Í Skýrslu Reykjanesbæjar um „Breytingu á deiliskipulagi í Innri-Njarðvík v/kirkjugarð og Thorkellinsgarð“ árið 2020 má m.a. lesa eftirfarandi sögulegt ágrip Njarðvíkna sem og sögu Innri-Njarðvíkurkirkju.
Innri-Njarðvíkurkirkja.
Hítardalsbók segir: “Maríukirkja og hins [heilaga] Þorláks biskups í Njarðvík á eina kú, altarisklæði tvö, et cetera” Bókin gæti verið frá 1367 en líklegt er þó að kirkjan sé frá 13. öld í gömlum ritum er talað um KirkjuNjarðvík, sem ekki er óumdeilt að hafi verið notað um bæinn. Þegar á miðöldum eru Njarðvíkurjarðirnar tvær.
Kirkjueignir á Suðurnesjum komust í eigu konungs árið 1515 og voru í eigu konungs í 275 ár eða til ársins 1790. 17. Febrúar 1790 kaupa bræðurnir Ásbjörn og Egill Sveinbjarnarsynir kirkjujörðina Innri-Njarðvík ásamt hjáleigunum. Hákoti, Stapakoti, Tjarnarkoti, Móakoti og Hólmfastskoti.
Tóftir Hólmfastskots.
Halldór Jónsson, hertekni, var hertekinn í Tyrkjaráninu í Grindavík 1627, en Halldór kom aftur til Íslands.
Sonur hans, Jón Halldórsson lögréttumaður, sat jörðina Innri Njarðvík frá 1666. Ásamt konu sinni Kristínu Jakobsdóttur. Jón fæddist að Járngerðarstöðum í Grindavík árið 1623 en dó í Innri Njarðvík 19. apríl 1694.
Jón Halldórsson barðist fyrir því að kirkja yrði reist í Innri Njarðvík. Brynjólfur biskup Sveinsson gaf leyfi þann 16. september 1670, með þeim skilmálum að Jón sæi til þess að allur tilkostnaður við embættið og þjónustu forsmáðist ekki á nokkurn hátt. Auk þess fékk Jón leyfi landfógeta Jóhanns Kleins til að byggja kirkjuhúsið, en Brynjólfur gaf leyfi til guðsþjónustugjörðar.
Frá Innri-Njarðvík.
Jón lét byggja kirkju sem var vígð 13. nóvember 1670 af sr. Rafni Ólafssyni á Stað í Grindavík. Kirkjan fékk hálfkirkjurétt en Njarðvíkingar voru þó enn bundnir Kálfatjarnarkirkju og skyldaðir til að gjalda henni kirkjugjöld, urðu miklar rekistefnur út af þessu fyrirkomulagi.
Bolafótur í Ytri-Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.
Kálfatjarnarprestar þjónuðu kirkjunni til ársins 1700 er Jón biskup Vídalín, lét lögtaka að hálfkirkjan í Njarðvík væri orðin alkirkja og skyldi vera annexía frá Hvalsnesi.
Sama ætt hefur búið á gamla stórbýlinu Innri-Njarðvík í yfir 300 ár. Saga ættarinnar og Njarðvíkurkirkju er samofin þar sem bændurnir voru einnig kirkjuhaldarar. Síðasti fulltrúi ættarinnar var Jórunn Jónsdóttir (1884-1974). Hún bjó í húsinu Innri-Njarðvík frá upphafi sem var byggt árið 1906 ásamt eiginmanni sínum Helga Ásbjörnssyni (1867-1953) en þau giftust árið 1905.
Húsið og jörðin voru komin í eigu athafnamannsins Eggerts Jónssonar frá Nautabúi í Skagafirði fyrir dauða Helga. Afkomendur Eggerts ákváðu að gefa Njarðvíkurbæ húsið við lát Jórunnar og erfingjar hennar gáfu innbúið.
Minnismerki um Jón Thorkellius í Innri-Njarðvík.
Merkir og þjóðkunnir menn eru af Innri-Njarðvíkur ættinni, nefna má, Jón Þorkelsson Thorkillius (1697-1759) kallaður faðir barnafræðslunnar á Íslandi og Sveinbjörn Egilsson (1791-1852), hann var fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík.
Ari Jónsson lét byggja kirkjuna upp að nýju árið 1827, var það fyrsta altimbraða kirkjan.
Árið 1811 verður Njarðvíkurkirkja annexía frá Kálfatjarnarkirkju en áður hafði henni verið þjónað frá Hvalsnesi í um eina öld. 1815 var það staðfest með lögum að Njarðvíkurkirkja skyldi vera lögð til Útskála, en kirkjan var þó þjónað frá Kálfatjörn.
Ásbjörn Ólafsson hafði forgöngu um að byggja nýja timburkirkju um 1859.
Árið 1884 var ljóst að sú kirkja þarfnaðist verulegra viðgerða, í kjölfarið var ákveðið að byggja steinkirkju.
Njarðvík – Áki Grenz.
Magnús Magnússon kallaður múrari átti heima í Miðhúsum í Garði, hafði lært steinsmíði við gerð Alþingishússins árið 1880-1881, hann var sjómaður, fórst 1887, 45 ára gamall, Ekki er vitað hverjir trésmiðir voru en máli var Árni Pálsson, faðir Ástu málara.
Grjótið var sótt í heiðina fyrir ofan byggðalagið og niður í Kirkjuvík, var dregið á sleðum þegar klaki og snjór voru.
Innri-Njarðvíkurkirkja.
Árið 1917 var Innri Njarðvíkurkirkja lögð niður, en sóknin lögð til Keflavíkur. Árið 1943 vannst loks sú barátta að endurvekja kirkjuna og var þegar hafist handa, var farið í miklar viðgerðir, til dæmis var nýr turn settur á kirkjuna samkvæmt teikningum Guðjóns Samúelssonar. Búnir voru til nýir gluggar, þeir steyptir o.fl
Kirkjan var endurvígð 24. september 1944 eftir miklar viðgerðir. Kirkjan fór í gegnum annað viðgerðartímabil sitt á árunum 1980-1990 undir umsjón Harðar Ágústssonar og Leifs Blumenstein.
Stapakot, uppgert kotbýli frá fyrri tíð í Njarðvíkum og nútíma Víkingasafnið að baki.
Kirkjan er friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Heimild:
-Reykjanesbær, Innri-Njarðvík, Kirkjugarður og Thorkellinsgarður – Breyting á deiliskipulagi. Húsakönnun 2020.
Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.