Tag Archive for: Hólmsberg

Keflavík

Í Faxa árið 1996 skrifar Sturlaugur Björnsson „Um daginn og veginn“ í Keflavík fyrrum daga:

Sturlaugur Björnsson

Sturlaugur Björnsson (1927-2023).

„Vegurinn út í Leiru liggur í nokkurri lægð við gömlu bæjarmörkin, uppaf Grófinni, á hægri hönd er Klifið og skammt þaðan er gamli vegurinn, í famhaldi af Kirkjuveginum. Tvö vörðubrot eru hér, annað úr vörðu sem hefur verið við veginn og hitt úr stórri vörðu u.þ.b. 3 sinnum 3 m sem gæti hafa verið landamerki. Ólafur Sigurðson frá Túnbergi hefur hlaðið upp að nýju nokkrar af vörðunum við gamla veginn.
Hleðslur, vörður og vörðubrot eru víða á Suðurnesjum. Vörðurnar voru til að leiðbeina við troðninga og götur, eins og fram hefur komið. Aðrar sem siglingamerki svo sem Kalka sem var á Háaleiti, þetta nafn fékk varðan af því að hún var hvílkölkuð. Frá Háaleiti var svo víðsýnt að menn voru sendir þangað til að fylgjast með ferðum skipa. Sagt var að Háaleitið væri gamall sjávarkampur og að í honum hafi fundist skeljabrot. Háaleitið er horfið undir mannvirki á Keflavíkurflugvelli.

Hafliði Nikurlásson

Hafliði Nikurlásson (1879-1950).

Eftir að gamli vegurinn út á skagann var aflagður og nýr tekinn í gagnið var Hafliði Nikulásson, sem vakti nokkra athygli fyrir lágan vöxt og átti ungur heima í Garðinum (en hafði fluttst austur á firði), í heimsókn á bernskuheimili Bjarna Jónssonar, Kothúsum í Garði. Hafliði var spurður með hvaða bíl hann hefði komið. Hafliði sagðist hafa komið gangandi en séð bíla keyrandi upp í heiði!
Berghólsborg er áþekk Keflavíkurborg, en mun betur farin. Þær gætu verið óvenjulegar. Heillegar og hrundar fjárborgir eru hér víða, má nefna Árnaborg sem er í heiðinni milli Garðs og „Rockville.“

Fjárborgir
Keflavíkurborg er á hæð vinstra megin vegar þegar haldið er út úr bænum, norður af „nýju„ stóru grjótnámunni. Kellavíkurborg hefur verið hlaðinn úr grjóti, hún er hringlaga, innanmál hennar er u.þ.b. 8 m með um 6 m beinum vegg að sunnanverðu og út frá honum eru veggir sem mynda rými sent er u.þ.b. 3 sinnum 3 m að utanmáli, veggþykktin í sjálfri borginni er tæpur metri.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Í miðri borginni er kassalaga hleðsla, (gæti verið garði, til að gefa á).
lnn milli Berghólanna er gróin rúst og sést hún frá þjóðveginum.

Hólmsberg
Hér er Hólmsberg. Til skamms tíma hefur Hólmsbergið verið nær ósnortið af mönnum. Keflavíkurbjarg og nokkuð land inná Bergið útundir Helguvík er friðlýst. Eftir friðlýsinguna er eins og menn hafi tapað áttum í umgengni þar.
Hlífa ætti viðkvæmri gróðurþekjunni sem hefur aðlagast seltu og næðingi og framræsla hélt ég að heyrði sögunni til, frá öllu jarðraski getur myndast rof. Það ber að vernda náttúru Bergsins sern er ákjósanlegt úlivistarsvæði.

Keflavíkurberg

Brunnur á Keflavíkurbergi.

Norður af byggðinni á Berginu er steyptur stöpull, þar rétt hjá, í sléttu klöppunum er „brunnurinn“ sérstök náttúrusmíð, rétthyrndur um það bil 70 sinnum 80 sm og aðeins um 30 sm djúpur. Reitt hjá honum er „pollur,, sem í voru hornsíli, þar er votlendisgróður og ber mest á fífu. Fyrsti ábúandi Bergsins Nikolai Elíasson nýtti vatnið hér til að brynna kúnum.
Upp af Stekkjarláginni er mishæð með sléttar klappir. Þær nota mávarnir og láta kuðunga (beitukóg) falla á þær, við það brotna þeir og fuglarnir ná í krabbana sem eru í kuðungunum. Ummerki þessa athæfis mávanna sjást víða á sléttum klöppum. Á umræddri hæð er vörðubrot.

