Færslur

Jamestown

Í Ægi árið 1930 er m.a. fjallað um “Reykjanesstrandið mikla” utan við Valahnúksmöl á Reykjanesi og “Stóra strand” Jamestown við Hvalvík utan við Ósa, gegnt Höfnum:

“Hr. hreppstjóri Ólafur Ketilsson á Óslandi í Höfnum, hefur sent »Ægi« ágæta grein um skipströnd þar syðra. Með því hér er um langt mál að ræða, en rúm í «Ægi« af skornum skammti, er eigi unnt að birta greinina í einu lagi, en þar eð hún er bæði ítarleg og skemmtileg, verður hún að birtast í pörtum eftir því sem rúm leyfir.

Valahnúksmöl (Reykjanesstrandið mikla).

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúskmöl.

Á fyrsta tug 19. aldarinnar, rak á land á svo nefndri Valahnúkamöl á Reykjanesi, geysilega stór timburfloti; var flotinn benslaður með sverum járnböndum þversum og langsum. Í flota þessum voru mörg hundruð ferköntuð tré frá 12—18 álna löng, og frá 12—18 þml. á kant.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Flest voru trén úr furu — Pitch-pine, og svo nokkur eikartré. Um stærð flotans má nokkuð marka af því, að 18 al. löng trén stóðu upp á endann, sem bindingur til og frá í flotanum, og svo haganlega var hann byggður, að hvergi var hægt að fela hönd á millum trjánna, en fleiri þúsund smá eikarbútar frá 1—3 al. voru líka í flotanum, kallaðir tylftarstykki, til uppfyllingar í allar holur millum trjánna. Sagt var að floti þessi hefði átt að fara til Englands frá Ameríku, en að skipið hefði farist, sem hafði hann í drætti en sennilega hefur skipið verið komið upp undir Reykjanes er það fórst, því mikið af fataræflum og öðru dóti var á flotanum, sem sýndi að menn höfðu verið á honum, fyrir skemmstu, áður en hann bar að landi.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Uppboð var haldið á öllum trjánum, eftir að búið var að bjarga öllu undan sjó, en um verð á trjánum er mér ekki vel kunnugt, en dýrasta tréð fór á 12 dali (24 kr.) og keypti það Brandur heitinn Guðmundsson langafi Björns Þórðarsonar kaupmanns á Laugavegi 46.
Tugi ára var svo verið að saga niður í borðvið öll þessi tré, sem keypt voru mestmegnis af Vatnsleysustrandar, Rosmhvalaness, Grindavíkur og Hafnahreppsbúum; var allt reitt á hestum, þegar búið var að koma því í borð. Aðeins Hafnahreppsmenn fluttu flest trén heil sjóveg, höfðu stundum 5—6 tré aftan í skipinu í einu; var þá lagt á stað frá Reykjanesi um stórstraumsfjöru, og norðurstraumurinn svo látinn hjálpa til með róðrinum. Síðustu tré Hafnamanna voru sótt 1852, af Gunnari sál. Halldórssyni, föður séra Brynjólfs sál. mágs mín, sem var prestur að Stað í Grindavík.*

Jamestown (stóra strandið).

Vorið 1881, á hvítasunnumorgun rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki, var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinum, að það mundi mannlaust með öllu. Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á »Þórshöfn« skammt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverzlun í Keflavík.

Jamestown

Jamestown – ankeri í Höfnum.

Skipstjórinn hét Petersen; sagði hann okkur strax, sem skipið var strandað, að það væri amerískt timburskip, fullt stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra, sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofandekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefur skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hér við land.

Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist var um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið!

Jamestown

Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.

Og aldrei gleymi ég þeirri stund, þegar ég, þá 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inn á þilfari »Jamestown«, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma langa skipsbákn 1 Set ég hér stutta lýsingu á »Jamestown« hinu stærsta skipi, sem strandað hefur við Ísland, síðan landið byggðist.
»Jamestown« var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man ég ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því.
Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiptur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn þá eftir 50 ár blasir við augum mínum einn óskaplegi geimur, efsta lestin, þegar búið var loks að tæma hana, 60 faðma langa, og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, á af því nokkurn veginn gera sér grein fyrir, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn Willum aftasta og mið siglutrés, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða réttara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefur að öllum líkindum verið forðabúr skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m. m., og hrannir af spýtnabraki, póleruðu mahoni, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangaðúr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita, og mahoníþiljur voru sums staðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru og minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skipt í svefnherbergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar afborðbúnaði, eða neinu því, sem verðmæti var í.
Af öllu því tröllasmiði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrennt, sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutréð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afarsverumjárngjörðum, annað undirbugtspjótið, sem kallað er, 36 þml. á kant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get ég ekki gert neina ágiskun um, en ég vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hékk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). —

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum

Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hana úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brennt bréf hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mélaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæva af landinu, kom um sumarið til þess að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur ! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokk skipsins.
Eftir að »Jamestown« strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem enn þá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir félagar mikið af verkafólki hér, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun, þótti þá óheyrilega hátt kaup, og allt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskvöldi. Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur i uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þekktust ekki tálsnörur núlímans, bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!

