Færslur

Holtið
Enn ein gatan í Hafnarfirði sem heitir eftir nálægu kennileiti er Holtsgata.
SvæðiðGatan er nefnd eftir Holtinu, sem byggðin við Selvogsgötu, Hlíðarbraut, Hringbraut og Holtsgötu stendur á. Þó hefur hluta þess verið hlíft. Ástæðan er sú að þar var talin vera álfabyggð. Vilji var í bæjarstjórn að heimila byggð á holtinu, en horfið var frá því þegar aldraðir Hafnfirðingar lögðust gegn því. Þá var ætlunin að gera þar leiksvæði, en einnig var horfið frá því. Ungir íbúar notuðu þó svæðið til leikja og kofabygginga, en aldrei í klettunum sjálfum.
Ein saga, sem líkja má við þjóðsögu, er til um álfa í Holtinu. Gömul kona í húsi er byggt hafði verið á ofanverðum Suðurhamrinum sá álfana. Hún sagði þessa sögu fyrir fjöldamörgum árum, daginn eftir að atburðurinn gerðist.
Þetta mun hafa verið á nýársnótt. Hún hafði sofnað snemma um kvöldið, en vaknað skyndilega um miðnætti. Tunglbjart var. Þegar henni var verið litið út um gluggann er vísaði að Holtinu sá hún, að því er virtist, hreyfing við klappirnar. Þegar hún rýndi nánar út um gluggann og augun voru farin að venjast myrkrinu sá hún hvar litskrúðugt fólk, mjög smávaxið, hafði komið saman framan við klappirnar. Svo virtist sem um “mannfögnuð” væri að ræða. “Fólkið” var glatt, virtist syngja og skemmta sér ágætlega.
Klöpp
Gamla konan horfði á þetta um stund. Þá datt henni í hug að vekja dóttur sína, sem hjá henni bjó, svo hún gæti einnig orðið vitni að atvikinu. Dóttirin varð úrill við rúmraskið, en fylgdi móður sinni að glugganum, rýndi út en varð einskis var. Gamla konan vék henni þá frá og vildi upplifa sýnina að nýju, en nú var allt fjörið horfið sem áður var við klettana í holtinu.
Aldrei varð gamla konan var við mannfagnað á þessum stað eftir þetta.
Unga fólkið, sem lék sér í holtinu, varð sumt hvert vart við ásýnd – eða öllu heldur upplifði þá tilfinningu að betra væri að fara varlega í holtinu, ekki endilega þess vegna heldur og íbúa þess. Sá er þetta ritar er einn af þessu unga fólki, nú orðinn fullorðinn. Enn þann dag í dag gengur hann um Holtið með þeirri varúð og virðingu, sem aðrir ættu að sýna því – þótt ekki væri nema álfanna vegna.

Holtið

Holtið bak Holtsgötu – neðan Hringbrautar.