Nónvarðan, sprenguefnageymslan og Háberg

Reykjanesbær

Nónvarða – Rótarýklúbbur Keflavíkur endurreisti vörðu þessa á holtinu ofan við götuna Nónvörðu árið 1973.
Holtið gekk ætíð undir nafninu Nónvarða og mundu menn vörðu er áður hafði staðið þarna. Varða sú var eyktamark frá Keflavíkurbæ og sýndi eyktamarkið nón, þ.e. um kl. 15:00. Eyktamark er fastur punktur í landslagi sem var til forna notaður sem viðmið við sólargang til að vita hvað tímanum líður. Til dæmis átti það við um fjallatoppa, hóla eða hæðir eða jafnvel hlaðnar vörður, sem sólina bar í séð frá ákveðnum bæ, á tilteknum tíma. Algengt var að slíkir staðir hétu eftir eyktamörkunum, svo sem eins og Nónvarða, Hádegishnúkur eða eitthvað slíkt.

Og nú hefur Sprengiefnageymslan, sem var á holtinu, rétt hjá Mánahestinum og gömlu grjótnámunni, verið endanlega eyðilögð. Á báðum stöðunum og Háabergi var tekið grjót í hleðslurnar sem settu svo mikinn svip á Keflavík forðum daga. Þar sjást ummerki þess hvernig grjótið var klofið með fleygum og síðan höggvið til. Þetta eru sögulegar menjar sem virðast eiga fáa málsvara, þær eru skildar eftir þegar tekið er til hendi í næsta umhverfi þeirra.

Myllubakkinn

Með ærnum kostnaði hefur verið sturtað grjóti og mold og síðan tyrft yfir Myllubakkann og umhverfi hans. Eftir það var Ægisgatan lögð og nýlega mátti lesa í Víkurfréttum. „Hleðslur fá nýtt hlutverk. Gamlar steinhleðslur við Hafnargötuna sem fyrir nokkru lentu undir mold og torfi fá nýtt hlutverk. Nú er unnið að því að grafa þær upp og síðan verða þær notaðar í gamla bænum í Keflavík. Mikið hagræði er í því að grafa hleðslumar upp í stað þess að höggva til nýtt grjót“.
Voru einhverjir að vakna?

Örnefni og ummerki sem bent geta til fyrri lifnaðarhátta – Rósaselvötn, Seltjörn og Snorrastaðatjarnir

Rósel

Róselsvötn – sel.

Rósel við Róselsvötn (Rósaselsvötn).

Rósaselsvötn, nafn þessara fallegu vatna gefur til kynna að þar hefur verið sel. Vestan við stærra vatnið eru rústir. Á sumrin var tekinn mór af stærra vatninu ef það þomaði upp. Mórinn þótti afar góður vegna þess hve mikið var af trjárótum og kvistum í honum, af því má ætla að hér hafi verið annað gróðurfar en nú er. Norðan við vötnin liggur troðningur milli Keflavíkur og Hvalsness, eftir honum var mórinn fluttur og einnig ís sem tekinn var af vötnunum á vetrum til frystingar á síld til beitu.
Við nyrstu Snorrastaðatjörnina eru rústir og einnig eru rústir við Seltjörn. Á þessum stöðum hefur verið nokkuð beitilandi og vatn til að brynna búsmala og halda mjólkurílátum hreinum.

Stekkir

Keflavík

Stekkur í Stekkjarlág undir Stekkjarhamri.

Stekkjarhamar og Stekkjarlág vísa til þess að þar hefur lömbum verið haldið frá ánum, á báðum stöðunum eru rústir. Í bakka „Kartöflugarðsins“, var einstígur sem kallaður var Lambastígur sem bent gæti til þess að eftir honum hafi lömbin verið rekin út í Stekkjarlág til yfirsetu. (Grasigróna brekkan sem lá upp Bergið gekk undir nafninu Kartöflugarðurinn, í bakka hennar, sem var framhald af Keflavíkurbjargi, var Lambastígurinn. Bakkanum hefur verið rutt niður).