JamestownHvað margir »Loggortu«farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man ég ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum flotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft frá 12—20 plankar á hvern mann, í helmingaskiptum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnanstormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600—800 st. í einu!
Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu. í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt í sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10—20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd 6—11 tom. Kristján sál. Jónsson, hæstaréttardómari, var þá sýslumaður i Gullbringusýslu, og hélt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25—50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú. Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr„ en skipið sjáltt með öllu timbri sem í því var í mið og neðstu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 301,00, en hann bauð í það fyrir föður minn og aðra suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.

Jamestown

Grjót úr ballest Jamestown.

Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og allt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Ég minnist þess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hét Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíulesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Allt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kg. til Englands af kopar. Það eina, sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af suðurnesjabændunum söfnuðu að sér af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hafði verið tekið.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir í Hraunu. Húsið var að mestu byggt úr viðum Jamestown.

Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afar mikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt enn þá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti þessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei séð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.

Jamestown

Ankeri úr Jamestown. Viktor Guðmundsson stendur hjá.

Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var ég oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sagast fram í briminu og hvolft þar úr sér á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hins vegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa i þessi 50 ár.

Ólafur Ketilsson

Ólafur Ketilsson í Höfnum.

Það eina, sem mér er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður Ólafsson, bóndi í Merkinesi náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola. Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fékk af silfri veit ég ekki, því ég sá það aldrei.
Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótal margt sé enn þá ósagt, en sökum þess að mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður, allt til þessa hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi ég ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi.”
Sjá meira um Reimleika í Valahnúkshelli í tengslum við “Reykjanesstrandið mikla og einnig meira um Jamestown-strandið.

Heimildir:
-Ægir – 11. Tölublað (01.11.1930) – bls. 138-140.
-Ægir – 12. Tölublað (01.12.1930) – bls. 273-275.

Ásláksstaðir


Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd eru að mestu byggðir úr viðum Jamestown.

Jamestown
FERLIRsmeðlimir hafa ánafnað gönguhópnum brot úr seglskipinu Jamestown er strandaði fyrir utan Hafnir í júnímánuði árið 1881.
Eftirfarandi brot úr frásögn um Jamestown má sjá á vefsíðu Leós M. Jónssonar í Höfnum:

Jamestown

Strandsstaður Jamestown.

”Á morgni hvítasunnudags, 26. júní árið 1881 brá mönnum í Höfnum á Suðurnesjum í brún; heljarstórt seglskip hafði strandað við Hvalsnes [Hvalvík] á milli Hestakletts og Þórshafnar gegnt Kotvogi í Kirkjuvogshverfi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og auðséð að það hafði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn.

Hestaklettur

Hestaklettur – Hafnir að handan.

Við nánari skoðun kom í ljós að skipið, sem mun hafa verið um 4000 tonn á núverandi mælikvarða og því engin smásmíði, – líklega með allra stærstu skipum sem til Íslands höfðu komið fram að því. Skipið var fullhlaðið unnum borðviði af mismunandi tegundum, m.a. harðviði og allt kjörviður. Í Suðurnesjaannál Sigurðar Sívertsen er m.a. fjallað um þetta strand. Þar er þess geta hve vel hafi verið um farminn búið og greinilega unnið af mikilli verkþekkingu. Þar segir m.a. að tekist hafi að bjarga miklu af farmi Jamestown og hafi timbrið verið notað til húsbygginga, ekki einungis á Suðurnesjum, en þar má enn sjá hús sem byggð voru úr þessu efni, heldur einnig austur um sveitir.

Kaupstaðavegurinn

Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.

Menn af Suðurnesjum mynduðu með sér félag um kaup á strandgóssinu og tókst að semja við sýslumann um kaupin. Eftir óveður nokkrum dögum eftir strandið brotnaði skipið í spón og hvarf. Það er til marks um veðurfar og sjólag við strönd Hafnahrepps að þetta stóra skip mölbrotnaði á fáum dögum eftir að hafa , eins og seinna kemur í ljós, verið á reki stjórnlaust á Norður-Atlantshafinu um 4ra mánaða skeið.

