Í Tímanum 1977 er fjallað um „Kolviðarhól 1877-1977, fyrsta gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…„:
„Í byrjun júlí síðastliðins var gamla gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er eign Reykjavíkurborgar rifið til grunna.
Fyrsta gistihúsið á þessum stað var reist 1877, en áður var sæluhús á Kolviðarhóli og var það orðið léleg vistarvera þeim, sem þangað leituðu í vondum veðrum. Þetta fyrsta gistihús var lengi eina húsið á staðnum. Oft var þröngt setinn bekkurinn og þúsundir manna munu hafa gist þar. Matthías Jochumson, þá prestur i Odda, kom þar í janúar 1884 og hitti 40 ferðamenn, sem voru veðurtepptir. Og á loftinu í þessu húsi gisti í rúmi með mosadyngju sr. Bjarni Jónsson vígslubiskup, lítill drengur í fyrstu ferð sinni til sumardvalar austur í Ölfus.
Þriðja og síðasta gistihúsið að Kolviðarhóli, sem nú er horfið, reisti Sigurður Daníelsson gestgjafi 1929 og var það með öllu nýtízku þægindum, sem þá þekktust hér á landi, m.a. ljósavél og raflýsingu.
Þjóðvegurinn forni milli Árnessýslu og Mosfellssveitar lá nokkru norðar en nú er farið og skammt frá Kolviðarhóli. Sæluhús var fyrst reist á þessum slóðum 1703 við svonefnda Draugatjörn fyrir framan Húsmúlann, og var það eina vistarveran milli byggða fram til 1844, að sæluhús var reist á Kolviðarhóli. Sumarið 1877 sama ár og fyrsta gistihúsið var reist að Kolviðarhóli hófst vegagerð yfir Svínahraun sem var lokið sumarið eftir.
Hellisheiði var um aldir og er enn einn fjölfarnasti fjallvegur landsins. Við sem ökum þessa leið í upphituðum bílum höfum litla hugmynd um þá baráttusem forfeður okkar háðu hér í vetrarferðum. Mannskaðar voru tíðir á þessum slóðum, þótt engar tölur séu til um hversu margir hafa látið þar líf sitt. Trúlegt er að flestir hafi orðið úti á þessum slóðum á 18. öld, einkum eftir móðuharðindin 1784. Fólk flúðu heimili sín og reikaði allslaust undan hörmungunum í vesturátt.
Skjalfestar heimildir eru um manntjón á Hellisheiði á 130 ára timabili frá 1792-1922. Í bók sinni Sögu Kolviðarhóls greinir Skúli Helgason frá 24, sem urðu úti á heiðinni á þessu tímabili, en getur þess að ekki sé víst að þar séu allir upp taldir.
Einn þeirra fyrstu sem vakti máls á að reist skyldi veitingahús á Kolviðarhóli var Sigurður Guðmundsson málari á fundi í „Kveldfélaginu“ svonefnda sem var e.k. leynifélag í Reykjavík árið 1871.
„Þar mætti hafa hvers kyns veitingar. Þar þyrfti að blása í lúðra svo sem þriðja hvérn tíma til að leiðbeina villtum ferðamönnum, sömuleiðis hafa alpahunda og fl.“ Í fundargerðinni, sem virðist rituð af Sigurði sjálfum, er rissmynd af þessu fyrirhugaða húsi. Er á miðju þaki þess turn mikill með gluggum, sem ætlazt var til að ljós logaði í, þá er dimma tæki, en upp af honum var stöng með flaggi. Þar sem Sigurður talar um „alpahunda“, á hann við að þeir gætu orðið til bjargar villtum ferðamönnum, er úti lægju í illviðrum og ekki næðu til mannabyggða.
Hugmynd Sigurðar málara um veitingahúsbyggingu á Kolviðarhóli virðist þó hafa þótt ærið loftkastalakennd, eins og flest annað hjá honum á þeim tíma, og var henni víst lítill gaumur gefinn. Þegar hann lézt þrem árum síðar sá hann ekki votta fyrir framkvæmdum á þessari hugmynd sinni fremur en öðrum hugsjónum sínum, þótt margar ættu þær eftir að verða að veruleika i einhverri mynd.
Fyrsti gestgjafi að Kolviðarhóli var Ebernezer Guðmundsson frá Minna-Hofi á Rangárvöllum, en kona hans var Sesselja Ólafsdóttir frá Geldingaholti. Þau voru þar hálft annað ár, en þá tók við Ólafur Arnason frá Hlíðarendakoti, og heitkona hans Málfríður Jónsdóttir af Vatnsleysuströnd.
Bjuggu þau við harðindi og fátækt og höfðu sama og engar tekjur af ferðamönnum. Frumburður þeirra fæddist að Kolviðarhóli og var skírður eftir staðnum, en andaðist fimm vikna gamall. Ólafur og Málfríður fóru til Ameríku 1886 og komust þar vel af. Næsti gestgjafi, Sigurbjörn Guðleifsson, var kunnur fyrir lækningar. Sambýliskona hans var Soffía Sveinsd. Þau bjuggu einnig við kröpp kjör að Kolviðarhóli og voru þar aðeins í eitt ár í nábýli við Jón Jónsson, sem tók við Sigurbirni, en þeir eltu grátt silfur saman. Kona Jóns var Kristin Daníelsdóttir. Guðni Þorbergsson tengdasonur þeirra og Margrét dóttir þeirra tóku síðan við, en í tíð þeirra jókst umferð mjög. Nýr akvegur var lagður á svipuðum slóðum og farið er enn í dag. Hestavagnaöldin hófst og samgöngur urðu meiri. Guðni lét reisa nýtt gistihús á Kolviðarhóli aldamótaárið.
Sá gestgjafi sem lengst sat að Kolviðarhóli og varð viðkunnastur þeirra allra var Sigurður Danlelsson 1906-1935. Valgerður Þórðardóttir hafði verið vinnukona að Kolviðarhóli um þriggja ára skeið þegar Sigurður kom þangað ókvæntur maður, og gengu þau í hjónaband ári síðar. Sigurður og kona hans voru mikið fyrirhyggju- og framtaksfólk og unnu margvíslegar framkvæmdir á staðnum.