Stekkjarkot

Stekkjarkot

Stekkjarkot – Víkingasafnið í bakgrunni.

Rétt utan við eystra túngarðshornið í Stekkjarkoti er jarðfastur steinn. Í honum eru meitlaför. Líklega er steininn fiskasteinn. (Steinn til að berja harðfisk á). Hans er ekki getið í kynningaritinu um Stekkjarkot.“

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 01.03.1996, Um daginn og veginn, Sturlaugur Björnsson, bls. 33-34.
Myllubakki.

Helguvík

Gengið var upp á Keflavíkurbjarg norðan við Grófina og síðan sem leið lá yfir og framhjá Helguvík, yfir á Hólmsberg og að Stakksnípu. Þar undir er kletturinn Stakkur í sjónum, en af honum dregur fjörðurinn nafn sitt. Þjóðsaga tengist klettinum. Þá var gengið áfram til norðurs eftir bjarginu þangað til komið var að Helguvík.

Keflavíkurberg

Vatnsskál á Keflavíkurbergi.

Fremst á berginu, eftir að skoðaðir höfðu verið drykkjarsteinn og handgerður brunnur, tóftir og Stekkjarlág, fyrrum samkomustaður Keflvíkinga, var komið að Brennunípu. Líklegt er að nafnið sé tilkomið líkt og önnur brenninefni, s.s. Brennuhóll og Brenna, en slíkir staðir eru venjulega gegnt gömlum innsiglingum við varir eða lendingar. Kveikt var í bálkesti á þessum hólum þegar farið var að rökkva eða myrkur var skollið á til að leiðbeina þeim, sem enn voru á sjó og voru að róa í land, réttu leiðina. Einnig stærri skipum, sem enn var von á af hafi, við sömu aðstæður.
Stakksfjörður, sem er hafssvæðið utan við bergið (bergin), er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi að vestan.

Stakkur

Hellunef er skammt norðar. Þar eru mörk hinnar gömlu Keflavíkur. Náðu mörkin til suðurs að Stekkjarhamri þar sem Ytri-Njarðvík tók við. Gengið var áfram til norðurs á bjarginu, að Helguvík. Hún er lítil hamravík þar sem nú er ætlunin að byggja upp blómlegt atvinnulíf í kringum stórskipahöfn, loðnubræðslu, loðnuflokkunarstöð, sementssölu, steypustöð og malbikunarstöð. Til stendur að fjölga enn stórum fyrirtækjum í Helguvík. Víkin var áður falleg hömrum girt náttúruvík, sniðin af eðlilegum ástæðum, en nú er hún dæmi um niðurbrotna hugmyndastefnu.

Hólmsbergsviti

Stakksnípuviti.

Norðan við Helguvíkina tekur Hólmsbergið við. Syðst á því er Stakknsípa. Undir henni er klettadrangurinn Stakkur. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af Stakki.
Í þjóðsögunni af Rauðhöfða, sem gerast á í fornöld, segir m.a. að löngum aðdraganda gegnum er gerist á Hvalsnesi og varðar afleiðingar hans í samskiptum við álfkonu í Geirfuglaskeri, að hann tók undir eins á rás og æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við.

Keflavíkurberg

Keflavíkurberg – Stekkjalág.

Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur. Eftirmálar af sögunni urðu síðan í Hvalfirði.
Önnur saga segir að þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Í enn annarri frásögn segir að er upp komast svik mannsins, er hér nefnist Helgi, segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags.
Gangan endaði að þessu sinni við við vitann á Hellisnípu. Þar undir að norðanverðu er Selvík. Hægt er að ganga niður í víkina og er hún hin fallegasta – í góðu verði.
Ofan Grófarinnar er Keflavíkurborg, gömul fjárborg við Sandgerðisveginn fyrrum.
Í rauninni er þetta svæði ein hin dýrmætasta útivistarperla Keflvíkinga, en of fáir þeirra virðast því miður gera sér grein fyrir því. Fjölmargt er að skoða á annars ekki lengri leið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=226
-Jón Árnason I 82.

Keflavíkurberg

Brunnur á Keflavíkurbergi.

