Tag Archive for: hús

Húsfell
Í Þjóðviljanum sunndaginn 15. júlí 1973 fjallar Gísli Sigurðsson, umsjónarmaður Minjasafns Hafnarfjarðar, um Selvogsgötuna.
Leiðinni frá Helgadal upp fyrir Hellur lýsir hann svo: “Leiðin úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897”.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

[Innskot: Samkvæmt þessu virðist rústin í sunnanverðum Helgadal, við götuna upp úr dalnum, sú sem FERLIR leitaði að og skoðaði á sínum tíma og taldi gamla, vera einmitt þessi rúst].
Gísli heldur áfram: “En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1474: “Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Voru þeir allir hengdir um sumarið”. [Í annarri heimild er sagt að þjófarnir hafi verið handteknir 1633]. Í hraunrima þessum er hellir og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra….. Þegar kemur suður fyrir [Strandartorfur] taka við Hellurnar….

Gálgaklettar

Gálgaklettar við Selvogsgötu.

Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar, sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðfall mikið. Þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna um nætur…”.

Gengið var suður Selvogsgötu frá línuveginum ofan við Helgafell. Farið var eftir ruddri götunni í gegnum mjótt hraunhaft og henni fylgt áfram upp fyrir Strandartorfur á hægri hönd.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Helgafells.

Þegar komið var að Hellunum var gengið upp þær þangað til komið var upp fyrir “aðalbrekkuna”. Þar eru að vísu klettar, en þeir hafa varla dugað til að hengja þar mann, nema hann hafi verið þess styttri í annan endann. Jarðfallið, sem nefnt er að framan var ekki skoðað að þessu sinni, en ætlunin er að fara fljótlega aftur þessa leið. Hins vegar var gengið til norðausturs frá stígnum að grágrýtisklettum, sem þar eru. Ekkert forvitnilegt sást þar.

Hins vegar, eftir um 500 metra göngu frá stígnum, í stefnu til austurs frá klettunum, blasti forvitnilegur staður við. Þar eru klettar, eftirlíking af Gálgaklettunum í Gálgahrauni og álíka háir. Góð aðkoma er að klettunum úr norðri og sjást þeir mjög vel frá Húsfelli. Klofið í klettunum er svo til alveg eins, þó ekki jafnvel gróið og í þeim nyrðra. Roðagylltur himininn skapaði fallega umgjörð um dökka klettana. Hafa ber í huga að þjófarnir þurfa ekki endilega hafa verið hengdir eftir handtökuna. Hins vegar gætu þessir klettar hafa fengið nafngiftina Gálgaklettar vegna þess hversu líkir þeir eru nöfnum sínum í Gálgahrauni, nánast eftirlíking.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

Hraunið þarna, Húsfellsbruni er hrikalegt á köflum, en hvylftir eru inni í því á stangli. Þær virðast vera eldra hraun. Gengið var í átt að Húsfelli, en enginn hellir fannst að þessu sinni. Þarna eru þó víða op og gjár. Ef 12 menn hafa hafst við í helli þar sem nefnt er Húsfell má telja líklegt að hellirinn sé í eða nálægt fellinu. Í honum ættu að sjást ummerki og í honum eða við hann gætu verið hleðslur eftir fjárhald. Slík ummerki eru reyndar í og við Rauðshelli norðaustan við Helgadal. Ekki er vitað hvert nafnið er á fellinu sunnan hans.
Svæðið við Húsfell er mjög lítið gengið og hefur lítt verið skoðað. Ákveðið hefur verið að ganga næst um sunnanvert Húsfellið og síðan frá því að “Gálgaklettum”, upp á Hellurnar og skoða betur jarðfallið, sem Gísli skrifar um. Það gæti leynt á sér.
Veður var með miklum ágætum – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 14 mín.

Helgadalur

Tóftir í Helgadal.

Reykjavík 1835

Eftirfarandi lýsing á húsum Reykjavíkur birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 1949:
Reykjavik-901„Þegar Reykjavík fekk kaupstaðar-rjettindi, fór fram útmæling á verslunarlóðinni, sem var aðeins „Kvosin“, milli sjávar og tjarnar, milli Grjótahæðarinnar og læksins. Auk þess voru henni lögð tún Hólakots og Melshúsa. En aðrar hjáleigur jarðarinnar Reykjavík: Landakot, Grjóti, Götuhús, Stöðlakot og Skálholtskot urðu utan við í útmælingargerðinni, sem er dagsett 12. febrúar 1787, segir svo um þessa ráðstöfun: — Þessar hjáleigur var ekki talið nauðsynlegt að leggja til kaupstaðarins, því að það sem honum hefur verið lagt virðist kappsamlega nóg. En skyldi svo ólíklega ske einhvern tíma, að Reykjavík þyrfti á meira landrými að halda, þá má bæta við þessum hjáleigum, með leyfi hins hátignar konungsins, sem er eigandi þeirra. —

reykjavik-902

Fljótlega kom upp óánægja út af því, að þeir, sem áttu heima innan kaupstaðar-lóðarinnar, skyldi ekki hafa neinar nytjar úthaga Víkurjarðar. Varð það til þess að fram fór mat á öllu landi jarðarinnar, og að þvi loknu lagði stiptamtmaður til, að úr því að nokkur hluti af Reykjavík hefði verið út lagður til kaupstaðar, yrði úthagar jarðarinnar að fylgja honum þannig, að íbúar kaupstaðarins hefði sameiginlegan afnotarjett þeirra eftir þörfum á borð við aðra landeigendur. Á þetta felst stjórnin með úrskurði 19. apríl 1788.
Upp úr 1790, þegar innrjettingarnar eru að syngja á sitt síðasta vers, fyrirskipaði Rentukammerið nýja útmælingu. Hún var framkvæmd í maí 1792, og var þá bætt við kaupstaðarlóðina Skálholts og Stöðlakots lóðum.

reykjavik-903

Með þessu var þá kaupstaðarlóðin endanlega ákveðin, og helst hún þannig óbreytt um heila öld, eða fram til 1892. Þannig var þá afmarkað það svæði, þar sem menn máttu versla. Utan við það mátti engin verslun vera. En þetta var ekki öll Reykjavík. — Eftir sem áður var kölluð Reykjavík öll sú bygð, sem var á landareign jarðanna Víkur, Arnarhóls og Hlíðarhúsa, og þar með talin kirkjujörðin Sel. Nyrst í Kvosinni (við Aðalstræti) voru þá kongsverslunarhúsin, nýlega flutt þangað utan úr Örfirisey. Þau voru öll úr timbri. Syðst við Aðalstræti var kirkjan, og umhverfis hana húsaþyrping innrjettinganna. Af nær 30 húsum og kofum þar voru aðeins sex úr timbri. Hin húsin voru úr torfi og grjóti.
Torfbæir reykjavik-904voru á öllum hjáleigunum og eins á Arnarhóli, Hlíðarhúsum og Sel. Þá voru og komnir nokkrir torfbæir tómthúsmanna í Grjótaþorpi, og einn, Þingholt, fyrir ofan læk. ÞESSI var þá stofninn að höfuðborg Íslands: 9 eða 10 timburhús, en allar aðrar byggingar úr torfi og grjóti. Þá voru íbúar Reykjavíkur taldir 167 alls, en í Reykjavíkurkirkjusókn (sem náði einnig yfir Nessókn og Laugarnessókn) voru alls 302 sálir, en íbúar landsins voru þá alls taldir 38.363. Móðuharðindin voru þá nýgengin um garð og árið 1785 höfðu látist 83 í Reykjavíkursókn, 36 í Nessókn og 33 í Laugarnessókn, ..flest úr vesöld, niðurgangi og kreppusótt“ eins og segir í kirkjubókinni. Hjer voru því óglæsilegir tímar er hin nýa borg reis á legg.
reykjavik-905Á næstu árum fjölgar þó mjög timburhúsum í kvosinni. Og á næstu áratugum fjölgar einnig mjög þurrabúðar-mönnum. Þeir reistu sjer torfbæi. flestir utan við Kvosina. Tók þá að myndast bygð í Skuggahverfi og Þingholtum og Grjótahverfið að stækka. Reykjavík varð þannig tvöföld í roðinu. Annars vegar voru timburhúsin í Kvosinni, flest eign erlendra kaupsýslumanna, en hins vegar torfbæir Íslendinga. Þegar þessa er gætt má segja að Íslendingar hafi upphaflega bygt höfuðborg sína úr torfi. Og þannig er hún álitum á 50 ára afmæli sinu.
Í Landsbókasafninu er geymt handrit að skrá um torfbæi í Rvík 1830 og bætt við nokkrum, sem bygðust á næstu árum, eða alt fram að 1840. Skrá þessi er samin af Jóni Jónssyni prentari í Stafni. Hefir hann tekið hana saman á gamals aldri (1866) og má því vera að einn og einn bær hafi gleymst, annaðhvort vegna þess. að höfund hafi mint að hann væri rifinn fyrir þennan tíma, eða bygður seinna. En skrá þessi sýnir þó greinilega hvernig Reykjavík hefur verið á svipinn þegar hún hafði náð fimmtugsaldri.

reykjavik-907

TORFBÆIRNIR í Reykjavík voru yfirleitt ljelegri heldur en sveitarbæir, enda var þeim venjulegast hrófað upp af litlum efnum. Til er lýsing á torfbæunum, er Þorbergur Þórðarson rithöfundur skrifaði eftir frásögn Ólafs Jónssonar fiskimatsmanns, sem fæddur var í Hlíðarhúsum 1856 og segir þar meðal annars svo: — Öll úthverfi Reykjavíkur voru langt fram eftir aldarhelmingnum eintómir torfbæir að heita mátti. Hver bær var tíðast tvö hús, er stóðu hlið við hlið. Annað húsið var til íbúðar, hitt til eldamensku og geymslu. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti, framstafnar sumstaðar úr torfi og grjóti, upp að glugga og þar fyrir ofan gerðir úr timbri, en annars voru þeir allir úr timbri.
Afturstafnar voru ýmist úr torfi og grjóti upp að glugga og efri hlutarnir úr timbri, eða þeir voru úr torfi og grjóti upp úr og þá gluggalqusir. Þá hjetu þeir gaflöð. Framstafnar sneru venjulega til sureykjavik-908ðurs, stundum til austurs. Sperrur voru að jafnaði krossreistar (mynduðu 90 stiga horn í mæni). Stundum voru þær með kalfa í mæni á sperrunum var skarsúð á íbúðarhúsunum, en refti á eldhúsi og geymslu. Þar ofan á kom torfþekja. Á milli þekjunnar og súðarinnar var hvorki tróð nje hella. Langt fram eftir aldarhelmingnum voru hjer til torfbæir, sem voru með moldargólfi og höfðu refti eitt og torf í stað súðar. Rúmstæðin voru bálkar, hlaðnir úr torfi og grjóti, og þá var dreift heyi undir sængurfötin. — Þrifnaður stóð á þessum tímum í flestum greinum að baki því, sem nú tíðkast, enda voru skilyrði flest til þrifnaðar þá margfalt verri en nú á tímum. Gólf voru venjulega þvegin tvisvar í viku, á miðvikudögum og laugardögum, en aðra daga voru þau oftast sópuð með fuglsvæng. Gólf voru aldrei þvegin úr sápu, heldur aðeins úr vatni og fínum sandi, sem sóttur var niður í fjöru. Eftir þvottinn var stráð á þau hvítum skeljasandi, sem fluttur var í pokum utan úr Örfirisey. Gólfdúkar eða teppi voru þá ekki til. Hvíti skeljasandurinn var því fyrsti vísir til dúka og teppa á gólfum. Honum var einnig stráð í ganga og bæjardyr, þótti það hreinlegra og fallegra.
reykjavik-909Sjaldnast voru vanhús við torfbæina. Karlmenn gengu örna sinna út um holt og niður að sjó, en börn og kvenfólk hægði sjer í næturgögn, sem tæmd voru í hlandforir eða á sorphauga, er voru heima við flesta bæi.
Þessu ber saman við lýsingu Mackenzie, sem hjer var á ferðalagi 1810. Hann kom að prestsetrinu Seli. Þar átti þá heima Brynjólfur Sigurðsson dómkirkjuprestur. Segir Mackenzie svo frá: — Presturinn mætti okkur við dyrnar á kofaræfli, og leiddi okkur inn löng, dimm og skítug göng framhjá allskonar drasli, fram hjá manni, sem var að berja harðfisk, og inn í dimt herbergi. Það var svefnherbergi fjölskyldunnar og hið besta á bænum. Þakið var svo lágt, að maður gat varla staðið upprjettur, og þar var tæplega rúm fyrir nokkurn hlut nema húsgögnin, en þau voru: rúm, klukka, lítil kommóða og glerskápur. — Jón Helgason biskup, sem mundi eftir flestum torfbæunum, segir svo á einum stað: — reykjavik-910
Fæstir hinnar uppvaxandi kynslóðar vorra tíma gera sjer í hugarlund, hve ljeleg húsakynni voru gömlu reykvísku torfbæirnir í úthverfum bæjarins, eða „kotin“, eins og algengast var að nefna þessa mannabústaði. Torfið á þekjunum reyndist alt annað en góður regnvari, er til lengdar ljet.
Snemma fór vætan að leita á súðina undir torfinu og áður en menn vissu af, var hún orðin svört af sagga undan þekjunni. Og þá leið sjaldnast á löngu áður en lekinn, versti óvinur góðra húsmæðra, færi að gera vart við sig.
Það varð löngum fangaráð húsmæðranna að hengja bjór undir lekann og veita úr honum vatninu þannig, að það færi ekki niður í rúmin. Annars höfðu þessir torfbæir þann stóra kost, að þeir voru hlýir þegar frost og hríðar gengu. Það næðir ekki í gegnum þykka moldarveggi nje þekjur, sem eru máske orðnar alt að þvíhálf alin á þykt vegna þess að altaf var verið að dytta að þeim og bæta torfi ofan á torf. Veðráttan hjer, umhleypingar og votviðri, hamlaði því að þekjur gæti orðið vallgrónar, og þess vegna var lekinn og þess vegna þurfti altaf að vera að bæta nýu torfi utan á hið gamla.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 6. nóv. 1949, bls. 493-495.