Sigurður hafði jafnan margt hesta og var fylgdarmaður og vann oft björgunarstarf í illviðrum. „Það var gömul hefð á Kolviðarhóli, að húsinu var aldrei lokað um nætur. Þar voru opnar dyr allan sólarhringinn, svo að ferðamenn, sem bæri þar að garði um nætur í vonskuveðri, gætu tafarlaust komizt í húsaskjól. Enda var það almenn venja ferðamanna, er komu þar eftir háttatíma að þeir gengu inn og kveddu þar nauðþurfta sinna. Þar var alla jafna allt til reiðu. Þar var matur og drykkur veittur, þó um hánótt væri, og þar var fylgdarmaður og hestur til taks, ef með þurfti, á hvaða tíma sólarhrings sem var, hvort heldur var austur yfir fjall eða suður yfir Svínahraun. Þetta var erilssöm og erfið þjónusta, en hún var álitin næstum sjálfsögð og ekki talin eftir. Hún var ávallt seld við vægu verði og margur var sá, er lítið gat goldið fyrir sig fyrr á árum og sumir ekki neitt. Þannig gekk starfið á Kolviðarhóli ár eftir ár, gestastraumarnir komu og fóru, en mitt í þeirri miklu mannös stóð gestgjafinn sjálfur, Sigurður Danlelsson, alltaf samur og jafn, veitti öllum fyrirgreiðslu og leysti úr vandkvæðum manna, sem gátu verið mörg. Þar komu menn af öllum stéttum þjóðfélagsins og var það stundum hnöttóttur lýður, er hafði á sér litla háttvísi né siðmenningarbrag. Þangað komu oft ölvaðir menn, er höfðu í frammi heimtufrekju og ódámshátt. Slíkum gestum sýndi Sigurður fulla einurð og mælti þá stundum til þeirra ekki með neinni silkitungu. En svo var það búið, og enginn erfði slíkt við hann, enda lá það orð á að hann ætti engan óvildarmann.“ (Úr sögu Kolviðarhóls).
Síðasta árið sem Sigurður lifði, sumarið 1935 hófst hann handa um að láta búa til heimagrafreit í túninu á Kolviðarhóli. Það gerði fornkunningi hans Erasmus Gíslason úr Reykjavík. Legstaður þessi er þannig byggður, að grafhvelfing var gerð í jörð niður, steypt í hólf og gólf, með opi á lofti, svo að líkkista mætti komast niður um. Yfir opið var steinhella gerð. Grafhvelfingin er það há undir loftað hún er manngeng. Er þar rúmgott fyrir þrjár líkkistur. Ofanjarðar eru veggir steyptir umhverfis á alla vegu, á annan metra á hæð, og á vesturhlið eru dyr með hurð fyrir. Í grafhvelfingunni hvíla jarðneskar leifar Sigurðar Daníelssonar, Valgerðar Þórðardóttur og sonar þeirra Davíðs Sigurðssonar, járnsmíðs, sem lézt af slysförum 25 ára gamall.
Valgerður kona Sigurðar, var annáluð fyrir hjálpfýsi og margar sögur fóru af viðbrögðum hennar við veikt og hrakið ferðafólk. Hún var mikill dýravinur, og henni var ekki nóg að gera gestunum gott heldur þurftu hestar og hundar þeirra að fá sitt. Valgerður bjó í tæp þrjú ár að Kolviðarhóli eftir að hún missti mann sinn 1935.
Haustið 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól með öllum mannvirkjum. Hún lét þó ekki af störfum þar heldur veitti gistihúsinu áfram forstöðu næstu 5 ár eða til 1943. Var hún þá orðin 72 ára, hafði hana ekki grunað 40 árum áður, er hún fyrir tilviljun réðst að Kolviðarhóli, að hún ætti þar svo langan starfsdag framundan. Bjó hún síðan í þrjú ár í litlu húsi skammt frá sem Sigurður maður hennar hafði látið byggja og svo 10 ár í Hveragerði unz hún lézt í Landakotsspítala eins og maður hennar.
Tignir menn og tötrum búnir hafa haft viðkomu að Kolviðarhóli og um síðustu aldamót settu förumennirnir svip á staðinn, svo sem Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjðlfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.
Margar sagnir eru af minnisverðum atburðum á Hellisheiði, svo sem þegar Þuríður formaður átti þar leið um og síðar er Indriði Einarsson skáld lá þar úti, eða barnsfæðing, sem átti sér þar stað sumarið 1890 og loks eru allar draugasögurnar.
Íþróttafélag Reykjavíkur ætlaði að gera Kolviðarhól að miðstöð vetraríþrótta og eftirsóttum hvíldarstað á sumrin. Félagið átti einnig að halda uppi greiðasölu fyrir ferðamenn. Áhugamenn unnu að ýmsum framkvæmdum, byggður var pallur framan við húsið, upplýst og hituð skíðageymsla, skíðabrekkur lagfærðar og byggðir stökkpallar.
Þegar Valgerður Þórðard. fór frá Kolviðarhóli var sem brotið blað í sögu Kolviðarhóls.
Veitingamennirnir, sem komu eftir hana urðu ekki „mosavaxnir“ á staðnum. Í nóvember 1951 kemst Kolviðarhóll á síður Reykjavíkurblaðanna vegna veru varnarliðsmanna og íslenzkra stúlkna þar.
Á vordögum 1952 var svo komið um stjórn og starfsemi Kolviðarhóls, að enginn fékkst til þess að vera þar, og ferðafólk virtist forðast staðinn. Var þá húsunum lokað og enginn maður hafði þar aðsetur lengur. Strax á fyrsta ári fór að bera á því að óheiðarlegir vegfarendur legðu þangað leið sína. Rúður voru brotnar í gluggum, ruplað og rænt úr stofum, og þessi saga endurtók sig æ ofan í æ. Loks var staðurinn viðurstygging og eyðileggingin uppmáluð og var svo síðustu tvo áratugina eða meir.
„Hvort Kolviðarhóll á eftir að rísa úr auðn og niðurlægingu skal engu um spáð“, segir Skúli Helgason í bók sinni 1959. „En eitt er víst: hann verður aldrei aftur það, sem hann einu sinni var. Því valda fyrst og fremst breyttir tímar og allt viðhorf þjóðlífsins.“
„Guð gaf okkur Hólinn til hjálpar hröktum ferðamönnum af fjallvegum, en ekki til leikaraskapar“. Þessa látlausu setningu mælti Valgerður Þórðardótur, þegar hún var flutt af Kolviðarhóli fyrir fullt og allt. Þessi orð hins síðasta fulltrúa staðarins fela í sér stærri staðreyndir en í fljótu bragði kann að virðast. Líf og starf þeirra gestgjafa, sem lengst og bezt sátu Kolviðarhól var enginn leikaraskapur.
Með þrotlausu starfi, þrautseigju og fórnfýsi unnu þeir sig upp og gerðu þannig „garðinn frægan“. Þeir gerðu jafnan fyrr kröfu til sjálfra sín en annarra. Þeir vissu það, að lífinu varð ekki lifað þar, svo yrði með sæmd á værðarsvæflum við sukk og sællífi. Þess vegna gátu þeir haldið uppi reisn staðarins svo lengi, sem þeirra naut við. En þegar þeir hurfu þaðan á braut, komu „nýir siðir með nýjum herrum.“ Tíminn er búinn að skera úr því, hvernig þau siðaskipti reyndust. Máltækið segir, að „maður komi manns í stað“, og er það að vissu leyti sannleikur. Er þar átt við það að þótt einn hverfi frá athöfn og ævielju, þá komi aðrir og taki við. En svo bezt getur það gengið, að þeir, sem eftir lifa og áfram halda, hafi manndóm til þess að halda í horfinu. Því eins og segir í Hávamálum: „Bautasteinar standa í brautu nær, nema reisi niður að níð.“
Með þeim orðum skal sögunni lokið.“ SJ tók saman.
