegamótum Gamlavegar og Strandarvegar, þar er kröpp beygja á Strandarveginum sem kölluð var Slysabeygja og er hún u.þ.b. miðja vegu milli Brunnastaðahverfis og Voga. Þegar Gamli-Keflavíkurvegurinn var aðalsamgönguæð Suðurnesjabúa ultu bílar oft í þessari hættulegu beygju og af því dregur hún nafnið.

Lúsaborg

Lúsaborg.

Syðst við Slysabeygju að ofanverðu er hóll sem heitir Lúsaborg. Heimild er til um Lúsaborgarvörðu en engar hleðslur eru sjáanlegar þarna og engar sagnir til um borg á þessum stað. Það má ekki gleyma því að vegagerðarmenn rifu hiklaust vörður og ónýtt mannvirki og endurnotuðu grjótið í vegina. Örnefnið er sérkennilegt og óvíst af hverju það er dregið. Nafnorðið lúsa (kv.), lúsur (ft.) er til og merkir smátt, þétt þýfi. Lúsalyng er orð yfir krækilyng og lúsamulningur er nafn á óþroskuðum berjum, bæði sortu- og krækilyngsberjum.
Upp og norðaustur af Lúsaborg er Þúfuhóll en af sumum kallaður Lambskinnshóll. Annar Lambskinnshóll er einnig sagður fast neðan Gamlavegar.“

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Þegar nefndur hóll, grasi gróinn, er skoðaður má sjá augljós ummerki eftir fjárborgina. Í slíkum hlöðnum mannvirkjum voru stærstu steinarnir jafnan neðst. Vegagerðarmennirnir við Gamlaveg, sem er bæði púkkaður og kanthlaðinn langleiðina, hafa greinilega hirt allt meðfærilegt grjót úr nálægri borginni, en látið það neðsta eiga sig. Annað dæmi þar sem grjót var fjarlægt úr nálægum fjárborgum má nefna þrjár slíkar skammt suðvestan við Staðarborg. Grjótið úr þeim hefur væntanlega verið forfært yfir í þá tilteknu fjárborg, enda hefur hleðsla hennar krafist gnæðs grjóts á sínum tíma. Í stæðum hinna þriggja fyrrum borga má glögglega enn sjá neðstu steinaröðina.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Eftir að hafa skoðað Lúsaborgina var haldið eftir Gamlavegi að „Hestaslóðinni“ ofan Breiðagerðis skammt ofan Vatnsleysustrandarvegar. Um er að ræða u.þ.b. eitt hundrað metra langan vegbút, púkkaðan á kafla. Greinilega hefur þarna verið unnið í atvinnubótavinnu eitthvert sumarið um og eftir aldamótin nítján hundruð. Ekki er ólíklegt að búturinn hafi átt að vera hluti „Eiríksvegar“, púkkaðan vagnveg, sem en má sjá ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur. Vagnvegurinn sá var liður í úrbótum á Almenningsveginum frá Kúagerði áleiðis að Arnarvörðu. Slíkan „bútasaum“ má víða sjá á og við hinu fornu götur á Reykjanesskaganum. Svo er að sjá að lagt hafi verið í upphafi með stórtæk markmið í úrbótum í vegagerðarmálum fyrir gangandi og ríðandi, en bæði vegna breytts breytanda í atvinnumálum og samgöngum, virðast þau einfaldlega hafa gufað upp og önnur markmið verið sett í forgang. Vegakaflarnir í heiðinni ofan Vatnsleysubæjanna eru ágætt dæmi um framangreint. Þeir teljast til fornleifa, en einhverra hluta vegna er þeirra ekki gerð skil í fornleifaskráningu af svæðinu.

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Í „Örnefni og gönguleiðir“ segir: „Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.
Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.“
Ljóst er að vegstubburinn hefur átt að verða samgöngubót um sveitina ofanverða, að öllum líkindum væntanlegt framhald Eiríksvegar (Almenningsvegar) til Voga. Vestan Voga, áleiðis upp á Vogastapa og áfram á kafla til Njarðvíkur má sjá slíkar vegabætur. Við nútímaframkvæmdir, því miður, eru þetta fyrstu fornleifarnar sem eru látnar lönd og leið.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Hestaslóðin

Hestaslóðin ofan Breiðagerðis.