Keflavíkurberg

Í Faxa, 8. tbl. 01.10.1967, fjallar Ragnar Guðleifsson um „Örnefni á Hólmsbergi„.

„Í janúarblaðinu á síðastliðnu ári birtist mynd af Keflavíkurhöfn og Vatnsnesi, þar sem á voru merkt örnefni, er ég þá hafði vitneskju um.

Hólmsberg

Hólmsberg – örnefni.

Við merkingu þessara örnefna studdist ég við upplýsingar Guðjóns M. Guðmundssonar, fyrrv. fiskimatsmanns, að Túngötu 9 í Keflavík.
Hér verður nú sagt frá nokkrum örnefnum á strandlengjunni frá Keflavíkurhöfn og út í Leiru eða á Hólmsberginu, sem við venjulega nefnum Bergið, og eins og áður er hér stuðzt við upplýsingar Guðjóns M. Guðmundssonar.

Hólmsberg

Hólmsberg – stekkur.

Myndin hér að ofan er eins og hin fyrri tekin úr lofti og sýnir Hólmsbergið. Hún er tekin úr mikilli hæð og er því vel skýr. Hér eru aðeins fá örnefni merkt, en þau kunna að leynast fleiri, ef vel væri leitað. Því er hér óskað, að viti einhver um fleiri örnefni á stöðum, sem hér eru merktir, þá væru þær upplýsingar vel þegnar.
1. Hellunef. Vestan eða utan við Brennunípu er nokkuð hátt berg. En er því sleppir taka við sléttar klappir, er halla í sjó fram. Þarna myndast klettanef fram í sjóinn er nefnist Hellunef. Þetta svæði, sléttuklappirnar og klettanefið er stundum kallað Hellumið. Á þessu svæði eru nú landamerki jarðarinnar Keflavík.
2. Kaggabás. Þegar sléttu klöppunum sleppir tekur við lágt berg, sem liggur að þröngum bás inn í bergið, sem heitir Kaggabás.

Helguvík

Helguvík. Sturlaugur Björnsson – letur; HHP

3. Helguvík heitir allstór vík fyrir utan Kaggabás. Bergið frá Kaggabás að víkinni er lágt en þverhníft í sjó fram. Munnmæli herma, að Helguvík dragi nafn sitt af konu, er þar bjó með sonum sínum tveim endur fyrir löngu. Einhverju sinni, er þeir bræður voru á sjó og óveður skall á, svo tvísýnt þótti, að þeir næðu landi í Helguvík, átti Helga móðir þeirra að hafa mælt svo um, að frá þeirra byggð, er synir hennar næðu landi, skyldi upp frá því aldrei farast skip, er næði opinni vík. Bræðurnir náðu síðan landi, heilir á húfi, í Keflavík. Þessa sögu sagði mér amma mín, Valdís Erlendsdóttir, er ég var drengur.
Helguvík er öll girt háu bergi, sem hækkar til norðurs. Bergið nær þó ekki í sjó fram fyrir botni víkurinnar. Þar er því malarfjara nokkur, einkum nyrzt í víkinni, en víða er fjaran með stórgrýtisurð. Þó má ganga meðfram víkinni þar til bergið sveigir til norðausturs.
4. Helguvíkurnef heitir austasti tanginn sunnan við Helguvík.

Stakksnípa

Stakksnípa og Stakkur.

5. Stakksnípa heitir bergið, er liggur að Helguvík að utan og norðan. Bergið er hátt og þverhnípt í sjó fram. Þar er fuglalíf mikið, einkum lundi og mávur.
Stakkur6. Stakkur heitir kletturinn fyrir framan t;takksnípu. Milli Stakks og Stakksnípu Seitir Stakkssund. Þar koma klettar upp úr um háfjöru, sem nærri mynda brú yfir sundið.
Stakkur á sína sögu, sem margir kannast við. Þjóðsagan segir að endur fyrir löngu hafi sjómenn af Suðurnesjum farið til eggja út í Geirfuglasker. Þegar snögglega brimaði, urðu þeir að yfirgefa skerið, en þá varð einn skipverjanna eftir. Eigi var hægt að komast í skerið aftur það sumarið vegna brims, og var nú skipverjinn löngu talinn af. Maðurinn var frá Melabergi. Nú leið þar til sumarið eftir, að farið var út í Geirfuglasker, sem venja var, til eggja. Þegar þeir komu upp á skerið sjá þeir, sér til undrunar, mann á gangi og þekkja þar manninn, er þeir höfðu skilið eftir vorið áður.

