Tag Archive for: Ingvaldarsel

Selflatir

FERLIRsfélagar óku frá Villingavatni að Grafningsrétt á Selflötum.

Selflatir

Selið á Selflötum.

Á flötunum eru leifar sels frá Úlfljótsvatni. Þegar það var skoðað var augljóst að um dæmigerða selstöðu á Reykjanesskaganum var um að ræða; þrjú rými með baðstofu, búri og eldhúsi, auk vestanverðum stekks. Selið er greinilega byggt upp úr eldri selstöðu eða jafnvel selstöðum. Selsstígurinn sést enn þar sem hann liggur frá selstöðunni til austurs, áleiðis að Úlfljótsvatni.

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel – uppdráttur ÓSÁ. Startjörnin ofar, selsstígurinn t.h. og selshúsin og stekkurinn neðar.

Þá var ætlunin að finna og skoða Ingveldarsel, selstöðu frá Villingavatni, norðan undir Útlfljótsvatns-Selfjalli. Gengið var til vesturs upp með norðanverðu Selfjalli, upp á efstu axlir þar sem útsýni birtist inn Langadal með Súlufell í norðri. Þarna undir hlíðinni, í skjóli fyrir austanáttinni, birtist Ingveldarsel á lyngþakinni brekku. Neðan og norðan við það var lítil seftjörn.
Selið sjálft hafði verið byggt skv. forskriftinni; baðstofa í miðju og búr fyrir innan. Hliðstætt eldhús var við suðurendann og torfhlaðinn stekkur austan tóftanna. Tóftirnar voru nánast orðnar jarðlægar. Ágætt útsýni var frá selinu niður að Villingavatni. Selstígurinn lá til austurs og beygði síðan til norðausturs niður hlíðarnar.

Í örnefnalýsingu Þorgeirs Magnússonar (fæddur að Villingavatni 27.03 1896 og bjó þar frá 1925 til 1948) segir: „Ingveldarsel: Smá starartjörn með mýri í kring, upp af Svartagilsflötum. Síðasta selið sem notað var. [Sennilega kennt við Ingveldi Gíslad., afasystur skrásetjara.] Sokkabandsskarð er fyrir vestan Ingveldarsel í Seldal.“
Tækifærið var notað og selið myndað og uppdregið.

Tilbakagangan var auðveld, enda öll undan fæti.

Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Ingvaldarsel

Ingvaldarsel.