Tag Archive for: heygeymslur

Hlíðarendi

Eftirfarandi er byggt á grein, sem Bergsteinn Kristjánsson, ritaði í Lesbók MBL sunnudaginn 15. maí 1949:
Fjárhús og heygarður í Brynjudal“Svo örar gerast nú breytingar á lifnaðarháttum Íslendinga, að ýmis vinnubrögð, sem voru algeng frá ómunatíð fram á þessa öld, eru nú að falla í gleymsku. Er því nauðsynlegt að halda til haga lýsingum á þeim. Hjer er lýst heyskap og störfum í sambandi við hann, eins og þau gerðust á Suðurlandi til skamms tíma.
Heyflutningur af engjum og túnum og heygeymsla í tóftum og heygörðum, hefur sennilega allt frá landnámsöld verið með svipuðum hætti. Þó mun það fullvíst, að á söguöld fluttu menn hey á sleðum eða stórum ækjum og beittu fyrir uxum eða hestum. En eftir því sem meira er aflað af heyum á ræktuðu landi, og menn gera meiri kröfur til afkasta í vinnubrögðum, og minni rýrnunar í geymslu, breytist bæði flutningur og geymsla heyanna. Og þótt enn megi finna dæmi um þess, að hey sje reitt á klökkum og geymt í heygörðum, er ekki að efa að þeir tímar eru ekki langt undan, að slík vinnubrögð verða talin með þeim þjóðháttum, sem hafa vikið fyrir öðrum öruggari og fljótvirkari aðferðum.”

