Tag Archive for: Hvítanes

Hvítanes

Í Skýrslu um „Hernámið frá sjónarhóli Fornleifafræðinnar: Skráning á minjum úr Síðari heimsstyrjöldinni í Hvítanesi í Hvalfirði“ frá árinu 2025 segir m.a.:

„Skýrsla þessi fjallar um herminjar í Hvítanesi í Hvalfirði. Rannsóknin var síðasti áfangi verkefnisins Hernámið frá sjónarhóli fornleifafræðinnar sem, eins og nafnið gefur til kynna, beindi sjónum sínum að herminjum hér á landi.
HvítanesHvítanes gegndi mikilvægu hlutverki í hernaðarsögu Íslands, en þar var flotastöð sem þjónustaði herskip bandamanna. Í skráningunni voru samanlagt skráðar 398 minjar á 179 stöðum. Skráningin leiddi í ljós fjölbreyttar herminjar; bryggjur, byggingar, vegi, og aðra efnislega innviði sem tilheyrðu flotastöðinni. Skýrslan veitir innsýn í byggingarsögu svæðisins og efnismenningu hersins. Í minjunum er fólgin vísbending um þá starfsemi sem fór fram í Hvítanesi og þau áhrif sem flotastöðin hafi á staðbundna landnotkun og samfélagið á svæðinu.
Ástand herminja í Hvítanesi er sæmilegt en þó hefur nokkuð af minjunum neðst í nesinu skemmst við malarnám og aðrar framkvæmdir og virðist minjum hafa verið raskað enn frekar eftir að skráningu lauk. Rannsóknin í heild varpar ljósi á ástand herminja í landinu og mikilvægi verndunar þeirra og getur lagt grunn að frekari rannsóknum og stefnumótun í varðveislu slíkra menningarverðmæta hér á landi.

Hvítanes – sagan

Hvítanes

Hvítanes – herforingjaráðskort 1903.

20 hdr. 1705.
1585: Jörðin gefin í arf. Metin á 20 hdr. Jarðabréf, 18.
Í eyði frá um 1942, í Hvítanesi byggði herinn mikið af byggingum, herskálahverfi o.fl. og lagðist jörðin því í eyði. Í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson segir: ,,Jón Helgason og síðari kona hans Lára Þórhannesdóttir bjuggu í Hvítanesi 1933-1941, en hrökkluðust þaðan er jörðin var hernumin. Þar hefur ekki verið búið síðan.“
1705: „Túnum og úthögum spillir fjallsskriða. Engjar eru nær öngvar, því skriður hafa mestan part eyðilagt þær litlar sem voru.“… „… þar er stór tún, rammþýft. Engi lítið grasgott og lítið land til veitar – ekki óhult fyrir aurskriðum á túnið.“ Túnakort 1917: „Mest alt túnið sléttað, smáblettir og jaðrar þýfðir. Tún telst 5,9 t. (Mikil útgræðsla). Kálgarðar 950 m2.“

Hvítanes

Hvítanes – túnakort 1917.

„Kálgarður var austan við bæinn, en þegar byggt var, 1914, var gamli bærinn jafnaður við jörðu og gerður kálgarður þar; hann var þá vestan við bæinn. Snúrur voru framan við bæinn. Talið var vita á þurrk, þegar lét hátt í Glym í Botnsdal,“ segir í örnefnaskrá.
Í bókinni Ljósmyndir segir um Hvítanes: „Bætti Sveinbjörn [Einarsson, kemur 1907, fer 1921] mikið túnið í Hvítanesi, byggði þar lítinn steinbæ í stað baðstofunnar gömlu og stendur hann enn að mestu.

… Var jörðin Hvítanes mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fénaðarhús.

Hvítanes

Hvítanes – bæjarhóllinn.

Allt þetta mátti heita í góðu lagi, er herstjórnin tók jörðina til sinna umráða [árið 1941].“ „Í Hvítanesbænum var aðsetur yfirmanna úr breska hernum. Einhverjar lítilsháttar breytingar gerður þeir á honum en í aðalatriðum og að ytra útliti hélt hann sinni upprunalegu mynd,“ segir í bók Óskars Þórðarssonar sem vann í Hvítanesi í upphafi stríðsáranna. Bæjarhóllinn í Hvítanesi er suðvestarlega á nesinu um 200 m
norðan við Hvalfjarðarveg, um 3 km NNA við Reynivelli og um 2,5 km VNV við Fossá. Hvítanes hefur verið í eyði síðan herinn yfirgaf Ísland eftir seinni heimstyrjöldina.

Hvítanes

Hvítanes – bæjarhóllinn; uppdráttur.

Hvítanes er vel grasigróið, sérstaklega bæjarhóllinn, en brenninetlur eru búnar að breiða úr sér, sérstaklega á gömlum steingrunnum herskálanna. Landið hallar í um 5-20° til NNA. Á austan-og norðaustanverðu nesinu er láglent við sjóinn en að norðvestan og vestan hækkar landið mjög til suðvesturs. Þverhnípt er niður í sjó um 180 m vestan við bæinn.
Sjálfur bæjarhóllinn í Hvítanesi virðist óraskaður af hernum, a.m.k. í kring um bæinn sjálfan. Hóllinn er ekki mjög skýr en hægt er að greina óljósa 0,5-1,5 m háa hæð í landinu þar sem bæjarhúsin standa, á svæði sem er um 70×50 m stórt og snýr ASA-VNV. Herinn nýtti húsin á hólnum og kann að hafa bætt og breytt húsum eitthvað. Þær leifar sem nú sjást eru steinveggir yngsta íbúðarhúss sem byggt var 1914. Veggirnir standa ennþá uppi illa farnir en þakið er horfið. Steypuklumpar sem liggja á víð og dreif inni og utan við íbúðarhúsið og gömlu útihúsin sýna að veggirnir eru smám saman að hrynja.

Hvítanes

Hvítanes – bæjarhúsin 2024.

Leifar skorsteins liggja í grasinu um 4 m norðvestan við rústir íbúðarhússins. Lítil op í hleðslu íbúðarhússins, neðst við jörðu gefa vísbendinu um að hugsanlega hafi verið kjallari undir húsinu. Útlínur kálgarðs sjást ennþá en engin greinileg ummerki eru sjáanleg um gamla bæinn sem þar stóð áður. Steypan sem notuð var í að reisa yngsta húsið er mjög gróf og samsett úr fjörumöl, sandi og sementi. Veggirnir eru um 20 cm á breidd og 1,5-3 m hæð.

Hvítanes

Hvítanes – AMS-kort (bandaríska hersins).

Yngstu útihúsin voru einnig steinsteypt. Grunnur íbúðarhúss er 8×8 m að stærð.
Gengið hefur verið inn bæinn að norðvestan. Fast norðvestan við húsið norðaustan við innganginn glittir í lágar grjóthleðslur sem eru trúlega leifar lítils timburskúrs, 4×4 m að stærð, sem sýndur er á túnakorti.
Yngstu útihúsin eru um 2 m ANA við íbúðarhúsið, þau eru þrískipt og um 12×12 m að stærð. Þau hafa verið byggð eftir 1917 því þau eru ekki sýnd á túnakorti Hvítaness. Útihúsin voru steypt upp að norðvestanverðri útihústóft sem búið var að hlaða 1917 því hún er sýnd á túnakorti. Hægt var að ganga inn í útihúsin bæði að norðaustan og suðvestan. Herinn bjó þar og nýtti sér þau mannvirki sem þar voru.

Hvítanes„Herstjórnin ljet byggja stærri og minni byggingar á jörðinni, bæði á túni og engjum, ennfremur ljet hún leggja vegi um allt braggasvæðið, koma fyrir leikvelli og svo framvegis. Hafskipsbryggju ljet hún og byggja við nesið austanvert. Skildi herstjórnin svo við tún og engjar jarðarinnar, að allt var þetta eyðilagt að mestu leyti,“ segir í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson. Í bókinni Vígdrekar og vopnagnýr eftir Friðþór Eydal segir svo: „… viðhald kafbátagirðingarinnar og tundurduflabeltisins í Hvalfirði [krafðist] aðstöðu í landi þar sem taka mátti hluta þeirra á land til viðgerðar. Var þessari aðstöðu valinn staður í Hvítanesi um það leyti er lagning neta og dufla hófst haustið 1940.

Hvítanes

Hvítanes – einn dráttarvagnanna á bryggjunni; nú við Kiðaberg í Kjós.

Gerðar voru áætlanir um að smíða bryggju á nesinu austanverðu sem skip gætu athafnað sig við til að landa og taka um borð net og tundurdufl og búnað þeirra. Þá varð að byggja yfir starfsemina verkstæði og steypa stórt plan þar sem hægt væri að setja netin saman. Auk þess yrði reist herskálahverfi með viðeigandi aðstöðu fyrir 188 menn er annast skyldu þessa starfsemi. […] Ekki var búið á jörðinni eftir [1942]. … Vinna hófst í Hvítanesi 1941. … samþykkt að gera smærri steinbryggju sem þjónað gæti umferð báta og smærri skipa er flyttu vatn, vistir og mannafla um borð í skip flotans á læginu, enda var stærri bryggjan sem í smíðum var einungis ætluð fyrir neta- og tundurduflalagnirnar.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan 2024.

Bryggjugólfið var ekki ætlað bílaumferð en um það gengu tveir 8 tonna gufuknúnir kranar á spori og drógu flutningavagna.
Bygging íbúðarskála, sjúkraskýlis og vörugeymslna hélt áfram um haustið, en vinnu var hætt um áramót, enda ljóst að bryggjan yrði ekki tilbúin fyrr en haustið eftir og því hægt að nýta mannaflann betur annars staðar til vors. Byggingaframkvæmdum í Hvítanesi var að mestu lokið fyrir árslok 1942. … gefið nafnið H.M.S.Baldur III,“.

Hvítanes

Hvítanes – stríðsminjar.

Stríðsminjar þekja svo til allt Hvítanes, frá sjó upp í fjallsrætur, en mesta umfangið var þó á norður helmingi nessins NNV við bæjarhól. Ekki fundust upplýsingar að svo stöddu um það hvenær herinn yfirgaf svæðið. Hvítanes er nú orðið sæmilega gróið eftir umbrot breska og bandaríska hersins. Fjölmargir steinsteyptir grunnar bragga og annarra bygginga eru ennþá greinilegir á yfirborði. Nyrsti hluti nessins, þar sem umsvif hersins voru sem mest, er þó enn nokkuð sendinn og gróðurlítill.
Brenninetlur hafa hreiðrað um sig á stórum svæðum. Lítill sumarbústaður stendur nálægt sjónum í litlum bolla á nesinu austanverðu.

Hvítanes

Hvítanes – stríðsminjar.

Á 2-3 stöðum norðarlega á nesinu standa enn steinsteypt og/eða hlaðin hús, ýmist alveg eða að hluta. Stórgerðir múrsteinsstrompar og steinsteyptir grunnar bragga og annarra bygginga sjást enn á yfirborði á víð og dreif um nesið.
Tvær bryggjur hanga ennþá uppi að hluta, bæði norðvestan og norðaustan við nesið og vagnaspor sem liggja að vestari bryggjunni eru enn greinileg. Vegslóðar og upphleðslur eru einnig víða greinilegar. Stríðsminjarnar eru þó smám saman að hverfa í gróður. Trúlega verður aldrei hægt að byggja upp Hvítanes á ný sem ræktunarland, a.m.k. ekki án gríðarlegrar vinnu og kostnaðar þar sem herinn virðist m.a. hafa tekið undir sig stóra hluta af heimatúni. Herinn virðist þó ekkert hafa rótað til bæjarhól Hvítaness svo ekki er ólíklegt að fornminjar finnist þar undir sverði. Ekki er ljóst hvenær herinn fór frá Hvítanesi en trúlega hefur það verið við enda seinni heimsstyrjaldar um síðla árs 1944 eða á fyrri hluta árs 1945.

Hvítanes

Hvítanes – steinbryggjan.

Eitt fyrsta mannvirkið sem ákveðið var að koma upp í Hvítanesi var lítil steinbryggja norðvestarlega á nesinu þannig að landa mætti efni á svæðinu (m.a. í stóru bryggjuna) til að vatnsbátar gætu tekið vatn og fært skipum á legunni. Lítil steinbryggja var norðvestarlega í Hvítanesi. Bryggjan var um 265 m vestan við stóru bryggjuna. Talsverðar leifar sjást ennþá af bryggjunni þótt sjórinn brjóti þær greinilega hægt og bítandi niður og greinilegt sé að talsverður hluti hennar sé þegar horfinn. Bryggjan var notuð fyrir báta og smærri skip, m.a. við löndun og flutninga á mönnum, vatni og vistum samkvæmt bók Friðþórs Eydals. Þrátt fyrir að ákvörðun um byggingu steinbryggjunnar hafi verið tekin snemma virðist hún ekki hafa risið (a.m.k. ekki að fullu) fyrr en veturinn 1942-43.

Bryggja/lending

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

„Vinna hófst, sem fyrr segir, í Hvítanesi vorið 1941. Verkfræðingadeild hersins annaðist framkvæmdir utan smíði bryggjunnar sem breska fyrirtækið Dorman Long & Co. Ltd annaðist í umsjón hersins […]. Þá voru aðdrættir mjög erfiðir og varð að byrja á að smíða litla bryggju á vestanverðu nesinu svo landa mætti efni til verksins og vatnsbátar gætu tekið vatn og fær skipum á legunni,“ segir í Vígdrekar og vopnagnýr e. Friðþjóf Eydal. Þar segir ennfremur: „Gerðar voru áætlanir um að smíða bryggju á nesinu austanverðu sem skip gætu athafnað sig við til að landa og taka um borð net og tundurdufl og búnað þeirra.“ Í myndatexta í sömu bók segir: Hvítanes vorið 1943. Bryggjan fyrir kafbatanetið var í stöðugri notkun fyrir skip af ýmsum stærðum. . .“ Í bókinni er fjallað ítarlega um bryggjubygginguna og birt frásögn Önundar Ásgeirssonar sem vann við bryggjusmíðina sumarið 1941 og að hluta til 1942. Samkvæmt honum vann hann bæði við bryggjusmíðina og gerð stórs byggingakrana sem var reistur ofan við bryggjustæðið og undirstöður járnbrautarspors á efsta hluta bryggjunnar.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Hópur kafara frá Dormans Long sprengdu undirstöður undir bryggjustaurana á sjávarbotninum og var fyllingarefni sprengt af klöpp þar skammt frá. Kafarahópurinn samanstóð af Lundunabúum og Skotum og var kafað í hefðbundnum kafarabúningi með þungum og miklum hjálmi og blýlóðum. Breskur verkfræðingur stjórnaði verkinu en verkstjóri á staðnum var John Weatherall. Í frásögn Ömundar kemur fram að tafir hafi orðið á bryggjusmíðinni þar sem skipið sem flutti allt stálið í sniðið í bryggjuna var sökkt á leið til landsins.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Í bókinni kemur einnig fram að ekki hafi verið talið ráðlegt að halda áfram smíði bryggjunnar vegna slæmra vetrarveðra og óhagstæðra skilyrða til köfunar og þar sem efnið barst aðeins á svæðið í septmeber en þá var ákveðið að koma upp í staðinn smærri steinbryggju. Hafskipabryggjan er norðvestarlega í Hvítanesi.
Fjörugróður er talsverður við sjóinn en þar sem bryggjan en nær landi er meira um bera klappir og sjávarbarið stórgrýti. Hér og þar sjást litlir fjörupollar, einkum sunnan við bryggjuna. Bryggjan er úr járni og viði en næst landi er bryggjan og stöplar hennar úr steypu.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Bryggjan er í sæmilegu ástandi en járn hennar er ryðgað, auk þes sem hún hefur brotnað við fjöruna og ekki er lengur hægt ganga á þeim hlut bryggjunar sem er úti í sjó. Bryggjan er rúmlega 180 m á lengd og er nálega L-laga. Hún rís um 5-8 m yfir sjávarmáli og rúmlega 6-7 m á breidd. Fyrir miðju hennar sjást járnbrautateinar og á mörgum stöðum eru járnvírar í hrúgum. Við fjöruborðið sjást leifar af ryðguðum járnbútum sem losnað hafa frá bryggjunni. Sjávarbarinn lestarvagn er sömuleiðis í fjörunni, um 5 m suðaustan við bryggjuna.

Leið/lestarteinar

Hvítanes

Hvítanes – járnbrautarteinar.

Umfangsmiklir lestarteinar lágu frá steinbryggju og til suðausturs um hernámshverfið í Hvítanesi að aðalvegi niður á nesið. Frá þeim lá einnig vegur í sveigum upp upp brekkuna. Svo virðist sem slóði hafi legið frá teinunum og til vesturs að bröggum (og mögulega áfram til bryggju) en ummerki um hann sjást ekki vel og var ekki skráður sérstaklega. Vegurinn virðist steyptur en er víða að molna í sundur. Í bók Friðþórs Eydals um hernámsárin í Hvalfirði segir: „Akvegur lá niður á nesið og greindist í átt að bryggjunum tveimur, en auk þess var lögð járnbraut í sneiðingum upp nesið hægra meginn við veginn fyrir litla flutningsvagna.“

Tvö hús yfirmanna

Hvítanes

Hvítanes – hús yfirmanna.

Tvö hús standa enn (2019) að nokkru leyti norðan við veginn niður Hvítanes og það þriðja 113 undir þaki um 45 m austar. Húsið sem hér er skráð er það neðra (austara). Húsið er það rúmum 80 m vestan við bryggju og 2-3 m norðan við veg. Mýrlent er sunnan við veginn á þessum kafla en minna norðan hans en þar eru tveir skurðir sem hafa ræst fram landið.
Húsið sem þarna stendur hefur verið stæðilegt og er um 12.5 x 10.5 m að stærð og snýr h.u.b. austur-vestur. Suður- og austurveggir eru mest hrundir en norður- og vesturveggir standa enn sæmilega og þá norðvesturhornið sérstaklega. Húsið er þaklaust. Það er byggt úr steinsteyptum múrsteinaeiningum með steypulími á mili og svo múrhúðað.

Hvalfjörður

Herskip við lægi í Hvalfirði.

Ekki er hægt að greina líklega þakgerð með vissu út frá þeim leifum sem standa en hugsanlega helst að giska á að flatt þak hafi verið á húsinu. Húsið virðist hafa verið hæð og hugsanlega e.k. kjallararými undir. Greinilegt er að tveir gluggar hafa verið á norðurvegg og tveir gluggar á vesturhlið en annar þeirra er nú nær alveg horfin í hrun. Ekki er augljóst af heimildum hvaða tilgangi húsið þjónaði. Ekki er ólíklegt að það hafi verið bústaður yfirmanna í hernum.

Rafstöð
HvítanesRafstöð hersins í Hvítanesi var um 100 austan við braggahverfi. Í myndatexta við ljósmynd tekna af Hvítanesi árið 1943 sem birtist í Vígdrekar og vopnagnýr e. Friðþjóf Eydal segir: „Vatnsveita og götulýsing voru í stöðinni. Þar voru alls um 20 byggingar og gufukynnt hitaveita í mörgum þeirra. Fjórar 75 kW díselrafstöðvar sáu íbúum nessins fyrir raforku.“

Varðturn
HvítanesSæmilega varðveittur varðturn er um 200 m austan við braggahverfi en um 60 m vestan við sjó. Turninn er um 90 m austan við rafstöð.Tturninn er í miðri grasigrónni brekkur sem hallar til austur, að sjó.
Mannvirkið er steypt, 2,5×2,5 m að stærð og rúmlega 2 m hæð. Steypan er tekin að molna í neðri hluta þess. Dyr hafa verið á suðausturhlið varðturnsins en þar má sjá rygðaðar hjarir. Húsið er enn undir þaki.

Flotastöðin í Hvítanesi
Þann 10. maí 1940 var Ísland hernumið. Að baki hernáminu lá talsverður undirbúningur og áður en fyrstu hermennir stigu á land höfðu verið gerðar ýmsar rannsóknir á landi og landsháttum. Frá upphafi var ljóst að ákveðnir staðir yrðu þýðingarmiklir í vörnum landsins, bæði á sjó og landi. Hvalfjörður gegndi lykilhlutverki í vörnum á sjó og urðu umsvifin þar mikil.
HvítanesSkipulag flotavarnarmála á landinu þróaðist talsvert á fyrstu árum hernámsins en í árslok 1941 var komið nokkuð endanlegt skipulag á málaflokkinn. Flotadeild heimaflotans skyldi hafa aðsetur og liggja fyrir í Hvalfirði. Í henni áttu að vera tvö beitiskip, tundurdufl og tvö orrustuskip en deild tundurduflaslæðara var einnig staðsett í firðinum. Frá fiðrinum voru gerðar út deildir skipa sem fylgdu skipalestum suður af landinu. Þar var einnig lægi fyrir kaupskip en framan af var slíkum skipum safnað saman í firðinum áður en þau sigldu saman í lest til Norður-Rússlands. Þetta fyrirkomulag var viðhaft fram til ársloka 1942 þegar skipalestirnar hófu að sigla beint frá Skotlandi. Fylgdarlið skipalesta og herskipadeildir lögðu þó áfram leið sína til Hvalfjarðar.

Hvítanes

Hvalfjörður 1943.

Hafist var handa við lagningu tundurduflabeltis og kafbátagirðingar í Hvalfirði haustið 1940. Netalagnir lágu þvert yfir ytri hluta fjarðarins og tundurduflagirðing með segulnemum við Hálsnes. Framkvæmdirnar kröfðust talsverðs viðhalds og varð snemma ljóst að koma þyrfti upp aðstöðu í firðinum til viðgerða og viðhalds. Var umræddri aðstöðu valinn staður í Hvítanesi þar sem skilyrði til hafnargerðar voru góð.
Undirbúningur að gerð fotastöðvar í Hvítanesi hófst strax haustið 1940 en vinna við framkvæmdir vorið eftir, 1941 og lauk þeim fyrir árslok 1942. Frá upphafi var ákveðið að gera stórskipabryggju á austanverðu nesinu, flotkví, viðgerðarverkstæði, stórt plan þar sem setja mætti saman net og herskálahverfi. Upphaflega var áætlað að hverfin hýstu 188 hermenn sem vinna myndu við stöðina en síðar var íbúðarbröggum fjölgað.

Hvalfjörður

Hvammsvík – skipalægi vestan Hvítaness.

Herstöðin var formlega tekin í notkun 20. nóvember 1942 og var hún nefnd H.M.S. Baldur III (Skip hans hátignar, Baldur III). Hún var nefnd eftir því skipi flotans sem áður hýsti höfðustöðvar hans við Reykjavíkurhöfn áður en byggð var aðstaða í landi.

Þegar herinn ákvað að byggja flotastöð í Hvítanesi var þar bújörð í fullum rekstri. Sveinbjörn Einarsson sem flutti á jörðina 1907 hafði t.a.m. byggt þar veglegt steinhús og bætt túnið mikið. Árið 1935 flytja í Hvítanes hjónin Jón Helgason og Lára Þórhannesdóttir (ásamt börnum) og reka þar búskap næstu árin sem leiguliðar.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Samkvæmt lýsingu var Hvítanes þá talin „… mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fjenaðarhús.“
Hernám Breta í Hvítanesi og víðar í Hvalfirðinum kom heimamönnum þar í opna skjöldu, og ábúendur í Hvítanesi höfðu væntanlega lítið um þá ákvörðun að segja að reisa skyldi flotastöð í túnfætinum. Í upphafi var því haldið fram að vel yrði hægt að stunda búskap á svæðinu samhliða herrekstrinum, en fljótlega kom í ljós að umsvifin voru það mikil að hætta þyrfti búskap. Ábúendur yfirgáfu því jörðina síðla árs 1942 og fengu engar bætur fyrir tjón sitt vegna þessa enda einungis
leiguliðar.

Hvítanes

Hvítanes – naust bæjarins fyrir hernám.

Þegar herinn hóf framkvæmdir í Hvítanesi vorið 1941 var eitt af fyrstu verkunum að smíða þar litla bryggju til að hægt væri að landa byggingarefni og öðrum nauðsynjum, og til að bátar gætu lent þar og tekið vatn fyrir skipin á legunni. Aðflutningar á landi voru mjög erfiðir í upphafi, þar sem vegslóðar í firðinum voru lélegir og dugðu engan veginn til þungaflutninga.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan 2024.

Almennt voru aðstæður til framkvæmda í Hvítanesi frekur erfiðar í upphafi. Þá þurfti t.a.m. að sækja steypuefni á prömmum í fjöruna undir Fossá. Handmoka þurfti efninu á og af prömmunum sem voru svo dregnir á mótorbátum í Hvítanes. Framan af var vélknúinn tækjakostur mjög takmarkaður í Hvítanesi og nágrenni, helst að notaðir væru einstaka flutningabílar og steypuhrærivélar. Snemma voru þó steyptar undirstöður undir stóran byggingakrana við bryggjuna sem auðveldaði framkvæmdir þar.
HvítanesFyrstu hóparnir sem unnu við framkvæmdir í Hvítanesi tjölduðu á nesinu. Ætla má að ásamt vega- og hafnargerð hafi þótt forgangsverkefni að koma upp bröggum fyrir vinnuhópa á svæðinu.
Framkvæmdirnar voru skipulagðar og unnar af verkfræðideild hersins (sem síðar var til húsa á ofanverðu nesinu miðju), að hafskipabryggjunni frátalinni en umsjón með gerð hennar hafði breska fyrirtækið Dorman Long & Co. Ldt.
HvítanesÁ vegum þeirra unnu verkfræðingar, vélamenn, kafarar, járnsmiðir og aðrir iðnaðarmenn og ásamt verkamönnum. Verkamennirnir sem unnu við bryggjuna voru upphafi Íslendingar. Almennt voru vinnuhóparnir í Hvítanesi skipaðir bæði Íslendingum og Bretum en í forustu í bryggjugerðinni var hópur kafara frá Skotlandi og London. Mikill hörgull var á bæði mannskap og efniviði í upphafi, enda var unnið að ýmsum stórframkvæmdum á sama tíma, svo sem flugvallargerð í Reykjavík og Kaldaðarnesi í Flóa, auk gerðar stórra birgðageymslna og herkampa í Reykjavík.
HvítanesTil eru frásagnir Íslendinga sem unnu við uppbyggingu í Hvítanesi og veita þær áhugaverða innsýn í lífið á svæðinu. Óskar Þórðarson frá Haga í Skorradalshreppi hóf til dæmis störf hjá hernum þar sumarið 1941. Hann lýsir byggingum niður á eyrinni og mannlífi í nesinu eins og það kom honum fyrir sjónir daginn sem hann hóf þar vinnu, á eftirfarandi hátt: Byggingar sem vegna útlits síns voru kallaðar braggar stóðu ýmist strjálar eða í þyrpingu og náðu allt neðan frá sjó og upp að veginum sem lá eftir fjallshlíðinni, ljótar byggingar og óskipulega niður raðað. Enn fleiri braggar voru í byggingu, misjafnlega á veg komnir.
HvítanesHvarvetna að barst að eyrum vélaskrölt bifreiða og annarra vélknúinna faratækja, auk annars hávaða sem fylgir miklum umsvifum. Að vegagerð út með hlíðum fjallsins unnu Íslendingar sem teymdu á eftir sér hesta er drógu þung malarhlöss í kerrum. Allmargir þeirra voru sveitamenn. Sumir hverjir höfðu komið um langan veg með hross sín og kerrur til að afla hinna dýrmætu peninga sem borgaðir voru út í hönd á hverjum föstudegi. Breskir hermenn í grænum einkennisbúningum landhersins og sjóliðar í dökkum búningum voru hvarvetna á ferli, hundruðum saman, ýmist í löngum röðum eða smærri hópum.
Allur þessi fjöldi var á sífelldri hreyfingu fram og aftur í rigningunni, öslandi forina á túninu sem vaðist hafði upp undan allri þessari gríðarlegu umferð. Þetta var þá Hvítanes 7. júlí 1941.

Hvítanes

Hvítanes – yfirlit minja.

Sumarið 1941 var unnið sex daga vikunnar í Hvítanesi, frá klukkan sjö á morgnanna og til sex eða sjö á kvöldinn en verkamennirnir fengu matarhlé og tvö kaffihlé.

Allir þeir sem voru við vinnu á svæðinu fengu úthlutað númeri sem letrað var á gulan borða sem þeir áttu að bera á svæðinu á meðan þeir væru að vinna og skila svo aftur í dagslok. Borðarnir voru notaðir til að halda skrá yfir vinnuna.
Þrátt fyrir að gerð hafskipabryggju hafi snemma hafist urðu nokkrar tafir á verkinu. Ekki síst þar sem skipið sem flytja átti stálið í bryggjuna var sökkt á leið sinni til landsins og því barst efniviðurinn ekki á svæðið fyrr en í september. Þar sem unnið var að köfun þótti ekki ráðlagt að halda áfram vinnu um veturinn og fyrirskipaði flotamálaráðuneytið því að vinnu skyldi hætt að sinni en þess í stað yrði strax komið upp smærri steinbryggju á vestanverðu nesinu sem gæti þjónað umferð báta og smærri skipa, t.d. hvað varðar vistir og þjónustu.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – skipalest á stríðsárunum.

Auk vinnu við gerð steinbryggjunnar hélt ýmis önnur vinna í Hvítanesi áfram fram að áramótum og var t.d. unnið að byggingu sjúkraskýlis og vörugeymslu og steinbryggju greinilega, auk margvíslegrar vega- og skurðagerðar.

Framkvæmdir í Hvítanesi héldu áfram fram undir áramót 1941-42 en var þá hætt enda þótti ljóst að sjálf bryggjan yrði ekki tilbúin fyrir haustið á eftir.
Talsverður vinnuaflsskortur var í Hvítanesi stærstan hluta uppbyggingarskeiðsins líkt og í samfélaginu í heild enda mikil uppbygging í tengslum við veru hersins víða. Þótt að einhverjir Íslendingar hafi verið ráðnir til starfa áfram var algengt að þeir kysu heldur vinnu í Reykjavík sem var nóg af, á sömu kjörum.
HvítanesMargvíslegar frásagnir eru til um aðbúnað á byggingarstigi kampsins í Hvítanesi og óánægju þeirra verkamanna sem þar dvöldu, bæði íslenskra og erlendra. Í frásögn Friðþórs Eydals af byggingarframkvæmdum í Hvítanesi kemur fram að sumarið 1942 hafi verkinu miðað mjög hægt áfram sökum margvíslegrar óánægju starfsmanna Dorman Long & co. með aðbúnaðinn á svæðinu og fásinnið. Fór það svo að yfirmaður þeirra hætti og fór heim. Af þessu leiddi að yfirmaður flotans kvataði við flotamálaráðuneytið í London um það að þurfa að treysta á almenna borgara í svo mikilvæg verkefni sem þessu. Málin voru leyst þannig að landgönguliðarnir voru látnir vinna að bryggjugerðinni með starfsmönnum Doman Long & co. jafnvel þótt þeir hefðu átt að vera að sinna öðrum verkum.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin á Miðsandi.

Þegar framkvæmdum í Hvítanesi var lokið var risið þar stórt þorp á íslenskan mælikvarða. Þar voru um 300 byggingar, vegir, raf- og vatnsveita, brunnar og ljósastaurar, skotgrafir o.s.frv. Ekki hafa fengist áreiðanlegar upplýsingar um það hversu margir dvöldust í stöðinni. Því var haldið fram að þar hefðu verið allt að 10 þúsund manns þegar mest var, en líklegt er að það sé orðum aukið.
Áætlað hefur verið að mannvirki og búnaður í Hvítanesi hafi kostað a.m.k. 270.000 pund sem framreiknað til dagsins í dag væru um 9.4 milljarðar.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Í flotastöðinni í Hvítanesi var unnið að viðhaldi og viðgerðum á netum og tundurduflabelti í Hvalfirði og þjónustaði stöðin einnig skip á firðinum með ýmsum hætti. Mikið magn af vatni var t.d. flutt úr Hvítanesi í skip í firðinum enda flest skipin voru gufukynt og þurftu því mikið vatn. Sum þeirra eimuðu vatn úr sjó fyrir vélarnar en þurftu þó engu að síður vatn fyrir áhafnir og farþega, og smærri skip þurftu jafnvel einnig vatn fyrir vélarnar. Vatnabátar unnu við að koma vatni í skipin en eftir að vatnsveita var lögð í Hvítanesi varð auðveldara að þjónusta skipin á firðinum að þessu leyti. Afgreiðsla á kolum til skipa flotans fór einnig fram í Hvítanesi að hluta og var í höndum breska eimskipafélagsins Delaware (og síðar einnig kolapramminn P.L. M 14). Það tók kol í Reykjavík og sigldi með upp í Hvalfjörð en áhafnirnar þurftu sjálfar að starfa við kolatökuna.

Hvalfjörður

USS KEARNEY , laskaður tundurspillir eftir að hafa leitaðs sér skjóls í Hvalfirði.

Þeir sem dvöldu í Hvítanesi eftir að framkvæmdum var lokið voru væntanlega flestir í vinnu á vegum flotastöðvarinnar, til dæmis við viðgerðir á netum, þjónustu við skip o.s.frv.. Ýmsir dvöldu þar þó aðeins tímabundið, meðal annars flugliðar sem stöldruðu þar við á leið til og frá Kanada þangað sem þeir fóru í þjálfun. Að auki starfaði stór hópur manna við ýmsa þjónustu tengda rekstri hverfisins, svo sem viðhald innviða og aðra starfsemi. Dæmi um fólk í síðastnefnda hópnum var Robert Maltby, sem kom ásamt tólf manna hópi til Hvítaness árið 1941 til að setja upp og reka þar verslun og veitingastofu breska flotans, sjóliðaklúbbinn. Auk klúbbsins rak Íslendingur þar sjoppu í timburskúr nokkru ofan við Hvítanesbæinn. Kvikmyndahús var einnig rekið í Hvítanesi en í skráningunni tókst ekki að skera úr um það í hvaða bragga það var. Samvæmt Óskari Þórðarsyni var aðstaðan þar fremur bágborin: Gólfið var óslétt, bekkirnir lélegir. Bíóbragginn var þó staður sem var hvað eftirsóttastur. Þar komust færri að en vildu.
HvítanesBíóið var fyrst og fremst ætlað þeim hermönnum sem engar virðingarstöður skipuðu. Einungis ef svo vildi til að þeir fylltu ekki húsið fengum við aðgang. […] Sýnt var að minnsta kosti tvisvar í viku, stundum oftar. Líklega hefur myndaúrvalið verið frekar fábrotið.
Eftir að amerískir sjóliðar fóru að venja komur sínar í Hvítanesi (þegar þeir fengu landvistarleyfi) glaðnaði yfir sölunni í bæði klúbbnum og sjoppunni. Bóndinn á Fossá sá einnig tækifæri í komu amerísku sjóliðanna og fór að bjóða upp á um klukkutíma hestaferðir um nágrennið sem urðu mjög vinsælar hjá amerískum sjóliðum, en ekki er getið um að Bretarnir hafi nýtt sér afþreyinguna mikið enda höfðu þeir úr mun takmarkaðri fjármunum að spila en amerísku dátarnir.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Í Hvítanesi var rekinn spítali sem sinnt gat íbúum á svæðinu (og væntanlega úr flotanum á firðinum), þótt líklega hafi aðstaða þar verið fremur einföld (sjá umfjöllun um minjar hér á eftir). Auk þessara bygginga voru víða ýmiskonar aðrar þjónustubyggingar, s.s. skemmur, smærri samkomubraggar og eldhús (Mess hall), klósett og sturtur.
Matur var eldaður á nokkrum stöðum í flotastöðinni og líklegt að fæði hermanna á svæðinu hafi aðallega samanstaðið af innfluttum mat. Vörur bárust ýmis frá Reykjavík eða beint með skipum frá Bandaríkjum og Bretlandi en lítið hefur fundust um hvernig mataræði þeirra var samsett að því frátöldu að bjórinn sem neytt var á svæðinu kom frá Kanada. Vörubirgðir voru bæði geymdar í móðurskipum á firðinum en einnig í birgðageymslum í Hvítanesi (og Hvammsvík).

Hvítanes

Hvítanes – tröppur þær er Winston Churchill var myndaður á í heimsókn hans hingað til lands á styrjaldarárunum.

Á framkvæmdaárunum í Hvítanesi vann þar nokkur fjöldi af Íslendingum og því voru samskipti á milli hermanna og Íslendinga talsverð. Í bók Óskars greinir hann frá því að tungumálaerfiðleikar hafi þó takmarkað öll samskipti og oft gert mönnum erfitt fyrir, enda hafi fáir Íslendingar kunnað ensku. Þeir sem voru færir í tungumálinu urðu hins vegar eftirsóttir sem verkstjórar og túlkar. Óskar vann meðal annars í blönduðum hópum af Íslendingum og Englendingum og komu þar oft upp vandamál tengd skorti á tungumálakunnáttu. Þótt Óskar sjálfur kynni afar takmarkaða ensku í upphafi greinir hann frá því að hermennirnir hafi mjög sótt í félagsskap hans og annarra Íslendinga. Margir þeirra hafi verið mjög einmana og á kvöldin hafi alls staðar orðið á vegi hans einmana menn langt frá heimahögunum sem vildu tala um fjölskyldur sínar, fræðast um landið eða kvenpeninginn.

Þeir hafi oft verið á ferli til og frá baðhúsi og vildu gjarnan bjóða Íslendingunum inn í braggana til sín, sýna þeim byssurnar sínar, myndir af fjölskyldu eða litla happa og heillagripi sem margir þeirra áttu.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Jafnvel þótt að viðvera og umferð Íslendinga í Hvítanesi hafi verið meiri en í ýmsum öðrum kömpum er ljóst er að herinn lagði áherslu á halda ákveðinni leynd yfir skipulagi og uppsetningu á mannvirkjum sínum þar. Í ævisögu Sigurðar A. Magnússonar segir frá því að þegar hópur pilta kom við á svæðinu á leiðinni úr útilegu í Vatnaskógi þá var það brýnt fyrir piltunum að gæta þess vandlega að myndavélar þeirra væru ekki uppivið heldur kyrfilega geymdar í töskum. Í frásögninni kemur fram að herinn hefði þá nýlega hirt einar 60 myndavélar af Íslendingum sem þar voru á ferð og mynduðu þær á svæðinu.

Hvítanes

Hvítanes.

Íbúar í Hvítanesi voru nokkuð einangraðir frá umheiminum og fæstir þeirra áttu t.d. útvörp. Dagblöð komu þangað sjaldan og þá gjarnan mjög seint og því litlar fréttir að fá. Hermennirnir voru almennt mjög fréttaþyrstir og í raun þyrstir í alla tilbreytingu frá hversdagslífinu sem var mörgum þeirra þungbært. Að mati Roberti Maltby, sem vann í verslun og veitingastofunni á svæðinu, var líf sjóliðanna í Hvítanesi án efa oftast eitthvert versta tímabil í lífi þeirra.
Öll tilbreyting í daglegt amstur var vel þegin, sér í lagi á sunnudögum þegar ekki var unnið, a.m.k. ekki á meðan á uppbyggingarskeiði svæðisins stóð. Óskar Þórðarson lýsir því í bók sinni að guðsþjónustur hafi farið fram undir beru lofti hvern sunnudag í Hvítanesi þegar hann var þar og verið vel sóttar. Messað var í heimatúninu ofanverðu þar sem nokkur halli var og gestir gátu setið. Hann segir að fjölbreyttur hópur hafi sótt messurnar. Ekki er ljóst hvort þær fóru fram á íslensku eða ensku en í lok samkomunnar var í það minnsta sungið lagið Eldgamla Ísafold að sögn Óskars.

Hvítanes

Hvítanes – stríðsminjar.

Ekki fundust nákvæmari upplýsingar um það hvenær flotastöðinni var lokað en að það virðist hafa verið fyrir árslok 1944 því jörðinni var skilað til Sölunefndar setuliðseigna árið 1944. Þá var ljóst að stórt verkefni væri framundan við að leysa upp þorpið í Hvítanesi og koma þeim búnaði sem þar var í notkun annars staðar eða í verð. Mönnum var ljóst að verðgildi eigna á stað eins og Hvítanesi (og öðrum svæðum í Hvalfirði þar sem herinn hafði verið með umsvif) yrði ekki í neinu samræmi við byggingakostnað, en samkomulag var gert við ríkisstjórnina um að hún „keypti og/eða yfirtæki mannvirki og búnað hersins og endurseldi einkaaðlilum eftir atvikum. Í mörgum tilfellum var um að ræða greiðslu fyrir landspjöll sem orðið höfðu við umsvif herliðsins, einkum þegar um mannvirki var að ræða“.

