Tag Archive for: Hópsheiði

Þórkötlustaðir

Ætlunin var að skoða Hópsheiðina ofan við Grindavík með það að markmiði að berja gömul sjómerki augum, sem þar eru, og huga að gömlu þjóðleiðinni milli Þórkötlustaða og Voga. Auk þess var ætlunin að skoða hvernig hraunin liggja þarna ofan byggðarinnar.

Leynishellir

Í fornleifaskráningu (skýrslu) fyrir Suðurstrandarveg eru tilgreind sjómerki í Hópslandi. Þau tvö tilgreindu merki, hlaðnar vörður, rúmlega tveggja metra háar, eru í Þórkötlustaðalandi. Um þær segir í skýrslunni: “ 1. Sjómerki – Úr grjóti, 3,2 x 4 m (A – V) og 2,5 m hátt. Vel hlaðið. 2. Sjómerki – Úr grjóti, 2 x 2 m (A – V) og 2,2 m hátt. Vel hlaðið. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Járngerðarstaðahverfi inn á Járngerðastaðasund.“ Hið rétta er að vörðurnar vísuðu á innsiglinguna inn á Þórkötlustaðasund. Það skiptir nú kannski ekki meginmáli því staðsetningin á þeim er rétt í skýrslunni. Hins vegar er hvorki minnst á Heiðarvörðuna, sem var innsiglingarmerki fyrir Hóp, né aðra sundvörðu, neðst á hraunhæðarbrún neðan við Leyni. Ekki heldur er getið um gamla Vogaveginn, sem lá upp frá bæjunum í Þórkötlustaðahverfi, og upp á Skógfellaveginn sunnan undir Sundhnúk. Auk þess eru ýmsar minjar, hleðslur, í heiðinni eftir refaskyttur, en þær teljast nú vart til fornleifa. Þá er enn ein fornleif í fyrirhuguðu vegstæði, sem ekki er getið um, þ.e. fallega hlaðin refagildra í hrauninu ofan við Sandleyni, í Hraunslandi. Erfitt er reyndar að koma auga á gildruna því hún er samlit umhverfinu og mosavaxin líkt og það.
SjómerkiÍ
 örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hóp er getið um upplandið á fyrirhuguðu göngusvæði: „Svæðið fyrir ofan veginn er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur. Hún er ofan við autasta húsið. Þar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki.“
Í örnefnalýsingu Ara fyrir Þórkötlustaði segir ennfremur: „Land jarðarinnar er frekar mjótt, en nokkuð langt. Nær það til fjalls. Það svæði, sem næst tekur við fyrir ofan túnin er nefnt Hópsheiði, jafnt sá hluti þess, sem tilheyrir Þorkötlustöðum og Hópi. Þetta er hraunfláki allstór, sem nær upp á móts við Húsafjall. En í vesturenda hans eru merkin móti Hrauni og í Melhól, sem er þar vestur af. Rétt vestur af Húsfjalli er smáhraunhóll, sem heitir Grenhóll. Þegar kemur upp fyrir Húsfjall, hækkar landið nokkuð og hraunið hverfur, og nú tekur við landssvæði, sem heitir Vatnsheiði.“
Vogavegur - neðri hlutinnEkki eru allir Þórkötlungar sammála því að öll heiðin hafi nefnuna „Hópsheiði“, a.m.k. ekki sá hluti hennar er liggur upp frá Þórkötlustaðahverfinu. Oftar en ekki var sá hluti nefndur Lágheiði eða bara Vatnsheiði.
Loftur Jónsson skrifaði örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaði. Í henni segir um sama svæði: „Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi. Mitt á milli Skógfella er svonefndur Hálfnunarhóll (í Járngerðarstaðalandi) og er þar talið hálfnað til Voga frá Þórkötlustöðum.“
Hér getur Loftur um Vogaveg og að hann liggi um Leyni áleiðis til Voga, sem reyndist rétt þegar betur var að gáð.
Þegar gengið var um Hestabrekkur kom í ljós tóft úr torfi og grjóti með dyr mót vestri. Bárujárn hefur síðast verið notað í þakið, en ummerki eru um að kviknað hafi í tréverkinu. Hluti tóftarinnar gæti verið gamall, en annað nýrra.
Vogavegur - efri hlutiOfar eru sjómerkin fyrrnefndu. Þau standa enn nokkuð vel, enda hlaðin úr hraungrýti. Annað, hálffallið, sjómerki er neðar á hraunhrygg, sem fyrr sagði. Ekki er að sjá annað á móti því. Ef það hefur verið neðar hefur það væntanlega verið rifið, nema það hafi verið á móti innsiglingarvörðunni ofan við Buðlungavör. Í örnefnalýsingu LJ segir t.d.: 

