Jóhann Pétursson bjó um tíma í Þórshamri á Þórkötlustaðanesi. Að sögn heimamanna, sem muna þá tíma, virtist hann rammur að afli, en undarlegur í háttum. Orðrómur gekk m.a. um að hann hafi sést standa ofan sjávarkambsins mót strekkingsvindi og hvitfyssandi ölduróti, baðandi formælandi út öllum öngum. Í bók Pjeturs Hafsteins Lárussonar „Frá liðnum tímum og líðandi“ er áhugavert viðtal við Jóhann þar sem hann minnist m.a. veru sinnar á Nesinu.
Jóhann var bókasafnari og lengi vitavörður í Hornbjargsvita. Hann hafði óslökkvandi ást á bókum, enda ber viðtalið yfirskriftina „Ég vil að góðar bækur séu vel klæddar, eins og konur, sem ég elska“. Jóhann fæddist í Stykkishólmi árið sem Katla gaus, frostaveturinn mikla árið 1918, og ólst upp í Öxney á Breiðafirði. Hann hélt suður 1946 eða 1947, að eigin sögn, til að höndla með bækur. Þá skrifaði hann og bækur, auk þess sem hann keypti fornbókaverslun og hafði það fyrir atvinnu fram til 1960. Þá hélt hann sem vitavörður norður á Hornbjarg, þó með viðkomu í Grindavík, þar sem hann var næstu 25 árin. Hér verður gripið niður í viðtalið þar sem segir frá sögufrægu viðstaldri hans í Grindavík.
„En áður en leið þín lá vestur, varstu um tíma í Grindavík. Varð þá ekki skipsskaði á Reykjanesi, sá hinn sami og Hannes Sigfússon skrifaði síðar um skáldsöguna „Strandið“. Og varst þú ekki þar?
-Jú, það er rétt, þá var ég í Grindavík. Strandið varð á Reykjanestá, mig minnir að þetta hafi gest árið 1949. Ég fór þangað ásamt fleirum, til að taka þátt í björguninni. Skipið sem strandaði, var u.þ.b. 10.000 olíuskip. Það hét Clam. Vélin í því hafði bilað og dráttarbátur sótti það til Reyjavíkur, því ætlunin var, að sögn, að draga það til útlanda. En þegar skipið og dráttarbáturinn voru út af Reykjanei, þá slitnaði dráttartaugin. Það var ekki hvassviðri, þannig að hugsanlega hafa menn verið ákveðnir í því að láta skipið stranda. Hvað um það, skipið rak upp að klettum, þar sem var svo aðdjúpt, að maður gat gengið út á skipið á planka. Ég var fyrstur til að fara út í skipið.
Það var merkileg reynsla á margan hátt. Ég man eftir því, að fjandi margir hásetar fórust þarna. Það var ekki veðrinu að kenna. Skipstjórinn lét setja út bátana, en þeir brotnuðu meira og minna, ýmist uppi við skipssíðuna eða í brimgarðinum. Við vorum að reyna að draga mennina upp, einn og einn, sem komst lifandi að klettunum. Hannes vinur minn skáld, Sigfússon, náði í hárið á einum, en var svo hræddu um, að hann drægi sig niður í sjóinn, að hann sleppti honum. Þar með var sá dauður, en Hannes hljóp burt. Ég man ekki hverrar þjóðar yfirmennirnir á þessu skipi voru, en Evrópumenn voru þeir alla vega ekki, sennilega Bretar. Hásetarnir voru hins vegar Kínverjar.
Það rak mikil verðmæti úr skipsflakinu. Júlli Dan. í Grindavík var fenginn frá tryggingarfélaginu, til að hirða allt og keyra það suður. Meðal annars rak frystiklefa, fullan af dýrmætum matvælum fyrir sextíu manna áhöfn. Þessu var öllu stolið og flestu öðru, sem bjargað varð. Þetta atvik var sambland af harmleik og skepnuskap.
Sumir vilja meina, að þú hafir bjargað líkamsleifum drukknaðra sjómanna og að eitthvað hafi dregist að koma þeim til greftrunar. Hvað er hæft í því?
-Já, það er nokkuð til í þessu. Það rak þó nokkuð af líkum Kínverja fyrir höfðann, þar sem þau höfnuðu í vík, að sunnanverðu við nesið. Víkin er svolítið klettótt og því var erfitt að draga líkin á land. Ég man eftir því, að Hannes hafði náð taki á einu líki en missti það. Þegar það skall í sjóinn, snerist það við og andlitið blasti við mér. Þetta var dálítið óhugnanlegt, allt saman. Ég fór með líkin niður í Grindavík og vildi láta grafa þau. En því var eiginlega neitað að koma þessum dýrum í gröfina. Þó var nú endanleg útkoma sú, að þarna voru mennirnir grafnir.
Varðst þú þá að geyma líkin, meðan stóð í stappi að fá þá grafna?
-Nei, ég fór með þau í frystihúsið og þar voru þau látin vera á borðum í ákveðnu herbergi. Nú, en þarna í frystihúsinu var frystiklefi, þar sem mikið var fryst af matvælum fyrir þorpsbúa.
