Tag Archive for: Hvalsnesleið

Hvalsnesleið

Stefnan var tekin á Keflavíkurflugvallarsvæðið upp á von og óvon. Svæðið innan Vallargirðingarinnar hefur verið landanum lítt aðgengilegt í u.þ.b. sex áratugi og lítið verið gert að því að skoða það m.t.t. hugsanlegra minja.

Hvalsnesgata

Hvalsnesvegur.

Eins og flestum er kunnugt um hefur flugvallarsvæðinu sjálfu verið mikið raskað vegna mannvirkjanna og flugbrautanna, sem þar eru. M.a. var heill gígur, sem stóð efst á heiðinni, jafnaður undir brautina á sínum tíma.
Á dögunum fór FERLIR með staðkunnugum frá Norðurkoti og Fuglavík (sjá aðra lýsingu) upp frá bæjunum í svarta þoku, inn um gat á varnargirðingunni í von um að finna þar einhverjar minjar. Í þeirri ferð fannst m.a. fallega gróin fjárborg og tóft utan í henni. Vatnsstæði var skammt sunnan við borgina.
FERLIR fékk góðar móttökur (sem reynar ávallt fyrrum) hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli til að komast inn á verndarsvæðið. Fulltrúi Flugmálastjórnar tók einnig vel í málaleitan FERLRs og fékkst leyfi til að fara inn fyrir það allar heilagasta. Eftir að hafa fengið fylgd um svæðið, hlið opnuð og síðan lokað á eftir göngufólkinu með loforð um að það fengi að fara út aftur að göngu lokinni, var gengið af stað.

Hvalsnesleið

Gengið um Hvalsnesleið.

Fljótlega var gengið fram á djúpt markaða götu er liðaðist um heiðina, með stefnu áleiðis að Básendum eða Stafnesi til Keflavíkur. Gatan beygir hins vegar til norðurs þarna nokkru vestar. Að sögn Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti er þarna hins vegar um að ræða hina gömlu Hvalsnesleið. Fallnar vörður voru við götuna og hefur verið nokkuð lagt í þær á sínum tíma. Ein var þó svo til alveg heil. Stóð hún á klapparhól sunnan götunnar. Leiðarsteinn vísaði til norðurs, að götunni. Önnur varða var á hól austar, svo til alveg við girðinguna. Þessi gata hefur greinilega verið mikið farin á sínum tíma, en ekkert í seinni tíð. Líklega má telja, miðað við hversu miklu hefur verið kastað upp úr götunni á kafla, að hún hafi verið notuð um nokkurn tíma. Vörðubrotin hafa greinilega verið látin óhreyfð. Fá kennileiti eru þarna utan nokkurra hóla.

Hvalsnesleið

Varða við Hvalsnesleið.

Frá heilu vörðunni lá röð stórra, mjög heillegra, varða til vesturs. Leiðarsteinn stóð út úr þeim öllum og benti hann til suðurs. Vörðunum var fylgt að þeirri síðustu, en frá henni sást í turninn á Hvalsneskirkju. Svo virðist sem hætt hafi verið að varða leiðina áfram niður að Hvalsnesi. Ekki var að sjá stíg í móanum á milli varðanna, sem lágu svo til í beina stefnu. Að sögn Sigurðar er þarna um að ræða svonefnda vetrarleið að Hvalsnesi og skýrir það hversu lítt gatan sést í móanum. Leiðin yfir heiðina var mjög villandi í vpondum veðrum. Skráð var t.d. á sínum tíma að fjöldi manns hafi orðið úti á heiðinni á tiltölulega skömmum tíma. Flestir voru þeir að vísu á leið frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa fengið sér þar svolítið of mikið í tána.

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel.

Melabergsgatan er þarna skammt norðar, að mestu utan girðingarinnar. Gatan, sem skoðuð var innan vallarsvæðisins kemur inn á hana við Melabergsvötnin, að sögn Sigurðar.
Þá var gengið að fjárborginni, sem minnst er á hér að framan. Þetta er nokkuð stór gróin borg. Tóft er austan í tóftinni og einnig virðist hafa verið mannvirki sunnan undir henni. Að sögn Sigurðar er hér um að ræða selstöðu frá Fuglavík. Hólarnir ofan (austan) selstöðunnar heita Selhólar. Á þeim er varða. Vestar er vatnsstæðið.
Ljóst er að leita þarf þetta svæði mun betur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Hvalsnesleið

Hvalsnesgata – vörðukort.

Melabergsgata

Ætlunin var að skoða hugsanlegar minjar á afgirtu svæði innan Keflavíkurflugvallar. Svæðið er að mestu óraskað og ættu þar jafnvel að vera minjar frá bæjarkjörnunum vestan Sandgerðis, s.s. selstöður, þjóðleiðir, vörður, skjól o.fl. Af loftmynd að dæma virðist á svæðinu og vera gatnamót gömlu Hvalsnes-/Melabergsleiðarinnar og gamallar götu milli Hafnavegar og Sandgerðis.

Göngusvæðið

Þegar FERLIR leitaði eftir því við fulltrúa öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli að fá heimild til að ganga um afgirt norðursvæðið, sem nú flokkast sem flugöryggissvæði, en var áður ytra varnarsvæði NATO, voru viðbrögðin strax mjög jákvæð þrátt fyrir að afar ströng skilyrði er gilda um aðgang utanaðkomandi að því. Eftir að tímasetningin hafði verið ákveðin var safnast saman við aðalhliðið inn á svæðið. Skömmu síðar mætti starfsmaður stjórnarinnar á vettvang og opnaði, hleypti þátttakendum inn fyrir og lokaði á eftir þeim. Áætlað hafði verið að leit á svæðinu innan girðingarinnar tæki u.þ.b. þrjár klukkustundir. Svæðið hafði reyndar áður verið skoðað.
Byrjað var á því að ganga yfir að Margvörðum á Margvörðuhól. Hóllinn sá er rétt innan girðingarinnar að austanverðu. Þar kemur gamla Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan upp frá Ró[sa]selsvötunum ofan við Keflavík, fer undir girðinguna og liðast síðan í suðlægan sveig til vesturs innan varnargirðingarinnar, áleiðis að sunnanverðum Melabergsvötnum.

Kaupmannsvarðan

Gatan er mjög greinilega mörkuð í móann og víða hefur verið kastað drjúgum upp úr henni. Kaupmannsvarðan svonefnda setur óneitanlega svip á staðinn.
Frá Margvörðum liggur einig vörðuð gata í sömu átt, áleiðis að norðanverðum Melabergsvötnum. Göturnar koma saman vestan vatnanna. Þó svo að Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan frá Hvalsnesi að Melabergsvötnum beri þess glögg merki að hafa verið endurbætt sem hestvagnavegur hverfur sú endurgerð við norðvestanverð Vötnin. Engin ummerki eru heldur eftir slíka umferð í móanum milli hinnar þráðbeinu vörðuleiðar, þ.e. milli norðanverða Melabergsvatna og Margvarða. Vörðurnar á leiðinni standa hins vegar heilar, flestar a.m.k. Þetta bendir til þess að um hafi verið að ræða endurbætur á gömlu þjóðleiðinni um það leyti er þær reyndust óþarfar.

Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan

Nokkur önnur slík dæmi má finna á Reykjanesskaganum, s.s. á Skipsstíg, Árnastíg og Alfaraleiðinni (Almenningsleiðarhlutanum). Þess vegna má ætla að vörðurnar hafi verið reistar um og skömmu eftir aldamótin 1900. Þær eru líka óvenju heillegar, þótt mosavaxnar séu mót austri. Tilkoma varnargirðingarinnar á fimmta áratug síðustu aldar gæti hafa stuðlað að varðveislu þeirra og girðingin þar með risið undir nafni (því varla hefur hún þjónað öðrum tilgangi þennan tíma að fenginni reynslu). Hafa ber í huga að gömlum vörðum hefur stafað fimmföld hætta; jarðskjálftum, ágangi skepna, skemmdarfýsn manna, frostveðrun og þyngdarlögmálinu. Áhrif þeirra margfaldast gjarnan eftir því sem tímalengdin er meiri. Girðingin hefur dregið úr ásókn manna og annarra skepna og þannig verulega líkur á röskun. Jarðskjálftaáhrif eru jafnan lítil á svæðinu svo langvarandi áhrif frostverkunnar og þyngdarlögmálsins eru þau einu sem eftir standa. Þar af virðist áhrif þyngdarlögmálsins hafa verið lítil sem engin því vel hefur verið vandað til verksins í hvíetna.

