Tag Archive for: ísaldarjökull

Steðji

Ísaldarminjar eru ummerki um ýmiss konar jarðfræðileg fyrirbæri sem mynduðust fyrir meira en 10.000 árum þegar jöklar huldu landið að hluta eða öllu leyti. Hérlendis eru ísaldarminjar ýmiskonar jarðgrunnsmyndanir rofummerki á berggrunni og ummerki um eldvirkni undir jökli. Elstu ísaldarminjar hér á landi eru 4–5 milljóna ára gamlar og er þar um að ræða jökulbergslög sem finnast á milli hraunlaga í jarðlagasniðum.

Grettistak

Grettistak á Reykjanesskaga.

Síðasta ísöld hófst fyrir um 2,6 milljónum ára og henni lauk fyrir um 10.000 árum. Ekki var þó um einn fimbulvetur að ræða heldur skiptust á jökulskeið (kuldaskeið) og hlýskeið. Í setlögum og bergmyndunum í jarðlagastöflum, til dæmis austur í Jökuldal, Borgarfirði og Tjörneslögunum norðan Húsavíkur, eru varðveitt ummerki um 14–16 jökulskeið.

Jökulruðningur

Jökulruðningur og -rákir í Fossvogi.

Þær ísaldarminjar sem eru mest áberandi hérlendis eru frá síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir um 100.000 árum og eru þær flestar og mestar frá ísaldarlokum, fyrir um 10.000–15.000 árum, þegar umhverfi og veðurfar færðist smám saman í það horf sem það er í dag.

Helstu ísaldarminjar landsins eru eftirfarandi:
• Jökulruðningur og landform sem jökullinn hefur myndað úr honum, til að mynda jökulgarðar og aflangar jökulöldur og jökulkembur sem vitna um tilvist, stefnu og meginþunga ísstrauma ísaldarjökulsins.

Móberg

Móbergsmyndanir.

• Grettistök eru sérstaklega áberandi á ákveðnum hálendissvæðum. Þau bera vott um lítið lausefni undir jöklinum á þessum svæðum en um leið mikilvirkt plokk jökulsins úr berggrunninum undir jökulhvelinu.

• Jökulrákir, hvalbök og grópir eru dæmi um rofform á berggrunni sem vitna einnig til um stefnu ísflæðis og rofmátt ísaldarjökulsins.
Á stöku stað, til dæmis á Melrakkasléttu, finnast jökulrákir með tveimur til þremur mismunandi stefnum.

Jökurispur

Jökulrispur í Heiðmörk.

Slíkt er talið merki þess að ísaskil hafi flust og skriðstefna jökuls þar með breyst vegna breytinga á stærð og útbreiðslu ísaldarjökulsins.
• Stærri form og landslagseinkenni í berggrunni landsins, eins og flestir dalir og firðir, eru grafnir og mótaðir af jöklum á mörgum jökulskeiðum, með aðstoð vatns, frostveðrunar og hrunvirkni.
• Móbergsmyndanir, til dæmis hryggir og stapar, myndast við gos undir jökli og eru áberandi við gosbelti landsins. Þær geta gefið upplýsingar um útbreiðslu og þykkt jökulsins við myndun þeirra.

Borgarholt

Borgarholt í Kópavogi.

Frostveðrun var mjög virk í fimbulkulda jökulskeiðanna en talið er að ákveðin svæði hafi verið íslaus í lengri tíma, til dæmis hærri fjöll og annes. Af þeim sökum er berggrunnurinn á slíkum svæðum oft mjög sprunginn og molinn, hriplekur og jafnvel óstöðugur í brattlendi.

Sveifluháls

Móbergsháls (Sveifluháls) á Reykjanesskaga – Kleifarvatn.