Sú saga komst á kreik, að ég hefði geymt líkin í þessum klefa, innan um matvælin. Og þær voru fleiri, sögurnar, sem gengu af þessu tilefni. Ein var sú, að draugagangur hefði verið í húsinu hjá mér. Samkvæmt þessari kjaftasögu átti ég að trúa því, að draugar fældust lík. Þess vegna hefði ég tekið hauslausan Kinverja og komið honum fyrir heima hjá mér, sem draugafælu. Nei, það vatnar ekki skáldagáfuna í fólk, þegar Gróa á Leiti gengur lausum hala.
En hvað varst þú að gera í Grindavík, þegar þessir atburðir urðu?
-Það var þannig, að ég hafði keypt hús þarna í Grindavík, Þórshamar hét það. Sannleikurinn er sá, að ég fór þangað til að gera upp áhrif móður minnar á mig, en þau voru mikil. Hún var mikil trúkona, en ég efaðist í þeim efnum. Að minnsta kosti var mín trú ekki jafnstaðföst og hennar. Þettavar því ekki aðeins uppgjör við móður mína, heldur einnig við sjálft almættið. Og það gekk svo mikið á í þessu uppgjöri, að stundum æddi ég um gólf, steytti hnefa til himins og bókstaflega öskraði á Guð.
Svona haga sér nú varla aðrir en trúmenn, eða hvað?
-Þetta er fjandi lúmsk spurning, segir Jóhann og verður nokkuð hugsi, áður en hann heldur áfram. – Trúmaður og trúmaður. Trúa á hvern andskotann? Já, eins og ég sagði, móðir mín var ákaflega mikil trúmanneskja og hafði eflaust mikil áhrif á mig sem barn. Og einhvern veginn mótaði þetta mig. En svo mikið er víst, að þegar ég keypti húsið þarna í Grindavík og bjó þar um tíma, þá háði ég baráttu um þetta upp á líf og dauða. Eiginlega kom ég mikið heilli maður út úr þessu. En þetta var mikil tilfinningaleg og sálræn barátta.
Lendir nokkur maður í slíkri baráttu, nema trú hans sé nokkuð sterk?
-Nei, nei, svarar Jóhann. – Það er einfalt mál. Samt er þetta, að trúa sterkt, nokkuð tvírætt. Móðir mín mótaði mína trú og þessi trú varð dálítið mögnuð fyrir áhrif frá henni. En hvort trú mín var sterk út frá þeirri forsendu einni eða hinu, að hún væri algjörlega meðfædd sannfæring, það er ég ekki viss um.
Varð ekki nokkuð sögulegur endir á búsetu þinni í Grindavík?
-Jú, það er víst alveg óhætt að segja það. Þetta hús, sem ég keypti þarna, Þórshamar, var steinhús. Það var þannig, að eitt haustið ætlaði ég að breyta því. Það var veggur á milli stofunnar og eldhússins. Og á miðjum þessum vegg var skorsteinn. Ég ætlaði að stækka stofuna, með því að brjóta niður þennan vegg. En þegar ég hafði brotið hann öðrum megin við skorsteininn og var rétt byrjaður hinum megin, þá sá ég, að veggurinn féll. Í einhverju ofboði gat ég kastað mér áfram, í átt að útvegg. Í stökkinu skall veggurinn á mér, en það sem bjargaði mér, var það, að á miðju gólfinu var stór steinhrúga. Veggurinn brotnaði á þessari hlrúgu, og það mildaði höggið á mig. Engu að síður hryggbrotnaði ég og fótbrotnaði.
Þarna lá ég eins og djöfulsins aumingi. Þó gat ég skriðið út að holu, sem var uppi við reykhús, sem fylgdi húsinu. Það er nú svona útúrdúr, en ég var stundum að reykja fyrir kerlingar þarna, bæði kjöt og fisk. En ég kunni ekkert með þetta að fara og eyðilagði allan mat fyrir þeim. Nú, nú, en hvað með það, þarna í holunni lá ég í hálfan annan sólarhring í snjókomu og frosti. Ástandið var meira að segja svo bölvað, að í holunni var pollur með ófrosinni vatnsdrullu. Og ofan í þessum polli lá ég með mölbrotna ristina, sem fossblæddi úr.
Sá, sem fann mig, var hundur. Ég var næstum meðvitundarlaus, þegar ég raknaði úr rotinu við það, að hann sleikti á mér andlitið. Ég heyrði, að karl einn var að kalla í hundinn. Mér tókst að gefa frá mér hljóð, þannig að karlinn kom. Ég man bara, að hann ákallaði Guð. Síðan man ég ekki annað en það, að ég var borinn inn á spítala. Ég átti lengi í þessu og enn þann dag í dag er hryggurinn á mér eins og hálfgert S í laginu. Já, það er margt, sem maður hefur orðið að skríða upp úr um dagana, segir Jóhann Pétursson.
Nú er Grindavík ekki ýkja langt frá Reykjavík, vildi það ekki brenna við, að ungskáld þess tíma litu við hjá þér?
