Í hópinn bættust á annan tug Grindvíkinga, sem virðast hafa mikinn áhuga á sögu og umhverfi bæjarins.
Ætlunin var m.a. að reyna að staðsetja Hvalinn í Arnarseturshrauni og kíkja síðan á nokkra staði. Fyrir lá gamall gps-punktur af hellinum og var hann notaður til að staðsetja svæðið. Á leiðinni var komið við í einu hlöðnu byrgjanna frá gerð Grindarvíkurvegarins á árunum 1914-1918. Það stendur svo til heilt örskammt vestan við veginn skammt sunnan stigann vestan Hestshellis.
Eftir svolitla leit fannst opið á Hvalnum. Komið er niður í hvalsginið, farið inn fyrir þrengingu og þar er opinn flór í gólfinu. Farið er ofan í flórinn og hellirinn var eltur u.þ.b. 30 metra. Fallegasti hlutinn er um og í kringum flórinn og síðan inn undir hann. Alls er hellirinn um 50 metrar. Hlaðin var lítið varða vestan við opið.
Þá var haldið til suðurs að Kubbnum. Hann er í enda hraunrásarinnar miklu er liggur til vestur frá Arnarsetri á Gíghæð. Hægt er að fara inn í hann í hraunrásinni, en þá þarf að hoppa niður í kjallara þegar inn kemur. Ef hins vegar, eins og gert var nú, farið inn skammt vestan við stórt jarðfall vestan við opið í rásinni, er fljótlega komið inn í heillegan helli. Gólfið er slétt og bæði hátt til lofts og vítt til veggja á kafla. Alls er neðri rásin um 60 metra löng.
Á leiðinni upp með norðanverðum gjárbarminum var bent á op Nadda, en inngangur í hann er hola ofan í jörðina. Hellirinn er um 30 metra langur. Ekki var farið ofan í hann að þessu sinni.
Einnig var skyggnst niður í Dolluna, en hún er örskammt vestan við Grindavíkurveginn á Gíghæð. Stiga þarf til að komast niður og upp aftur með góðu móti. Dollan er einnig um 30 metra löng.
Þá var haldið yfir veginn og komið við í vegavinnubúðunum á hæðinni. Hlaðið hesthús er þar austar, en hesthús, geymsla og smiðja í meginhraunrásinni. Þar má einnig sjá fallega hestagötu og sléttuð svæði fyrir tjöld.
Gengið var norður með girðingunni og komið við í Dátahelli og síðan áfram með henni til norðurs uns komið var í Hestshelli. Fallegar hleðslur eru fyrir opinu. Hellirinn er hæstur og víðastur fremst, en lækkar og þrengist eftir því sem innar dregur. Þar greinist hann í tvær þröngar rásir og er hellirinn lengstur um 160 metrar. Þátttakendum var bent á hvar Hnapp (Geirdal) væri að finna ef einhver þeirra hefði áhuga á að skoða þann helli við tækifæri. Opið er nokkuð mjótt og þröngt, en þegar niður er komið tekur við gott rými. Þaðan liggur rást til norðvesturs og greinist í tvennt. Rásin til vinstri hallar niður á við og er þá komið í nokkuð rúmgóðan sal. Út frá honum liggja rásir í ýmsar áttir. Hægt er að komast upp úr hellinum á a.m.k. tveimur stöðum.
Veður var þokkalegt þegar lagt var af stað og góður veðuruppgangur varð á svæðinu þegar á leið. Það er ekki á hverjum degi sem boðið er upp á ónotað súrefni beint frá Suðurheimskautinu.
Í næstu ferð á svæðið verða fleiri hellar staðsettir.
Gangan tók um 2 og ½ klst. Sjá meira HÉR.