Færslur

Hvaleyrarvatn

Eftirfarandi umfjöllun um skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar birtist í 24stundir í ágústmánuði árið 2008. “Mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám – Náttúruperla í útjaðri Hafnarfjarðar. Í Hafnarfirði leynist sannkölluð náttúruperla sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þar eru mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám og runnum.

HólmfríðurÍ útjaðri Hafnarfjarðar leynist sannkölluð náttúruperla, fleiri hundruð hektarar af skógræktar og uppgræðslulandi.
„Hér er góður andi,“ segir Hólmfríður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar en félagið hefur umsjón með upplandi bæjarins. „Við erum rík hér í Hafnarfirði að eiga þetta fallega útivistarsvæði alveg við bæjardyrnar. Þetta er ákaflega fallegt og hér er margt að sjá. Hér höfum við opnað fjóra útivistarskóga. Þetta eru glæsilegir skógar sem eru opnir almenningi. Svo erum við með trjásýnilund hérna rétt fyrir neðan þar sem búið er að gróðursetja og merkja yfir 200 tegundir af trjám og runnum. Steinar Björgvinsson sér um trjásafnið en hann er ræktunarstjóri gróðrastöðvarinnar Þallar ehf sem félagið á.“

Fjölbreytni og fegurð
Nýverið var opnuð skemmtileg útikennslustofa í Höfðaskógi enda koma bæði grunnskólar og leikskólar í heimsókn á vorin. „Á vorin koma grunnskólanemar og Fræðsluaðstaðagróðursetja tré og hlúa að gróðri en hver skóli er með sína landnemaspildu. Við reynum að auka fjölbreytnina í skógunum. Í gamla daga var þetta svo einsleitt en í dag setjum við rósir og alls kyns runna í skóginn enda viljum við hafa skóginn fjölbreyttan og fallegan. Við prófum okkur líka áfram og könnum hvað lifir í náttúrunni. Við söfnum íslenskum fræjum, berjum og öðru og fáum það líka sent víða að úr heiminum,“ segir Hólmfríður að lokum og hvetur alla til að koma og skoða þetta fallega svæði.”

Útikennslustofan var formlega tekin í notkun laugardaginn 3. maí, kl. 14:00. Það voru hjónin Hörður Zóphaníasson og Ásthildur Ólafsdóttir sem gáfu Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar peningagjöf á 60 ára afmæli félagsins árið 2006. Gjöfinni fylgdi sú ósk að hún yrði notuð til að fræða ungt fólk um gildi skógræktar og uppgræðslustarfs og til að sýna hversu fjölbreytt not má hafa af skógum. Með þetta að leiðarljósi unnu starfsmenn og stjórn félagsins að því að þróa og móta þetta verkefni, sem nú er orðið að veruleika.

Minjar
BeitarhúsÍ Húshöfða, líkt og í næstu höfðum, Fremstahöfða, Selhöfða og Stórhöfða eru minjar fyrrum búskaparháttar, flestar tengdar selstöðunum, Hvaleyrarseli og Ásslei, við austanvert Hvaleyrarvatn.
Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar við höfðann. Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er í beinum tengslum við skógræktarsvæðið. Leiðin er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis vatnið.
Hlaðinn stekkur eða gerði er norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústóftarinnar austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af. Innan við beitarhúsatóftina er fyrrnefnd útikennslustofa.

Rós

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Þar hjá er Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda.
Efst á höfðanum er Höfðavarðan

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1946 og er því 62 ára (2008). Skóglendi þess eru Höfðaskógur, Seldalur, Skólalundur, Undirhlíðar og Gráhelluhraun. (Sjá meira um Hvaleyrarvatnssvæðið HÉR).

Heimild:
24stundir 6. ágúst 2008 – eftir Svanhvíti Ljósbjörgu.Húshöfði

Hvaleyrarvatn

Í Náttúrufræðingnum 1998 segir m.a. að “Hvaleyrarholt og Ásfjall eru að mestu úr grágrýti sem er yngra en 0,7 milljón ára og undir Hvaleyrarvatni og Ástjörn er einnig að finna grágrýti frá sama tíma. Hraunið sem stíflar vötnin er hluti af Hellnahrauni, sem er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og sjást þess engin merki að það hafi nokkurn tíma verið gróið að marki. Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn. Selhöfði og Stórhöfði fjær, en Húshöfði og Vatnshlíð nær.

Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra-Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra-Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum.”
Lítill lækur rennur frá Ásfjalli í Ástjörn, en í Hvaleyrarvatn hefur einungis safnast yfirborðsvatn eftir rigningar og snjóa. Hið síðarnefnda er því háðari veðursveiflum frá einum tíma til annars.

Selhöfði

Selhöfði – stekkur.

Ómar Smári Ármannsson skrifaði grein í Fjarðarpóstinn 2003 undir fyrirsögninni: “Á Gangi við Hvaleyrarvatn”. Í greininni er m.a. lýst gönguferð við vatnið, tóftum, seljum og borgum:
“Hvaleyrarvatn er í kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu; Vatnshlíð að norðanverðu, Húshöfða að austanverðu og Selhöfða að sunnanverðu. Selhraun (Hellnahraun) lokar fyrir afrennsli vatnsins að vestanverðu.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hóf uppgræðslu við vatnið árið 1956. Nú er svæðið orðið kjörið útivistarsvæði. Göngustígar liggja um skóginn og í kringum vatnið, um 20 mínútna léttur gangur. Á svæðinu eru einnig nokkrar minjar frá tímum fjárbúskapar, sem gaman er að skoða, auk þess sem torfhlaðin hafa verið ágæt skeifuskjól á stöku stað. Hús Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna. Sumarhús er undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Ákjósanlegt er að byrja göngu frá bílastæðinu norðan við vatnið. Í Húshöfða má t.d. sjá tóft af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tóft í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum, en var síðast notað árið 1922 frá Ási. Rétt vestar eru jarðlægar leifar, líklega af fyrrum selstöðu. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.

