Tag Archive for: Hringurinn

Hringurinn

Gengið var í meginminjarnar á Strandarhæð milli Þórustaðaborgar og Hringsins (fjárborg).

Prestsvarða

Prestsvarða.

Haldið var upp frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn með stefnu á Skálholt. Skálholt er flatt og breitt holt ofan við Landakot skamt ofan Strandarvegar. Á holtinu er leifar að þremur vörðum og leifar að litlu grjótbygri með vörðu í. Skammt vestur af Skálholti (ofan við veginn) er fjárhústóft á grónum hól. Skammt ofan við Skálholt er beinhlaðin hleðsla, skjól fyrir refaskyttu. Neðan hennar liggur símastrengurinn til vesturs og austurs. Víða í heiðinni má sjá hlaðið yfir strenginn.

Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í grösugum hól. Þetta er nokkuð heillegt rétt með stórum almenningi efst og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru tvær rústir. Einnig mótar fyrir litlum stekk neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru um nafn hans. Leiðigarður er í borgina úr norðvestri. Erfitt er að mynda alla réttina vegna þess hversu “flatlend” hún er. Gömul gata virðist ligga upp með réttinni að vestanverðu.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Þá var stefnan tekin á grösugan hól nokkru suðvestar. Holtið þar nefnist Borg. Á holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið. Litlu neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Vatnsstæði í klöpp, sem vera á ofan og austan við efri rústina var þurrt að þessu sinni.
Í fjarska vestur af blasir við hár aflangur hóll, Arnarbæli. Í suðri er annar reglulegur grsahóll, Lynghóll. Stefnan var tekin á hann. Norðan við hólinn er nokkuð sléttlent. Á sléttunni er gömul fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg) með leiðigarði til suðurs. Borgin er upp á litlum hrygg og er sýnilegust úr vestri.

Kúadalur

Stekkur (rétt) í Kúadal.

Ofan sléttlendisins austan af Lynghól er stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparhól og er hann um átta metra í þvermál. Innan í honum er sléttur bali. Vegghæðin er mjög lítil og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborgina, en hætt hafi verið við verkið af einhverjum ástæðum.
Stefnan var tekin til norðvesturs með vestanverðu Arnarbæli. Þar, austan girðingar, hvílir Kúadalur, gösug dalkvos. Í henni er heillegur og fallega hlaðinn stekkur, tvíhólfa. Þarna er líklega um að ræða stekk frá Ásláksstöðum. Ofar í holtinu, að norðanverðu, mótar fyrir gömlum stekk eða öðrum mannvirki.

Fornistekkur

Fornistekkur.

Gengið var norður og austurmeð Arnarbæli, áleiðis að brekkum mót norðvestri þar nokkru austar. Þar uppi á holtinu er enn einn stekkurinn, Fornistekkur. Utan í brekkunni má sjá móta fyrir gömlum hleðslum, sennilega enn eldri stekk – í skjóli fyrir suðaustanáttinni.
Gengið var niður á Gamlaveg. Hann liggur frá Breiðagerði og svo til beint yfir heiðina og mætir Strandarvegi aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfið. Víða er um kílómetra leið frá bæjum að veginum, sem þótti langt enda um klappir ogholt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur hfðu þar hver sitthlið og brúsapall og á einstal astað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja.

Almenningsvegur

Gengið um Almenningsveg.

Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá bænda í Ásláksstaða-, Hlöðunes, og Brunnastaðahverfi.
Á gömlum kortum er Strandarheiði eyðimörk. Það var ekki fyrr en Sesselja Guðmundsdóttir lagði það á sig að ganga heiðina og safna markvisst örnefndum og minjastöðum á henni að heiðin varð “opinberuð” fáfróðum. Áður fyrr, líkt og á svo mörgum stöðum öðrum, veit einstaka maður um merka staði og forn mannvirki á afmörkuðum svæðum, en að honum gegnum hverfur (því miður) öll sú dýrmæta vitneskja. En það er fyrir áeggjan, ósérhlífni og dugnað fárra, sem örnefnunum og vitneskju, sem enn er fyrir hendi, hefur þó verið haldið við. Hlutur þeirra hefur jafnan verið vanmetin, en verður seint ofmetin.
Í bakaleiðinni lék sólin við hafflötinn.
Veður var frábært – stilla og hiti. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild: Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 1995, bls. 29 –39.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Staðarborg

Gengið var frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn, yfir Almenningsveginn og áfram til austurs með stefnu austur fyrir Staðarborg. Þar er Staðarstekkur í klofnum hraunhól. Hlaðið hefur verið í miðja rásina og hleðslur eru einnig við austurenda hans.