Hólmsberg

Hólmsberg.

Óljóst sagði hann þeim frá veru sinni í skerinu, þó sagði hann, að eigi hefði væst um sig þar. — Nú leið þar til síðla sumars, sunnudag einn, er messað var á Hvalsnesi. Við messu var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Þegar prestur kemur úr kirkju og sér vögguna og barnið, spyr hann hvort nokkur viti deili hér á. Einkum spurði hann Melabergsmanninn ítarlega, en hann brást þurrlega við og kvaðst ekkert um vögguna né barnið vita. En í því bili sem maðurinn neitaði, birtist þar kona fríð sínum og fönguleg, en svipmikil. Þreif hún ábreiðuna af vöggunni og snaraði henni inn í kirkjuna með þeim ummælum, að eigi skyldi kirkjan gjalda. Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir reiðulega: „En þú skalt verða að hinu versta illhveli í sjó.“ Greip hún síðan vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, sem þótti hin mesta gersemi.
VatnssteinnEn frá Melabergsmanninum er það að segja, að honum brá svo við orð konunnar, að hann tók á rás frá kirkjunni og heim til sín. Þaðan æddi hann sem vitstola maður norður á Hólmsberg, sem er fyrir vestan Keflavík. Þegar hann kemur fram á bergbrúnina staldrar hann þar við. Verður hann þá allt í einu svo stór og þrútinn, að bergið springur undir fótum hans og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum, sem síðan heitir Stakkur. Stakkst maðurinn fram af berginu í sjóinn og varð samstundis að feiknastórum hvalfiski með rauðan haus, því maðurinn hafði haft rauða húfu á höfði. Rauðhöfði var nú versta illhveli og grandaði mörgum mönnum og skipum í Faxaflóa.

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

Að lokum tókst prestinum í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd að ráða niðurlögum hans, var prestur þó orðinn gamall og blindur. Tókst presti að koma hvalnum upp Botnsá í vatn það er áin rennur úr og heitir síðan Hvalvatn. Þar sprakk Rauðhöfði. Síðan vitnaðist, að um veturinn, er maðurinn dvaldi í skerinu, hafi hann verið með álfum í góðu yfirlæti. Þar hafi hann kynnzt konunni, sem birtist við kirkjuna. Hafi hann átt með henni barnið og lofað að láta skíra það, ef hún kæmi því til kirkju, ella mundi hann gjalda þess grimmilega.
Þetta var sagan um Rauðhöfða. — En nú höldum við áfram út Bergið.
7. Stakksvík heitir lítið vik inn í bergið utan við Stakksnípu. Þar er ekkert undirlendi, en fyrir botni víkurinnar er stórgrýtisurð, sem kölluð er Urðin. Þarna er oft fjörugt fuglalíf. Þarna verpir Lundinn.

Hellisnípuviti

Hellisnípuviti.

8. Hellisnípa er hátt þverhnípt berg í sjó fram utan við Stakksvík. Hún dregur nafn af helli, sem gengur inn í bergið framanvert. Á Hellisnípu er viti, sem reistur var fyrir nokkrum árum. Við vitann eru landamörk Keflavíkurkaupstaðar og Gerðahrepps.
9. Selvík heitir vikið vestan við Hellisnípu. Þar er ekkert undirlendi.
10. Ritunípa heitir þverhnípt berg, nokkuð hátt, er skagar fram þríhyrningslagað norðan við Selvík.

Bergvík

Bergvík.

