Færslur

Þórkötlustaðahverfi

Gengið var um Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Heródes

Heródes.

Árið 1703 voru Þórkötlustaðir eign Skálholtsstaðar. Bærinn hafði selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. Hjáleigur voru; Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Buðlunga og tómthúsið Borgarkot. Ekki er vitað hvar Ormshús eða Borgarkot voru. Áður var hjáleigan kölluð Lundun. Árið 1847 hafði hjáleigan Lambúskot bæst við, en 8. ágúst 1787 og síðan 26. janúar 1791 voru Þórkötlustaðir komnir í þrjá hluta (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). Þríbýli var á Þórkötlustöðum lengst af á 19. öldinni. Heimræði var árið um kring (1703), en enga engjar. Sjórinn gekk á túnið og braut land að framan. Árið 1840 eru túnin stór og slétt, en hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. Þar var og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst á nesinu var fyrrum selalátur frá Þórkötlustöðum. Mikið af landinu er eldbrunnið og bæirnir stóðu austast í landareigninni við sjóinn. Land jarðarinna var frekar mjótt, en nokkuð langt. Lending var dágóð á Þórkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi voru í Nesinu.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Nú eru Þórkötlustaðabæirnir tveir, Miðbær og Vestari-Vesturbær. Áður voru þarna einnig Vesturbær, sem stóð á milli Miðbæjar og Vestri-Vesturbæjar, og síðan Austurbær og Eystri-Austurbær, sem báðir stóðu austan við Miðbæinn.
Áður en Sigmundur Jónasson tók við búi á Þórkötlustöðum á 17. öld voru öll hús á jörðinni skoðuð og metin… “níu vistarverur innabæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, “hornhús”, “hús innar af skála” og eldhús. Útíhús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn fram á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir “trosnaðir” og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skrár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlausar og virðast hvorki halda vatni né vindi.”

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Í rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 segir Brynjúlfur Jónsson að “á Þórkötlustöðum í Grindavík var byggð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Eldfjallaska ofan á gólfskálinni bendir til þess, að bærinn hafi lagst í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má vera að hraunið, sem myndar Þórkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.” Samkvæmt hugmynd Brynjúlfs virðist þarna hafa verið um fornaldaskála að ræða. Nú hefur hlaðan verið rifin og svæðið stendur tilbúið til uppgraftar, þ.e.a.s. ef einhver hefur þá yfirleitt einhvern áhuga á að skoða undirlag svæðisins.

Klöpp

Klöpp – tóftir.

Tóftir eru skammt vestan við Sólbakka. Þær eru nýlegar fjárhúsleifar frá Hofi. Fjárhúsin suðvestan við Vestari-Vesturbæ voru áður fjárhús og fiskverkunarhús frá Vesturbænum. Þar áður voru þarna fiskhús frá Duus-versluninni í Keflavík og Lafollie-versluninni á Eyrabakka skammt vestar. Annars eru þarna gamlir kálgarðar allt um kring. Sunnan við Miðbæinn voru áður fjárhús og saltverkunarhús frá Miðbænum. Austan við þau voru fiskverkunar- og salthús frá Vestari-Austurbæ. Traðirnar liggja þarna niður að sjó milli bæjanna. Vestan í austasta kálgarðinum var fiskverkunar- og salthús frá Eystri-Austurbænum.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Samkvæmt túnkorti frá 1918 var brunnur skammt (40 m) norðan við Miðbæ. Að honum lá gata frá Einlandi. Brunnurinn var notaður af öllum bæjunum. Nú sést móta fyrir brunninum í malbikuðum veginum framan við hliðið að Valhöll (áður en malbikið var endunýjað).
Á milli Valhallar og Miðbæjarins eru tvær bárujárnsklæddar skemmur. Sunnan í syðri skemmunni er hesthústóft. Nyrðri skemman er flór, skv. uppl. Margrétar á Hofi, en sú syðri var ýmist notuð sem fjós eða hesthús.
Kálgarðar eru víða í Þórkötlustaðahverfi, sem fyrr segir. Skv. túnakorti frá 1918 var t.d. kálgarður 50 m vestan við Lambúskot. Garðurinn var frá Eystri-Vesturbæ. Veggirnir hafa verið grjóthlaðnir, þ.e. uppkastið úr túnsléttunni notað til vegghleðslu. Oftast var grjóti, sem týnt var úr móanum, hlaðið í hrauka eða í garða ef því var við komið. Flestar túnbæturnar ofar í hverfinu eru tiltölulega nýlegar því ræktunarmörkin voru til skamms tíma rétt ofan við veginn í gegnum hverfið. Þá var t.a.m. Þórkötludys við mörkin.

