1. Keflavík
-Landnámsmenn:
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða. Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum.
-íbúafjöldi
Íbúar í Reykjanesbæ eru um 11 þúsund talsins en bæjarfélagið er meðal þeirra fimm stærstu á landinu. Í Keflavík búa nú um 7600 manns.
-Fiskveiðar og verslun
Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ.
Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn. Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík. Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.
-Bítlabær
Í raun má segja að poppsaga suðurnesja hefjist með hljómsveitinni Hljómum úr Keflavík, og var það seinni hluta ársins 1963.
Vinsælasta hljómsveitin á suðurnesjum á þessum tíma var hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, en það var ansi mikill kynslóðamunur á meðlimum hennar um þetta leyti. Skemmtistaðurinn Stapinn og Ungó voru með vinsælustu samkomustaða unga fólksins hér á árum áður.
-Ljósanótt
Ljósanótt var haldin í fyrsta sinn 2. september árið 2000 og var tileinkuð lýsingu á sjávarhömrum Bergsins en útilistaverkið sem unnið var eftir hugmynd Steinþórs Jónssonar var framlag Reykjanesbæjar til Reykjavíkur, menningarborgar árið 2000.
Ljósanótt markar haustdaga í Reykjansbæ en þá verða ljósin á Berginu kveikt á ný að loknu sumri með tilheyrandi viðburðum.
Segja má með sanni að Ljósanótt sé einskonar áramót Reyknesinga, en hún stendur nú orðið frá fimmtudegi til sunnudags, fyrstu vikuna í september.
-Sameining þriggja bæjarfélaga Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.
Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna. Keflavík var fjölmennasta sveitarfélagið af þessum þremur og á sér verzlunarsögu frá árinu 1590.
-Listaverk
Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.
Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana.
Á varnargarðinum vestan við Grófina má sjá ankeri af Brúarfossi til minningar um “tröllatryggð” skipanna við vöruflutninga milli landa.
-Grófin
Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls. Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.
Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Kefalavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
-Duus hús
Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið (dökk grænt). Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar. Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús (gult), sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.
Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð (rautt), sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fyrst reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þar hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.
-Duus-hús – Grófin
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús (rauð lengja). Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins.
Áfram verður haldið með uppbyggingu Duushúsa en samkvæmt framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir að ljúka verkinu árið 2008. Suðursalur/Gryfjan verður opnaður með formlegum hætti á árinu. Unnið verður að gerð sýningarskrár um Bátasafn Gríms Karlssonar. Nýr starfsmaður verður ráðinn til að hafa umsjón með menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar í Duushúsum. Helstu verkefni felast í umsjón með þeim sýningum sem í húsunum verða og kynningu á þeim sem og móttöku gesta. Lögð verður áhersla á að auka enn frekar menningarviðburði í Duushúsum, m.a. tónleikahald.
Duushúsin standa við smábátabryggjuna í Grófinni og eru röð nokkurra áfastra húsa frá mismunandi tímum, það elsta frá 1877 og það yngsta frá 1970, og einu stöku húsi. Þar er komin vísir að menningarmiðstöð Reykjanesbæjar og búið er að opna tvo sýningarsali í norðurenda húsalengjunnar. Í öðrum þeirra er sýningin Bátafloti Gríms Karlssonar ásamt sjóminjum frá Byggðasafni Reykjanesbæjar og í hinum eru breytilegar myndlistarsýningar á vegum Listasafns Reykjanesbæjar. Í sal Listasafnsins er góður flygill og þar eru haldnir tónleikar.
Sýningarsalirnir eru opnir alla daga frá kl. 13.00-17.00.
-Bryggjuhúsið
er elsta húsið í Duushúsalengjunni og það merkasta. Það var byggt 1877 af Hans Peter Duus, dönskum kaupmanni. Húsið er mjög stórt á þeirra tíma mælikvarða, 250 m2 að grunnfleti og alls þrjár hæðir. Mikið er eftir af upprunalegu efni í húsinu sem eykur varðveislugildi þess. Allar áætlanir miðast að því að gera húsið upp í upprunalegari mynd en þó með það fyrir augum að húsið geti hýst fjölbreytta menningarstarfsemi.
-Bíósalurinn
er byggður 1890. Hann telst einn elsti bíósalur landsins, en sagnir eru um bíósýningar rétt upp úr aldamótunum 1900, og er bíóloftið enn til staðar í salnum. Grunnflöturinn er ca. 160 m2 og er húsið á einni hæð. Ætlunin er að endurbyggja húsið sem bíósal þar sem m.a. verða sýndar myndir sem tengjast hvalaskoðun og öðru sem tengist menningartengdri ferðaþjónustu á svæðinu.
-Gamla búð
stendur stök (rautt), beint á móti húsalengjunni. Hún var byggð árið 1870 af fyrrnefndum Hans Peter Duus og var þar m.a. rekin verslun eins og heiti hússins gefur til kynna. Húsið er helst merkilegt fyrir þær sakir að það hefur haldist að mestu óbreytt frá fyrstu tíð og er ætlunin að gera það upp í upprunalegri mynd. Grunnflötur hússins er er ca. 80 m2, tvær hæðir og lítill kjallari. Hugmyndir um framtíðarnotkun hússins tengjast menningarlífi bæjarins.
-Fischersbúð
var reist árið 1881 (gult) og stendur á horni Vesturgötu og Hafnargötu. Það kom tilsniðið frá Danmörku og þótti á sínum tíma eitt reisulegasta hús bæjarins. Húsið er tvílyft bindingsverkshús með valmaþaksrisi á hlöðnum grunni. Grunnflötur hússins er ca. 170 m2 og er húsið tvær hæðir með risi og kjallara undir syðri endanum. Í þessu húsi var rekin verslun og einnig bjó kaupmaðurinn sjálfur í húsinu. Enn þann dag í dag er rekin þar verslun á vegum Handverksfélagsins Bjargar. Húsið þarfnast verulegrar endubyggingar og mun framtíðarnotkun þess tengjast menningarlífi bæjarins.
-Um að gera að kynna sér hvernig fólk býr, hitaveitu, rafmagn skóla og annað sem ykkur dettur í hug.