Í skýrslu um „Húsakönnun í Þorkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð“ frá árinu 2018 eru teknar saman upplýsingar um hús í hverfinu.
Um sambyggðu húsin Klöpp og Teig segir: „Teigur var byggt 1934. Fyrstu eigendur voru Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir. Um er að ræða metnaðarfullt steinsteypuhús frá fyrri hluta 20. aldar. Það er lítið breytt og er hluti af svipmóti hverfisins. Húsið var byggt 1934, sambyggt Klöpp sem byggð var fjórum árum áður. Steinsteypt hús, ein hæð með einhalla bárujárnsþaki. Útveggir suðvesturhliðar og beggja gafla ná upp fyrir þakið. Þeir eru láréttir að ofan með tökkum. Um tvö sambyggð hús er að ræða en þau eru svo keimlík að nær er að fjalla um þau sem eitt hús með tveimur íbúðum.
Útidyr eru á göflunum. Við suðurgaflinn er lítil viðbygging úr steinsteyptum hleðslusteinum en sambærileg bygging er ekki á Klöpp. Suðausturhluti hússins hefur verið með skeljasandsmúrhúð á suðurhlið sem að mestu leyti hefur máðst af. Lítilsháttar munur er á frágangi við þakbrún húshlutanna tveggja.
Að Teigi er upphleypt, lárétt brík neðan við takkana en á Klöpp er lítilsháttar láréttur stallur í sömu hæð og efri brún bríkur á Teigi. Á norðvesturhliðinni slútir þakskeggið fram yfir útvegginn.
Gluggaskipan er líklega óbreytt frá upphafi en gluggar hafa allir verið endurnýjaðir og póstaskipan líklega breytt. Búið er í Klöpp en ekki á Teigi.
Stíleinkenni sem þessi hafa gjarna verið kennd til gotnesk áhrif. Einar Erlendsson húsameistari teiknaði nokkur hús í Reykjavík með þessum einkennum, meðal annarra hús Sturlubræðra við Laufásveg. Nokkuð sérstætt hús.
„Húsin byggðu hjónin Árni Guðmundsson og Ingveldur Þorkelsdóttir árið 1934. Þau bjuggu áður í Gamla-Teigi sem var fyrir Austan Buðlungu.“ Teigur var með vindmyllu til ljósa áður en Sogsvirkjun var lögð til Grindavíkur. Ekkert hús er við Teig en fjárhúskofi var áður um 20 m ASA við en er horfinn.“
Um Klöpp eða Vestur‐Klöpp segir: “ Byggingarárið er 1930. Fyrsti eigandi var Guðmundur Guðmundsson og Margrét Andreasdóttir. Um er að ræða metnaðarfull steinsteypuhús frá fyrri hluta 20. aldar, hluti af svipmóti hverfisins. Önnur lýsing er sú sama og um Teig.
Húsið var byggt 1930 en fjórum árum síðar var byggð spegluð bygging við það sem nefndist Teigur. „Húsið byggðu hjónin Guðmundur Guðmundsson og Margrét Andreasdóttir árið 1930. Þau bjuggu áður í Gömlu-Klöpp og síðar í Bjarmalandi“. Um 15 m norðaustan við húsið er geymsluskúr, hús 19. Klöpp áttu einnig annað fjárhús sem stóð nálægt þeim stað sem dreifistöðin er nú við Hraðfrystihúsið en það er horfið.“
Klöpp var myndarbýli austan Buðlungu, en nú sjást einungis rústir gamla torfbæjarins, nokkuð heillegar, sem og skemma og útihús. Á túnakorti 1918 er hluti Klappar sagt vera Gerði, sem engar heimildir eru til um. Líklega er þar um að ræða bæinn Vestur-Klöpp. Timburhús, sem byggt var á jörðinni, svolítið austar, flaut upp í stórviðri árið 1925. Eftir það var húsið fært ofar í landið, þar sem það er nú, samfast samnefndu húsi.