Staðarborg

Staðarborg.

Það er stutt yfir í borgina. Hún hefur verið endurhlaðinn að hluta. Dyrasteinn, sem verið hefur fyrir ofan opið, liggur nú við innvegg borgarinnar gegnt dyrum. Sagt er að hann hafi þurft að fjarlægja eftir að kálfur komst inn í borgina, en ekki út aftur fyrr en steinninn hafði verið fjarlægður. Næst var stefnan tekin á Þórustaðaborg. Hún er á milli hraunhóla í um 15 mínútna fjarlægð til vestnorðvesturs. Borgin er mikið gróin, en þó sjást vel hleðslur í miðju hennar. Greinilegt er að borginni hefur á einhverju skeiði verið að hluta til breytt í stekk. Vatnshólar sjást vel í vestri. Vestan í þeim, í um 15 mínútna fjarlægð, eru miklar hleðslur. Þarna var Auðnaborg, en henni hefur síðar verið breytt í rétt utan í hólnum. Á hólnum sjálfum, sem er allgróin, eru tvær tóttir.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Áfram er gengið í vestur. Framundan sést vel gróinn hóll í um 10 mínútna fjarlægð. Á honum er Borg, greinilega gömul fjárborg. Rétt norðvestan við hana á hólnum er gróin stekkur, Litlistekkur. Í nokkurra mínútna fjarlægð frá honum til vesturs er gamall stekkur á hól. Það mun vera Rauðstekkur. Í um 10 mínútna fjarlægð til vesturs, þó aðeins til hægri, er komið að brekkum. Fara þarf áður yfir girðingu.

Fornistekkur

Fornistekkur.

Framundan er vel gróið sléttlendi. Suðaustan í brekkunum er Fornistekkur.
Þá er haldið til suðurs. Þar ofan við Arnarbæli er Kúadalur. Syðst í honum, undir holti, er fallega hlaðinn stekkur. Frá honum var haldið spölkorn til baka til austurs, sunnan Arnarbælis.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Á hægri hönd, uppi í heiðinni, er þá áberandi hóll, vel gróinn. Það er Lynghóll. Þegar komið var að greinilega fornum, lítt áberandi stekk á holti, hér nefndur “Arnarbælisstekkur”, var stefnan tekin á hólinn.

Hringurinn

Hringurinn – fjárborg.

Þar, norðan við Lynghól, er enn ein fjárborgin. Hún er greinilega gömul, enda gróin, en hleðslur sjást enn vel í henni miðri svo og leiðigarður suður úr henni.
Ofan Lynghólsborgar er fjárborgin Hringurinn, augljós.

Frá Lynghólsborginni er stefnan tekin til suðvesturs, upp í holtin. Fara þarf yfir girðingu á leiðinni. Þegar komið er upp á hraunhólana sést Hringurinn, á milli hóla. Borgin stendur í lægð, en sést þó vel. Hún hefur greinilega verið voldug á sínum tíma, en er nú að mestu fallin inn. Þó má enn sjá heillega hluta í henni.

Gíslaborg

Gíslaborg.

Stefnan er tekin til vesturs, í áttina að stóru verksmiðjuhúsi austan Voga. Gíslaborgin er þar á hól og ber í gaflinn á húsinu. Áður en gengið er upp á hólinn má sjá sérkennilega hlaðinn, nokkuð stóran, ferning neðan hans. Óvíst er hvað þetta gæti hafa átt að verða því mannvirkið er hlaðið á torfið, ótrausta undirstöðu.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.