Torf og reiðingsskurður kröfðust réttra aðstæðna. “Torfvöllurinn þurfti að vera hrein mýri, ekki of blaut og ekki of hörð. Ekki mátti vera þúfa í torfvellinum, því þá var vís galli á torfunni. Var oft hægt að finna slíka bletti meðfram keldum eða flóðum. Oft voru tveir menn við torfskurðinn, tók þá annar úr pælunni, og lóð torfinu í búnka. Hripaði þar úr því mesta vatnið og hafði það ljettst ótrúlega mikið á stuttum tíma er það var reitt á þerrivöll.” Við reiðingsristu þurfti sérstakt lag.
Fjárhús í Skagafirði“Í hinni fornu heygeymslu var töluverð fjölbreytni, og virðist mjer að þar hafi verið sex aðferðir að ræða. Heyin voru sem sagt geymd í heyjum, samfelldum, lönum, kumlum, hlöðum og heyborgum. Skal nú leitast við að lýsa þessum aðferðum svo sem föng eru til.
Á hverjum bæ var heygarður. Á stórbæjum, var þetta stórt svæði, með vel hlöðnum, minnst axarháum veggjum og þannig umbúið, að einn veggurinn, helst gafl, væri í jörð, svo að taka mætti þar af lestinni, og velt böggunum ofan í heygarðinn, meðan heyin stóðu ekki upp úr garðinum, og var að þessu mikill hægðarauki við upphleðslu heyanna. Í kotbæjum voru heygarðarnir ekki einungis minni, heldur líka oft grynnri og óhentugri.
Í heygarðinum voru afmörkuð svæði eftir honum endilöngum, sem kölluð voru des. Var breidd þeirra nálægt 4-5 álnir eða um hálfur annar faðmur, en milli desanna voru grafnar grunnar geilar, sem ætlast var til að tækju við vatninu af heyunum. Á þessum desum var svo heyinu hlaðið upp, þar til nóg þótti í það komið, en þá var það mænt sem kallað var. Var það verk all vandasamt, og fór mjög misjafnlega úr hendi. Ef heyið sneri frá austri til vesturs, sem oft var, var byrjað að mæna á vesturenda. Var hlaðin tunnulaga kúpa á heyið og síðan þakið með heytorfi þannig að grasbrún torfunnar væri í vestur, en heyið færi svo smá hækkandi. Var ætlast til að tvær sex feta torfur næðu yfir um heyið, væru samskeytin á mæni þess. Sherstaklega þótti áríðandi að hafa vel sljett undir torfunum, því kæmi laut í heyið, varð úr dropi, en svo var það kallað ef vatn komst í heyið.
Fjárhús með heygörðumVel upphlaðið hey er fagurt á að líta, að minnsta kosti í mínum augum, og svo hygg ég að fleirum þyki. Má vera að þar valdi nokkru um það öryggi og bjargráð sem maður veit að það geymir undir torffeldi sínum.
Þá var næst að geyma heyið í samfellum. Þegar menn höfðu heyað meira en von var til, heygarðurinn fullur, og heyin það há að ekki þótti óhætt að hækka þau meira, voru tvö ráð fyrir hendi, að steypa tveimur heyum saman í samfellu, eða að hlaða í lön. Ef tveimur heyum var steypt saman, var geilin milli þeirra fyllt með heyi, og síðan hlaðið upp rúmlega helmingi breiðara hey en vanalega. Komst í þetta allmikið hey, en aðferðin við upphleðsluna var hin sama. Í miklum heyskaparárum voru samfellur alltíðar.
Lanir var það kallað ef hlaðin voru upp lítil hey utan við heygarðinn. Var öll hin sama aðferð við þær, en heymagnið í þeim miklu minna en í heyunum. Þeim var oftast eytt framan af vetri og hurfu því fljótt úr sögunni.
Við fjárhús fjarri bænum var hey oft geymt í svokölluðum kumlum. Var halðin alldjúp tóft, og gjarnan innangengt í hana úr fjárhúsinu. Var hún fyllt af heyi, sem var vetrarforði þess fjár, sem geyma átti í húsinu. Með veggjum voru engar geilar og var kumlið því fyllt út í veggi, og síðan tyrft og umbúið sem hey eða lön væri. En oft voru nokkrir erfiðleikar á að verja þessi kuml fyrir fjenaði, að það ekki kæmist í heyið og spillti því eða jafnvel færi sér að voða.
Þá er að minnast á heyhlöður. Þær voru til á stöku bæjum, þar sem erfitt var um torfristu. Ef það væri athugað, hvar hlöður þessar voru í sveit settar, gæti jeg trúað að það kæmi í ljós, að helst hafi verið ráðist í byggingu þeirra á þeim bæjum, sem höfðu aðgang að grjóthellu eða rekaviði.
Hlöðurnar voru allstór hús, vanalega með háum grjótveggjum, þakið var gert upp með gildum viðum, vanalega rekavið, en viðirnir þurftu að vera mjög traustir vegna stærðar þaksins, og þess milkla þunga, sem alltaf var á þökum úr grjóthellu og torfi.
All dýrt mun hafa verið að byggja þessar hlöður og erfitt að halda þeim við, en auk þess gátu þær varla talist örugg heygeymsla því helluþök eru sjaldnast vatnsheld. Veldur það að hellan vill færast úr skorðum, og lautir koma í torfið.
Þá er að síðustu að minnast á borgirnar, þessi fornlegu og ósjálegu hús, sem hafa hlotið þetta glæsilega nafn.
Á beitarjörðum þar sem fjenu var ekki ætlað hús, voru þessar borgir byggðar víðsvegar um hagana, svo fjeð gæti bjargað sjer í þær í stórviðrum. Urðu borgir þessar að miklu liði til að veita fjenu skjól og ekki þurfti að vísa því veginn til þeirra.
Borgirnar voru þannig byggðar, að þær voru hlaðnar úr grjóti eða torfi í hring, litlar dyr voru við jörð svo að stór kind gat vel gengið þar um, en maður varla nema á fjórum fótum. Veggirnir voru hlaðnir upp en látnir slúta, svo að alltaf þrengdist hringurinn, þar til hann náði saman í toppinn.
FjárborgÞessi hleðsluaðferð var kölluð að borghlaða. Stóðu þessar borgir mjög vel, og mun eitthvað vera enn af þeim uppistandandi á beitarjörðum, einkum um ofanverða Rangárvelli, því þar hafa þær verið hlaðnar úr hraungrjóti. En borgir þessar eru nú að verða merkilegar fornminjar.
Þar sem beit var góð og fjenu varla gefin heytugga allan veturinn og þá aðeins í aftökum og gefið á gaddinn, var gjarna byggð borg fyrir það litla hey, sem til þess var ætlað og hún þá kölluð heyborg.
Það gefur að skilja að oft var erfitt að leysa hey og gefa í opnum heygörðum. Úr þessu var víða bætt með góðum heyskjólum, þó það væri siður sumra manna að gefa jafnan úr opnu stáli, sem kallað var.
Heyskjólin voru reist við enda heysins úr trjám, og oft úr færigrindum, sem til voru á heimilinu, eða hrísi var raðað á trjen og svo tyrft yfir. Voru þau mjög misjöfn að frágangi, eftir því efni, sem menn höfðu fyrir endi, eða þeirri vinnu, sem þeir vildu leggja til þeirra.
Í langvarandi göddum mynduðust svo stór hús inn af heyskjólunum, er torfið á heyinu var gaddað og hjelst því uppi. En ef hlýnaði, fjell það niður, og varð þá að reisa heyskjólið á nýjan leik. Þessar torfhvelfingar voru kallaðar skútar, og þurfti að gæta þess vel er skútarnir stækkuðu, að þeir fjellu ekki niður að óvörum, því þá gátu þeir orðið að skaða eða jafnvel slysi.

Heimild:
-Lesbók Mbl. 15. maí 1949, Bergsteinn Kristjánsson, Torfskurður og heygeymsla, bls. 253-257.

Kaldárssel

Hlaða Kristmundar í Kaldárhellum.