Tag Archive for: Hvammsvík

Kjós

Tvö skilti eru við þjóðveginn ofan Hvítaness í Hvalfirði. Annað er um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ og hitt „Útsýni frá Hvítanesi„.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Á skiltinu um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ má lesa eftirfarandi texta: „Hvammsvík var miðstöð Bandaríkjaflota með skotfærageymslur herskipa og tómstundaheimili sjóliða. Í Hvammsey var tómstundaheimili fyrir sjómenn á kaupskipum. Þeir fengu ekki annað landgönguleyfi enda Hvalfjörður skipalægi en ekki viðkomuhöfn. Stjórnstöð á Hvammshöfða stýrði umferð skipa og úthlutaði legustöðum í firðinum. Skipalægi kaupskipa var utan við Hvammsvík.

Kjós

Hvammsvík á stríðsárunum.

Bækistöð Bandaríkjaflota, Falcon Camp, var í Hvammsvík (Falcon Landing). Bretar settu upp loftvarnabyssur og reistu skálahverfi í Hvammshólum sem Bandaríkjaher tók síðan við. Lengst til vinstri eru byssustæðin, þá íbúðarskálar og tómstundaheimili sjóliða, vöruskemmur og tómstundaheimili liðsforingja austast. Sunnan vegar stendur stjórnstöð skipalægisins á Hvammshól og skotfærageymslur flotans til hægri. Á Miðsandi og Litlasandi handan fjarðarins stóð stór eldsneytisbirgðastöð sem þjónaði skipum bandamanna og herliðinu á Íslandi.

Kjós

Hvítanes á stríðsárunum.

Hvítanes var bækistöð breska flotans. Á nesinu voru 250 byggingar; birgðageymslur, verkstæði, íbúðarskálar, spítali og annað til þjónustu við herskipaflotann, ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Einnig verkstæði til viðhalds kafbátagirðingar og tundurduflalagnar sem vernduðu skipalægið. Viðgerðar- og birgðaskip lágu innan við Hvítanes og önnuðust viðhald herskipa ásmat öflugri flotkví. Gat þar oft að líta stærstu bryndreka veraldar sem vernduðu skipalestir fyrir orrustuskipum þýska flotans í Noregi.

Kjós

Vagn frá Hvítanesi.

Akvegir og lítil járnbraut með flutningavögnum lágu um nesið og þar var rafstöð og götulýsing, vatnsveita, fjarvarmaveita og fráveitulögn. Stálbryggja var gerð til að landa netum og búnaði kafbátagirðingarinnar við Hvalfjarðareyri sem þarfnaðist stöðugs viðhalds. Skip voru einnig afgreidd við bryggjuna en flutningabátar notuðu steinbryggju á vestanverðu nesinu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Hvalfjörður var mikilvæg flotabækistöð í síðari heimsstyrjöld. Kaupskip frá Bretlandi og Bandaríkjunum söfnuðust saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum um afar hættulega leið til rússneskra hafna. Þýskar könnunarflugvélar lögðu stöðugt leið sína með ströndum landsins en bandarískar orrustuflugvélar grönduðu fjórum þeirra í grennd við Hvalfjörð. Bandaenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann á Atlantshafi 1943. Síðasta herliðið yfirgaf bækistöðvar sínar í stríðslok og var tundurduflagirðingu við Hálsnes eytt með sprengingu en kafbátagirðingu við Hvalfjarðareyri sökkt í fjörðinn.“

Á skiltinu „Útsýni frá Hvítanesi“ er eftirfarandi texti: „

1. Hvammsvík

Kjós

Hvammsvík – skipalægi.

Í Hvammsvík fæddist Loftur Guðmundsson (1892-1952) ljósmyndari. Hann gerði fyrstu íslensku talmyndina, Milli fjalls og fjöru, sem var m.a. tekin upp í Kjós á 5. áratug 20. aldar. Myndin var frumsýnd árið 1949.

2. Saurbær

Kirkjustaður og prestsetur, kunnast af dvöl sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar (1614-1674), en hann var prestur og orti Passíusálmana. Hallgrímskirkja í Saurbæ er helguð minningu séra Hallgríms.