Eftir að hafa skoðað Gíslaborgina var stefnan loks tekin á Gvendarstekk, undir hraunhól skammt vestan Vogavegar. Þetta er gömul fjárborg.
Á leiðinni til baka var Vatnsleysustrandarvegurinn genginn að Gamlavegi og síðan eftir honum aftur yfir á Vatnsleysustrandarveg. Gamlivegur er svo til beinn upphlaðinn malarvegur, en hann hefur líklega þótt of beinn og of fjarri strandbæjunum og því verið aflagður þegar nýr hlykkjóttur vegur var lagður nær ströndinni. Við veginn voru nokkur lóu- og spóahreiður, sem gaman var að skoða.
Gangan tók um tvær og hálfa klst. í frábæru veðri.

Staðarborg

Staðarborg.

Gíslaborg

Gengið var að Gíslaborg í Vogaheiði, Hringnum, Lyngólsborg og Auðnaborg í Strandarheiði.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Gíslaborg er rústir gamallar fjárborgar á grónum hól. Norðaustan hans eru Gíslholtslágar. Í þeim er ferhyrnd hleðsla, nokkur stór. Ekki liggur í augum uppi hvaða tilgangi þetta mannvirki gegndi, en einn heimamanna, sem var með í för sagðist hafa heyrt að þarna hafi í heiðni verið blótstaður og gæti þetta því verið altari frá þeim tíma. Hann gat þess sérstaklega að þetta væri einungis ágiskun hlutaðeigandi.

Hringurinn

Hringurinn.

Norðaustar er Brunnastaðalangholt. Suðaustan undir því, í svokölluðum Langholtsdal, er falleg hálfhrunin fjárborg, sem heitir Hringurinn eða Langholtsbyrgið. Þótt borgin standi í nokkurri lægð rís hún þó hæst á smáhæð í lægðinni. Best er að nálgast hana úr suðri.
Skammt ofan við Hringinn er klapparhryggur, sem heitir Smalaskáli. Á eystri enda hans er Smalaskálavarða.
Norðaustan hringsins er Hlöðuneslangholt og Lynghóll norðaustan þess. Á sléttlendi neðan hólsins eru rústir gamallar fjárborgar, sem nú er orðin allgróin. Erfitt er að koma auga á borgina svo vel hafa þær samlagast umhverfi sínu. Norðvestan við Lyngholt er Arnarbæli og Kúadalur skammt suðvestar.
Austar eru Geldingahólar með Vatnshólinn í miðið. Gengið var vestan við Nyrðri-Geldingahólinn að löngu grónu holti, nefnt Borg.

Hringurinn

Hringurinn.

Ofarlega í holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið og ein þvert á þær. Aðeins neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Rétt ofan og austan við efri rústirnar er lítið vatnsstæði í klöpp, vel falið í viki norðan undir lágum hólnum.
Auðnaborgin er skammt norðaustar í grasmóa sunnan í grónum hól. Hún er nú nokkuð heilleg fjárrétt með stórum almenningi og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru rústir af a.m.k. tveimur kofum. Lítill stekkur er rétt neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru til um nafn hans.
Gengið var norður um Fögrulág með Skálholt á vinstri hönd og niður á Þórustaðastíg þar sem hann liggur upp í heiðina ofan Strandarvegar.
Auk fyrrnefndra fjárborga eru fleiri slíkar í heiðunum milli Reykjanesbrautar og Strandavegar. Nokkru austan við Auðnaborg er t.a.m. Þórustaðaborgin og austan hennar Staðarborgin. Skammt vestan Vogavegar er einnig Gvendarborg. Þær eru því a.m.k. sjö talsins. Ekki tekur nema u.þ.b. tvær klukkustundir að ganga svæðið frá Gvendarborg í vestri að Staðarborg í austri.

Heimildir:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Magnúsarsæti

Gengið var um Vogastapa. Enn má sjá móta fyrir gamla Suðurnesjaveginum (um Reiðskarð) upp Stapann og liðast (Stapagatan) síðan áfram áleiðis upp að Grímshól. Grímshóll kemur við sögu þjóðsögunnar af vermanninum norðlenska.

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er getið um norðanmenn að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Landar hans gerðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.
Skoðaðar voru minjar eftir bæinn Brekku og heillegar sjóbúðir undir Stapanum; Hólmabúðir, Stapabúð og Kerlingarbúð, auk þess sem gengið var út í Hólmann og minjar þar skoðaðar. Gamall innrásarprammi marrar í fjöruborðinu. Sagan segir að honum hafi verið ætlað mikilvægt hlutverk, verið siglt þarna upp í fjöruna og síðan ekki söguna meir. Þarna hefur hann verið sem nátttröll gefinna vona.

