Á vefsíðu Landsbókasafns Íslands er að finna nokkra áhugaverða tengla með innleiðingu á gagnmargt efni. Einn þeirra er kortavefurinn. Hér eru tekin nokkur dæmi um Íslandskort frá 16. og 17. öld er finna má á vefsíðunni.
Septentrionales Regiones
Íslandskort 1539.
Höfundur: Sebastian Münster
Útgáfutímabil: 1545 – 1572
Árið 1539 markar ákveðin tímamót í sögu kortagerðar af Norðurlöndunum. Það ár kom út í Feneyjum kort af löndunum í norðri eftir sænska klerkinn Olaus Magnus. Kortið var prentað eftir tréskurði á níu blöðum og er eitt að stærstu kortum síns tíma eða 125×170 sm. Lítið er vitað um hvað Olaus hafði fyrir sér þegar hann vann að gerð kortsins. Hann hafði ferðast um Svíþjóð og Noreg og hafði því yfir meiri vitneskju að ráða um þetta svæði heldur en fyrri kortagerðarmenn enda slær kort hans öll önnur út. Um heimildir að Íslandsgerð kortsins hafa menn getið sér þess til að Olaus hafi leitað til Hansakaupmanna og fengið hjá þeim upplýsingar um landið. Carta marina, eins og kortið er kallað á latnesku, er prýtt fjölda mynda. Hafið er krökkt af hvölum, ófreskjum og skipum og í landi eru myndir úr þjóðlífi, atvinnuvegum og náttúru. Íslandsgerð Norðurlandakorts Olaus Magnus ruddi sér skjótt til rúms og þokaði eldri kortum úr sessi. Þó að nýjar gerðir kæmu fram undir lok 16. aldar var komið fram á hina 17. þegar áhrifa þess hætti að gæta. Þýski fræðimaðurinn Sebastian Münster var einn af þeim fyrstu sem tóku sér hið nýja kort til fyrirmyndar og komu því á framfæri. Í frægustu bók hans, Cosmographia. Beschreibung aller Lender, er að finna Norðurlandakort sem er lauslega sniðið eftir korti Olausar. Kortið er prentað eftir heldur ósnotru tréskurðarmóti enda er Ísland (Iszland) frekar óliðlega gert. Megindráttum landsins svipar til Olaus en allt er með fátæklegra sniði enda stærðarmunur talsverður. Eina örnefnið er Heckl’berg (Hekla). Norðurlandakortið var prentað óbreytt í þýskum endurprentunum Kosmógrafíunnar og í latneskum útgáfum með heiti á því máli, Septentrionales regiones.
Islandia
Íslandskort 1548.
Höfundur:Hieronymus Gourmont
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1548
Franskur kortasali í París, Hieronymus Gourmont, gaf árið 1548 út eftirmynd af Íslandshluta Norðurlandakorts Olaus Magnus. Í ramma niðri í hægra horninu er prentaður í dálítið breyttri gerð hinn latneski skýringartexti sem fylgdi korti Olausar. Í efra horninu til vinstri er stutt landlýsing sem er líka að mestu sótt til Olausar. Á skipi á kortinu sést ártalið 1546 og er líklegt að myndamótið sé gert þá þó að prentun drægist í tvö ár. Ef litið er á kortið í heild sést að það er allgóð eftirgerð af Íslandi eins og það birtist á Carta marina. Ísafjörður hefur verið færður aðeins norðar og dýraheiti færð yfir í lesmálstexta. Einu örnefni hefur verið bætt við, eldfjall sem er nafnlaust á Norðurlandakortinu er búið að fá nafnið Helgefelt. Aðeins eitt eintak hefur komið í leitirnar af korti Gourmonts og er það varðveitt í Grossherzogliche Bibliothek í Weimar. Kortið sem hér er sýnt er eftirmynd frá síðari öldum.
Septentrionalivm partivm nova tabvla
Íslandskort 1561.