3. Ferstikla

Kjós

Útsýni yfir Hvalfjörð frá Hvítanesi.

Landnámsjörð. Fjórir af fimm tindum Botnssúla sjást þaðan og er talið að nafnið sé dregið af því. Þar dvaldi séra Hallgrímur Pétursson síðustu æviárin og andaðist þar.

4. Miðsandur

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin á Miðsandi.

Bandaríkjamenn reistu olíubirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands í síðari heimsstyrjöld. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða. Stöðin var starfrækt áratugum saman í þágu varnarliðsins ásamt hvalstöð sem hóf rekstur árið 1948 og var árið 2009 aftur í rekstri eftir 20 ára hlé. Þarna er enn braggahverfi frá því í heimsstyrjöldinni síðari.

5. Geirshólmi

Kjós

Geirshólmi í Hvalfirði.

Kletthólmi sem segir í harðar sögu Grímkelssonar að ránsmannahópur undir forystu Harðar Grímkelssonar hafi dvalist um skeið. Byggðamenn hafi síðan ginnt Hólmverja í land með loforðum um sættir en svikið þá og fellt þá alla.
[Allir, sem í land komu að ráðum byggðamanna, voru felldir. En það voru allir er trúðu loforðum þeirra.]

6. Þyrill

Þyrill

Þyrill í Hvalfirði.

Sérkennilegt hömrum girt basaltfjall, 399 m. Þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Í fjallið er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að helga Jarlsdóttir hafi klifið upp með syni sína á flóttanum eftir víg Hólmverja þegar hún hafi synt með þá til lands úr Geirshólma. Undir fjallinu er samnefndur bær er kemur við harðar sögu. Í Þyrilsklifi er unnið líparít til sementsgerðar.

7. Botnsá

Botnsá

Botnsá.

Í Botnsá er fossinn Glymur, um 200 m, hæsti foss landsins. Þar eru vinsælar gönguleiðir. Við Botnsá eru sýslumörk Gullbringu- og Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu.

Á Hvítanesi má enn sjá mannvirki breska flotans frá umsvifum hans í Hvalfirðinum í seinni heimsstyrjöldinni. Umsvif hersins voru mikil í Hvalfirði og höfðu í för með sér mikla röskun á lífi fólks í nágrenninu. Sumir fengu vinnu hjá hernum. Innan við Hvítanes eru leifar af tröppum sem gerðar voru þegar Winston Churchill kom til landsins árið 1941. Mannvirki hersins voru rifin að loknu hernámi.“

Hvítanes

Hvítanes – leifar hernaðarmannvirkjanna.

Reyndar voru ekki öll mannvirki hersins rifin, þau voru flest fjarlægð til þjóðþrifa og notuð til útihúsa, fjósa, geymsla, verkstæða og jafnvel mannabústaða víðs vegar um land. Eftir stóðu hlaðin hús, sem síðan hafa ýmist verið rifin með stórvirkum vinnuvélum eða verið látin drabbast niður þar sem tímans tönn hefur náð að jafna þau við jörðu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Hvammsvík