-Jú, heldur betur. En það er ástæðulaust að fjalla sérstaklega um það. Þó sakar ekki að geta þess, að Stefán Hörður, sá öðlingsmaður, dvaldi hjá mér. Og fyrstu nútímaljóðabók sína, „Svartálfadans“, skrifaði hann nær alveg þarna suður frá hjá mér.“
Síðar, þar sem sagt er frá samveru þeirra við að gæta fornbókaverslunarinnar Bókavörðunnar fyrir Braga Kristjónsson við Vesturgötu, berst samtalið aftur að dvölinni í Grindavík: „Ég hafði orð á því við Jóhann, að mér hafi þótt lýsingar hans á uppgjörinu við Guð almáttugan, suður í Grindavík, heldur í stórbrotnara lagi. Hann skilur það.
-En svona er nú lífið, segir hann. – Ég veit svei mér þá ekki, hvort mér var alveg sjálfrátt, þarna suður í Grindavík.
Það er þá ef til vill eitthvað til í því, sem sumir segja, að þú sér ekki með öllu mjalla? spyr ég hreint út, enda þætti víst sumum tilefni til, vegna soddan lýsingar á samskiptum við æðri máttarvöld.
-Ég hef aldrei verið það, svarar Jóhann að bragði. – Það er ósköp einfalt mál. Og ég er orðinn svo gamall, að það breytist ekkert úr því sem komið er. Ég lifi og starfa við sama fábjánaháttinn og ég hef alltaf gert.
Heldurðu að þetta sé þér áskapað, eða hefurðu stuðlað að þessu sjálfur?
-Það er hvort tveggja í senn. Mér er að vissu leyti áskapað þetta, en svo hef ég stuðlað að því sjálfur, að svo miklu leyti, sem mér hefur verið það kleift. Enda vill svo til, að þetta mannlega líf er bjánaskapur frá upphafi til enda, 98% er vitleysa og afgangurinn bull.
Þú ert sem sagt ekki hrifinn af því, sem fínt þykir í dag og sumir kalla „normalitet“?
-Svarið lætur ekki á sér standa. – Nei, en ég hef svo sem hvergi rekist á það. Ég rekst aðallega á menn, sem virðast yfirmáta gáfaðir en reynast svo algjörir fábjánar. Og mér líkar það vel, enda er ég hvort tveggja sjálfur.“
Í minni fólks hefur Jóhann jafnan verið tengdur Þórkötlustaðanesvitanum (Hópsnesvitanum) þar sem hann á að hafa verið vitavörður. Ekki er ólíklegt að ætla að svo hafi verið um skeið því sá viti var byggður árið 1928 og þarfnaðist umsjónar. Í framangreindu viðtali við Jóhann er ekki að sjá að hann hafi þjónustað vitann, en einmitt af þeirri sjálfsögu ástæðu gæti hafa gleymst að geta þess!
Við framangreinda frásögn vildi Loftur Lónsson í Grindavík bæta eftirfarandi: „Í bókinni er ekki farið alveg rétt með staðreyndir, Þarna er sagt, að olíuskipið Clam hafi strandað 1949. Hið rétta er að það strandaði 28. febr. 1950 samkv. Morgunblaðinu 1. mars sama ár. Ennfremur er rétt að geta þess að Jóhann Pétursson var aldrei vitavörður við Hópsnesvita. Á þeim tíma, sem hann var í Þórshamri, er líklegt að vitavörður hafi verið Guðmundur Benónýsson, Þórkötlustöðum. Allavega var hann fyrsti vitavörður við vitann og Árni Magnússon, Túni (Víkurbraut 32) tók við af honum. Ég efast um að rétt sé, að lík þeirra sem drukknuðu hafi verið geymd í Hraðfr.húsi Grindavíkur. Þau voru örugglega flutt beint inn í Fossvogskapellu. Jón Guðlaugsson frá Skálholti var þá vörubílsstjóri hjá Verslun Einars í Garðhúsum. Hann hefur sagt mér, að eitt sinn þegar hann fór með lík á pallinum inn í Fossvog, að þá stoppaði hann við bensínsölu, sem var efst á Kópavogshálsinum til að taka bensín. Þá kom þar að fullorðinn Kópavogsbúi. Hann ávarpaði Jón og spurði hvaða ferðalag væri á honum. Jón sagðist koma frá Grindavík. „Jæja, eru þeir ekki að fiska vel í Grindavík eins og venjulega“. Hann steig því næst upp á dekk bílsins og kíkti undir seglið, sem var kyrfilega bundið yfir pallinn. Aumingja manninum varð svo mikið um, þegar hann sá hvað var undir seglinu að hann hröklaðist öfugur frá bílnum, spurði einskis frekar og fór þegjandi í burtu.
Þess má geta í lokin, að talið er að flestir þeirra sem dóu við strandið hafi kafnað við það, að svartolía, sem dráttarbáturinn dældi í sjóinn, hafi fyllt vit þeirra sem lentu í sjónum. Það var þykkur, stór flekkur af svartolíu við skipið.“
Heimild:
-Pjetur Hafstein Lárusson – Frá liðnum tímum og líðandi – 2002, bls. 55-82.