Höfundur: Nicolo Zeno/Girolamo Ruscelli
Útgáfuland:Ítalía
Útgáfuár: 1561
Kort Nicolo Zeno úr ferðasögu hans var endurprentað eftir eirstungu í feneyskum útgáfum á Landafræði Ptolemeusar, þeirri fyrstu frá 1561. Kortið hefur verið minnkað nokkuð og lagfært og mun útgefandi bókarinnar, Girolamo Ruscelli, hafa séð um það. Helstu breytingar eru þær að Grænland er skilið frá Norður-Evrópu en í kjölfar nýlegra siglinga Englendinga á þeim slóðum var óstætt að hafa slíkt landsamband á kortinu. Lengdarbaugar eru markaðir en þeir voru ónúmeraðir á frumkortinu. Nokkrum nöfnum er sleppt og öðrum breytt.
De Islanda Insvla
Íslandskort 1566.
Höfundur: Fernando Bertelli
Útgáfuland: Ítalía
Útgáfuár: 1566
Á Ítalíu, á síðari hluta 16. aldar, voru gerð nokkur sérkort af Íslandi, öll prentuð eftir svipuðu myndamóti. Ítalskir kortagerðarmenn voru um þessar mundir í kapphlaupi um að ryðja á markaðinn nýjum kortum. Kortin hafa engan mælikvarða og þau eru ekki heldur gráðumerkt. Í stuttri málsgrein í efra horni vinstra megin segir að landið sé 200 skoínur frá norðri til suðurs. Kortin eru greinilega minnkaðar eftirmyndir Íslandshluta Norðurlandakorts Olaus Magnus frá 1539.
De Islandia Insvla
Íslandskort 1570.
Útgáfuland: Ítalía
Útgáfuár: 1570 (um það bil)
Á Ítalíu, á síðari hluta 16. aldar, voru gerð nokkur sérkort af Íslandi, öll prentuð eftir svipuðu myndamóti. Ítalskir kortagerðarmenn voru um þessar mundir í kapphlaupi um að ryðja á markaðinn nýjum kortum. Kortin hafa engan mælikvarða og þau eru ekki heldur gráðumerkt. Í stuttri málsgrein í efra horni vinstra megin segir að landið sé 200 skoínur frá norðri til suðurs. Kortin eru greinilega minnkaðar eftirmyndir Íslandshluta Norðurlandakorts Olaus Magnus frá 1539.
Thyle
Íslandskort 1576.
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1576
Kort af Íslandi úr útgáfu á bókum þeirra Pompionusar Mela, De orbis situ, og Gajusar Juliusar Solinus, Polyhistor, á vegum Sebastians Henricpetri árið 1576. Það er mjög líkt korti úr Rudimenta cosmographica eftir Johannes Honter frá 1561 og er sennilega eftirgerð þess.
Gemeine beschreibung aller Mitnächtigen Länder/alsz/Schweden/Gothen/Nordwegien/Dennmarck/rc
Íslandskort 1588.
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfutímabil: 1588 – 1628
Kosmógrafía Sebastians Münsters var gefin út af stjúpsyni hans, Henri Petri. Þegar hann lést árið 1579 tók Sebastian, sonur hans, við útgáfunni. Honum þótti tími til kominn að endurnýja kort bókarinnar áður en hún væri gefin út að nýju. Ekki er vitað hver tók verkið að sér en sá gerði 26 landabréf með kort Abrahams Orteliusar í Theatrum orbis terrarum að undirstöðu og litu þau fyrst dagsins ljós í útgáfu Kosmógrafíunnar 1588. Norðurlandakort Münsters birtist nú í gjörbreyttri mynd og líkist mjög Norðurlandakorti Orteliusar enda er það kort fyrirmyndin. Svo kann að virðast við fyrstu skoðun að höfundur sýni einhverja viðleitni til að auka á margbreytileika strandlengju Íslands. Á norðvesturhorn landsins er kominn skagi, tengdur mjóu eiði við meginlandið og myndar hann mikinn flóa fyrir Norðurlandi. Mikill fjallgarður er dreginn á mitt landið og tvö af þremur stöðuvötnum, gömlum arfi frá Olaus Magnus, eru orðin að fjörðum á suður- og austurströndinni. Ekki ber að taka því svo að bak við þessa tilburði liggi ný vitneskja um Vestfirði og miðhálendi landsins.