Hvítanes

Hvítanes – stríðsminjar.

Ríkisstjórnin skipaði nefnd (Nefnd setuliðsviðskipta) vorið 1944 til að annast ráðstöfun eigna hersins fyrir sína hönd og ári síðar Sölunefnd setuliðseigna til að „sjá um sölu hermannaskála, bæta úr eignarspjöllum af völdum setuliðsins og greiða landeigendum skaðabætur“.
Nefndirnar höfðu báðar lokið störfum 1948 og var niðurstaða þeirra gjarnan að bæjar- og sveitarfélög fengu forkaupsrétt.
Í Hvítanesi voru fjölbreytt mannvirki. Auk stórskipabryggju og steinbryggju á vestanverðu nesinu var þar mikill fjöldi íbúðabragga, vöruhús og verkstæði og nokkur steinhlaðin hús og vegakerfi með lýsingu, vatnsveita og rafstöð.
Ýmislegt er vitað um örlög einstakra bygginga en margt er þó á huldu um það hvar efniviður flotastöðvarinnar endaði.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – útsýni frá Hvítanesi.

Í Hvalfirði var upphaflega höggvið á landfestar kafbátaneta og þeim sökkt og tundurduflagirðingunni þar var eytt með sprengingu. Á næstu árum varð hins vegar ljóst að leifar mannvirkjanna hömluðu skipaumferð og veiðum á svæðinu og var gert samkomuleg við bresk yfirvöld um að sérhæft hreinsunarskip ynni að hreinsun fjarðarins árin 1948-49.
Samkvæmt samantekt Friðþórs Eydals um eftirmál hernaðaruppbyggingar í Hvalfirði gekk vel að selja búnað og byggingar. Vita- og hafnarmálastofnunin (forveri Siglingamálastofnunar) eignaðist t.d. gufukranana tvo sem gengu á járnbrautarspori fram á hafskipabryggjuna og skemmurnar tvær neðarlega á nesinu. Var sú stærri flutt á lóð stofnunarinnar og stóð enn á lóð Siglingamálastofnunar þegar Friðþór ritaði grein um afdrif bygginganna 1999.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Eina boðið sem barst í stórskipabryggjuna á svæðinu var einnig frá Vita- og hafnarmálastofnuninni, upp á 400 pund en bryggjan hafði kostað 126.000 pund í smíði. Málið endaði með því að breska flotastjórnin ákvað að gefa íslenska ríkinu bryggjuna með þeim skilyrðum að Bretland væri leyst undan allri ábyrgð vegna viðhalds eða hreinsunar síðar meir. Í kjölfarið var ákveðið að taka bryggjuna ekki niður og greiddi Vitamálastofnun landeiganda leigu fyrir aðgang að henni fyrstu árin.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Með tímanum fór timbur úr bryggjunni að hverfa og var þá ákveðið að hirða það sem hægt væri af timbri og brautarteinum. Landeigandi óskaði eftir því að kaupa bryggjuna 1949 en þeirri ósk var synjað. Árið 1960 óskaði hann svo eftir því að ríkissjóður afsalaði honum bryggjunni til niðurrifs vegna þeirra búsifja sem hernámið hefði haft fyrir jörðina og hversu litlar bætur hefðu fengist, en beiðninni var aftur synjað í þeirri von að bryggjuleifarnar gætu nýst betur og hanga því illa farnar leifar bryggjunnar enn uppi.
Ólíkt mannvirkjum í þéttbýli sem gjarnan nýttust tímabundið á staðnum eftir brotthvarf hersins voru mannvirkin í Hvítanesi fjarri alfaraleið og því engar tilraunir gerðar með að nýta það á staðnum eftir því sem best verður séð. Raskið í Hvítanesi var mikið og aldrei virðist hafa komið til greina að freista þess að hefja aftur búskap á jörðinni.

Hvítanes

Hvítanes – varðbyrgi/stjórnstöð.

Efnismenningin úr Hvítanesi dreifðist víða. Sem dæmi um það má nefna að á þessum tíma vann Ungmennafélagið Drengur í Kjós að undirbúningi að byggingu félagsheimilisins Laxárness sem er talið fyrsta félagsheimili landsins. Ungmennafélagið samdi við setuliðið um kaup á nokkrum samkomubröggum í Hvítanesi og Hvammsvík. Síðsumars 1945 tóku svo félagsmenn sig til, söfnuðu efninu saman og fluttu að Laxárnesi. Varðveittar frásagnir af vinnunni benda til að atgangurinn hafi verið talsverður enda var það „…sem hafði kostað heri Breta og Bandaríkjamanna margra vikna, mánaða eða hver veit hvað […] nú rifið niður á tveimur dögum með hömrum og klaufjárnum.“
Efnið nýttist í ýmis minni háttar mannvirki í kringum félagsheimilið, t.d. var settur upp braggi sem þjónaði hlutverki hesthúss í mörg ár en þær byggingar hafa nú allar verið rifnar.

Hvítanes

Hvítanes.

Þótt stríðinu lyki höfðu Bandaríkjamenn áfram hugmyndir um viðveru á Norður-Atlandshafinu. Á eftirstríðsárunum komu fram ýmsar áætlanir um það hvernig slíkar ráðagerðir yrðu best tryggðar og kom Ísland þar oft við sögu. Bandaríski herinn hafði áfram áhuga á Hvalfirði og var það niðurstaða sérstakrar staðarvalsnefndar Bandaríkjaflota árið 1946 að höfuðstöðvar flotans á þessum slóðum gætu orðið í Hvítanesi.

Hvalfjörður

Hvalfjörður á tímum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Nefndin lagði fram ýmsar tillögur um mannvirki á suðvesturhorninu á eftirstríðsárunum og þótti Hvítanes einnig koma til greina sem varastaðsetning fyrir olíustöð ef hún gæti ekki verið á Söndum í Hvalfirði. Einnig þótti koma til greina að fjarskiptastöð, sem ráðgert var að risi á Kjalarnesi, gæti risið við austanvert Hvítanes ef áætlun um Kjalarnes gengi ekki upp.
Árið 1953 fóru Bandaríkjamenn fram á að grafa kafbátabyrgi inn í Þyril og árið 1957 var óskað eftir því að reisa olíustöð og sökkla á hafsbotni og legufærum, sem nota mætti fyrir kafbáta og herskip. Engar af ofangreindum tillögum urðu að veruleika. Árið 1959 fékkst hins vegar leyfi til að reisa lóranstöð á Snæfellsnesi til að auðvelda kafbátum miðanir og var ljóst að Bandaríkjamenn höfðu augastað á Hvalfirði fyrir frekari uppbyggingu hernaðarmannvirkja.

Stríðsár

Hermenn á vakt við Vesturlandsveg nálægt Þingvallavegi.

Talsverð andstaða var við uppbyggingu og viðveru bandaríska hersins hér á landi á friðartímum. Á þessum tíma var efnt til ýmissa mótmæla til að sporna við frekari uppbyggingu þeirra hér á landi. Hernaðarandstæðingar fóru t.d. reglulega í Keflavíkurgöngur til að krefjast þess að Bandaríkjamenn létu af allri uppbyggingu og viðverðu á Íslandi og að hvetja til að Ísland gengi úr NATO. Árið 1962 var ákveðið að umrædd mótmælaganga skyldi farin frá Hvítanesi í Hvalfirði (í stað Keflavíkur). Aðspurðir sögðu forvígismenn göngunnar að það væri til að vekja athygli á þeirri ágirnd sem Bandaríkjamenn hefðu á svæðinu fyrir kafbátahöfn og flotastöð. Almannavarnafrumvarpið sem lagt hefði verið fyrir alþingi síðasta vetur hefði sýnt að Hvalfjörður stefndi í að vera jafn mikið uppbyggingarsvæði og Keflavík. Ástæða þess að gangan var farin Hvítanesi sögðu þeir hins vegar vera þá að Hvítanesjörðin hefði verið ein fyrsta íslenska bújörðin sem fór í eyði vegna hernaðarumsvifa.
HvítanesJörðin Hvítanes komst í eigu Jóns Björnssonar og fjölskyldu í stríðslok og hélst í þeirra eigu allt fram á síðustu ár eftir því sem best fæst séð.
Ljóst er að herminjar á jörðinni settu nýtingu hennar nokkrar skorður. Árið 1995 stofnuðu afkomendur Jóns, þeir Björn og Jón Kristinssynir, einkahlutafélagið Hvítanes um eignina og fljótlega eftir 2000 þróuðu þeir tillögu að nýju og breyttu deiliskipulagi sem m.a. var kynnt fyrir sveitarfélaginu á þeim tíma.
Á allra síðustu árum (og eftir að skráningunni lauk) hafa komið fram nýjar ráðagerðir um nýtingu og uppbyggingu í Hvítanesi. Samkvæmt deiliskipulagi stendur þar til að hefja skógrækt og gera jörðina aftur að lögbýli. Gera þessar nýju áætlanir ráð fyrir byggingu íbúðarhúss, skemmu, þjónustu- og vélarhúss, bryggju og bryggjuhúss á jörðinni á 5 ha svæði neðst á tanganum og virðast framkvæmdir nokkuð komnar af stað, af nýlegum loftmyndum að dæma.

Heimild:
-Hernámið frá sjónarhóli Fornleifafræðinnar: Skráning á minjum úr Síðari heimsstyrjöldinni í Hvítanesi í Hvalfirði, Reykjavík 2025.
-https://www.academia.edu/128999410/HERN%C3%81MI%C3%90_FR%C3%81_SJ%C3%93NARH%C3%93LI_FORNLEIFAFRAE%C3%90INNAR

Kjós

Hvítanes á stríðsárunum.

Hvítanes

Hvítanes í sunnanverðum Hvalfirði er merkilegur staður, ekki síst vegna mikilla stríðsminja, sem þar eru.
Friðþór Eydal skrifaði um „Hernámið og hersetuna“ í Fréttablaðið 9. maí 2020. Þar minnist hann t.d. á Hvítanes.

Satt og logið um hernámið og hersetuna

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal.

„Friðþór Eydal hefur rannsakað umsvif erlendra herja á Íslandi, meðal annars í skjalasöfnum þeirra. Margt reynist ekki eins og almannarómur hafði fyrir satt og Friðþór varpar ljósi á staðreyndirnar.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940 til þess að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi.
Stuttur aðdragandi var að þessum sögufræga atburði en þýskir herir gerðu innrás í Noreg mánuði fyrr og brutu á nokkrum vikum á bak aftur mótspyrnu norska hersins og breskra og franskra hersveita sem sendar höfðu verið til aðstoðar.
Sumt af breska herliðinu sem hrökklaðist frá Noregi kom til Íslands ásamt öðrum liðsauka í júnímánuði og hóf varnarviðbúnað. Skortur á herafla varð til þess að Kanadastjórn lagði til eitt stórfylki með tæplega 2.700 mönnum til Íslandsdvalar sumarið 1940. Sigldu flestir þeirra áfram til Bretlands um haustið þegar breskur liðsauki barst til landsins. Herafli Breta náði hámarki árið 1941 þegar um 28.000 liðsmenn landhers, flughers og flota dvöldu í landinu.

Til verndar skipaleiðinni

Hvalfjörður

Hvalfjörður – skipalest á stríðsárunum.

Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en allmikils stuðnings gætti þar við málstað Breta. Ríkisstjórn Roosevelts Bandaríkjaforseta fann leið til þess að létta undir með því að lána og leigja Bretum margvíslegan herbúnað sem þeir sóttu í bandarískar hafnir. Mikil hætta steðjaði þó að siglingunum og hugkvæmdist forsetanum að senda bandarískt herlið til Íslands og láta Bandaríkjaflota þar með veita herskipavernd á siglingaleiðum austur á mitt Atlantshaf. Sömdu ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna um það sumarið 1941 að bandarískt herlið skyldi taka við vörnum landsins og leysa breska hernámsliðið smám saman af hólmi.
Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 þegar meginliðsstyrkur þeirra hvarf heimleiðis, en breski flotinn og flugherinn, sem léku aðalhlutverk í baráttunni við þýska flotann á norðaustanverðu Atlantshafi, starfaði áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.

Hvalfjörður lék stórt hlutverk

Hernámið

Hernámið. Bandaríkjamenn mæta til leiks.

Bandamenn höfðu mikinn viðbúnað til þess að hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir á Atlantshafi. Varnir landsins miðuðust fyrst og fremst við svæði þar sem voru hafnir, eða aðstaða til flugvallagerðar og starfsemi sjóflugvéla með vegartengingu við aðra landshluta, svo sem á Suðvesturlandi, við Húnaflóa, Eyjafjörð og á Austurlandi.

Stríð

Frá stríðsárunum á höfuðborgarsvæðinu.

Viðbúnaður var mestur á höfuðborgarsvæðinu, en Reykjavíkurhöfn var lykillinn að liðs- og birgðaflutningum til landsins. Umsvifin voru í meðallagi á Norðurlandi og fremur lítil á Austurlandi, enda vegatengingar við þá landshluta fremur frumstæðar. Bretar lögðu flugvelli í Kaldaðarnesi og Reykjavík en Bandaríkjamenn reistu stóra flugbækistöð við Keflavík, sem lék stórt hlutverk í miklum loftflutningum þeirra til Bretlands.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta höfðu aðstöðu í Hvalfirði og áðu einnig í Seyðisfirði. Hvalfjörður lék stórt hlutverk í siglingum skipalesta með hergögn og birgðir frá Bretlandi og Bandaríkjunum til sovéskra hafna á Kólaskaga og við Hvítahaf er mest reið á, 1941 og 1942.
Heildarheraflinn í landinu var nærri 50.000 þegar mest var, sumarið 1943, og hafði um 80 prósent hans aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn sjálfir voru einungis um 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000.

Kærkomin umskipti

Hernámið

Hernámið.

Þótt þröngt væri á þingi tókst sambúð landsmanna við hina framandi gesti furðu vel. Í árslok 1942 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja og sumarið eftir var stór hluti bandaríska herliðsins fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu. Nýr og miklu fámennari liðsafli kom þá til landsins en hélt að mestu sömu leið árið 1944.
Flestir bresku og bandarísku hermennirnir sem eftir sátu í stríðslok störfuðu á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli og hurfu þeir síðustu til síns heima vorið 1947.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin þar sem núr er Hvalstöðin.

Síðari heimsstyrjöldinni hefur verið lýst sem mesta umbrotatíma í sögu Íslendinga. Markaðir opnuðust í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrir flestar útflutningsafurðir á margföldu verði og hleypti það, ásamt atvinnu sem skapaðist við fjölbreytt umsvif herliðsins, af stað gríðarlegum efnahagslegum uppgangi. Umskiptin voru kærkomin eftir langvarandi stöðnun og kreppu og grunnur var lagður að nútímavæðingu og velmegun þjóðarinnar.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Íslendingar voru ekki þátttakendur í hernaðinum en bækistöðvar bandamanna og aðstaða í landinu átti þátt í að flýta fyrir sigri í styrjöldinni. Landsmenn veittu mikilvægan stuðning, t.d. með sölu matvæla og annarra framleiðsluvara sem kom Bretum afar vel.
Þótt styrjöldin færði þjóðinni auðsæld og umbætur fór hún ekki varhluta af ógnum hennar. Alls fórust 151 Íslendingur af hernaðarvöldum, svo fullvíst sé talið, og skjótur efnahagsuppgangur og herseta höfðu langvarandi þjóðfélagsumrót í för með sér.
Bandamenn misstu alls nærri 900 manns hér við land og í stríðslok hvíldu 510 erlendir hermenn og sjómenn í íslenskri mold. Þar af voru rúmlega 200 Bandaríkjamenn en líkamsleifar þeirra voru síðar fluttar til heimalandsins.

Bábiljurnar leiðréttar

Hernámið

Hernámið.

Hér hefur verið stiklað á stóru um helstu staðreyndir, en margvíslegar bábiljur sem snemma fengu byr undir báða vængi heyrast enn. Er því ekki úr vegi að skýra og leiðrétta ýmislegt sem misskilningi kann að valda.

Stríðsár

Breskir hermenn á verði í Reykjavík.

Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 og við tók umsamin hervernd Bandaríkjanna.
Herliðið tók sér í fyrstu bólfestu í fjölmörgum byggingum sem sumar stóðu auðar, en reistu síðan herbúðir víða á leigulóðum. Engin mannvirki eða lóðir voru tekin án samninga og endurgjalds til eigenda, sem miðaðist við gangverð í landinu.
Stóraukin dýrtíð olli því þó að endurgjaldið rýrnaði þegar frá leið, en fékkst að hluta bætt í gegnum skaðabótanefndir sem í sátu fulltrúar hersins og íslenskra stjórnvalda. Þeir sem fært gátu sönnur á að hafa farið halloka í viðskiptum hlutu bætur frá ríkis­sjóði að styrjöldinni lokinni.
Breska orrustuskipið HMS Hood lagði ekki upp frá Hvalfirði í sína hinstu för vorið 1941, heldur var á leið þangað frá Orkneyjum þegar því var snúið til vesturs í veg fyrir þýska orrustuskipið Bismarck. Hood var grandað um það bil miðja vegu milli Reykjaness og Hvarfs á Grænlandi en ekki skammt undan Reykjanesi. Ógerlegt er talið að sprengjudrunurnar hafi borist alla leið til Reykja­víkur.

Ofmetinn fjöldi hermanna

Hernámið

Hernámið…

Hermannafjöldi í landinu hljóp ekki á hundruðum þúsunda, eins og sumir landsmenn ályktuðu af umsvifunum sem þeir urðu vitni að, heldur fór mest í tæplega 50 þúsund.

Hvítanes

Hvítanes í dag.

Hernaðaryfirvöld gerðu reyndar í því að láta líta út fyrir að liðsaflinn væri miklu meiri, til þess að láta Þjóðverja halda að innrás í Noreg væri yfirvofandi frá Íslandi og Bretlandseyjum.
Heraflinn var minnstur á Austurlandi, þar sem hann fór mest í um 800 á Seyðisfirði en fluttist síðar að stórum hluta til Reyðarfjarðar. Þar náði hann hámarki rúmlega 900 í tíð breska, kanadíska og norska hersins árið 1942 og í rúmlega 1.200 eftir að Bandaríkjamenn höfðu tekið við haustið 1942, en var ekki mörg þúsund eins og gjarnan er haldið fram fyrir austan.

Íslendingar ekki þátttakendur

Hernámið

Hernámið.

Landsmenn voru ekki þátttakendur í hildarleiknum en allmargir íslenskir sjómenn sigldu á farskipum sem fluttu nauðsynjavörur til landsins og fiskiskipum með afla til sölu á mörkuðum í Bretlandi. Einnig réðust nokkrir ungir sjómenn á erlend farskip, oftast í ævintýraleit. Því miður komust ekki allir alltaf heilir heim úr þeim ferðum, en það var fremur afleiðing, heldur en þátttaka í átökunum og reyndar engin nýlunda, enda sjómennska jafnan nokkurt hættuspil.

Hvalfjörður

USS KEARNEY , laskaður tundurspillir eftir að hafa leitaðs sér skjóls í Hvalfirði.

Þjóðverjar litu á siglingar Íslendinga til Bretlands sömu augum og bandamenn á siglingar norskra og danskra skipa á hersetnum heimaslóðum sínum, það er í þágu óvinarins og eirðu engu.
Alls fórust um 410 íslenskir sjómenn og farþegar af almennum slysförum eða hernaðarvöldum á styrjaldarárunum sex, auk fjögurra sem urðu fyrir banaskotum hermanna eða sprengjubrotum. Virðist sem sú heildartala hafi snemma verið höfð ranglega til marks um fórnir Íslendinga í samanburði við aðrar þjóðir.
Til samanburðar við þá 260 sjómenn og farþega sem ekki fórust af hernaðarvöldum, svo víst sé talið, fórust samkvæmt skýrslum Slysavarnafélags Íslands að meðaltali um 200 sjómenn á þremur sex ára tímabilum á áratugnum fyrir stríð. Að teknu tilliti til mjög aukinnar sóknar og ástands skipastólsins á stríðsárunum, má því álykta að hlutfallslegur mannskaði af öllum orsökum á sjó, hafi í reynd verið lítið tíðari en áratugina á undan.