Í viðtali við Árna kom fram að „bærinn Teigur var upphaflega kot sem ég fékk að reisa á jörðinni hans pabba. Þar reisti ég timburhús a hólnum Harðhaus, sem stóð í átta ár. Þegar ég byggði þetta hús áttaði ég mig ekki á því að sjórinn var alltaf að brjóta landið og einu sinni í miklu brimi komu sjóarnir alveg upp að bæjardyrunum hjá mér. Þá varð konan hrædd, sem vonlegt var – ég réðst þá í að rífa húsið og notaði timbrið úr því til að byggja steinhús ofar í þorpinu [þ.e. Teig]. Þar átti ég svo heima alla tíð með fjölskyldu minni og síðast einn þar til í sumar sl. að ég fluttist hingað á Hrafnistu í Hafnarfirði“.
Við framangreint má bæta að Ármann Árnason keypti Teig af föður sínum árið 1969. Árni Guðmundsson hafði áður, 1947, keypt hálfa jörðina Klöpp af móður sinni, Margréti Árnadóttur. Sýslumaður setti húsið á uppboð árið 1988 vegna kr. 25.000- bankaskuldar, auk hálfrar jarðarinnar Klappar. Landsbankinn keypti húsið og jarðarhlutann. Ómar Smári, sonur Ármanns taldi gjörning sýslumannsins ólöglegan hvað varðaði hálfa jörðina Klöpp. Eftir áralangan málarekstur samþykkti sýslumaður að afhenta afkomendum Ármanns jarðarhlutann og þar með hlutdeildina í óskiptu landi Þórkölustaðahverfis.
Eigandi Klappar, Jón Ársæll Gíslason, keypti húseignina Teig af Landsbankanum árið 1992 og nýtti það að hluta til íbúðar uns Sverrir Sverrisson keypti Teig árið 2021 og hefur hann síðan verið að gera húsið upp til heiðurs sæmdarhjónunum er byggðu það upphaflega. Sverrir verður með opið hús fyrir afkomendur hjónanna á afmælisdegi Árna, 4. júní n.k. (2023).
Árni Guðmundsson frá Teigi minning 1991
Árni fæddist 4. júní 1891 og lést 29. apríl 1991. Lífshlaupi hans spannaði nánast eina öld; rúman mánuð vantaði hann í 100 árin.
Þau voru falleg hjónin Árni og Ingveldur í Teigi, svo sallafín og strokin með höfðingjafasi, ástfangin eins og unglingar frá því ég sá þau fyrst, allt þar til leiðir skildust, þegar hún var komin þétt að áttræðu. Nú hefir hann aftur hitt fallegu stúlkuna sína eftir rúmlega 20 ára aðskilnað, sem oft hefir verið honum erfiður, en því mótlæti mætti hann einsog öðru, sem á hann var lagt, æðrulaus eins og formanni sæmir. Framan af ævinni var hann einmitt formaður og útvegsbóndi í Klöpp og síðan í Teigi í Grindavík. Það fórst honum vel úr hendi eins og annað, sem hann tók að sér.
Ég hefi bæði séð í rituðu máli og eins hefir sagt mér gamall háseti hans, að hann hafi verið frábær stjórnandi til sjós, aldrei tapað stillingu á þeim vettvangi, jafnvel á örlagastundum, sem verða svo margar hjá sjómönnum, ekki síst meðan opnu trillurnar voru aðalfarkosturinn, en einmitt slíkum báti stjórnaði Árni.
Þau hjónin, Árni og Ingveldur Þorkelsdóttir, f. 14. des. 1891, eignuðust 11 börn. Úr þeim hópi misstu þau tvo drengi í bernsku.
Árni var maður gleðinnar, naut sín vel þar sem fagnað var, söng bæði mikið og vel og var lengi í kór í Grindavík. Hann var kátur og hlýr í dagfari og mjög spaugsamur. Það væri efni í væna bókað lýsa persónuleika Árna og fer ég ekki út í þá sálma, en það segir dálitla sögu, að hans hefir oftverið getið í rituðu máli og vitnað bæði til hans og heimilis hans. Hinn þekkti þáttagerðarmaður Jónas Jónasson átti við hann ítarlegt viðtal í útvarpinu fyrir nokkrum árum og fór Árni þar á kostum. Höfð hafa verið við hann blaðaviðtöl og síðast eftir að hann var kominn á tíunda áratuginn. Það var opnuviðtal í Morgunblaðinu.