„Norðaustan við vörina er túnið í Buðlungu og kallað Buðlungudalur. Í suðvesturhorni þess er sundvarða og átti hún að bera í þríhyrnu á svonefndri Brunnskák þegar róið var inn sundið.“
Þá er ekki ólíklegt að þetta merki hafi átt að bera t.d. í Sundhnúk sem merki á sundi.
Vogagötunni var fylgt upp heiðina, alla leið að gatnamótum á Skógfellavegi sunnan við Sundhnúk. Þetta er hin fallegasta gata og sérstaklega greiðfær. Á köflum er hún mörkuð í slétta hraunhellu Sundhnúkahrauns. Þetta er líklega elsta sjáanlega fornleifin í Grindavík. Hraunið sjálft er um 2400 ára og sýnir vegurinn því umferð fólks að og frá Þórkötlustöðum frá fyrstu tíð manna þar. Neðst fer gatan um gróninga Leynis (Vatnshæðarhraun). Fljótlega kemur í ljós hlaðinn ferningslaga garður umleikis matjurtargarða. Innan garðsins er hlaðið umhverfis hellisop (Leynishellir). Hann er ekki stór en þokkalegasta skjól. Þá hækkar landið svolítið og liðast vegurinn áfram um gróið hraun Vatnshæðar, síðan yfir mosavaxið hraun Melhóls. Lyng og annar gróður hefur nú vaxið í veginum. Vatns-hæðarhraunið myndaðist snemma á nútíma. Vatnshæð (Vatnsheiði) er þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.

Gengið

Framundan er varða við veginn. Frá henni liðast vegurinn um sléttar hellur Sundhnúkahrauns, alla leið upp að gatnamótunum fyrrnefndu. Hvergi er yfir hæðir að fara. Varða er um miðjan stíginn. Líklega hafa þar verið gatnamót að Hrauni, yfir norðanverðan Grenhól, niður með Húsafjalli og heim að bæ. Einungis er yfir stutt hraunhaft að fara. Þá er ekki ólíklegt að ætla að gatnamótin gætu hafa verið við gatnamót Vogavegar og Skógfellavegar og þá fylgt innanverðri Vatnshæð (Vatnsheiði) niður með Húsafjallsöxlinni.
Áðurnefndur Melhóll sést að hluta til enn, en hefur látið verulega á sjá vegna efnistöku. Gos úr þessum Melhól, sunnan Hagafells, er ~1800 ára. 

Hleðslur

Úr Vatnshæðinni rann hraunið, sem myndaði Hópsnesið og Þórkötlustaðanesið auk hraunanna austan Grindavíkur. Síðan rann hraun úr Melhól sunnan Hagafells og myndaði m.a. fyrrnefnda hraunlænu til suðausturs er rann til sjávar milli Hrauns og Þórkötlustaða, Slokahraun. Yfir svæðið rann svo Sundhnúkahraunið um 1226.
Það verður að teljast umhugsunarvert fyrir áhugasamt fólk um fornar minjar í umdæmi Grindavíkur að ekki skuli vera getið um svo merkilega fornleif sem Vogaveginn þegar gerðar eru áætlanir um yfirgripsmiklar vegaframkvæmdir á svæðinu.
Loftur Jónsson, sem Grindvíkinga mest hefur skoðað sögur og sagnir (þ.m.t. örnefni) í Grindavíkurlandi, hafði eftirfarandi um framangreint að segja: „
Til að byrja með vil ég taka fram, að ég er einn af þeim sem heyrði aldrei talað um Hópsheiði norðan byggðar í Þorkötlustaðahverfi.  Reyndar tel ég, að Hópsheiði nái til austurs aðeins að hraunbrún norðan-austan við Hestabrekkur.

Tóftin í Hestabrekkum

Ég get skýrt tilurð tóftar úr grjóti efst á Hesta-brekkum. Þegar ég var töluvert innan við fermingu áttu faðir minn og bróðir hans samtals rúml. 100 vetrarfóðraðar ær. Stöðugt þurfti að spara heyin, því grasnytjar í Garðbæ voru ekki einu sinni handa einni kú hvað þá meira. Til þess að leysa þennan vanda leigðu þeir bræður fjörubeit af Hraunsbændum. Ekki máttu ærnar víkja útfyrir ákveðna markalínu. Ég og strákur sem ólst upp í Garðbæ vorum látnir standa yfir fénu um fjöruna. Áttum gott skýli uppi á kampinum þar sem var hvalbakur af togara. (Sennilega Cap Fagnet). Eftir fjörubeitina rákum við ærnar upp á Hestabrekkur og stóðum þar yfir þeim í minnst 2 klst. Stundum rigndi og til að búa til skjól hlóðum við birgi (kofa) nægilega stórt fyrir tvo. Einhvers staðar fengum við járnplötu í þakið og þar með var kominn þessi fíni kofi. Þetta eru fornminjar að vissu leyti, því það eru um 50 ár síðan þetta gerðist.

Tóftin í Hestabrekkum

Ég efast stórlega um að hraunið norðan og austan Þórkötlustaðahverfis hafi komið frá Melhól.  Sunnan og austan Melhóls eru rennisléttar klappir og melar og hvergi tenging við áður nefnt hraun. Efnið í Melhól var allt brunnið gjall sem notað var til ofaníburðar í vegi hér áður fyrr enda er hann næstum horfinn. Ungt fólk í Grindavík veit ekki hvar Melhóll var. Áðurnefnt hraun hlýtur að hafa runnið frá Sundhnúk eða jafnvel frá gýgum sunnan við Stóra-Skógfell.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hóp og Þórkötlustaði.
-Fornleifaskráning fyrir Suðurstrandarveg.Heiðarvarðan