Lítinn séns í íslenskar konur

Hernám

Samskipti hernámsliðsins við Íslendinga voru óneitanlega mikil.

Erlendu hermönnunum varð alls ekki eins vel ágengt í samskiptum við íslenskar stúlkur og oft er látið í veðri vaka. „Ástandið“ svonefnda var raunar ekkert frábrugðið því sem jafnan gerðist á stöðum sem ungir vermenn hópuðust til eða í síldarplássum, þótt fjöldi aðkomumanna næði óþekktum hæðum á stríðsárunum.

Stríðsár

Bandarískur hermaður og íslensk kona.

Langflestir hermannanna kváðust ekki eiga neinn „séns“ í stúlkurnar, sem fæstar virtu þá viðlits.
Bandaríkjaher sem fjölmennastur var þegar á leið, lagði bann við giftingum liðsmanna sinna. Ákvörðunin var ekki einskorðuð við Ísland og byggðist á því að stjórnvöld vildu forðast að þurfa að annast framfærslu fjölskyldna sem stofnað væri til með óvissa framtíð og e.t.v. í einmanaleika fjarri heimahögum.
Allmikið er til af lýsingum á viðhorfi hermanna til landkosta eða ókosta og dvölinni í landinu almennt, en fremur lítið um viðhorf til lands­manna. Þetta stafar einfaldlega af því að sárafáir kynntust í raun, eða áttu náin samtöl við, landsmenn.
Nú gerir fólk sér vart grein fyrir hversu tungumálakunnáttan var lítil og erfiðlega gekk að eiga gagnleg samtöl þannig að fólk kynntist högum hvers annars í raun. Flest viðhorfin á báða bóga eru því byggð á því sem fólk sá úr fjarlægð, og upplifði í einhverjum tilvikum, en ekki síst á sögusögnum og getgátum sem gengu manna á milli í fásinninu, enda fréttaflutningi strangar skorður settar.

Báru hver öðrum vel söguna

Hernámið

Hernámið.

Þeir sem kynntust í raun sér um líkum, til dæmis liðsforingjar eða menntamenn, báru hverjir öðrum jafnan vel söguna og sama er að segja um þá sem áttu í viðskiptum eða bjuggu í návígi, til dæmis á smærri varðstöðvum á landsbyggðinni.

Stríðsár

Hermenn á vakt við Vesturlandsveg nálægt Þingvallavegi.

Herliðið flutti ógrynni tækja og búnaðar til landsins við uppbyggingu heraflans, til dæmis rúmlega 4.000 bifreiðar og önnur farartæki auk fjölda flugvéla, og reisti um 12.000 braggabyggingar ásamt 1.000 smærri stein- og timburhús í rúmlega 300 íbúðahverfum. Þrjú þúsund farartæki voru flutt aftur úr landi ásamt margvíslegum búnaði.
Árið 1944 samdist svo við ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna um að íslenska ríkið annaðist kaup og endursölu á öllum fasteignum og búnaði sem ekki yrði fjarlægður, til þess að tryggja innheimtu lögboðinna aðflutningsgjalda. Fékk ríkissjóður eignirnar á vægu verði en yfirtók jafnframt skuldbindingar gagnvart landeigendum. Var Sölunefnd setuliðseigna sett á fót til að annast verkið ásamt því að bæta skemmdir á landeignum fyrir ágóða af endursölu til landsmanna.

Hernám

Skjáskot úr sjónvarpsþættinum Stríðsárin á Íslandi, sem sýndur var á RÚV 1990, í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá upphafi hernáms á Íslandi.

Í allmörgum tilvikum fengu landeigendur greitt fyrir að sjá sjálfir um landlögun en heyktust sumir á því og eru það nánast einu staðirnir þar sem mannvirki eða minjar standa eftir frá hersetunni, utan flugvallanna í Reykjavík og Keflavík og olíu- og hvalstöðvarinnar í Hvalfirði, sem voru áfram í notkun.

Hernám

Nissan-braggi í Mosfellsveit á stríðsárunum.

Heyrst hefur að hermannafjöldi í Hvalfirði hafi skipt tugum þúsunda, en hið rétta er að bækistöðvar í firðinum voru fremur fáliðaðar en fjöldi sjóliða og sjómanna á skipum sem áðu þar gat auðvitað hlaupið á þúsundum, þótt fæstir fengju landgönguleyfi.
Í Hvalfirði gekk lengi sú saga að við lendingu létt­báta, skammt innan við Hvítanes, hafi verkamenn verið látnir smíða forláta tröppur fyrir komu Winstons Churchills, forsætisráðherra Breta, sem hafði viðdvöl á Íslandi eina dagstund sumarið 1941. Sagan er ólíkleg sökum þeirrar leyndar sem hvíldi yfir komunni og fullvíst er að Churchill steig alls ekki á land í Hvalfirði heldur einungis í Reykjavík.

Engir særðir hermenn að utan

Hernámið

Herspítalinn Cam Dailey á Vogastapa.

Um hríð var útbreidd sú saga að stórir herspítalar hefðu verið reistir á Íslandi fyrir hermenn sem særðust á meginlandi Evrópu eftir innrás bandamanna í Normandí sumarið 1944. Herliðið reisti reyndar braggaþyrpingar fyrir sjúkraskýli og spítala í herbúðum sínum en einungis í samræmi við fjölda hermanna í landinu hverju sinni. Liðsaflinn dróst skjótt saman árið 1943 og því ekki að undra þótt landsmenn hafi brotið heilann um tilgang svo umfangsmikilla salarkynna, sem skyndilega stóðu auð og yfirgefin.
Sömu vangaveltur eru þekktar í tengslum við bandarísku flugbækistöðina í Narsarsuaq á Grænlandi, þar sem allstór spítali reis fyrir herlið á stríðsárunum og var endurnýjaður í Kóreu­stríðinu, að sögn til líknarmeðferðar illa særðra hermanna, sem herinn vildi að leynt færi.

Draugur kveðinn niður

Hernám

Fallbyssa á verði á Valhúsahæð.

Ýmsar sögur hafa einnig gengið af reimleikum tengdum hermönnum eða hjúkrunarkonum sem látist hafi á stríðsárunum og jafnvel spítalabröggum eða efni úr þeim sem flutt var á milli landshluta.

Stríðsár

Íslenskur drengur íhugar ástandið, sitjandi á reknu tundurdufli.

Þekkt er saga af bandarískri hjúkrunarkonu, ungri og myndarlegri, sem sögð er hafa látist í bifreiðaslysi í Mosfellssveit og gengið aftur á þeim slóðum. Dauðsföll í röðum herliðsins eru vel skilgreind í heimildum hernaðaryfirvalda og sýna að engin hjúkrunarkona hersins lést á Íslandi á stríðsárunum.
Ekki verða bornar brigður á frásagnir fólks af reimleikum en helst er að ætla að afturgengna hjúkrunarkonan unga og myndarlega hafi ef til vill ekki verið öll þar sem hún var séð.“

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðisins 3. jánúar 1999 er fjallað um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði eftir heimsstyrjöldina síðari“.
„Bandamenn komu sér upp aðstöðu á Íslandi til þess að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Atlantshafi. Bretar lögðu flugvelli í Reykjavík og Kaldaðarnesi í þessu skyni.

Hernaðarumsvif

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Umsvifum hers og flota bandamanna í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni er lýst ítarlega í bókinni „Vígdrekar og vopnagnýr – Hvalfjörður og hlutur Íslands í orrustunni um Atlantshafið“, eftir Friðþór Eydal sem kom út fyrir jóli 1997. Ekki var rými í bókinni fyrir umfjöllun um afdrif stöðva og mannvirkja hersins og umsvif í Hvalfirði að styrjöldinni lokinni og bætir bókarhöfundur úr því nú.

Hvalfjörður

Hvalfjörður á tímum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Bandamenn komu sér upp aðstöðu á Íslandi til þess að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Atlantshafi. Bretar lögðu flugvelli í Reykjavík og Kaldaðarnesi í þessu skyni, en Bandaríkjamenn tvo flugvelli suður með sjó til loftvarna og liðsflutninga til Bretlands. Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta áðu í Hvalfirði og Seyðisfirði. Um eins og hálfs árs skeið var kaupskipum frá Bretlandi og Bandaríkjunum safnað saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum norður fyrir land og um Smuguslóðir til rússneskra hafna. Hætt var að hafa þennan hátt á í árslok 1942 og sigldu Rússlandsskipalestirnar eftir það beint frá Skotlandi án viðkomu. Herskipadeildir og fylgdarskip skipalesta höfðu þó viðkomu hér á landi eftir sem áður.

Hvalfjörður

Hvalfjörður á tímum Seinni heimstyrjaldarinnar.

Í Hvalfirði lá oft fjöldi skipa á kaupskipalæginu utan Hvammsvíkur og á móts við Ferstiklu og herskipalæginu sem var í firðinum annanverðum. Gat þar oft að líta stærstu herskip veraldar sem veittu skipalestunum vernd gegn orrustuskipum þýska flotans í Noregi. Bretar reistu flotastöð í Hvítanesi þar sem m.a. var gert við netalagnir, sem lágu þvert yfir fjörðinn utanverðan, til varnar gegn óvinaskipum og kafbátum, svo og tundurdufl sem girtu fjörðinn við Hálsnes í sama tilgangi. Í stöðinni voru birgðageymslur, verkstæði, íbúðaskálar, spítali, og annað til þjónustu við herskipaflotann ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Öflug flotkví lá innanvert við nesið ásamt viðgerðar- og birgðaskipum og lyfti skipum til botnviðgerðar.

Hvítanes

Hvítanes á stríðsárunum.

Bandaríkjamenn reistu mikla eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við fjörðinn norðanverðan. Þar tóku skip sem áðu í firðinum olíu og einnig olíuskip sem fylgdu flotadeildunum og gáfu þeim eldsneyti á hafi úti. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða.

Hvammsvík

Hvammsvík. Stjórnstöð hersins efst.

Í Hvammsvík reis birgðastöð fyrir skotfæri og djúpsprengjur flotans ásamt tómstundaheimili fyrir skipshafnir Bandaríkjaflota. Sams konar tómstundaheimili var reist fyrir áhafnir kaupskipanna í Hvammsey. Á Hvammshólum, sem gnæfir yfir Hvammsvíkina, var aðsetur hafnarstjórans í Hvalfirði, sem var breskur sjóliðsforingi, og stjórnuðu menn hans allri skipaumferð í firðinum.
Skipalægið og flotastöðvarnar í Hvalfirði voru vandlega varðar gegn óvinaárásum. Segulmælingalagnir á sjávarbotninum milli Seltjarnarness og Akraness gerðu viðvart um skipaumferð í myrkri eða dimmviðri og varðskip önnuðust eftirlit á innanverðum Faxaflóa. Hljóðsjárbúnaður lá á sjávarbotni beggja vegna álsins í firðinum utanverðum og var eftirlitsstöð með henni að Gröf í Skilamannahreppi. Á Kjalarnesi, Akranesi og í Borgarnesi var talsvert herlið sem hafði það hlutverk að verja óvinum leiðina landveginn. Stórar fallbyssur við bæinn Dalsmynni á Kjalarnesi vörðu innsiglinguna. Slíkar byssur voru einnig á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi og Hvaleyri við Hafnarfjörð.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Úr krikanum utan Hvaleyrar og yfir að Grundartanga lá netalögn úr sverum vír sem stöðva skyldi skip og kafbáta á leið inn fjörðinn. Netunum var haldið uppi af fjölmörgum stórum duflum og lágu festar í akkeri á botninum. Hlið var á lögninni og varðskip við sem hleypti skipum í gegn. Fallbyssur og ljóskastarar á bökkunum undan Útskálahamri að sunnan, og að Klafastöðum að norðan, vörðu netalögnina. Að auki lá tundurduflagirðing með segulnemum þvert yfir fjörðinn undan Hálsnesi.

Hvalfjörður

Herskip við lægi í Hvalfirði.

Í varðstöð á nesinu mátti sprengja duflin, eitt eða fleiri, undir óboðnum kafbátum eða skipum sem kæmust svo langt. Þessi varnarviðbúnaður bandamanna í firðinum ásamt ströngu eftirliti á Faxaflóa var þýskum hernaðaryfirvöldum ljós og aftraði þeim frá að stefna skipum og kafbátum gegn þessum mikilvæga áningarstað. Til loftvarna var öflugum byssum komið fyrir undir Hvammshólum við Hvammsvík, á Hrafneyri handan fjarðarins og á Þyrilsnesi. Smærri loftvarnabyssur voru þar og í Hvítanesi og við olíustöðina á Söndum. Þýskar könnunarflugvélar lögðu oft leið sína með ströndum landsins í leit að skipum, loftmyndatöku af hernaðarmannvirkjum og til veðurathugana. Í einstaka tilfellum gerðu þær árásir á skip eða mannvirki. Oft lá leiðin yfir Hvalfjörð til að gæta að skipum á læginu. Flug þeirra var áhættusamt, enda margar loftvarnabyssur í firðinum bæði í landi og á skipum. Einnig voru flugvellirnir í Reykjavík og Keflavík skammt undan en þar var fjöldi orrustuflugvéla sem höfðu það hlutverk að granda hinum óboðnu gestum. Þýsku njósnaflugvélarnar flugu gjarna lágt yfir fjöllum svo loftvarnaskytturnar rétt grilltu í skotmarkið. Bandaríkjaher grandaði 5 þýskum flugvélum við landið í styrjöldinni, öllum með orrustuflugvélum og tveimur eftir að þær höfðu lagt leið sína yfir Hvalfjörð.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Er leið á styrjöldina og bandamenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann fór skipakomum fækkandi í Hvalfirði og viðbúnaður sömuleiðis. Breski flotinn starfrækti flotastöð sína í Hvítanesi til stríðsloka en hóf þá brottflutning. Dregið hafði verulega úr varnarviðbúnaði í firðinum er leið að styrjaldarlokum. Tundurduflagirðingin lá þó enn undan Hálsnesi uns henni var eytt í sprengingu í maí. Um líkt leyti var kafbátanetunum sökkt þar sem þau lágu þvert yfir fjörðinn og höggvið á landfestar þeirra.
Olíustöðin, sem Bandaríkjamenn reistu fyrir Breta á svokölluðum „láns og leigukjörum“ , var rekin af bresku olíufélagi frá ársbyrjun 1944. Réð fyrirtækið til þessa verks um 30 íslenska starfsmenn sem aðsetur höfðu í skálahverfinu á Miðsandi. Að styrjöldinni lokinni tók Bandaríkjafloti aftur við stöðinni og hugðist reka hana áfram samkvæmt áætlunum sem þeir þá höfðu uppi um herstöðvar til langs tíma.

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Eftir stóðu í firðinum fjölmörg mannvirki sem reist höfðu verið í miklum flýti og með ærinni fyrirhöfn og kostnaði. Var komið að hernaðaryfirvöldum að losa sig við þessi mannvirki ásamt búnaði og birgðum sem ekki þótti ástæða til að nýta eða flytja af landi brott, enda flutningatæki, mannafli og farmrými af skornum skammti. Ljóst var að verðgildi mannvirkja á svo afskekktum stað gat ekki orðið í neinu samræmi við upphaflegan byggingarkostnað og varla að búast við að þau nýttust nema með flutningi annað.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Samkomulag hafði verið gert milli hernaðaryfirvalda og ríkisstjórnarinnar um að hún keypti og/eða yfirtæki mannvirki og búnað hersins og endurseldi einkaaðilum eftir atvikum. Í mörgum tilvikum var um að ræða greiðslu fyrir landspjöll sem orðið höfðu við umsvif herliðsins, einkum þegar um mannvirki var að ræða.

Í Hvítanesi var hafskipabryggja úr stáli og önnur smærri steinbryggja og heilt þorp íbúðarbragga og vöruskemma auk nokkurra hlaðinna steinhúsa. Þar var að finna vatnsveitu, rafstöð og kyndistöð og gatnakerfi með lýsingu. Í Hvammsvík og nágrenni voru vöruskemmur og skotfærageymslur og fjöldi íbúðarbragga. Þá voru braggahverfi að Dalsminni, Útskálahamri, á Hálsnesi, Þyrilsnesi, Hrafneyri, að Klafastöðum og Gröf. Nefnd setuliðsviðskipta annaðist ráðstöfun búnaðar og mannvirkja hersins fyrir hönd ríkissjóðs. Mannvirki og búnaður í Hvítanesi höfðu kostað breska flotann a.m.k. 270.000 sterlingspund, sem var jafnvirði 2,9 hundraðshluta af verðmæti útfluttra sjávarafurða árið 1945 og gæti með sömu viðmiðun numið rúmlega 2,7 milljörðum króna í dag. Stöðin á Hálsnesi hafði kostað 10.000 pund og í Hvammsvík átti flotinn mannvirki að verðmæti 7.000 sterlingspund. Greiðlega gekk að selja búnað og byggingar, enda flestar færanlegar.

Hvítanes

Hvítanes.

Helstu mannvirkin í Hvítanesi voru tvær stórar vöruskemmur og steypt plan við þær og bryggjurnar tvær. Fékk Vita- og hafnarmálastofnunin m.a. tvo stóra gufukrana sem gengu á járnbrautarspori fram á bryggjuna ásamt skemmunum tveimur. Greiddi stofnunin 3.000 sterlingspund fyrir þá stærri og flutti á lóð sinna við Vesturvör í Kópavogi.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Í bryggjuna sjálfa, sem kostað hafði 126.000 pund að smíða, barst einungis eitt boð að upphæð 400 pund og var það einnig frá Vita- og hafnarmálastofnuninni. Mælti breski flotaforinginn í Reykjavík með því að boðinu yrði tekið, þótt lágt væri, enda vart að búast við öðru betra og stofnunin hefði reynst breska flotanum hjálpleg á ýmsan hátt og keypt mikið af búnaði og þ. á m. umrædda skemmu á fullu verði. Breska flotastjórnin ákvað hins vegar að gefa íslenska ríkinu bryggjuna gegn því að ríkisstjórn Bretlands væri þar með leyst undan allri ábyrgð vegna viðhalds hennar eða kröfum sem upp kynnu að koma síðar vegan þessa mannvirkis.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Ekki kom til þess að bryggjan yrði seld eða rifin og töldu íslensk stjórnvöld í fyrstu réttast að eiga hana þar uppistandandi ef til þyrfti að taka og greiddi Vitamálaskrifstofan landeiganda dálitla leigu fyrir aðgang að bryggjunni, a.m.k. fyrstu árin. Snemma fór þó að bera á því að tekið væri timbur úr bryggjunni. Hirti þá Vitamálaskrifstofan það sem hún náði upp af brautarsporinu og undirlagstrjám. Eigandi jarðarinnar óskaði eftir því árið 1949 að fá bryggjuna keypta af ríkissjóði og árið 1960 að ríkissjóður afsalaði honum bryggjunni til niðurrifs vegna þeirra búsifja sem hernámið í Hvítanesi hefði haft í för með sér og hversu takmarkaðar skaðabætur hefðu hlotist fyrir. Var það álit vitamálastjóra í bæði skiptin að ekki væri ástæða til að afsala bryggjunni, heldur bíða hentugs tækifæris í þeirri von að gera mætti úr henni frekari verðmæti en brotajárn. Má eflaust geta sér þess til að mannvirki þau sem eftir stóðu í Hvítanesi hefðu ef til vill fengið nýtt hlutverk ef síld hefði gefið sig oftar í eins ríkum mæli í Hvalfirði og hún gerði veturinn 1947-1948, þegar nánast engar síldarverksmiðjur var að finna á Suðvesturlandi. Þá má ætla að þróun heimsmála í kalda stríðinu hafi gefið mönnum tilefni til að halda að brátt yrði aftur þörf á hernaðaraðstöðu í firðinum.

Hvalfjarðarsíldin og hreinsun fjarðarins

Hvítanes

Hvítanes – loftmynd.