Ássel

Ássel.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla áríð 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – stekkur.

Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða. Þegar þangað er komið er beygt til hægri, uppá klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamals stekkjar, auk annars minni og eldri skammt austar. Auðvelt er fyrir vant fólk að koma auga á minjarnar, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel. Í norðanverðum Seldal er stekkur og auk þess óljósar seltóftir á grónum hvammi.

Stórhöfði

Nátthagi við Stórhöfða.

Vestan við Stórhöfða er grjóthlaðinn nátthagi með fjárskjólum. Líklegt má telja að hafi tengst selstöðunni í Seldal fyrrum. Vestan við Hvaleyrarvatn eru einnig minjar, bæði hlaðinn stekkur og óljósar jarðlægar tóftir.
Vörður eru á höfðunum fimm umleikis. Flestar eru þetta landamerkjavörður frá bæjunum er landið tilheyrði fyrrum.
Ágæt gönguleið er niður af Selhöfða til vesturs, á milli furulunda. Þá er komið að vatninu á milli seljanna og auðvelt að ganga meðfram því til baka – að bílastæðunum. Þessi ganga tekur u.þ.b. klst.”

Sjá einnig MYNDIR frá Hvaleyrarvatni og nágrenni..

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, bls. 276.
-Fjarðarpósturinn, 17. tbl. 30.04.2003, Á Gangi við Hvaleyrarvatn – Ómar Smári Ármannsson, bls. 11.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar.

Vatnshlíð

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað 25. október 1946. Félagið er með þeim stærstu á landinu og starfið er mjög blómlegt.

Upphafið

Hvaleyrarvatn

Við Hvaleyrarvatn.

Þegar Skógræktarfélags Íslands var stofnað 1930 voru nokkrir Hafnfirðingar á meðal stofnenda og á næstu árum bættust fleiri í hópinn. Skógræktarfélag Íslands var stofnað sem höfuðfélag skógræktarmála og ráðgefandi aðili fyrir héraðsfélög vítt og breitt um landið. Félagið var janframt hugsað sem héraðsfélag skógræktarfólks í Reykjavík og Hafnarfirði til að byrja með. Þetta fyrirkomulag þótti ekki gott til lengdar svo að ákveðið að stofna sérstök héraðsfélög í Reykjavík og Hafnarfirði.

Fyrstu árin

Ingvar Gunnarsson

Minningarsteinn um Ingvar Gunnarsson.

Fyrsti formaður Skógræktarfélagsins var Ingvar Gunnarsson barnaskólakennari, en hann var brautryðjandi í skógrækt og hóf t.a.m. ræktun í Skólalundi í Undirhlíðum árið 1930. Þeir sem skipuðu fyrstu stjórn félagsins með honum voru ötulir ræktunarmenn sem höfðu stundað trjárækt um árabil þegar félagið var stofnað.
Fyrsti reiturinn sem tekinn var til ræktunar var 7 hektara spilda í norðanverðu Gráhelluhrauni skammt ofan Lækjarbotna. Gunnlaugur Kristmundsson Sandgræðslustjóri og kennari lagði til að þessi spilda yrði fyrir valinu.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Upphaflega hugmyndin var að taka til ræktunar landsvæðið ofan við Sandvík norðaustan Hvaleyrarvatns en vegna kulda og erfiðs árferðis vorið 1947 var þeirri hugmynd slegið á frest um sinn. Girðingavinnu í Gráhelluhrauni lauk vorið 1947 og 27. maí gróðursetti Ingvar formaður fyrsta birkitréð við hátíðlega athöfn. Mikill hugur var í félagsmönnum sem lögðu drjúga hönd á plóg og fyrsta sumarið voru skógarfurur, rauðgreni og birki gróðursett í reitnum, alls 2.300 trjáplöntur. Sérstakir hakar voru útbúnir til að auðvelda gróðursetningu í hinu grýtta hraunlandslagi. Margir töldu þetta frumherjastarf vera goðgá og spáðu því að ræktunin ætti eftir að misheppnast. Þrátt fyrir ýmis áföll gekk starfið vonum framar og nú er Gráhelluhraunsskógur gróskumikill og nánast alveg sjálfbær. Þorvaldur Árnason skattstjóri tók við formennskunni 1949 og var fyrsta verk hans að fá svæðið í Gráhelluhrauni stækkað um 30 hektara í áttina að Hraunsrétt. Jón Gestur Vigfússon tók við formennskunni 1954 og gegndi henni til 1958 þegar séra Garðar Þorsteinsson var kosinn formaður.
Þegar nýja ræktunarsvæðið í Gráhelluhrauni hafði verið girt var ákveðið að planta út sitkagreni og lerki í hrauninu. Skógræktarfélagið naut á þessum árum dyggrar aðstoðar nemenda og kennara Barnaskóla Hafnarfjarðar sem tóku þátt í gróðursetningunni á hverju vori, auk meðlima félagasamtaka í bænum. Fyrsta áratuginn voru alls gróðursettar um 80-90 þúsund trjáplöntur í Gráhelluhrauni. Árið 1965 var aftur gróðursett í Gráhelluhrauni og aðaláherslan lögð á birki, stafafuru og bergfuru. Voru 30 þúsund nýjar trjáplöntur gróðursettar fram til ársins 1978 og á allra síðustu árum hefur verið plantað þar út nokkrum fjölda árlega.

Ræktun lands og lýðs

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.

