Tag Archive for: Innnes

Brá

Ein algengasta spurningin um efni Reykjanesskagans mun vera „Er Reykjanes það sama og Suðurnes?“ Stutta svarið er „Nei“.
Lengra svarið er: „Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes: „Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi. Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes: Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.“

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: „Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.“ Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var „hællinn“ á skaganum en það síðarnefnda „táin“, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.“
Skv. framangreindu teljast Grindvíkingar ekki til Suðurnesjamanna því Suðurnes virðast vera svæðið norðan og vestan bæjarmarkanna. Á Suðurnesjum hafa jafnan búið „kátir menn og frískir“, en í Grindavík „sjósæknir og fríðir“. Hvorutveggja á reyndar við enn í dag.
Hvað sem öllu þessu líður búa svæðin í heild yfir ótrúlegri fjölbreytni til handa fólki, sem vill og getur borið sig eftir henni. Grindavík hefur t.d. aldrei tilheyrt Suðurnesjum, en þó verið hluti að Innesjum.
Framangreint hefur ruglað margan „málsmetandi“ ráðamannininn í ríminu í gegnum tíðina.

Heimildir:
-Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
-Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Reykkjanes

Í Árbók Suðurnesja 1986-1987 er grein eftir Kristinn Arnar Guðjónsson sem nefnist „Áhrif landbrots og sandfoks á byggð á Suðurnesjum 1686-1947“.
Í greininni er Reykjanesskaginnm.a. kafli um skilgreiningu á hugtakinu „Suðurnes“: „Í texta, kortum og töflum hér eftir er Suðurnes notað sem samheiti fjögurra hreppa: Hafna-, Rosmhvalaness- og Vatnsleysustrandar-hrepps.
Kristján Eldjárn (Árbók Ferðafélags Íslands 1977) gerði grein fyrir takmörkum nafnsins og telur að í fyrstu hafi það verið bundið Miðnesi (svæðinu frá Hvalsnesi til Garðsskaga) en um miðja 19. öld er farið að nota Suðurnes í víðtækari merkingu, þeirri sömu og nú er algengust; Rosmhvalanes að viðbættum Höfnum. Í yfirgripsmestu merkingu, segir Kristján, er nafnið Suðurnes látið ná yfir allan Reykjanesskagann frá Hvaleyrarholti að Selatöngum.
Skúli Magnússon segir um nafnið Suðurnes: „Í daglegu tali, aðallega með tilliti til fiskveiðanna, er Býjaskersþingsókn kölluð Suðurnes, en fremur hún og Járn-gerðarstaðaþingsókn Útver (Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu).“ Býjaskersþing-sókn tekur yfir Hvalsnessókn og Útskálasókn og samsvarar því hinum gamla Rosmhvalanes-hreppi.

Núverandi Sveitafélagsskipan á Reykjanesskaga

Sigurður B. Sívertssen segir árið 1841: „Úr fjarlægum plássum  eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrr nefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu (Lýsing Útskálaprestakalla 1839).“
Jón Thorarensen telur Suðurnesjaheitið hafa þá merkingu sem Kristján segir yfirgripsmesta. Jón segir m.a.: „Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja, sem var skýrt ákveðin alla tíð var þessi: Innnes – frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð. Suðurnes – frá Hvaleyrarholti, að Selatöngum austan við Grindavík. [Hér er Jón greinilega að heimfæra Útnesin upp á Suðurnes].
Ef litið er á samtímaheimildir kemur í ljós að notkun heitisins Suðurnes er enn nokkuð á reiki. Í bókinni Suðurnes, náttúrufar, minjar og landnýting (1986) afmarkast Suðurnes af strandlínunni að norðan og vestan, en að sunnan af línu dreginni frá Hvaleyrarholti í gegnum Hvaleyrarvatn, Helgafell, Trölladyngju, Keili, Stapafell og Hafnir. Í riti Byggðastofnunnar (Byggð og atvinnulíf 1985) er heitið Suðurnes látið ná yfir öll sveitarfélög á Reykjanesskaga, að Hafnarfirði og Kópavogi undanskildum.“

Heimild m.a.:
-Árbók Suðurnesja 1986-1987, bls.39-42.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Reykjanes

Í bókinni „Litla skinnið“ eftir Jón Thorarensen frá Kotvogi, útg. 1982, skrifar hann m.a. um Innes og Suðurnes. Lýsingin er stutt, en fróðleg.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefnakort.

“Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja, sem var skýrt ákveðin alla tíð var þessi:
INNNES frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð.
SUÐURNES frá Hvaleyrarholti að Selatöngum austan við Grindavík.
Hluti af Suðurnesjum heitir Rosmhvalanes. Það er sá hluti Reykjanesskagans, sem liggur fyrir norðvestan línu þá sem hugsast dregin frá Hunangshellu í Ósabotnum í Háleitisþúfu nú eyðilögð austast á Keflavíkurflugvelli og úr Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort Björns Gunnlaugssonar 1944.

Þannig eru því öll byggðahverfin frá Leiru og allt suður að Stafnesi á Rosmhvalanesi.“
Í þessari lýsingu Jóns, sem ritaði mikið um landshætti, líf fólks og atvinnuhætti á Suðurnesjum, er tekinn af allur vafi hvar skiptingin var, en hún skipti miklu máli í daglegu tali fyrrum er menn voru greindir í Innnesjamenn og Útnesjamenn. Einnig var það almenn málvenja að fara á Innnesin eða á Útnesin. Þá var betra að vita hvar mörkin voru. Og það er ekki síður mikilvægt fyrir nútímanninn að þekkja skilin er hann á annað borð þarf að lesa í heimildum um hugtök þau er hér er um fjallað. Samkvæmt lýsingu Jóns nær Suðurnes frá Hvaleyrarholti í norðri að Selatöngum í suðri, eða m.ö.o. eftir endilöngum (G)Núpshlíðarhálsinum.

Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1989.

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.