Hvamms er getið í Landnámu, en þar segir: “Hvamm-Þórir nam land á millim Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Hann deildi við Ref inn gamla um kú þá, er Brynja hét ok Brynjudalr er við kenndr; sú kvíga hafði horfit Þóri fyrir longu, en sú kvíga fannst í Brynjudal, þar er Refr átti land, ok fjórir tigir nauta með henni, þeirra er oll voru frá henni komin ok höfðu gengit sjálfala úti; því kenndi hvor tveggi sér nautin. En Þórir fell fyrir Ref með átta manna, þá er þeir borðust hjá hólum þeim, er síðan eru kallaðir Þórishólar”.
Hvammsvik-22Í Harðar sögu ok Hólmverja segir frá blóðugum viðskiptum Orms Hvamm-Þórissonar úr Hvammi og fóstbræðranna Geirs Grímssonar og Víga-Harðar Grímkelssonar goða í Geirshólmi, sem stálu af honum tólakistu hans. Segir að þeir hafi skilað henni í naustið að Hvammi og sett undir húfinn á skipi Orms. Ormur er þar talinn meðal héraðshöfðingja og má einnig ráða af sögunni að höfundur hennar hefur talið að Hvammsland hafi þá verið mun stærra en seinna varð, því að Ormur er látinn gefa Bolla þræli sínum land á Bollastöðum, sem er á milli Háls og Valdastaða sunnan undir Reynivallahálsi.
Hvammsvik-23Í Sturlungu er getið Jörundar hins mikla úr Hvammi en hann var með Þorleifi í Görðum í Bæjarbardaga 1237 og má ráða af samhengi að hann hafi verið fyrirliði manna úr Kjós og Hvalfirði. Eftir bardagann var rænt í Saurbæ og Hvammi og má af því ráða að búið í Hvammi hafi verið með hinum stærri í héraðinu.
Hvammur kemur og fyrir í öðrum rituðum heimildum, svo sem í jarðabókum og í bréfum og máldögum í Íslensku fornbréfasafni.
Elsta heimild um kirkju í Hvammi er í Hítardalsbók frá árinu 1367.  Þar er þó aðeins ágrip af máldaga kirkjunnar, en allur máldaginn er í Vilchinsbók frá 1397. Kirkjan var helguð heilögum Lúkasi og átti Hvammsey auk sex kúgilda. Þá átti hún smelltan kross, glitað altarisklæði, fornan dúk og litlar klukkur.

Hvammsvik-24

Kirkjan í Hvammi var hálfkirkja, en það þýðir að aðeins var messað þar annað hvern helgan dag. Prestur var ekki í Hvammi heldur kom annar af tveimur prestur á Reynivöllum þangað til að syngja messur og tíðir með reglulegu millibili.
Næst má finna Hvammskirkju nefnda í máldaga frá 1497.
Í vígslumáldaga Stefáns biskups Jónssonar í Skálholti hinn 1. september 1502 um kirkjuna í Hvammi er getið skógartungu í Skorradal, sem kirkjan hefur þá eignast. Var leyfi til gefið að í Hvammskirkju yrðu saman vígð hjón og börn skírð.
Í Gíslamáldaga frá um 1570 segir að kirkjan sé hálfkirkja og eigi m.a. fimm kýr og eitt ásauðar kúgildi, einn gamlan altarisbúning, vænar klukkur, glóðarker, gamlar bækur og einn kaleik.