Í Lesbók Morgunblaðsins 2001 fjallar Gísli Sigurðsson um „Kolviðarhól – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum„:
„Gistihúsbygging þeirra Sigurðar Daníelssonar og Valgerðar Þórðardóttur á Kolviðarhóli árið 1929 var afreksverk og húsið sjálft byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar. Umsvifin á Kolviðarhóli urðu mest í tíð Sigurðar og Valgerðar, enda bílaöld gengin í garð. Með breyttum Suðurlandsvegi varð Kolviðarhóll ekki lengur í þjóðbraut, þar var ekki lengur þörf á gististað. Hugmyndir og dug vantaði til að finna húsinu nýtt hlutverk. Skemmdarvargar unnu á því tjón, en bæjarstjórn Reykjavíkur gekk í lið með þeim og lét mola húsið mélinu smærra.
Fáar ljósmyndir eru til frá tímaskeiði lestaferðanna sem vonlegt er. Þó hefur ein verið tekin við Kolviðarhól 1904 og sýnir hún Hannes póst Hannesson, annálaðan ferðagarp, leggja upp í dumbungsveðri af Hólnum. Hann er með sex hesta undir koffortum og sjálfur blæs pósturinn í lúður í nafni embættisins. Á mynd sem tekin er líklega áratug síðar sést að tæknileg umskipti hafa orðið; þá er póstvagnalest á ferð suður með Reykjafellinu; póstvagnarnir með háu þaki og sýnilegt að þeir hafa getað tekið farþega.
Þægindin eru komin til sögunnar, bílaöldin rétt handan við hornið. Þriðja myndin sem varðveizt hefur er tekin á Kolviðarhólshlaði í tíð Guðna og Margrétar um aldamótin 1900. Þetta hefur verið snemma vors og enn mikill snjór norður í Skarðsmýrarfjalli… Ferðamenn hafa brugðið sér inn til að fá sér hressingu og hefur ekki þótt taka því að spenna frá vagnhesta eða taka ofan koffort af baggahestum. Á myndinni sem birtist í síðustu Lesbók er fortíðin að syngja sitt síðasta og millistigið, hestvagninn, er kominn til sögu; fyrsti bíllinn þó ókominn til landsins. Enn er til ljósmynd, tekin tveimur áratugum síðar. Þá hafði verið ekið upp að Kolviðarhóli á virðulegri, svartri drossíu eins og þessi farartæki voru gjarnan kölluð þá. Hún er með bílnúmerið RE 85 og bílstjórinn er Vígmundur Pálsson úr Mosfellssveit. Bíllinn var orðinn þarfasti þjónninn.
Teningunum kastað og örlög ákveðin
Gestgjafarnir á Hólnum, Sigurður Daníelsson frá Herríðarhóli og Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti, voru í rauninni fulltrúar nýrrar aldar og gerbreyttra samgangna sem gerðu hvorttveggja, að umferðin að Kolviðarhóli margfaldaðist, en kipptu líka fótum undan þessum rekstri með tímanum.
Menn urðu fljótir í förum og sífellt færri þurftu á gistingu að halda. Óhætt er að segja að Sigurður og Valgerður á Kolviðarhóli hafi orðið þjóðkunnar persónur, enda bæði afburðafólk fyrir áræði og dugnað. Þau voru gestgjafar á Kolviðarhóli frá 1906 til 1935 og Valgerður var þar lengur, eða til 1943.
Sigurður Daníelsson var Holtamaður að uppruna, kominn af Torfa sýslumanni í Klofa á Landi. Hálfbróðir hans var Daníel bóndi í Guttormshaga, faðir Guðmundar rithöfundar. Sigurður þótti bráðþroska ungur maður og var fljótt talinn óvenjulegt mannsefni, hjálpsamur og ljúfur og ávann sér alls staðar traust.
Eftir 1902 er Sigurður skráður í Reykjavík og stundar þá ýmsa vinnu til sjós og lands; þar á meðal voru fjárkaupaferðir fyrir ýmsa kaupmenn á haustin. Mikilvægasti vendipunkturinn í lífi hans var hinsvegar þegar hann réðst í að kaupa Kolviðarhól, þá 37 ára og ókvæntur. Um þriggja ára skeið hafði Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti í Stokkseyrarhreppi verið vinnukona hjá Guðna og Margréti á Hólnum. Hún var öllum hnútum kunnug í rekstrinum og Sigurði þótti fengur í að fá hana sem ráðskonu. Raunar voru þau orðin hjón eftir fyrsta árið. Hjónaband þeirra varð barnlaust, en áður hafði Sigurður eignast soninn Davíð.
Sigurður Daníelsson þótti „réttur maður á réttum stað“ á Kolviðarhóli, öflugur arftaki þeirra Jóns Jónssonar og Guðna Þorbergssonar. Í þau 30 ár sem hann var gestgjafi á Hólnum gerði hann stórfelldar umbætur í ræktun og byggingum; menn kölluðu það þrekvirki.
Hann varð meðal hinna allra fyrstu meðal bænda til að fá þúfnabana til að slétta og brjóta land og jók svo túnrækt á Kolviðarhóli að töðufengur margfaldaðist og fór yfir 400 hestburði um það er lauk. Á síðasta áratugnum sem hann lifði lét hann vinna á fjórða þúsund dagsverk að túnrækt og fénaðarhúsbyggingum og gat þá losað sig við jörð austur í Ölfusi sem hann hafði nýtt til heyskapar.
Sigurður Daníelsson var meðalmaður á hæð en þrekinn. Hann var svipsterkur maður, hærður vel með dökkar og miklar augabrúnir og yfirskegg. Á yngri árum var hann með glóbjart hár. Aldrei kvartaði hann þótt móti blési, æðraðist ekki yfir því sem orðið var, áreiðanlegur í viðskiptum, reglusamur og gerði vel við sitt fólk, höfðingi í lund.