Í annálum er þessa strands getið . Í jólablaði tímaritsins Faxa frá árinu 1967 er merkilegt viðtal við Friðrik Gunnlaugsson (þá 95 ára) þar sem hann segir ítarlega frá björgun farmsins úr Jamestown. Ennfremur er að finna frásögn Ólafs Ketilssonar, fyrrum hreppstjóra Hafnahrepps, af þessu strandi í bókinni Sunnlenskir sagnaþættir (sem Gunnar S. Þorleifsson safnaði) en þar segir Ólafur frá strandinu, björgun farms og afdrifum skipsins.

Jamestown

Ankeri Jamestown í Sandgerði.

Í annálum er Jamestown talið amerískt skip, sagt vera líklegast frá Boston. Af lýsingu á stærð þess að dæma hefur það verið með stærstu seglskipum á sinni tíð, um eða yfir 100 m á lengd og um 20 m á breidd (til samanburðar má hafa að venjulegur fótboltavöllur mun vera 90-100 m á lengd). Þetta risaskip átti sér talsverða sögu sem ef til vill skýrir orsök þess að það strandaði mannlaust á Suðurnesjum.
Jamestown var með 3 þilför á sama tíma og flest stærri seglskip voru tveggja þilfara. Það var smíðað í Richmond og hleypt af stokkunum í nóvember 1879.

Jamestown

Annað ankeri Jamestown í Höfnum.

Skipið Jamestown var yfirgefið úti á rúmsjó þegar eimskipið Ethiopia bjargaði skipverjum. Það var þá undir stjórn Wm. E. Withmore skipstjóra sem er frá borginni Bath. Hinn 10. nóvember lagði skipið Jamestown af stað undir stjórn Withmore skipstjóra með verðmætan farm sem sigla skyldi með til Liverpool.

Scott skipstjóri á eimskipinu Lake Manitoba skýrði frá því að hann hafi farið um borð í Jamestown frá Boston þar sem það var á reki mannlaust og mikið laskað. Hann segir að 17 feta djúpur sjór hafi verið í skipinu sem var hlaðið timbri. Þrátt fyrir skemmdirnar hafi möstrin verið uppi en mikið skemmd, mest af seglabúnaði hafi verið horfið en lítill hluti lafað útfyrir borðstokkinn. Scott segir að þeir hafi gert ítrekaðar tilraunir til að draga skipið en ekki tekist að festa dráttartaug í það og orðið að hætta við.

James Town

Frá James Town í Ameríku.

Eftir að hafa rekið um á Norður-Atlantshafinu mánuðum saman hefur yfirgefið flakið rekið á land á strönd Íslands”.
Í bókum má finna frásögn Ólafs Ketilssonar á Kalmannstjörn, hreppstjóra í Höfnum af strandi Jamestown. Þar nefnir hann þennan einkennilega stein sem hafi verið barlest skipsins.
Í Bath Daily Times mánudaginn 21. nóvember 1881 er enn fjallað um Jamestown. Þar segir: ,, Svo virðist sem frægð Jamestown ætli engan enda að taka. Í tímaritinu Maine Mining Journal segir að fyrsta framleiðsla af málmgrýti frá námunni á Deer Island hafi skrautlegan feril að baki og hafi endað á óvæntum stað. Málmgrýtið hafi Jamestown tekið sem barlest þegar það hélt til Swansee (svo !) í Englandi með timburfarm fyrir nærri ári. Járngrýtið er líklega enn í greypum þessa ólánsfleys þar sem það bar beinin.”

Georg H. Wadleigh

Georg H. Wadleigh.

Svo vill til að sumarið 1881 var staddur hér á landi bandarískur sjóliðsforingi og skipstjóri á bandaríska gufuskipinu Alliance sem þá kom til Reykjavíkur, Georg H. Wadleigh að nafni. Hann skýrði svo frá: ,,Skipið Jamestown frá Boston, hlaðið timbri, rak að landi og strandaði þann 26 júní 1881 norðan við Reykjanestá um 30 mílum frá Reykjavík. Hér með greini ég frá öllu því sem ég hef skráð varðandi strand þessa skips og aðstæður. Hafís hefur verið óvenjumikill þennan vetur og náð lengra til suðurs með ströndinni en venjulega. Greinilegt er að áhöfn Jamestown hefur yfirgefið það nokkru fyrir strandið.”

