Tag Archive for: Innri-Ásláksstaðir

Garðbær

Húsið Sjónarhóll á Vatnsleysuströnd var byggt 1886. Það var timburhús. Það gerði Lárus Pálsson „hómapati. Árið 1885 keypti Lárus hálfa jörðina Innri-Ásláksstaði og árið 1886 skrifaði hann undir landamerkjasamning milli Ásláksstaðahverfis og Knarraneshverfis sem einn landeigandi að hálflendunni Innri-Ásláksstöðum.

Garðbær

Garðhús.

Árið 1925 keypti Friðfinnur Stefánsson frá Hafnarfirði Sjónarhól, en hann átti þessa eign ekki lengi því á sama ári seldi hann Sjónarhól Magnúsi Jónssyni og Erlendsínu Helgadóttur.

Sjónarhóll þótti góð bújörð og bætti Magnús hana allverulega en lagði einnig sjálfur í útgerð í nokkur ár. Hann byggði nýtt íbúðarhús, steinhús, sem enn stendur, árið 1929 suðaustan við gamla húsið, sem þá var notað sem gripahús.

Garðbær

Garður við Garðhús.

Eftir 18 ára búskap Magnúsar á Sjónarhóli, eða árið 1943, seldi hann og var aðalástæðan sú að svokölluð heymæði gerði honum erfitt fyrir að stunda búskap og annað þar að börnin voru farin að heiman. Magnús og Erlendsína fluttu í Voga og byggðu þar annan Sjónarhól. Kaupandi að Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd var Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir og eiga ættingjar hans hann nú.

Magnús og Erlendsína eignuðust 7 börn; 5 stúlkur og tvo drengi.

Einn dreng, Þórð, eignaðist Magnús með vinnukonu að Sjónarhól, Guðríði. Hún bjó með sambýlismanni sínum í Garðhúsi, litlum steinbæ skammt suðaustan túngarðs Sjónarhóls. Fátt er um Guðríði og mann hennar vitað annað en að hann sótti sjóinn. Fullyrt var að Magnús hafi nauðgað Guðríði og fór málið fyrir dómstóla. Hitt er ljóst að daginn sem Guðríður átti að fæða klæddi Erlendsína sig upp í peysuföt, gekk heim að Garðhúsi og tók á móti barninu, jafnframt því sem hún bauð það velkomið í heiminn.

Garðbær

Garðhús – útihús.

Eftir stendur litla steinhúsið á milli Innri-Ásláksstaða og Minni-Knarrarness. Eftir að það var yfirgefið og þakið fokið af að mestu gerðu piltar í sveit í Knarrarnesi sér það að leik að brjóta veggina niður, en voru stöðvaðir í miðjum kliðum.

Húsið er ca. 8-10 fermetrar. Steinsteyptir veggirnir hafa augljóslega verið púkkaðir með grjóti til drýgindar. Dyr sneru mót norðri. Ofn hefur verið í norðvesturhorninu, innan við dyrnar (þar er loftop neðst á vegg). Skammt norðvestan við húsið er útihús, gert af torfi og grjóti. Ekki er ólíklegt að Guðríður hafi haft nokkrar skjátur til búbætis. Norðan við bæjardyrnar mótar fyrir brunni. Austan hans eru leifar af hlöðnum vegg, líklega frá þeim tíma er bærinn Fagurhóll stóð þar á hólnum.

Garðbær

Garðhús – tóftir Fagurhóls.

Ef vel er að gáð má sjá móta fyrir tóftum þess bæjar sunnan við Garðhúss. Fagurhóll fór í eyði fyrir árið 1900. Líklegt er að Garðhús hafi verið byggður um og eftir 1930.

Leifar Garðhúss, þótt litlar séu, vekja jafnan athygli vegfarenda á leið um Vatnsleysutrandarveginn þar sem það stendur stakt norðan hans, millum Sjónarhóls og Minna-Knarrarness, sem fyrr sagði. Fæsti þeirra hafa hugmynd um nafnið á tóftunum, hvað þá um ábúendurna, sem þar bjuggu um tíma.

Garðbær

Garðhús.

Ekki er getið um kotið Garðhús í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar um „Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysutrandarhreppi. Þá er hvorki Guðríðar né sambýlismanns hennar getið að öðru  leyti en því að systkynin á Sjónarhóli hafi átt hálfbróður, nefndar Þórð er jafnan var kenndur við móður sína. Þó segir í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Ásláksstaði  að Konráð Andrésson hafi byggt Garðhús árið 1917 og var það jarðlaust í landi Sjónarhóls, við mörk Knarrarneshverfis. Umhverfis kotið hafi heitið Garðhúsablettur og þar hafi verið útihús. Ekki er ólíklegt að litla steinsteypta húsið hafi verið byggt á rústum eldra Garðhúss, sem áður hafði verið byggt úr rústum Fagurhóls.

Þórður Guðríðarson bjó lengi í Hafnarfirði.

Heimildir:
-Mannvirki og mannlíf í Vatnsleysustrandarhreppi – Guðmundur Bjögvin Jónsson, útg. 1987, bls. 269-272.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Ásláksstaðabæina.

Garðbær

Garðhús.