Buðlunga

Buðlunguvör.

Klöpp var hjáleiga frá Þórkötlustöðum skv. Jarðabók JÁM 1703. Tóftirnar eru enn greinilegar. Þær eru tvær, báðar vel heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Sunnan bæjartóftanna er tröð, um 10 metra langar, suður á kampinn, sbr. síðargreint (austasta sjávargatan).
Móar voru norðan við Einland. Þar eru nú mikar hleðslur um afmarkaða kálgarða. Bærinn var syðst í görðunum. FERLIR mun fljótlega fara með heimamanni um tóftir Móa. Þá verður rústunum þar lýst bæði vel og skilmerkilega. Þegar Móastæðið er skoðað vakti hleðsla, lík sléttum hól, athygli. Hún er um 10 metrum sunnan við eystri kálgarðaþyrpinguna að Móum, í sléttuðu túni. Þar voru fjárhús.

Klöpp

Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftir eru í túninu austan við Buðlungu. Umhverfis tóftirnar er óslétt tún, en fast sunnan þeirra er stórgrýttur sjávarkambur. Um 6 m austan við tóftirnar er gjóthlaðinn túngarður í norður-suður. Sjávarkamburinn er kominn alveg upp að tóftunum að sunnanverðu.
Í örnefnaskrá AG segir: “Austast á merkjum mót Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndir Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallending, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi”.

Guðsteinn Einarsson segir í lýsingu sinni að “austan við Bótina í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlunguvör.

Þórkötlustaðanesi

Fiskigarðar ofan Kónga.

Meðan árabátaranir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært vera, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.” Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestaði-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austar, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austan við klöppina er lygnara en þar er lendingi í Buðlunguvör.” Engin mannvirki eru þarna við sjóinn önnur en ryðgaðir festarboltar.

Þórkötlustaðahverfi

Sundvarða ofan Þórkötlustaða.

Sundvarðan ofan við Buðlunguvör var neðst í túninu, suðvestur frá húsinu. Sjórinn lagði vörðuna reglulega útaf, en hún var alltaf endurhlaðin á meðan lent var í Buðlunguvör [eða fram til 1929. Buðlunguvör var einkum notuð af Þórkötlustaðabæjunum að sumarlagi]. Nú hefur sjórinn hins vegar tekið vörðuna. Sundvarða í Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfn boðanna dregin.
Fast norðan við bárujárnsskúr austan við Buðlungu er fjárhústóft, sem nú er orðin jarðlæg.
Randeiðarstígur var gata milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hún farin áður fyrr, en aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna”, segir í örnefnaskrá LJ.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Tóftir Hraunkots eru austast í túninu, við túngarðinn. Götur milli Hrauns og Þórkötlustaða lágu í austur-vestur í gegnum hraunið með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir Hraunkotsgötu (sunnar) og Þórkötlustaðagötu (norðar) í hrauninu austan Hraunkots og best í landi Hrauns. Hins vegar eru þær horfnar í túninu vestan kotsins.
Austast á merkjum móti Hrauni er bás inn í klettna er heitir Markbás. Þar utar er tangi er gengur fram í sjó og heitir Slok og upp af honum er Slokahraun. Nafnið er tilkomið af slokrhljóðinu er báran skall undir hraunhelluna á tanganum. Þar ofar er Markhóll, smáhóll upphlaðinn á Leiti milli bæjanna. Þarna eru tveir hólar, grónir í toppinn, alveg á kampinum og er Markhól sá syðri af þeim. Girðing liggur þarna í suður frá Austurvegi með stefnu á hólinn. Umhverfis hólinn er úfið mosagróið hraun. Hann er um 7 m hár og sker sig greinilega frá umhverfinu.
Eyvindarhús voru um 100 m vestan við Búðir. Þar er nú steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Árið 1703 er getið um Eyvindarhús sem hjáleigu. Árið 1918 er einnig etið um Eyvindarstaði sem kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns. Þar stóð síðast timburhús, en það ásamt Miðhúsum var flutt í Járngerðarstaðahverfi um 1950.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen stendur þar sem brunnurinn var.