Wadleigh sjóliðsforingi áætlar stærð skipsins um 1200 tonn í skýrslu sinni. Hann getur þess að rannsókn yfirvalda á staðnum hafi leitt í ljós að afturmastrið hafi verið höggvið af niður við dekk og axarför hafi verið sjáanleg á miðmastrinu og greinileg ummerki um að reynt hafi verið að höggva það sundur. Þá hafi allan stýrisbúnað vantað á skipið. Stærstur hluti reiðans hafi hangið út yfir borðstokkinn og illa farinn. Á bógum hafi nafnið Jamestown verið lesanlegt en undir því aðeins mátt greina ,,Boston”.

Jamestown

Jamestown – auglýsing.

Á koparplötu yfir káetu hafi staðið nafnið Jamestown og á einni af þremur þilfarsvindum hafi mátt lesa merkingu. Allar lestarlúgur voru opnar, segir Wadleigh, og allt lauslegt horfið að undanskildu úldnu fleskstykki. Hann segist einnig hafa tekið eftir grasvexti á þilfarinu sem bendi til þess að skipið hafi verið lengi á reki. Timbri sem bjargað hafi verið úr skipinu segir Wadleigh að hafi verið skipt þannig að þriðjungur fór til Þeirra sem unnu að björgun þess en 2/3 hlutar hafi verið boðnir upp á staðnum fyrir um 10 þúsund krónur. Ætla má að einungis um helmingur af farmi skipsins hafi bjargast á land, segir Wadleigh í skýrslu sinni og getur einnig um danskan skipstjóra sem segist hafa farið um borð í Jamestown úti á rúmsjó 21. júní 1881 og þá hafi allt lauslegt ásamt mestu af tréskrauti skipsins verið horfið”.
Sjá meira um strandið HÉR.

Leó M. Jónsson:
Upphaflega birtist þessi grein í heild í tímaritinu Skildi nr. 34. 4tbl. 10. árg. 2001. Skjöldur er gefinn út af Útgáfufélaginu Sleipni í Reykjavík. Ritstjóri: Páll Skúlason.
http://www.leoemm.com/jamestown.htm

Jamestown

Jamestown – saga.

Keflavík

Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um “Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð“:

Skúli MagnússonHér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.

Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.

Bær

Innan við bæjardyr.

Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.

Bær

Þiljuð baðstofa.

Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.

Reykjavík 1835

Bær 1835.

Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.

Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi”, en „lang lélegust og sóðalegust” voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…”. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.

Lýsing Skúla fógeta á betri býlum

Bær

Bæjargöng.

Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.

Bæir og timburhús á 19. öld

Bær

Í bæjargöngum.

Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.).  Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.”.

Grindavík

Bær

Timburhús.

Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús”. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.

Hafnir

Bær

Samstæður bær frá 19. öld.

Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær”, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…”.”, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..”.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…” og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess”.

Rekatimbur til húsa

Valahnúkur

Valahnúkamöl.

Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…”.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.

James Town strandar

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð”, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.

Miðnes
Sandgerði
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini”. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi”.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.

Garðurinn

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær”. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…”.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…”. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn”. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…”.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.

Keflavík
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Keflavík
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl” sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík”.
Keflavík
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn 1987.

Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Brunnastaðaskóli
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt” 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…”.

Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.

Lokaorð

Bær

Þiljaður gangnabær með baðstofustiga.

Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.

Bær

Ljár ofan við hlóðir í eldhúsi.

Grindavík

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 er grein Helga Bierings um “Valgerðarhús, næst elsta hús Grindavíkur“:

Valgerðarhús næst elsta hús Grindavíkur

Grindavík

Grindavík – Valgerðarhús.

“Stolt hvers byggðarlags er upphaf byggðar og sú merkilega saga sem varð til þess að byggð hófst. Grindavík á sína verslunar og útgerðarsögu. Saga Grindavíkur hefur ekki verið átakalaus í gegnum aldirnar. Grindavíkurverslun var ein af útstöðvum Kaupsvæðis Reykjavíkur ásamt Hafnarfirði, Keflavík og Básendar. Mikil samkeppni var um verslun á milli Dana, Hollendinga, Hansakaupmanna (Þjóðverjar) og Englendinga, þó svo að Danir hefðu einkaleyfið frá konungi. Samkeppnin hélst lengi þó svo að stundum hafi brotist úr vopnuð átök. Þau átök náðu svo hámarki í svonefndu Grindavíkurstríði árið 1532. Þar unnu Þjóðverjar sigur með tilstyrk Dana og Íslendinga.

Grindavík var fyrst og fremst verstöð

Grindavík

Grindavík – sjóbúðir. Flagghúsið í miðið.

