Tag Archive for: íslendingasagnir

Íslandskort

Samkvæmt Íslendingabók var Ísland fyrst numið af norskum og gelískum (skoskum og írskum) landnemum undir lok níundu aldar og á tíundu öld. Fornleifarannsóknir virðast staðfesta þessa frásögn í meginatriðum.

Íslandskort 1544

Íslandskort 1544.

Á Vísindavefnum má lesa eftirfarandi svar við spurningunni „Hver gaf Íslandi nafn?
„Ísland hefur gengið undir nokkrum nöfnum. Í fornöld, líklega einhvern tíma á árunum 330 til 320 f. Kr., sigldi gríski landkönnuður Pýþeas frá Massalíu og norður til Bretlandseyja. Í heimildum kemur fram að eftir að hann kom þangað hafi hann siglt í sex daga í norður og komið þá að landi sem var umlukið hafís. Nefndi hann landið Thule sem í fornu máli merkti oftast staður eða eyja. Sumir hallast að því að hann hafi í raun fundið Ísland en engar óyggjandi sannanir eru til fyrir því að um Ísland hafi verið að ræða. Á ýmsum kortum frá miðöldum er Ísland merkt sem Thule.

Íslandskort

Íslandskort 1548.

Fyrir hið eiginlega landnám Íslands bjuggu hér líklega írskir einsetumenn, kallaðir Papar, og hafa þeir án efa notað eitthvert nafn um landið sem þeir dvöldu á. Það nafn hefur þó ekki varðveist í heimildum.
Um miðja 9. öld kom landnámsmaðurinn Naddoddur til „Íslands“ sem samkvæmt hans vitneskju hét ekki neitt. Hann kom að landi í Reyðarfirði á Austurlandi og sá snæviþakin fjöll og gaf landinu nafnið Snæland.
Seinna kom hingað Garðar Svavarsson sem var sænskur maður að ætt. Hann nefndi landið upp á nýtt og kallaði það Garðarshólma, í höfuðið á sjálfum sér.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Tilvist landsins í vestri spurðist út á vesturströnd Noregs og hélt Flóki Vilgerðarson, norskur maður, af stað til að finna landið. Flóki er betur þekktur sem Hrafna-Flóki en þjóðsagan segir að hann hafi notast við þrjá hrafna til þess að rata til landsins. Á leiðinni sleppti hann einum í senn til að vísa sér veginn. Sá fyrsti flaug til baka til Noregs en annar hrafninn flaug upp og settist niður á skipið aftur þar sem hann sá ekkert land. Sá þriðji flaug áfram og í átt að Íslandi, sem þá hét reyndar ekki Ísland.
Með Flóka í för voru meðal annarra bændurnir Þórólfur og Herjólfur. Þeir komu að landi í Vatnsfirði á Barðaströnd og var fjörðurinn fullur af veiðiskap. Svo mikil var veiðin að Hrafna-Flóki og menn hans gleymdu að heyja um sumarið með þeim afleiðingum að allar skepnur þeirra drápust um veturinn. Flóki gekk upp á fjall eitt í Vatnsfirði og sá þá ofan í annan fjörð, líklega Arnarfjörð, og var hann fullur af hafís.

Íslandskort

Íslandskort 1571.

Í 2. kafla Landnámu segir að eftir þetta hafi Hrafna-Flóki og menn hans nefnt landið Ísland. Hrafna-Flóki hafði litlar mætur á landinu. Í Landnámu segir að hann hafi siglt aftur til Noregs með mönnum sínum:
Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið (Landnámabók, 2. kafli).
Samkvæmt Landnámu voru það því Hrafna-Flóki, Þórólfur og Herjólfur sem nefndu landið fyrst Ísland.“

Í raun og veru hefur „Íslandi“ aldrei verið gefið það eiginnafn. Á gelísku þýðir orðið „island“ eyja. Svo mun og vera á öðrum skyldum tungumálum. Þegar Flóki gekk upp á fjallið ofan Vatnsfjarðar uppgötvaði hann að land það er hann stóð á var „Eyja“ og nefndi það því nafni. Alla tíð síðan hafa „Íslendingar“ (Eyjafólkið) farið villu vega.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6729#
-Landnámabók.
-Forn Íslandskort. Sótt 10.1.2010.

Íslandskort

Íslandskort 1713.