Hvammsvik-25

Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku saman Jarðabók sína fyrir Kjósarhrepp árið 1705 var hálfkirkja enn að Hvammi en sóknarkirkjan á Reynivöllum. Þjónaði sóknarpresturinn einnig til altaris í Hvammi, en kirkjuvegur er sagður vera örðugur og langur. Dýrleiki allrar jarðarinnar er þá sagður vera 60 hundruð, en af þeim sé hjáleigan Hvammsvík 12 hundruð. Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 er dýrleika jarðarinnar hins vegar skipt, Hvammur talinn 48 hundruð og Hvammsvík 12 hundruð. Í skýrslu sýslumanns, sem var ein af heimildum Johnsens, er þó Hvammur aðeins talinn vera 40 hundruð og Hvammsvík metin meir sem mismuninum nemur. Þá er sagt frá landkostum eins og þeir voru árið 1802, þegar jarðabók þessi var tekin saman, svo sem æðarvarpi og selveiði að ógleymdum nytjaskóginum í Skorradal í Borgarfirði.
Naglastadir-1Í Jarðabók Árna og Páls, sem tekin var saman réttri öld áður, er sagt um landkosti að torfrista og stunga sé lítt nýtanleg en nóg til af mó og þangi til eldiviðar, selveiði gagnvænleg fyrir heimalandi, rekavon nokkur, nægur skelfiskur en sölvafjara eydd af ísalögum, heimræði jafnan þegar fiskur gengur í Hvalfjörð og lending góð og skipsuppsátur. Túnið sé allt meinþýft og útigangur besti kostur jarðarinnar, en skriður spilli úthögum og engjum, stórviðri valdi skaða nær árlega og sauðfé sé hætt fyrir sjávarflæði. Segir og að í Hvammsey, sem kirkjunni er eignuð, hafi til forna verið gott æðar- og andarvarp, en það sé eyðilagt af lunda.
Tveir bæir eru hér nefndir í landi Hvamms, sem ekki eru til heimildir um aðrar. Þetta eru Naglastaðir, sem þá voru tóftir langt innan landamerkja, og tómthúsið Ásmundarstaðir, sem verið hafði í eyði í meira en tuttugu ár.
Naglastadir-2„Naglastaði“ ætla sumir verið hafa bygt ból í Hvammslandi, og hafa það til marks, að þar hafa fundist kol og eirbrot í jörðu, og líka sjást þar tóftarleifar. Ekkert vita menn til þess annað”. Ekki er vitað hvar á landareigninni þessi hjáleiga var, en þó er þess getið að langt sé “þaðan til  landamerkja mót öðrum jörðum” og að land þetta sé “átölulaus Hvamms eign” um aldur og ævi. Er þess og getið að “tvö ár ein hefur þar selstaða verið brúkuð frá Hvammi”.“
Hvammsvik-26Kirkjan í Hvammi var tekin af með konungsbréfi 17. maí árið 1765.
Búskapur var stundaður á jörðunum fram á áttunda áratug síðustu aldar, en skiki og skiki hafði verið seldur eða leigður undir sumarbústaði.
„Hvammur og Hvammsvík, sem er syðri bærinn, standa við sjó á suðurströnd Hvalfjarðar, á tanga norður í fjörðinn, en suður af þeim gnæfir Reynivallaháls. Milli bæja eru um 200 m. Núverandi bæjarhús, sem reist voru síðast í byrjun fjórða áratugarins, standa sunnan undir hólum sem heita einu nafni Hvammshólar.“
Samkvæmt túnakorti, sem teiknað var árið 1917, voru þá þegar mest öll tún beggja jarða sléttuð. Aðeins hafi verið eftir litlir og þýfðir blettir hér og þar.  Í stríðinu urðu túnin fyrir miklum skemmdum vegna hernaðarumsvifa, en síðan hafa þau verið sléttuð á nýjan leik og stækkuð til suðurs með því að ræsa fram mýrar.
Hvammsvik-35„Hér hefst lýsing Einars Jónssonar á örnefnum í landareign Hvamms og Hvammsvíkur; byrjað er innst, frá mörkum milli Hvamms og Hvítaness. Það er djúpt gil að innanverðu við Skeiðhól, það heitir Markagil og var oft illt yfirferðar á vetrum þegar snjóar voru miklir og að vestanverðu á gilbarminum er stór hóll sem heitir Skeiðhóll, Hann er að mörgu leyti einkennilegur, en sérstaklega fyrir það að sunnan í honum stendur klettur, sem er að mestu leyti sívalur. Hann er  eitthvað á 3 m. á hæð og að mun mjórri að neðan, eða það mætti líkja honum við flösku sem stæði á stútnum. Þessi klettur heitir Steðji.
Að vestan og sunnan við Skeiðhólinn eru að mestu leyti sléttar flatir og þær heita einu nafni Skeiðhólsflatir, en klettarnir fyrir ofan Skeiðhólsklettar, en þegar kemur út á næsta skriðuhrygg, heitir sá hryggur Hæstigeiri og klettarnir þar fyrir ofan Geldingahryggur. Svo kemur nokkurt svæði sem er nokkurn veginn jafnlent að öðru leyti en hallanum.

Hvammsvik-28

Það svæði heitir Lágafell, en klettarnir þar fyrir ofan Flár. Næsti skriðuhryggur fyrir utan heitir Lambahryggur, en gil upp af þessum hrygg heitir Bjarnagi. Svo fyrir utan Lambahrygginn kemur Gjásandur og þar fyrir ofan Gjábekkur og þær ná út að Sauðhól, sem er hár og nokkuð einkennilegur. Við hann var fjárrétt, þar sem réttin stóð var eins og hvilft inn í bergið, og þurfti ekki að hlaða réttina nema á tvo vegu og svo svo var hóllinn svo gott aðhald þegar rekið var inn.
Þá er farið með sjónum. Fyrst næst fyrir norðan Sauðhól er Hvammsvíkurholt og að norðanverðu við það mýrarsund, sem nær heim að Hvammsvíkurtúni, en austast af Hvammsvíkurtúninu heitir Sjávartún, en fyrir vestan bæinn í Hvammsvík, neðst í túninu, er hóll sem heitir Gvendarhóll.