Veiðar á síld til beitu voru hefðbundnar í Faxaflóa á haustvertíð. Veturinn 1947 varð mikillar síldar vart í Kollafirði og á Sundunum og var talsvert veitt þar um veturinn af blandaðri síld í nót sem siglt var með í bræðslu til Siglufjarðar, enda hefðbundnar síldveiðihafnir á Norður-og Austurlandi og engar stórar síldarbræðslur að finna fyrir sunnan. Sumarsíldveiðarnar fyrir Norðurlandi brugðust illa þetta sumar, svo og veiðar reknetabátanna á Faxaflóa um haustið. Auk þeirrar óáranar sem síldarlaust sumar hafði í för með sér stefndi nú í alvarlegan beituskort um veturinn. Reknetabátarnir lömdu allan flóann um haustið, en án teljandi árangurs uns mikillar síldar varð vart inni í Hvalfirði í byrjun október. Var það upphaf stórfenglegra síldveiða í firðinum sem stóðu fram í marsmánuð árið eftir.

Hvítanes

Hvítanes – varðbyrgi.

Fljótlega kom þó í ljós að víða á veiðislóð síldveiðibátanna var að finna leifar af kafbátagirðingunni, sem sökkt hafði verið við brottför breska flotans, legufæri og víradræsur sem ollu síldarflotanum tilfinnanlegu veiðarfæratjóni. Kvartaði Landssamband íslenskra útvegsmanna yfir þessu ástandi til sjávarútvegsmálaráðherra í janúar 1948. Var vitaskipinu Hermóði falið að athuga hvort mögulegt væri að ná upp nokkru af þessum festum, en svo reyndist ekki vera og ljóst að til þyrfti að koma öflugt sérbúið skip. Samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu 25. febrúar þess efnis að nauðsynlegar ráðstafanir skyldu gerðar til hreinsunar á öllu því sem herliðið hefði skilið eftir á botni Hvalfjarðar sem truflun ylli við veiðar í firðinum og skemmdum á veiðarfærum. Skyldi ríkisstjórnin beita sér fyrir því að þau erlendu ríki sem hér ættu hlut að máli framkvæmdu hreinsun á sinn kostnað auk þess að greiða tjón sem fiskimenn hefðu beðið og kynnu að bera af þessum sökum. Varð að samkomulagi að skip frá breska flotanum, H.M.S. Barrage, sérbúið til lagningar og viðhalds netgirðinga og legufæra, skyldi annast verkið. Hóf skipið að slæða upp kafbátanetin utanvert við Hvalfjarðareyri í lok ágúst.

Hvítanes

Hvítanes – minjar.

Brátt kom í ljós að önnur tveggja lagna sem þar höfðu legið samhliða var enn í heilu lagi, en hin var í nokkrum hlutum og höfðu sumir m.a. verið dregnir inn í víkina innan við Hvalfjarðareyri. Þá héldu dufl, sem skilin höfðu verið eftir á lögnunum er þeim var sökkt, enn hlutum hennar nokkuð frá botni og víða lágu rytjur af nótum síldarbáta frá því um veturinn saman við víraflækjurnar ásamt legufærum skipa. Skipið hélt slæðingum áfram fram í nóvember og hafði þá losað í Hvítanesi 14 farma af netum, duflum og legufærum sem flest voru 6-8 tonna steypuklumpar. Mest af víraflækjunum setti skipið á land upp af bryggjunni í Hvítanesi, en nokkuð var látið í sjóinn og fjöruna upp með henni.
H.M.S. Barrage kom aftur til landsins í apríl 1949 og hóf slæðingu að nýju í maí. Verkið gekk nú mjög vel, enda réttur árstími. Stóð verkið fram í ágúst og taldi skipstjórinn þá að vírnetin sem upp hefðu verið tekin mundu nægja í fjögurra sjómílna samfellda lögn auk dufla og legufæra. Þó var línu yfir fjörðinn frá odda Hvalfjarðareyrar hlíft við slæðingu til að skemma ekki sæsímastreng sem þar hafði verið lagður. En Hvalfjarðarsíldin sást ekki meir.

Nýtt hlutverk

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Þótt Bretar hyrfu á brott úr Hvalfirði að stríðinu loknu starfrækti Bandaríkjafloti áfram olíustöðina á Söndum. Umsvifin voru þó ekkert í líkingu við það sem verið hafði, en Bandaríkjamenn höfðu uppi miklar áætlanir til að tryggja öryggi í þessum heimshluta að styrjöldinni lokinni og óskuðu eftir leyfi til að starfrækja áfram herstöðvar á Íslandi til langs tíma.

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

Hugmyndir Bandaríkjahers voru þær að rekstur Keflavíkurflugvallar yrði óbreyttur, þ. e. sem millilandaflugvöllur og að þar yrði einnig aðstaða fyrir sprengju- og orrustuflugsveitir flughersins eftir því sem þurfa þætti. Í herbúðum Bandaríkjaflota í Washington voru ýmsar hugmyndir viðraðar veturinn 1946 um staðsetningu flotaflugstöðvar eins og þeirrar sem rekin hafði verið í Skerjafirði og á Reykjavíkurflugvelli. Þaðan höfðu flugvélar flotans stundað eftirlitsflug og kafbátaveiðar á styrjaldarárunum. Þá var rætt um heppilegan stað fyrir flotastöð sem annaðist önnur verkefni og hýsa skyldi yfirstjórn flotans og verið hafði í Camp Knox í Reykjavík. Kom m.a. til álita að taka allt Kársnesið vestan Hafnarfjarðarvegar undir þessa aðstöðu, eða Skerjafjörð og Reykjavíkurflugvöll eins og verið hafði, og var rætt um innanverðan Kópavogsdal undir skotfærageymslur.

Álftanes

Camp Brighton – varðskýli á Álftanesi.

Einnig kom til álita að leggja flugvöll á Álftanesi með þremur flugbrautum og yrði þar öll aðstaða flotans utan Hvalfjarðar og næði um allt nesið inn í Hafnarfjörð. Loks kom til álita að flotaflugstöðinni yrði einnig valinn staður á Keflavíkurflugvelli.
Í Hvalfirði gerðu menn ráð fyrir að olíubirgðastöðin á Söndum yrði starfrækt áfram, en ný stöð reist innanvert við Hvítanes ef leyfi fengist ekki til áframhaldandi reksturs. Hvítanes var álitinn heppilegur staður fyrir yfirstjórn flotans og skotfærageymslur hans yrðu áfram í Hvammsvík, eða utanvert við stöðina á Miðsandi. Ekki var búist við því að mikið af þeim byggingum sem reistar höfðu verið á stríðsárunum yrðu nýttar til frambúðar, enda flestar þeirra braggar sem ekki var ætlað að standa lengi.

Hvítanes

Herminjar á Hvítanesi.

Vart er þó ástæða til að ætla að komið hefði til greina að reisa ofangreindar herstöðvar á höfuðborgarsvæðinu þótt rætt hafi verið um þá staði í upphaflegri tillögugerð. Í skjalasafni Bandaríkjaflota er að finna kort með hugmynd að flugvelli á Álftanesi og hefur þar verið ritað: „Nei, forsetinn býr þar.“ Sérstök staðarvalsnefnd á vegum flotans tók sér ferð á hendur til Íslands og kannaði aðstæður síðari hluta aprílmánaðar 1946. Auk hernaðarlegra atriða hafði nefndin þrjú meginatriði að leiðarljósi við tillögugerð sína.
a. Af pólitískum og diplómatískum ástæðum væri óæskilegt að reisa herstöðvar á höfuðborgarsvæðinu.
b. Sökum skorts á ræktarlandi væri æskilegt að halda sig við óræktuð svæði þar sem því yrði við komið.
c. Hátt verð á fasteignum mælti með því að valin væru svæði þar sem sem fæstar byggingar væru fyrir.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að flotastöðin skyldi rísa í Hvítanesi; sprengju- og skotfærageymslur fyrir herskipaflotann í Hvammsvík; olíustöðin skyldi vera á sama stað, en austan Hvítaness til vara; Fjarskiptastöð á Kjalarnesi, eða austan Hvítaness til vara; hafnarskrifstofa flotans í Reykjavík sem verið hafði á efstu hæð hafnarhússins á stríðsárunum, yrði best rekin þar áfram; flotaflugstöð og aðstaða öll fyrir flugvélar flotans skyldi vera á Keflavíkurflugvelli.

Hvítanes

Hvítanes – bryggjan.

Er skemmst frá því að segja að ofangreindar áætlanir Bandaríkjamanna komu aldrei til framkvæmda, enda kveðið á um brottför Bandaríkjahers í Keflavíkursamningnum sem undirritaður var 8. október 1946.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – olíustöðin (nú Hvalstöðin).

Er Bandaríkjafloti tók aftur við olíustöðinni í Hvalfirði af Bretum sumarið 1945 hætti Shell olíufélagið breska rekstrinum og við tók bandaríska félagið Standard Oil (ESSO) í gegn um umboðsaðila sinn hér á landi, Hið íslenska steinolíufélag. Sameinuðu þar krafta sína smæsta íslenska olíufélagið og stærsta olíufélag í heimi. Daglegur rekstur stöðvarinnar var áfram í höndum íslenskra starfsmanna. Olíufélagið hf. sem stofnað var vorið 1946 keypti þá um haustið meirihlutann í Hinu íslenska steinolíufélagi, en það félag hafði þá tekið við eldsneytisafgreiðslu á flugvélar á Keflavíkurflugvelli.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – bryggja olíustöðvarinnar.

Við brottför Bandaríkjahers bauðst stóru olíufélögunum Olíuverslun Íslands og Skeljungi að kaupa olíustöðina í Hvalfirði. Að könnun lokinni var það niðurstaða beggja félaganna að stöðin mundi ekki henta fyrir starfsemi þeirra, enda áttu bæði félögin aðstöðu í Reykjavík. Olíufélaginu var þá boðin stöðin til kaups, en félagið átti ekkert umtalsvert geymarými og þótti henta að kaupa stöðina og reka hana a.m.k. þar til nýrri og fullkomnari aðstöðu yrði komið upp annarsstaðar. Er hér var komið höfðu bæði Hvalur hf., sem þá var nýstofnað fyrirtæki til hvalveiða, og Félag íslenskra botnvörpuskipaeigenda sýnt áhuga á að eignast aðstöðuna. Fjöldi nýsköpunartogara var í smíðum og brenndu langflestir svartolíu sem ekki var neitt geymarými fyrir á útgerðarstöðum þeirra. Samdist svo með togaraeigendum og Olíufélaginu, en meðal þeirra er stóðu að stofnun félagsins voru allmargir útvegsmenn, að hinir fyrrnefndu afsöluðu sér tilkalli til kaupa á olíustöðinni eða hluta hennar ef Olíufélagið fengi hana keypta og félagið skyldi sjá útgerðum hinna nýju skipa fyrir brennsluolíu á hagkvæmu verði. Sóttu togarar olíu í stöðina í Hvalfirði allt fram yfir 1950 og þaðan var olíuvörum lengi dreift út um landið. Með kaupum á stöðinni varð fyrst grundvöllur fyrir kaupum á stórum olíuförmum til landsins sem voru miklu hagkvæmari viðskipti en áður höfðu tíðkast.

Hernám

Herspítalahverfi Breta umhverfis Gamla-Garð. Spítalinn rúmaði 200 sjúklinga og 130 starfsmenn.

Við Nefnd setuliðsviðskipta samdist svo vorið 1947 að Oíufélagið og Hvalur keyptu stöðina og skiptu félögin með sér bryggjunni, vatnsveitu, legufærum o.fl., en önnur mannvirki tilheyrðu hvoru félagi um sig. Var mikið af tækjabúnaði stöðvarinnar, sem ekki nýttist félögunum tveimur, selt öðrum, þ. á m. lítið olíuskip af þeirri gerð sem Bandaríkjafloti notaði til flutninga í höfnum og á skipalægjum, sem lá þar með bilaða vél. Gert var við skipið og því gefið nafnið Þyrill. Fékk Skipaútgerð ríkisins Þyril til afnota og var skipið í olíuflutningum innanlands næstu tvo áratugina og síðar, m.a. í síldarflutningum til ársins 1970 er það var selt úr landi.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – skipalest Nato 2022 til að minnast atburða Seinni heimstyrjaldarinnar.

Er Bandaríkjaher kom aftur til landsins árið 1951 má segja að olíustöðin á Söndum hafi gengið í endurnýjun lífdaga. Varnarliðið þarfnaðist mikils geymarýmis fyrir eldsneytisbirgðir sínar, en samið var um leigu á megninu af geymarými stöðvarinnar fyrir eldsneyti á flugvélar og herskip. Mikill hluti birgðanna í Hvalfirði voru reyndar varabirgðir, einkum fyrir Bandaríkjaflota. Auk þess var þar geymt allt flugvélaeldsneyti Varnarliðsins og það flutt í smærri skömmtum sjóleiðina til Keflavíkur eftir því sem gekk á birgðirnar þar. Var þessi háttur hafður á allt til ársins 1990, er ný olíubirgðastöð Varnarliðsins og NATO í Helguvík var komin í notkun.
Með komu Varnarliðsins var herlið á ný staðsett í Hvalfirði. Reis lítið braggahverfi á ásnum vestan Miðsands þar sem dvöldu rúmlega 100 liðsmenn landhersins og önnuðust gæslu olíubirgðastöðvarinnar. Stöðin var nú rekin af sérstöku dótturfyrirtæki Olíufélagsins, Olíustöðinni í Hvalfirði hf., sem stofnað var í því skyni. Landherinn hvarf að mestu af landinu árið 1959 og liðsmenn hans í Hvalfirði síðastir í janúar árið eftir. Önnuðust herlögreglumenn flughersins gæslustörfin uns landgönguliðar flotans tóku við sumarið 1961.

Olíubirgðastöð Atlantshafsbandalagsins

Hernám

Orrustuskipið Prince of Wales liggur við festar í Hvalfirði þar sem það bíður meðan forsætisráðherrann bregður sér til Reykjavíkur og nágrennis. Í baksýn er Akrafjall. Í nóvember þetta sama ár, aðeins um fjórum mánuðum eftir að þessi mynd var tekin, sökktu japanskar flugvélar skipinu í Suður-Kínahafi. Af áhöfninni fórust 327 menn.

Bandaríkjafloti tók við hlutverki flughersins við rekstur mannvirkja og þjónustu við Varnarliðið sumarið 1961 í samræmi við aukinn þátt flotans í vörnum á austanverðu Norður-Atlantshafi. Taldi Atlantshafsherstjórn NATO brýnt að tryggja að nægar birgðir eldsneytis væru til staðar í Hvalfirði.

Hvalfjörður

USS Mississippi og RN tunduspillir í Hvalfjirði 4. óctober 1941.

Var hafinn undirbúningur að endurnýjun geyma og lestunaraðstöðu ásamt lagningu legufæra í firðinum sem nýtast mættu herskipum Atlantshafsbandalagsríkjanna á ófriðartímum. Íslenskir aðalverktakar önnuðust framkvæmdir við nýju olíustöðina sem tekin var í notkun árið 1968. Framkvæmdum lauk að fullu árið eftir, en verkið var fjármagnað að mestu leyti af Mannvirkjasjóði NATO. Í stöðinni eru fjórir rúmlega 12.000 tonna svartolíugeymar sem grafnir voru niður í brekkuna upp af Gorvík vestan Miðsands, olíubryggja, dælu- og hitunarbúnaður auk húsnæðis fyrir rekstur stöðvarinnar.
Samkomulag varð um að Íslenskir aðalverktakar önnuðust rekstur nýju stöðvarinnar í samræmi við samning milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá árinu 1966 sem kvað á um að fyrirtækinu, sem sérhæfði sig í vinnu fyrir Varnarliðið, skyldu tryggð lágmarks verkefni er umsvif í varnarliðsverkefnum væru lítil. Þá tóku starfsmenn aðalverktaka einnig við gæslu olíubirgðanna og mannvirkja í Hvalfirði og leystu landgönguliðana af hólmi vorið 1967.

Hernám

Winston Churchill og Hermann Jónasson ganga hér um götur Reykjavíkur í heimsókn Churchill hingað til lands 16. ágúst 1941.

Hlutverk olíustöðvar NATO breyttist á öndverðum níunda áratugnum eftir að breytingar höfðu orðið á vélbúnaði herskipa. Eru flest herskip nú knúin dísilvélum eða þotuhreyflum sem krefjast léttara eldsneytis en svartolíunnar sem tankarnir voru upphaflega gerðir fyrir. Voru þeir tæmdir árið 1991 og endurnýjaðir og búnir til geymslu á léttari steinolíublöndu fyrir þotuhreyfla. Þessari framkvæmd lauk nýlega, en ekki liggur fyrir hvenær geymarnir verða fylltir að nýju.
Upphaflegt skálahverfi olíustöðvarinnar stendur enn að hluta á Miðsandi. Er það með heillegustu minjum um þau miklu umsvif sem voru í Hvalfirði og víðar á landinu á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Þar má sjá einstætt safn þeirra mismunandi braggategunda sem herlið bandamanna reisti yfir starfsemi sína, og hefur þeim verið vel við haldið, enda í fullri notkun fram á síðari ár.
Minjar um mannvirki og veru hernámsliðsins á stríðsárunum sáust lengi vel víða, en það voru ekki aðeins braggarnir sem hurfu, heldur hafa aðrar minjar smám saman verið að mást út.

Braggar

Braggi  og dátar á stríðsárunum.

Minjar um mannvirki og veru hernámsliðsins á stríðsárunum sáust lengi vel víða, en það voru ekki aðeins braggarnir sem hurfu, heldur hafa aðrar minjar smám saman verið að mást út. Hvalfjörður var mikilvægur frá hernaðarsjónarmiði og risu herstöðvar á Miðsandi að norðanverðu og á Hvítanesi að sunnanverðu. Þegar er ekið inn eftir Hvalfirði sunnanverðum og komið fram hjá Hvammsvík liggur vegurinn ofan við Hvítanes, sem hallar niður að firðinum, grasi vafið. Ofan frá þjóðveginum er þar ekkert sérstakt að sjá en útsýnið er fagurt frá þessum stað inn eftir Hvalfirði.

Hvalfjörður

Hvalfjörður – útsýni frá Hvítanesi.

Gegnt Hvítanesi skagar Þyrilsnes fram í fjörðinn og sundið á milli er aðeins hálfur annar kílómetri. Til austurs sést inn í Brynjudal, en fyrir suðrinu gnæfir Reynivallaháls. Á Hvítanesi var bújörð, en langt mun vera síðan hún fór í eyði.
Afleggjari liggur frá þjóðveginum niður eftir nesinu. Þegar þangð er komið má víða sjá hvar vegir hafa legið um nesið, en grasið sem víðast hvar er hnéhá beðja, hefur miskunnað sig yfir hinar smærri minjar. Eftir standa steinsteyptar tóftir uppi á nesinu og hálffallin, steinhlaðin hús niðri við bryggjuna sem enn hangir uppi. Það af henni sem stendur upp úr sjó er heillegast en sá hluti hennar sem alveg er uppi á ströndinni hefur molnað niður.

Heimildir:
-Fréttablaðið – Friðþór Eydal, Laugardagur 9. maí 2020.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/440784/
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/580576/

Hernám


George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943. Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld frá Ríkisútvarpinu.

Kjós

Tvö skilti eru við þjóðveginn ofan Hvítaness í Hvalfirði. Annað er um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ og hitt „Útsýni frá Hvítanesi„.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Á skiltinu um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ má lesa eftirfarandi texta: „Hvammsvík var miðstöð Bandaríkjaflota með skotfærageymslur herskipa og tómstundaheimili sjóliða. Í Hvammsey var tómstundaheimili fyrir sjómenn á kaupskipum. Þeir fengu ekki annað landgönguleyfi enda Hvalfjörður skipalægi en ekki viðkomuhöfn. Stjórnstöð á Hvammshöfða stýrði umferð skipa og úthlutaði legustöðum í firðinum. Skipalægi kaupskipa var utan við Hvammsvík.

Kjós

Hvammsvík á stríðsárunum.

Bækistöð Bandaríkjaflota, Falcon Camp, var í Hvammsvík (Falcon Landing). Bretar settu upp loftvarnabyssur og reistu skálahverfi í Hvammshólum sem Bandaríkjaher tók síðan við. Lengst til vinstri eru byssustæðin, þá íbúðarskálar og tómstundaheimili sjóliða, vöruskemmur og tómstundaheimili liðsforingja austast. Sunnan vegar stendur stjórnstöð skipalægisins á Hvammshól og skotfærageymslur flotans til hægri. Á Miðsandi og Litlasandi handan fjarðarins stóð stór eldsneytisbirgðastöð sem þjónaði skipum bandamanna og herliðinu á Íslandi.