Fallin varða

Þegar gömlu Hvalsnesleiðinni/Melabergsgötunni var fylgt frá Margvörðum áleiðis að vestanverðri varnargirðingunni mátti sjá fallnar vörður sunnan hennar með reglulegu millibili. Auk þess að vera vel mörkuð í móann hafði leiðin verið vandlega vörðuð. Í raun þarf engan að undra hvers vegna. Hvalsnesprestakalli var um tíma þjónað frá Njarðvíkum og jafnvel Grindavík. Þá var aðalverslunarhöfnin um tíma á Básendum utan við Stafnes. Hún færðist síðan til Keflavíkur eftir Básendaflóðið 1799. Margmenni var í verum á hverfunum á vestanverðu Rosmhvalanesi, s.s. Stafneshverfi, Hvalnsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi, auk Sandgerðis. Hreppsstjórinn í hreppnum bjó um tíma í Fuglavík, auk þess sem, núverandi „hreppsstjóri“ gætir svæðisins sem hinn besti haukur. Gatnamót mátti sjá á leiðinni þegar hún hafði verið gengin 2/3. Af loftmynd að dæma mátti ætla að þarna hefði fyrrum verið leið milli Hafnavegar norðan Ósabotna og Sandgerðis (eða Fuglavíkur/Bæjarskers).

Vatnshólavarða

Við eftirgrennslan mátti sjá vörður sunnan götunnar. Þær lágu að þotubyrgjum NATO, sem varað hafði verið við að nálgast um of. Í ljós kom að „gatan“ á loftmyndinni var samfelld tréstauralína, sem legið hafði á ská niður heiðina. Staurarnir héngu flestir uppi, en verulega skakkir orðnir.
Utan í neðsta holtinu innan varnargirðingarinnar var varða og hlaðið lítið gerði. Frá því var stefnan tekin til norðurs, áleiðis að Vatnshólavörðunni. Hún hefur fyrrum verið bæði breið og há; augljóst leiðarmerki.
Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir um þetta svæði: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu. Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum.“
Minjar símansTvær stauralínur liggja þarna um svæðið. Báðar hafa þær borið uppi símalínur millum miklvægra leiða á tímum hersetunnar. Frágangur þeirra bendir til tímasetningar í byrjun sjötta áratugs síðustu aldar. Nú hangir engin lína uppi, en staurarnir eru bæði misvísandi (í eiginlegri merkingu) og fagurfræðilegur vitnisburður (í óeiginlegri merkingu) um það sem var.
Þegar skoðuð er örnefnalýsing fyrir  Melaberg, þ.e. viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar, má sjá eftirfarandi: „Til heiðarinnar langt ofan við bæ er svonefnd Grænalág. Austur af bæ norðaustur af Grænulág eru Syðri-Smérklettur og Nyrðri-Smérklettur. Suður af þeim eru tjarnir, sem heita Melabergsvötn. Þar norðaustur af eru Efrivötn. Þau þorna á sumrin. Þar áfram í sömu stefnu eru Brúsastaðir. Þetta er smáholt, en fékk þetta nafn fyrir löngu, af því að þar var maður á ferð með glerbrúsa. Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir. Þar austur af eru Margvörður, og spotta suðaustur af Glæsi er mýrkenndur mói á sléttri flöt, sem heitir Melabergsengi. Innan við Margvörður er Kaupmannsvarða, sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.“

Selvarða

Það má til tíðinda telja að hvergi er minnst á Hvalsnesleiðina/Melabergsgötuna í örnefnalýsingu fyrir Melaberg. Ekkert er heldur um Hvalsnesleiðina í örnefnalýsingu fyrir Hvalsnes. Ástæðan gæti verið sú að frásegjendum hefur þótt svo sjálfsagt að leiðin væri á hvers manns vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta hennar sérstaklega. Svo mun og hafa verið fyrrum í fornritum og frásögnum fólks að sjaldan var því lýst er þótt þá bæði sjálfsagt og hefðbundið.
Gengið var yfir að Vatnshólavörðunni og stefnan síðan tekin af henni á vörðu vestan við Fuglavíkursel. Þaðan sást vel til selvörðunnar á Selhólum.
Þegar Fuglavíkurselið var gaumgæft mátti sjá vatnsstæði bæði norðvestan og suðaustan við það. Selið sjálft, sem er mjög gróið, er ólíkt flestum öðrum hinna 250 selstöðva á Reykjanesskaganum (fyrrum landnámi Ingólfs).

Varða á efri Hvalsnesleiðinni

Leifar þriggja húsa eru í selstöðunni. Millum þeirra er hringlaga gerði líku fjárborg. Norðaustar eru hleðslur. Önnur, sú sem er fjær, gæti verið smalaskjól. Frá því er ágætt útsýni yfir efri vatnsstæðið, hugsanlegan nátthaga. Hin gæti hafa verið skjól fyrir refaskyttu í heiðinni, með efasemdum þó, því hleðslurnar voru óvenjumikið mosavaxnar.
Selvarðan er augljós og stendur enn að hálfu leyti. Selstígurinn er hins vegar óljós. Bæði vegna þess og vegna þess að hvorki er getið um eða hafa fundist aðrar selstöður í Miðnesheiðinni, þrátt fyrir margbæi, en Stafnessel ofan við norðanverða Ósabotna, má draga þá ályktun að þarna (í Fuglavíkurseli) hafi verið sameiginleg selstaða fyrir bæina neðan við ströndina (Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi). Gerðið, sem er óvenju stórt af stekk að vera, gæti og bent til þess. Þá er aðgengi að vatni óvíða í heiðinni, en þarna var hægt að ganga að því sem vísu. Norðurvatnsstæðið var t.d. fullt þótt flest öll önnur væru upp þornuð á þessum tíma. Sveppur dró að sér athyglina.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli er sérstakleg þökkuð góð viðbrög og sanngjörn viðleytni til sögu- og minjaframlags á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Fuglavík.
-Örnefnalýsing fyrir Melaberg.
-Örnefnalýsing fyrir Hvalsnes.

Vatnshólavarða

Hvalsnesgata

Gengið var frá Hvalsnesi eftir svonefndri Hvalsnesgötu(Melabergsleið) um Melabergsvötn og Miðnesheiðina yfir að Stakksnípu norðan Helguvíkur. Tilefnið var að feta í fótspor Rauðhöfða sem lið í Ljósahátíð Reykjanesbæjar, þeim er segir frá í samnefndri þjóðsögu. Sagt er að eftir atburði þeim, sem þar er tilgreindur, heiti nú staðir við Faxaflóa, s.s. Stakkur, Stakksfjörður, Hvalfjörður, Glymur, Hvalfell og Hvalvatn.

Hvalsnesvegur

Hvalsnesvegur – varða.

Fengist hafði leyfi til að ganga leiðina innan ytri varnargirðingarinnar, en þegar leggja átti af stað fengust þær upplýsingar að hliðið þar efra, sem átti að ganga út um, hafi verið fest og ekki hægt að opna það. Því var brugðið á það ráð að ganga með girðingunni á þeim kafla leiðarinnar.
Hins vegar er löngu kominn tími til þess að opna þessa fallegu leið fyrir innlendum svo þeir geti notið eigin fornminja, enda þjónar „varnargirðingin“ litlum tilgangi á þessu svæði. Önnur girðing er innar og væri nóg að hafa hana til varnar hersstöðinni.
Gangan hófst á Hvalsnesgötunni skammt sunnan viið Melaberg eftir að þjóðsagan um Rauðhöfða hafði verið rakin í megindráttum.
Hvalsnes er bær og kirkjustaður milli Sandgerðis og Stafness. Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Á Hvalsnesi var kirkja helguð guði Maríu guðsmóður, Ólafi konungi og, heilagri Katrínu og öllum guðs heilögum mönnum. Núverandi kirkja var reist á árunum 1886-1887 og vígð á jóladag 1887. Hún er hlaðinn úr tilhöggnum steini. Frægastur prestur á Hvalsnesi er sennilega Hallgrímur Pétursson.

Hvalsnesvegur

Hvalsnesvegur – varða.

Í sögunni (reyndar eru til nokkrar útgáfur) um Rauðhöfða segir frá því að „í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga). Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið að honum varð ekki náð út í skipið hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið og töldu þeir manninn af með öllu nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu hvar komið var og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komizt út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.
Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu.

Figlavíkursel

Fuglavíkursel.

Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu.
Nú leið enn og beið og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn góðan veðurdag þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður sem alla kynjaði á. Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út (aðrir segja inn í kirkjuna og láta allan atburðinn fara fram fyrir messu) úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Ofan á vöggunni lá dýrindisábreiða sem enginn þekkti hvað í var. Á þetta varð öllum starsýnt mjög og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu og enginn lézt þar vita nein deili á. Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu ekki síður en aðra. Spyr hann þá hvort viti nokkur deili á vöggunni og barninu eða hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji að hann skíri barnið. En enginn lézt vita neitt um þetta og enginn þóttist hirða um að hann skírði barnið. En af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur spurði hann hann ítarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita um vögguna né barnið enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt.

