Tag Archive for: Hörsl

Stampahraun

Ætlunin var að ganga upp eftir Tjaldstaðagjá og Haugsvörðugjá að Haug á Reykjanesi og síðan til baka um Hörsl og eldri Stampa. Óvíða eru ummerki skorpuskila Ameríku og Evrópu augljósari en einmitt þarna auk þess sem auðvelt er að staðreyna umbreytingu landsins, bæði gliðnun og misgengi. Einnig var ætlunun að kíkja upp í Hreiðrið, fallegan klepragíg á Rauðhólum milli Sýrfells og Sýrfellsdraga á mörkum Hafnahrepps og Grindavíkur. Mörkin liggja um Haugsvörðugjá.

Í Sýrfellshrauni

Fyrirhuguð er lagning háspennulínu með tilheyrandi möstrum milli Svartsengislínu og Reykjanesvirkjunnar um Haugsvörðugjá og niður með Sýrfelli með tilheyrandi sjónspillingu. Ferðamálasamtökin og Fornleifavernd ríkisins lögðust ekki gegn línulögninni vegna þess að „hún hefði ekki áhrif á ferðamenn og að engar fornleifar væru að finna á svæðinu“. Ætlunin var m.a. að meta staðreyndir þessa.
Byrjað var á því að klifra upp í Hreiðrið og skoða gíganna. Sýrfell er einungis 96 hæst m.y.s. Austan við það er Sýrfellshraun, Stampahraun sunnan þess og Klofningahraun enn austar Stampahraun er einnig suðvestast á Reykjanesinu.
Haldið var eftir landamerkjalínu Hafna og Grindavíkur. Ljóst er að allar borholur Reykjanesvirkjunar nema tvær eru í Grindavíkurlandi.

SýrfellÞann 8. febrúar 1954 var gerður samningur annars vegar milli eigenda og umráðamanna Kirkjuvogshverfisjarða í Hafnarhreppi og hins vegar eigenda Húsatópta í Grindavíkurhreppi. Þau mörk sem samið var um eru þessi: “Lína dregin úr haugum á norðvesturbarmi Haugsvörðugjár beina stefnu á
Stapafellsþúfu á norðausturenda Stapafells, eins og sú þúfa er dregin á korti Zóphóníasar Pálssonar, gerðu 22. september 1953.
Þegar kemur suður undir Sýrfell hafa yngri hraun runnið yfir það, sjá mynd 4.3. Nálægt þeim stað þar sem línuleiðirnar greinast liggur línan yfir Tjaldstaðagjárhraun sem er talið vera 1500 – 1800 ára (Ari Trausti Guðmundsson 2001) og hefur runnið upp að móbergsfjallinu Sýrfelli. Hraunið er úfið og gróft apalhraun, en nokkuð sandorpið þar sem línan fer yfir það. Línan liggur einnig yfir smá totu af Klofningahrauninu sem er sambærilegt apalhraun einnig talsvert sandorpið. Við vesturenda Sýrfells er gígur sem yngra Sýrfellshraun hefur runnið úr (Jón Jónsson 1978).
Reykjanes - kortÞað kom á óvart hversu Stampahraunið er greiðfært eins og það virðist annars illúðlegt við fyrstu sýn. Frá efsta gígnum, stundum nefndur Hörsl, er ágætt útsýni upp að Haugsvörðugjá sem yfir allt undirlendið. Hvorugkynsnafnorðið hörsl er einnig tilgreint í Íslenskri orðabók Eddu og gefin merkingin: ójöfnur, örður á frosnum snjólausum vegi eða annars staðar þar sem farið er. Ásgeir Blöndal Magnússon telur í Íslenskri orðsifjabók (1989:413) að karlkynsorðið hörgull ‘skortur, hörsl, hrjóstur; útjaðar, ystu mörk’ og lýsingarorðið hörgull, sem virðist ungt í málinu, í merkingunni ‘naumur, sem lítið er af’ séu líklega skyld hörgur. Upphaflega merkingu orðsins hörgull telur Ásgeir þá vera ‘grýtt land, hrjóstur’ en að merkingarnar ‘útskikar’ og ‘skortur’ séu afleiddar.

Hreiðrið

Gígurinn Hreiðrið.


