Færslur

Hrafnabjörg

Ætlunin var að ganga í svonefnt Fornasel norðan Arnarfells, en þar ku hafa verið forn selstaða frá Þingvallabænum.
Fornasel-22Þá átti að halda upp með ofanverðri Hrafnagjá að Rauðhól, en grunur er um að þar sunnan hólsins kynnu að leynast mannvistarleifar. Loks átti að ganga inn með vestanverðum Hrafnabjörgum að svæði sem ekki ólíklega kynni að geyma leifar Hrafnabjarga-bæjarins hins forna.
Fornasels er getið á landakorti og er það staðsett norðan undir Arnarfelli norðaustan Þingvallavatns. Þegar gengið var áleiðis að selinu var komið inn á gamla götu er lá áleiðis að Arnarfelli. Gatan var augljós þar sem sem hún kom undan kjarrinu. Selstígurinn lá af henni niður undir gróinn bakka og að seltóftunum ofan vatnsbakkans. Beint undir þar sem stígurinn kemur niður er ferhyrnd hleðsla, gróin. Í Fornaseli eru augljóslega bæði eldri og nýrri seltóftir. Þær eldri eru sunnan þeirra nýrri. Í þeim sést móta fyrir a.m.k. tveimur rýmum og virðast þau hafa verið óreglulegri en sjá má í nýrri seltóftunum. Í þeim eru fjögur rými; eldhús vestast, baðstofa og búr og hliðarrými austast. Gæti hafa verið fiskgeymsla. Stekkurinn er suðaustan við selið og sést móta fyrir honum.
Fornasel-26Þegar nýrra selið er skoðað má telja líklegt að það hafi verið byggt af sama aðila og Sigurðarsel þarna norður af, en stærð þess og gerð virðist svo til nákvæmlega eins. Þessar tvær selstöður hafa þá líklega verið í notkun samtímis, enda virðast gróningarnar í tóftunum nánast eins í þeim báðum.
Þá var haldið upp með ofanverðri Hrafnagjá, framhjá Svínhólum og norður Hlíðarveg neðan Hlíðargjár. Glögg augu komu fljótlega á stíg upp í og yfir gjána. Honum var fylgt áleiðis að Hrafnabjörgum. Svo heppilega vildi til að gatan leiddi þátttakendur beint að hinum fornu rústum Hrafnabjargabæjarins. Þar mátti enn sjá hleðslur í veggjum og a.m.k. þrjú rými, hluti af garðhleðslu og brunn. Bæjarstæðið er á fallegum stað, snýr mót suðri með útsýni yfir að fjallinu tignarlega.
Hrafnabjorg-24Sigurður Vigfússon skrifaði m.a. eftirfarandi í Árbókina 1880-1881: “Vestr frá Hrafnabjörgum sést votta fyrir gömlum bæjarrústum; þar vottar og fyrir því, að tún hafi þar getað verið, og þar er gjóta eða hola, sem litr út fyrir að hafa verið brunnr. Í Ármannssögu er talað um bæ undir Hrafnabjörgum.” Brynjúlfur Jónsson getur um rústina í skrifum sínum í Árbókinni 1905: “Sé á hinn bóginn Hrafnabjargarústin hin rétta Grímsstaðarúst, þá virðist orðunin: »ok svá til Grimsstaða« vera ofaukið í frásögninni um ferð Indriða. Og víst er um það, að úr því Indriði fór Jórukleif, þá var beinna fyrir hann að fara ekki um Grímagil, heldur vestar. Og að Grímsstöðum átti hann varla erindi, úr því viðkomandi fólk var alt burt þaðan.

Hrafnabjorg-25

En hugsanlegt er, að söguritarinn hafi ekki athugað þetta, og því talið víst, að Indriði kæmi að Grímsstöðum áður hann fór vestur. En líka getur verið, að Grímastaðir hafi þá verið bygðir og Indriði farið þar um af einhverjum orsökum, og væri þá að eins stafvilla í sögunni: »til Grímsstaða«, i staðinn fyrir: »til Grímastaða«, eða enn heldur: til »Grímarsstaða«, sem að öllum líkindum er upprunanafn þessa býlis. Þannig hneigist eg helzt að þeirri ætlun, að Grímsstaðir, þar sem Grímur lítli bjó, hafi verið undir Hrafnabjörgum.”