Sandgerðisvegur

Gengið um Sandgerðisveg.

En í því bili sem maðurinn sagði þetta stóð þar kvenmaður hjá þeim fríð sýnum og fönguleg, en æði svipmikil. Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir:
„Ekki skal kirkjan gjalda.“
Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega:
„En þú skalt verða að hinu versta (argasta) illhveli í sjó.“
Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. – Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið þar til skamms tíma og þótt hin mesta gersemi.
Nú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.

Stakkur

Stakkur.

Það er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins að hann hefði sagzt hafa dvalið um veturinn í skerinu (skerið var síðan kallað Helgasker) í álfabæ einum í góðu yfirlæti. Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki geta fest þar yndi. Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu hefði hann gengið um skerið í eins konar örvilnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér til að stytta hörmungar sínar. En þá sagði hann að til sín hefði komið stúlka fríð og falleg og boðið sér veturvist og sagt að hún væri ein af álfafólki því sem ætti heima í Geirfuglaskeri. Þetta þá hann, en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann að álfastúlkan hefði sagzt ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta skíra það ef hún kæmi því til kirkju þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði það ekki mundi hann gjalda þess grimmilega. Sumir segja að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um sumarið; sumir segja að han hafi gjört það um leið og hann gekk um á Melabergi frá kirkjunni seinast, en sumir segja að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum öðrum. En ekki er þess getið hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með barnsskírnina.
En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur í Faxaflóa og grandaði þar mönnum og skipum svo engum var óhætt í sjó milli Reykjaness og Akraness. Varð það fjarskinn allur sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans völdum þó ekki séu þeir nafngreindir neinir sem hann drap eða tölu hafi verið á þá komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness og er sá fjörður því síðan kallaður Hvalfjörður.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur.

Þá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll uppkomin þegar hér var komið sögunni og hin efnilegustu og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða og drekkti hann þeim báðum. Presturinn faðir þeirra heyrði að synir sínir væru drukknaðir og svo af hvers völdum. Féllst honum mikið um sonamissinn.
Litlu síðar einn góðan veðurdag biður hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum sem er þaðan ekki alllangt frá bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með tilhjálp dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera spegilfagran og sléttan. Að lítilli stundu liðinni spyr karl aftur hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir að utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau biður prestur hana leiða sig inn með fjörunni og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau og gekk það uns komið var inn í fjarðarbotn. En þegar grynna fór sá stúlkan að röstin stóð af ákaflega stórum hval sem synti beint inn eftir firðinum eins og hann væri rekinn eða teymdur. Þegar fjörðinn þraut og þar kom að sem Botnsá kemur í hann bað klerkur dóttur sína að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það og staulaðist karlinn upp fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis.

Melabergsvötn

Melabergsvötn.

En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir. En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn.
Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell. Þegar Rauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hefur síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stór-kostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. – En þegar prestur var búinn að koma hvalnum fyrir í vatninu staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni og þökkuðu honum allir vel fyrir viðvikið.“Sagan um Rauðhöfða er til í nokkrum útgáfum, yfirleitt breyttum og styttum. Ein þeirra fjallar um Melabergsmanninn. „Hann hleypur fram af hamri sem kallast Stakksgnípa. Drekkir 19 skipum milli Akraness og Seltjarnarness. Drekkti bæði syni prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og prestsins í Saurbæ á Kjalarnesi. Tóku þeir sig saman og kváðu Rauðhöfða inn fjörðinn á milli bæjanna og heitir hann því Hvalfjörður. Varð þá landskjálfti mikill og því heita hæðirnar við Hvalvatn Skjálfandahæðir.“

Í sögunni um Faxa, sem er um sama efni, segir að „þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.“

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsvarða.

Í sögunni um Melabergs-Helga, enn um sama efni, segir að „ekkja nokkur bjó að Melabergi ásamt sonum sínum þremur og hét einn Helgi. Eitt sinn fóru bræðurnir í Geirfuglasker ásamt öðrum. Þeim varð illt til fengs og fóru því í fleiri sker. En nú fór að brima og komst Helgi ekki í bátinn. Ekki var komist í skerin fyrr en vorið eftir og var leitað eftir beinum Helga. Var undrun manna mikil er hann fannst lifandi og vel á sig kominn. Eftir þetta var skerið kallað Helgasker.
Síðan gerist allt sem í hinum sögunum og er upp komast svik Helga segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fam af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags. Bræður Helga ætluðu heim og komust inn fyrir Melabergsá og urðu þar að steinum. Heita steinar þeir Bræður enn. Helgi breyttist í rauðhöfðaðan hval og hafðist við í Hvalfirði á fjaðrarmótum Kollafjarðar.
Að Reynivöllum bjó prestur og drekkti Rauðhöfði sonum hans tveim. Prestur var skáld og kunnáttusamur. Hann stefndi Rauðhöfða upp í Hvalvatn. Melaberg lagðist í eyði vegna reimleika. En klæðið sem var yfir ruggunni skyldi hafa verið haft fyrir altarisklæði á Hvalsnesi þar til slitið var, þá tekið í sundur og verið lengi til nokkuð af því og ei alllangt síðan eyðilagðist.“

Í sögunni um Mókoll á Melabergi, enn og aftur um sama efni, segir að hann hafi verið „ríkur bóndi á Melabergi. Allt fer sem fyrr en nú er hann finnst er kona ein hjá honum og lætur vel að honum. Segist hún ganga með barn hans og muni koma með það í kirkju til skírnar. En er barnið var til skírnar fært vildi Mókollur ekki kannast við neitt. Hann stekkur úr kirkju og fram á Hólmsberg á snös þá er síðan er kölluð Stakksnös. Þá féll þar úr berginu með honum klettur sá er Stakkur heitir. Á Katanesi bjó karl sem átti tvo sonu sem Mókollur gleypti að karli ásjáandi. Hann kom svo Mókolli fyrir í Hvalvatni.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsvarða endurgerð.

Í annarri útgáfu af sögunni um Rauðhöfða segir að „Árni hafi heitið kvæntur maður og átti hann nokkur börn. Skip hans hvarf við Geirfuglasker en vorið eftir birtist Árni þessi heima hjá sér. Ekki sagði hann hvernig hann hefði komist af. Nú gerist allt sem áður: barn er fært til skírnar og yfir því er dýrindis klæði í rauðum lit. Presturinn reynir árangurslaust að telja Árna á að viðurkenna barnið og álfkonan leggur á að hann verði að hinum versta fiski í sjónum „og granda skipum og mönnum og aldrei komast úr þeim ánauðum, og jafnan skal einhver ógæfumaður vera meðal niðja þinna, allt í átjánda lið.“ Árni var með rauða húfi á höfði er hann tók að tryllast og þrútna út. Stökk hann svo í sjóinn og breyttist í illhveli mikið og hafðist við milli lands og Geirfuglaskerja þar til kraftaskáld nokkur kvað hann upp í Hvalvatn. Mælt er að Einar á Iðu sem var dæmdur til lífláts fyrir barneign í meinum væri kominn að Árna í níunda lið, en nú er komið í hinn tólfta.“

Í sögunni um Álfkonuna í Geirfuglaskeri, sem ein útgáfan af Rauðhöfða, segir að „nú er það presturinn að Útskálum er fær barnið til skírnar og maðurinn kastar sér fram af „Hólsbergi“. Hann drekkir síðan tveim sonum ekkju á Bjarteyjarsandi. Hún var margkunnug og kom illhvelinu fyrir í Hvalvatn.“
Í sögunni um Hvalinn í Hvalvatni segir af Gísla (eða Birni). „Hann hafðist við hjá tveimur konum og gerði þá yngri ólétta. Við messu kemur kona með vöggu og yfir henni er rautt klæði. Þegar Gísli neitar að eiga barnið breytist hann í illhveli og hefst við á Faxaflóa og gengur síðan allt eftir sem fyrr.“

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsvarða við Sandgerðisveg.

