Hof og Esjuberg eru landnámsbýli á Kjalarnesi. Örlygur Hrappsson byggði síðarnefnda bæinn og bræðrungur hans, Helgi bjóla Ketilsson, þann fyrrnefnda.
Bæjarnafnið bendir til þess að þar hafi áhersla verið lögð á átrúnað, enda gefa örnefni í nágrenninu vísbendingu um að svo hafi verið á Kjalarnesi í árdaga búsetu manna hér á Reykjanes-skaganum. Eftir því sem ráða má af Flóamannasögu, hefir Ingólfur [Arnarsson] verið nokkuð innan við þrítugt, er hann reisti bú í Reykjavík; kona hans hét Hallveig Fróðadóttir; sonur þeirra var Þorsteinn, er höfðingi varð eftir föður sinn. önnur börn Ingólfs eru eigi nefnd, því það sem segir í Kjalnesingasögu, að Helgi bjóla hafi átt Þórnýju dóttur Ingólfs…
Í 11. kafla Landnámu (Sturlubók) segir: „Og er það spurði Haraldur konungur, sendi hann vestur Ketil flatnef, son Bjarnar bunu, að vinna aftur eyjarnar. Ketill átti Yngvildi, dóttur Ketils veðurs hersis af Hringaríki; þeirra synir voru þeir Björn hinn austræni og Helgi bjóla. Auður hin djúpauðga og Þórunn hyrna voru dætur þeirra….
Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, fór til Íslands úr Suðureyjum. Hann var með Ingólfi hinn fyrsta vetur og nam með hans ráði Kjalarnes allt milli Mógilsár og Mýdalsár; hann bjó að Hofi. Hans son var Víga-Hrappur og Kollsveinn, faðir Eyvindar hjalta, föður Kollsveins, föður Þorgerðar, móður Þóru, móður Ögmundar, föður Jóns byskups hins helga.“
Í lokakafla Landnámabókar er og vikið sérstaklega að kristnum landnámsmönnum og greint frá því hve langæ kristnin varð. Þar segir; „Svo segja vitrir menn, að nokkrir landnámsmenn hafi skírðir
verið, þeir er byggt hafa Ísland, flestir þeir, er komu vestan um haf. Er til þess nefndur Helgi magri og Örlygur enn gamli. Helgi bjóla, Jörundur kristni, Auður djúpauðga, Ketill enn fíflski og enn fleiri menn, er komu vestan um haf, og héldu þeir sumir vel kristni til dauðadags. En það gekk óvíða í ættir, því að synir þeirra sumra reistu hof og blótuðu, en land var alheiðið nær hundraði vetra.“
Rétt er að huga að innbyrðis tengslum þeirra einstaklinga sem hér hafa verið nefndir. Auður djúpúðga og Helgi bjóla voru börn Ketils flatnefs, en Helgi magri mágur þeirra, kvæntur Þórunni hyrnu Ketilsdóttur. Um er að ræða mikil ættartengsl, þótt það skipti ekki meginmáli hér því ætlunin með þessum texta og myndum er einungis að tengja framangreint bæjarstæði (nafnið) Hofs við Hofselin fornu, er getið er um í Blikdal.
Hofs er getið í Jarðabókinni 1703, en ekki er minnst á selstöðu. Það bendir til þess að hún hafi þá þegar fyrir löngu verið aflögð. Nes og Hof tilheyrðu þá Brautarholti, en Hof var jafnan sjálfstæð jörð. „Hofselin fornu“ höfðu þá verið nefnd til sögunnar.
í Sögu Kjalarnessprófastsdæmis segir: „Hof var landnámsjörð Helga bjólu Ketilssonar, en hann var bróðir Auðar djúpúðgu og bræðrungur Örlygs Hrappssonar á Esjubergi. Helgi kom hingað úr
Suðureyjum hafði tekið skírn eins og flest systkin hans. Heimildir greina ekki frá því, hvort hann reisti kirkju á landnámsjörð sinni, en ekki er það útilokað.“
Enn segir í Sögu Kjalarnessprófastsdæmis: „Í Brautarholti var fyrsti bóndinn írskur maður, Andríður að nafni. Hermir Kjalnesingasaga að Helgi bjóla hafi fengið honum bústað þar. Andríður var kristinn, en engar heimildir eru um kirkju í Brautarholti fyrir 1200 …“
„Höfuðhof hefir verið á Hofi á Kjalarnesi. Segir í Landnb., að Helgi bjóla hafi búið þar; þó segir, að hann hafi verið skírður,“ er hann kom út hingað af Suðureyjum; óvíst nema Hofsnafnið á bænum sé yngra. — Kjalnesingasaga segir, að Helgi hafi verið »blótmaðr lítill«, og að sonur hans, er hún kallar Þorgrím, hafi bygt hofið, sem virðist hafa staðið fram á miðja 13. öld.“
Sel Brautarholtsbæjanna voru (og eru) í sunnanverðum Blikdal. Eitt þeirra, það næstefsta, ber með sér öll merki kúasels (þ.e.) elstu typulogiu selja, allt frá landnámsöld. Í selstöðunni, sem er alveg niður við Blikdalsána, eru m.a. leifar fjóss, og skála. Telja verður líklegt, þangað til frekari rannsóknir hafa farið fram á öllum átta selstöðunum í Blikdal, að þarna hafi einmitt fyrrum verið selstaða frá Hofi, bæ Helga bjólu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 29. árg. 1914, bls. 5.
-Morgunblaðið 7. maí 2000, bls. 50.
-Saga, 24. árg. 1986, 1. tbl. bls. 210.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 31. árg. 1916, bls. 22.
-Landnáma (sturlubók ), 11. kafli.