Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur, skrifaði grein í Skírni árið 1994 undir yfirskriftinni „Íslenskar fornleifar – Fórnarlömb sagnahyggjunnar?„:
„Frá því að Íslendingar fóru að gefa fornleifum gaum að einhverju marki í lok síðustu aldar og í byrjun þessarar, hafa þeir jafnan talið að þær væru bæði fáar og fátæklegar og harla ómerkilegar fyrir vitneskju okkar um sögu landsins. Í þessari grein mun ég andæfa þessu viðhorfi og halda því fram að íslenskar fornleifar geymi miklar og merkilegar upplýsingar sem nái langt út yfir sögu Íslands. Í framhaldi af því held ég því fram að íslensk fornleifafræði geti átt sér bjarta framtíð og skipað veglegan sess í evrópskri fornleifafræði, enda hafi hún efnivið sem fá lönd hafa önnur. Þetta er þó því skilyrði háð að fræðimenn hér á landi stundi fornleifafræði sem sjálfstæða grein vísinda en ekki sem ósjálfstætt hjálpargagn annarra fræðigreina.
Fornleifafrœði og sagnabyggja
Einfaldasta skilgreining á fornleifafræði er að hún sé sú fræðigrein sem fáist við áþreifanlega hluti úr fortíð og dragi af þeim ályktanir um hlutskipti mannsins á þeim tíma sem minjarnar rekja uppruna sinn til. Starf fornleifafræðings felst einkum í uppgreftri, skráningu og túlkun fornminja.
Markmið fræðigreinarinnar er að auka skilning okkar á fortíðinni. Þó ekki með hreinum lýsingum á gripum og húsum, heldur viljum við skilja ástæðurnar fyrir því að gripir og hús litu út eins og þau gera og af hverju þau tóku breytingum. Við viljum einnig vita um daglegt líf þess fólks, sem ber ábyrgð á hinni áþreifanlegu arfleifð. Hvernig nýtti það umhverfi sitt, hvernig lagaði það sig að breyttum aðstæðum og hvers vegna skóp það þessa sérstæðu menningu? Af hverju eiga breytingar sér stað yfirleitt? Getum við lært eitthvað af fortíð okkar?
Oft hefur verið staðhæft að Íslendingar þekki upphaf sitt betur en aðrar þjóðir, þar á meðal greftrunarsiði forfeðranna og þróun hýbýlahátta. Forsenda þessarar skoðunar er sú hugmyndafræði sem gegnsýrt hefur íslenska fornleifafræði frá upphafi og ég nefni sagnahyggju. Sagnahyggja er það viðhorf að ritaðar heimildir séu þýðingarmeiri en fornleifar fyrir sögu landsins. Sagnahyggjan kemur hvað skýrast fram hjá þeim sem telja Íslendingabók og Landnámabók mikilvægustu heimildir okkar um upphaf byggðar í landinu.
Kristján Eldjárn skrifar í anda sagnahyggjunnar: „Sú fornleifafræði, sem hægt er að stunda hér á landi, hlýtur að flokkast undir miðaldafornleifafræði, það er rannsókn fornleifa frá tímum, sem eru að einhverju leyti lýstir af rituðum heimildum“. Í doktorsritgerð sinni Kuml og haugfé skrifar Kristján ennfremur: „Eru fornleifar tímabilsins [þ.e.a.s. frá landnámsöld] engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar“.
Árið 1817 bað dönsk nefnd, Commissionen for oldsagers opbevaring, Íslendinga um yfirlit yfir fornleifar í landinu. Skrifaði hún til allra presta í landinu í þessu erindi. Þegar afraksturinn er athugaður er athyglisvert hve fáar fornleifarnar eru taldar og hversu ómerkilegar mörgum finnst þær vera. Svo ómerkilegar að á þær er ekki minnst yfirleitt.
Á seinni hluta 19. aldar, eftir að Hið íslenska fornleifafélag var stofnað árið 1879, var mikill fornleifaáhugi ríkjandi hér heima sem og erlendis. Fræðigreinin var þó ekki orðin til í þeim skilningi að hún væri kennd að einhverju marki í háskóla, þó að það hafi verið að breytast um þessar mundir.