Í sögunni um Árna á Melabergi segir að „Árni þessi átti þrjá bræður er bjuggu á næstu bæjum við Melaberg. Hann hvarf við Geirfuglasker um haust og kom fram vorið eftir að Hvalsnesskirkju heill á hófi og vel útlítandi. Nú gengur sem fyrr að kona kemur með vöggu til kirkju og yfir henni er fagur dúkur.
Þegar Árni neitar að meðkenna barnið segir konan: „Illa launar þú mér lífgjöfina og veturvistina enda skaltu í sjóinn fara – og verða að þeim versta og mannskæðasta hval og óhamingja skal fylgja ætt þinni í átjánda lið.“
Árni ærðist og steyptist fram af klettunum hjá Melabergi. Bræður Árna voru við kirkju og urðu þeir allir að steinum á heimleiðinni. Þeir steinar sjást hjá kirkjuveginum og eru stórir drangar og ganga út úr þeim mjóir drangar sem handleggir. Það fylgdi ætt Árna í átjánda lið að í henni var alltaf einhvur ólánsmaður. Seinastur þeirra er talinn Einar á Iðu á Skeiðum sem átti barn með dóttur sinni. Árni varð að versta hval og lagðist inn í Hvalfjörð. Þar var hann þar til hann drekkti tveimur sonum bónda á Kjalarnesi. Þessi bóndi var kraftaskáld og kvað hann hvalinn inn úr Hvalfirði og undir jörðu inn í Hvalvatn þar sem hann sprakk. Eftir hvarf Árna var um langa tíð reimt á Melabergi.“

Á leiðinni, skammt vestan Melabergsvatna, eru hólar að norðanverðu. Þeir heita Smjerhólar. Ofar eru Melabergsvötnin. Þar segir sagan að Tómas nokkur frá Bursthúsum hafi drukknað er hann var að fara yfir brú á vötnunum á 17. öld. Tómasarhóll heitir hóll með fuglaþúfu á nokkur norðaustar í heiðinni, skammt frá horni varnargirðingarinnar. Óvíst er þó að sá hóll tengist atburðinum þótt um sama nafn sé um að ræða.
Norðan við Tómasarhól sést í helsta kennileitið í Miðnesheiði ofan við Norðurkot; Efrivörðu. Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur hlaðið vörðuna upp ásamt kunningja sínum Guðmundi Sigurbergssyni. Þeir hafa og hlaðið upp nokkrar aðrar nafnkunnar vörður í heiðinni.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Önnur varða, sem þeir hlóðu upp, er Dauðsmannsvarða, sem er allnokkru austar, fast utan við varnargirðinguna. Sú varða tengist sögn um mann frá Bæjarskeri, sem varð þar úti eins og svo margir aðrir á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Milli þessara varða er Reykhóll.
Margar skráðar heimildir eru til um mannskaða á Miðsnesheiði. Má nefna að á u.þ.b. 40 ára tímabili á 19. öld urðu þar um 60 menn úti á leið þeirra um heiðina.
Melabergsleiðin (Hvalsnesgatan) innan varnarsvæðisins er vel vörðuð þegar komið er upp að og fyrir ofan Melabergsvötn. Þar taka við Efrivötn, mun minni, en ofan við þau þarf að fara í gegnum gat á varnargirðingunni. Venjulega er gatið lokað, en af og til reynist það opið. Annað gat er á girðingunni efra, þ.e. á henni austanverðri. Það er þó oftar lokað en hið neðra.
Götunni var fylgt með augunum þar sem hún liðast upp eftir heiðinni. Norðan við hana er vetrarleiðin, vel vörðuð óröskuðum vörðum.
Austar blasir Vatnshólavarða við. Hún var mun hærri hér áður fyrr, enda lengi notuð sem siglingarvarða í Másbúðarsundið og sem mið af sjó.
Norðar sjást Selhólar, en vestur undan þeim eru tóftir sem og gróin fjárborg. Glæsir er ofar og austar. Þeir, sem fara þurftu um heiðina, töldu sig stundum verða var við draugagang við Glæsi, og sumir beinlínis lögðu lykkju á leið sína til að forðast staðinn, einkum eftir að rökkva tók. Nafnið er til komið eftir að maður, sem átti leið um, lenti þar í miklum ljósagangi.
Þegar komið er upp að svonefndu Margvörðuholti beygir gatan út af götunni og undir girðinguna. Utan hennar var leiðinni síðan fylgt áfram til Keflavíkur.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

Beinvarðaða gatan er yfir háheiðina, frá því að útsýni sleppir að austanverðu uns útsýni næst á ný að Hvalsneskirkju og Melabergi að vestanverðu.
Staðnæmst var á Berginu þar sem Stakksnípa og Stakkur blöstu við. Stakksfjörður er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi á Rosmhvalanesi að vestan. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af þessum staka klettadrangi, Stakki, sem er undan Hólmsbergi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Árnason – Þjóðsögur og ævintýri III.
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/
-Sigurður Eiríksson.

Melabergsleið

Vörður við Melabergsleið og Hvalsnesgötu.

Hvalsnesgata

Gengið var frá íþróttahúsi Íþróttaakademíunnar í Ytri-Njarðvík og upp að sýnilegum enda Hvalsnesvegar (-götu) ofan byggðarinnar suðaustan Ró(sa)selsvatna (-tjarna). Þar má sjá hvar hún liggur upp holtið og síðan áfram upp Miðnesheiðina. Ætlunin var að fylgja götunni alla leið að Hvalsnesi, en millum þessara staða lá aðalleiðin fyrr á öldum, eða þar til sjálfrennireiðin gerði kröfu til breyttra og betri vega skömmu eftir fyrsta áratug 20. aldar. Gatan er vörðuð að hluta. Flestar vörðurnar eru fallnar, en þó má enn sjá heilar vörður, einkum á svæðinu innan varnargirðingar Atlantshafsbandalagsins, sem reyndar hvarf á braut tveimur dögum fyrir gönguna. Um er að ræða miðhluti þessarar leiðar sem hefur verið afgirt allt frá stríðsárunum. Reyndar eru það fleira en vörður á leiðinni er geyma fyrrum mannvistarleifar, eins og koma átti betur í ljós í ferðinni.
Sigurði Eiríkssyni í Norðurkoti var sérstaklega boðið að ganga með hópum, en hann hefur ekki gengið leiðina um langan aldur, eða frá því að hún varð afgirt.
Þessi gamla þjóðleið er sérstök, bæði vegna þess að varnargirðingin hefur bjargað vörðunum (á vetrarleiðinni) frá því að verða teknar undir bryggjur eða önnur mannvirki sem og vegna þess að hún (sumarleiðin) sést enn glögglega í móunum. Fuglavíkuselið er við leiðina sem og gróin fjárborg við selið. Þetta eru mannvirki, sem gleymst hafa á tiltölulega skömmum tíma. Leiðin, sem og aðrar á Miðnesheiði, voru villugjarnar. Á þeim fórust t.a.m. 60 á 40 ára tímabili á fyrri hluta 19. aldar. Vörður (dauðsmannsvörður) eru við gömlu leiðirnar er bera þessu vitni.

Melabergsvötn

Melabergsvötn.

Gangan í gegnum nyrsta hluta varnarsvæðisins, frá suðri til norðurs, tók u.þ.b. klukkustund með stoppi í Fuglavíkuseli. Vatnshólavarðan er eitt helsta kennileitið á leiðinni, há og mikil sundvarða ofan við Stafnes. Hún er innan girðingarinnar, en nokkuð utan og norðan leiðarinnar.
Gatan liðast um heiðina og er mjög vel greinileg. Við hana eru fallnar vörður (vinstra megin). Um miðja vegu, þar sem heiðin rís hæst, er vörðuð leið svo til beint að augum, með stefnu á Hvalsnes. Vörðurnar eru heilar, sem fyrr segir, en ekki er að sjá götu á milli þeirra. Skýringin mun vera sú að vörðuleiðinni var jafnan fylgt að vetrarlagi þegar snjór huldi gömlu götuna og jafnframt jörð. Annars var gamla gatan fetuð sem leið lá.
Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin vestan Garðstís og Sandgerðisgötu og Rósasel er við Rósaselsvötn, stundum nefnd Róselsvötn. Tóftirnar eru norðvestan við vötnin eru enn vel greinilegar. Við vötnin er nú að vaxa upp allnokkur skógur, en gæta þarf vara á að planta ekki nýgræðingum í tóftirnar sjálfar. Þegar FERLIR var þar á ferð fyrir nokkrum árum var duglegt fólk að planta trjám. Aðspurt um tóftir selsins kváði það við – hafði aldrei heyrt slíkt nefnt og „hafði þó plantað þarna hundruðum trjáa“. Sel vissi fólkið ekki hvað var, enda kannski skiljanlegt því það var allt fætt eftir að selstöður lögðust af á Suðurnesjum (um 1870). Þá virðast tóftirnar við vötnin hafa fallið í gleymsku, sbr. eftirfarandi um Róselsvötn og nágrenni þeirra er má finna í „Örnefni við Keflavík á Rosmhvalanesi (Suðurnesjum), [Vélritað upp úr ritinu Faxa 1967 (janúar hefti ?) af Skúla Þór Magnússyni], eftir Ragnar Guðleifsson kennara í Keflavík:

Fuglavíkursel

Fuglavíkursel.