Islandia
Íslandskort 1595.
Höfundur: Gerhard Mercator
Útgáfuland: Holland
Útgáfutímabil: 1595 – 1630
Gerhard Mercator var einn frægasti kortagerðarmaður sinnar tíðar. Ef hann er borinn saman við samtímamann sinn, Abraham Ortelius, má segja að hann hafi fremur tekið mið af staðreyndum á meðan Ortelius hafði mestan huga við það að kort hans gengju í augu kaupenda. Ísland kemur fyrir á Evrópukorti hans frá 1554 og heimskorti frá 1569. Á þeim er landið af þeirri fornu gerð sem á uppruna sinn að rekja til Olaus Magnus.
Árið 1595 kom út kortasafn eftir hann undir nafninu Atlas, sive cosmographicæ meditationes de fabrica mvndi et fabricati figvra. Í kortabók þessari er að finna kort af Íslandi greinilega byggt á Íslandsgerð Guðbrands Þorlákssonar biskups. Ekki er vitað eftir hvaða leiðum kort biskupsins, eða eftirmyndir þess, barst Mercator í hendur. Ortelius og Mercator voru vinir en Mercator virðist ekki taka Íslandskort Orteliusar, sem kom út fimm árum fyrr, beint upp, til þess ber of mikið á milli kortanna. Hins vegar virðist augljóst að þeir hafi báðir notað sama eða svipað forrit. Vitað er að Mercator var í sambandi við danska stjórnmála- og lærdómsmanninn Henrik Rantzau en hann hafði verið honum hjálplegur við öflun korta af Norðurlöndunum. Í þeim bréfum á milli þeirra sem varðveist hafa er í rauninni hvergi minnst á Ísland en ekki er ólíklegt að Rantzau hafi útvegað Mercator eintak af Íslandsgerð Guðbrands. Kunningsskapur Rantzau og Anders Vedel eykur líkurnar á því.
Áður hefur verið minnst á að talsverður munur er á kortum Orteliusar og Mercators. Hnattstaða er að vísu svipuð en landið lendir aðeins norðar en hjá Orteliusi og því fjarri sanni. Lengd landsins frá austri til vesturs styttist um nær sex gráður en samt er það ennþá of langt ef miðað er við breiddina. Samanburður beggja gerða, Orteliusar og Mercators, virðist benda til þess að annmarkarnir eigi að verulegu leyti rót sína að rekja til frumkorts Guðbrands biskups. Þó að strandlínur Mercators séu of kantaðar og beinar og boglína Austfjarða komist ekki til skila þá er landið þó að mörgu leyti betur gert en hjá Orteliusi. Það er allt samanþjappaðra og ekki eins sundurtætt, firðir og skagar eru minna áberandi, fljótin ekki jafn mikilfengleg og eldgangur Heklu hóflegri. Miklu munar að ófreskjurnar í hafinu eru horfnar, allar nema ein, og hafísinn, rekaviðurinn og ísbirnirnir líka. Kortið verður þannig traustara og einfaldara að allri gerð en að sama skapi ekki jafn skrautlegt. Þetta gæti bent til þess að kort Mercators standi nær frumgerðinni að þessu leyti.
Örnefni eru fleiri hjá Mercator en Orteliusi eða nálægt 290. Þegar kemur að framsetningu þeirra virðist hann hverfa meira frá frumkortinu. Þingvöllur verður t. d. Finguollur hjá Orteliusi en Bingnottr hjá Mercator. Sumsstaðar hefur verið gripið til þess ráðs að setja styttingu nafns skammt frá réttari mynd þess: Hualfiord (Hvalfjörður) og Hual og Bittkfiord (Bitrufjörður) og Bittk. Ekki er vitað hvort Mercator eða einhverjir milligöngumenn eiga sök á þessu. Nokkrar lesmálsgreinar eru á kortinu, fyrir neðan Mývatn stendur t. d. Hier Ikin natsell sunnatzt (þ. e. Hér skín náttsól sunnast). Ekki þarf að efa að þessi frásögn hafi í öndverðu komið frá höfundinum sjálfum. Neðst í vinstra horninu sést að mælikvarði er í þýskum mílum en mílan mun hafa verið nálægt 7,5 km.