Tómthúsið Borgarkot stóð fyrir norðan bæinn vestasta. Ekki er vitað hvar býlið var, sem fyrr segir, en líklegt er að það hafi staðið vestan við Valhöll, vestan við Brunnskákina svonefndu. Hún var ofan við Þórkötlustaðbrunninn, sem nú er undir malbikinu framan við hliðið að Valhöll. Hann var fallega hlaðinn, en var fylltur möl til að forðast slysum líkt og títt var um slíka brunna.
Tl fróðleiks má geta þess að þurrabúðir eða tómthús voru reist úr jörðum bæjanna, s.s. Hraunkot úr landi Klappar. Vermönnum var gjarnan leift að byggja sér hús í jarðri bæjanna ef það kom ekki niður á landkostum. Þeir ræktuðu skika umhvergis, endurgerðu húsakostinn og smám saman urðu húsin að kotum. Í rauninni eignaðist þurrabúðarfólkið aldrei skikana, en vegna afskiptaleysis afkomendanna má segja að þegjandi samþykki hafi fengist fyrir eignarhaldinu.
Slokahraun er á merkum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns. Þar eru leifar fiskigarða og það mikið af þeim. Slokahraun er austan við sjávarkampinn frá Þórkötlustöðum. Það er mosagróið apalhraun.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir, en misvel standandi. Hleðsluhæðin er milli 0,5-1,0 m. Garðarnir teygja sig allt austur að Markhól, en eru þá í Hraunslandi.
Á milli Vestari-Vesturbæjar og Miðbæjar eru traðir suður að sjávarkampi. Hlaðnir kálgarðar eru beggja vegna traðanna. Traðrinar eru 30 m langar og um 3 m breiðar, Hleðslurnar eru grjóthlaðnar, en allgrónar á köflum. Traðirnar, eða sjávargöturnar, í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Sú austasta er beint neðan við elsta Klapparbæinn (flóruð), önnur er neðan við Miðbæ og sú vestasta er framangreind. Gamli Klapparbærinn stóð skammt sunnar og austan sjávargötunnar. Tóftir sjást enn.

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar. Sagnir eru um steininn þann að hann megi hvorki færa né raska á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.
Nokkrir kálgarðar eru sunnan Þórkötlustaðabæjanna, flestir hlaðnir. Sunnan þeirra eru fjárhúsin.
Ef við færum okkur svolítið ofar í hverfið verður fyrir Gamla-rétt. Um 350 m norður af bæjarhól í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land er grasbali inn í hraunið. Í honum, við túngarðinn, er hlaðin kró, sem nefnd er Gamla-rétt. Sunnan við balann er sléttað tún, en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins, liggur Austurvegur í austur-vestur. Vel má sjá hann liggja út frá gamla garðhliðinu vestan við Hraun.
Hvammur er um 100 m austan við Efra-Land, fast norðaustan við Þórsmörk.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – ískofi.