„Róselsvötn heita einu nafni tjarnir tvær skammt ofan við Keflavíkurkaupstað, annað vatnið er innan flugvallargirðingarinnar. Þangað er nú byggðin sem óðast að teygjast. „Vötnin“ eru tjarnir kallaðar í daglegu tali manna á milli í bænum, og börn og unglingar greina á milli „Stóru-Vatna“ og „Litlu-Vatna“. Hin síðari tjörn er utan við flugvallargirðinguna og þornar hún upp í þurrkum á sumrin. Fyrri tjörnin er aftur á móti alltaf með vatni í. Nokkuð gras er á bökkum „Stóru-Vatna“ og eins vex einhvers konar vatnagróður í sjálfu vatninu. (Það skal tekið fram að þó tjarnir þessar séu aðeins tvær eru þær nefndar í fleirtölu þó ekki sé átt við nema aðra þeirra). Áður fyrr var tekinn þarna mór og hann fluttur niður í Keflavík, jafnt af konum sem körlum. Eftir því sem ég veit bezt var þar síðast grafinn mór í kolaskortinum í stríðinu 1914-18. Um nafngift vatnanna er það helzt að segja að það (Róselsvötn) felur í sér að þar hefur verið sel. Segir frá því í hinum óprentaða hluta Suðurnesjaannáls Sigurðar Sívertsens að Stóri-Hólmur í Leiru hafi haft þar í seli til forna líklega á 18. öld og fyrr. Mér vitanlega eru engar rústir sjáanlegar af kofum á staðnum en vera má að það leynist innan um þúfur og steina sem þar eru á víð og dreif. Róselsvötn eru vestur af Keflavík.“
Tóftir Rós(a)sels er norðvestan við vötnin, þrískipt. Þær falla inn í landslagið, en þó er tiltölulega auðvelt að koma auga á þau ef eftir er leitað. Líklegra má telja að nafngiftin Rósel hafi verið sú rétta, enda hefur þarna verið fremur rólegt fyrrum, andstætt því sem nú gengur og gerist í námunda alþjóðaflugvallarins á Rosmhvalanesi.
Til fróðleiks og upplýsinga um upphaf skógræktarinnar við Rósaselsvötn má geta þess að á 125. löggjafarþingi 1999–2000 fluttu nokkir þingmenn þingsályktunartillögu um Suðurnesjaskóga, landshlutabundið verkefni um landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum. Einn flutningsmannanna var Kristján Pálsson, núverandi framkvæmdarstjóri Ferðamálasamataka Suðurnesja. Í tillögunni segir m.a. að „Alþingi ályktar að beina því til landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa stofnun landshlutabundins verkefnis til landgræðslu og skógræktar á Suðurnesjum.“ Greinargerð fylgir. Í henni segir að „endurheimt gróðurs sem þakti Ísland við landnám er markmið sem stefnt hefur verið að síðustu áratugi. Ráðist hefur verið í mörg verkefni til að ná því og er árangur víða góður. Þekktust þeirra eru Hallormsstaðarskógur og nú á síðari árum landshlutabundin skógræktarverkefni eins og Suðurlandsskógar, Norðurlandsskógar, Vesturlandsskógar, Skjólskógar o.fl. Uppgræðsla Landgræðslu ríkisins hefur einnig verið mjög árangursrík eins og sést á Suðurlandi og víðar. Með öflugu starfi stofnana og einstakra skógræktarfélaga víðs vegar um landið hefur verið sýnt fram á að mögulegt er að græða landið og rækta skóga við mjög erfiðar aðstæður nánast hvar sem er.
Á Suðurnesjum hefur gróðureyðing verið mikil frá landnámi, sérstaklega síðustu tvöhundruð árin. Heimildir segja frá því að kotbændur á Suðurnesjum voru látnir greiða hrístoll til Bessastaða. Sú staðreynd sýnir að hrís (trjágróður) þreifst á Suðurnesjum. Vindar þar geta orðið sterkir og þar sem úthafsaldan brotnar á ströndinni verður oft sjórok sem leggur yfir stóran hluta skagans. Aðstæður af þessu tagi samfara litlu skjóli leiða til þess að uppblástur jarðvegs verður hraður og uppgræðsla erfið. Fá láglendissvæði á landinu eru jafnilla leikin og Suðurnesin, þrátt fyrir friðun síðustu ár. Gríðarleg jarðvegsrýrnun háir verulega landgræðslu og skógrækt sem gengur hægt þrátt fyrir öflugt starf Suðurnesjamanna. Mikill berangur skýrir einnig erfiðleika á þessu sviði. Aðstæðurnar kalla því á sérstakt átak.
Landsvæðið sem græða þarf upp til að ná þeirri gróðurþekju sem áður var á Suðurnesjum nemur tugum þúsunda hektara að stærð. Jafnframt yrðu ræktuð skjólbelti, kjarrgróður og nytjaskógar, allt eftir aðstæðum.
Undanfari skógræktar er landgræðsla á örfoka svæðum. Að áliti sérfræðinga eru margar tegundir vel fallnar til uppgræðslu á Suðurnesjum, t.d. gæti melgresi dugað vel á foksandinum vestast á Reykjanesi. Aðrar tegundir, svo sem beringspuntur, snarrót, túnvingull og vallarsveifgras, eru taldar duga vel á mela, með áburðargjöf.
Nokkur skógarbelti eru nú þegar á Suðurnesjum og má þar nefna helst Sólbrekkuskóg, reit við Háabjalla og Selskóg ásamt tilraunareitum við Rósaselsvötn, Voga og víðar. Mikil reynsla hefur fengist síðustu ár í skógrækt á Suðurnesjum og því er nokkuð vitað um hvaða trjátegundir duga þar best. Vestast er helst litið til ræktunar loðvíðis, alaskavíðis, jörfavíðis, tröllavíðis og sitkagrenis. Af lauftrjám kemur íslenskt birki þar helst til greina, enda mjög harðgert. Austar á skaganum koma margar tegundir til greina, einkum stafafura, blágreni og alaskaösp.
Á Suðurnesjunum einum má græða upp land sem nemur tugum þúsunda hektara. Því er augljóst að auðvelt verður að rækta upp nægjanlegt land þar til að binda kolvetni úr öllum bílum Suðurnesjamanna, um 10.000 talsins. Í loftslagssáttmálanum eru ekki settar takmarkanir á leiðir til að binda koltvísýring í lífræn efni. Landgræðsla og skógrækt gætu nýst okkur í þessum tilgangi, ef samningar um það nást, og dygðu til að binda allan koltvísýring frá bílum og bátaflota landsmanna ef vel væri á málum haldið. Að mati flutningsmanna eru slík verkefni með arðbærustu sóknarfærum sem völ er á.“
Skógræktin við Rósaselsvötn er í umsjón Skógræktarfélags Suðurnesja. Í Vatnsholti hefur félagið stundað skógrækt síðan
1948.
Trjám hafði verið plantað í gömlu götuna, annað hvort vegna þess að skógræktarfólkið vissi ekki að þetta væri gata eða vegna þess að þarna hafi verið skjól að finna fyrir litlar trjáplöntur. Þær þyrfti að færa.

Hvalsnesgatan

Hvalsnesgata ofan Reykjanesbæjar.

Hvalsnesleiðin liðast áfram áleiðis yfir Miðnesheiði. Hún fer undir veginn suðaustan við hringtorgið að Leifsstöð og liggur síðan áfram til norðurs norðan þess. Á leiðinni má sjá vörðubrot og tóft (vinstra megin). Hún er nokkuð stór, en einföld. Tóftarinnar er ekki getið í örnefnalýsingum. Hún gæti hafa verið beitarhús, en sennilegra er þó að þarna hafi verið sæluhús um skamma hríð. Staðurinn er nokkurn veginn miðja vegu milli Grófarinnar og Melabergs. Fjölmargir er ferðuðust um götuna urðu úti á leiðinni, en auk þess var þarna um „prestsstíg“ að ræða því Hallgrímur Pétursson bjó t.a.m. um stund á Bolafæti í Ytri-Njarðvík, en þjónaði í Hvalsnesi. Tóftir Bolafótar eru nú komnar undir athafnasvæði slippstöðvarinnar. Þá er ekki útilokað að „tóftin“ geti verið rask eftir kanann frá fyrstu tíð, en hann hefur rótað víðar í heiðinni.
Skammt ofar er táknrænn „minnisvarði“; hlaðið skjól refaskyttu eða herdáta við æfingar með flugstöð Leifs Eiríkssonar, hlið landsins að umheiminum, í bakgrunni.
Enn ofar er hóll, sem hlíft hefur verið á námusvæði. Vestan hans er nýlega hlaðin „gatvarða“ – falleg sem slík, eftirlíking vörðunnar við rekagötuna vestan Selatanga og gatvörðunarr á Prestshól (Prestshæð) við Prestastíg milli Hundadals og Húsatófta.
Og þá var komið að fyrstu alvarlegu hindruninni á leiðinni – varnargirðingunni….
Sótt hafði verið um leyfi til að fá að fara inn fyrir varnargirðinguna. Sýslumaður á Keflavíkurflugvelli framsendi erindið til næstráðanda. Svar barst innan stundar frá daglegum stjórnanda almennrar lögreglu á Keflavíkurflugvelli: „Sýslumaður sendi mér erindi þitt varðandi gönguna frá Reykjanesbæ til og um Hvalsnes. Ég er búinn að hafa samband við Varnarliðið og leyfið er veitt frá báðum aðilum.“ Gangan í „gegnum girðinguna“ var því farin með leyfi viðkomandi yfirvalda á varnarsvæðinu.