Aftan á kortinu, eða á fyrstu síðu sé það brotið saman, er stutt og frekar rýr lýsing á landinu. Síðar þegar útgáfa kortasafnsins komst í hendur Jodocusar Hondiusar var frásögn þessi mjög aukin. Margt í textanum er sótt til Orteliusar en annars er hann uppsuða úr verkum ýmissa höfunda, þ. á m. Brevis commentarivs eftir Arngrím lærða.
Kortasafn Mercators kom út að honum látnum og það kom því í hlut annarra að halda útgáfunni áfram. Árið 1604 keypti Jodocus Hondius eldri myndamótin og frá hendi hans og fjölskyldu hans rak nú hver útgáfan aðra á hinum ýmsu tungumálum. Þær fyrstu voru allar á latnesku eða frönsku en síðan bættust við hollenskar, þýskar og enskar gerðir. Þetta jók mjög hróður bókarinnar en alls mun Íslandskort Mercators hafa verið prentað í 20 útgáfum kortasafnsins. Árið 1630 var það tekið út og kort Jorisar Carolusar sett í staðinn. Kortasafn Mercators var bók í stóru broti og ekki handhæg í notkun. Hondius brást við þessu með því að gefa hana út í minna broti undir nafninu Atlas minor 1607. Fordæmi voru fyrir slíkum smækkuðum útgáfum, það sama hafði verið gert við kortabók Orteliusar og fleiri bækur. Í litla brotinu er kortið stórlega minnkað og nöfnum fækkað. Atlas minor kom út í 23 útgáfum á árunum 1607-1676.
Íslandskort Mercators hafði minni áhrif á síðari kortagerðarmenn en kort Orteliusar og geldur hann þess eflaust að vera seinna á ferðinni.
Islandia
Íslandskort 1601.
Höfundur: Johannes Vrients
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1601
Kortasafn Abrahams Orteliusar, Theatrum orbis terrarum, var dýr bók í stóru broti og frekar óþjál í meðförum. Þegar Ortelius lést árið 1598 komst útgáfurétturinn á safni hans í hendur Johannesar Vrients. Hann lét prenta smækkaða gerð þess undir nafninu Epitome Theatri Orteliani sem aðrir höfðu í rauninni byrjað að gefa út áður. Kortið er úr einni slíkri útgáfu, það er ekkert annað en smækkuð útgáfa af Íslandskorti Orteliusar. Ýmsu hefur orðið að fórna við þessa breytingu á stærð, eins og t. d. mörgum örnefnum og öllum fyrirbærunum á hafinu.
Estotilandia et Laboratoris Terra
Íslandskort 1611.
Höfundur: Cornelis van Wytfliet
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1611
Cornelis van Wytfliet var lögfræðingur og ráðstofuritari í Brabant. Talið er að hann hafi ritað ýmislegt, einkum landfræðilegs efnis, en aðeins eitt af ritum hans birtist á prenti: Descriptionis Ptolemaicæ avgmentvm siue Occidentis notitia. Frönsk þýðing var prentuð 1605, 1607 og 1611.
Kortið nær ekki lengra til austurs en að núllbaug um Kanaríeyjar svo að eystri helmingur Íslands fellur utan takmarka þess. Nöfn eru aðeins sjö og af gerð Orteliusar.
Descriptio Islandiæ
Íslandskort 1616.
Höfundur: Petrus Bertius/Jodocus Hondius
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1616
Kort úr útgáfu Jodocusar Hondiusar á P. Bertii Tabularum geographicarum contractarum. Mestu munar hér frá fyrri kortum að gerð þeirra víkur meira frá Orteliusi til Mercators. Á kortinu eru 140 nöfn, öll sótt til Mercators-kortsins.
Island
Íslandskort 1625.