Girðingarefni lá ekki á lausu á upphafsárum félagsins vegna haftastefnunnar. Þetta mikilvæga mál mæddi mjög á stjórnarmönnum og girðingarefni kostaði félagið mikla fjármuni. Gráhelluhraunsgirðingin gekk fyrir og þess vegna dróst úr hömlu að girða landsvæðið norðaustan Hvaleyrarvatns sem félaginu hafði verið lofað við stofnun þess. Útland bæjarins var ekki eingöngu ætlað sem útivistar- og ræktunarsvæði því á þessum árum var það fyrst og fremst notað sem haglendi fyrir sauðfé frístundabænda í bænum.

Gráhella

Tóftir við Gráhellu.

Vorið 1957 fékk félagið formlega úthlutað 32 hektara landsvæði í hlíð Beitarhúsaháls við Hvaleyrarvatn. Þar voru nokkrar gróðurtorfur, en landið var að stærstum hluta blásið holt, stórgrýti og leirflög og gaf ekki von um mikla ræktunarmöguleika. Engu að síður var landið girt sumarið 1957 og girðingin stækkuð 1963 þegar viðbótarlandi við Húshöfða var úthlutað til félagsins. Gróðursetning hófst af krafti vorið 1958 og voru 15 þúsund trjáplöntur gróðursettar í hlíðum Beitarhúsahálsins fyrsta sumarið. Munaði einna mest um ómældar vinnustundir Guðmundar Þórarinssonar og Ólafs Vilhjálmssonar, að öðrum ólöstuðum.
Árið 1959 fékk Skógræktarfélagið leyfi til að girða af 56 hektara land umhverfis Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Næstu fimm árin önnuðust piltar í vinnuskólanum í Krýsuvík gróðursetningu undir stjórn Hauks Helgasonar. Félagið tók einnig við skóginum í Skólalundi og var Undirhlíðagirðingin stækkuð 1961 þegar Kúadalur og hluti Kaldárhnúka syðri bættust við ræktunarsvæðið. Sama ár var ákveðið að dreifa lúpínufræjum í örfoka land við Hvaleyrarvatn.

Uppeldisreitir

Beitarhúsaháls

Beitarhús við fyrrum selstöðu Jófríðarstaða í Beitarhúsahálsi.

Helstu útgjöld Skógræktarfélagsins voru lengst af fólgin í kaupum á skógarplöntum til gróðursetningar, sem gekk stundum illa að útvega. Þetta kom niður á starfinu en oft hljóp Jón Magnússon í Skuld undir bagga og bjargaði félaginu um plöntur til gróðursetningar. Sumarið 1973 gaf hann félaginu fjölda birkiplatna úr gróðrastöð sinni og hvatti til þess að félagið kæmi sér upp ræktunarstöð. Vorið 1975 var fyrsta skrefið tekið þegar félagið kom upp græðireitum á Beitarhúsahálsi. Félagsmenn söfnuðu fræi víða um land, og reyndar út um allan heim, og á vorin var sáning trjáfræja árviss viðburður. Á ýmsu gekk til að byrja með en tíu árum eftir að upphafsskrefin voru tekin var framleiðsla gróðrastöðvarinnar komin á það stig að félagið var sjálfbjarga um nær allar plöntur sem notaðar voru á ræktunarsvæðum þess. Þetta var fyrsti vísirinn að gróðrastöðinni sem nú er rekin sem sjálfstætt fyrirtæki og nefnist Gróðrastöðin Þöll.

Höfðaskógur

Listaverk í Höfðaskógi (Beitarhúsahálsi).

Skógræktarfélagið fékk úthlutað viðbótarlandi 1979 sem ætlunin var að reita niður í landnemaspildur. Auglýst var eftir einstaklingum og fyrirtækjum sem vildu taka land í fóstur. Hugmyndin hlaut góðan hljómgrunn og vorið 1980 fengu 24 einstaklingar og fjölskyldur þeirra, ásamt 11 fyrirtækjum úthlutað landnemareitum í sunnanverðu Gráhelluhrauni og hrauninu vestur af Sléttuhlíð. Félagið hóf sama ár útplöntun á furutrjám í Selhöfða og þegar sorphaugunum við Hamranes var lokað 1987 stækkaði ræktunarsvæðið út í Selhraun vestan Hvaleyrarvatns.
Þegar útlönd Hafnarfjarðar og Garðabæjar höfðu verið girt 1979 lauk lausagöngu búfjár í bæjarlandinu. Þetta leiddi til þess að þeirri hugmynd var hreyft af fullri alvöru að taka niður allar girðingar á ræktunarsvæðum félagsins. Ekki var einhugur um þetta mál því margir töldu fulla ástæðu til að viðhalda girðingum til að verja skógræktarlöndin fyrir ágangi um ókomna tíð. Það leið því nokkur tími áður en hafist var handa við að fella girðingarnar og fjarlægja þær en nú eru öll skógarsvæði félagsins opin og ógirt.

Landnemar

Hólmfríður Finnbogadóttir

Hólmfríður Finnbogadóttir.