Raufholl

Eftir að hafa skoðað rústirnar var kíkt á Prestastíginn, en hann liggur framhjá tóftunum með stefnu til norðurs og suðurs. Presthóll sést ekki frá bæjarstæðinu. Um Prestastíginn skrifaði Brynjúlfur: “Forn vegur liggur yfir ofanvert Þingvallahraun. Hann liggur frá Reyðarmúla (nú Reyðarbarmi til norð-vesturs yfir Hrafnabjargaháls, ofan af honum skamt vestur frá Hrafnabjörgum, norður hjá bæjarrústinni, sem þar er og svo þvert yfir hraunið til Ármannsfells og kemur á þjóðveginn litlu fyrir neðan Hofmannaflöt. Þessi vegur heitir Prestastígur. Er sagt að prestar af Vesturlandi hafl oft farið hann í Skálholtsferðum sínum. Og svo er að sjá, sem Sturla Sighvatsson hafi farið hann, er hann fór Apavatnsför. Það er miklu beinna en að fara um Þingvelli. En mjög er þessi leið ógreið víðasthvar, svo mjó að eigi getur farið nema 1 hestur í senn og að því skapi er hún grýtt. En hvar sem hún liggur um greiðfæra bletti, verður hún að mörgum og djúpum götum. Þar af sést, að allmikil umferð hefir verið þar fyrrum. Nú er Prestastígur ekki notaður.”
Í bakaleiðinni var gengið um Gildruholt með viðkomu í Rauðhól. Líklegt má telja að hljóðvilla hafi breytt nafninu á einhverju stigi því líklegra er að hann hafi heitið Raufhóll. Í hólnum er varðað skjól. Engin ummerki eftir mannvistarleifar var hins vegar að sjá sunnan undir hólnum, nema ef vera skyldi Gjábakkafjárskjólið.
Tækifærið var notað til að hnitsetja Hrafnabjargagötuna.
Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Heimildir m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, 1880-1881, bls. 43.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1905, Brynjúlfur Jónsson, bls. 47.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – uppdráttur.

Hrafnabjörg

Hér á eftir verður fjallað um meint bæjarstaði Hrafnabjarga og Litla-Hrauntúns í Þingvallahrauni. Ýmsar fræðilegar skýringar hafa komið fram á hvorutveggja í gegnum tíðina, bæði frá sjálfskipuðum lærðum með skírskotun til “fræðigreina” sem og bara forvitnum um landsins hagi í gegnum tíðina.

Sleðaás

Þingvallaréttin við Sleðaás.

Að þessu sinni lögðu FERLIRsfélagar land undir fót frá Sleðaási, skoðuðu selsminjar Litla-Hrauntúns sem og Hrafnabjarga í Þingvallahrauni, tóftir beggja bæjanna og nálægar fornar leiðir um hraunið. Hitinn var um 25 °C og nánast logn. Flugan var til óþæginda, en takmarkaði hins vegar ekki áhugan á efninu.

Í Jarðabókinni 1703 fjalla Árni Magnússon og Páll Vídalín um bæina Hrafnabjörg og Litla-Hrauntún í Þingvallasveit í Árnessýslu: “Á Hrafnabjörgum hefur verið kallað norðan undir sjálfum Hrafnabjörgum c: Hrafnabjargarfjalli, eru ummæli að þar hafi verið hálfkirkja eður þriðjúngakirkja.
Sagt er að fyrir pláguna stóru hafi í allri Þingvallasveit verið 50 býli, og að Hrafnabjörg hafi þá staðið í miðri sveit (fyrst ritað Fífilvellir, en breytt af Árna í Fíflavellir).”

Grímastaðir

Grímastaðir – uppdráttur BJ.

“Vestur frá Hrafnabjörg sést votta fyrir gömlum bœjarrústum; þar vottar og fyrir því, að tún hafi þar getað verið, og þar er gjóta eða hola, sem litr út fyrir að hafa verið brunnr. Í Ármanns sögu er talað um bœ undir Hrafnabjörgum. Það er kemur til ákvæðis sögunnar „suðr frá Klyftum”, þá ætti það jafnvel betur við, að þetta væri hinir fornu Grímsstaðir, enn þetta verður ekki ákveðið. ” (Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 43.)