Munurinn á þeim sem voru að fást við íslenska fornleifafræði og þeim sem fengust við evrópska var að höfuðheimildir Íslendinga voru ritaðar heimildir svo sem Íslendingasögur, Íslendingabók og Landnámabók. Erlendis voru það fornleifarnar sjálfar og gripir sem þær geymdu sem voru hið leiðandi afl í fræðunum. Hinar rituðu heimildir réðu algerlega ferðum hinna íslensku könnuða í leit þeirra að efnislegri staðfestingu hinna rituðu heimilda. Orðið könnuður er raunar lýsandi fyrir það starf sem þessir menn sinntu, enda fóru þeir vítt og breitt um Ísland í leit sinni að minjum heimildanna. Hinar rituðu heimildir stýrðu ferðum manna um landið.
Jón Sigurðsson forseti var einn áhrifamesti sagnfræðingur og stjórnmálamaður 19. aldar og mótaði hann að miklu leyti þá hefð að beita sögulegum röksemdum í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Sjálfur var hann að sumu leyti persónugervingur sjálfstæðisbaráttunnar. Hann hlaut því að hafa mikil áhrif á frumkvöðla íslenskrar fornleifafræði sem og aðra þá er fengust við sögu Íslands. Ísland var í bullandi sjálfstæðisbaráttu, eins og reyndar fleiri ríki í Evrópu, og sú staðreynd hafði mikil áhrif á sagnfræðina hér sem erlendis. Saga Íslands, og þá einkum sá tími sem glæsilegastur var talinn, fornöldin og þjóðveldistíminn, var notuð í sjálfstæðisbaráttunni gegn Dönum með beinum tilvísunum í einstaka atburði og kappa.
Einn athafnamesti fræðimaðurinn á þessu sviði um aldamótin var án efa Brynjúlfur Jónsson, kennari, frá Minna-Núpi í Rangárvallasýslu. Hann er einna þekktastur alþýðufræðimanna þeirra tíma, en eitt helsta einkenni þeirra er að, viðfangsefnið er yfirleitt ekki sett í stærra samhengi, fáar ályktanir dregnar, ekki settar fram neinar rannsóknarniðurstöður, og kenningar um markmið og framvindu sögunnar koma naumast fyrir.
Brynjúlfur fór óteljandi ferðir um landið og skoðaði fornleifar, en gróf lítið. Áhugi hans á fornsögunum var áberandi og stýrði algerlega vali hans á viðfangsefnum.
Í lok 19. aldar komu til landsins fyrstu íslensku sagnfræðingarnir, sem höfðu haft sagnfræði sem aðalgrein við háskóla. Árið 1911 var Háskóli Íslands stofnaður og maður ráðinn til kennslu- og rannsóknarstarfa á háskólastigi í sagnfræði, eða í íslenskum fræðum eins og greinin hét þá. Miðstöð íslenskrar sagnfræði færðist á þessum tíma frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur og þjóðernishyggja og rómantík settu svip á umræðuna.
Fyrstu fornleifafræðingarnir, sem höfðu haft fornleifafræði sem aðalfag við háskóla, komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en um miðbik 20. aldar og er Ólafía Einarsdóttir, síðar lektor í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla, trúlega fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Hún lauk fornleifafræðinámi árið 1950 við University College í London. Ólafía hafði engin teljandi áhrif á fornleifafræðina hér á landi enda sneri hún sér að öðrum viðfangsefnum stuttu síðar.

Þorkell Grímsson (1929-2010). Mynd frá Stöng, 1965, Ingólfur Stefánsson, Gísli Gestsson, Þorkell Grímsson og Hrólfur Ásmundsson.
Næstur til að ljúka námi í þessum fræðum var ugglaust Þorkell Grímsson, en hann lauk license-és-lettres námi í Montpellier í Frakklandi árið 1953. Hann lagði stund á fjórar greinar, listasögu, almenna sögu, fornleifafræði og forsögulega fornleifafræði, auk undirbúningsnáms í eitt ár. Eftir námið í Frakklandi dvaldi Þorkell í Þýskalandi, Danmörku og Englandi um hríð við nám í áðurnefndum fræðum. Nám Þorkels hefur óneitanlega yfirbragð klassískra fræða, þar sem ritaðar heimildir eru ekki síður mikilvægar en fornleifar. Þorkell starfaði fyrst í skamman tíma við Minjasafn Reykjavíkur (síðar Árbæjarsafn), en réðst síðan til Þjóðminjasafns Íslands árið 1958.