Rósel

Rósel við Róselsvötn.

Bandaríski sjóherinn sendi fyrstu hermennina til Íslands árið 1941 samkvæmt samningi milli ríkisstjórnar Íslands, Bretlands og BNA. Hann tók við hlutverki brezka setuliðsins, sem hernam Ísland 10. maí 1940. Auk varnarhlutverksins byggði sjóherinn Keflavíkurflugvöll sem eldsneytisflugvöll fyrir fraktflug milli BNA og Evrópu.
Að lokinni síðari heimsstyrjöldinni yfirgaf setuliðið landið í samræmi við upprunalega samninginn við íslenzk yfirvöld. Nýr samningur milli BNA og Íslands var undirritaður 1946. Hann kvað á um áframhaldandi veru herliðs bandamanna í landinu. BNA samþykktu að annast allt viðhald flugvallarins. Aðild Íslands að NATO árið 1949 var ekki bundin stofnun íslenzks hers eða veru erlends herliðs í landinu á friðartímum.
Kalda stríðið við Sovétríkin og vaxandi spenna í heiminum réðu stefnu íslenzkra ráðamanna um veru herliðsins í varnarstöðinni. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að aðildin að NATO væri ekki nægileg vörn fyrir landið ein og sér og að beiðni NATO sömdu þeir við BNA um að taka að sér varnir landsins. Varnarliðið var í fremstu víglínu kalda stríðsins frá upphafi til enda (1951-1989) og fékk viðurkenningu fyrir veigamikið hlutverk sitt.
Aðalhlutverk varnarliðsins er að reka og halda við flugvellinum og búnaði hans. Önnur verkefni eru mismunandi eftir ákvörðun ríkisstjórnar og herráðs BNA og yfirmanns hersins hérlendis.
Þann 22. apríl 2006 hélt Árni Björnsson erindi á nokkurs konar herkveðjuhátíð í Ránni í Keflavík. Þar sagði hann m.a.:
„Það kom fólki nokkuð í opna skjöldu, þegar bandaríski herinn kom hingað í annað sinn fyrir rúmlega hálfri öld, að hann var af opinberri hálfu ævinlega nefndur „varnarlið“. Gamli herinn hafði jafnan verið nefndur „setulið“ eða bara herinn.
Þetta var augljóslega sálræn herkænska. Það átti að innræta þjóðinni smám saman, að hér væri um varnarlið að ræða. Þess var stranglega gætt, að yfirvöld notuðu ekki annað orð, til dæmis ekki í útvarpinu. Bílar hersins voru einnig merktir VL.
Ég veit ekki til, að á því hafi verið gerð nein könnun, en ég hygg samt að sálfræðihernaðurinn hafi skilað þeim árangri, að meginhluti þjóðarinnar hafi vanist þessu orði og kveinki sér ekkert við að nota það.
Íslenskir athafnamenn, eða gróðapungar, ef við viljum vera dónaleg, þeir höfðu komist rækilega á bragðið á hernámsárunum. Aldrei áður hafði „litli athafnamaðurinn“ komist í aðrar eins kræsingar. Fjöldi þessara útsjónarsömu harkara missti drjúgan spón úr aski sínum, þegar gamli herinn fór, þótt fáeinir fengju svolitlar sporslur hjá bandaríska flugfélaginu, sem rak Keflavíkurflugvöll frá 1946. Þessar sporslur sýndu þó, hvaða framtíðarmöguleikar væru í stöðunni, ef þangað kæmi alvöru herstöð. Það var augljós og glæsileg hagnaðarvon fyrir ótalda íslenska verktaka fólgin í draumsýninni um nýja hersetu. Og þetta fólk, fólkið sem vill koma sér áfram, þetta voru upp til hópa kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Það væri vanmat á þessu fólki að reikna ekki með, að það hefði viðrað sjónarmið sín við einhverja þá sem áttu innangengt hjá forystu flokkanna.
Það væri þó ósannlegt að nefna einungis svonefnda athafnamenn sem þrýstihóp til að bregðast vel við málaleitunum Bandaríkjanna um herstöðvar. Atvinnuleysi varð töluvert fyrstu árin eftir að gamla herliðið fór burt, þótt það yrði aldrei neitt líkt því sem verið hafði á kreppuárunum fyrir stríð. En nú voru íslenskir verkamenn orðnir betra vanir en áður. Í hálfan áratug hafði atvinnuleysi varla þekkst. Ekkert er voðalegra en atvinnuleysi, segja þeir sem reynt hafa. Flestir vilja hafa atvinnu, hvaðan sem hún kemur.
Ég man eftir frænda mínum í vegavinnunni, sem var bóndi á veturna og vörubílstjóri á sumrin. Hann var ekki í vafa um að við ættum að fara að ráðum Jónasar frá Hriflu og láta Kanann fá land undir herstöðvar og reyna að græða á því. Þeir voru þó fáir, sem voru svona hreinskilnir. Flestum fannst þægilegra að vísa í hugsanlega árásarhættu. Því er ekki heldur að leyna, að verkalýðshreyfingin sem heild var allan tímann heldur lin í andstöðunni við herinn, þótt einstakir forystumenn gætu verið einarðir. En verkafólk var áreiðanlega með annað en árásarhættu bak við eyrað.
Stórefling verktakastarfsemi var einmitt það sem gerðist, fljótlega eftir að herinn kom. Fjöldi sjálfstæðra iðnaðarmanna, smiða, múrara, málmiðnaðarmanna og rafvirkja auk ýmissa spekúlanta bast samtökum í fyrirtæki, sem hét Sameinaðir verktakar og tóku brátt að sér margvíslegar framkvæmdir fyrir herinn. Auk þess kom að kökunni Reginn, sem var fyrirtæki á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga, og þar með hafði Framsókn hlotið sinn skerf. Loks kom sjálft ríkið í spilið, og úr öllu þessu urðu til Íslenskir aðalverktakar sem fengu innan skamms einkaleyfi til framkvæmda fyrir herinn.
Íslensku iðnaðarmennir í Sameinuðum verktökum höfðu fram til þessa flestir verið rétt sæmilega bjargálna, áttu kannski eigin íbúð og lítinn bíl, en ekki mikið fram yfir það. Þetta voru yfirleitt ágætis menn og höfðu alltaf verið bráðduglegir og vinnusamir. Með uppgripunum fyrir herinn urðu margir þeirra sterkefnaðir á nokkrum árum, og þeim eiginlega sjálfum að óvörum. Þeir hafa látið að sér kveða á ýmsum sviðum atvinnulífsins og ekki endilega til óþurftar. Og því má vissulega segja, að herinn hafi ekki verið hér alveg til einskis.
Það bar nokkuð mikið á Kanaútvarpinu fyrstu árin eftir að hann kom og síðan Kanasjónvarpinu um og uppúr 1960. En eftir að þeirri stöð var lokað hafa bein áhrif hersins verið hverfandi. Sá ameríkanismi, sem mikið er talað um og vissulega getur verið nokkuð yfirþyrmandi, hann er kominn eftir öðrum leiðum, og hann er raunar sá sami um allan heim. Maður finnur hann hvar sem komið er, hvort sem þar hefur verið bandarísk herseta eða ekki, jafnvel austur í Kína.
En snúum okkur aftur að orðinu „varnarlið“ og þeim breyttu tímum sem menn eru að tala um. Vissulega eru breyttir tímar, en öllum ætti samt að vera ljóst, að orðið varnarlið var ævinlega algert rangnefni, ef átt var við varnir Íslands.
Þetta er alltof langt og flókið mál til að brjóta til mergjar hér og nú. Gáið að því hvar hagsmunirnir liggja. Annars vegar hafði nefnilega það sama gerst í Bandaríkjunum og á Íslandi við stríðslokin, aðeins í þúsundfalt stærri stíl. Framleiðsla þeirra, sem höfðu skaffað hernum vopn og vistir í stríðinu, hún tók að dragast óbærilega saman. Það þurfti nýja stríðshættu til að almenningur féllist á nýja skattheimtu til hernaðaþarfa, svo að þessi risavaxna framleiðsla gæti aftur farið í gang. Og það hefði blátt áfram ekki verið hagkvæmt að ljóstra upp um hernaðarlegan vanmátt Sovétríkjanna.
Hinsvegar gat víða verið þörf fyrir bandarískar herstöðvar til að gæta raunverulegra eða bara hugsanlegra hagsmuna bandarískra fyrirtækja, sem eðli málsins samkvæmt hljóta hvarvetna að reyna að ná fótfestu. Hinir breyttu tímar felast í því að, að hagsmunir bandarískra fyrirtækja í Mið–Austurlöndum sitja nú um stundir í algjöru fyrirrúmi.
Og að lokum eitt af háðkvæðahlutum Böðvars Guðmundssonar – er lýsa kann ástandinu á Suðurnesjum við „varnarliðs“komuna:

Þess vegna er þjóðin mín sæl.
Nokkrir kotungar suður með sjó
höfðu sífellt af baslinu nóg.
Þeir bjuggu í gjótum með blöðrur á fótum
og bátarnir láku og týndist úr nótum.