Vorið 1989 tók Hólmfríður Finnbogadóttir við formennsku í Skógræktarfélaginu. Hún hafði verið í stjórn þess í tæpan áratug og var fyrsta konan til að gegna formennsku í félaginu. Hólmfríður tók við framkvæmdastjórn félagsins ári síðar. Hólmfríður Árnadóttir var formaður félagsins 1999-2002 en þá tók Níels Árni Lund við og gegndi formennskunni í 9 ár. Jónatan Garðarsson tók við formennskunni vorið 2009.
Sumarið 1980 tók Skógræktarfélagið við Höfðalandi og úthlutaði því í áföngum til fjölda landnema. Fleiri svæði fylgdu með í þessum áfanga, þ.á.m. Seldalur sem er hluti Landgræðsluskóga átaks sem efnt var til þegar Skógræktarfélag Íslands varð sextugt 1990. Seldalur þótti ekki sérlega ákjósanlegur ræktunarreitur því hann var þakinn gróðursnauðum jökulleir sem breyta þurfti í ræktanlegt land. Lúpínufræjum var sáð í dalinn og rofabörð stungin niður áður en 50 þúsund trjáplöntur voru gróðursettar þar. Þetta rúmlega 20 hektara svæði hefur tekið verulegum stakkaskiptum frá því að fyrstu trén voru gróðursett þar.

Félagsaðstaðan og gróðurhúsin
Framan af átti félagið ekkert almennilegt húsnæði, aðeins lítinn verkfæraskúr í Gráhelluhrauni og annan í Höfðaskógi. Um tíma hafði félagið vinnuskúr til afnota og þar var fundað þó aðstæður væru mjög þröngar. Vorið 1990 var bætt úr aðstöðuleysinu þegar 40 fermetra sumarhúsi var komið fyrir norðan Húshöfða. Húsið var allt í senn starfsmannahús, skrifstofa, fundarstaður og móttökuhús félagsins. Húsið fékk nafnið Höfði og var til mikilla bóta eftir langvarandi aðstöðulesi. Samt sem áður vantaði enn upp á aðstöðuna því verkfæri og annar búnaður var geymdur í litlum skúr. Hagur félagsins vænkaðist heldur betur sumarið 2003 þegar því áskotnaðist gömul kennslustofa. Húsið var flutt í Höfðaskóg, þar sem útbúin var aðstaða fyrir starfsmenn og búnað, ásamt skrifstofu félagsins. Þetta hús hlaut nafnið Selið. Til viðbótar hefur félagið til afnota nokkur köld gróðurhús á ræktunarreitnum og eitt nýlegt upphitað hús sem hefur breytt miklu varðandi starfsemina.

Höfðaskógur

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar.

Starfsstöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er suðvestan Kaldárselsvegar skammt frá Hvaleyrarvatni, á landsvæði sem hlotið hefur nafnið Höfðaskógur. Félagsaðstaða og ræktunarstöð félagsins er á Beitarhúsahálsi sem dregur nafn sitt af Jófríðarstaðaseli sem varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Þar sem selið stóð eru nú tóftir beitarhúss sem var sennilega byggt rétt fyrir aldamótin 1900. Tóftirnar sjást ennþá en húsið stóð skammt frá þeim stað sem nú er útikennslustofa félagsins er. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna í fallegum lundi. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan skólastjóra hjónanna Harðar Zópahníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.
Höfðinn suðaustan við Beitarhúsaháls og er sennilega nefndur eftir beitarhúsinu, en eldra nafn á höfðaum er Heimastihöfði, enda sá höfðanna sem er næstur Jófríðarstaðabænum. Nokkrir höfðar til viðbótar falla undir Höfðaland, sem nú er aðal ræktunarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Höfðarnir heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði. Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en eiginlegan höfða.
Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 fékk stjórnin 32 hektara landspildu útmælda við Vatnsendann norðaustan Hvaleyrarvatns. Hugmyndin var að hefja þar ræktun vorið 1947, en vegna mikilla vorkulda var ekki talið ráðlegt að hefja þar gróðursetningu að svo komnu máli. Þess í stað var 7 hektara spilda í nyrsta hluta Gráhelluhrauns girt og þar var gróðursett af krafti næstu árin. Vorið 1956 fékk Hákon Bjarnason skógræktarstjóri nokkuð stóra landspildu afhenta í Vatnshlíð. Hann hófst von bráðar handa við að brjóta landið undir ræktun ásamt fjölskyldu sinni og vinum. Nokkrum árum seinna reisti hann sumarhús fyrir fjölskylduna á þessum reit og stendur það hús enn í dag.

Höfðaskógur

Höfðaskógur.

Hákon var merkur frumkvöðull og þegar hann hafði undirbúið ræktun í Vatnshlíð töldu félagar í Skógræktarfélaginu að rétt væri að hefjast handa við samskonar landbótarvinnu suðvestur af Beitarhúsahálsi. Sumarið 1957 var 32 hektara landspilda girt og hófst gróðursetning vorið 1958 í nánast örfoka hlíðinni. Girðingin var stækkuð í áföngum og þar kom að allt Höfðalandið var lagt undir ræktun árið 1979 þegar fjárheld girðing umlukti loksins höfuðborgarsvæðið.
Nokkrir vegslóðar voru lagðir um Höfðana, landið reitað niður og deilt út til einstaklinga, fjölskyldna, félaga og fyrirtækja sem tóku land í fóstur árið 1980. Víða hafa vaxið upp fallegir trjálundir og gróðurinn sækir sífellt í sig veðrið þó sums staðar sé trjávöxturinn frekar stutt á veg kominn.
Trjágróðurinn í Höfðaskógi er af margvíslegum toga en mest ber á greni, furu, birki, víði, reyni og aspartegundum. Á 50 ára afmæli Skógræktarfélagsins árið 1996 var opnaður trjásýnilundir með rúmlega 250 trjátegundum og kvæmum á elsta ræktunarsvæðinu ofan Hvaleyrarvatns. Á síðustu árum einnig verið unnið að því að planta út öllum þekktum tegundum rósa sem finnast hér á landi í suðurhlíðum Húshöfða. Þetta er samstarfsverkefni Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands.

Vatnshlíðarlundur

Vatnshlíðarlundur

Vatnshlíðarlundur.

Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson skipaverkfræðingur og siglingamálastjóri og eiginkona hans Else Sörensen Bárðarson létu eftir sig miklar eignir en þau áttu enga afkomendur. Else lést 28. maí 2008 en Hjálmar tæplega ári seinna 7. apríl 2009. Létu þau eftir sig eignir og fjármuni sem þau ánöfnuðu nokkrum aðilum. Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður hlutu 30% af eigum þeirra hvert um sig, en það sem eftir var skiptist jafnt milli Fuglaverndarfélags Íslands og þriggja safna.
Hjálmar óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að fénu sem rann til Landgræðslusjóðs yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“.

Vatnshlíð

Vatnshlíð – skilti.

Stofnaður var minningarsjóður um hjónin sem starfa mun í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og í landgræðsluskógrækt með lúpínu. Jafnframt var Hjálmarssjóður settur á laggirnar sem veitir styrki til landgræðsluverkefna. Hjálmarssjóður hefur m.a. gert samning við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns þar sem áður var berangur en lúpínan hefur breytt svæðinu í vænlegt ræktunarland.
Ætlunin er að útbúa minningarreit um Hjálmar og Else í Vatnshlíðinni og vinnur Þráinn Hauksson landslags arkitekt að hönnun reitsins.
Gróðursetning í Vatnshlíð hófst með formlegum hætti laugardaginn 17. september 2011. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands og kunnur ljósmyndari. Fuglaljósmyndir hans skipuðu stóran sess í lífsstarfinu og þess vegna var lögð sérstök áhersla á að gróðursetja berjarunna, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Ætlunin er að koma upp ljósmyndahúsi við Hvaleyarvatn með tíð og tíma til að auðvelda fuglaljósmyndurum að ná góðum fuglamyndum og bæta aðstöðuna við vatnið. Svæðið er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda fuglaljósmyndun enda fuglalíf í skóginum við Hvaleyrarvatn sérstaklega fjölbreytilegt.
Hjálmar Rögnvaldur bjó lengi við Álftanesveg skammt frá norðurbæ Hafnarfjarðar en hann fæddist árið 1918 á Ísafirði og ólst þar upp.

Minningarreitur og hólmar í Hvaleyrarvatni

Hvaleyrarvatn

Hólmarnir í Hvaleyrarvatni.

Framkvæmdir við minningarreit um Hjálmar Rögnvald Bárðarson skipaverkfræðing og siglingamálastjóra og eiginkonu hans Else Sörensen Bárðarson í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn gengur vel. Reiturinn er hannaður af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt og það eru Kristján Ingi Gunnarsson og Bjarni Sigurðsson sem hafa séð um framkvæmdina. Þeir hafa jafnframt útbúið þrjá hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni.

Seldalur

Seldalur

Seldalur.

Seldalur er suðvestur af Hvaleyrarvatni og umlukinn hálsum og höfðum. Selhöfði er norðan við dalinn og Stórhöfði suðvestan hans. Þar á milli er annarsvegar Seldalsháls og hinsvegar ónefndur háls sem tengir saman Stórhöfða og Langholt. Dalurinn var mjög illa farinn þegar Skógræktarfélagið tók hann til ræktunar árið 1990. Uppgræðsla dalsins var hluti af Landgræðsluskóga átaki sem hleypt var af stokkunum í tilefni af 60 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands þetta sama ár. Á vetrum safnaðist vatn í dalbotninn og leirkenndur jarðvegurinn var mjög rokgjarn á sumrin í mestu þurrkum. Meðlimir Skotveiðifélags Hafnarfjarðar höfðu verið með aðstöðu til skotæfinga í dalnum um frá 1968 til 1988 og þar var mikið magn af brotnum leirdúfum, högglum og öðru sem minnti á veru félagsmanna þar.

Seldalur

Tóft í Seldal.

Fyrsta verkið fólst í að hreinsa dalinn, stinga niður rofaborð, bera áburð, grasfræ og lúpínufræ í flögin og freista þess að hefta uppblástur og fok. Síðan var hafist handa við að gróðursetja harðgerðar trjátegundir eins og birki, víði, furu, greni og alaskaösp. Alls voru gróðursettar 50 þúsund trjáplöntur fyrsta kastið í þenna rúmlega 20 hektara dal. Mikil vinna hefur verið lögð í búa svo um að trjágróðurinn fái sem best skilyrði til að vaxa og hefur landið hreinlega tekið stakkaskiptum. Það voru því mikil vonbrigði þegar eldur var borinn að þurrum gróðrinum í dalnum seinnihluta marsmánaðar 2010. Kveikt var í rusli sem þar var skilið eftir og líka borinn eldur að þurrum gróðri á fleiri en einum stað. Þetta orsakaði það að 4-5 hektarar, eða fjórðungur svæðisins, fuðraði upp á skömmum tíma.