Hann kom fram í tveimur kvikmyndum, sem sýndar hafa verið í Sjónvarpinu, og hefir þá eflaust þar ráðið vali kvikmyndastjórans, hvað Árni var mikill persónuleiki í sjón, enda sómdi hann sér vel á hvíta tjaldinu. Hann var með hlutverk í auglýsingu frá DAS, sem lengi birtist á sjónvarpsskjánum.
Árni var fljótur að ná sambandi við fólk, sem hann hitti á förnum vegi. Hann hafði mjög gaman af að spila. Hann var sérstaklega barngóður, enda dýrkaður af afkomendum sínum og því meira, sem þeir voru yngri.
Ingveldur Þorkelsdóttir og Árni Guðmundsson – aldarminning 1991
Ingveldur var fædd 14. desember 1891 og lést 21. janúar 1970. Árni var fæddur 4. júní 1891 og lést 29. apríl 1991. Í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu Ingveldar, og 4. júní sl. voru liðin 100 ár frá fæðingu Árna, en hann vantaði rúman mánuð til að lifa það afmæli. Ingveldur var fædd í Lambhaga í Hraunum, dóttir hjónanna Ingveldar Jónsdóttur frá Helludal í Biskupstungum [Jóns Guðmundssonar frá Tortu, Bryggju, Álfsstöðum, Hvaleyri og Setbergi) og Þorkels Árnasonar [frá Guðnabæ í Selvogi] bónda í Lambhaga, síðar á Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Árni var fæddur í Klöpp í Grindavík, sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar frá Þorkötlustöðum á sama stað og Margrétar Árnadóttur, Klöpp, Grindavík.
Eftir þeim heimildum sem fyrir liggja eru ættir þeirra beggja samansettar af duglegu og umfram allt þrautseigu fólki sem barðist harðri baráttu fyrir tilveru sinni.
Árni og Ingveldur giftust árið 1914 og hófu búskap í Klöpp í Grindavík, síðar í Teigi á sama stað. Þau eignuðust 11 börn á 19 árum. Þau eru í aldursröð: Margrét, fædd 18. febrúar 1915, dáin 9. apríl 1986; Jónína Vilborg, fædd 16. júlí 1917, dáin 24. mars 1968; Dagmar María, fædd 4. apríl 1918; Guðmundur, fæddur 16. janúar 1920; Laufey, fædd 18. júlí 1921; Þorkell, fæddur 3. janúar 1923; Jón, fæddur 25. desember 1925, dáinn 5. janúar 1989; Ingi Ármann, fæddur 18. október 1927, dáinn 4. mars 1934; Unnur, fædd 28. apríl 1929; Vilberg Magnús, fæddur 29. desember 1930, dáinn 27. apríl 1931; Ingi Ármann, fæddur 4. júlí 1934, dáinn 5. desember 1990.
Af framangreindri upptalningu er ljóst að einhvern tímann hefir þurft að taka til hendi, hvíld hefir verið knöpp, frístundir engar, allir framkrókar hafðir til að afla daglegs brauðs. Árni stundaði sjóinn frá barnsaldri, var mjög ungur formaður á opnum árabáti, seinna á stærri vélbáti. Er rómuð stjórnun hans af fyrrverandi hásetum sem voru hjá honum margar vertíðir. Einn tók þannig til orða að Árni hefði verið snillingur í brimlendingu. Segir þetta töluvert um skaphöfn hans.
Ekki fær Ingveldur síðri umsögn síns samferðafólks. Hún var tiltekin fyrir dugnað og myndarskap og hagsýni hennar var óumdeild. Var stundum eins og hún skæfi brauð af steinum. Var tiltekið hvað hópurinn hennar var alltaf vel klæddur og að sjálfsögðu saumaði hún og prjónaði á þau hverja flík.
Eins og að framan segir var sjórinn uppistaða afkomunnar. Árni var útvegsbóndi. Með sjónum stundaði hann smávegis búskap, átti nokkrar kindur, eina til tvær kýr og hest. Heyföng voru lítil og erfið, túnið í Klöpp þætti nytjarýrt á nútíðar máta, og til að ná endum saman var hver grænn blettur nytjaður nær og fjær, t.d. heyjuðu þau hjónin nokkur sumur inn á Vigdísarvöllum sem eru milli Hálsa vestur af Krýsuvík. Þangað er löng leið og ekki auðveld frá Grindavík. Þarna sló Árni og Ingveldur rakaði og þurrkaði. Dagsverkið var baggar upp á einn hest. Ef að líkum lætur hefir Ingveldur stundum verið barnshafandi þegar hún var í þessum heyskaparleiðöngrum og geta má nærri hversu örþreytt hún hefir verið að loknu dagsverki. Þetta dæmi er tekið til að gefa okkur allsnægta kynslóðinni smávegis innsýn í lífsbaráttu foreldra okkar.