Valgerður Þórðardóttir var ekki síður framúrskarandi og þótti bera af ungum stúlkum í sinni sveit. Ung fór hún að heiman til vinnumennsku á Háeyri og á Stokkseyri. Þar kynntist hún ungum manni frá Ísafirði og átti með honum tvær dætur. En sambúð þeirra varð ekki til framtíðar. Maðurinn flutti til Noregs og Valgerður átti ekki annarra kosta völ en að koma dætrum sínum í fóstur. Ætlun hennar var að fara í atvinnuleit til Austfjarða og ásamt vinkonu sinni lagði hún af stað fótgangandi til Reykjavíkur. Veður var vont og þung færð á leiðinni yfir heiðina. Þær stöllur náðu samt að Kolviðarhóli og gistu þar. Matreiðslukona sem verið hafði í vinnu hjá Guðna og Margréti var þá á förum og Guðna leizt strax vel á þessa kraftmiklu, ungu konu úr Flóanum og falaði hana umsvifalaust. En Valgerður setti þá upp mun hærra kaup en þekktist og Guðni kvaðst ekki geta gengið að því. „Gott og vel, þá er því sleppt,“ svaraði Valgerður og bjóst til brottferðar með vinkonu sinni. En ekki voru þær komnar lengra en niður af hólnum þegar Guðni kom hlaupandi og vildi ganga að kröfum Valgerðar. Hún sneri við; teningunum hafði verið kastað, örlög ráðin. Upp frá því var hún kennd við Kolviðarhól. Í fjögur ár var Valgerður í þjónustu Guðna og Margrétar og svo tók hún við gestgjafahlutverkinu sem eiginkona Sigurðar Daníelssonar eins og áður var sagt.
Í Kolviðarhólssögu sinni segir Skúli Helgason, að aldrei verði hægt að lýsa ævistarfi Valgerðar á Kolviðarhóli svo að glögg mynd fáist af því: „Allar frásagnir verða eins og veikt bergmál af því sem hún var. Henni er svo lýst, að skapgerðin var sterk, viljaþrekið óbilandi, framkoman uppörvandi og hressileg, hjálpfýsin með afbrigðum og velviljinn einstæður, hver sem í hlut átti. Hún krafðist mikils af starfsfólki sínu og þoldi illa sérhlífni. En hjúum sínum reyndist hún ævinlega hin ágætasta húsmóðir.“ Björgunarstörf Sigurðar fólust í að koma örmagna mönnum inn úr dyrum á Kolviðarhóli. Þar tók Valgerður við þeim, dró af þeim vosklæði, háttaði þá ofan í rúm og hjúkraði þeim eins og með þurfti. Þegar þeir fóru að skjálfa kvaðst hún hafa hætt að óttast um líf þeirra.
Stórvirki á Kolviðarhóli
Árið 1929 réðst Sigurður Daníelsson í að byggja 140 fermetra steinhús, kjallara hæð og ris. Megineinkenni hússins voru þrjár svipmiklar burstir. Þetta hús reis tignarlega á Hólnum, byggingarlistaverk Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, sem var einmitt á þessu tímaskeiði að gera athyglisverðar tilraunir til að endurvekja burstabæjarstílinn með nýju byggingarefni, steinsteypunni. Laugarvatnsskólinn er til dæmis frá sama tíma.
Margir hafa tekið eftir því að burstir fara vel undir fjallshlíðum og sannaðist það bæði á Laugarvatni og Kolviðarhóli. Þetta svipmót fær líka aukinn styrk sé húsið hátt. Sérkennilegt var, að miðburstin var mjórri en hinar og ögn lægri og í öðru lagi það, að kvistur gekk í gegnum burstirnar þrjár. Þá lausn notaði Guðjón ekki annarsstaðar.
Nú varð heldur betur staðarlegt heim að líta á Hólinn; „skýjaborgir“ Sigurðar málara orðnar að veruleika og gott betur. Í húsinu voru 20 vistarverur, 6 herbergi í kjallara, önnur 6 herbergi og 2 stofur á hæðinni og 8 herbergi undir súð í burstunum. Húsið var allt steinsteypt, miðstöðvarhitun frá kolakatli í kjallara og raflýsing frá stórri ljósavél. Byggingarkostnaðurinn nam 70 þúsundum sem var stórfé á árunum 1929–30. Úr ríkissjóði fékkst 12 þúsund króna styrkur; hitt kostuðu þau Sigurður og Valgerður sjálf.
Ekki allar ferðir til fjár
Hér var gengið fram af miklu áræði og ekki vissu menn þá að heimskreppan mikla var framundan. Nú var sú aðstaða fengin sem lengi hafði verið nauðsynleg og þau hjón urðu þekkt sem afburða gestgjafar. En ekki voru allar ferðir til fjár og enn sem fyrr var Kolviðarhóll björgunarstöð við alfaraleið í óbyggðum. Fyrir mikla og óhemju erfiða vinnu við hjálparstarf og björgun mannslífa var einskis krafizt.
Þó að vegum sé nú haldið opnum með snjómokstri þekkja margir þann ótrúlega mun sem orðið getur á veðri í Reykjavík og uppi í Svínahrauni. Hæðarmunurinn er þó ekki ærinn. Fyrsti vegurinn upp eftir Svínahrauni var lítið sem ekki neitt upphlaðinn og hann varð ófær í fyrstu snjóum.
Árið 1907 var sími lagður austur yfir Hellisheiði og sími kom þá að Kolviðarhóli. Eftir það varð föst venja Sigurðar að nota símann til að fylgjast með mannaferðum ef illa leit út með veður og færð. Þá hafði hann annarsvegar samband við Lögberg, efsta byggða ból ofan Reykjavíkur og hinsvegar við Kotströnd í Ölfusi. Þegar Sigurður frétti að einhver hefði lagt af stað í tvísýnu veðri og skilaði sér ekki á eðlilegum tíma, fór hann óbeðinn af stað til leitar og aðstoðar þó ekki sæist út úr augum, ýmist einn eða með einhvern með sér. Aftur og aftur kom hann að mönnum sem voru búnir að gefa allt frá sér og lagstir fyrir. Alltaf tókst Sigurði að bjarga þeim. Á verstu snjóavetrunum kom fyrir að hann færi tvær eða þrjár björgunarferðir sama daginn, ýmist upp á Hellisheiði eða fram í Svínahraun Þegar heilsu Sigurðar fór að hraka 1935 lét hann það verða sína síðustu framkvæmd á Kolviðarhóli að útbúa heimagrafreit með steinsteyptu grafhýsi. Þarna vildi hann bera beinin og nú er þetta grafhýsi eina mannvirkið sem uppi stendur á staðnum fyrir utan nokkra grjótgarða. Krabbamein í hálsi dró Sigurð til dauða. Hann var þá 67 ára og fylgdi honum mikill mannfjöldi til grafar.
Frægir menn og flakkarar
Förumenn, eða flakkarar eins og þeir voru nefndir, áttu vísan næturstað á Kolviðarhóli og ekki gátu þeir borgað fyrir sig. Einn þeirra, sem margoft hafði gist á Hólnum og þegið matarbita, kom þangað aldraður og þrotinn að kröftum með þá ósk eina að hann mætti fá að deyja hjá Valgerði. Honum varð að ósk sinni. „Ég saknaði þessara manna þegar þeir hættu að koma,“ sagði Valgerður, „þó að mér væri alltaf illa við sóðaskapinn sem þeim fylgdi.“ Meðal förumanna sem oft komu að Kolviðarhóli voru Jón Repp, Bréfa-Runki, Jón söðli, Guðmundur dúllari, Eyjólfur ljóstollur, Símon Dalaskáld, Guðmundur kíkir, Óli prammi, Gvendur blesi, Árni funi og Langstaða-Steini.