Stapinn

Leifar Kerlingarbúða.

Kerlingarbúðir eru elstu sýnilegar minjar um búsetu manna á Ströndinni, að sagt er. Bæði við Brekku og Stapabúð eru hlaðnir brunnar. Ofar í hlíðinni eru hleðslur eftir menn. Nú er fuglinn í bjarginu næsta einráður á svæðinu, en selurinn vakir þó skammt utan við ströndina. Hann stingur ávallt upp hausnum þegar rautt vekur forvitni hans.
Í leiðinni, vegna þess hve veðrið var gott, var ákveðið að líta á Gíslaborg ofan Voga. Gengið var að stekknum í Kúadal og fjárborginni Hringnum innan við Knarrarnesholt. Þá var skoðaður rúnasteinninn við Knarrarnes (1700), ártalssteininn við Kálfatjörn (1706), legsteinninn á Flekkuleiði (?) og litið á áletranir (1888) yfir Magnúsarsæti í Hrafnagjá á Stóru-Vatnsleysu. Áletrunin er til minningar um nefndan Magnús, sem fann sér stað þarna við gjána til að friðþægjast við sjálfan sig. Sagt er þó að einhverju sinni hafi barn komið þar óvart undir. En það er nú önnur saga. Sem sagt: Margt og mikið merkilegt á skömmum tíma.
Frábært veður.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Hringurinn

Stefnan var tekin á Brunnastaðalangholtin í Strandarheiðinni og næsta umhverfi.
GöngusvæðiðRétt ofan við þjóðveginn, ofan Brunnastaðahverfis, er varða sem hlaðin var er þar fannst dáinn piltur sem örmagnaðist í vonskuveðri, heitir Hermannsvarða{Kristmundarvarða}. Skammt þar frá eru Gilhólar og þar eru einnig Lágarnar eða Skjaldakotslágar. Þarna upp í heiðinni er Brunnhóll, þar er hola í klöpp og þrýtur þar aldrei vatn. Þar skammt frá er Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldakotslágum eru þrír hólar, kallast einu nafni Vatnshólar, nokkru ofar er Arnarbæli. Þar var huldufólkskirkja og sást þangað mikil kirkjuferð huldufólks. Þá er Lynghóll og tveir hólar, Klofningar, Klofningur, Neðri- og Klofningur, Efri-. Hringurinn, fjárborg eða -byrgi, einnig nefndur Langholtsbyrgi. Milli Klofninga og Kánabyrgis er jarðfall er nefnist Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, ól þarna barn á leið sinni um heiðina. Styrkir það stoðir undir að alfaraleið hafi fyrrum legið beina leið yfir Strandarheiðina milli Kúagerðis og Skógfellavegar. Freygerðisdalur er nú kominn undir Reykjanesbrautina. Í honum voru hlaðnar tröppur í jarðfallið svo fé kæmist þar upp af eigin rammleik. Á Syðri- og Nyrðri-Fögrubrekkum eru vörður, sú nyrðri stærri og fallegri en sú syðri. Örnefnalýsingar koma heim og saman, en sumar eru nákvæmari en aðrar.

Fögrubrekkuvarðan nyrðri

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaðahverfi má lesa eftirfarandi um miðheiðina: „Áður en lengra verður haldið hér skulum við bregða okkur aftur heim undir Traðarkot, þar upp af vegi eru klapparhólar sem heita Gilhólar og skammt austar ber í Keili frá bæ séð, heitir Skjaldarkotslágar, þar er nú ræktað tún og ofan við Gamlaveg skammt ofan Gilhóla er Brunnhóll, þar var hola niður í hraunklöpp sem sjaldan var þurr. Þar rétt norður af er stekkur, syðst og vestast í lágunum, nefndur Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldarkotslágum heita Vatnshólar. Þessir hólar eru þrír, upp undir gamla vegi. Skammt upp af þeim er grasivaxinn hóll sem heitir Arnarbæli og skammt sunnan hans er stekkur sem heitir Ásláksstaðastekkur.“ SGG segir í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (2007) að gróin kvosin, sem stekkurinn stendur í, heiti Kúadalur. „Þar upp í sömu stefnu, heldur til austurs, er Lynghóll.“ Á sléttlendi neðan hólsins eru leifar fjárborgar. „Upp af Arnarbæli, miðja vegu upp að Hrafnagjá austur af Lynghól, eru tveir hólar sem heita Klofningar, eru með viki á milli. Mitt milli þeirra og Kánabyrgis er jarðfall sem nefnt er Freygerðardalur, þar er sagt að kona hafi borið út barn.“
Í örnefnalýsingu fyrir sama svæði segir Gísli Sigurðsson m.a.: „Eftirtalin örnefni er að finna á svæðinu milli þjóðvegarins og Hrafnagjár og verður þá byrjað syðst á landamerkjum. Úr Djúpavogi liggur landamerkjalínan upp sunnan Presthóla í Markavörðuna á Langholti sem einnig er kallað Brunnastaða-Langholt. Varðan er kölluð Langholtsvarða.“

Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða

Langholt er langt og tvískipt og áberandi í heiðinni. Á sitt hvourum enda þess eru vörður, Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvarða og Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða. Syðri varðan er fiskimið frá Gullkistunni undir Vogastapa, en Gullkistan ber örnefnið vegna þess að þar var „mokað“ upp þorski, t.d. á seinni hluta 19. aldar.  Eftir endilöngu holtinu er jarðsímastrengur. „Við Langholt er lægð en nefnist Langholtsdalur og þar er fjárbyrgi, nefnt Langholtsbyrgi eða Hringurinn. Úr Markavörðunni liggur línan í vörðuna Leifur Þórðar sem er á Hrafnagjárbarmi og nokkur hluti Hrafnagjár liggur um Brunnastaðaland.
Í suður frá Grænhól er Lambskinnshóll, á honum stendur SmalaskálavarðaLambskinnshólsvarða. Þar rétt hjá er svo Guðmundarstekkur. Nokkru nær þjóðveginum er borg sem nefnist Lúsaborg og þar rétt hjá er Lúsaborgarvarða. Þá koma Presthólar tveir og nefnast Presthóll, Neðri- og Presthóll, Efri-. Í hólum þessum var mikil huldufólksbyggð. Upp frá Langholti er klapparhryggur sem nefnist Smalaskáli og þar er Smalaskálavarða. Þar austur af eru fagrar, grónar brekkur, kallast Fögrubrekkur. Þá er getið um Kánabyrgi og Kánabyrgishól. Flestir telja að rétta nafnið á þessum stað sé Gangnabyrgi og Gangnabyrgishóll. Á þessum stað komu gangnamenn saman áður en skipað var í leitir að hausti til og þar af mun nafnið dregið, auk þess sem þarna var fjárbyrgi. Frá Halakoti lá stígur upp í heiðina, nefndist Kúastígur, lá upp í svonefnda Kúadali en þar sátu þeir kýr bræðurnir frá Halakoti.

