Tag Archive for: hraunborgi

Katlahraun

Jón Jónsson og Dagur Jónsson skrifuðu eftirfarandi grein um „Hraunborgir og gervigíga“ í Náttúrufræðinginn 1992:
„Hraunborgir er orð sem óvíst er hvort áður hefur verið notað í þeirri merkingu sem við gerum hér. Seinni lið orðsins kannast þó allir við úr örnefninu Dimmuborgir.

Gervigígar við Helgafell
Litluborgir-207Árið 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni. Við höfum skoðað þennan stað nokkrum sinnum, saman eða hvor fyrir sig, og freistum þess nú að gera nokkra grein fyrir því sem þar er að sjá, því ekki er vitað um aðra þvílíka myndun hér í nágrenninu. Svæðið er lítið, mesta lengd þess norður-suður er um 300 m og mesta breidd 250 m. Það er umkringt yngri hraunum og ekki áberandi í landslagi. Ljóst er að þetta hefur orðið til í vatni og við töldum fyrst að þar hefði gosið, en síðar hefur komið í ljós að í heild mun um gervimyndun að ræða, hraun hefur þarna runnið út í stöðuvatn.
Nyrst á svæðinu eru dæmigerðir gervigígir, flöt gjall- eða kleprahraun, flygsuhrúgöld með meira eða Litluborgir-208minna óljósa gíglögun. Hæsti gígurinn á svæðinu er rösklega 3 m há gjall- og kleprastrýta með kísilgúrklessu við toppinn. Annar um 2,5 m hár gígur gæti útlitsins vegna allt eins verið hraungígur en dæmist út sökum umhverfisins. Hrært innan um gjallið er örfínt efni sem sýnir sig vera kísilgúr. Auðvelt er að ákvarða í þessu mikinn fjölda skelja kísilþörunga. Um er að ræða hreina ferskvatnsmyndun. Meðal þörunganna eru Cymatopleura solea, sem er meðal einkennistegunda í Mývatni, en þar er líka Surirella caproni, sem einn mesti sérfræðingur á þessu sviði, F. Hustedt (1930), telur að einkum sé að finna í botnseti stórra stöðuvatna („im Grundschlamm grösserer Seen“). Víst er þó að sú tegund lifir líka í Vífilsstaðavatni og önnur náskyld hefur fundist í lækjarsytru norðan við Leiðólfsfell á Síðu, við rönd Skaftáreldahrauns.

litluborgir-209

Þörungaflóran þykir benda til þess að þarna hafi verið stöðuvatn og á botni þess ekki óverulegt lag af kísilgúr, vatnið ekki djúpt, fremur kalt, hreint og líklega sæmilega næringarríkt. Það hefur verið í dal sem takmarkast hefur annars vegar af Helgafelli en hins vegar af Kaplató og líklega náð suður og vestur að Undirhlíðum þar sem nú er hraunslétta. Það mikið er þarna af kísilgúr að ætla má að vatnið hafi verið þarna nokkuð lengi, e.t.v. nokkrar aldir. Þess má geta að gasblöðrur í hrauninu, sem sumar eru 2-4 cm í þvermál, eru sumar fylltar fannhvítum, hreinum kísilgúr sem hlýtur að hafa lokast þar inni um leið og hraunið rann.

Hraunborgir
litluborgir-210Súlur afmarka misvíðar rásir, hella, sem sums staðar eru á tveim hæðum. Þakið yfir rásunum er um 35-40 cm þykkt, fyrir kemur að það sé tvöfalt. Yfirborð hraunsins er slétt. Súlurnar eru misgildar, holar innan, hraðkældar en ekki glerjaðar. Veggir þeirra eru misþykkir en mest 15-20 cm. Innanmál þeirra er mest um 12-20 cm en fjarar út þegar upp að þakinu kemur. Við teljum súlurnar vera myndaðar kringum gasstraum, væntanlega einkum vatnsgufu, sem frá botni hraunsins hefur ruðst upp gegnum hraunkvikuna. Við það varð svo mikil kæling að rásin stóð eftir sem strompur. Margar súlnanna hafa aldrei náð alveg upp en standa eftir innan um niðurfallið þakið og eru að utan alsettar skriðrákum. Hraunið hefur runnið eftir vatnsbotninum, þar verður kröftug gufumyndun, gufan ryðst upp gegnum hraunkvikuna og þannig verða súlurnar eða stromparnir til eins og áður segir. Hrauntjörn sem fyrst varð til í vatni hefur tæmst að lokum af hrauni, en vatnið hefur væntanlega að mestu eða öllu verið gufað upp um það leyti. Ljóst er að hraunkvikan hefur nánast frá upphafi streymt eftir misvíðum rásum undir yfirborði út frá einni hrauntjörn, sem virðist í fyrstu að miklu leyti hafa verið undir þaki. Þegar svo lækkaði í hrauntjörninni féll þakið niður en eftir stóðu stöplar efst með leifar af þakinu eins og barðastóran hatt. Yfir þröngum rásum hélst þakið.

Dropsteinar
Dropsteinn-221Eins og áður segir bera sumar súlurnar leifar af þakinu en neðan í þeim hanga dropsteinar og þykir það benda til þess að snögglega hafi lækkað í hrauntjörninni. Sums staðar hefur bráðin smitað út úr hrauninu og klætt veggi þrengstu rásanna, eða hangir niður úr þakinu sem mjög snotrir dropsteinar. Í þaki stærstu rásanna eru óverulegar dropsteinamyndanir, sem ná lítið eitt niður eftir veggjum. Gæti þar verið fremur um endurbræðslu að ræða þar eð þakið er mjög þunnt. Gasstraumur yfir rennandi hrauni í þröngum helli gæti nægt til þess.
Það er með hálfum huga að við nefnum þetta, en höldum í vonina að þeir einir heimsæki svæðið sem hafa tilfinningu fyrir og bera virðingu fyrir fínum smíðisgripum náttúrunnar og gera sér ljóst að þeir sóma sér betur á sínum stað en inni í stofum. 

Katlahraun
Á ströndinni suður af Núpshlíð á Reykjanesskaga eru stórskomar hraunborgir sem við ætlum að séu myndaðar á sama hátt og okkar Litluborgir, aðeins í miklu stærri mælikvarða. Þar hefur hraun runnið ofan af landi, út í líklega fremur grunna vík. Talið var, með fyrirvara þó, að hraun þetta væri úr Höfðagígum komið (Jón Jónsson 1978) en fullt svo líklegt sýnist nú að það sé úr Moshólum. Svo mikil eldvirkni hefur í aldanna rás verið á svæðinu þarna ofanvið að ekki er auðvelt að greina milli einstakra hrauna. Verður það spursmál ekki nánar rakið hér. Þarna eru feiknastórar hraunborgir, niðurföll, hraunrásir og hellar.

katlahraun-229

Þverskurður af einni borginni sýnir einkar vel innri gerð hennar. Til beggja hliða eru þétt lóðrétt hraunlög, með vott af láréttri stuðlamyndun, en milli þeirra rás fyllt af losaralega samanruddu grjóti, sem ekki ber merki snöggrar kælingar. Þarna virðist gufa neðanfrá hafa tætt sundur hraunið og hrifið með sér grjótið sem í lokin varð eftir í rásinni. Ofaná eru sundurtættar leifar af þakinu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg., 3.-4. tbl. 1992, bls. 145-149.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.