Þriðji í röðinni er Þór Magnússon, síðar þjóðminjavörður. Hann lauk fil. kand. prófi í fornleifafræði við Uppsalaháskóla í Svíþjóð árið 1962. Lokaritgerð hans fjallaði um þróun hýbýla á Íslandi frá öndverðu fram á síðmiðaldir og jafnvel lengur. Þór var settur safnvörður við Þjóðminjasafnið árið 1964 og fastráðinn 1965. Árið 1968 varð hann síðan þjóðminjavörður Íslands.
Sá sem hefur haft mest áhrif á íslenska fornleifafræði er dr. Kristján Eldjárn, fyrrum þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands. Kristján dvaldist í Kaupmannahöfn árin 1936-39 og lagði þar stund á tungumál fyrst um sinn en sneri sér síðan að fornleifafræði í byrjun árs 1937. Um sumarið sama ár bauðst honum að taka þátt í rannsóknarleiðangri til Grænlands sem aðstoðarmaður og dvaldi hann þar við fornleifauppgröft í tæpa þrjá mánuði. Sumarið 1939 tók hann þátt í samnorrænu fornleifafræðiverkefni í Þjórsárdal, sem var langstærsta verkefni af þessu tagi sem ráðist hafði verið í á Íslandi fram að því.
Síðla sumars það ár skall seinni heimsstyrjöldin á og Kristján varð um kyrrt á Íslandi án þess að ljúka námi í fornleifafræðum. Árið 1941 hóf hann nám í íslenskum fræðum við Háskóla íslands og lauk meistaraprófi í norrænum fræðum árið 1944. Doktorsritgerð sína Kuml og Haugfé ver Kristján við sama skóla árið 1956 og virðist Matthías Þórðarson hafa verið aðalstoð Kristjáns í þeim skrifum, en í formála ritgerðarinnar þakkar hann honum, Jóni Steffensen lækni og Gísla Gestssyni safnverði fyrir veittan stuðning ýmisskonar.
Kristján hóf störf fyrir Þjóðminjasafnið sumarið 1939 og var fastráðinn aðstoðarmaður þjóðminjavarðar árið 1945. Frá 1. desember 1947 var hann skipaður þjóðminjavörður og gegndi því embætti til ársins 1968, er hann varð forseti. Segja má að Kristján sé faðir íslenskrar fornleifafræði og hafi borið ægishjálm yfir aðra Íslendinga á þessu sviði. Enginn annar einstaklingur hefur náð að rjúfa þá rannsóknarhefð sem hann skóp og fáum af niðurstöðum hans hefur verið ögrað svo að heitið geti. Kuml og haugfé. Úr heiðnum sið á Íslandi, doktorsritgerð Kristjáns, er rit ritanna í íslenskri fornleifafræði. Hún er skrifuð í umhverfi þar sem hinar rituðu heimildir höfðu forgang, eins og merkja má af tilvitnuninni hér að framan. Ritgerðin er því einskonar afurð sagnahyggjunnar. En hún er einnig undir allsterkum áhrifum frá Noregi, bæði í sagnfræði og fornleifafræði.
Hugmyndir Sveinbjarnar Rafnssonar, prófessors og formanns fornleifanefndar árin 1990-94, um fátækleika íslenskra fornleifa eru einnig afurðir sagnahyggjunnar, en ég mun víkja að þeim síðar. Annarskonar dæmi um sagnahyggju er gerð Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal. Í þeirri byggingu ríkir mikil rómantísk trú á glæsileika fortíðarinnar, eins og hún kemur okkur gjarnan fyrir sjónir í Íslendingasögunum. Þar er hátt til lofts og skreytingar miklar. Gaflar rísa þar tignarlegir og þráðbeinir um fjögurra metra háir og gætu þeir verið að segja okkur að áður hafi meira að segja torfið verið betra til húsagerðar en síðar varð.
Það má ekki gleyma því að sagnahyggjan er fullkomlega eðlilegur þáttur í íslenskri fornleifafræði eins og hún hefur þróast. Hún á tilurð sína að þakka þeirri staðreynd að á Íslandi var fornleifafræði áður fyrr nær ætíð stunduð af áhugamönnum eða aðilum sem voru sannfærðir um sannleiksgildi hinna rituðu heimilda.
Upphaf fræðigreinarinnar sjálfrar má tengja beint við áhuga manna á fornsögunum og þau tengsl hafa varla slitnað enn. Helstu frumkvöðlar í íslenskri fornleifafræði voru ekki aldir upp við fornleifafræðilegan hugsunarhátt. Hjá þeim skipuðu fornleifarnar sjálfar og gripir ekki þann sess sem tíðkaðist erlendis. Menntun þeirra var á sviði tæknifræði, íslenskra eða norrænna bókmennta, sagnfræði og jarðfræði. Í þessum hópi voru bændur, prestar, kennarar og listamenn.