Hvammsvik-29

Fyrir ofan bæinn, uppi í túninu, er hóll, sem heitir Magurhóll og túnið þar fyrir austan heitir Leynir. Svo er nokkuð hár grjóthóll austast í Hvammshólunum, sem heitir Hjallhóll, en hólarnir sem bæirnir standa sunnan undir heita einu nafni Hvammshólar. Svo fyrir norðan þá hóla rís nokkuð hár, einstakur hóll, sem heitir Arnarhóll. Þar sat örnin löngum, því þaðan sá hún glöggt hvernig bezt væri að haga fengsælum  veiðiferðum. En rétt fyrir norðan þennan hól kemur vellisblettur, sem heitir Bátsmýri og þar fyrir norðan er ávalahóll með standbergi sjávarmegin. Sá hóll heitir Bátsmýrarhöfði. Hann hefur þau einkenni, að norðast í berginu eru tveir nokkuð stórir básar, sem ganga svona 2-3 faðma inn í bergið, og þar var hægt að reka að þó nokkrar kindur,ef manni lá á.
Hvammsvik-30Þá er komið norður undir granda sem liggur út í Hvammshöfða. Þar flæðir sjórinn yfir, þegar er hálffallinn sjór, og um há flóð er breitt sund á milli lands og höfða. Í mínu ungdæmi var talsvert varp í þessum höfða. Þar verptu þó nokkrar fuglstegundir, svo sem æður, tjaldur, teista, kría og fleiri fuglar, en suður af höfðanum er eyja, sem heitir Hvammseyja. Þar verpti margt af fugli og þar lá selurinn uppi í tugatali þegar leið á vetur, þegar sól var og góðviðri. Þar fæddi hann oft unga sína og undi lífinu hið bezta, en oft bar hann sig illa þegar ungarnir voru fastir í netum. Þá gerðu mæðurnar margháttaðar tilraunir til að bjarga börnum sínum, en þær tilraunir enduðu stundum með því að mæðurnar urðu fastar sjálfar. Það kom nú ekki oft fyrir, því þær höfðu nokkuð góðan skilning á að forðast hættuna.
Hvammsvik-31Hvammshöfði er einkennileg eyja. Þegar maður kemur norður grandann, blasir við láglendi, beint í norður, en að vestan eru háir hólar. Þaðan er mjög fallegt útsýni. Svo er austur höfðinn líka með háum hólum og þarna er bæði lyng og vellisgróður og yndislega fallegt.
Þá fer ég vestur með sjónum. Upp á meginlandi, fyrir vestan grandann, vestur með sjónum, kemur nokkurt svæði, sem heitir Smáholt, og þar fyrir ofan er mýri, sem heitir Kringlumýri. Þar var mótekja góð á meðan entist. Þá er nes vestur af hólunum, sem heitir Draganes. Þar var lendingarstaður og skiparétt. Þar voru líka fiskbyrgi.