“Kluftir (sandkluftir) eru milli Ármannsfells og Mjóufjalla, Suður frá Kluftum er skógi vaxið hraun til Hrafnabjarga. En það hraun er vatnslaust og því eigi byggilégt.
Í Hraunjaðrinum við Hrafnabjörg er þó á einum stað brunnur af náttúrunni, þ.e. hraunhola með vatni, sem sjaldan þrýtur. Og hjá henni er forn bæjarrúst. Hún er að vísu nokkuð óglögg; þó má sjá, að í henni eru 2 miðgaflar, er skipta henni í 3 herbergi, sem hvert um sig er nál. 3 fðm. langt. Hin liggur nál. frá austri til vesturs og hefir vestasta herbergið dyr á vesturenda, en hin sýnast að hafa dyr á suðausturhliðinni. Breiddin á tóftunum er nál. 3 fðm. Við norðurhliðina vottar fyrir annari tóft, er einnig hefir dyr á vesturenda. Norðanmegin við þær er lítil tóft með dyr mót norðri. Svo sem 20—30 fðm. norðar er sérstök tóft, talsvert minni. Hún er tvískift, og er það glögt, að miðgaflinn er dyvalaus. Hefir austurherbergið dyr á suðausturhlið, en hitt á vesturenda. Lengd hvors um sig er nál. 2x 1/2 fðm., breiddin um 2 fðm. Þetta gæti vel verið heimahof. Stekkur gæti hún raunar líka verið, en er þó of lítil til þess á þessum stað; því hér verður að gera ráð fyrir mörgu sauðfé; tún hefir ekkert verið og þá ekki heldur kýr.
Önnur forn bæjarrúst er í hrauninu langt suðvestur frá Kluftum. Þar heitir Litla-Hrauntún. Eigi sér þar vatnsból og eigi er þar heldur túnstæði. Það kæmi nú heim við hinn fyrtalda stað í Harðarsögu (k. 5.) að Grímsstaðir, Þav sem Grímur litli bjó, hafi verið á öðrum hvorum þessum stað, og þá helzt á bænum við Hrafnabjörg. Og á því máli er Sigurður Vigfússon í Árb. 1880—1, bls. 43. (Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904, Brynjúlfur Jónsson, bls. 44-45.)

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – uppdráttur BJ.

Hrauntún hefur verið kallað örnefni eitt í skóginum, sem munnmæli eru að bygt hafi verið fyrir pláguna, meinast síðan í plágunni í eyði lagts hafa og allajafna síðan í aun verið. Hefur hjer í þessu takmarki selstaða verið frá Þingvöllum svo lángt fram sem menn til muna og er enn nú, og vita menn ekkert hjer um að undirrjetta.
Anað Hrauntún hefur verið kallað verið í skóginum í norðaustur frá þessu og skamt eitt þr frá, og sjer til girðinga svo sem af túngarði. Meinast þetta hrauntún eins bygt verið hafa fyrir pláguna sem hið fyrra, en hver bæði Hrauntúnin hafi undir eins bygð verið, eður hafi bærinn verið fluttur verið og bíhaldið svo nafninu, það hafa menn ekki heyrt, og meinast þetta Hrauntúnið með sama móti eyðst hafa í plágunni sem hið fyrra. Hjer um vita menn ekki heldur framar að segja.” (Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 45.)

Í BA-ritgerð Gunnars Grímssonar í fornleifafræði; “Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum”, árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi: “Þingvellir eru einn merkasti sögustaður Íslands. Þar var alþingi háð frá um 930 til 1798 eða í hartnær átta aldir. Fyrsti þjóðgarður landsins var stofnaður á Þingvöllum. Voru lögin um þjóðgarðsstofnun samþykkt 1928 og tóku þau gildi 1930 þegar haldið var upp á þúsund ára afmæli alþingis. Íslenska lýðveldið var formlega stofnsett á Þingvöllum 17. júní 1944 (Björn
Þorsteinsson, 1986). Þingvellir voru samþykktir á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 vegna sögu og fornleifa staðarins auk gildis þeirra sem „helgistaðar þjóðarinnar“ (UNESCO, 2004).
Þingvellir
Þrátt fyrir langa sögu og miklar minjar hafa fornleifarannsóknir innan þjóðgarðsins á Þingvöllum verið færri en ætla mætti. Fjölmargar minjar hafa verið skráðar innan þinghelginnar (Sigurður Guðmundsson, 1878; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Guðmundur Ólafsson, 1986; Margrét H. Hallmundsdóttir, óútgefið) en lítið hefur verið um eiginlega fornleifauppgrefti, sem hafa flestir verið tiltölulega smáir í sniðum (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1922, 1945; Adolf Friðriksson o.fl., 2006; Orri Vésteinsson, 2004; Margrét H. Hallmundsdóttir og Hansen, 2012). Rannsóknirnar hafa þá mestmegnis beinst að minjum innan þinghelginnar en ekki hefur verið fjallað eins mikið um minjar utan hennar, sem eru leifar eyðibyggðarinnar á Þingvöllum. Eyðibyggðarinnar er helst getið sem eins konar viðauka við umfjöllun um alþingisstaðinn (Sigurður Vigfússon, 1881; Matthías Þórðarson, 1945) en hún er sjaldan í aðalhlutverki (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og heildstæða samantekt vantar. Aðeins hefur verið grafið á einum stað í þjóðgarðinum utan þinghelginnar, svo vitað sé (Brynjúlfur Jónsson, 1895). Hugmyndir um eðli og umfang eyðibyggðarinnar á Þingvöllum eru því langt frá því að vera fullmótaðar.