Höfundur: Jodocus Hondius
Útgáfuland: England
Útgáfuár: 1625
Á árunum upp úr 1621 voru myndamótin að Atlas minor, minnkaðri gerð kortasaf
ns Gerhards Mercators, seld til Lundúna og birt í ferðasögusafni Samuel Purchas, Hakluytus Posthumus or Purchas His Pilgrimes, sem Henry Featherstone gaf út 1625. Kortið er nákvæmlega eins og í frumútgáfunni frá 1607.
Islandia
Íslandskort 1628.
Höfundur: Johannes Janssonius
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1628
Í byrjun 17. aldar var hafin útgáfa á smækkaðri gerð af kortasafni Gerhards Mercators. Bókin kom fyrst út 1607 og nefndist Atlas minor. Árið 1628 hóf Johannes Janssonius nýja útgáfu á henni þar sem búið var að stinga öll kortin í eir að nýju af þeim Petrus Kaerius og Abraham Goos.
Islandia
Íslandskort 1630.
Höfundur: Johannes Cloppenburg
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1630
Kort úr útgáfu Cloppenburgs á smákortaatlas Gerhards Mercators undir nafninu L’Atlas de Gerard Mercator. Flest kortin hafa verið stungin í eir á ný af Petrus Kaerius og stækkuð aðeins.
Regiones svb Polo Arctico
Íslandskort 1640.
Höfundur: Willem Janszoon Blaeu
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1640
Pólkort sem birtist fyrst í viðaukabindi við kortasafn Blaeus, Atlantis appendix. Kortið er í stereografísku ofanvarpi og Ísland af þeirri gerð sem hefur verið rakin til Guðbrands biskups Þorlákssonar. Örnefni eru átta.
Nova et accvrata Poli Arctici
Íslandskort 1645.
Höfundur: Johannes Janssonius
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1645
Endurprentun Janssoniusar á pólkorti Blaeus með nýjum titli. Birtist í einhverju kortasafna hans.
Islandia
Íslandskort 1648.
Höfundur: Jean Boisseau
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1648 (um það bil)
Af Íslandskorti Guðbrands Þorlákssonar biskups í gerð Abrahams Orteliusar er til óársett eftirmynd. Kortið, sem er prentað eftir nýju myndamóti, er örlítið minna en frumgerðin og líkt henni að flestu leyti. Ófreskjurnar og fyrirbærin á hafinu eru öll á sínum stað en stafirnir A til Q sem mörkuðu þau eru horfnir enda fylgir kortinu enginn skýringartexti. Einnig er horfin tileinkun Vedels til Friðriks II í neðra horninu hægra megin og staðinn komin stutt frásögn af landinu.
Höfundur þessarar eftirmyndar var löngum ókunnur og voru ýmsir nefndir til sögunnar. Nú er talið að hann hafi verið franskur landfræðingur að nafni Jean Boisseau og að kortið sé úr ritinu Théatre géographique du royaume de France.
Typus Maritimus Groenlandiæ, Islandiæ, Freti Davidis, Insulæ Iohannis Mayen et Hitlandiæ, Scotiæ et Hiberniæ litora maritima septentrionalia
Höfundur: Johannes Janssonius
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1650 (um það bil)
Groenland et les novvelles terres descovvertes vers le septentrion
Höfundur: Philip Briet
Útgáfuár: 1653 (um það bil)
Pas-caerte van Groenland, Ysland, Straet Davids en Ian Mayen eyland
Íslandskort 1661.
Höfundur: Johannes van Loon
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1661 (um það bil)
Lootsmans-feðgar hófu sjókortagerð í samkeppni við Blaeu og Janssonius um miðja 17. öld. Frá hendi þeirra eru nokkur söfn sjókorta sem komu út á ýmsum tungumálum. Johannes van Loon var einn af mörgum kortagerðarmönnum sem tóku kort Lootsmans-feðga nær óbreytt upp í sjókortasöfn sín.