Reykjavík

Reykjavík 1835 – Joseph Gaimard.

Keflavík

Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um „Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð„:

Skúli MagnússonHér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.

Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.

Bær

Innan við bæjardyr.

Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.

Bær

Þiljuð baðstofa.

Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.

Reykjavík 1835

Bær 1835.

Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.

Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi“, en „lang lélegust og sóðalegust“ voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…“. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.

Lýsing Skúla fógeta á betri býlum

Bær

Bæjargöng.

Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.

Bæir og timburhús á 19. öld

Bær

Í bæjargöngum.

Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.).  Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.“.

Grindavík

Bær

Timburhús.

Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús“. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.

Hafnir

Bær

Samstæður bær frá 19. öld.

Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær“, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…“.“, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..“.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…“ og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess“.

Rekatimbur til húsa

Valahnúkur

Valahnúkamöl.

Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…“.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.

James Town strandar

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð“, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.

Miðnes
Sandgerði
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini“. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi“.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.

Garðurinn

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær“. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…“.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…“. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn“. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…“.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.

Keflavík
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Keflavík
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl“ sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík“.
Keflavík
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn 1987.

Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Brunnastaðaskóli
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt“ 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…“.

Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.

Lokaorð

Bær

Þiljaður gangnabær með baðstofustiga.

Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.

Bær

Ljár ofan við hlóðir í eldhúsi.