Sem betur fer breyttust kjör Árna og Ingveldar til betri tíðar þegar lengra leið á ævina og þau kunnu manna best að njóta þess jákvæða sem hver dagur bar í skauti. Börnin flugu úr hreiðrinu og efnahagurinn batnaði. Þau voru einstaklega samhent og mikið ástríki var á milli þeirra svo til var tekið. Þau nutu þess að taka á móti gestum enda gestkvæmt mjög í Teigi. Mikið og innilegt samband var við börnin og þeirra fjölskyldur, allur frændgarðurinn var aufúsugestir hvenær sem var, svo og tengdafólkið. Teigur var í hugum alls þessa fólks, sannur sælureitur þó húsið væri hvorki hátt til lofts né vítt til veggja rúmaði það óendanlega kærleika húsbændanna, sem allir fundu fyrir sem umgengust þessi elskulegu hjón.
Þessi fátæklegu orð eru sett á blað frá okkur sem nutum ástar þeirra og kærleika og við munum finna fyrir alla okkar daga. Við teljum það mikið lán að hafa átt þessa góðu foreldra sem miðluðu okkur ást sinni og lífsvisku sem hvorki mölur né ryð fær grandað.
Blessuð sé minning okkar elskuðu foreldra.“
Sverrir hefur, auk þess að endurbyggja Teig, komið fyrir í húsinu ættartré þeirra Árna Guðmundssonar og Ingveldar Þorkelsdóttur. Tréð sýnir 380 afkomendur þeirra hjóna. Þeir eru boðnir velkomnir að Teigi eftir hádegi n.k. Sjómannsdag, 4. júní, þ.e. á fæðingardegi Árna.
Foreldrar Ingveldar og Árna, sem og systkini voru eftirfarandi:
Ingveldur Jónsdóttir frá Setbergi við Hafnarfjörð, f: 22. okt. 1862. Þorkell Árnason, f. í Guðnabæ 12. des. 1853, bóndi í Lambhaga, á Þorbjarnarstöðum og í Straumi í Garðahreppi, d. 18. nóv. 1943.
Börn: Oddgeir, f. á Ásólfsstöðum 27. maí 1881, bóndi á Ási við Hafnarfjörð. Ingólfur, f. í Reykjavík 18. okt. 1884, Jón, f. í Lambhaga 1. nóv. 1886, Árni Steindór, f. í Lambhaga 24. júní 1888, Vilborg, f. í Lambhaga 17. júlí 1890, Ingveldur, f. í Lambhaga 14. des. 1891, Guðbjörg, f. í Lambhaga 23. jan. 1894, Steinunn, f. í Lambhaga 17. júlí 1895, Katrín, f. á Þorbjarnarstöðum 3. mars 1898, Guðmundur, f. á Þorbjarnarstöðum 21. ágúst 1900, Ástvaldur, f. í Straumi 11. febr. 1902.
Guðmundur Jónsson, f. á Þórkötlustöðum 19. okt. 1858, d. 3. des. 1936. Margrét Árnadóttir, f. 1861, d. 1947.
Börn: Einar Guðjón, f. 1882, d. 1968, Guðrún, f. 1883, d. 1885, Valgerður, f. 1886, d. 1967, Jón, f. 1887, d. 1908, Árni, f. 18891, d. 1991, Guðmundur Ágúst, f. 1894, d. 1963, Guðmann Marel, f. 1900, d. 1936.
Foreldrar Guðmundar voru: Jón Jónsson, f. í Garðhúsum 14. nóv. 1825, d. 13. des. 1882, og Valgerður Guðmundsdóttir, f. á Hrauni 7. feb. 1829, d. í Akurhúsum 25. júní 1895.
Heimild:
-Húsakönnun í Þorkötlustaðahverfi: Verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Minningagreinar um Árna Guðmundsson og Ingveldi Þorkelsdóttur.