Íslandi bregður fyrir á nokkrum korta feðganna, þ. á m. þessu Grænlandskorti. Gerð Guðbrands biskups hefur verið höfð að undirstöðu, sennilega um hendur Jorisar Carolusar. Eyjan, Enchuyser eylandt, fyrir miðjum Austfjörðum er sótt til sjókorts Carolusar. Af beinum vanskapnaði er helst að geta þess að Ísafjarðardjúp er allt of breitt og Vestfirðir eru í þann veginn að klofna í tvo mikla skaga, eins og síðar varð. Þegar tímar liðu komst sá háttur á um Íslandsgerðir hinna almennu kortasafna.
L’Islande
Íslandskort 1663.
Höfundur: Pierre Duval
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1663
Pierre Duval var tengdasonur og lærisveinn Nicolas Sanson, eins af frægustu kortagerðarmönnum Frakka. Eftir hann liggur þó nokkuð af landabréfasöfnum en einnig gerði hann kort sem voru birt sérstaklega í ýmsum bókum, ferðasögum og öðrum ritum af landfræðilegum toga. Þetta kort birtist í einu slíku riti, Relation de l’Islande eftir Isaac de la Peyrère sem kom út 1663. Bókin fjallar um Ísland eins og nafnið bendir til og er flest í henni sótt til Arngríms lærða Jónssonar. Ekki er vitað hvenær kortið er gert en það er líklega dregið beint upp eftir korti Jorisar Carolusar en ekki Íslandskorti Nicolas Sanson sem virðist því ekki vera tilbúið á þessum tíma. Duval hefur fært staðarnöfn til franskra hátta og breytt nafni annars biskupsstólsins til betri vegar, úr Halar í Hola. Tvö ný örnefni koma nú í fyrsta skipti fyrir á korti en það eru Papei vestan Hvammsfjarðar og Sneland meðfram Lagarfljóti. Vitneskju um þau má sennilega rekja til Arngríms lærða, sem getur bæði Snælands og papa.
Isle d’Islande
Íslandskort 1667.
Höfundur: Nicolas Sanson
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1667
Nicolas Sanson de Abbeville, eins og hann hét fullu nafni, lagði grunninn að blómaskeiði franskrar kortagerðar á síðari hluta 17. aldar. Kort Sansons sjálfs þykja í rauninni ekkert afbragð og það var ekki fyrr en í höndum arftaka hans að þau tóku þeim breytingum sem leiddu franska kortagerð til öndvegis. Merkast af því sem liggur eftir Sanson hvað Ísland snertir er þetta sérkort af landinu árfært 1667. Á titilfeldi þess segir að það sé gert eftir Íslandskortum Anders Sørensen Vedel (Andreas Velleius); þ. e. a. s. Abrahams Orteliusar en kort hans var löngum kennt við Vedel, og Jorisar Carolusar. Sanson hefur sótt talsvert meira til Carolusar en Orteliusar, þ. á m. lögun landsins og flest örnefni. Það sem hefur verið tekið frá Orteliusi er aðallega frábrugðnar nafnmyndir hans og er þeim skipað við hlið sömu nafna Carolusar. Ýmsum efnisþáttum á korti Carolusar er sleppt enda hefur það verið minnkað um nær helming.
Poli Ar[c]tici, et circum[iace]ntium terrarum descriptio novis[s]ima
Íslandskort 1680.
Höfundur: Frederick de Wit
Útgáfuár: 1680 (um það bil)
Kortið af heimskautslöndunum er af nýrri gerð, sem ekki hefur komið fram áður, þótt landaskipunin sé um flest að hætti Willem Barents eða frá árunum kringum aldamótin 1600.
Birtist fyrst í enskri útgáfu af kortasafni Mercators 1636. Frederick de Wit gerði löngu síðar eftirmyndir af kortinu á lausum blöðum. Þær komu út einhvern tíma nálægt 1680.
Decowerte de la Groenlande
Íslandskort 1683.
Höfundur: Alain Manesson Mallet
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1683
Kort úr heimslýsingu, Description de l’univers, eftir franska landfræðinginn Mallet. Ísland er frekar lítill hluti kortsins og án örnefna.
Die Insel Island
Íslandskort 1686.
