Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.
Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.
Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.
Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.
Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.