Kjós

Hvítanes á stríðsárunum.

Hvítanes var bækistöð breska flotans. Á nesinu voru 250 byggingar; birgðageymslur, verkstæði, íbúðarskálar, spítali og annað til þjónustu við herskipaflotann, ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Einnig verkstæði til viðhalds kafbátagirðingar og tundurduflalagnar sem vernduðu skipalægið. Viðgerðar- og birgðaskip lágu innan við Hvítanes og önnuðust viðhald herskipa ásmat öflugri flotkví. Gat þar oft að líta stærstu bryndreka veraldar sem vernduðu skipalestir fyrir orrustuskipum þýska flotans í Noregi.

Kjós

Vagn frá Hvítanesi.

Akvegir og lítil járnbraut með flutningavögnum lágu um nesið og þar var rafstöð og götulýsing, vatnsveita, fjarvarmaveita og fráveitulögn. Stálbryggja var gerð til að landa netum og búnaði kafbátagirðingarinnar við Hvalfjarðareyri sem þarfnaðist stöðugs viðhalds. Skip voru einnig afgreidd við bryggjuna en flutningabátar notuðu steinbryggju á vestanverðu nesinu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Hvalfjörður var mikilvæg flotabækistöð í síðari heimsstyrjöld. Kaupskip frá Bretlandi og Bandaríkjunum söfnuðust saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum um afar hættulega leið til rússneskra hafna. Þýskar könnunarflugvélar lögðu stöðugt leið sína með ströndum landsins en bandarískar orrustuflugvélar grönduðu fjórum þeirra í grennd við Hvalfjörð. Bandaenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann á Atlantshafi 1943. Síðasta herliðið yfirgaf bækistöðvar sínar í stríðslok og var tundurduflagirðingu við Hálsnes eytt með sprengingu en kafbátagirðingu við Hvalfjarðareyri sökkt í fjörðinn.“

Á skiltinu „Útsýni frá Hvítanesi“ er eftirfarandi texti: „

1. Hvammsvík

Kjós

Hvammsvík – skipalægi.

Í Hvammsvík fæddist Loftur Guðmundsson (1892-1952) ljósmyndari. Hann gerði fyrstu íslensku talmyndina, Milli fjalls og fjöru, sem var m.a. tekin upp í Kjós á 5. áratug 20. aldar. Myndin var frumsýnd árið 1949.

2. Saurbær

Kirkjustaður og prestsetur, kunnast af dvöl sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar (1614-1674), en hann var prestur og orti Passíusálmana. Hallgrímskirkja í Saurbæ er helguð minningu séra Hallgríms.

3. Ferstikla

Kjós

Útsýni yfir Hvalfjörð frá Hvítanesi.

Landnámsjörð. Fjórir af fimm tindum Botnssúla sjást þaðan og er talið að nafnið sé dregið af því. Þar dvaldi séra Hallgrímur Pétursson síðustu æviárin og andaðist þar.

4. Miðsandur

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin á Miðsandi.

Bandaríkjamenn reistu olíubirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands í síðari heimsstyrjöld. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða. Stöðin var starfrækt áratugum saman í þágu varnarliðsins ásamt hvalstöð sem hóf rekstur árið 1948 og var árið 2009 aftur í rekstri eftir 20 ára hlé. Þarna er enn braggahverfi frá því í heimsstyrjöldinni síðari.

5. Geirshólmi

Kjós

Geirshólmi í Hvalfirði.

Kletthólmi sem segir í harðar sögu Grímkelssonar að ránsmannahópur undir forystu Harðar Grímkelssonar hafi dvalist um skeið. Byggðamenn hafi síðan ginnt Hólmverja í land með loforðum um sættir en svikið þá og fellt þá alla.
[Allir, sem í land komu að ráðum byggðamanna, voru felldir. En það voru allir er trúðu loforðum þeirra.]

6. Þyrill

Þyrill

Þyrill í Hvalfirði.

Sérkennilegt hömrum girt basaltfjall, 399 m. Þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Í fjallið er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að helga Jarlsdóttir hafi klifið upp með syni sína á flóttanum eftir víg Hólmverja þegar hún hafi synt með þá til lands úr Geirshólma. Undir fjallinu er samnefndur bær er kemur við harðar sögu. Í Þyrilsklifi er unnið líparít til sementsgerðar.

7. Botnsá

Botnsá

Botnsá.

Í Botnsá er fossinn Glymur, um 200 m, hæsti foss landsins. Þar eru vinsælar gönguleiðir. Við Botnsá eru sýslumörk Gullbringu- og Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu.

Á Hvítanesi má enn sjá mannvirki breska flotans frá umsvifum hans í Hvalfirðinum í seinni heimsstyrjöldinni. Umsvif hersins voru mikil í Hvalfirði og höfðu í för með sér mikla röskun á lífi fólks í nágrenninu. Sumir fengu vinnu hjá hernum. Innan við Hvítanes eru leifar af tröppum sem gerðar voru þegar Winston Churchill kom til landsins árið 1941. Mannvirki hersins voru rifin að loknu hernámi.“

Hvítanes

Hvítanes – leifar hernaðarmannvirkjanna.

Reyndar voru ekki öll mannvirki hersins rifin, þau voru flest fjarlægð til þjóðþrifa og notuð til útihúsa, fjósa, geymsla, verkstæða og jafnvel mannabústaða víðs vegar um land. Eftir stóðu hlaðin hús, sem síðan hafa ýmist verið rifin með stórvirkum vinnuvélum eða verið látin drabbast niður þar sem tímans tönn hefur náð að jafna þau við jörðu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Ingunnarstaðasel

Eftirfarandi upplýsingar má lesa í „Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot.

Reynivellir
Reynivellir
Beneficial. 30 hdr. 1847. „Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.“ JJ, 100 (nmgr.) Staður, dýrleiki ekki gefin upp 1705 vegna þess að þá var jörðin í eyði eftir snjóflóð sem féll um 1699. Þá var henni skipt upp í 3 býli, Nýjabæ, Austurkot og Vesturkot sem öll voru í byggð.
Kirkjunnar á Reynivöllum er fyrst getið í máldaga Ingunnarstaðakirkju og kirkjunnar í Eyjum: [1180]: „ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,“ DI I, 266.
[1180]: „Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reynevollom;“ DI I, 267. c. 1200: „veisla ger mót Páli bp á yfirreið,“ Biskupasögur I, 340.
1200: Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls biksups. DI XII, 9. Í máldaga kirkjunnar frá 1352 segir: „a kirkian. allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. kiosar sker. fiogara tiga sauda beit j mula lannd. lamba hofnn j eilyfsdal. ellefu tigum. ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. er annar kastar skurdur j eyiarlannd. þridie til valldastada. xij rossa beit j þufu lannd. vj j eyrar lannd.“ DI III, 70-71. Næsti máldagi kirkjunnar sem varðveist hefur er frá um 1367: „xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann.“ DI III, 219. Í Vilcinsbók frá því um 1397 segir: „a heimaland allt. Sornsland. þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnada.“ DI IV, 116-117. Í mádlaga Eyjakirkju frá 1397 segir: „[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. paskadag oc kyndilmessv.“ DI IV, 116. Í máldaga Ingunnarstaðakrikju frá því 1397 segir: „ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia,“ DI IV 118. Í máldaga kirkjunnar frá því um 1478 segir: „Mariukirkia a reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. þridiunng j laxfosse. siofarfoss allann. kiosarsker. bollstædijnngahyl. ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. kastar skurd j vinndas lannd. annan j þorlaksstada lannd. þ[ridia] j ualldastada lannd. tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. xij hrossa beit a veturinn j þufu land. vj hrossa beit [j] eyrar lannd.“ DI VI, 178-79. 1486: Bréf um kirkjuna. DI VI, 586-87. 1575: Máldagi kirkjunnar. DI XV, 632-633. 1847: „Jarðabækurnar nefna bæði Vesturkot og Austurkot.“ JJ, 100 (nmgr.). Einnig var um tíma búið á Reynivallaseli og á Gerði en þar var byggt timburhús yfir vinnumann um 1930.
1705: „Túnin eru stórlega fordjörfuð, þau eru sjálum heimastaðnum fylgdu, og mikinn part eyðilögð, og er jafnan voði fyrir meiri skaða, so að ekki dirfast menn bygð að setja í hinu forna bæjarstæi síðan snjóflóð 1699 yfirfjell staðinn, braut hús, deyddi prestinn og 6 manneskjur aðrar, en beinbraut og limlesti þá, sem þó urðu með stórerfiði úr snjóflóðarústunum með mannsöfnuð upp mokaðir og náðust lífs, en þó að bana komnir. Engið, sem þó er bæði gott og mikið, skemmir stundum Laxá með grjóti og aur, þar með eru foruð á engjavegi, so að ekki verður tilsókt nema brúkað sje. Landþröngt er, so að ábúendur verða engið að beita, því að heimahagar eru mikinn part fordjarfaðir af skriðum.“ JÁM III, 425. 1847: „Hve mikinn fénað prestsetrið Reynivellir framfæri, skýrir prestur eigi frá, en segir, að 5 kúg. fylgi heimajörðunni, og að túnið sé undirorpið skemmdum af snjóflóðum og aurskriðum, ef eigi árlega er við gjört með mannafla og kostnaði. Staðurinn á rétt til móskurðar og skóg til kola á Vindási, svo og skógarreit í Reynivallatúngum í Skoradal, en óvist var (1839) hvort hann á laxveiði í Laxá, sem eigi heldur í mörg undanfarin ár hefir verið notuð.“ JJ,

Reynivellir (eldri bær)

Reynivellir

Reynivellir.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir m.a.: „Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldreiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar ríðir fluttar. Er í staðinu þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja, gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.“ Elsti bærinn á Reynivöllum var nálega 30 m ofan við gömlu kirkjuna fast norðaustan við kirkjugarðsvegginn. Snjóflóð féll á bæinn 1699 og eftir það var hann fluttur um 200 m til SSA um 50 m neðan og VSV við núverandi íbúðarhús. Bærinn var á lágum, grasigrónum og grýttum hæðarrana norðaustan við kirkjugarðinn sem hallar um 5° í suðvestur. Lækur rennur rétt norðvestan við hólinn og kirkjugarðinn. Ofan við hæðina tekur við grasigróin brött brekka svo að bærinn hefur verið efst í heimatúni. Í Kjósarmenn segir m.a.:“… segir Fitjaannáll þannig frá þeim atburði [snjóflóði 1699], og getur jafnframt síra Odds: „Þann 15. janúar (1699), sem var sunnudagskvöldið fyrsta í þorra, eftir húslestur, skeði það voveiflega og hryggilega tilfelli á Reynivöllum í Kjós, að snjóflóð hljóp á staðinn og tók öll hús nema kirkjuna, smiðjuna og fjósið.[…] Síðan hefur sjálfur heimastaðurinn ekki verið uppbyggður, heldur lítið nýbýli [Nýibær] skammt frá.“ Þar sem bærinn stóð er mjög þýft og grýtt en engar tóftir sjást. Greina má lága hæð norðaustan við kirkjugarðinn sem er um 40×40 m að flatarmáli en innan við 1 m á hæð.

Kirkjugarður (kirkja)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Reineveller, var beneficium og kirkjustaður. Er nú heimabærinn aldeiliss eyðilagður af snjóflóðum og skriðum, so ekkert bæjarhús stendur eftir. Kirkjan og kirkjugarðurinn stendur enn nú, þó í stórum háska, samt eru þar tíðir fluttar. Er í staðinn þessa beneficii er sóknarprestinum, sem nú er Sr. Torfi Halldórsson, af sál. Kóngi Friðrik 3ja gefin til bústaðar jörðin Vindás 1664.“ Kirkjan á Reynivöllum stóð áður inni í kirkjugarði, um 190 m NNV við nýja bæinn 003 en rétt suðvestan við elsta þekkta bæjarstæðið á Reynivöllum. Kirkjan, sem byggð var 1859 (004), var færð úr garðinum (fyrir 1917), í um 100 m til suðausturs þar sem hún stendur nú. Garðurinn og kirkjan snúa bæði VNV-ASA eða samsíða dalnum. Garðurinn er í aflíðandi halla til suðurs. Hann er stór og í honum fjöldamargar grafir. Garðurinn hefur greinilega verið stækkaður til suðurs og líklega til vesturs líka. Vírgirðing er umhverfis garðinn. Að norðan (norðaustan) er steinsteyptur kirkjugarðsveggur en að austan (suðaustan) þar sem aðkoman er að garðinum er grjóthlaðinn garður sem greinilega hefur nýverið verið endurhlaðinn. Garðurinn er nú (2003) um 55 X 60 m að stærð. Merki fjölmargra grafa sjást þó garðurinn hafi verið sléttaður að hluta. Elstu merktu leiðin eru frá því snemma á 19. öld en örfá ómerkt leiði sjást. Mikið hefur verið gróðursett í garðinn af ösp, birki og greni. Ekki er mjög greinilegt hvar kirkjan stóð en auður blettur er þó í garðinum, nálega í miðjum gamla garðinum. Er líklegast að kirkjan hafi verið þar. Bletturinn er um 15 m sunnan við við norðurhlið en 20-30 m vestan við austurhlið. Snemma á 20. öld lá leiðin heim að bænum fast neðan við kirkjugarð og kirkju en rétt ofan við bæ. Vegurinn lá áður um Kirkjustíg. Kirkjustígur byrjaði „vestur við Kipp á Hjallholti [sem er holtið upp af kirkjunni] heldur smáhækkandi, rétt austur að Þinghúsgili, er síðar getur. Síðan aftur til baka og áfram í
krókum,“ segir í örnefnaskrá. REYNIVELLIR Í KJÓS (K) -Maríu [1180]: „ef enginn fæsc prestr. [á Ingunnarstöðum] Þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til Þessa kaups ef Þeir vilia,“ Máld DI I 266 [Ingunnarstaða]. [1180]: „Mariu kirkia i Eyivm … Þar scal syngia annan hvarn dag loghelgan af reyne vollom,“ Máld DI I 267 [Eyja]. C. 1200: „veisla ger mót Páli bp á yfirreið,“ Jarteinabók 1200, Bsk I, 340. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 9. 1352: „Anno domini M°. Ccc°. L°. Secundo a þridia are biskups doms virduligs herra gyrdiz med gudz näd biskups j skalhollte so sem hann kom a[t] reynevollum j sinni visitacione reiknadist suo mikid gotz þad er kirkian ätte. Jnn primis vij manna klædi med hoklum. Iij kalekar. Þriar kanntara kapur. Ein med pell. Avnnur ed lynvef. Þridia med salun. Vj. Anntependia til vtalltara. Fimm anntependia til haalltaris. Vj. Alltarisdukar. Iiij. Sloppar. Tabulum fyrir alltare oc brijk medur. Smelltur kross oc skrijn. Glodarker. Baksturjarn. Glodaker elldbere. Vijgdz vatz ketill. Iij kerttistikur. Ein ampulla. Ein sacrarij munnlog. Tiolld vmhuerfi kirkiu. Og ad auk steintialld oc hrijnnga refil. Eitt fonntklædi oc skirnarsär. Mariu skript oc nicholas skript og gRadulae cum sequencijs. Iij lesbækur j are per anne circulum de sanctis oc de tempore. Songbokur per anni circulum tuær Euanngeliorum. Martyrjlogium. Capituliarius oc enn nockrar fornar bækur þær sem litit skolu. Fiorar samhrijngiur. Ij smaklockur oc ein vtiklocka. A kirkian. Allt heima lannd og eina vtjord er heitir j sornne. Þridiung j laxafossi oc særliga siovarfoss. Bollstædijnnga hyl. Kiosar sker. Fiogara tiga sauda beit j mula lannd. Lamba hofnn j eilyfsdal. Ellefu tigum. Ij manada beit gomlum saudum j sanndfellz hlijd oc skiolgard j vinndaslanndi oc kastar skurdur. Er annar kastar skurdur j eyiarlannd. Þridie til valldastada. Xij rossa beit j þufu lannd. Vj j eyrar lannd. Seautian kyr. Xij ær. Viij ross. Ij hundrat j metfie. Ij hunndrad j vidum. Fiordung vax. Ij presta skylld og diakns.“ Máld DI III, 70-71.
[1367]: „xliv. Mariukirkia a Reynevollum a heimaland alltt Sornns land. Þridiung j laxfoss. Sioarfoss allann les Vilchinzbok þui þetta ber samann,“ Hítardalsbók, DI III, 219.
1397: „a heimaland allt. Sornsland. Þridiung j Laxfossi. Siofarfos allann. Kiosarskier. Bollstædingahylur. Tuær skogartoptter j Skoradal oc ein j Svijnadal [+kastarskurði, beit, sauðahöfn, skjól í helli, lambarekstur, hrossabeit] er aa Þessu fie tveggia presta skylld og diakns. Portio medann sira Finnur hiellt halftt atta hundrad. Enn medann sira Vigfus hiellt ccc. Oc xiiij aurar. Jtem hefur sira Finnur lagtt til kirkiunnar halft Þridia hundrad,“ Máld DI IV, 116-117.
1397: „[til Eyja] skal syngia annann hvern dag loghelgann af Reynivollumm. Paskadag oc kyndilmessv. Þar skal lvkast c presti,“. Máld DI IV, 116 [Eyja]. 1397: „ef ei fæst prestur. [á Ingunnarstöðum] Þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef Þeir vilia.“ Máld DI IV, 118 [2 merkur, Ingunnarstaða]. [1478]: „Reyniveller j kios. Mariukirkia a
reynivollum j kios a heimalannd allt sornns lannd. Þridiunng j laxfosse. Siofarfoss allann. Kiosarsker. Bollstædijnngahyl. Ij skogartopter j skoradal oc eina j suijnadal. Kastar skurd j vinndas lannd. Annan j þorlaksstada lannd. Þ[ridia] j ualldastada lannd. Tueggia manada beit aullu saudfee a ve[tur]inn j sandfellzhlijd oc skiolgard j vinndaslannd. Xl sauda hofnn j mula fiall oc skiol j mariuhelle oc scal sa telia epter hueria hrijd sem byr ä mula. Lammba beit j lammbatungur j eileifsdal. Xij hrossa beit a veturinn j þufu land. Vj hrossa beit [j] eyrar lannd. Jtem þetta a hun jnnan sig et cetera. Jtem fiorar merkur vax. Jtem vij kyr oc eina kuijgu tuæuetra. Ix ær oc hrut tuæuetrann. Ij hesta er uoru metnir fyrir iij merkur bäder samann. Ij sænngur lettar. Halfa þridiu vod. Einn pott heilann oc annan brotinn. Eina munnlog sterka. Viij fiordunnga ketil oc annann vonndann. Eitt tinfat. Iij trefot.“ Máld., DI VI, 178-79 [Þjsks Bps A II, 1, bl. 121a-b – vitnað er í þannan máld. Í virðingargerð frá 2.11.1486 og mun hann því vera frá seinni hl. 15 aldar]. 2.11.1486: „Bref wm kirkiugiord aa Reyneuollum. Þath giorer ek arne prestr snæbiarnarson officialis heilagrar skalholltzkirkiu j mille huitar j borgarfirde ok helkunduheidar skalholltzbiskupsdæmis godum monnum viturligt med þessu minu opnv brefi at þa er ek reid j mitt profastdæme nidri wm gullbringu kom fyrir mik sira nikulas arnason sem þa hellt Reynevallar stad j kios. Beiddj hann mic ok krafdj vpp aa laganna vegna at sia ar at kirkiunne ok stadnum er hann villdj standa
sinne kirkiu reikninigsskp. Kalladj ek til med mier sex skælega menn presta ok leikmenn. Hafdj hann latid giora kirkiuna ok stadinn þa hann tok med. Var þa kirkia giord fyrir þriu hundrut. Enn stadurinn fyrir fimm hundrut. Jtem giordum vjer þa kirkiuna fyrir tuttugu hundrut enn stadinn fyrir fimtan hundrut. Atti kirkian at vera med golfi ok beckium. Ok aull vnder hellu. Fell þa aptur seytian hundrut fyrir kirkiubota. Enn tiu hundrut fyrir stadarbota. Hier med lagdj adrgreindur sira nikulas kirkiunne. Tiu hundrut j bokum ok messuklædum. Jtem stod þa epter j porcio ok mortuaria tuttugu hundrut. Var fyrgreindr sira nikulas hier med aullungis kvittur wm allan fornan reikningsskap kirkiunnar aa Reyneuollum fra þui er hann tok stadinn ok framan til þess sem þa war komet. Skylldj þesse fyrr greind tuttugu hundrut leggiazt kirkiunne til jnnstædu æfinlega hier epter þui hun var litil adr. Skylldj þesse tuttugu hundrut lukazt j suo uordnum peningvm. Tiu malnytu kugilldi ok tiu hundrut j aullvm þarfligvm peningum fridvirtvm. Jtem var adr gomul jnnstæda vij kyr ok tuæutur kuiga milk. Ix ær tuæuetur hrutur ok .ij. Hestar firir iij. Merkr bader ok þath at auk sem skrifath stendr jnnan gatta. Ok til sannennda hier vm settj ek officialatus jnscigle fyrir þetta bref skrifath aa Reyneuollum j kios fimtudaginn næsta epter festum sanctorum omnium anno dominj. M°. Cd° lxxx° sexto.“ Virðing DI VI, 586-87 [Þjsks Bps Fasc. XII, 1, frumrit á skinni; AM Apogr. 2442]. 1575: Máld DI XV, 632-633. 26.2.1880:
Saurbæjarsókn lögð undir Reynivelli; (PP, 112) [lög].