Helstu ritheimildir sem stuðst er við eru Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Árnessýslu (2. bindi, JÁM II), sóknarlýsing Þingvalla árið 1840 (Björn Pálsson, 1979), rannsóknarferð Brynjúlfs Jónssonar fornfræðings um Árnessýslu árið 1904 (Brynjúlfur Jónsson, 1905) og Þingvöllur – Alþingisstaðurinn forni eftir Matthías Þórðarson þjóðminjavörð frá 1945 (Matthías Þórðarson, 1945).
Örnefni eru einnig afar mikilvægar heimildir í þessari ritgerð en helstu heimildarmenn í þeim efnum eru Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni (1932, 1939) og Pétur Júlíus Jóhannsson frá Skógarkoti (1983). Pétur merkti á sjöunda hundrað örnefna inn á loftmyndir á 9. áratug seinustu aldar ásamt því að skrifa ritgerðina Þingvallaþankar (Pétur J. Jóhannsson, e.d.). Framlag Péturs er ómetanleg heimild um sögu Þingvallasveitar. Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður hefur tekið saman örnefnaskrár Péturs, Ásgeirs auk fleiri heimildarmanna í sérstaka örnefnaskrá þjóðgarðsins og afhent Landmælingum Íslands, sem hefur gert þau aðgengileg.

Prestatígur

Prestatígur um Þingvallahraun – ÓSÁ.

Í Jarðabókinni er skrifað um tvö Hrauntún í Þingvallasigdældinni. Í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 er Hrauntúnið síðarnefnda sagt „suður af Mjóafelli“ og kallað Litla-Hrauntún, til aðgreiningar frá hinu fyrrnefnda (Björn Pálsson, 1979, bls. 183) sem var þá komið í byggð á nýjan leik. Litla-Hrauntún á sér enga sögu og féll því í skuggann af Grímsstöðum og Hrafnabjörgum hjá fornfræðingum. Sigurður Vigfússon (1881) minnist þannig ekki einu orði á eyðibýlið. Brynjúlfur Jónsson tileinkar Litla-Hrauntúni fjórar setningar í lok umfjöllunar sinnar um Hrafnabjörg en þar er honum mest umhugað um staðsetningu hinna fornu Grímsstaða.
Á 20. öld er Litla-Hrauntún merkt inn á mismunandi stöðum á kortum en aldrei sérlega nákvæmlega. Guðmundur Davíðsson, sem síðar varð fyrsti umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, hefur á orði í dagblaðsgrein hvað honum þyki „óviðfelldið“ hve mikið finnst af röngum örnefnum á korti dönsku herforingjastjórnarinnar; bæði séu nöfnin „afbökuð og færð úr stað“ að hans mati (Guðmundur Davíðsson, 1921, bls. 1). Guðmundur segir Litla-Hrauntún vera „[…] langt norður á Þingvallahrauni, u.þ.b. mitt á milli Ármannsfells og Hlíðargjár“ (1919, bls. 67).

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; selstaða – uppdráttur ÓSÁ.