Hörsl eru líka til á Stapanum. Erlendur Magnússon á Kálfatjörn Þarna – hjá Grímshól er Vogastapi hæstur, lækkar aflíðandi. Til landsins er er standberg í sjó fram. Vegur liggur suðvestur niður Hraun á sögulegum tíma á ReykjanesskagaGrynnriskoru, í gömlum ritum nefnd Kolbeinskora – Þar eru mörk milli Vatnsleysustrandar og Njarðvíkurhrepps. – Úr Grynnriskoru var farið yfir hæðarbungu og yfir í Dýpriskoru, sem skerts lítið undir?? Stapann. Bilið milli Skoranna heitir Hörsl?? Á því eru 3 smáhæðir, sem eru kallaðar Grynnsta-hörsl? Miðhörsl og Dýpsta hörsl og voru notaðar fyrir mið úti á fiskislóðum.
Stampagígaraðirnar eru a.m.k. fjórar. Elsta gosið er yngra en 8000 ára og það yngsta frá 1226, eins og síðar kemur fram. Svæðið allt er á Náttúruminjaskrá. Skráningin hljómar eins og hér segir: “Reykjanes, Eldvörp og Hafnaberg, Grindavík, Reykjanesbæ, (áður Hafnahreppur), Gullbringusýslu. Mörk liggja úr Mölvík, um 2 km austan við Háleyjabungu, í Þorbjarnarfell og um Lágar og Vörðugjá í Stapafell. Þaðan er bein lína í vestur að eyðibýlinu Eyrarbæ við norðurenda Hafnabergs. Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna. Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn. Hafnaberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.“
Stampahraun á Reykjanesi (KS)

Orðið stampur er líklega tökuorð í íslensku, sbr. þýska mállýsku, þar sem stampf merkir ‘kornmælir’. Það merkir í íslensku ‘bali, bytta’, ‘smájarðfall, pyttur’ en einnig ‘hóll, klettur eða sker’ eitthvað sem líktist stampi. Stampur er grasi gróin hvilft eða skál í Hofi í Mjóafirði, en í Snæhvammi í Breiðdal er Stampur sker og í Sandvík í Norðfirði er nafnið um klett í sjó, sem er stamplaga. Flt. Stampar á við graslausa öxl í Vestmannaeyjum, hóla í Hrauni í Ölfusi, gígaröð á Reykjanesi í Gull. og Stampar eru í Stampamýri á Þórisstöðum í Svalbarðsstrandarhr. í S-Þing.
Mest áberandi kennileitið á svæðinu núna er nýtilkomin loftlína. Rýrir hún verulega upplifun ferðamanna á gangi um svæðið. Reykjanesbær, Grindavík, Ferðamálaráð, Fornleifavernd ríkisins og Löggildingarstofa töldu framkvæmdina ekki líklega til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja taldi að meta þyrfi sjónræn áhrif framkvæmdarinnar og Umhverfisstofnun lagði til að kannað yrði með frekari umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og bera saman við lagningu jarðstrengs frá suðvesturenda Sýrfellsdraga. Við því var ekki brugðist og mun varla verða úr þessu.

Haugsvörðugjá og Haugur - Þórðarfell fjær

Í umsögn Fornleifaverndar ríkisins var bent á að í skýrslu framkvæmdaraðila komi fram að ekki hafi verið gerð úttekt á fornleifum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði en það standi til og krefst Fornleifavernd ríkisins að fá þær upplýsingar áður en endanleg umsögn er gefin. Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að fornleifafræðingur hafi skoðað svæðið í júlí 2004 og að hans niðurstaða sé að engar vísbendingar hafi fundist um fornleifar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Fornleifavernd ríkisins var send framangreind niðurstaða fornleifafræðingsins og í frekari umsögn stofnunarinnar kemur fram að stofnunin telji að framkvæmdin skuli ekki háð mati.
Fornleifafræðingurinn, sem á að hafa tekið út svæðið, virðist ekki hafa gengið um Sýrfellshraun og Haugsvörðugjá því þar er bæði að finna gamlar vörður og hleðslur. Auk þess varða landamerkjavörður mörk Hafnahrepps og Grindavíkur. Ein slík er t.a.m. í Haugsvörðugjá, skammt frá einu línumastrinu.
Gengið var niður Tjaldstaðagjána með stefnu á upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Náttúruminjaskrá, 1996.
-Erlendur Magnússon Kálfatjörn.
-Ásgeir Blöndal Magnússon, Sifjaorðabók.
-Örnefnastofnun Íslands.

Tjaldstaðagjá og Stampar