Megin atvinnuvegur bæjarins hefur verið sjávarútvegur Grindvíkinga. Um Jónsmessuleytið 1627 varð atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní.
Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir” rændu en líklega voru þeir um 12 sem hefur verið stórt hlutfall íbúa Grindavíkur á þeim tíma. Að auki féllu nokkrir Grindvíkingar og sjóræningjar í atganginum. Sagan segir að þegar blóð „Tyrkjanna“ og Grindvíkinganna blandaðist á jörðinni hafi orðið til blóðþyrnir sem vex á grasflöt í nágrenni við Valgerðarhús.

Grindavík

Valgerðarhús lengst til hægri.

Grindvíkingar smíðuðu lengi framan af báta úr rekaviði sem svo voru nýttir til róðra á erfiðu en gjöfulu hafsvæði. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900. Þá tók fólki að fjölga í Grindavík, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. Um líkt leyti reis Valgerðarhús. Valgerðarhús var reist út timbri úr strandgóssi stórs seglskips sem strandaði við Hafnir 1881. Ekki er ólíklegt að Einarsbúð hafi verið reist úr timbri úr sama skipi að einhverju leyti. Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Valgerðarhús – sagan

Grindavík

Grindavík – Hér er Valgerðarhús nefnt Júlíusarhús.

Valgerðarhús er staðsett í Járngerðarstaðahverfi og það er í dag eitt af elstu húsum Grindavíkur, hefur sérstaka sögu sem tengist atvinnusögu Grindavíkur. Húsið er skráð hjá Þjóðskrá að það sé byggt árið 1940. En margt bendir til að það sé byggt mun fyrr. Þó húsið sé lítið og lúið á okkar tíma mælikvarða þá var það vel byggt og úr góðu timbri á sínum tíma. Upphaflega húsið er í þokkalegu góðu ástandi fyrir utan ryðgað bárujárn að utan, en heldur lakari timbur er í viðbyggingunni sem byggð er úr gömlu og endurunnu timbri og rekavið. Elsti hluti hússins er á sökkli sem er gerður úr fjörugrjóti sem hlaðið er í múr.
Á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er Valgerðarhús vel greinilegt og á myndum frá því seint á þriðja áratugnum er húsið nýklætt að utan en á mynd frá því fyrr á þriðja áratugnum sést húsið einnig en þá er það svart að lit og þá líklega vegna tjörgunar. Húsið gæti hafa verið klætt að utan eftir 1927 eða þar um bil eftir að sjávarflóð olli töluverður tjóni í nágrenni Valgerðarhúss.

Grindavík

Grindavík – húsin ofan við fyrstu bryggjuna í Járngerðarstaðarhverfi.

Í upphafi var Valgerðarhús líklega verið nefnt “Sjóbúðin”. Einnig tengist húsið fjölskyldu Einars Jónssonar frá Garðhúsum.
Húsið Valgerðarhús stendur við hlið Verbrautar í Grindavík og er án húsnúmers, var að öllum líkindum byggt einhvern tíman á árunum 1882 til 1889 og því eitt af elstu húsum Grindavíkur.
Burðarviðir hússins eru úr farmi skipsins James Town sem strandaði við Hafnir sunnudagsmorguninn 26. júní 1881. Skipið var hlaðið timbri sem átti að fara til Englands þar sem það átti að notast við lagningu járnbrautarteina. Það var svo 12. og 13. ágúst 1881 sem haldið var uppboð á farminum og skipinu á strandstað við Þórshöfn í Stafnesfjöru. Töluvert af timbri var selt til Grindavíkur, meðal annars á Járngerðarstaði, Garðhús, Klöpp og fleiri bæja innan Grindavíkur.
Líklegast er að timbrið í Valgerðarhús hafi verið keypt af Einari Jónssyni í Garðhúsum, en hann kom einnig að björgunarvinnu við strandið og fékk greitt 6 kr. fyrir leigu á hestum. Einnig keypti hann 162 planka á uppboðinu.
Þeir sem unnu við strandið fengu að eiga ýmsa búta sem notaðir voru við fráganginn á timburfarminum sem var um borð í skipinu. Sagnir eru um að sumir hafi jafnvel getað byggt sér þokkaleg hús úr þessum bútum.