Gíslagata (leið)

Gíslagata

Gíslagata.

„Deplhálsar eru hæðir neðst í brekkunum. Þar vestur af er dalur, sem heitir Borgardalur, og austur við þann dal er klapparholt, sem heitir Gíslholt. Það holt er alveg á merkjum. Upp af holtinu er Gíslagata, og Gíslalækjardrög eru þar uppi á hálsi ofan við brúnir. Þaðan kemur Gíslalækurinn, sem er á merkjum,“ segir í örnefnaskrá. Í Árbók ferðafélagsins frá árinu 1985 í grein eftir séra Gunnar Kristjánsson segir: „Önnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til
norðurs yfir Hálsinn.“ Gíslagata lá upp á Reynivallaháls í norðaustur upp með Gíslholti og meðfram Gíslalæk á landamerkjum milli Reynivalla og Vindáss GK-347 um 2,2 km suðaustan við bæ 003. Gatan er ennþá mjög greinileg á hálsinum. Á þessu svæði niðri á jafnsléttu er skógræktargirðing og malarvegur. Hlíðar Reynivallaháls eru þarna lítt grónar og grýttar. Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg 356:026 ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt.

Seljadalur/Reynivallasel

Reynivallasel

Reynivallasel.

„[Björn Erlendsson] … Byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921. Kjósarmenn, 195-196. „Neðan við Brattafell eru Selflatir. Þar var sel áður fyrr og sá enn fyrir tóftum, þar til aurskriða lagði þær undir fyrir nokkrum árum. Sel þetta er rúmlega 2 km. Frá bænum. Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel.“ Ö-Hækingsdalur, 9. „Þar var byggður lítill bær og fjenaðarhús … Er á Seljadal ágætt sauðfjárland, mýraflói og lyng og furðu hagsælt. Lítið tún var ræktað umhverfis þetta býli.“

Reynivallasel (sel)

Reynivallasel

Reynivallassel í Seljadal – uppdráttur ÓSÁ.

„Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,“ segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í bókinni Kjósarmenn segir svo: „[Björn Erlendsson] … byggði nýbýli í Seljadal, í gömlum seltóftum frá Reynivöllum, og
nefndist bærinn þá Reynivallasel. Þar bjó Björn 1861-1878. … Seljadalur stóð óbyggður 1880-97. … Ekki mun hafa verið búið í Seljadal síðan … 1921.“ Bærinn Reynivallasel er í Seljadal um 4,7 km ASA við Reynivelli og um 2,8 km SSA við Fossá, í litlu dalverpi um 1 km SSA við mynni Seljadals og um 400 m austan við Seljadalsá við suðvesturrætur Hornafells.
Seljadalur er um 2 km langur, 0,5-1 km breiður og snýr norður-suður. Gengið er inn í dalinn að norðanverðu úr Fossárdal upp nokkuð brattar grasigrónar brekkur sem halla í 10-45° til norður. Seljadalur er vel grasigróinn og þýfður en á köflum er dalurinn nokkuð deigur á bökkum Seljadalsár, sérstaklega í dalnum vestanverðum. Seljadalsá liggur norður-suður um miðjan dalinn. Umfangsmiklar hálfgrónar skriður eru í dalnum austanverðum undir Hornafelli um 400 m sunnan við bæjarstæðið í Seljadal. Einnig var hægt að ganga yfir í dalinn miðjan að vestanverðu frá syðri landamerkjum Reynivalla um Gíslagötu. Umhverfis Reynivallaselsbæ er vel grasigróin þýfð brekka sem hallar í 5-20° til vesturs í norðvesturhlíð/rótum Hornafells.
Þegar gengið er inn í Seljadalinn að norðanverðu sést ekki til bæjarins fyrr en komið er 300-350 m inn í dalinn. Seljadalur er mjög grösugur en trúlega hefur ekki mikið verið gert af því að slétta tún á þeim tíma sem búið var í dalnum. Í svörum við spurningaskrá Þjóðháttadeildar segir: „Seljadalur dregur nafn sitt af seli sem var þar frá prestsetrinu á Reynivöllum. Tóft sem er alveg að hverfa er það eina sem minnir á selið. … Selið í Seljadal var byggt upp aftur að einhverju leyti því að í því var búið í nokkur ár, líklega frá því um 1870. Föðurbróðir Hannesar [Guðbrandssonar í Hækingsdal f.1897] bjó þar síðastur manna til ársins 1921.“ Í Innsveitum Hvalfjarðar segir Kristján Jóhannsson um Reynivallasel: „Rústirnar eru allmiklar og ekki auðvelt að ráða í hvernig húsaskipan hefur verið … Útihúsarústir eru skammt frá bænum, ögn ofar. Rétt norðan við bæjarhólinn er réttin og er hún mjög fallin.“ Eins og áður var sagt er bæjarstæðið í litlu grasigrónu dalverpi á milli tveggja lækjargilja að norðan og sunnan sem eru 1-2 m djúp og 0,5-4 m á breidd. Svæðið sem flestar tóftirnar á er um 100 x 80 m að stærð, snýr austur-vestur og hallar í 5-20° til vesturs. Tóftirnar eru vel grasigrónar en hleðslur standa að mestu nokkuð hátt þó þær séu sannarlega víða mjög signar. Þrjár tóftir og tvær þústir voru skráðar á svæðinu. Norðan við nyrðra lækjargil eru svo tvær tóftir til viðbótar utan svæðis.

Sel

Hækingsdalssel

Hækingsdalssel.

„Hannes [Guðbrandsson í Hækingsdal f.1897] getur sér til þess að áður hafi Hækingsdalur haft sel í Seljadal, enda eiga Hækingsdalsbændur þar land. Þar var Reynivallasel, en nafn dalsins gæti bent til þess að þar hafi verið fleiri sel,“ segir í örnefnaskrá Hækingsdals. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir um Vindás: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal.“ Falleg seltóft er innst í suðausturenda Seljadals á austurbakka Seljadalsár, um 1 km sunnan við Reynivallasel. Tóftin er um 3,3 km NNV við Hækingsdalsbæinn en aðeins um 900 m NNV við mót landamerkja milli Hækingsdals, Vindáss og Seljadals. Á þessu svæði er grasigróinn árbakki Seljadalsár. Tóftin er vestan undir 2-3 m háum hól, 2-4 m í austur frá ánni þar sem hún rennur niður í Seljadal að SSAverðu. Tóftin er þrískipt, um 15×5-10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggir tóftarinnar eru um 2 m á breidd, 0,4-1 m á hæð og mjög grasigrónir. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar.

Vesturkot
Hjáleiga Reynivalla, í byggð 1705: „Vesturkot, þriðja býli, gömul hjáleiga.
Dýrleikinn óviss, telst með heimastaðnum.“ JÁM III, 424. Byggð lögð niður árið 1877 samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Péturson (bls. 194). Á túnakorti Reynivalla frá 1917 stendur um Vesturkot: „Túnblettur, grýttur sumstaðar og raklendur, ekki notaður.“
„Skammt fyrir utan bæinn að Reynivöllum er gil á merkjum móti Sogni. Það heitir Kotagil. Þar inn af heitir Vesturkot. Þar var býli austur frá gilinu,“ segir í örnefnaskrá. „Kotin voru tvö, Vesturkot og Austurkot. Austurkot var nokkru austan við Reynivelli. Það fór úr byggð fyrir aldamót. Vesturkot var fyrst nefnt Sólbrekka,“ segir í athugasemdum og viðbótum við örnefnaskrá. Í bókinni Kjósarmenn segir um kotið: „Arnór Björnsson og fyrri kona hans Lilja Jónsdóttir tóku við búi í Vesturkoti af móður Lilju, og bjuggu þar 1857-1877, voru þau síðustu húsráðendur í Vesturkoti, við brottför þeirra var kotið lagt undir heimajörðina Reynivelli.“ Þar segir einnig: „Þessi bær var nefndur Sólbrekka 1753, en ekki hélzt það.“ Tóftir Vesturkots eru um 270 m NNV við Reynivelli, um 460 m NNV við Nýjabæ og um 95 m suðaustan við landamerkjagarð. Á þessu svæði er grasigróin, grýtt brekka sem hallar í 5-20° til suðvesturs, fast suðaustan við landamerki Sogns og Reynivalla. Í bókinni Ljósmyndir IIa eftir Halldór Jónsson kemur fram að um 1900 voru í Vesturkoti aðeins rústir af bæjarhúsum og léleg fjárhús ásamt heykumli. Túnbletturinn var sleginn af prestsetrinu en síðar notaður sem kúahagi. Svæðið sem Vesturkotstóftir ná yfir er um 35×25 m stórt og snýr norðaustursuðvestur. Bæjarstæðið er mjög sigið og illa farið vegna ágangs búpenings en þó grasigróið. Bæjartóftin er um 22×17 m stór og snýr norðaustur-suðvestur. Veggir eru grjót- og torfhlaðnir, 0,4-1,5 m á hæð og 2-5 m á breidd. Grjóthleðslur eru signar en greinilegar.

Sogn
Sogn
1705: 12 hdr. 1705, Reynivallakirkjueign. JÁM III, 426. 1352, [1367] 1397 [1478]: Jörðin eign Reynivallakirkju. DI III, 70-71, DI III, 219, DI IV, 116-117, DI VI, 178-79.
Árið 1705 er jörðin nefnd Sofn eða Sogn, 1840 Sorn en 1847 Sogn. Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255. 1705: „Tún eru lítil og fordjarfast mjög af skriðum. Engið er gott en ærið votlent mikinn part og forað yfir að sækja, sem brúka þarf.“ JÁM III, 426. 1840: „… heflir lítið tún og veitiland, en engi mikið á Laxárbökkum, vantar mótak …“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu og Kjósarsýslu, 255.
Bærinn Sogn er við rætur Reynivallaháls, um 400 m ASA við Valdastaði og um 1,4 km VNV við Reynivelli. Á þessu svæði er núverandi íbúðarhús byggt 1946, sléttað malarplan, gamalt steinsteypt fjós og stór barrtrjáreitur við norðvesturhorn fjóssins. Fast framan og SSV við malarplanið er brekka með lauf- og barrtrjálundi og malbikaðri heimreið heim að bænum. Brekkunni hallar í 5-10° til SSV. Bæjarlækurinn er enn á sínum stað og rennur hann til SSV vestan við bæ en ábúendur hafa þó breytt rennsli hans neðan við gamla bæjarstæðið en þar rennur hann nú áfram í SSV í stað þess að beygja í SSA eins og sést á túnakorti frá 1917. Samkvæmt Snorra Ö. Hilmarssyni bónda á Sogni voru öll þau tré sem nú standa á bæjarstæðinu gróðursett árið 1991. Á heimasíðu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands er að finna almennar upplýsingar um Sogn í Kjós og ljósmynd af bænum frá því um 1918.

Heimildamaður er Ingunn Þormar f.21.11.1921 en hún var í sveit að Sogni á sumrin frá 1926-1931. Þá var tvíbýli að Sogni. Þar segir m.a.: „Ekki er vitað hvenær bærinn var byggður en hann var rifinn um 1935 og steinhús byggt í staðinn. … [Torfbær á ljósmynd frá 1918 og á túnakorti frá 1917:] Frá hægri: 1. Geymsla fyrir reiðtygi, ljái og allar þurrar vörur en áður fyrr bjuggu þarna foreldrar Gróu [Guðlaugsdóttur] og Jakobs [Guðlaugssonar]. 2. Inngangur. Ef farið var strax til hægri var gengið inn í geymsluna þar sem foreldrar Gróu [Ragnhildur Guðmundsdóttir og Guðlaugur Jakobsson] bjuggu áður. Innar voru hins vegar 3 tröppur og þar til hægri var herbergið þar sem Ragnhildur [Guðmundsdóttir], móðir Gróu, bjó nú en til vinstri var gengið inn í baðstofuna. 3. Þarna var búr og inn af því eldhús. Innar var síðan baðstofan þar sem heimilisfólkið bjó gisti [svo]. Í baðstofunni voru 4 rúm, 2 sitt hvoru megin. Oft var því tví- og þrímennt [svo] í hverju rúmi. 4. Smiðjan. Þar vann Jakob, se [svo] var járnsmiður, við að búa til skeifur og brýna ljái. 5. Geymslur fyrir Jakob, svipaðar þeim er Gróa og Sigurjón [Ingvarsson f. 29.10.1889] höfðu í húsinu lengst til hægri. 6. Steinhús [trúlega vestan við Bæjarlæk] þar sem Jakob bjó með fjölskyldu sinni. [Það sem ekki sést á ljósmynd:] Hægra megin við bæinn var fjósið [í bæjarröðinni samkvæmt túnakorti frá 1917], fjárhúsin [hugsanlega 008] voru vinstra megin en myndin er tekin fyrir framan hlöðuna [sjá 002]. … Segir Ingunn að allur fatnaður hafi verið skolaður úti við læk eftir að hafa verið þveginn inni í eldhúsi. Til að ná sem mestu vatni úr hverri flík voru þær lagðar á stein og spýtum slegið í fötin. Það var útikamar við bæinn [nákvæm staðsetning óþekkt] … Trégólf í baðstofunni en moldargólf annars staðar. Trégólfið var þvegið upp úr sandi. Vatn og sandur notað til að þvo gólfið, strigapoki notaður sem tuska. Bærinn var kyntur með taði og mó, … Sérstök kynding kom ekki í baðstofuna fyrr en 1928 þegar fyrsti ofninn kom þangað.“ Samkvæmt túnakorti hefur bæjarstæðið verið a.m.k um 50×50 m að stærði. Á þessu svæði var m.a. sjálf bæjarröðin sem virðist hafa verið um 30×15 m að flatarmáli og snéri VNV-ASA, hlaða, þrjú útihús (002-004) og kálgarður 021. Gengið var inn í bæ að sunnanverðu. Engin greinileg merki um gamla bæinn eða bæjarhól.

Sognssel (sel)

Sognsel

Sognsel.

„Úr Sandfellstjörn rennur Fossá. Vestan við hana, nokkru eftir að hún fellur úr tjörninni er Sognssel og eru rústir þess enn mjög greinilegar. Frá Sandfellstjörn gengur kvos til norðurs inn í Hryggi og heitir Hryggjardalur,“ segir í örnefnaskrá Bjarna Ólafssonar frá Króki. „Austan við tjörnina er Sandfellsflói, blautur og víðáttumikill, austan við tjörnina, en líklega heitir hitt öðru nafni. Þar var sel, sem heitir Sognssel. Það er nokkuð eftir að Fossá fellur úr Sandfellstjörn, og eru þar gamlar rústir,“ segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar. Sognsselstóft er um 1,6 km ANA við bæ 001, um 4,9 km suðaustan við Sogn 350:001 og um 250 m norðvestan við Sandfellstjörn. Seltóftin er fast utan í 2-4 m háu holti að suðvestan. Holtið er aflangt, um 250 m á lengd, um 150 m á breidd og snýr NNA-SSV. Hlíðar holtsins eru þýfðar og mosa-, grasi- og lyngigrónar en holtið er þó ógróið í toppinn. Sognsselstóft er fjórskipt, ferköntuð og grjóthlaðin. Hún er um 8 x 7 m stór og snýr NNA-SSV. Veggir tóftarinnar eru 1-2 m á breidd og 0,5-1,2 m á hæð en hleðslur eru víða nokkuð signar og grasi- og mosagrónar. Gengið var inn í tóftina á VNV-hlið gróflega fyrir miðju eða um 4 m frá
norðvesturhorni tóftar.

Hvítanes
Hvítanes
20 hdr. 1705. JÁM III, 435. 1585: Jörðin gefin í arf. Metin á 20 hdr. Jarðabréf, 18. Í eyði frá um 1942, í Hvítanesi byggði herinn mikið af byggingum, herskálahverfi o.fl. og lagðist jörðin því í eyði. Vígdrekar og Vopnagnýr, 69-76. Í bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson segir: „Jón Helgason og síðari kona hans Lára Þórhannesdóttir bjuggu í Hvítanesi 1933-1941, en hrökkluðust þaðan er jörðin var hernumin. Þar hefur ekki verið búið síðan.“ Kjósarmenn, 81. 1705: „Túnum og úthögum spillir fjallsskriða. Engjar eru nær öngvar, því skriður hafa mestan part eyðilagt þær litlar sem voru.“ JÁM III, 435. 1840: „… þar er stór tún, rammþýft. Engi lítið grasgott og lítið land til veitar – ekki óhult fyrir aurskriðum á túnið.“ SSGK, 255. Túnakort 1917: „Mest alt túnið sléttað, smáblettir og jaðrar þýfðir. Tún telst 5,9 t. (Mikil útgræðsla). Kálgarðar m2.“
„Kálgarður var austan við bæinn, en þegar byggt var, 1914, var gamli bærinn jafnaður við jörðu og gerður kálgarður þar; hann var þá vestan við bæinn. Snúrur voru framan við bæinn. Talið var vita á þurrk, þegar lét hátt í Glym í Botnsdal,“ segir í örnefnaskrá.
Í bókinni Ljósmyndir segir um Hvítanes: „Bætti Sveinbjörn [Einarsson, kemur 1907, fer 1921] mikið túnið í Hvítanesi, byggði þar lítinn steinbæ í stað baðstofunnar gömlu og stendur hann enn að mestu. … Var jörðin Hvítanes mjög notaleg jörð, túnin stór og grasgefin, en engjar litlar. Hafði túnið verið stórbætt á liðnum áratugum, byggð heyhlaða, votheyshlaða og allgóð fénaðarhús. Allt þetta mátti heita í góðu lagi, er herstjórnin tók jörðina til sinna umráða [árið 1941].“ Bæjarhóllinn á Hvítanesi er suðvestarlega á nesinu um 200 m norðan við Hvalfjarðarveg, um 3 km NNA við Reynivelli og um 2,5 km VNV við Fossá.
Hvítanes hefur verið í eyði síðan herinn yfirgaf Ísland eftir seinni heimstyrjöldina fyrir utan lítinn sumarbústað norðaustarlega á nesinu. Hvítanes er vel grasigróið, sérstaklega bæjarhóllinn, en brenninetlur eru búnar að breiða úr sér, sérstaklega á gömlum steingrunnum herskálanna. Landið hallar í um 5-20° til NNA. Á austan- og norðaustanverðu nesinu er láglent við sjóinn en að norðvestan og vestan hækkar landið mjög til suðvesturs. Þverhnípt er niður í sjó um 180 m vestan við bæinn.
Bæjarhóllinn á Hvítanesi virðist alveg óraskaður af hernum, a.m.k. í kring um bæinn sjálfan. Hóllinn er ekki mjög skýr en hægt er að greina óljósa 0,5-1,5 m háa hæð í landinu þar sem bæjarhúsin standa, á svæði sem er um 70 x 50 m stórt og snýr ASAVNV. Steinveggir yngsta íbúðarhúss 001B sem byggt var 1914 standa ennþá uppi illa farnir en þakið er horfið. Steypuklumpar sem liggja á víð og dreif inni og utan við íbúðarhúsið og gömlu útihúsin sýna að veggirnir eru smám saman að hrynja. Leifar skorsteins liggja í grasinu um 4 m norðvestan við rústir íbúðarhússins. Lítil op í hleðslu íbúðarhússins, neðst við jörðu gefa vísbendinu um að hugsanlega hafi verið kjallari undir húsinu. Útlínur kálgarðs 008 sjást ennþá en engin greinileg ummerki eru sjáanleg um gamla bæinn sem þar stóð áður. Steypan sem notuð var í að reisa yngsta húsið er mjög gróf og samsett úr fjörumöl, sandi og sementi. Veggirnir eru um 20 cm á breidd og 1,5-3 m hæð. Yngstu útihúsin voru einnig steinsteypt. Grunnur íbúðarhúss er 8×8 m að stærð. Gengið hefur verið inn bæinn að norðvestan. Fast norðvestan við húsið norðaustan við innganginn glittir í lágar grjóthleðslur sem eru trúlega leifar lítils timburskúrs, 4×4 m að stærð, sem sýndur er á túnakorti. Yngstu útihúsin eru um 2 m ANA við íbúðarhúsið, þau eru þrískipt og um 12×12 m að stærð. Þau hafa verið byggð eftir 1917 því þau eru ekki sýnd á túnakorti Hvítaness. Útihúsin voru steypt upp að norðvestanverðri útihústóft 004 sem búið var að hlaða 1917 því hún er sýnd á túnakorti. Hægt var að ganga inn í útihúsin bæði að norðaustan og suðvestan.