En þjóðskáld, stjórnmálamenn og frægir erlendir ferðamenn gistu líka á Kolviðarhóli. Á gestalistanum eru ýmis þjóðkunn nöfn: Sigurður Breiðfjörð skáld, Þuríður formaður og séra Matthías Jochumsson.
Hann segir frá því í ævisögu sinni, að hann gisti á Hólnum 1884 á austurleið. Ófærð var og hríðarveður og 40 ferðamenn höfðu þá verið hýstir á Hólnum. Þeim gaf séra Matthías öllum staup af brennivíni og síðan gengu menn til náða.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra kom oft á Hólinn og gisti þar tvívegis. Í eitt skiptið var hann á ferð þeirra erinda að vígja Sogsbrúna. Þótti heppilegt að skipta þeirri löngu leið austur að Sogi í tvo áfanga og gista á Kolviðarhóli. Annað skáld, Einar Benediktsson, gisti þar ásamt konu sinni þegar hann var sýslumaður í Rangárvallasýslu. Það var ólíkt Einari sem að jafnaði jós út fé, að hann kvartaði yfir háu verði á gistingunni. Gott hjá Guðna, að hann bauðst þá til að gefa honum gistinguna eins og flökkurunum, en ekki þáði skáldið það. Eitt skáldið enn, Grímur Thomsen, hafði sérstaklega stutt húsbygginguna á Hólnum 1877 og gisti þar löngu síðar og bað um tvennt: Þrjú staup af brennivíni og að hestur hans yrði látinn í hús og breitt yfir hann. Grímur átti þá fá ár eftir.
Íslandsvinurinn Williard Fiske gisti á Kolviðarhóli 1879 ásamt séra Matthíasi. Daniel Bruun gisti þar oft og baróninn á Hvítarvöllum hafði þar viðkomu þegar hann fór til að athuga ölkelduvatn í Hengli, sem hann hugðist nýta. Áður var minnst á Friðrik kóng VIII sem kom að Kolviðarhóli í Íslandsförinni 1907.
Hnignun og fall á Kolviðarhóli Eftir lát Sigurðar bjó Valgerður áfram á Kolviðarhóli til ársins 1938 og sinnti gestgjafahlutverki. En 10. apríl 1938 seldi hún Íþróttafélagi Reykjavíkur Kolviðarhól ásamt öllum mannvirkjum. Þá var sá skilningur ríkjandi að ÍR ætti að annast áfram greiðasölu og gistingu og Valgerður var ráðin næstu 5 árin til að veita gistihúsinu forstöðu.
Í fardögum 1943 lét hún starf sitt laust, þá orðin 72 ára. Á þriðja ár bjó hún áfram í litlu timburhúsi sem Sigurður hafði byggt norður á völlunum. Þar bjó öldruð kona með henni sem lengi hafði starfað á Hólnum og saman hugsuðu þær um nokkrar kindur og hænsni. Þær fóru alfarnar 1946 og settust að í Hveragerði. Þar bjó Valgerður til dauðadags 13. júní 1946, þá orðin 86 ára. Þá var aðeins eftir síðasta ferðin á Hólinn þar sem kistu hennar var komið fyrir í grafhýsinu.
Hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur voru uppi stór áform um að Kolviðarhóll skyldi verða miðstöð vetraríþrótta. Breyta átti húsinu svo það rúmaði a.m.k. 100 næturgesti. Í sjálfboðavinnu átti að fegra staðinn, planta trjám, hreinsa skíðabrekkur, hlaða stökkpall og undirbúa gott skautasvell á vetrum. Á sumrin átti Kolviðarhóll að vera hvíldar- og skemmtistaður fyrir Reykvíkinga.
Í Alþýðublaðinu sagði svo 1. september 1938: „25 piltar við vinnu og vinnunám á Kolviðarhóli. Miklar framkvæmdir á hinum nýja skíðastað Reykvíkinga. Unglingavinna byrjar að líkindum uppúr næstu mánaðamótum.“
Piltarnir unnu m.a. að því að byggja pall á hlaðinu. „Hefur verið gerð mikil og rammleg upphækkun fyrir framan húsið og hefur það verið mikið verk og vandasamt. Grjót hafa piltarnir sprengt upp í hrauninu og flutt það á bíl þaðan. Þá vinna þeir að gerð skíðastökkbrautar við Búastein þar sem skilyrði eru sögð mjög góð fyrir stökkpall.“
Skemmst er frá því að segja að pallurinn sem gerður var við húsið sumarið 1938 var það eina af þessu sem komst í framkvæmd. Hlaðinn kantur hans að framanverðu er nánast það eina sem ekki var eyðilagt og sést enn. Trjárækt varð aldrei að veruleika; ekki skautasvellið heldur. Talsverð vinna var lögð í lagfæringar á skíðabrekkum og sumarið 1945 lagði ÍR nýja vatnsveitu heim í hús og byggði skíðageymslu. Um 30 manns unnu að þessu í sjálfboðavinnu.
ftir að Valgerður hætti umsjón með veitingarekstri gekk á ýmsu og alls komu níu menn að rekstrinum á tímabili sem lauk 1948, þegar Kolviðarhóll var leigður Rauða krossi Íslands fyrir barnaheimili. Það stóð í ár og eftir það var ekki um neinn samfelldan rekstur að ræða. Síðastur til þess að bjóða gestum veitingar á Kolviðarhóli varð Guðni Erlendsson sem einnig rak veitingaskála við Gullfoss.
Pólitískur hanaslagur varð til þess að flýta fyrir endalokunum á Kolviðarhóli. Hann varð með þeim hætti að dagblöð í Reykjavík, Alþýðublaðið og Þjóðviljinn, birtu æsifréttir um að bandarískir hermenn hefðu sést með íslenzkum stúlkum á Kolviðarhóli. Þær áttu að hafa verið drukknar. Einkanlega var það Þjóðviljinn sem gerði sér mat úr þessu og var þar talað um Kolviðarhólshúsið sem aðstöðu fyrir „telpnaveiðar hernámsins“. Formaður ÍR lofaði að láta stöðva meintan ósóma, en Morgunblaðið taldi að þessi umræða væri byggð á ýkjum.
Vorið 1952 var hún Snorrabúð sannarlega orðin stekkur; enginn fékkst þá til að vera á staðnum og um líkt leyti fór að bera á því að skemmdarvargar og bullur legðu leið sína á Hólinn til þess eins að skemma húsið. Rúður voru brotnar, hurðir sprengdar upp og húsbúnaði, sem þar hafði orðið eftir, var stolið.