Björnslundur í Seldal

Björn Árnason var bæjarverkfræðingur Hafnarfjarðar frá 1968 til 1995. Hann sinnti trjárækt og landgræðslu af miklum áhuga og hafði brennandi áhuga á útvist. Eftir komuna til Hafnarfjarðar varð hann þess áskynja hversu illa uppland bæjarins var farið af ofbeit og uppblæstri og vildi setja aukinn kraft í uppgræðslu landsins. Björn gaf kost á sér til setu í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og átti þar sæti frá 1996 til 2004. Einu ári áður en hann tók sæti í stjórninni keypti hann jörðina Mykjunes í Holtum í Rangárvallasýslu. Hóf hann umfangsmikla skógrækt í Mykjunesi og helgaði krafta sína þessu áhugamáli sínu af fullum krafti næstu árin. Naut hann dyggrar aðstoðar barna sinna, barnabarna og annarra við ræktunarstarfið og hafði áorkað gríðarlega miklu þegar hann kvaddi þessa jarðvist austur í Mykjunesi vorið 2007.
Árið 1989 þegar Hólmfríður Finnbogadóttir formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var ráðin í fullt starf sem framkvæmdastjóri var eitt fyrsta verkið að leita samninga við Hafnarfjarðarbæ um viðbótar landsvæði til ræktunar. Gengið var frá nýjum samningi í mars 1990 og stuttu seinna hófst verkefnið „Landgræðsluskógar – átak 1990“ í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands. Átakið var styrkt með framlagi úr ríkissjóði og tók Skógræktarfélag Hafnarfjarðar þá ákvörðun að leggja sitt af mörkum til að átakið tækist sem allra best. Björn lagði til að félagsmenn hæfu landgræðsluátakið með uppgræðslu í Seldal milli Selhöfða og Stórhöfa. Þessi 20 ha dalbotn var illa farinn af uppblæstri og landeyðingu og full ástæða til að snúa þróuninni við. Næstu tvö sumur voru 80 þúsund trjáplöntur gróðursettar í Seldal og unnið þar að meiriháttar landbótum. Dalurinn breyttist smám saman úr auðn í fallegan gróðurreit.

Björn Árnason

Minningarskjöldur um Björn Árnason í Seldal.

Vorið 1991 var lögð fyrir skipulagsnefnd Hafnarfjarðarbæjar tillaga Þráins Haukssonar landslagsarkitekts að heildarskipulagi útivistarsvæða í grennd við Hvaleyrarvatn. Þráinn vann skipulagstillögu sína í náinni samvinnu við Björn Árnason bæjarverkfræðing og Jóhannes S. Kjarval skipulagsstjóra Hafnarfjarðar. Helstu markmið tillögunnar voru að stuðla að skynsamlegri og varfærnislegri meðferð og nýtingu svæðisins, vernd einstakra náttúrufyrirbæra, aukinni uppgræðslu og skógrækt og að bæta möguleikana á fjölbreyttri útivist. Jafnframt var lögð áhersla á að tryggja góð tengsl byggðarinnar við útivistarlöndin með bættu umferðarkerfi. Vegaslóðarnir sem lagðir voru í framhaldinu voru fyrst og fremst hugsaðir til að auðvelda ræktunarfólki að fara um upplandið, en þeir hafa nýst til gönguferð og hverslags umferðar um Höfðana eins og landið nefnist einu nafni. Björn kom að þessu máli með beinum hætti þar sem það var í hans verkahring að tryggja fjármagn til vega- og stígagerðar. Þetta tókst þrátt fyrir að þungt væri fyrir fæti framanaf. Núna spyr enginn hvers vegna svona erfiðlega gekk að fjármagna gerð vegaslóðanna, þar sem þeir þykja alveg sjálfsagður hluti af svæðinu í dag og enginn vill án þeirra vera.
Eftir andlát Björns kom fljótlega upp sú hugmynd að minnast hans með viðeigandi hætti en hann var einn af heiðursfélögum Skógræktarfélagsins. Var samþykkt að reisa honum minningarstein austarlega í Seldal. Grágrýtissteini með koparplötu var fundinn staður í fallegum hlíðarslakka og var steinninn afhjúpaður á Skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar laugardaginn 19. júlí 2008.

Gráhelluhraun

Guðmundur Þórarinsson

Minningarskjöldur um Guðmund Þórarinnsson í Gráhellihrauni.

Fyrsta verk stjórnar eftir að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 var að útvega hentugt land til skógræktar. Upphaflega hugmyndin var að hefja trjárækt í örfoka brekkunum norðan Hvaleyrarvatns, en vegna kulda vorið 1947 var leitað að skjólsælla svæði. Forvígismenn félagsins töldu nyrsta hluta Gráhelluhrauns henta vel til ræktunar og fengu leyfi bæjaryfirvalda til að girða 7 hektara reit í hrauninu upp af Lækjarbotnum.
Gróðursetning hófst við hátíðlega athöfn 27. maí 1947 og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður. Næsta áratug var aðal starfsemi félagsins tengd skógrækt í Gráhelluhrauni. Sérstakir hakar voru útbúnir til að koma plöntum niður í hraunið sem reyndist prýðilega lagað til skógræktar eins og reiknað hafði verið með.
Skógræktargirðingin var stækkuð um 30 hektara 1949 og næstu árin var umtalsverðu magni af birkiplöntum, skógarfurum, rauðgreni, sitkagreni og lerki plantað út, hátt í 100 þúsund plöntum. Á tímabilinu 1965-78 var um 30 þúsund stafafurum, bergfurum og birkitrjám plantað út í hrauninu, en eftir það hefur Gráhelluhraunsskógur nánast verið sjálfbær.
Skógurinn endurnýjar sig sjálfur að miklu leyti og töluvert ber á sjálfsánum furutrjám. Birki- og víðirunnar hafa breitt verulega úr sér og lyng og gamburmosi þekja hraunið ásamt fjölbreyttum lággróðri af margvíslegu tagi. Á hverju ári er plantað út í svæðið til að auka tegundafjölda og viðhalda ræktunarsvæðinu.
Allar girðingar hafa fyrir löngu verið fjarlægðar í Gráhelluhrauni og göngustígur lagður til að auðvelda öllum að njóta þessa gróskumikla og fjölbreytta skógarsvæðis.

Minningarskjöldur 4 brautryðjenda á Gráhelluflöt

Skógarmenn

Minningarskjöldur um fyrrum skógræktarmenn á Gráhelluflöt.