Og allt var að fara til andskotans bara
og eldur í hlóðunum dó.
Þessir kotungar blésu í kaun
og þeir keifuðu vegalaus hraun,
höfðu ekkert að fela og engu að stela
og örbirgðin lagði að hjörtunum þela.

En kvöld nokkurt brá þeim því Kaninn stóð hjá þeim
og karlarnir skildu ekki baun.
Þessir kotungar suður með sjó
hafa síðan af lífsgæðum nóg.

Með gleði í taugum og glampa í augum
þeir grafa og róta í verndarans haugum.
Og hamingjudaga þeir heim til sín draga
af haugunum sokk eða skó.

Þar sem áður var lambagraslaut
er nú lífvænleg flugvélarbraut.
Þar sem stígur var tregur er steinsteypuvegur
og standardinn er ekki óbjörgulegur
því amrískir hemenn og íslenskir vermenn
eta nú samskonar graut.“

Þegar komið er upp fyrir Margvörðuholtið, undir girðinguna, beygir gatan áleiðis til vesturs. „Innan við Margvörður er Kaupmannsvarðan (vestan götunnar með bendil til austurs, aðrar vörður við vetrargötuna benda til vesturs), sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.“ Þarna eru sem sagt krossgötur; annars vegar hinnar gömlu hlykkjóttu götu Hvalsnesleiðar og hins vegar annarrar vel varðaðrar götu – svo til beint að augum. Leiðirnar koma síðan saman að nýju skammt innan nyrðri girðingarinnar, ofan Melabergsvatna. Ástæðan er sú að vestari leiðin liggur í krók til vesturs, en liggur síðan á ný til norðausturs ofan vatnanna. Þar eru því önnur gatnamót. Miðsvæðis er Fuglavíkurselið, skammt austan austari (vörðuðu) leiðarinnar. Af nafngift fyrstu vörðunnar á hinni beinu vörðuðu leið yfir háheiðina að dæma mætti ætla að kaupmaðurinn, væntanlega í Keflavík, hafi látið hlaða vörðurnar til öryggis vegfarendum á hinni válegu norðurleið.
Vörðu virðist vanta í röðina norðan Kaupmannsvörðunnar. Ef vel er að gáð má sjá hvar löng flöt klöpp hefur áður verið reist þar á millum upp á endann með góðum stuðningi, en síðan lagst út af.
Hvalsnesleiðin tengist að nokkru leyti sögunni af Rauðhöfða. Í sögunni (reyndar eru til nokkrar útgáfur) um Rauðhöfða segir frá því að „í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga). Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið að honum varð ekki náð út í skipið hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið og töldu þeir manninn af með öllu nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu hvar komið var og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komizt út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.
Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu.
Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu.
Nú leið enn og beið og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn góðan veðurdag þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður sem alla kynjaði á. Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út (aðrir segja inn í kirkjuna og láta allan atburðinn fara fram fyrir messu) úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Ofan á vöggunni lá dýrindisábreiða sem enginn þekkti hvað í var. Á þetta varð öllum starsýnt mjög og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu og enginn lézt þar vita nein deili á. Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu ekki síður en aðra. Spyr hann þá hvort viti nokkur deili á vöggunni og barninu eða hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji að hann skíri barnið. En enginn lézt vita neitt um þetta og enginn þóttist hirða um að hann skírði barnið. En af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur spurði hann hann ítarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita um vögguna né barnið enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt.
En í því bili sem maðurinn sagði þetta stóð þar kvenmaður hjá þeim fríð sýnum og fönguleg, en æði svipmikil. Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir:
„Ekki skal kirkjan gjalda.“
Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega:
„En þú skalt verða að hinu versta (argasta) illhveli í sjó.“
Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. – Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið þar til skamms tíma og þótt hin mesta gersemi.
Nú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.
Það er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins að hann hefði sagzt hafa dvalið um veturinn í skerinu (skerið var síðan kallað Helgasker) í álfabæ einum í góðu yfirlæti. Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki geta fest þar yndi. Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu hefði hann gengið um skerið í eins konar örvilnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér til að stytta hörmungar sínar. En þá sagði hann að til sín hefði komið stúlka fríð og falleg og boðið sér veturvist og sagt að hún væri ein af álfafólki því sem ætti heima í Geirfuglaskeri. Þetta þá hann, en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann að álfastúlkan hefði sagzt ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta skíra það ef hún kæmi því til kirkju þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði það ekki mundi hann gjalda þess grimmilega.
Sumir segja að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um sumarið; sumir segja að han hafi gjört það um leið og hann gekk um á Melabergi frá kirkjunni seinast, en sumir segja að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum öðrum. En ekki er þess getið hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með barnsskírnina.
En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur í Faxaflóa og grandaði þar mönnum og skipum svo engum var óhætt í sjó milli Reykjaness og Akraness. Varð það fjarskinn allur sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans völdum þó ekki séu þeir nafngreindir neinir sem hann drap eða tölu hafi verið á þá komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness og er sá fjörður því síðan kallaður Hvalfjörður.
Þá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll uppkomin þegar hér var komið sögunni og hin efnilegustu og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða og drekkti hann þeim báðum. Presturinn faðir þeirra heyrði að synir sínir væru drukknaðir og svo af hvers völdum. Féllst honum mikið um sonamissinn.
Litlu síðar einn góðan veðurdag biður hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum sem er þaðan ekki alllangt frá bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með tilhjálp dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera spegilfagran og sléttan. Að lítilli stundu liðinni spyr karl aftur hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir að utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau biður prestur hana leiða sig inn með fjörunni og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau og gekk það uns komið var inn í fjarðarbotn. En þegar grynna fór sá stúlkan að röstin stóð af ákaflega stórum hval sem synti beint inn eftir firðinum eins og hann væri rekinn eða teymdur. Þegar fjörðinn þraut og þar kom að sem Botnsá kemur í hann bað klerkur dóttur sína að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það og staulaðist karlinn upp fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis.
En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir. En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn.
Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell. Þegar Rauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hefur síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stór-kostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. – En þegar prestur var búinn að koma hvalnum fyrir í vatninu staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni og þökkuðu honum allir vel fyrir viðvikið.“
Í sögunni um Faxa, sem er um sama efni, segir að „þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.“
Vatnshólavarða sést í vestri, bæði há og stór. Í viðbótarörnefnalýsingu fyrir Fuglavík skráða eftir Sigurði Jónssyni kemur m.a. eftirfarandi fram um Vatnshólavörðu, selstöðu og fleira í Miðnesheiði: „Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum.“ Varðan er m.a. mið inn í Má

Melaberg

Tóft við Melaberg.