Þeir örfáu sem luku síðar grunnnámi í fornleifafræði fyrir árið 1980 og héldu heim til Íslands voru án reynslu í fornleifarannsóknum í þeim löndum þar sem þeir námu fræðin.
Aðrir sem ekki höfðu lokið grunnnámi í fornleifafræðum, en hófu störf á Íslandi eftir sem áður voru einnig án reynslu yfirleitt. Reynslu sína fengu þeir hinsvegar allir seinna á Íslandi, og yfirleitt undir beinni stjórn þeirra er eldri voru eða jafnvel hjá sjálfum sér. Þannig var sagnahyggjunni haldið við mann fram af manni og var afraksturinn stöðnun.
Bakgrunnur íslenskra fornleifafræðinga er því óneitanlega margbreytilegur og undirstaðan mismikil. Í heildina verður að teljast að margbreytileiki sé að vissu marki af hinu góða þegar til lengdar lætur, en þegar til styttri tíma er litið vill það bregða við að persónulegur rígur og mismunandi hugmyndir um eðli fornleifafræðinnar sé mest til vandræða. Þegar þetta tvennt fer saman eru mál ekki efnileg.
Uppgröftur og saga, saga og uppgröftur
Þá sjaldan er íslenskar fornleifar voru rannsakaðar með uppgreftri á 19. öld var það undantekningalaust vegna þess að þeirra var getið í heimildum. Nefni ég t.d. rannsókn Jónasar Hallgrímssonar skálds á Þingnesi árið 1841, en tilgangur þeirrar rannsóknar var að finna Kjalarnesþingi stað. Er sú rannsókn sennilega sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Áður höfðu ýmsir verið að pota í fornleifar, aðallega hauga eins og haug Gunnars á Hlíðarenda, en yfirleitt var um beina eyðileggingu að ræða og aldrei voru almennilegar skýrslur um þær framkvæmdir birtar.
Einnig er vert að geta rannsóknar á Þingvöllum árið 1880, sem var sú fyrsta og síðasta sem þar hefur verið gerð með uppgreftri en henni stjórnaði Sigurður Vigfússon gullsmiður. Sigurður var einn af fyrstu umsjónarmönnum Forngripasafnsins, síðar Þjóðminjasafn Íslands, og er hann stundum talinn fyrstur til að stunda fornleifauppgröft á Íslandi. Tilgangur rannsókna þeirra Jónasar og Sigurðar var að staðfesta hugmyndir manna um þinghald til forna. Hvorug rannsóknin gaf nokkuð til kynna, sem gagnast gat kenningum manna um það efni.
Í nýju og metnaðarfullu riti, Íslenskum söguatlas, er ýjað að því að Ísland sé eitt af fáum löndum í heiminum sem þekki upphaf sitt og að sú saga sé varðveitt í rituðum heimildum. Þessi ríkjandi skoðun hefur oft verið sett á blað. Ef heimildaskrá bókarinnar er athuguð kemur í ljós að aðeins þrír „fornleifafræðingar“ fá þar inni og eru það þeir Brynjúlfur Jónsson (frá Minna-Núpi), dr. Kristján Eldjárn og dr. Sveinbjörn Rafnsson prófessor í sagnfræði. Er ein grein tilgreind eftir hvorn þeirra Brynjúlf og Kristján, en fjórar heimildir eru eftir Sveinbjörn og er engin þeirra um fornleifafræði. Athyglisvert er að doktorsritgerð Kristjáns frá árinu 1956, Kuml og haugfé, er ekki nefnd. Athyglisvert er að fornleifarannsóknir fóru fram á Vesmannaeyjum síðast árin 1971-1983, er ekki getið í Íslenskum söguatlas. Var þar þó um að ræða einn viðamesta uppgröft sem fram hefur farið á Íslandi. Enginn núlifandi íslenskur fornleifafræðingur nema Sveinbjörn Rafnsson er kynntur til sögunnar í heimildaskránni. Því verður að draga þá ályktun að leitað sé í smiðju sagnfræðinga og að hugmyndir þeirra um upphaf Íslandsbyggðar séu ríkjandi varðandi íslenska forsögu og fornleifafræði.
Fátæklegar eru fornleifarnar og rýr er arfleifðin!