Laugardaginn 9. ágúst 2008 var fjögurra brautryðjenda skógræktarstarfs í Hafnarfirði minnst með því að afhjúpa minningarskjöld á hraunkletti í norðanverðu Gráhelluhrauni, skammt frá þeim stað þar sem ræktunarstarf á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hófst vorið 1947.
Fyrsta gróðursetningaferðin í Gráhelluhraun var farin 27. maí 1957. Lautirnar í Gráhelluhrauni reyndust skjólgóðar og vel lagaðar fyrir skógrækt. Ráðist var í að grisja rauðgrenið í Gráhelluhrauni fyrir jólin 1958 og bæjarbúum boðið að kaupa hafnfirsk jólatré.
Minningarsteinar á vegum félagsins eru orðnir þó nokkuð margir og eru á víð og dreif um ræktunarsvæðin. Það á vel við að minnast þessara fjögurra frumkvöðla í saman enda komu þeir allir að starfinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinna. Með áræðni, bjartsýni go umfram allt skýrri framtíðarsýn áttu þeir hver á sinn hátt stóran þátt í að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar varð öflug fjöldahreyfing á upphafsárunum og er enn í dag eitt fjölmennasta skógræktarfélag landsins.

Skólalundur

Skólalundur

Skólalundur.

Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Haglendið var illa farið af hrístöku, beit og uppblæstri árið 1926 þegar skógræktarstjóri vakti athygli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á að tímabært væri að girða nokkra skógi vaxna runna í Undirhlíðum og friða skóglendið. Málið fór fyrir girðinganefnd bæjarins sem ákvað að láta girða gróskumesta skógarhvamminn.
Birkið og víðitrén áttu því í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða Skólalund. Girðingin var stækkuð 1961 norðaustur fyrir Kúadal að Syðri-Kaldárhnúkum, lúpínu var sáð í örfoka landið og hafist handa við að klæða það skógi. Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Litli-Skógarhvammur

Litli-Skógarhvammur.

Einnig var bætt við 30 hektara svæði í norðaustur frá Skólalundi árið 1961 þegar Kúadalur bættist við ræktunarsvæðið. Gróðursetningastarfið í Undirhlíðum naut forgangs, en mikil vinna fór í viðhald á girðingunni. Þegar nýtt árþúsund gekk í garð þótti ástæðulaust að halda í gömlu girðingarnar og voru þær teknar niður.
Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.
Sumarið 2006 var sett upp skilti með loftmynd við Skólaund og skógurinn formlega opnaður almenningi. Sumarið eftir voru gömlu girðingarnar teknar niður umhverfis Stóra-Skógarhvamm og var hann opnaður almenningi með formlegum hætti 25. ágúst 2007 með því að nokkrum trjám var plantað þar út.
Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum.

Undirhlíðar

Undirhlíðar

Undirhlíðar.

Undirhlíðar eru bólstrabergshæðir sem liggja frá Kaldárbotnum í norðaustri að Vatnsskarði í suðvestri og spanna um 7 km. Beggja vegna eru hraun frá sögulegum tíma, ásamt eldri hraunum. Undirhlíðaleið lá með norðanverðum hlíðarfætinu en sunnan við Undirhlíðar var Dalaleið. Hvorutveggja voru fornar þjóðleiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Móskarðshnúkar nefnast móbergshæðir ofan við Stóra-Skógarhvamm með fallega mótaðri skál sem snýr opi mót norðri.
Undirhlíðar tilheyrðu Garðakirkju á Álftanesi frá alda öðli, en Hafnarfjarðarbær keypti hluta kirkjulandsins 1912. Undirhlíðar voru vaxnar kjarri og kröftugum fóðurgrösum og töldust helstu bithagar búpenings Garðaklerka og leiguliða þeirra. Selfarir lögðust af í Kaldárseli um 1866 þegar Þorsteinn Þorsteinsson reyndi þar fasta búsetu, sem lánaðist illa. Hafnfirðingar höfðu vanist á að sækja sér hrís og lyng til eldiviðar í Undirhlíðar og Gjárnar, en hrístakan bættist ofan á vetrarbeitina sem gekk nærri gróðrinum. Árið 1917 var vinnuflokkur að störfum við vatnsrennu sem leggja átti frá Kaldárbotnum að Sléttuhlíð. Þegar færi gafst leituðu mennirnir að runnagróðri nærliggjandi gjótum og hlíðum. Hrísið var slitið upp með rótum, eða sargað sundur við rót. Þegar fregnin af viðartökunni barst bæjaryfirvöldum til eyrna var Einar Sæmundsen skógarvörður beðinn um að gera úttekt á málinu. Niðurstaða hans var sú að búið væri að spilla stórum gróðurspildum á milli Gjánna, í Undirhlíðum og víðar svo að stór hluti af grónu landi var nær ónýtur. Einar brást við aðstæðunum með því að skipuleggja skynsamlega grisjun til að stöðva rányrkjuna. Fjórir menn voru þjálfaðir til verksins og grisjuðu þeir rúmlega 30 hestburði – tvö og hálft tonn af eldiviði – en síðan var landið friðað.
Agner F. Kofoed Hansen skógræktarstjóri lagði til við bæjarstjórn 1926 að friða þá skógarrunna sem eftir voru í Undirhlíðum. Girðinganefnd tók sér góðan tíma áður en ákveðið var að girða af einn hvamm þar sem uppblástur og skemmdir voru minnstar.

Vorferðir Barnaskólanema í Skólalund

Krýsuvík - vinnuskóli

Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.

Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar. Fjáreigendur tóku að sér að annast viðhald allra girðinga í upplandinu, en þrátt fyrir samninginn töldu þeir sig ekki hafa efni á að viðhalda skógræktargirðingunni. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði bæjarstjóra bréf 1948 og óskaði eftir því að girðingin væri endurnýjuð. Sumarið áður hafði sauðfé gert sig heimakomið í Skólalundi og skemmt birkikjarrið mikið og bitið stöku skógarfurur og grenitré.

