Í fjölriti Náttúrufræðistofu um aldur Illahrauns frá árinu 1988, eftir Hauk Jóhannesson og Sigmund Einarsson, segir m.a.: „Í grein þessari er lýst niðurstöðum rannsókna á Illahrauni við Svartsengi á Reykjanesskaga. Hrauninu og gígunum er lýst og mæld stærð hraunsins og rúmmál. Aldur hraunsins var fundinn með könnun öskulaga undir og ofan á því.
Illahraun nefnist hraunfláki norðvestur af Þorbjarnarfelli og vestan við Svartsengisfell. Hraunið er úfið og víða nokkuð illfært. Það hefur þó runnið að mestu sem helluhraun, en eftir að yfirborð þess storknaði hefur það brotnað upp í fleka sem síðar sporðreistust og mynda eins konar karga á yfirborði þess. Við jaðra meginhraunsins eru skikar af þynnra hrauni, sem ýmist eru undanhlaup eða hafa runnið fram af aðal hraunbrúninni. Hraunið á upptök sín í stuttri gígaröð sem er vestast í hrauninu. Gígaröðin er um 200 metra löng og á henni eru fimm gígar. Nyrsti gígurinn er stærstur og í raun tvöfaldur, fyrst hefur gosið í stórum gíg en seinast hefur virknin dregist saman og minni gígur myndast á vesturjaðri hans. Þessi minni gígur rís hæst yfir hraunið í austur frá þjóðveginum. Gígaröðin hefur stefnuna N30A. Hraunið hefur runnið í austur upp undir Þorbjarnarfell og Svartsengisfell.
Virkjun Hitaveitu Suðurnesja við Svartsengi stendur á norðausturjaðri Illahrauns. Annar hrauntaumur hefur runnið suðvestur með Þorbjarnarfelli að vestan og hefur stöðvast á móts við slakkan er verður milli Þorbjarnarfells og Lágafells. Stuttur hrauntaumur hefur og fallið suðvestur frá gígnum.
Engar sprungur finnast í Illahrauni sjálfu en á Baðsvöllum, sem er norðan undir Þorbjarnarfelli, ganga nokkrar sprungur undir hraunið þar af ein sem stefnir N-S. Einnig fundust þrjár litlar norðaustlægar sprungur í yngra Eldvarpahrauninu sem ganga inn undir norðvesturjaðar hraunsins.
Aldur Illahrauns var ákvarðaður út frá aðstöðu hraunsins til þekktra öskulaga. Í jarðvegi á Reykjanesi eru nokkur öskulög frá sögulegum tíma. Þar er fyrst að nefna svonefnt Landnámslag sem féll um árið 900. Þau hraun sem runnið hafa eftir að Landnámslagið féll eru talin frá sögulegum tíma. Annað auðþekkt lag er Miðaldalag. Það er talið hafa fallið árið 1226 og má rekja það í jarðvegssniðum um allan Reykjanesskagann, austur í Ölfus og upp í Borgarfjörð. Þetta er svart sendið öskulag sem hefur myndast í eldgosi í sjó undir Reykjanestánni og sést hluti af gígrimanum uppi á landi gegnt Karli.
Þriðja auðþekkta öskulagið er kolsvart fínt lag sem talið er að hafi fallið um 1485 og er það komið úr Kötlu. Þetta lag er að finna á austan- og norðanverðum Reykjanesskaga og hefur það verið rakið allt vestur að Vogum.
Grafin voru og mæld þrjú jarðvegssnið við og inn undir jaðar Illahrauns á Baðsvöllum. Landnámslagið er undir Illahrauni og Miðaldalagið hefur verið nýfallið þegar hraunið rann. Kötlugos frá 1485 fannst ekki í sniðunum.
Telja verður víst að hraunið hafi runnið eftir að Miðaldalagið féll svo ekki skakkar nema í mesta lagi fáum árum. Þó er líklegast að hraunið hafi runnið um svipað leyti og öskugosið varð. Illahraun hefur því brunnið í eldgosi sem varð 1226 eða skömmu síðar.“
Heimild:
-Fjölrit Náttúrufræðistofu 1988 – Aldur Illahrauns, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson.