Tag Archive for: jarðfræðingur

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur, lést árið 2005. Jón var afkastamikill vísindamaður og ritaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Á 85 ára afmæli hans var gefið út bókin Eyjar í eldhafi honum til heiðurs með safni greina um náttúrufræði. Þar má finna æviágrip hans og ritalista.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

Jón Jónsson var fæddist 3. október 1910 að Kársstöðum í Landbroti. Hann starfaði aðallega á sviði jarðhita og neysluvatnsrannsókna og vann brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga.

Jón innritaðist í jarðfræðideild Uppsalaháskóla 1954. Það haust varð Jón 44 ára. Vorið 1958 lauk hann námi með tvöfaldri útskrift með kandidats- (fil.kand.) og licenciatpróf (fil. lic.). Lokaritgerðin fjallaði um afstöðubreytingar láðs og lagar við Ísland og um kísilþörunga í sjávarseti.

Jón hóf störf á Raforkumálaskrifstofunni (síðar Orkustofnun) 1958. Hann fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu á starfsferli sínum og vann frábært brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga. Sú vinna skilaði sér á kortum og í mikilli skýrslu um hraun og jarðmyndanir á skaganum sem Orkustofnun gaf út.

Jón Jónsson

Rit Jóns Jónssonar – Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Árni Hjartarson skrifaði minningargrein um Jón í Náttúrufræðinginn árið 2005. Þar segir m.a.: „Jón Jónsson jarðfræðingur lést þann 29. október sl. [2005] 95 ára að aldri. Þar með er fallinn frá síðasti fulltrúi frumherjanna í íslenskri jarðfræðingastétt.
Námsferill hans var óvenjulegur um margt. Barnalærdóm og vísi að unglingafræðslu hlaut hann í Þykkvabæ, fór síðan 1928 að Eiðum og sat þar tvo vetur í Alþýðuskólanum. Haustið 1933 hélt hann til Svíþjóðar og vann þar næstu árin við ýmis störf jafnframt því sem hann sótti sér fræðslu á námskeiðum og í bréfaskólum. Námið var þó æði óskipulagt og sundurleitt. Tíminn leið og Jón kom víða við, bæði í Svíþjóð, Þýskalandi og á Íslandi. Árið 1945 settist hann að í Uppsölum og kynntist Tómasi Tryggvasyni, sem þá hafði nýlega lokið jarðfræðinámi við háskólann þar. Fyrir tilstilli Tómasar kynntist Jón fleiri jarðfræðingum og jarðfræðiprófessorum og tók að kynna sér fag þeirra. Síðan fékk hann vinnu sem aðstoðarmaður við jarðfræðistörf og sumarið 1949 tók hann þátt í leiðangri til Grænlands undir stjórn dr. Lauge Koch og stundaði steingervingaleit. Hann starfaði síðan sem rannsóknarmaður á steingervingasafninu í Uppsölum. Hann tók einnig þátt í sænskum leiðöngrum og jarðfræðirannsóknum á Hoffellssandi 1951-1952.

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Sumarið 1954 fór Jón til Íslands og fékk þá þann starfa að gera jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni. Samsumars giftist hann Guðrúnu Guðmundsdóttur, eftirlifandi eiginkonu sinni. Þegar hér var komið sögu má segja að Jón hafi verið orðinn jarðfræðingur að atvinnu, en hann hafði engin prófréttindi og nú var gengið ákveðið til verks að kippa því í liðinn. Jón safnaði saman sundurleitum námsvottorðum sínum og kúrsum, fékk þau með harðfylgi dæmd sem jafngildi stúdentsprófs haustið 1954 og innritaðist þá strax í jarðfræðideild Uppsalaháskóla. Það haust varð Jón 44 ára.
Nú var skipt um gír, námið var þaulskipulagt og gekk hratt. Vorið 1958 var því lokið með tvöfaldri útskrift þegar hann tók kandídats- (fil.kand.) og licentiat-próf (fil.lic.) sama daginn. Lokaritgerðin fjallaði um afstöðubreytingar láðs og lagar við Ísland og um kísilþörunga í sjávarseti.