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Ástæða þess að ég tel að Einar eða Dagbjartur, sonur hans, hafi byggt Valgerðarhús, eða í það minnsta átt timbrið sem fór í burðarvirki hússins, er að Einar átti túnið sem var næst Valgerðarhúsi. Einnig átti hann að öllum líkindum beitningarskúrana sem merktir eru inn á túnakortið frá 1918 og voru ekki nema í um 2 metra fjarlægð frá Valgerðarhúsi. Nýlega er búið að rífa beitningarskúrana.
Á túnakortinu er skrifað við hlið skúranna „Fleiri hús“. Hús sem virðast hafa verið á einhverskonar einskismannslandi.
Dagbjartur frá Velli var sonur Einars Jónssonar frá Garðhúsum. Sá sami Einar var einn af björgunarmönnum farmsins úr James Town eins og áður hefur komið fram. Á sama tíma er hann samkvæmt manntalinu frá 1880 “húsb., hreppstjóri, sjávarafli, fjárrækt” þannig að hann hefur verið meiri háttar maður í samfélaginu í Grindavík á sínum tíma. Hann keypti einnig dálítið af plönkum á uppboðinu sem haldið var á farminum úr James Town og flakinu, fyrir utan það timbur sem björgunarmenn fengu að eiga. Eftir að uppboðinu var lokið fengu björgunarmenn að eiga hluta þess viðar sem bjargað var úr skipinu sem þá var komið í eigu H.P. Duus. Sumir fengu fjórðung á meðan aðrir fengu helming þess timburs sem þeir komu í land, mögulega eftir stétt og stöðu hvers björgunarmanns fyrir sig. Eftir að skipið hvarf svo í hafið í haustveðri fannst mikill reki úr skipinu meðfram allri strönd Stafnessins allt frá Garði og út á Reykjanes í töluvert langan tíma.

Niðurstaða

Grindavík

Ég tel að Dagbjartur Einarsson hafi reist Valgerðarhús eftir að hann fer að heiman tvítugur að aldri og þar til hann er sagður húsbóndi í “Sjóbúðinni” árið 1900 í Sóknarmannatali og í sóknarmannatali og manntali 1901. Það er niðurstaða mín að Valgerðarhús var reist einhvern tíman á árunum 1882 – 1889.
Við samanburð á viðnum í Valgerðarhúsi og í Ytri-Ásláksstaðir, elsta uppistandandi íbúðarhús í Sveitarfélaginu Vogum og byggt 1884 úr meðal annars timbri úr James Town, kom í ljós að samskonar burðarviður er í báðum húsunum. Einnig er byggingarstíllinn, gerð sökkuls og stærð mjög áþekk. Þessi samanburður styrkir þá niðurstöðu að Valgerðarhús hafi verið byggt á árunum 1882- 1889.
Til gamans má geta þess að eiginkona Dagbjarts var Valgerður Guðmundsdóttir frá Klöpp og líklega er húsið nefnt eftir henni.
Nöfnin Þorvaldshús og Ólafshús, sem komu í umræðuna á meðan á rannsókninni stóð, skiluðu engu nema að á árunum 1928-1952 og jafnvel síðar var Þorvaldshús prestsbústaður og þar af leiðandi líklega ekki Valgerðarhús.”

Í “Húsakönnun Grindavíkur 2019” er fjallað um Valgerðarhús:

Sögubrot Grindavíkur
Grindavík
“Stolt hvers byggðarlags er upphaf byggðar og sú merkilega saga sem varð til þess að byggð hófst.
Grindavík á sína verslunar og útgerðarsögu. Saga Grindavíkur hefur ekki verið átakalaus í gegnum aldirnar. Grindavíkurverslun var eina af útstöðvum Kaupsvæðis Reykjavíkur ásamt Hafnarfyrði, Keflavík og Básendar. Mikil samkeppni var um verslun á milli Dana, Hollendinga, Hansakaupmanna (Þjóðverjar)og Englendinga, þó svo að Danir hefðu einkaleyfið frá konungi. Samkeppnin hélst lengi þó svo að stundum hafi brotist úr vopnuð átök. Þau átök náðu svo hámarki í svonefndu Grindavíkurstríði árið 1532. þar unnu þjóðverjar sigur með tilstyrk Dana og Íslendinga.