Í annarri dagblaðsgrein bætir Guðmundur við að Litla-Hrauntún sé í útjaðri skógarins og þar eru tóftir tveggja fornra bæjarstæða, sem heita hvort tveggja Litla-Hrauntún (1934, bls. 54). Ásgeir Jónasson frá Hrauntúni segir Litla-Hrauntún sunnan á Mjóafellshrauni og þar sjáist „auðsjáanleg tóftarbrot og grasblettur“ (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 151). Pétur J. Jóhannsson frá Skógarkoti segir Litla-Hrauntún skammt austan Víðivalla, sem eru við rætur Ármannsfells. Samkvæmt Pétri liggur leið fram hjá bæjarrústunum yfir Prestastíg (Gunnar Þórisson og Pétur J. Jóhannsson, 1983, bls. 182) en almenn málvenja á Þingvöllum er að kalla stíg aðeins þann hluta leiðar sem liggur yfir gjá. Því er ekki útilokað að fleiri en ein leið liggi yfir sama svokallaða Prestastíg, sem fer yfir Hlíðargjá. Í ritgerð sinni Þingvallaþönkum segir Pétur ennfremur að Litla-Hrauntún sé á milli gömlu og nýju sauðfjárveikigirðinganna (Pétur J. Jóhannsson, e.d., bls. 14). Nákvæmasta lýsingin af rústum Litla-Hrauntúns kemur frá Matthíasi Þórðarsyni þjóðminjaverði en hann lýsir þeim svo árið 1945: “Nyrzt er Hrauntún, nefnt Litla-Hrauntún. Sér þar fornar tóftir á 3 stöðum, og kemur það nokkurn veginn heim við frásögn Árna Magnússonar í jarðabók hans […] Sjá má greinilega hvort-tveggja bæjarstæðið, sem átt er við, og eru á hinu fyrra nýlegri tóftir, enda seltóftir frá síðari öldum, um 100 m. eru í milli. Á eystri staðnum er ein fornleg bæjartóft, sem skipt er í þrennt. – Um 40 m. fyrir norðan vestari tóftirnar eru hinar þriðju; aflöng, ferhyrnd tóft, mjög fornleg, skiptist í tvennt, og 6 m. fyrir vestan hana hringmynduð tóft. Sennilega hefur hér verið sel. – Það er lítt hugsanlegt, að hér hafi verið 2 byggð býli samtímis, en séu hér raunar 2 bæjarstæði, mun síðari bærinn hafa verið byggður einhvern tíma eftir að hinn fyrsti hafði farið í eyði. (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 81–82).

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún – bæjarstæðið.

Hér er líklegt að nafngiftir Hrauntúns og Litla-Hrauntúns hafi haft áhrif á lýsingar”.
Guðmundur Davíðsson og Matthías Þórðarson gætu hafa túlkað texta Jarðabókarinnar sem svo að verið sé að lýsa tveimur Hrauntúnum á einum stað og túlka því Litla-Hrauntún sem tvíbýli. Einnig er óvíst hvort það sem Kolbeinn Guðmundsson (1952) kallar Gamla-Hrauntún eigi við um Litla-Hrauntún eða hitt Hrauntúnið, sem aftur byggðist upp á 19. öld (sjá bls. 27).
Auk þess segist séra Guðmundur Einarsson, sem var prestur á Þingvöllum árin 1923–1928, hafa séð skálabyggingu fornmanna „[…] norðaustur í hrauninu frá Hrauntúni að sjá“, sem hann telur „víst að sé innan girðingarinnar“ (Guðmundur Einarsson, 1938). Ef meint skálarúst Guðmundar er innan gömlu girðingarinnar (sem nú hefur verið breytt í reiðgötu) gæti hún ef til vill verið af hinu svokallaða Gamla-Hrauntúni, eða verið allt annað, óþekkt bæjarstæði.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; bæjarstæðið.