Höfundur: Alain Manesson Mallet
Útgáfuland: Þýskaland
Útgáfuár: 1686
Lýsing heimsins eftir Mallet var gefin út með þýskum heitum auk hinna frönsku og nefndist þá Welt-Beschreibung. Íslandskortið er úr þeirri útgáfu en það er spegilmynd af landabréfinu í frumútgáfunni. Myndamótið hefur verið gert beint eftir því og þess vegna snýr allt öfugt þegar platan er prentuð.
The North West Part of America
Íslandskort 1688.
Höfundur: Robert Morden
Útgáfuland: England
Útgáfuár: 1688
Undir lok 17. aldar skýtur upp á Englandi sérstöku afbrigði Íslandsgerðar. Landið er kantaður ferhyrningur, rösklega helmingi lengri frá austri til vesturs en breiddinni svarar. Á þessu korti er landið svo lítið að erfitt er að átta sig á hvað vakir fyrir höfundinum.
Kortið kemur úr bókinni Geography Rectified.
Isola d’Islanda
Íslandskort 1692.
Höfundur: Vincenzo Coronelli
Útgáfuland: Ítalía
Útgáfutímabil: 1692 – 1694
Coronelli er kunnastur fyrir jarð- og himinlíkön sín og landabréfasafn sitt, Atlante Veneto, sem kom í 13 bindum á síðasta áratug 17. aldar. Þetta kort birtist í því og einnig í Corso geografico universale. Hægt er þekkja kortin úr Atlante Veneto og Corso geografico universale í sundur á því að það úr fyrri bókinni er með titilfeld efst í hægra horninu en hitt ekki.
Þegar ýmis minni háttar ónákvæmni er undanskilin er kortið allgóð eftirmynd af korti Jorisar Carolusar. Stafsetning örnefna bendir til þess að Coronelli hafi fremur haft fyrir augunum gerð Johannesar Janssoniusar heldur en Willem Janszoon Blaeus.
Isle d’Islande
Íslandskort 1698.
Höfundur: Nicolas Sanson
Útgáfuland: Frakkland
Útgáfuár: 1698
Nicolas Sanson de Abbeville, eins og hann hét fullu nafni, lagði grunninn að blómaskeiði franskrar kortagerðar á síðari hluta 17. aldar. Kort Sansons sjálfs þykja í rauninni ekkert afbragð og það var ekki fyrr en í höndum arftaka hans að þau tóku þeim breytingum sem leiddu franska kortagerð til öndvegis. Merkast af því sem liggur eftir Sanson hvað Ísland snertir er þetta sérkort af landinu árfært 1667 (kortið var prentað oftar en einu sinni, t. d. árið 1698). Á titilfeldi þess segir að það sé gert eftir Íslandskortum Anders Sørensen Vedel (Andreas Velleius); þ. e. a. s. Abrahams Orteliusar en kort hans var löngum kennt við Vedel, og Jorisar Carolusar. Sanson hefur sótt talsvert meira til Carolusar en Orteliusar, þ. á m. lögun landsins og flest örnefni. Það sem hefur verið tekið frá Orteliusi er aðallega frábrugðnar nafnmyndir hans og er þeim skipað við hlið sömu nafna Carolusar. Ýmsum efnisþáttum á korti Carolusar er sleppt enda hefur það verið minnkað um nær helming.
Novissima Islandiæ tabula
Íslandskort 1700.
Höfundur: Peter Schenk/Gerard Valk
Útgáfuland: Holland
Útgáfuár: 1700 (um það bil)
Kort þetta er enn ein útgáfan á Íslandskorti Jorisar Carolusar sem kom fyrst fyrir sjónir manna 1630. Kortið er prentað eftir myndamóti Johannesar Janssoniusar en þau voru nú aftur komin til Hollands eftir að hafa verið í eigu Englendingsins Moses Pitt um hríð. Kortið er óársett og ekki kunnugt hvenær það var prentað en Schenk og Valk ráku útgáfufyrirtæki í Amsterdam.
Heimild:
-https://islandskort.is
Ísland.