GrindavíkGrindavík var fyrst og fremst verstöð. Megin atvinnuvegur bæjarins hefur verið sjávarútvegur Grindvíkinga. Um Jónsmessuleytið 1627 varð sá atburður, sem lengi var Grindvíkingum minnisstæður og setti mikinn svip á allt líf fólks í víkinni næstu árin. Þetta var Tyrkjaránið svonefnda, strandhögg sjóvíkinga sunnan úr Alsír en eitt af fjórum skipum þeirra bar að landi í Grindavík hinn 20. júní. Aldrei hefur orðið fullljóst hversu mörgu fólki „Tyrkir” rændu en líklega voru þeir um 12 sem hefur verið stórt hlutfall íbúa Grindavíkur á þeim tíma. Að auki féllu nokkrir Grindvíkingar og sjóræningjar í atganginum. Sagan segir að þegar blóð „Tyrkjanna“ og Grindvíkinganna blandaðist á jörðinni hafi orðið til Blóðþyrnir sem vex á grasflöt í nágrenni við Valgerðarhús.
Grindavík
Grindvíkingar smíðuðu lengi framan af báta úr rekaviði sem svo voru nýttir til róðra á erfiðu en gjöfulu hafsvæði. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti og tíðkast hafði um aldir og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900. Þá tók fólki að fjölga í Grindavík, ný hús risu af grunni, þar sem engin höfðu áður staðið, þorp tók að myndast. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi. Um líkt leiti reis Valgerðarhús. Valgerðarhús var reist út timbri úr strandgóssi stórs seglskips sem strandaði við Hafnir 1881. Ekki er ólíklegt að Einarsbúð hafi verið reist úr timbri úr sama skipi að einhverju leiti.
Eitt af því sem helst einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík allt fram á síðustu öld var skipting hennar í þrjú hverfi: Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðahverfi. Margt er á huldu um aldur og upphaf hverfanna en sitthvað bendir til þess að rekja megi hverfaskiptinguna allt aftur undir landnámsöld. Þetta voru þrír hreppshlutar og milli þeirra voru engin lögákveðin hverfamörk.

Valgerðarhús
Grindavík
V
algerðarhús er staðsett í Járngerðarstaðahverfi og það er í dag eitt af elstu húsum grindavíkur, hefur sérstaka sögu sem tengist atvinnusögu Grindavíkur. Húsið er skráð hjá Þjóðskrá að það sé byggt árið 1940. En margt bendir til að það sé byggt mun fyrr. Þó húsið sé lítið og lúið á okkar tíma mælikvarða þá var það vel byggt og úr góðu timbri á sínum tíma. Upphaflega húsið er í þokkalegu góðu ástandi fyrir utan ryðgað bárujárn að utan, en heldur lakari timbur er í viðbyggingunni sem byggð er úr gömlu og endurunnu timbri og rekavið. Elsti hluti hússins er á sökkli sem er gerður úr fjörugrjóti sem hlaðið er í múr.
Á gömlum ljósmyndum frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er Valgerðarhús vel greinilegt og á myndum frá því seint á þriðja áratugnum er húsið nýklætt að utan en á mynd frá því fyrr á þriðja áratugnum sést húsið einnig en þá er það svart að lit og þá líklega vegna tjörgunar. Húsið gæti hafa verið klætt að utan eftir 1927 eða þar um bil eftir að sjávarflóð olli töluverður tjóni í nágrenni Valgerðarhúss.
Í upphafi var Valgerðarhús líklega verið nefnt “Sjóbúðin”. Einnig tengist húsið fjölskyldu Einars Jónssonar frá Garðhúsi.

Valgerðarhús

Í Húsakönnun Grindavíkur 2014 segir: “Sæmundur Sterki átti þetta hús og Guðmundur. Milliloftið í þessu húsi kemur úr skútu sem strandaði við Hafnirnar. Líklega hefur þetta verið geymsla, pakkhús, fiskvinnsla eða beitningaskúr.”

Húsið Valgerðarhús stendur við hlið Verbrautar í Grindavík og er án húsnúmers var að öllum líkindum byggt einhvern tíman á árunum 1882 til 1889 og því eitt af elstu húsum Grindavíkur. Burðarviðir hússins eru úr farmi skipsins Jamestown sem strandaði við Hafnir sunnudagsmorguninn 26. júní 1881. Skipið var hlaðið timbri sem átti að fara til Englands þar sem það átti að notast við lagningu járnbrautarteina. Það var svo 12. og 13. ágúst 1881 sem haldið var uppboð á farminum og skipinu á strandstað við Þórshöfn í Stafnesfjöru. Töluvert af timbri var selt til Grindavíkur, meðal annars á Járngerðarstaði, Garðhús, Klöpp og fleiri bæja innan Grindavíkur.
Líklegast er að timbrið í Valgerðarhús hafi verið keypt af Einari Jónssyni í Garðhúsum, en hann kom einnig að björgunarvinnu við strandið og fékk greitt 6 kr. fyrir leigu á hestum. Einnig keypti hann 162 planka á uppboðinu. Þeir sem unnu við strandið fengu að eiga ýmsa búta sem notaðir voru við fráganginn á timburfarminum sem var um borð í skipinu. Sagnir eru um að sumir hafi jafnvel getað byggt sér þokkaleg hús úr þessum bútum.

Grindavík

Grindavík – framan við Einarsbúð.