Hvammsvik-32

Að sunnanverðu við Draganesið skerst langur ós inn í landið. Hann er vel skipgengur heim að túni um flóð, en þegar kemur heim undir túnið, kemur mjódd, sem ekki er breiðari en smá árfarvegur. Sú mjódd heitir Mjóiós. Þar fyrir innan kemur annar ós, nokkuð stór, sem heitir Grafarós, en hann er að nokkru leyti tvískiptur, því það gengur vellismói út í hann frá suðaustri. Sá mói heitir Stórimói.
Nú ætla ég að fara út með sjónum, fyrir utan ósinn. Þá kemur vellisflöt sem heitir Orustuflöt. Þar börðust þeir Hvamms-Þórir og Bárður á Þrándarstöðum út af nautgripum, sem Þórir fann, en Bárður taldi sig eiga. Það var kýr, sem Brynja hét og hafði gengið úti og falizt í skóginum. Þegar hún fannst, var hún með hóp af ungviði með sér.
Þar fyrir utan eru hólar sem heita Óshólar, en að sunnanverðu, þar sem ósinn byrjar, er klettur, sem er laus við landið, og flæðir á milli klettsins og lands. Þessi klettur heitir Kirkjuklettur. Fyrir utan Óshólana er mýri, sem heitir Spóamýri.
Nú ætla ég að fara til baka inn undir Sauðhól og lýsa landinu út með fjallinu. Næst fyrir utan Sauðhól Hvammsvik-33er mýri, sem heitir Dýjamýri, og klettarnir þar fyrir ofan Dýjamýrarklettar. Mýrin næst fyrir utan veginn að neðanverðu heitir Aur.
Þá kemur áframhaldandi mýrarfláki sem heitir einu nafni Flói. Með fjallinu, að utanverðu við það sem ég hef þegar lýst, kemur klettahóll, sem heitir Stóra-Setberg. Þar fyrir ofan er hár klettastandur sem heitir Miðmundastandur. Nokkuð utar er annar klettahóll sem heitir Litla-Setberg. Fyrir neðan Setbergin er Setbergsmýri. Niður undan Litla-Setbergi, heldur utar, er holt sem heitir Langholt og mýri þar fyrir ofan Háamýri. Fyrir ofan og utan Háumýri eru klettar sem heita Svörtuklettar og Svörtuklettamýri í kringum þá að ofan. Hlíðin þar fyrir ofan heitir Breiðhillur en að utanverðu við Langholt kemur mýri sem heitir Selveita. Utan við hana, við sjóinn, eru Borgarlaugar og upp af þeim er hóll sem heitir Bullhóll. Þar áttu að hafa heyrst strokkhljóð til forna inni í hólnum.

Hvammsvik-34

Fyrir utan Bullhólslæk, niður við sjóinn, kemur mýri, sem nær út að Hálsmörkum. Hún heitir Lágamýri. Svo kemur smá klettabelti,en fyrir ofan það kemur Breiðamýri, sem nær líka út að mörkum. Fyrir ofan Breiðumýri er klettahóll sem heitir Asklok. Þar átti að hafa heyrzt aski skellt til forna. Þar rétt fyrir utan kemur smá gillæmi sem eru mörk milli Hvamms og Háls.“
Þegar Selveitan var skoðuð kom Naglastaðaselið í ljós. Um er að ræða hringlaga tóftarhól, en í honum mótar ekki fyrir veggjum. Utan í hólnum virðast vera rými.
Þórishólar eru án minja, utan Bessastekks, skeifulaga mannvirkis, undir syðsta hólnum, næsta Spóamýri.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning, Hvammur og Hvammsvík, Fornleifavernd ríksins 1995.
-Örnefnalýsing fyrir Hvamm og Hvammsvík, Einar Jónsson skráði.
-Íslenzk fornrit I, Reykjavík 1993, bls. 56-59.
-Íslenzk fornrit XIII, Reykjavík 1993, bls. 65, 68-70, 79.
-Sturlungasaga I, Reykjavík 1946, bls. 405, 407.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn III, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 218.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn IV, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 118.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn VII, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 375.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn VII, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 609-610.
-DI: Íslenzkt fornbréfasafn XV, Kaupmannahöfn/Reykjavík 1857-1972, bls. 632.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns XIII, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 85.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 430-434.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, Kaupmannahöfn 1847, bls. 101.
-Sveinn Nielsson: Prestatal og Prófasta. Hið íslenska bókmenntatal, Reykjavík 1950.
-Íslenzk fornrit I-,Reykjavík 1993-, bls 56-59.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, Gullbringu- og Kjósarsýsla, Kaupmannahöfn 1923-1924, bls. 431.
-Túnakort af Hvammi og Hvammsvík í Kjós frá 1917, Þjóðskjalasafn Íslands, óprentuð heimild.

Hvammsvík

Hvammsvík – örnefni – ÓSÁ.