Einnig gæti Guðmundur hafa átt við rústir Gamla-Stekks, sem er sagður skammt austan Hrauntúns (Ásgeir Jónasson, 1939, bls. 156). Ef skálarúst Guðmundar er ekki innan gömlu girðingarinnar (og er í raun skálarúst) eru líkur til þess að hún sé í Litla-Hrauntúni.
Hópurinn Ferlir leitaði að Litla-Hrauntúni og staðsetti árið 2011 meintar rústir norðan yngri girðingarinnar, við leið sem liggur yfir Hlíðargjá og er líklega svonefndur Prestavegur eða Hrafnabjargavegur (Ómar Smári Ármannsson, 2011a). Hekla Þöll Stefánsdóttir, þá landvörður á Þingvöllum, gekk skipulega um landsvæðið austan Víðivalla og norðan yngri girðingarinnar 2013 án þess að koma auga á neitt (Einar Á. E. Sæmundsen, munnleg heimild, mars 2017). Sá sem þetta skrifar gekk í landvörsluvinnu sjálfur skipulega um landsvæðið sunnan girðingarinnar í apríl 2017 í leit að Litla-Hrauntúni, án árangurs.
Nokkur óvissa ríkti um staðsetningu Litla-Hrauntúns: rústirnar eru jafnt sagðar norðan þjóðgarðsgirðingarinnar og sunnan hennar og einnig við leið sem liggur yfir Hlíðargjá um Prestastíg. Svæðið þar sem Ómar Smári Ármannsson merkir Litla-Hrauntún var kortlagt með flygildi í júlí 2017 en þar var ekki hægt að koma auga á rústir á loftkorti og yfirborðslíkani.

Litla-Hrauntún

Litla-Hrauntún; bærinn.

Til að taka af allan vafa um staðsetningu Litla-Hrauntúns voru um 3,2 ferkílómetrar lands kortlagðir báðum megin yngri girðingarinnar sem og sunnan undir Mjóafelli snemma sumars 2018. Miðað var við lýsingu Matthíasar Þórðarsonar (1945, bls. 81–82) að mannvirkin væru á þremur stöðum, þar sem 100 metrar væru milli fyrsta og annars staðarins og sá þriðji 40 metrum norðan hins fyrsta. Slíkt bar góðan árangur, því við einn grasblettinn í hrauninu sunnan girðingarinnar mátti greina daufa ferhyrnda upphækkun sem líktist mannvirki og út frá henni var hægt að staðsetja allar rústir Litla-Hrauntúns.

Litla-Hraunntún

Litla-Hrauntún; seltóft.

Rústin sem sást fyrst er sú, sem Matthías Þórðarson kallar „seltóftir frá síðari öldum“ en segir þær „bera nú með sér, að þar hafi ekki verið sel æði-lengi“ (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 81). Rústin situr ofan á lágri hæð og um 20 metrum suðvestar er grasblettur, sem Ásgeir Jónasson (1939) hefur eflaust átt við. Mögulega gæti þetta stutt túlkun Matthíasar Þórðarsonar að þarna sé sel. Fleiri minjar gætu leynst í nærumhverfi „seltóftanna“. Um 115 metrum austan „seltóftanna“ er rústin, sem Matthías Þórðarson kallar „fornlega tóft“ og segir skiptast í þrennt (mynd 24, miðdálkur). Ekki er auðvelt að færa rök með eða á móti Matthíasi þar sem rústin er mjög gróin og norðurhluti hennar virðist vera kominn undir birkirunna. Trjágróðurinn gerir það einnig að verkum að erfitt er að átta sig nákvæmlega á stærð rústarinnar en hitamyndavélin gat greint hitaójöfnur í gegnum laufskrúða
trjánna. Þriðji minjastaðurinn er um 40 metra norðan „seltóftanna“ og þar eru a.m.k. tvær rústir. Sú stærri er aflöng og tvískipt, snýr SA–NV og er kölluð „mjög fornleg tóft“ af Matthíasi Þórðarsyni.

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg; bærinn.

Bærinn undir Hrafnabjörgum, sem er jafnan einfaldlega kallaður Hrafnabjörg líkt og fjallið sjálft, varð síðar að yrkisefni í Ármanns sögu yngri, sem er samin á seinni hluta 18. aldar upp úr Ármanns rímum. Þar sem Hrafnabjörg eru ekki nefnd í rímunum er vel hugsanlegt að höfundur Ármanns sögu hafi tekið sér skáldaleyfi með bæinn, sem er þá kominn vestur undir Skjaldbreið. Þar er Hallketill nokkur, leysingi Ketilbjarnar gamla, sagður búa en hann flutti þangað eftir að honum þótti of þéttbyggt í Laugardal (Íslendinga sögur XII, bls. 423).
Í sóknarlýsingu Þingvalla 1840 er bærinn sagður vestan Hrafnabjargafjallsins og þá höfðu munnmæli Jarðabókarinnar um hálf- eða þriðjungakirkju þróast upp í stæðilega kirkju, sem þótti „ekki all-lítil“ (Björn Pálsson, 1979, bls. 186, 192).