Refagildra

Rétt ofan við þjóðveginn, ofan Brunnastaðahverfis, er varða sem hlaðin var er þar fannst dáinn piltur sem örmagnaðist í vonskuveðri, heitir Hermannsvarða {Kristmundarvarða}.“ Og „Svo bar til, að haustið 1907 eða 1908 var farið í smölun í sveitinni. einn af smölunum var unglingspiltur frá Goðhól hér í sveit, sem hét Kristmundu Magnússon. Það hafði verið mjög slæmt veður, suðaustan rok og mikil rigning (dimmviðri) og fór svo, að pilturinn týndist og fannst daginn eftir örendur á þeim stað sem Kristmundarvarða stendur nú.“ Skv. upplýsingum SGG er Kristmundarvarða ofan Bieringstanga en ekki ofan Brunnastaðahverfis, sbr. lýsinguna. „Skammt þar frá eru Gilhólar og þar eru einnig Lágarnar eða Skjaldakotslágar. Þarna upp í heiðinni er Brunnhóll, þar er hola í klöpp og þrýtur þar aldrei vatn. Þar skammt frá er Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldakotslágum eru þrír hólar, kallast einu nafni Vatnshólar, nokkru ofar er Arnarbæli {ekki í landinu (S.S.)}. Þar var huldufólkskirkja og sást þangað mikil kirkjuferð huldufólks. Þá er Lynghóll og tveir hólar, Klofningar, Klofningur, Neðri- {er í Ásláksstaðalandi} og Klofningur, Efri-{er í Ásláksstaðalandi}.
Milli Klofninga og Kánabyrgis er jarðfall er Lynghólsborgnefnist Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, ól þarna barn á leið sinni um heiðina. Undir Hrafnagjárbarmi liggja Hrafnagjárflatir. Austasti hluti Huldugjár blasir við af Hrafnagjá. En svæðið milli gjánna nefnist Huldur vestast og síðan tekur við Margur brestur. Þá eru Hrútabrekkur, heimundir Hrafnagjá þar sem landamerkjalínan liggur er Inghóll í Inghólslágum.“
Í örnefnalýsingu Sigurjóns Sigurðssonar frá Traðarkoti segir: „Nokkuð fyrir ofan niðurlagða veginn, í suðaustur frá Skjaldarkotslágarhólnum, er klapparhóll með vörðu sem heitir Brunnhóll. Dregur nafn sitt af því að í klöpp rétt sunnan við vörðuna er svolítil hola ofan í klöppina, sem oft stendur í vatn. Í vestsuðvestur af Brunnhól er nokkuð flatlendi, sem heitir Tvívölulágar. Veit ekki af hverju þær draga nafn sitt.
Ofan og sunnan við HringurinnTvívölulágar er stekkur, sem heitir Guðmundarstekkur. Sunnan við stekkinn er langt klapparholt og allhátt, heitir það Stekkholt. Semsagt við norðurenda Stekkholtsins er Neðri-Presthóll og Efri-Presthóll, eru þeir rétt hvor hjá öðrum, liggja frá norðvestri til su[ð]austurs. Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn (opnir) og sést inn í hann (þá) og hafi þá prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari (þúfur eru á báðum hólunum). Í skarðinu milli hólanna og þar suður af sér fyrir vegslóða. Sennilega er það elzti vegur um Suðurnes. Vegur þessi ber nafnið Einingarvegur. Í suðaustur af Presthólum er langt og allhátt klapparholt, sem heitir Brunnastaðarlangholt. Holtið liggur frá norðaustri til suðvesturs. Vörður eru á sitthvorum enda holtsins og heita Nyrðri- og Syðri-Brunnastaðalangholtsvörður. 

Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvarða

Norðaustan við nyrðri vörðuna er dalur (lítil laut). Suðaustan í holtinu í suðaustur frá syðri vörðunni er dalur (lítil laut). Eru þessar lautir kallaðar Nyrðri- og Syðri-Langholtsdalir.
Skammt frá miðju Brunnastaðalangholtinu, í suðaustur, er hringlaga grjótbyrgi, sem heitir Hringurinn. Var það notað fyrir sauðfé (fjárbyrgi). Í suður frá Hringnum er alllangur klapparhryggur, sem liggur frá austri til vesturs. Vestast á honum er klapparhóll, sem heitir Smalaskáli. Á hólnum er varða.
Dagsbirtan

Í austur frá Smalaskála er alllangur klapparhryggur, sem heitir Fögrubrekkur. Á klapparhryggnum eru tvær vörður, Syðri- og Nyrðri-Fögrubrekkuvörður. Suðaustan við klapparhrygginn er dálítið leirflag með rofabörðum hér og hvar, hefir þarna sennilega verið allnokkur grasflöt og máski utan í klapparhryggnum og því hlotið nafnið Fögrubrekkur.
Í austsuðaustur frá Fögrubrekkum er jarðfall, sem heitir Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, á að hafa fætt þarna af sér barn á leið sinni um heiðina.
Í suðaustur frá Freygerðardal er klapparhóll, Kánabyrgi; á hólnum er varða (ekkert byrgi). Nafnið á hólnum gæti eins verið Gangnabyrgi. Alltaf var og er hvílt sig á þessum hól, þá gengið var og er til smölunar úr Brunnastaðahverfi. En allir eldri menn sögðu hólinn heita Kánabyrgi.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. 

Heimildir:
-Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar – 1980.
-Örnefnaskrá Ara Gíslasonar.
-Örnefnaskrá Sigurjóns Sigurðssona.
-SGG – Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustarndarhreppi – 2007.

Birtan í heiðinni