Sú rótgróna skoðun að íslenskar fornleifar séu fáar og fátæklegar hlýtur að hamla fornleifarannsóknum, sem og áhuga fræðimanna og möguleikum þeirra á að fjármagna slíkar rannsóknir þar sem fjárveitingavaldið veit ekki betur en að slíkum peningum sé ekki sérlega vel varið. Og hver nennir að leggja lag sitt við ómerkilegar þústir og þúfur sem eru aðeins hjákátlegt endurvarp stórkostlegra tíma þegar hetjur riðu um héruð og hjuggu mann og annan? Í bókum er geymd hin sanna mynd fortíðarinnar, sem hinar væskilslegu fornleifar megna ekki að lýsa eða gera grein fyrir.
Íslendingasögurnar eru í hæsta máta gagnslitlar sem vitnisburður um forsögu þessa lands, en það rýrir á engan hátt gildi þeirra sem bókmennta. Landnáma, Íslendingabók og Íslendingasögurnar eru fyrst og fremst heimildir um þann tíma sem skóp þær, þá siði og þær venjur sem ríktu á ritunartíma þeirra.
Ég legg áherslu á að ég er að ræða um forsögu þessarar þjóðar eða 9. og 10. öldina. Varðandi aðrar aldir eiga fornleifafræði og sagnfræði að gegna sínu hlutverki sem sjálfstæðar greinar og hönd í hönd ef þurfa þykir. Dæmi um góðan árangur rannsókna þar sem sagnfræðilegum og fornleifafræðilegum aðferðum er beitt, svo til jöfnum höndum, eru rannsóknirnar á Sámstöðum, Stöng og í Viðey.
Þess má geta að víkingaöldin telst til miðalda á Bretlandseyjum og í Mið- og Suður-Evrópu, en hún tilheyrir forsögulegum tíma á Norðurlöndum. Þannig er verulegur áherslumunur á því hvernig menn nálgast þessi tímabil á þessum svæðum. Á Bretlandseyjum og annarsstaðar í Mið- og Suður-Evrópu eru til ritaðar samtímaheimildir og víðast hvar eldri en víkingaöld, en slíkar heimildir eru alls ekki til á Íslandi frá landnámsöld og skeikar fleiri hundruð árum. Því verður að skilgreina upphaf byggðar í landinu sem forsögulegan tíma og hann verður að nálgast með viðeigandi aðferðum og hugarfari.
Ísland og umheimurinn
Ástæður þess að fornbæir eru jafn vel varðveittir hér á landi og raun ber vitni eru trúlega margar, en aðalástæðan er vafalaust sú tegund landbúnaðar sem hér hefur ríkt til svo langs tíma. Á Íslandi hefur plógurinn ekki farið þeim hamförum sem hann hefur gert í Evrópu. Kornrækt var varla stunduð hér á landi í neinum mæli og landið því sloppið bærilega frá þeirri bætiefnaviðbót og því skordýraeitri sem nauðsynlegt hefur verið talið erlendis. Þessi efni fara gjarnan illa með fornleifar og innihald þeirra.
Hér hefur einnig átt sér stað landeyðing sem hægt er að tengja við ákveðna tegund af skepnuhaldi og sú landeyðing hefur valdið mikilli jarðvegsþykknun á stöku stað og hlíft þeim fornleifum sem undir eru. Jarðvegsþykknun hefur líka orðið vegna eldgosa.
Byggðaþróun í landinu er trúlega þáttur sem þjónað hefur fornleifum vel, en víða hefur verið byggð í afdölum og á öðrum afskekktum stöðum í fyrndinni sem lagðist af eftir tiltölulega skamman tíma og var aldrei aftur upp tekin. Þessar leifar eru flestar frá landnámsöld og eru trúlega margar, án þess að tölu verði á þær komið. í þessu sambandi er vert að minna á umræðuna hér að framan um skráningarstöðuna, en skráning á svokölluðum föstum fornleifum (bæjarhólum, kumlum, beitarhúsum, fjósum, vörum o.s.frv.) hefur aðeins farið fram á örfáum stöðum hér á landi.
Ísland er annað tveggja landa í veröldinni þar sem þjóð á sér upphaf á seinni hluta járnaldar (400-1050 e. Kr.), en Nýja Sjáland byggðist einnig á níundu öld. Þó er sá munur á að Nýja Sjáland var numið aftur löngu seinna af mönnum úr gerólíkum menningarheimi en þeim sem fyrir var í landinu. Þessum séríslensku aðstæðum er vert að gefa gaum því þær gefa marga einstaka möguleika sem sjálfsagt er að nýta sér.