Árin liðu og á síðari hluta sjötta áratugarins leit hin glæsta burstabygging Sigurðar og Valgerðar á Kolviðarhóli út eins og þau hús sem orðið hafa fyrir árásum í stríði. Búið að brjóta allar rúður, jafnvel karmana með og hnullungar lágu um öll gólf, svo stórir að fíleflda karlmenn hefur þurft til að kasta þeim inn af þvílíku afli að þeir moluðu bæði rúður og gluggapósta. Allur húsbúnaður var sömuleiðis í méli og með mikilli fyrirhöfn höfðu miðstöðvarofnar jafnvel verið slitnir frá. Umhverfis húsið var allt í braki, útihúsin fallin og túnið í órækt.
æjarráð Reykjavíkur samþykkir að brjóta húsið niður Hjá öllu þessu hefði mátt komast með því einu að ráða húsvörð og halda húsinu við. Það hefði kostað einhverjar krónur en við ættum í staðinn hús sem væri byggingarsögulegt verðmæti og því hefði verið fundið nýtt hlutverk við hæfi.. Þar hefði til að mynda getað orðið miðstöð gönguferða um Hengilssvæðið eða safn um samgöngur og flutningatækni fyrr á tímum. Ekkert slíkt safn er til. Þeir tímar þegar ekkert var hægt að flytja nema lyfta því á klakk, svo og hestvagnaöldin, eru ungu fólki jafnfjarlægir og söguöldin og samt er ekki lengra síðan en svo að reiðingar og hestvagnar tilheyrðu daglegum veruleika þegar elzta kynslóðin í landinu var ung. Jafnvel þótt skemmdarvargar brytu allt á Kolviðarhóli sem brotnað gat og fátt væri óskemmt innanstokks, þá stóð þetta sögulega hús eftir sem áður. Það var ekki fyrir neinum.
Einhverntíma hefði komið að því að framsýnir menn tækju til hendinni og þá hefði húsið gengið í endurnýjun lífdaganna. En því miður réð sú skammsýni ferðinni sem telur fara bezt á því að brjóta allt niður sem er gamalt og slétta yfir öll gengin spor.
Tímanum 22. janúar 1960 segir svo í fyrirsögn: „Aldargamall gististaður lagður undir fallhamar.“ Og í frétt blaðsins er m.a. eftirfarandi: „Sl. þriðjudag kl. 16 gerði bæjarráð Reykjavíkurbæjar samþykkt um að fela bæjarverkfræðingi að fjarlægja húsin að Kolviðarhóli. Þá er lokið langri og litríkri sögu. Þegar starfsmenn bæjarverkfræðings hafa brotið þar gömlu húsin sem eftir standa, mun þögnin geyma Kolviðarhól.
Íþróttafélag Reykjavíkur hafði selt Reykjavíkurbæ húsin á Kolviðarhóli og höfðu áhugasamir menn gert tilraun til endurbóta; skipt um glugga og ýmislegt fleira.“
En það var ekki fyrr en 12. júlí 1977 að menn á vegum bæjarverkfræðingsins komu að Kolviðarhóli með járnkúlu til að mola steinveggina.. Ekki hafa allir verið sannfærðir um réttmæti þess, því málið var borið undir Þór Magnússon þjóðminjavörð, en hann beitti sér að minnsta kosti ekki gegn eyðingunni. Tíminn er eina blaðið sem ýjar að því að þetta sé vafasamur verknaður og segir í fréttinni um niðurbrotið 14. júlí 1977: „Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er í.“
Í Morgunblaðinu er smáfrétt 28. júlí 1977 með ljósmynd sem Ragnar Axelsson hefur tekið og sýnir hún þegar verið er að skófla því síðasta af steinhúsinu upp á vörubíl.
Síðan hefur þögnin ríkt á Kolviðarhóli – og skömmin.“
Í Óðni 1923 er fjallað um „Ebenesar Guðmundsson, gullsmið„, en hann réði húsum á Kolviðarhóli fyrstur ábúenda:
Vorið 1878 flutti Ebeneser með fjölskyldu sinni á Kolviðarhól og varð þannig hinn fyrsti maður er gerði þann stað að bygðu bóli. En brátt fóru frumbýliserfiðleikarnir að gera vart við sig; hússkrokkurinn bláber og að vetrarlagi mjög kaldur, engar slægjur, erfiðir aðdrættir; engin eldiviður nema grámosi, og það sem verst var, vatnsleysi — að eins regnvatn.
— Veitingarnar miklu rýrari en búist var við, sumpart sökum þess að ferðamenn voru þá óvanir að kaupa greiða, höfðu nóg nesti sjálfir, enda samkvæmt leyfisbrjefinu skylt að hýsa þá og hesta þeirra ókeypis í nokkrum hluta húsanna, og aukakostnaður talsverður að hafa ljós að jafnaði allar nætur að vetri til í gluggum íbúðarhússins, þar að auki voru þau hjónin alt of gestrisin og góðgerðasöm til að geta haft á hendi greiðasölu með nokkrum ágóða, og gestnauðin tafði húsbóndan frá handverkinu.
Loks þreyttist Ebeneser á öllum þeim erfiðleikum er þarna voru, auk þess sem heilsuleysi og óyndi fjölskyldunnar bættist ofan á, flutti hann því frá Kolviðarhóli haustið 1879 og settist að á Eyrarbakka og rak þar iðn sína til dauðadags; hann ljetst af lifrarkrabba 12. des 1921. Mjög voru þau hjón vel þokkuð þegar þau voru á Kolviðarhóli, fyrir greiðvikni sína og góðgerðasemi við þurfandi ferðamenn, og margra góðra gesta myntust þau einnig frá þeim tíma, sjerstaklega Jóns landæknis Hjaltalín, sem þar var tíður gestur sökum ölkelduvatnsins í Henglafjöllum, sem hann notaði allmikið.“
Í Lesbók Morgunblaðsins 1972 er „100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli“:
„Valgerður fœddist 30. jún i 1871 að Traðarholti í Stokkseyrarhreppi. Foreldrar hennar voru Þórður bóndi Þorvarðsson frá Brattsholti í Flóa og kona hans Guðríður Jónsdóttir, komin af Bergsætt.
Átján ára fór hún í vist til Jóns ríka í Móhúsum á Stokkseyri og var þar um skeið ásamt nokkurri dvöl heima í Traðarholti.
Það var vorið 1902, að hún ætlaði sér að breyta um störf og þá fór hún að heiman. Leiðin lá um Kolviðarhól, sem var gististaður. Gestgjafinn naut þá lítillega fjárhagsstuðnings frá sýslumanni. Það var áskilið að þar væri höfð stúlka, er kynni til matreiðslustarfa.