Þingvallahraun

Vörður á Klettaborg í Þingvallahrauni.

Matthías Þórðarson lætur sér fátt um finnast um kirkjumunnmæli í kringum tvískiptu tóftina, sem honum finnst „allsendis ósennileg“ en hann lýsir Hrafnabjörgum svo: “Þá er bæjarstæði fornt skammt í útnorður undan Hrafnabjörgum. […] Aðalbæjartóftin skiptist í þrennt. Við norðurhlið hennar vottar fyrir annarri tóft, og hinni þriðju norðan við hana. Um 50 m. norðar er enn tvískipt tóft. (Matthías Þórðarson, 1945, bls. 82).
Líkt og með Litla-Hrauntún hefur bærinn undir Hrafnabjörgum verið staðsettur á margvíslegum stöðum á kortum. Brynjúlfur Jónsson segir Prestaveg (sem hann kallar Prestastíg) liggja norður fram hjá bæjarrústinni (1905, bls. 47). Guðmundur Davíðsson, umsjónarmaður þjóðgarðsins á Þingvöllum, getur þess árið 1934 að einstaka birkirunnar vaxa í grennd við bæinn en annars er landsvæðið að hans sögn „ömurlegt og óbyggilegt“ (1934,
bls. 53).

Prestastígur

Prestastígur.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1961 heitir bæjarrústin Hranavellir og er sögð „vestur af norðurenda Hrafnabjarga“ (Haraldur Matthíasson, 1961, bls. 132). Kristján Jóhannsson frá Skógarkoti getur þess í örnefnaskrá Grímsnessafréttar að bæjarrústir Hrafnabjarga (sem hann kallar Hrafnabjargavelli) séu í litlu dalverpi fyrir framan örnefnið Kræklubrún („Grímsnesafréttur“, e.d., bls. 3). Bróðir hans, Pétur J. Jóhannsson (1983, bls. 182–183), segir rústirnar skammt norðan hesthústóftar Grímsnesinga, sem er við núverandi sauðfjárveikigirðingu suðaustan Prestastígs. Þess má geta að það er vatnsból við hesthústóftina, sem helst fram eftir sumri. Meintar bæjarrústir Hrafnabjarga voru staðsettar í ferð Ferlis árið 2011 (Ómar Smári Ármannsson, 2011). Voru þar skrásett möguleg mannvirki á tveimur stöðum við hraunkrika, sem virðast hafa að mestu farið á kaf undir malarjarðveg úr
leysingarfarvegi (Ómar Smári Ármannsson, munnleg heimild, 4. október 2019).

Presthóll

Tóft við Presthól við Prestastíg.

Út frá ritheimildum átti eyðibýlið að liggja við Prestaveg upp við örnefnið Kræklubrún. Bæjarrústin átti að vera 15–17 metrar að lengd, með gjótu austan hennar og tvískiptu mannvirki 30–40 metrum norður af bænum. Hrafnabjörg hafa þó verið merkt á margvíslegum stöðum og því ríkti mikil óvissa um hvaða heimildir væru áreiðanlegar.”
Ennfremur: “Á Hrafnabjörgum er fyrst að nefna bæjarrúst, sem snýr hér um bil austur–vestur og er um 16×6,5 metrar að stærð. Á norðurhliðinni er lítil viðbygging, um 4×3 metrar að stærð og trjárunni vex í henni miðri. Útveggir rústarinnar eru augljóslega bogadregnir og af útliti hennar að dæma er hér líklega um að ræða dæmigerða skálabyggingu.
Ekki er þó öll sagan sögð en einnig sést móta fyrir annarri, smærri byggingu innan hennar, u.þ.b. 13×4,5 metrar að stærð og skiptist í þrjú hólf. Hugsanlega eru þetta leifar selstöðu sem hefur verið reist ofan á skálarústinni seinna meir, rétt eins og túlkað hefur verið á Grímsstöðum. Það virðist sem Brynjúlfur hafi teiknað rústirnar upp líkt og þær séu eitt og sama mannvirkið. Ekkert vatnsból sást við rústirnar en lítil gjóta um 20 metrum suðaustan þeirra gæti hafa verið brunnurinn, sem Brynjúlfur Jónsson og Sigurður Vigfússon áttu við. Ekkert vatn var þó í gjótunni og hún var hulin trjágróðri að stórum hluta.
Norðan skála- og seljarústanna svokölluðu er lág brekka og þar var hægt að staðsetja þrjár aðrar rústir á vettvangi. Um 30 metrum norðan bæjarrústanna er tvískipta tóftin, sem munnmæli um hálfkirkju eða þriðjungakirkju í Jarðabókinni eiga við og Brynjúlfur Jónsson stingur upp á að væri annaðhvort heimahof eða stekkur. Ekki er minnst á hinar tvær smátóftirnar í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og Matthíasar Þórðarsonar. Báðar þeirra virðast hringlaga eða ferkantaðar og 3–4 metrar í þvermál. Sú eystri er greinilegri, með inngang til suðurs og frá henni liggur lítill slóði í átt að bæjarrústunum.
Gróft kolalag var í innanrými rústarinnar á um 35 sm dýpi. Sú vestari virðist einnig hafa inngang til suðurs og í innanrými hennar var torfhrun blandað gjóskulögum sem hafa ekki verið greind. Birkirunnar vaxa í veggjum rústanna en ekki í innanrýmum þeirra. Frekari rannsókna er þörf til að meta heildarumfang og hlutverk þessara rústa en trjágróðurinn gæti mögulega hulið fleiri verksummerki.