Sprungur

Sprungur í nágrenni Reykjavíkur. Uppdráttur Jóns Jónssonar, jarðfræðings.

Jón hóf störf á Raforkumálaskrifstofunni (síðar Orkustofnun) sama ár og hann lauk prófum. Framan af voru verkefni hans einkum á sviði neysluvatns- og heitavatnsöflunar. Boranir eftir heitu vatni voru þá komnar á skrið og heppnuðust víða vel undir hans tilsögn. Hann vann einnig sem jarðhitaráðgjafi í ýmsum löndum Mið-Ameríku og Afríku á vegum Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana.
Jón fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu á starfsferli sínum og vann frábært brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga.

Árið 1980 lét Jón af störfum fyrir jarðhitadeild Orkustofnunar en hélt þó áfram eigin rannsóknum og ráðgjöf í neysluvatns- og jarðhitamálum.

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgosasvæði, sprungur og gígar ofan höfuðborgarsvæðisins.

Á þessi skeiði beindust augu hans mjög að Eyjafjöllum og af þeim gerði hann jarðfræðikort sem út kom ásamt ítarlegri lýsingu 1989. Á síðustu árunum beindist áhugi hans í auknum mæli að átthögunum í Vestur-Skaftafellssýslu og hinum miklu hraunaflæmum frá Eldgjá, Lakagígum og Hálsagígum. Síðustu rannsóknarleiðangrana fór Jón á það svæði árið 2002, þá á 92. aldursári. Þótt Jón hæfi ekki jarðfræðistörf fyrr en á fimmtugsaldri spannar starfsferill hans á því sviði vel á sjötta tug ára og er lengri en flestir jarðfræðingar geta státað af.

Helgafellshraun

Hraunin ofan Helgafells – Jón Jónsson.

Jón Jónsson var öflugur vísindamaður sem sést m.a. á þeim fjölda greina sem hann skrifaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Hann var heiðursfélagi í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og einn afkastamesti greinahöfundur Náttúrufræðingsins frá upphafi. Í efnisyfirliti tímaritsins er hann skráður fyrir 77 titlum um fjölmörg efni tengd jarðfræðum. Fyrsta greinin kom 1951, það voru minningarorð um sænskan jarðvísindamann og Íslandsvin, en fyrsta jarðfræðigreinin birtist 1952 og var ávöxtur rannsóknanna á Hoffellssandi. Hún nefnist „Forn þursabergslög í Hornafirði“.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Flest ár þaðan í frá birtist eitthvað eftir hann í ritinu og stundum margar greinar. Í 55. árgangi (1985) urðu þær t.d. sjö. Síðasta greinin kom 2002, „Poas og Katla“, en þar ber hann saman þessi tvö miklu eldfjöll.

Raunvísindamönnum er oft skipt í tvo hópa, þá sem stunda frumrannsóknir, draga saman þekkingu, skrifa lýsingar og setja fram rannsóknargögn, og hina sem nota þessar rannsóknir og grundvallargögn til að smíða úr þeim kenningar eða fræðilegar skýjaborgir og verða gjarnan frægir af. Kenrúngar falla og frægðin dofnar, en vandaðar frumrannsóknir standast tímans tönn og bera gerendum sínum góðan orðstír um aldir. Því mun Jóns Jónssonar lengi minnst í heimi jarðfræðanna.
Náttúrufræðingurinn kveður hinn gengna vísindamann og greinahöfund með þökk og virðingu. – Árni Hjartarson

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org
-https://timarit.is/files/71237940
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 2005, Jón Jónsson, jarðfræðingur, 1910-2005, Árni Hjartarson, bls. 74.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga. Jón Jónsson lagði grunninn að kortinu ásamt Kristjáni Sæmundssyni o.fl.