Guðni Þorbergsson og kona hans Margrét bjuggu þar, er Valgerður og önnur stúlka með henni gistu þar umrætt vor. Guðni hafði haft spurnir af Valgerði og verið bent á að hún hentað í vel í starf þetta. Hann falaði hana því til þjónustu, en hún setti upp óvenju hátt kaup á þeirra tíma mælikvarða. Fór svo, að Guðni veigraði sér við að ganga að kröfu hennar. Lagði Valgerður þá úr hlaði. Ekki var hún langt komin, er gestgjafinn kallaði á eftir henni til frekara viðtals. Sagðist hann ganga að skílmálum hennar og sneri hún þá aftur heim með honum.
Urðu þau Guðni og Margrét, ásamt börnum þeirra, tryggir vinir Valgerðar alla tíð. Það má með sanni segja að þessi næturgisting varð afdrifarík, því Valgerður átti heima á Kolviðarhóli í nærri hálfa öld, og þar varð hennar lífsstarf.
Nafn hennar er þekkt um land allt. Þessari sérstöku ágætiskonu hefur verið þakkað af almenningi og hinu opinbera. Hennar óvenjulega erfiða starf krafðist mikilla hygginda og framsýni til þess að geta rækt það grundvallaratriði að hlúa að öðrum. Hún sagði: „Guð gaf okkur „Hólinn“ (svo var Kolviðarhóll oft nefndur) til þess að hlúa að hröktum og þreyttum ferðamönnum, en ekki til leikaraskapar.“ Sýna þessi orð að hún hefur tekið starf sitt alvarlega og skilið tilgang veru sinnar í þessum fjallasal, sem svo sannarlega gaf ekki mikinn tíma til frjálsræðis. Geysilega vandasamt verk hvíldi á henni, þegar á það er litið, að hún var í þessari stöðu til sjötíu og tveggja ára aldurs, og mörg ár með fullri reisn eftir að hún missti mann sinn. Til gamans má geta þess, að árið sem Valgerður fæddist var haldinn fundur í Reykjavík um þá nauðsyn að veitingahús væri rekið á Kolviðarhóli. Sigurður Guðmundsson málari bar þá hugmynd fram á fundi 26. janúar 1871 í „Leynifélaginu“ svokallaða.
Árið 1905 seldi Guðni Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni frá Herríðarhóli í Holtum. Þann 16. apríl 1906 giftust þau Sigurður og Valgerður og hófu þar búskap sama vor, og bjuggu þar til ársins 1935, er Sigurður lézt. Hann var mesti myndar- og ágætismaður og góður gestgjafi.
Varla verður annars þeirra hjóna minnzt án þess að hins sé getið, því að svo var starf þeirra samofið. Sigurður var framkvæmdasamur dugnaðarmaður. Hann byrjaði á því að rækta þar jörðina, sem var mjög erfitt og dýrt, vegna þess hversu hátt hún liggur yfir sjávarmáli, 200 m. Árið 1929 var húsið á Kolviðarhóli byggt og stendur enn. Það var stórt og vandað þriggja hæða hús með miðstöðvarhitun og rafmagni frá olíukyntri ljósavél, sem sérstakt hús var byggt yfir. Vatnsleiðsla var lögð, svo rennandi vatn var þar. Áður var vatni dælt úr brunni með dælu, en síðar með vatnshrút frá uppistöðu. Var þetta mikil hagræðing frá því, er vatni var ekið heim á vagni í tunnum, og þó var erfitt að ná því. Sigurður byggði líka votheysgryfjur með allra fyrstu bændum; var að þeim nokkurt öryggi. Ekki veitti af, fjallaskúrir komu skyndilega og gegnvættu nærri þurrt hey. Um langan veg þurfti að fara til þess, að afla heyfanga; alla leið austur í Ölfus. Þar átti Sigurður jörð, sem nýtt var til slægna.“
Í Vísi 1977 er sagt frá „Veislunni á Kolviðarhól“:
„Halldór Laxness segir á einum stað um Kolviðarhól: Þar ætti að vera viðboð handa prestum/mikið voðalega er skemmtilegt á Hólnum. Og satt er það, að Kolviðarhóll er kunnur aö skemmtilegheitum. Um mitt sumar árið 1907 kom Friðrik konungur áttundi í heimsókn hingað, og meðal annarra ágætra verka gaf hann út á fyrsta degi heimsóknarinnar konunglega tilskipun, þar sem sagði að samkvæmt óskum forsætisráðherra beggja landanna „höfum vér með allra hæstum úrskurði, dagsettum í dag (þ.e. 30. júlí), skipað nefnd alþingismanna“ og ríkisdagsmanna til þess að undirbúa ráðstafanir til nýrrar löggjafar um stjórnskipulega stöðu Íslands í veldi Danakonungs.“ Að líkindum mun Friðrik áttunda varla hafa órað fyrir því að sú sambandslaganefnd, sem hann var að stofna til, yrði upphafið að lokasprettinum í sjálfstæðismálum Íslendinga. Hins vegar hafði konungur þær artir til landsins, að hann hefði eflaust látið kyrran liggja slíkan grun.
En viðbrögð við frægri ræðu, sem konungur flutti, kominn austan frá Gullfossi og Geysi, benda eindregið til þess að hið danska fylgdarlið hafi um margt talið að einungis væri verið að sinna daglegu nuddi um sífeldar athuganir á réttarstöðu landsins innan veldis Danakonungs.
Samtímaheimildir skýra frá því að konungur hafi fengið gott veður í austurreisunni, heiðan himinn og sólskin frá morgni til kvölds. Og ekki skemmdi að töluvert var af kampavíni með í förinni. Svo fóru leikar, þegar komið var að Kolviðarhóli undir kvöld, áður en lagt var upp í síðasta áfangann til Reykjavíkur að Friðrik konungur flutti stutta tölu yfir nærstöddum, hrifinn eftir velheppnaða ferð, hýr af freyðandi veigum, og þess fullviss að allir konungar og keisarar Evrópu mundu öfunda sig af þeirri för, sem var að ljúka.
Í hinni stuttu ræðu talaði hann um ríkin tvö, þ.e. Ísland og Danmörku. Lengi hefur verið deilt um það, hvort konungi hafi orðið á mismæli, eða hvort hann var með vilja að ýta bæði við Íslendingum og Dönum með því að tala um hin tvö ríki. Of seint er að spyrja Friðrik, en eftir þessa ræðu óx Íslendingum ásmegin, enda liðu ekki nema ellefu ár þangað til þessi hugsun Danakonungs var orðin að veruleika með sambandslögunum. En þetta orðalag konungs var merkilegt að öðru leyti, og má Kolviðarhóll vel njóta þess, það benti viðstöddum á, að utanríkismál, eða öllu heldur milliríkjamál, eru flókin og vandasöm og þeirra verður varla gætt sem skyldi yfir glösum af freyðivíni á sólskinsstund. Orðræðan um ríkin tvö var því nokkur kennslustund jafnframt því að vera fagnaðarefni þeim, sem lengi höfðu beðið eftir skilningi á þörfum og vilja eyþjóðarinnar.“
Í Vísi 1976 er sagt að „Húsið á Kolviðarhóli [sé] nær ónýtt vegna vanhirðu og skemmdarverka“. „Ætti að brjóta húsið niður“, segir borgarverkfræðingur.