Í Litla-Hrauntúni eru a.m.k. fjögur mannvirki á þremur stöðum. Á einum staðnum er mannvirki sem skiptist í tvö hólf. Hugsanlega eru þetta seljarústir. Á öðrum staðnum er aflangt, tvískipt mannvirki, sem er mögulega með bogadregna útveggi. Rúmlega hundrað metrum austar er annað aflangt mannvirki.

Á Hrafnabjörgum eru leifar mannvirkis sem hefur einkenni dæmigerðrar skálabyggingar með viðbyggingu á norðurhlið. Innan veggja þess vottar fyrir útlínum annars mannvirkis. Gæti það verið sel, sem hafi verið reist ofan á skálarústunum svokölluðu.”

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg – sel.

FERLIRsfélagar hafa skoðað framangreinda minjastaði í Þingvallahrauni. Sunnan girðingar er umlykur Þingvallasvæðið eru selsminjar, í svonefndu Litla-Hrauntúni. Þar má greina þrjár tóftir og eru um 115 metrar á milli þeirra. Norðan girðingarinnar, við Prestastíg, eru fornar hústóftir og garðar; líklega hið forna bæjarstæði Litla-Hrauntúns. Milli selsins og bæjarins er klettaborg með tveimur vörðum, sem ekki virðast hafa verið fornleifaskráðar. Vörðurnar eru ágætar vísbendingar á milli minjastaðinna fyrrum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Framangreind staðsetning á Hrafnabjörgum er augljós selstaða; þrískiptar tóftir og stekkur. Hliðstandandi lýsingar eru af vatnsstæðinu þar sem nú eru rústir leitarmannakofa frá síðustu öld. Umleikis þær eru einu vísbendingarnar um fornfæri;  tvær mosavaxnar vörður.
Bærin á Hrafnabjörgum var mjög líklega við lækjarfarveg ofan úr fjallinu. Þar sér fyrir tóftum og görðum, sem nú eru að mestu komnar undir sandaura lækjarins. FERLIR teiknaði þær upp fyrir u.þ.b. tuttugu árum, en nú virðast þær nánast horfnar af yfirborði jarðar.

Frábært veður. Gangan tók 8 klst og 8. mín.

Heimildir:
-Jarðabókin 1703, Árni Magnússon og Páll Vídalín, Árnessýsla, bls. 363.
-(Árbók Hins íslenska Fornleifafélag 1880, Um Þingvöll og Þingvallasveit, Sigurður Vigfússon, bls. 43.)
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn í Árnesþingi sumarið 1904, Brynjúlfur Jónsson, bls. 44-45.
-Matthías Þórðarson. (1922). Fornleifar á Þingvelli. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1921–1922, 1–107.
-Háskóli Íslands, Fornleifafræði; Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum með flygildum og hitamyndavél. Ritgerð til B.A.–prófs í fornleifafræði –
Gunnar Grímsson, maí 2020 – https://skemman.is/bitstream/1946/35509/1/Kortlagning_eydibyggdarinnar_a_thingvollum.pdf

Hrafnabjörg

Hrafnabjörg undir Hrafnabjörgum.

Portfolio Items