11. Bergvík heitir lítil vík vestan við Ritunípu. Vestan við víkina var innsti bærinn í Leiru og bar nafn af víkinni.

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

12. Berghólar heitir holtið og klettabeltin upp af Bergvíkinni. Eigi langt frá sjó er þar klettahöfði með sléttum klöppum að ofan, sem kallaður er Borg. Við þennan höfða eru fiskimiðin Borgarslóð kennd.
En Borgarslóð heita fiskimiðin í Leirnum þegar komið er þar sem Borgin kemur fram undan Ritunípu. Það eru norðurmiðin, en djúpmiðin eru Grindavíkurfjöllin, við bæina í Njarðvíkum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Annað fiskimið er út af Stakk, nefnist það Rif. Þriðja miðið er beint út af Hellisnípu (í N— A), heitir það Legur. Ef farið er nógu djúpt inn í Leirinn, er hægt að láta öll þessi mið, Rif, Legur og Borgarslóð, renna saman í eitt.

Á myndinni er merkt Keflavíkurborg, rétt suðvestan við Garðveginn, upp af Grófinni. Keflavíkurborg er landamerkjavarða, er markar vesturhorn Keflavíkurjarðarinnar.“ – Ragnar Guðleifsson.

Heimild:
-Faxi, 8. tbl. 01.10.1967, Örnefni á Hólmsbergi, Ragnar Guðleifsson, bls. 1-2.
Faxi

Stekkjarlág

Hólmsberg kallast það svæði sem í daglegu tali er kallað „Bergið.” Keflavíkurbjarg nefnist sá hluti þar sem bergveggurinn snýr að Keflavík.

Hólmsberg

Hólmsberg – brunnur.

Svæðið ofan við smábátahöfnina á sér mikla og langa sögu og kallast Grófin, hefur umhverfið breyst þar mikið á síðustu áratugum. Þar var bryggja áður fyrr, einnig var þar kennt sund þangað til að Sundhöllin var byggð, síðar var þar Dráttarbraut Keflavíkur. Við ofanverða Grófina eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins sem og hús Duusverlsunarinnar. Frá Grófinni liggja gamlar götur til byggðalaganna norðar og vestar
á Rosmhvalanesi.
Nauðsynlegt er að skoða Stóra Skúta en svo nefnist nokkuð stór hellir undir Háabergi, þar hefur verið komið fyrir grillaðstöðu sem þurfti að fjarlægja vegna skemmdaverka!
Síðan er genginn akveginn upp á Bergið sá kafli var kallaður Kartöflugarðarnir og stefnan tekin á Háaberg sem oft er nefnt Hekk eða Hekkið, vegna þess að þegar staðið er í Grófinni sýnist það vera afturendi á bát sem oft var kallað hekk.
Í vestur hlið Háabergs má sjá ummerki eftir mikla steinatöku sem fór þar fram á 19. öld þegar hlaðnir voru miklir grjótgarðar á athafnasvæði Duus.
Gengið er frá Háabergi að Stekkjarlág en svo nefnist lítil kvos áður en komið er út á Brenninýpu.

Hólmsberg

Hólmsberg – drykkjarsteinn.

Nafnið Stekkjarlág ber með sér að þar hafi verið stekkur og má sjá þar rústir, ýmislegt styður þá tilgátu því einstigi sem lá frá Grófinni upp eftir Kartöflugörðunum út á bjargið kallaðist Lambastígur og má ætla að það hafi verið lömb fjáreigenda í Keflavík, sem rekin voru eftir honum til yfirsetu í Stekkjarlág.
Í Stekkjarlág má finna stórt og fallega staðsett grjót sem nefnist Ræðustóll. Skammt ofan við það er drykkjarskál og fallega tilhöggvinn ferkantaður brunnur enn ofar.
Áfram er gengið út á Brenninýpu. Svæðið dregur nafn sitt af brennum sem voru kveiktar til þess að vísa skipum inn á Keflavíkina. Þegar haldið er frá Brenninýpu meðfram bergbrúninni er komið á svæði með sléttum klöppum sem halla í sjó fram, þetta klettanef nefnist Hellunef, þar fyrir utan eru Hellumið. Þegar komið er framhjá sléttu klöppunum tekur við lágt berg sem liggur að þröngum bás inn í bergið, sem heitir Kaggabás. Þaðan er stutt ganga að Helguvík en þar hafa farið fram miklir efnisflutningar og eftir stendur ein dýpsta, en tæpast glæsilegasta höfn landsins.
Landamerki Keflavíkur og Garðs eru á Hellisgnýpu þar sem vitinn stendur á berginu skammt norðan Helguvíkur.
Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Stekkjarlág

Stekkjarlág.