Hraunkot er austast við túngarðinn á Þórkötlustaðabæjunum, fast við fyrrnefndar hleðslur í Slokahrauni. Tóftirnar eru á litlum hól austast á túninu upp við túngarðinn. Efst og austast eru tvær tóftir. Grjóthlaðnar tröppur eru niður í garðinn. Vestan við garðinn miðjan er dálítil dæld í túninu. Hraunkot er ágætt dæmi um þurrabúð eða tómhús í Grindavík. Venjulega gekk það þannig fyrir sig að vermaður fékk leyfi til að byggja sér hús í jaðri jarðar, sem hann grjóthreinsaði í kringum, komst yfir hænu, kind eða kú, eignaðist konu, krakka og kött og allt óx þetta upp í kot. Í rauninni áttu hann aldrei blettinn undir húsinu eða í kringum það, en fékk að vera þar ef það truflaði ekki jarðeigandann. Afkomendurnir urðu hins vera ráðríkir á skikann, endurbætu híbýli og bættu við fé.

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Þórkötlustaðahverfi væri lítils virði án Þórkötlu. Þjóðsagan segir að “Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.”
Í örnefnalýsingum segir að “í túninu austur af bæ er sagt sé leiði Þórkötlu.” Samkvæmt lýsingum elstu heimamanna, s.s. Sigurðar Gíslasonar á Hrauni, er það í öðrum (eystri) að tveimur grashólum í túninu austan við Hof. Staðsetningin passar vel við þá sögn að sú gamla hafi viljað láta dysja sig í túninu þar sem sæi yfir sundið (Bótina).

Eyrargata

Eyrargata.

Járngerðardysin mun vera undir veginum við Hlið og Þórkötludys mun vera á framangreindum stað. Sá, sem vildi raska þeirri sögu með einhverjum hætti, þætti hugaður í meira lagi, ef tekið er mið af þeim brögðum er slíkir menn hafa beitt í gegnum aldir.
Þegar litið er á upplandið er fróðlegt að huga að inum gömlu þjóðleiðum. Þar segir m.a. um Skógfellastig eða Vogaveg: “Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima… Dalahraun. Það hraun eru fremur mishæðalítið, nema þar rís norður allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellavegur, stundum nefndur Vogavegur. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi”, segir í örnefnaskrá LJ, “en afleggjari er af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.
Eyrargötunni var fylgt út á Þórkötlustaðanesið. Hún sést sumstaðar enn. Gömul gata, sem enn sést, liggur og áfram vestur af nesinu um norðanvert Strýthólahraun.

Austur af vitanum á Nesinu er Leiftrunarhóll. Framan af honum er Stekkjarfjara. Upp af Stekkjarfjörunni, á milli Leifrunarhóls og Þórshamars, er Stekkjartún… Það er gróið, en grýtt graslendi, mjög óslétt. Það nær að Flæðitjörn. Í Stekkjartúni eru nokkrar tóftir, einhverjar þeirra eru þó ungar frá því búið var Í Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Fiskigarðar á Nesinu.

Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar, Hraungarðar. Þeir eru í úfu hrauni, uppgrónu að hluta. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör, segir í örnefnalýsingu. Garðarnir liggja þarna um allt og virðast ekki fylgja neinu ákveðnu mynstri. Þeir voru hlaðnir úr hraungrýti, fallnir að miklu leyti.
Skotti er nokkur stór pollur ofan kampsins, norðan Nesvarar, og þar noðrur af er hóll, flattur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Krabbagerði er um 70 m austan við rústir Hafnar, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Hóllinn sjálfur er gróinn og allt umhverfis hann, nema til austurs þar sem stórgrýttur kampurinn skríður inn í landið. Hleðslur eru alveg fallnar og virðist sem grjót hafi verið fjarlægt úr þeim. Af þeim má hins vegar sjá hvernig mynstrið var, þ.e. líklega sex aðskildir garðar í austur-vestur.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Nesvör var niður og norðan við Leiftrunarhól, norðan Stekkjarfjöru. Nesvörin var svo nefnd til aðgreiningar frá Buðlungavör. Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll. Þar stendur Sundvarða. Nesvör er u.þ.b. í miðju Þórkötlustaðanesi austanverðu, um 100 m sunnan rústanna af Höfn, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Guðsteinn Einarsson segir m.a. um Nesið: “Meðan árabátarnir voru, var Buðlungavör notuð, alltaf þegar fært var, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var. Þegar vélar komu í bátana var eingöngu lent í Nesinu. Þarna eru steyptar leifar bryggjunnar (reist 1932-3), nú uppfullar af grjóti, sem sjórinn hefur rutt upp í þær.
Látrargötur voru slóðar úr vesturenda Stekkjartúns í Látur. Slóðirnir liggja í grónu túni, en einnig móta fyrir þeim í hrauninu sunnan við túnið. Göturnar eru ekki sérlega djúpar, en afar greinilegar, allt að fjórir paldrar saman.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Framundan Krabbagerði í flæðamálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir, nefndar Draugar. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun og inn undir miðju nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er lægð, sem heitir Gjáhólslægð. Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót. Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Eftir þeim liggur vegurinn um Nesið. Austur af Heimri-bót taka við Vötnin, svartar klappir. Þar rennur ósalt vatn um fjöru.

Látrargötur

Látrargötur.

Brunnflatir voru áður söndugar, en eru nú uppgrónar allt vestur í hraunið. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Í norðurnenda Brunnflata, um 100 m sunnan hraðfrystihússins og um 50 m vestan kampsins, er gróin hringlaga gróp, um 1 m í þvermál. Umhverfis hana er talsvert af grjóti, gróið í svörðin. Óvíst er hvort þetta eru leifar brunnsins því skv. örnefnaskrá var hann við kampinn og má vera að hann sé löngu kominn undir hann. Eftir lýsingum elstu núlifandi manna virðist brunnurinn þó enn vera sjáanlegur ofan við kampinn.
Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata, en lítið markar fyrir henni nú.
Norðarlega í Þórkötlustaðanesi er pípuhlið á veginum sem liggur suður í Nesið. Kálgarðar eru í grónum grýttum tanga, sem gengur þar til austurs.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu, en sósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars, sem er sysða húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við leindinguna í Vörina norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkambinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestur.
Sunnan við Nesvör er gróið en grýtt tún, Stekkjatún. Sunnan og suðaustan við úfið mosagróið hraun. Í hrauninu eru ótal rústir hleðslubyrgja og hleðslugarða. Byrgin virðast vera um 2×2 m að stærð og er skammt á milli þeirra.
Pétur Guðjónsson, skipstjóri, lýsir vel mannvirkjum ofan við Nesvörð í Sjómannablaði Grindavíkur árið 2004. Þar er sérhver ískofi og beitningaskúr tíundaður, lifrabræðslan sem og saltkofar á svæðinu.

Þórkötludys

Þórkötludys.

Kálgarður er sunnan við Þórshamar. Þar er og skrúðgarður. Tóftir eru austan við húsið. Útishúsið stendur þar enn, nokkuð heillegt. Merkasta tóftin er gerði utan um manngerðan hól, sem óvíst er hvað hefur að geyma. Líklegt má telja að þessar minjar sem og þurrkbyrgin í Strýthólahrauni skammt vestar séu með elstu mannvirkjum á Nesinu.
Austnorðaustan við Þórshamar er Flæðitjörn. Meðfram henni sunnanverðir liggur heimreiðin, upphlaðin að hluta, á um 50 metra löngum kafla. Hleðslan er um 2 metra breið.
Minjarnar í Þórkötlustaðahverfi eru “óður um fátækt og óupplýst fólk, sem bjó yfir miklu viti og djúpum tilfinningum.”

Sjá meira undir Þórkötlustaðarhverfi II.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Jarðabók ÁM 1703.
-Fornleifaskráning í Grindavík.
-Jón Árnason IV 231.
-Örnefnalýsing.

Við Þórkötlustaðarétt

Fé við Þórkötlustaðarétt.