„Þeir sem lagt hafa leið sina upp að Kolviðarhóli hin síðustu misseri hafa varla komist hjá að taka eftir því hve hroðalega illa útleikið hið stóra og fyrrum glæsilega húsa þar er. Í öllu húsinu er ekki ein einasta heil rúða, allar hurðir hafa verið rifnar af hjörum, ofnar, kranar, vaskar og annað þess háttar liggur ýmist brotið um öll gólf, eða þá að því hefur verið stolið. Fyrir nokkrum mánuðum kviknaði í efstu hæðinni í austurhluta hússins, og hefur engin viðgerð farið fram ennþá.
Saga Kolviðarhóls er bæði löng og merkileg, og þar var um áratuga skeið rekin veitingasala og gistihús. Er ekki að efa að margur ferðalangurinn hafi rennt hlýjum og þakklátum augum heim að Kolviðarhóli í frosti og kafaldsbyl á ferðum sínum milli þéttbýlisins við Faxaflóa og sveitanna austur í Árnessýslu. Þó Hellisheiði þyki nú ekki erfið yfirferðar né hættuleg ferðamönnum, þá hafa sennilega fleiri orðið þar úti en á nokkrum öðrum fjallvegi á Íslandi. Stafar það trúlega bæði af því hve umferð um hana hefur jafnan verið mikil, og ekki síður vegna þess hve leiðin er stutt. Þá ber allt húsið þess merki, að sauðfé getur gengið þar um að vild sinni, því sum gólfin eru verr útlítandi en mörg fjárhús sem ekki hefur verið stungið út úr lengi.
Þannig er í stuttu máli útlits í þessu stóra húsi, sem eitt sinn var ein glæsilegasta bygging í allri Árnessýslu, og þó víðar væri leitað.
Jörðin Kolviðarholl hefur verið í eigu Reykjavíkurborgar í nokkur ár, en jörðin er í Ölfushreppi í Árnessýslu. Hjón úr Reykjavík bjuggu þar með börnum sínum fyrir örfáum árum.
Áður en hús var reist á Kolviðarhóli var um langan aldur sæluhús þar skammt frá, við svonefndan Húsmúla, sem dregur nafn af sæluhúsinu sem þar stóð undir múlanum. Eru til heimildir um hús þar allt frá árinu 1703, og vafalaust hefur sæluhús verið löngu áður þó ekki finnist um það skriflegar heimildir.
Fljótlega mun það þó hafa þótt ófullnægjandi að hafa sæluhúsið undir Húsmúlanum, og því var það að menn úr Reykjavik og Ölfusi tóku sig saman um að byggja sæluhús á Kolviðarhóli við, Hellisskarð. Var fyrsta sæluhús á þeim stað reist árið 1844.
Starfræksla gistihúss á Kolviðarhóli hófst síðan árið 1878, og var frá þeim tíma rekið þar gistihús og greiðasala með stuttum hléum allt fram til ársins 1952, en síðustu árin var gistihúsið og greiðasalan rekin af Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR).
Sögu Kolviðarhóls verða gerð nánari skil hér í blaðinu á næstunni, en vert er að hafa það í huga er menn leggja leið sina að Kolviðarhóli að þar var eitt sinn rekið glæsilegt gistihús, og staðurinn er þess alls ómaklegur að hann verði látinn grotna niður eins og nú er að gerast. Betur hefði þá farið að húsið brynni niður á einni nóttu, og hyrfi þar með niðurlægingarlaust af sjónarsviðinu. Það væri vissulega verðugt verkefni fyrir Reykjavíkurborg, Ölfushrepp og Árnesingafélagið að stuðla að því í sameiningu að reisa staðinn til fornrar virðingar að nýju.
Eins og er eru þó ekki miklar líkur á að svo verði, því samkvæmt upplýsingum borgarverkfræðings í gær eru ekki uppi neinar áætlanir um að gera við húsið, enda sé það í lakara ástandi en fokhelt hús. „Ef ég mætti ráða myndi ég láta kúluna á húsið og brjóta það niður“, sagði borgarverkfræðingur.“ -AH
Í Tímanum segir; „Rifið niður á Kolviðarhóli“:
„Þriðjudag sl. var hafizt handa um að brjóta niður gamla gistihúsið á Kolviðarhóli, sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Ekki er liðinn nema rétt rúmur áratugur síðan húsið var lagfært mjög, skipt um glugga í því og ýmislegt fleira. Voru þar á ferðinni áhugasamir menn um framtíð staðarins og er nú verk þeirra að engu að verða. Spellvirkjar ýmsir hafa að vísu lagt gjörva hönd á niðurrif hússins, brotið allar rúður og hurðir og jafnvel kveikt í húsinu. Er þetta starf þeirra nú fullkomnað og verið að rifa niður húsið. Umhugsunarefni er hvort ekki sé þar verið að brjóta niður minjar sem eftirsjá er af. Kolviðarhóll er sögufrægur staður og lá þar gamla þjóðleiðin um Hellisskarð fram til þess að akvegur var lagður yfir Hellisheiði. Leiðin frá Lögbergi að Kolviðarhóli, eða austan úr Ölfusi var hér áður drjúgur spotti, sem menn nú aka á rúmum stundarfjórðungi.
Þegar hin „græna bylting“ hefur lokið sínu verki, mun heimagrafreitur síðustu gestgjafanna á Kolviðarhóli, Valgerðar Þórðardóttur og Sigurðar Danlelssonar, verða einu minjarnar á þessum sögufræga stað.“
Sjá meira um Kolviðarhól HÉR.
Heimildir:
-Tíminn, 158. tbl. 24.07.1977, Kolviðarhóll 1877-1977, fyrsti gisti og veitingahúsið á Hellisheiði…, bls. 2-3.
-Lesbók Morgunblaðsins 07.04.2001, Kolviðarhóll – Athvarf á leið yfir Hellisheiði, tímabil Sigurðar og Valgerðar á hólnum, – Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.
-Óðinn, 7.-12. tbl. 01.07.1923, Ebenesar Guðmundsson, gullsmiður, bls. 56-57.
-Lesbók Morgunblaðsins, 16. tbl. 30.04.1972, 100 ára minning Valgerðar Þórðardóttur frá Kolviðarhóli, bls. 8-9 og 16.
-Vísir, 5. tbl. 07.01.1977, Veislan á Kolviðarhól, bls. 10-11.
-Tíminn, 149. tbl. 14.07.1977, Rifið niður á Kolviðarhóli, bls. 1.