sbúðarvör; í Másbúðarvörðug Vatnshólavörðu í Keili.
Melabergsleiðin (Hvalsnesgatan) innan varnarsvæðisins er vel vörðuð þegar komið er upp að og fyrir ofan Melabergsvötn. Þar taka við Efrivötn, mun minni, en ofan við þau þarf að fara í gegnum gat á varnargirðingunni. Venjulega er gatið lokað, en af og til reynist það opið. Annað gat er á girðingunni efra, þ.e. á henni austanverðri. Það er þó oftar lokað en hið neðra.
Götunni var fylgt með augunum þar sem hún liðast upp eftir heiðinni. Norðan við hana er vetrarleiðin, vel vörðuð óröskuðum vörðum.
Austar blasir Vatnshólavarða við. Hún var mun hærri hér áður fyrr, enda lengi notuð sem siglingarvarða í Másbúðarsundið og sem mið af sjó.
Norðar sjást Selhólar, en vestur undan þeim eru tóftir, Fuglavíkursel, sem og gróin fjárborg. Glæsir er ofar og austar, oft nefndur Efri-Glæsir. Neðri-Glæsir mun vera skammt neðar. Þeir, sem fara þurftu um heiðina, töldu sig stundum verða var við draugagang við Glæsi, og sumir beinlínis lögðu lykkju á leið sína til að forðast staðinn, einkum eftir að rökkva tók. Nafnið er til komið eftir að maður, sem átti leið um, lenti þar í miklum ljósagangi.
Á leiðinni, skammt vestan Melabergsvatna, eru hólar að norðanverðu. Þeir heita Smjerhólar. Ofar eru Melabergsvötnin. Þar segir sagan að Tómas nokkur frá Bursthúsum hafi drukknað er hann var að fara yfir brú á vötnunum á 17. öld. Tómasarhóll heitir hóll með fuglaþúfu á nokkur norðaustar í heiðinni, skammt frá horni varnargirðingarinnar. Óvíst er þó að sá hóll tengist atburðinum þótt um sama nafn sé um að ræða.
Norðan við Tómasarhól sést í helsta kennileitið í Miðnesheiði ofan við Norðurkot; Efrivörðu. Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur hlaðið vörðuna upp ásamt kunningja sínum Guðmundi Sigurbergssyni. Þeir hafa og hlaðið upp nokkrar aðrar nafnkunnar vörður í heiðinni.
Önnur varða, sem þeir hlóðu upp, er Dauðsmannsvarða, sem er allnokkru austar, fast utan við varnargirðinguna. Sú varða tengist sögn um mann frá Bæjarskeri, sem varð þar úti eins og svo margir aðrir á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Milli þessara varða er Reykhóll.
Skammt ofan Melabergsvatna er Ólafsvarða. Ólafsvarða er kennd við Ólaf nokkurn, sem varð þar úti. Margar skráðar heimildir eru til um mannskaða á Miðsnesheiði. Má nefna að á u.þ.b. 40 ára tímabili á 19. öld urðu þar um 60 menn úti á leið þeirra um heiðina.
Leiðin liggur yfir að því er virðist gamlan árfarveg, svonefnda Melabergsá. Utan við hana eru nokkrir steina á lágu hloti. Í lýsingu Magnúsar Þórarinssonar: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, sem Félag Suðurnesjamanna gaf út í í Reykjavík, 1960, bls. 131-133, segir m.a. um neðanvert svæðið nálægt Melabergi: „Upp af Skjólgarðsbökkum, norðan við Melabergsá ofanverða, eru tveir stórir klettar með 3—4 faðma millibili; heita þeir Melabergsbræður, en í daglegu tali stytt í „Bræður“. Um 20—30 föðmum austar er einn steinn af sömu stærð og líkri lögun; heitir hann Smali.
Milli þessara einstæðu kletta eru nokkrir tugir smærri steina, sem eru öðru vísi en annað grjót á þessum slóðum. Þeir eru sléttir, ljósir að lit, líkir að stærð og lægri í vesturendann. Ef á að lýsa þeim nánar, þarf að hafa sömu aðferð og þegar skoðað er gott málverk, en það er: að vera í hæfilegri fjarlægð og horfa á þá frá réttri hlið.
Bezt er að standa spölkorn fyrir sunnan þá eða suðaustan og hugsa sér Suðurnesjaveðráttu, útsynning með hryðjum eða éljum. Er þá ekki öðru líkara en að þarna sé fjárhópur og snúi allar „kindurnar“ í veðrið og séu að bíta. Enda segir gamla sögnin, að Melabergsbræður, ásamt með sauðamanni og búsmala, hafi þarna dagað uppi um eina fagra sólarupprás einhvern tíma í fyrndinni.
Margar og miklar sögur hafa gengið frá Melabergi og Melabergsmönnum; eru nokkrar þeirra skráðar í þjóðsögum. Það var í munnmælum, á unglingsárum mínum, að Melaberg hafi einhvern tíma áður verið stórbýli með 50 hurðir á járnum, aðrir sögðu 80 og einstöku maður komst upp í hundrað. Enginn hefir þó getað sagt, hvar þennan fróðleik er að finna. Það kynni þá helzt hafa verið á búskapartíma þeirra, er nú standa sem steinar og heita Melabergsbræður. Kongl. Majestat keypti eitt sinn Melaberg af Guðmundi nokkrum. Varla hefir það verið stórbóndi, fyrst titillinn er ekki annar en „nokkrum“, því titlum og kenninöfnum var vel haldið til haga fyrr á tímum, enda jörðin þá einkum keypt til þess að vera bithagi fyrir Lönd og Másbúðir. Sögurnar frá Melabergi eru ærið þjóðsagnakenndar og bera það raunar með sér að vera hugarfóstur eitt og ekkert annað.“

Áður en komið er niður á núverandi þjóðveg að Stafnesi má sjá tóftir húsa vestan við grashæðir. Um eru að ræða fjárhús frá Lindarbæ, sem var áður bær norðvestan Melabergs.
Þegar komið er norður fyrir Stafnesveg liggur gamla gatan þar til vetsurs, áleiðis að Hvalsnesi. Hún sést vel í móanum til að byrja með, en síðan taka við nýlegri garðar og ræktuð tún. Þar hverfur hún undir hvorutveggja. Það er því ekki um annað en að ganga ofan (utan) garða það sem eftir er leiðarinnar.
Hvalsnes er bær og kirkjustaður milli Sandgerðis og Stafness. Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Á Hvalsnesi var kirkja helguð guði Maríu guðsmóður, Ólafi konungi og, heilagri Katrínu og öllum guðs heilögum mönnum. Núverandi kirkja var reist á árunum 1886-1887 og vígð á jóladag 1887. Hún er hlaðinn úr tilhöggnum steini. Steinsmiðurinn var Magnús Magnússon múrari í Garði, en hann féll frá áður en verkinu lauk, drukknaði í Varaós ásamt tveim mönnum er þeir voru að koma Reykjavík 20. mars 1887. Þá tók við Stefán Egilsson múrari í Reykjavík og lauk hann verkinu. Yfir trésmíðinni var Magnús Ólafsson úr Reykjavík. Það var Ketill Ketilsson í Kotvogi sem lét reisa kirkjuna. Frægastur prestur á Hvalsnesi er sennilega Hallgrímur Pétursson. Hvalsneskirkja var vel byggð og hefur fengið gott viðhald með gagngerum endurbótum. Traustleg og tignarleg er hún þar sem hún rís með sínum fagurhlöðnu veggjum og ber hátt í Hvalsnestúni. Sú er trú á kirkjunni að aldrei farist skip á Hvalsnessundi fyrir opnum kirkjudyrum.
Í Hvalsneshverfi voru áður fyrr í byggð 6-7 bæir með 30-40 manns og langtum fleiri á vertíðum. Hvalsnesvör var mikill útgerðarstaður. Reru þaðan skip frá 5 bæjum og þar voru mörg og myndarleg sjávarhús.
Hvalsnesvegurinn er mjög falleg gönguleið af gamalli þjóðleið að vera. Hún er heil langleiðina milli Hvalsness og að byggðinni ofan Keflavíkur að undanskildum stuttum köflum næst Hvalsnesi og neðan Melabergsvatna. Mikilvægt er að vernda það sem eftir er af götunni og gera hana aðgengilega leið fyrir áhugasamt fólk. Það tekur t.d. ekki nema 1 1/2 – 2 klst að ganga frá Keflavík að Hvalsnesi, ef op væri á varnargirðingunni. Ekki er óeðlilegt að á hana verði sett opnanlegt (læst) hlið, sem hægt væri að fá aðgang af sérstökum tilefni. Góð kvöldganga, með sólina í fangið, og kvöldroðann framundan gæti orðið eftirmynnileg ferð um þetta annars kennilausalitla heiðarsvæði. Þó má af framangreindri lýsingu sjá að ýmislegt ber þar fyrir augu, sem vert er að gaumgæfa betur, gatan sjálf, seltóftir, vörður, sagnarík holt, vötn og þjóðsagnakenndir staðir.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://fridur.is/safn/285
-nat.is
-Sigurður Eiríksson, Norðurkoti.
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Melaberg“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 131-133.
-Örnefnaskrár fyrir Fuglavík, Melaberg, Hvalsnes og Keflavík.
-Örnefni við Keflavík á Rosmhvalanesi (Suðurnesjum), [Vélritað upp úr ritinu Faxa 1967 (janúar hefti ?) af Skúla Þór Magnússyni], eftir Ragnar Guðleifsson kennara í Keflavík.
-Árbók FÍ. 1984, bls. 35.

Hvalsnesleið

Hvalsnesleið.