Þrándarstaðir
Þrándarstaðir
20 hdr. 1705. Bænhús var á jörðunni. JÁM III, 437-438. 1705 er nefnd nafnlaus eyðihjáleiga, í byggð um 1675-1700. Talin vera sama jörð og Þorbjarnarstaðir nefndir í Harðarsögu sem talin er rituð á fyrir hluta 13. aldar. ÍF XIII, xlix. Jörðin nefnd í dómabréfi 1509 vegna úrskurðar um eignarétt á henni. DI VIII, 284. Bændaeign. 20 hdr. 1847. „Prestur einn nefnir Þrándarstaði „neðri“ og „efri“. Skálholtsstóls hjálendan er talin í jarðabóks stólsins 13 2/3 h. að dýrleika.“ JJ, 101 (nmgr.). 1840: „… heyskapur er ekki mikill, en beitarland betra og útigangur nokkur.“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu, 254-255. Túnakort 1917: Tún 6,4 teigar, meira en 1/2 sléttað, garðar 1100 m2.
Bæjarhóllinn á Þrándarstöðum er að mestu óhreyfður. Hann er tæpum 200 m neðan (norðan) við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum. Grösugur hóll í sléttu túni. Hóllinn er stæðilegur. Síðustu leifar á honum voru nokkurra kálgarða en úr þeim hefur verið sléttað. Ryðja átti úr hólnum á síðari hluta 20. aldar en hætt var við það vegna þeirra minja sem þar kynnu að leynast. Þó var aðeins rutt úr austurhlið hans og jafnvel örlítið að sunnan. Norður- og austurhlið eru mun brattari heldur en aðrar hliðar. Samtals er bæjarhóllinn 40×30 m stór og er 2-3 m á hæð þar sem hann er hæstur. Dældir eru í hólnum en ekki sér móta fyrir neinum tóftum. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og allur húsakostur illa þekkt.

Bænhús
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir: „Þrandarstader. Hjer hefur til forna bænhús verið, og heitir þar enn nú Bænhústóft í túninu. Enginn minnist sá, sem nú er á lífi, nær það hafi eyðilagst.“ Ekkert er nú (2006) vitað um staðsetningu bænhúss á Þrándarstöðum en líklega hefur það verið nálægt gamla bænum á bæjarhólnum. Bæjarhóllinn er um 200 m norðan við núverandi íbúðarhús á Þrándarstöðum.

Efri-Þrándarstaðir
Nálega mitt á milli núverandi íbúðarhúss á Þrándarstöðum og bæjarhólsins var bærinn á EfriÞrándarstöðum þegar tvíbýlt var á jörðinni. Bæjarstæðið er um 80 m sunnan við bæjarhól 001 og um 110 m norðan við núverandi íbúðarhús.
Bæjarstæði Efri-Þrándarstaða er sýnt á túnakorti frá 1917.
Bærinn var í aflíðandi túni sem hallar 5-10° til NNA. Hann var byggður norðan í lágri hæð. Búið er að slétta yfir bæjarrústir Efri-Þrándarstaða. Þar sem bærinn stóð er þó enn óljós þúst sem er um 16 x 10 m stór, 0,2-0,5 m á hæð og snýr austur-vestur. Tvær um 0,4 m djúpar dældir eru í þústinni og snúa þær norður suður. Dæld A er vestar og er hún um 2×2,5 m að innanmáli á meðan dæld B er um 1 m austar og um 4×2 m að innanmáli. Lúther Ástvaldsson heimildamaður kannaðist ekki við öskuhaug á svæðinu en samkvæmt honum var gengið inn í gamla bæinn að norðvestanverðu og sést þar ennþá óljós tota í vestari dældinni. Lúther kannaðist ekki við neina brunna á svæðinu en hann telur að vatn hafi yfirleitt verið sótt í árnar. Bærinn hefur líklega verið byggður úr steinsteypu, timbri og bárujárni. Vegna tíðra ábúendaskipta á jörðinni á 20. öld eru örnefni jarðarinnar og húsakostur illa þekkt.

Íngunnarstaðir
Ingunnarstaðir
20 hdr 1705, Skálholtsdómkirkjueign, talið að hún hafi til forna verið 30 hdr. Bændaeign. 27 1/3 hdr. 1847. Kirkju á Ingunnarstöðum er fyrst getið í máldaga frá um 1180: „Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande.“ (DI I 266). Kirkjunnar er næst getið í kirknaskrá Páls frá um 1200 (DI XII 10). Í máldaga frá því um 1367 segir: „Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande.“ (DI III 219) Í Vilcinsbók frá um 1397 segir: „a heimaland allt oc settung j Eyalanndi.“ (DI IV 118) 1575: Máldagi kirkjunnar (DI XV 632). „Jarðabækurnar (hinar eldri, nema stólsjarðabókin) telja jörð þessa með Hrísakoti (A. M.), aðeins 20 hdr. Að dýrleika, og leggur sýslumaður 5 h. Þaraf á Hrísakot.“ Jarðabók Johnsens, 101 (nm.gr.) Hrísakot var hjáleiga 1705 en er orðin bændaeign 1847. Tvö eyðibýli eru nefnd 1705, Gullhlaðsvellir og Þórunnarsel. Hálfkirkja var á jörðinni. JÁM III, 339-441.
1705: „Túnum og engjum grandar skriða til stórmeina og kostar oft stórerfiði af að moka. Hætt er fyrir snjólfóðum bæði á bæ og tún.“ JÁM III, 440.
1840: „… sæmileg heyskapar og útigangsjörð; á hún hrístak og fjárbeit fram í dalnum, ekki frí fyrir skiðuáföllum og hefir lítið mótak eður ekki.“ Sýslu- og sóknarlýsingar Gullbringu- og
Kjósarsýslu, 254.
Gamli bærinn á Ingunnarstöðum stóð á svipuðum stað og nú (2003) stendur steinsteypt íbúðarhús. Íbúðarhúsið var byggt á árunum 1914-20 en þar á undan stóð timburhús á jörðinni um skeið. Búið var að rífa síðasta torfbæinn um aldamótin 1900. Ógreinilegur bæjarhóll er á þessum stað. Hann má merkja að sunnan og vestan en fjarar hins vegar út til norðurs (inn í brekkuna ofan við) og austurs. Erfitt er að áætla stærð bæjarhólsins þar sem erfitt er að greina mörk hans til norðurs og austurs. Hann er þó nálægt því að vera 50-60×40 m og er mest 1,5 m á hæð. Þegar afi Guðrúnar Björnsdóttur heimildamanns kom að Ingunnarstöðum 1912 hafði síðasti torfbærinn verið rifinn. Hann hafði verið á svipuðum slóðum og steinsteypta íbúðarhúsið er í nú. Þegar það var byggt var komið ofan á nokkuð af grjóthleðslum og ösku og voru grjóthleðslurnar að hluta endurnýttar til að byggja lítinn garð vestan við íbúðarhúsið. Íbúðarhúsið sem nú er á bæjarhólnum er steinsteypt með kjallara. Íbúðarhúsið á Ingunnarstöðum var fyrsta timburhúsið í sveitinni.

Hálfkirkja
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 er getið um hálfkirkju á jörðinni: „Hjer er hálfkirkja og embætti flutt þá er heimafólk er til sacramentis.“ Bænhús var á Ingunnarstöðum en ekki er vitað nákvæmlega hvar það var. Samkvæmt heimildamanni fór tveimur sögum af staðsetningu bænhússins. Annars vegar var talað um að það hefði verið heima við bæinn en hins vegar að það hefði verið í nokkurri fjarlægð suðvestan við bæ. Lengi mátti sjá glitta í hleðslu við suðausturhorn íbúðarhússins á Ingunnarstöðum, milli þess og fjárhúss og voru uppi getgátur um að sú hleðsla gæti staðið í samhengið við bænhúsið. Lágur bæjarhóll þar sem steinsteypt íbúðarhús með kjallara og fjárhús standa. Vegur liggur að bænum og annar spotti fram hjá honum.
Kirkia a oc in helga agatta allt land a Jngunar stoþum oc settung j eyrar lande. kyr .vi. oc .xxx. a. fiogur kugillde j gelldfe. halft annat hundrat j busgognom oc j husbuninge. hestr gelldr lastalauss. xij manaþa tiþa bæcr oc messo fot. silfr kalec. roþo cross. alltara klæþe ij oc blæia. bricar clæþe gloþa ker oc gloþa jarn [alltara steinn. kirkiu stoll. bakstr jarn* oc linslopp. kerta stika. munnlogar .ij. oc lyse steinn. biollur .v. Su er afvinna skylld a þeso fe. at þar scal vera seto prestr ef sa vill er þar byr. meþ biscops raþe. Joan prestr scal vera þar meþan hann vill oc fylgia þessu fe at allda eyþle. Heima manna tiund alla a circia þar er scylldoct at syngia annan hvarn dag oc inn .iiij. hvern otto song oc kaupa at preste .ij. morcom oc ef enginn fæsc prestr. þa scolo reynevellingar fyrst eiga kost at lata syngia til þessa kaup[s] ef þeir vilia. Biscops handsol ero a þessum circio fiam ollom. oc hann a valld oc forræþe einn at kavpa þessom kirkio fiam sva sem hann vill oc þa er hann vill til þurþar oc til miclonar vm fe eþa afvinno; Máld DI I 266 [* bætt við utanmáls í hdr. C. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 10. [1367]: xlix. Kirkia heilagrar Augottu a jngunnarstodum a heimaland alltt og siottung j eyialande. vij kyr og xxx asaudar. les Vilchinsbok þui þetta er eins; Hítardalsbók DI III 219. 1397: a heimaland allt oc settung j Eyalanndi. Sia er skylld af fie þessu ad þar skal vera setuprestur ef sa vill er þar byr med biskups rade. heimamanna tiund allra a kirkiann. Þar er skyllt ad syngia annann hvern dag oc fiorda hvern ottusong. lvka presti ij merkur. og ef ei fæst prestur. þa skulu Reynivellingar fyrst eiga kost ad lata syngia til Þess kaups ef þeir vilia. biskups handsol eru aa Þessum kirkiufiam ollumm Þar til Þurdar oc miklanar sem hann vill; Máld DI IV 118. 1575: Máld DI XV 632 {1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 64}.

Sel

Ingunnarstaðir

Ingunnarstaðir – sel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir:“Selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi víðara en í einum stað.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir: „Næst eru Selflatir. Í botni [Brynju]dalsins og þar næst er hjalli sem heitir Langihjalli.“ Í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar segir einnig um selið: „Austur af bakkanum er flatlendi, sem kallað var Eyrar einu nafni.
Þá taka við ónafngreindir hjallar og austur af [þeim] þeim Selflatir [svo], sem eru beint á móti gömlu beitarhúsunum frá Ingunnarstöðum. Þorlákur álítur, að þeir sem höfðu þar í seli, hafi haldið til í beitarhúsunum. Þorlákur sat þar yfir ám í kvíum, sem Kjósarmenn höfðu þar sameiginlega. Fært var frá í Hrísakoti til 1907.“ Selið á Selflötum er um 2,5 km suðaustan við Ingunnarstaði, um 300 m sunnan við beitarhús og um 50 m sunnan við Brynjudalsá. Á Selflötum er grasigróið og víðáttumikið þýft graslendi sem hallar í 2-10° til norðausturs, að Brynjudalsá. Á Selflötum eru þrír áberandi hólar í hnapp á svæði sem er um 60×60 m stórt. Á stærsta hólnum er greinileg tvískipt tóft A sem er um 10 x 6 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.

Gullhladsveller (býli)

Stykkisvellir

Stykkisvellir – tóft.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1705 segir: „Gullhladsveller heita í Ingunnarstaða landi. Þar ætla sumir að hafi bygð í gamla daga, og sjást þar enn nú nokkrar tóftaleifar. Ekki verður þar bygð þett, nema með stórskaða heimajarðarinnar, og enginn veit nær það hafi í eyði fallið, meina þó að landþröng hafi til þess verið orðsök.“ Í örnefnaskrá Ara Gíslasonar segir um þetta svæði: „Þegar kemur fram úr Bótinni, taka við Gulllandsvellir, grasivaxin hæð, sem hallar niður af á smámýri. Þar út af er Gulllandsvallarmýri. Á ásnum eru gamlar tættur. Talið er, að þarna hafi verið býli.“
Stykkisvellir eru ofan og sunnan við suðurbakka Brynjudalsár um 850 m ASA við bæ 001 og um 600 m suðvestan við Hrísakot 360:001.

Gullvallsvellir

Gullvallsvellir – uppdráttur.

Rústirnar eru friðlýstar og í Friðlýsingaskrá segir: „Ingunnarstaðir. Forn rúst, er nefnist Gulllandsvellir, að sunnanverðu við Brynjudalsá, fyrir innan Þrándarstaði. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938.“ Stykkisvellir eru þýft graslendi á eyri lækjar sem rennur úr Gjáargili norðan undir Suðurfjalli. Svæðinu hallar í um 2-5° til norðurs niður að Brynjudalsánni. Stykkisvellir eru svæði sem er um 250×120 m stórt og snýr norðvestur-suðaustur úr fjallshlíðinni niður á eyri Brynjudalsár. Vestan við Stykkisvelli er brött brekka sem hallar í 30-40° niður í mýri. Brúnin er 3-4 m há á þessu svæði. „Austur af Bótinni taka við sléttir vellir, Gullásvellir, sem líka voru nefndir Stykkisvellir. Á þeim eru gamlar tættur, sem báru merki um að þar hefði verið byggð til forna. Framan vallanna er hár bakki, Gullásvalla-bakki. Norðan hans, að ánni, liggur lítil mýri, Gullásvallamýri (Gull-Þórir).“ segir í örnefnaskrá Páls Bjarnasonar. Í Árbók fornleifafélagsins frá árinu 1904 fjallar Brynjúlfur Jónsson um vellina: „Af stöðum sem nú eru óbygðir í Brynjudal eru Gulllandssvellir langlíklegastir til að vera Stykkisvöllur. Þar er slétt og fögur grund innan til á móts við Ingunnarstaði, sunnanmegin við ána. Auðséð er á bakkanum, sem afmarkar grundina að innan að gil sem þar kemur ofan hefir á sínum tíma brotið mikið af henni. Annars væri þar líklega bær hann. Hann hefir verið þar fyrrum. Það sýnir forn bæjarrúst skamt frá bakkanum. Hún er svo niðursokkin að fólk vissi ekki af henni fyr en eg kom austan á hana. Þó sér svo vel fyrir henni að ég gat gjört uppdrátt af henni. … Tóftirnar eru 3. hver af enda annarar, miðgaflar þó eigi vel glöggir. Dyr á miðjum suðurhliðvegg og vesturendi opinn. Lengda allrar rústarinnar nál. 16 fðm., meðalbreidd hennar 31/2 fðm. Fjós rúst sést eigi, mun vera afbrotin.“ Við skráningu fundust þrjár þústir á þessu svæði sem er um 60 x 40 m stór og snýr norðvestur-suðaustur.
Svæðið er þýft og líklegt að fleiri mannvirki geti leynst í þúfunum á svæðinu þó ekkert sjáist á yfirborði.

Hrísakot
Hrísakot
Árið 1705 er Hrísakot afgömul hjáleiga eða afbýli Ingunnarstaða GK-359:001. JÁM III, 439-440. Samkvæmt bókinni Kjósarmenn eftir Harald Pétursson fór kotið í eyði árið 1919 en var nytjað frá Ingunnarstöðum fram til ársins 1953. Það ár byggðist kotið upp aftur fólki frá Ingunnarstöðum. Kjósarmenn, 43. Samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttiur, heimildamanni, fór Hrísakot endanlega í eyði um 1964. 1840: „… Heyskaparlítið; á skógarland og allgóða útbeit við hagahús [GK-360:013]; þar er ekki mótar …“
„Hrísakot stendur innarlega í dalnum innan við Ingunnarstaði og sömu megin í dalnum,“ segir í örnefnaskrá. Bæjarhóll Hrísakots er sunnan undir Múlafjalli og norðan við Brynjudalsá, um 1,1 km austan við Ingunnarstaði 359:001. Hrísakot er nú (2011) skógræktarjörð en hætt var búskap á jörðinni að mestu um 1964. Á bæjarhólnum stendur tvískipt timbur- og bárujárnsfjárhús sem, samkvæmt Guðrúnu Björnsdóttur heimildamanni, var byggt einhvern tíman milli 1925-30 þá trúlega frá Ingunnarstöðum. Suðvestan við bæjarhólinn og fjárhúsin er sléttað tún og suðaustan
við fjárhúsin er sumarbústaður og skógræktarreitur. Greinilegar mannvistarleifar eru á bæjarhólnum norðvestan, norðan og norðaustan við fjárhúsin. Á hjalla norðaustan og ofan við bæjarhólinn er barrskógur en norðvestan við hólinn er graslendi og stór ræsiskurður 5-10 m í burtu. Í bókinni Ljósmyndir I eftir Halldór Jónsson segir: „Í Hrísakoti bjó Pjetur Ottesen til ársins 1902, … Í Hrísakoti var, er hjer kemur sögu, fremur ljelegur bær, en túnið fremur greiðslægt. … Eftir að Pjetur Ottesen fór frá Hrísakoti, tekur jörðina bróðursonur hans, Oddur Pjetur Jónsson frá Ingunnarstöðum, … og býr hann þar til ársins 1919. … Oddur Pjetur byggði nýja baðstofu í Hrísakoti, bjarta og allvistalega og fleiri bæjarhús. … Er þessi baðstofa fyrir löngu horfin [árið 1953] og hin gömlu hús önnur.“ Bæjarhólnum hefur verið raskað þó nokkuð á 20. öld en hefur hann trúlega verið um 50×50 m stór og 1-2 m á hæð. Fjárhúsin standa á miðjum hólnum. Lítið er greinanlegt af gamla bæ Odds Pjeturs sem stóð árið 1917 annað en 2-3 grasigrónir og þýfðir hólar sem eru 1-1,5 m á hæð og er 1-2 m norðvestan við timburfjárhúsin. Grjót má er víða í hólunum. Hólarnir mynda saman aflanga þúst sem er um 25×15 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í gegn um þústina er dæld sem er 5 x 1-3 m stór og snýr NNV-SSA. Dældin er 0,5-1,5 m djúp og sker þústina næstum í tvennt. Hér er líklega um að ræða rof vegna ágangs búpenings.
Engar aðrar dældir eru í þústinni. Ekki er ljóst hvort þessi þúst er leifar af gömlu húsunum sem hugsanlega hefur verið ýtt eitthvað til eða hvort þarna voru aðeins gamlir taðhaugar.

Heimild:
-„Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III“ – II. bindi, um bæina Reynivelli, Vesturkot, Seljadal, Sogn, Hvítanes, Þrándarstaði, Ingunnarstaði og Hrísakot. Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2012.

Reynivellir

Reynivellir.