Ísland er norðlægt land og að sumu leyti afar mikilvægt fyrir rannsóknir á þessum hluta jarðarinnar. Ísland og Færeyjar eru einu löndin þar sem landnám norrænna manna varð til frambúðar. Annars staðar hvarf búsetan með öllu eða týndist inn í þjóðarbrot sem fyrir voru í landinu. Á báðum stöðum er aðeins um landnám eins hóps að ræða sem þýðir að þegar rannsaka á þætti eins og þróun verktækninnar, þróun hýbýla, þróun landbúnaðarhátta, aðlögun í nýju landi, þróun stjórnsýslunnar svo eitthvað sé nefnt, er ekki um neina truflandi þætti að ræða. Það þarf ekki að glíma við þann vanda sem skapast þegar eldri minjar blandast þeim yngri sem dæmi eru um annarsstaðar þar sem búseta hefur varað í fleiri aldir á sama stað og oft af mismunandi menningarlegum uppruna.
Hvað er til ráða?
Ef íslensk fornleifafræði á að geta vaxið úr grasi og þróast á svipaðan hátt og annarsstaðar í heiminum verða ýmsar forsendur að vera til staðar, sem nú vantar. Varla vex fræðigreinin af eða í sjálfri sér og alls ekki sem hjálparhella annarrar fræðigreinar. Fornleifar, lausar sem fastar, eru meginundirstaðan undir forsögu þjóðarinnar og fornleifafræðin meginfræðigreinin er fæst við þá sögu.
Með ákveðnum rétti er hægt að halda því fram að íslensk fornleifafræði sé ekki til því hér hefur engin kennsla í greininni farið fram, menntun verið af skornum skammti og engin eiginleg rannsóknastofnun til. Engin sjálfstæð þjóð í Vestur-Evrópu (og þó víðar væri leitað) er án háskóladeildar í fornleifafræði. Engin önnur þjóð í Vestur-Evrópu hefur jafn fáa fornleifafræðinga á launum og Ísland og engin þjóð í Vestur-Evrópu hefur jafn fáar fastar stöður í greininni og Ísland. Þetta þýðir að enginn eðlilegur farvegur er til fyrir málefnalega umræðu og nauðsynlega þróun fræðigreinarinnar. Allt verður hendingum háð.
Við höfum litið á fornleifafræði sem tiltölulega takmarkaða vísindagrein enda fornleifarnar sem slíkar „engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar“. Að auki eru þær bæði „fáar og fátæklegar“. Þegar þessi viðhorf eru ráðandi er eðlilegt að fornleifafræði eigi sér ekki ýkja mikla möguleika sem sjálfstæð fræðigrein.
Ef Ísland vill verða hluti af alþjóðlegu fornleifafræðiumhverfi verðum fornleifafræðingarnir sjálfir að vinna og vera duglegri við að koma niðurstöðum sínum á framfæri til fræðimanna, almennings og ráðamanna. Við verðum sjálf að skilgreina markmið okkar og leiðir og sjálf að gefa fornleifafræðinni það inntak sem hún getur haft hér á landi.
Efla þarf sérstaklega Þjóðminjasafn Íslands, bæði að fé, mannafla og tækjum. Deild innan Háskóla Íslands myndi hafa heillavænleg áhrif á starf Þjóðminjasafnsins og önnur þau söfn sem stunda fornleifafræði og virka hvetjandi á faglegt starf þar í fornleifafræðum.
Fræðigrein sem ekki nýtur sjálfstæðis, ber takmarkaða virðingu fyrir sjálfri sér og viðfangsefnum sínum og er varla til, á erfitt með að taka þátt í þverfaglegu samstarfi við aðrar fræðigreinar á jöfnum grundvelli. En það er einmitt í viðfangsefnum hennar og þverfaglegu samstarfi sem framtíðarhorfur íslenskrar fornleifafræði liggja.“
Vefsíðuhöfundur varð þess heiðurs aðnjótandi að starfa með Bjarna að uppgreftri landnámsbæjarins í Vogum (Höfnum) um nokkurra vikna skeið í lok síðustu aldar…
Heimild:
-Skírnir, 01.09.1994, Íslenskar fornleifar: Fórnarlömb sagnahyggjunnar? – Bjarni F. Einarsson, bls. 377-400.