Stóri-Skógarhvammur bætist við ásamt Kúadölum

Krýsuvík - vinnuskóli

Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.

Girðingamálið stóð í stappi í nokkur ár en þegar séra Garðar Þorsteinsson tók við sem formaður félagsins komst skriður á málin. Árið 1958 fékk félagið leyfi bæjaryfirvalda til að girða 56 ha svæði umhverfis Stóra-Skógarhvamm. Húsdýraáburður úr Krýsuvíkurbúinu var einnig notaður til að bera á blásna mela og allt þetta starf skilaði góðum árangri. Skógarreiturinn hefur nánast verið sjálfbær frá 1964.

Stóri-Skógarhvammur í Hafnarfirði opnaður
Stóri-Skógarhvammur
Í Laufblaðinu, fréttablaði Skógræktarfélags Íslands 2007, segir frá opnun skógarsvæðisins í Stóra-Skógarhvammi:
“Skógræktarfélag Hafnarfjarðar opnaði skógræktarsvæðið Stóra-Skógarhvamm laugardaginn 25. ágúst. Stóri-Skógarhvammur var friðaður árið 1958/59 og hófst ræktunarstarf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í kjölfarið. Piltar úr vinnuskólanum í Krýsuvík voru nýttir til verksins, sem störfuðu að ræktuninni undir leiðsögn Hauks Helgasonar, sem var stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Vinnuskólinn í Krýsuvík starfaði fram til ársins 1964 og hefur síðan þá lítið verið gróðursett. Árangur þessar aðgerða er mjög góður og eru þarna nú mjög vöxtulegur og fallegur skógur af ýmsum tegundum. Jafnframt hefur birkiskógurinn aukist mjög að umfangi og breiðst út.
Nú er unnið að því að gera svæðið aðgengilegra almenningi til að njóta útivistar í þessu fallega umhverfi og hefur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar notið stuðnings Samfélagssjóðs Alcan og velvilja Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarbæjar við að koma verkinu í framkvæmd.”

Cuxhaven-lundur

Cuxhavenreitur

Dórothea afhjúpar minningarskjöld í Cuxhavenreitnum.

Skammt fyrir vestan Hvaleyrarvatn er svokallaður Cuxhaven-lundur. Lundurinn er í umsjón vinabæjarfélagsins Cuxhahvan – Hafnarfjörður.
Fyrst var gróðursett í lundinn árið 1998. Lundurinnn er merktur.
Það er hefð fyrir því að gestir frá Cuxhaven sem hingað koma heimsækja lundinn og gróðursetja ef færi gefst. Í mörg ár hefur sendinefnd frá Cuxhaven komið og heimsótt félagið fyrstu helgina í aðventu í tengslum við afhendingu þjóðverjanna á jólatré til bæjarins sem staðsett er á Thorsplani.

Föstudaginn 6. júlí komu nokkrir félagar úr Vinabæjarfélaginu Cuxhaven – Hafnarfjörður ásamt nokkrum góðum gestum frá Þýskalandi saman í Cuxhaven lundinum við Hvaleyrarvatn. Tilgangur samfundarins var afhjúpun minningarskjaldar um Jónas Guðlaugsson fyrrverandi rafveitustjóra og formann félagsins til margra ára. Ekkja Jónasar Dóróthea Stefánsdóttir afhjúpaði skjöldinn sem komið var fyrir á látlausum steini sem er skammt frá minningarsteini um Rolf Peters, en þeir voru miklir mátar. Að afhjúpun lokinni voru gróðursett 30 tré sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gaf til minningar um Jónas, en hann var alla tíð dyggur stuðningsmaður Skógræktarfélagsins.
Jónas og Rolf Peters frá Cuxhaven áttu mikinn þátt í þeim góðu samskiptum sem mynduðust milli vinabæjanna Hafnarfjarðar og Cuxhaven í Þýskalandi eftir að stofnað var til þeirra árið 1988. Þetta leiddi til þess að árið 1993 var stofnað félag í Hafnarfirði um vinabæjarsamstarfið og tók Jónas strax sæti í stjórn félagsins. Hann var formaður félagsins á árabilinu 1999 til 2007 og voru stjórnarfundir gjarnan haldnir á heimili hans og Dórótheu. Jónas var jafnan í fararbroddi þegar gesti frá Þýskalandi bar að garði og sá til þess að þeir nytu þess besta sem Hafnarfjörður hafði upp á að bjóða. Þegar Jónas ákvað að láta af stjórnarsetu vegna heilsufarsástæðna árið 2007 voru þau hjón gerð að heiðursfélögum í Vinabæjarfélaginu. Þetta var ekki eina viðurkenningin sem Jónasi hlotnaðist því borgaryfirvöld í Cuxhaven veittu honum heiðursorðuna ,,Schloss Ritesbüttel“ árið 2002 og Johannes Rau forseti Þýskalands sæmdi hann heiðursorðunni ,,Das Verdienstkrauz 1. Klasse“ árið 2003.

Heimildir:
-https://skoghf.is/um-felagie/
-https://skoghf.is/hoefeaskogur/
-https://skoghf.is/seldalur/
-https://skoghf.is/grahelluhraun/
-https://skoghf.is/skolalundur/
-https://skoghf.is/undirhliear/
-https://skoghf.is/vatnshlidarlundur/
-https://skoghf.is/cuxhaven-lundur/
-Laufblaðið – Fréttablað Skógræktarfélags Íslands, 2007. bls. 7.

Gráhelluhraun

Í Gráhelluhrauni.