Auðnaborg

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„, segir m.a. um Auðnaborg og nágrenni í heiðinni milli Vatnsleystrandarvegar og Reykjanesbrautar: „Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í hól. Þar er nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum en uppi á hólnum við réttina eru rústir af tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina en engar heimildir eru til um nafn hans.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Austur af Auðnaborg og beint upp af Skálholti (séð frá bænum Höfða) eru hólar sem heita Vatnshólar, við þá safnast vatn í rigningartíð. Á þessu svæði eru örnefni sem ekki var hægt að staðsetja vegna óljósra heimilda, s.s. Hrúthóll og Breiðagerðislatur eða Latur og eins geta þau verið fyrir ofan Reykjanesbraut sem neðan.

Hestaslóðin

Hestaslóðin flóraða ofan Breiðagerðis.

Rétt fyrir ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd. Þetta er nokkuð breiður vegur, flórlagður á köflum og hefur verið lagður með hestvagnanotkun í huga. Almenningsvegurinn er að mestu horfinn á þessu svæði vegna nýrri tíma framkvæmda.
Hér í krappri beygju Strandarvegar erum við komin að Gamlavegi en hann liggur frá Breiðagerði svo til beint yfir heiðina og mætir bílveginum aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfi.

Gamlivegur

Gamlivegur.

Víða er um kílómeters leið frá bæjum að Gamlavegi sem þótti langt enda um klappir og holt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur höfðu þar hver sitt hlið og brúsapall og á einstaka stað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja. Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var, eins og fyrr segir, nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá búenda í Ásláksstaða-, Hlöðunes- og Brunnastaðahverfi. Nú er Gamlivegur notaður sem reiðvegur.“

Auðnaborg

Auðnaborg.

Hestaslóðin flóraða sést á u.þ.b. 100 metra löngum kafla ofan Breiðagerðis. Svo virðist sem kaflinn hafi átt að verða hluti af Eiríksveginum svonefnda ofan Vatnsleysu og Flekkuvíkur, mjög líklega unninn í atvinnubótavinnu á sínum tíma.

Á framangreindu svæði eru u.þ.b. 10 fjárborgir, s.s. Staðarborg, þrjár borgir sunnan og suðaustan hennar, Þórustaðaborg, Borgin ofan Breiðagerðis, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sauðholt

Sauðholt – beitarhús.

Í heiðinni, milli Auðnaborgar og Lynghólsborgar, ofan Knarrarness, eru þrjár samliggjandi beitarhúsatóftir á grónum klapparhrygg, svonefndum Sauðholt. Getið er um Sauðholt í örnefnalýsingu Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes, sbr. „Upp af Vorkvíum er Krummhóll og var vörðubrot á honum. – Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummhóls. Hann heitir Borg – Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls. Lynghóll er vestur af Krummhól. Flatir eru ofan við Borgina og ofan þeirra Sauðholt (ft)“. Fjallað verður um tóftirnar í Sauðholtum síðar.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum„, Áfangaskýrslu I, er Auðnaborginni lýst: „“Hrúthóll heitir klapparhóll og Vatnshólar og svo er Auðnaborg fjárborg,“ segir í örnefnaskrá. Minjarnar eru um 1 km suðaustan við bæ. Þær eru á og við grösugan hól í hraunmóa með moldarflögum.
Minjarnar eru á svæði sem er um 36×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Vestast á svæðinu er tóft A. Hún er einföld og er um 6×4 m að stærð. Hún snýr norðaustur suðvestur. Inngangur er inn í hana úr suðvestri. Mögulegt er að tóftin hafi verið tvískipt en hún er ógreinileg í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Tóftin er gróin og ekki sést grjót í veggjum.

Auðnaborg

Auðnaborg – teikning.

