Tag Archive for: hraundríli

Hnúkar

Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.

Hnúkar

Hnúkar.

Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.

Hnúkar

Hnúkar – vatnsstæði.

Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

Hnúkar

Lóa í Hnúkum.

Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Eldvörp

Haldið var eftir gömlum skriðdrekaslóða norður eftir Bræðrahrauni með stefnu á Lat. Suðvestan hans er stærðarinnar hraundrýli, sem FERLIRsfélagar gengu fram á fyrir stuttu síðan. Það er um fimm metra hátt og op uppi í því miðju, en niður í það er u.þ.b. níu metra dýpi.

Hraundríli

Hraundrýli í Eldvörpum.

Gengið var með stiga síðasta áfangann. Drýlið er í einni gígaröðinni nyrst og skammt austan við Eldborgagígaröðina. Svo virðist að um gasuppstreymisop sé að ræða sem og klepragíg af innvolsinu að dæma. Að horfa niður er ekki ólíklegt að þar niðri kynnu að leynast göng, en tilgangurinn með þessari ferð var að skoða innviðina betur. Ekki eru mörg hraundrýlin hér á landi er bjóða upp á þessar aðstæður, en þó má finna slík á Reykjanesskaganum, s.s. í Hnúkunum (mjótt og um 6 m djúpt), á Strokkamelum í Hvassahrauni (minni) og Tröllabörnin undir Lögbergsbrekkunni við Suðurlandsveginn (breiðari). Þá má nefna Trinton við veginn milli Þingvalla og Laugarvatns.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Hraundrýli myndast oft á yfirborðsþekju hrauna við uppstreymisop þar sem lofttegundir, einkum vetni (H2), streyma upp, brenna, og rífa með sér hraunslettur. Hraunsletturnar falla sem kleprar umhverfis opið og mynda þannig holan kleprahrauk sem oft líkist einna helst ofni, samanber erlenda heitið á þessum myndunum, hornito. Það mun vera komið úr spænsku og merkir ofn. Algengast er að hraundrýli myndist nálægt eldgígum t.d. á gígbörmunum umhverfis hrauntjarnir í dyngjum eins og Selvogsheiði. Hraundrýli mynduðust einnig við gosið í Surtsey. Hraundrýli eru nokkuð algeng í hraunum og þá jafnvel langt frá gígunum eins og t.d. Tröllabörn í Elliðaárhrauni (Leitahrauni) neðan Lækjarbotna og í Aðaldalshrauni. Skammt frá þessu tiltekna hraundrýli í Eldborgarhrauni er tiltölulega (m.v. jarðsögulegan mælikvarða) nýslökknaður gígur og virkt hverasvæði.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Stiginn var látinn síga niður í hraundrýlið. Hann náði niður á brún þess, ca. þremur metrum ofan botnsins. Þegar niður var komið sást vel hvernig barmarnir voru; líkir klepragíg að innan, en þó fínlegri. Fjölbreytileg litadýrð blasti við. Ljóst var af ummerkjum að dæma að þarna hafði ekki nokkur lifandi vera stigið fæti áður. Ótrúlegt að á jafnfjölmennu og fjölförnu svæði og Reykjanesskaginn er, skuli enn vera til svæði þar sem enginn virðist áður hafa stigið niður fæti. Í lotningu fyrir að slíkt skuli enn vera fyrir hendi var drýlið nefnt því einfalda, en samt margslungna nafni Ó.
Gjall myndast við kvikustrókavirkni í basískum gosum en hún stafar af miklu útstreymi lofttegunda úr kvikunni efst í gosrásinni.

Tröllabörn

Myndun hraundrýla.

Við loftbólumyndunina í kvikunni léttist hún snögglega og hröðun hennar upp á við eykst mjög þannig að kvikan nær að þeyta kvikustrók hátt til lofts. Nái sletturnar að storkna áður en þær falla mynda þær frauðkennt gjall. Séu sletturnar aðeins hálfstorknaðar fletjast þær út og hrúgast upp sem skánir úr kvikuslettum eða kleprahrúgöld. Í svokölluðum blandgosum er um báðar þessar myndanir að ræða og myndast þá gjall- og klepragígar. Vegna hraðrar storknunar er yfirborð gjalls og klepra mjög glerkennt og storkan er blöðrótt. Þessar myndanir fá oft rauðleitan blæ vegna oxunar járnsambanda í storkunni. (Bætt hefur verið inn á FERLIRsvefinn nýjum tengli; Jarðfræði – glósur, en á honum má finna hinar ýmsu skilgreiningar um jarðfræðileg álitamál).

Eldvörp

Eldvörp – útfelllingar í hraundríli.

Af syllunni, það sem stiganum sleppti, var hægt að fella stærðar stein niður í dýpið fyrir neðan. Með því að halda sér í stigann og stíga á steininn var hægt að komast niður á botn. Þar blasti dýrðin við; opið að ofan og stuttar rásir til hvorrar handar; “Paradís jarðfræðingsins”. Vegna þess að engu hafði verið raskað mátti sjá fallegar brennisteinsútfellingar og stórbrotnar kísilmyndanir á syllum. Þessar myndanir höfðu greinilega fengið að dafna þarna í friði um alllangan tíma. Með því að standa þarna og virða fyrir sér fyrirbærin mátti í raun lesa jarðmyndunarsöguna, án bókastafa.
Stuttar og litlar rásir eru beggja vegna. Í rauninni gleymdist uppopið um sinn þegar jarðmyndanirnar voru skoðaðar. Fjallað hefur verið um göng og stigaverk í Þríhnúkahelli. Hér dygði stuttur stigi til að virða fyrir sér það sama í minni mælikvarða.
Þegar upp úr hraundrýlinu var komið sáust ljósin við Bláa lónið við í austri. Snjór þakti jörð og Þorbjörninn var skyndilega orðinn “gráhærður”. Ljóst er að nýta má betur svæðið í kringum “Lónið”.
Haldið var til baka – með stigann og minningarnar um einstakt hraundrýli í Eldborgarhrauni (Bræðrahrauni).
Frábært veður (miðað við árstíma) – Gangan tók 5 mín, en skoðunin tók tíu sinnum fimm mínútur.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.