Ástæða þess að ég tel að Einar eða Dagbjartur, sonur hans, hafi byggt Valgerðarhús, eða í það minnsta átt timbrið sem fór í burðarvirki hússins, er að Einar átti túnið sem var næst Valgerðarhúsi. Einnig átti hann að öllum líkindum beitningarskúrana sem merktir eru inn á túnakortið frá 1918 og voru ekki nema í um 2 metra fjarlægð frá Valgerðarhúsi. Nýlega er búið að rífa beitningarskúrana. Á túnakortinu er skrifað við hlið skúranna „Fleiri hús“. Hús sem virðast hafa verið á einhverskonar einskismannslandi.
Dagbjartur frá Velli var sonur Einars Jónssonar frá Garðhúsi. Sá sami Einar var einn af björgunarmönnum farmsins úr Jamestown eins og áður hefur komið fram. Á sama tíma er hann samkvæmt manntalinu frá 1880 “húsb., hreppstjóri, sjávarafli, fjárrækt” þannig að hann hefur verið meiri háttar maður í samfélaginu í Grindavík á sínum tíma. Hann keypti einnig dálítið af plönkum á uppboðinu sem haldið var á farminum úr Jamestown og flakinu, fyrir utan það timbur sem björgunarmenn fengu að eiga. Eftir að uppboðinu var lokið fengu björgunarmenn að eiga hluta þess viðar sem bjargað var úr skipinu sem þá var komið í eigu H.P. Duus. Sumir fengu fjórðung á meðan aðrir fengu helming þess timburs sem þeir komu í land, mögulega eftir stétt og stöðu hvers björgunarmanns fyrir sig. Eftir að skipið hvarf svo í hafið í haustveðri fannst mikill reki úr skipinu meðfram allri strönd Stafnessins allt frá Garði og út á Reykjanes í töluvert langan tíma.

Niðurstaða

Grindavík

Grindavík – Valgerðarhús.

Ég tel að Dagbjartur Einarsson hafi reist Valgerðarhús eftir að hann fer að heiman tvítugur að aldri og þar til hann er sagður húsbóndi í “Sjóbúðinni” árið 1900 í Sóknarmannatali og í sóknarmannatali og manntali 1901. Það er niðurstaða mín að Valgerðarhús var reist einhvern tímann á árunum 1882-1889.
Við samanburð á viðnum í Valgerðarhúsi og í Ytri-Ásláksstaðir, elsta uppistandandi íbúðarhús í Sveitarfélaginu Vogum og byggt 1884 úr meðal annars timbri úr Jamestown, kom í ljós að um samskonar burðarviður er í báðum húsunum. Einnig er byggingarstíllinn, gerð sökkuls og stærð mjög áþekk. Þessi samanburður styrkir þá niðurstöðu að Valgerðarhús hafi verið byggt á árunum 1882-1889.”

Grindavík - húsakönnunÍ skýrslu Minjasofnunar um húsakönnun Valgerðarhúss  segir m.a.: “Valgerðarhús er hús úr bindingsverki þar sem grindarefnið í það minnsta kemur úr farmi timburflutningaskipsins Jamestown sem strandaði við Hafnir í júní 1881.
Líklegast var húsið byggt milli áranna 1882 og 1889, Í upphafi var það einungis timburklætt að utan en einhverntíman fyrir árið 1920 eða 1930 var húsið klætt með bárujárni eins og sést á gömlum myndum. Á eldri myndum sést að það hefur verið þurkhjallur sjávarmegin á húsinu en hann sést ekki í dag. Hugsanlega hefur húsið skemmst eitthvað í flóðum sem voru 1927 og þá gæti það hafa verið klætt eftir það.
Á einhverjum tímapunkti var byggt við húsið einhverskonar skúrbygging sem er úr mun lakara efni en aðalbyggingin. Valgerðarhús er úr vönduðu unnu sléttu timbri en viðbyggingin úr rekavið og notuðu timbri úr líklega bryggu eða gömlum bát.”
Rétt er að geta þess að umrædd flóð voru árið 1925, en ekki 1927.

Heimildir:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Valgerðarhús, næst elsta hús Grindavíkur – Helgi Biering, bls 56-59.
-Valgerðarhús – Húsakönnun 2019. https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Skyrsla-Valgerdarhuss.pdf
-https://www.grindavik.is/gogn/2020/Grindavik_husakonnun.pdf
-https://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Skyrsla-Valgerdarhuss.pdf

Grindavík

Grindavík – Í skýrslu þessari fyrir Járngerðarstaðarhverfi kemur fram á yfirlitsuppdrætti að Valgerðarhús (grænlitað) hafi verið byggt á árunum 1926-1950;  https://www.grindavik.is/gogn/2020/Grindavik_husakonnun.pdf.