Tóft B er fast norðvestan við tóft A og er hún uppi á hæsta hólnum. Hún er um 3×3 m að stærð og er einföld. Inngangur er í suðvesturenda. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m en tóftin er gróin og ekki sést í grjót í veggjum. Fast norðan tóft B er afar ógreinileg tóft C. Hún er einföld, er um 3×2 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð um 0,3 m. Ekki sést í grjót í veggjum. Tóftin er opin til suðvesturs. Um 2 m norðan við C er tóft D, líklega stekkurinn sem talað er um í Örnefni og gönguleiðir. Hann er einfaldur og er um 3×4 m að stærð, snýr suðvestur-norðaustur. Inngangur er í norðurhorni. Mesta hleðsluhæð tóftar D er um 0,5 m. Hún er algróin og nokkuð hlaupin í þúfur. Gróður er hvað dekkstur á henni sem bendir líklega til þess að styst sé síðan hún var í notkun og að hún sé líkega yngri en aðrar tóftir á svæðinu. Neðan við hólinn sem tóftir B og C eru á, til norðausturs, er lítil renna E sem kann að vera manngerð. Hún er um 3×1 m að innanmáli og snýr suðaustur-norðvestur. Suðvestan við tóftirnar er stór og grjóthlaðin rétt F sem skiptist í 4 hólf. Réttin er um 36×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Mesta hleðsluhæð réttar er um 1,2 m og sjást 6 umför. Víðast eru þó hleðslur lægri.“

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Um Alfaraleiðina segir: „Um jörðina [Hvassahraun] hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina, Reykjanesbrautin,“ segir í örnefnaskrá. „Almenningavegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggð, þó yfirleitt ofan við Gamla-Keflavíkurveginn [heitir líka Strandarvegur] og innarlega í Hvassahraunslandi einnig fyrir ofan Reykjanesbrautina. […]

Almenningsvegur (Eiríksvegur) um Vatnsleysuströnd.

Almenningsvegur ofan Vatnsleysu.

Nafnið Almenningsvegur, yfir gömlu þjóðleiðina, virðist helst hafa verið notað af Voga- og Vatnsleysustrandarbúum og trúlega líka búendum utar á skaganum því þar sem vegurinn liggur um Hvassahraunsland og innar var hann frekar kallaður Alfaraleiðin,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. „Önnur gömul þjóðleið, eða sú sem liggur með sjónum milli Voga og Brunnastaðahverfis, var einnig kölluð Alfaraleið en ekki Almenningsvegur,“ segir í örnefnalýsingu Straums. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir,“ segir í örnefnalýsingu Hvassahrauns. Draugadalir eru að mestu í landi Hvassahrauns. Dalirnir eru norðan Reykjanesbrautar, þar sem vegurinn sem er samsíða Reykjanesbraut norðan hennar sameinast brautinni, austarlega í landi Hvassahrauns. Ekki er greinilegur slóði á þessum stað en Alfaraleiðin er vel merkjanleg víða í hrauninu, t.d. nálægt skógarreit í landi Þorbjarnarstaða. Gatan liggur um hraun.

Alemmningsvegur

Almenningsvegur – Arnarhóll.

Almenningsvegurinn var einnig nefndur Alfaraleið og lá frá Vogum og inn í Hafnarfjörð. Leiðin var vörðuð og enn má sjá nokkur vörðubrot á fyrsta hluta leiðarinnar frá Vogum auk þess sem einstaka vörður standa enn við leiðina.
Gatan sjálf er víða greinileg sem dæld í gróið hraunið og kemur breikkun Reykjanesbrautar víða til með að eyða meira af götunni en þegar er skemmt. Við aðalskráningu Kálfatjarnarhverfis og Flekkuvíkur árið 2008 var leiðin skoðuð í landi Flekkuvíkur þar sem leiðin liggur um hraunið og krækir fyrir hól sem Arnarvarða stendur á. Þar er gatan mjög mjó en breikkar þar sem hún heldur áfram til norðausturs.“

Hvorki er minnst á kafla „Hestaslóðarinnar“ fyrrnefndu né beitarhús á Sauðholtum í fornleifaskráningunni.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2. útgáfa 2007.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Örnefnalýsing Kristjáns Eiríkssonar fyrir Knarrarnes.

Vatnsleysuströnd

Almenningsvegur – Eiríksvegur ofan Vatnsleysu.