Tag Archive for: jólasveinn

Helgafell

Í jólablaði Fjarðarfrétta 2022 er saga af „Jólasveininum í Helgafelli„, samin af Þórarni Reykdal á næturvöktum í Íshúsi Reykdals um miðjan sjötta áratuginn:

Jólasveinn„Jólasveinninn í Helgafelli vaknaði af værum blundi. Hann settist fram á rúmstokkinn og geispaði óskaplega og teygði úr sér. Það var nú reyndar engin furða, því að nú var kominn fyrsti vetrardagur, en eins og þið vitið þá sofa allir jólasveinar frá þrettándanum og fram til fyrsta vetrardags.
Jólasveinninn klæddi sig í skyndi og opnaði sjónvarpið sitt, til þess að gæta að hvað börnin niðri í byggðinni hefðust að.
-„Það er nú einhver munur síðan ég fékk sjónvarpið,“ sagði hann við sjálfan sig.
-„Nú get ég setið hér og horft í sjónvarpið mitt og séð alla krakkana, í stað þess að hlaupa um allar jarðir og kíkja á gluggana.“
Í sjónvarpinu sá hann hvítt hús með rauðu þaki. Það var Móberg í Garðahreppi. Hann sá krakkana fjóra sitja inni í stofu. Þau voru að lesa og skoða blöð. Þá varð honum litið á kamínuna.
jólasveinn
-„Já, nú skal ég reyna að gera það sem jólasveinarnir í útlöndum gera, “ sagði hann við sjálfan sig.
-„Ég heyrði það í útvarpinu einu sinni, að þeir færu niður um strompinn og settu jólagjafir í sokka sem hengdir eru á kamínuhilluna og ég sá einmitt svona jólasokka hér í fyrra. Ég vona að þau hengi þá aftur á hilluna núna á jólunum.“
Svo liðu dagarnir fram að jólum.
Jólasveinninn var önnum kafinn við að búa til jólagjafir og að horfa í sjónvarpið sitt. Hann sá inn í öll hús í Garðahreppi og Hafnarfirði og miklu víðar. Stundum sá hann krakka sem voru óþekk, en þau voru nú sem betur fer ekki mörg og þegar jólin fóru að nálgast urðu öll börn miklu þægari. Því að allir vildu fá jólagjafir frá jólasveininum. Þegar aðfangadagur kom var poki jólasveinsins orðinn fullur og svo hélt hann af stað.
jólasveinn
Jólasveinninn á heima einhvers staðar í toppinum á Helgafelli og hann fer alltaf í gegnum gatið á Helgafelli þegar hann fer niður í byggðina.
Þegar jólasveinninn var kominn svolítið niður fyrir Helgafell mætti hann trölli.
-„Sæll vertu,“ sagði Jóli, -„og hver ert þú eiginlega?“
-„Ég heiti Narfi nátttröll. Ég átti einu sinni heima í Valabóli, en síðastliðin fjögur hundruð ár hef ég staðið eins og klettur hérna utan í Valahnúkunum. Ég fór suður í Kleifarvatn að veiða eitt sinn en varð of seinn heim og sólin skein á mig svo að ég varð að steini“.
-„Já, nú man ég eftir þér,“ sagði Jóli. -„Ég var nú bara jólasveinastrákur þegar þetta skeði, en nú er ég orðinn fjögurhundruð og fjórtán ára. En segðu mér annars hvað þú ert að gera hér núna“.
jólasveinn-„Jú sjáðu,“ sagði tröllið „ég er búinn að standa þarna svo agalega lengi að ég var orðinn dauðþreyttur í fótunum, svo að ég mátti til með að liðka mig svolítið. Ég skrapp áðan heim í gamla hellinn minn Valaból. Þar er nú orðið fínt maður. Það er komin hurð og allskonar fínirí, svo að mig dauðlangar að halda þar jólaveislu eins og í gamla daga, enn nú þekki ég ekki lengur neinn sem ég get boðið. Kannske getur þú hjálpar mér,“ sagði tröllið og klóraði sér vandræðalega í hraunskegginu.
-„Ég skal nú sjá til,“ sagði Jóli og kvaddi tröllið og hann flýtti sér af stað.
Þegar Jóli kom niður í Gráhelluhraun mætti hann tveimur litlum grænklæddum körlum.
-„Sælir verið þið,“ sagði hann „og hvaða fuglar eruð þið nú eiginlega?“
jólasveinn-„Ég heiti Síðskeggur,“ sagði annar þeirra -„og hann bróðir minn þarna heitir Stuttskeggur. Við erum dvergar og eigum heima hérna í Gráhellu“.
-„Rétt er nú það,“ sagði Jóli.
-„En heyrið þið mig annars. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Viljið þið nú ekki vera svo góðir að koma, því að trölli greyið þekkir svo fáa og hefur ekki talað við nokkurn mann í fjögur hundruð ár“. Það vildu dvergarnir og svo kvaddi Jóli þá og þrammaði áfram.
Jólasveinninn var kominn niður á Svínholt, þegar hann sá einhverja skrýtna veru koma hoppandi á móti sér. Hann staðnæmdist, setti frá sér pokann og hló svo mikið að hann varð að halda um magann. „Ha, ha, sæll vert þú og ha, ha, ha hvað heitir þú?“ gat Jóli loksins stunið upp. Aldrei hafði hann séð svona skrýtinn karl.
jólasveinn-„Ég er tunglpúki,“ sagði karlinn, sem var eins og hjól í laginu.
-„Þú lítur út fyrir að vera skemmtilegur náungi,“ sagði Jóli -„viltu ekki koma í jólaveislu til nátttröllsins í Valahnúkum?“
-„Jú það vil ég,“ sagði tunglpúkinn og svo hoppaði hann og skoppaði sína leið, en jólasveinninn hélt áfram ferð sinni.
Jólasveinninn hafði ekki gengið lengi er hann mætti stórri og ljótri kerlingu.
-„Sæl Grýla mín,“ sagði hann.
-„Mikið ertu nú vesældarleg núna“.
-„Já það er nú von,“ sagði Grýla, -„ég er nú nú búin að vera á flakki um allar sveitir frá morgni til kvöld um langan tíma og ekki fengið eitt einasta krakka krýli í pokann minn. Sko sjáðu. Hann er alveg tómur“.
jólasveinn-„Já, Grýla mín,“ sagði Jóli, -„blessuð jólin eru nú að koma og þá eru öll börn góð og þæg, svo að það er ekki von að þú finnir marga óþekka krakka þessa dagana. En heyrðu nú greyið mitt. Hann Narfi nátttröll ætlar að halda jólaveislu í Valabóli. Vilt þú ekki koma þangað, svo að þú farir ekki á mis við alla jólagleði í ár?“
Grýla var ósköp þakklát fyrir boðið og svo kvöddust þau og Jóli flýtti sér á stað því hann var búinn að tefjast svo oft á leiðinni. Hann sá nú ljósin í bænum, það var víða búið að kveikja á jólaljósum úti.
Jæja, þarna er þá Móberg. Það er best að fara þangað fyrst. Fyrir utan húsið á Móbergi stóð snjókarl. Jólasveinninn gekk til hans og heilsaði honum.
-„Sæll vert þú Snjólfur minn.“
-„Komdu sæll,“ sagði Snjólfur snjókarl“.
-„Hvað er þú að gera hér um miðja nótt?“
jólasveinn-„Það skal ég segja þér,“ sagði Jóli. „Ég ætla nú að reyna svolítið, sem enginn jólasveinn á Íslandi hefur gert. Þú veist, að það er kamína hérna og nú ætla ég, lagsmaður, að stinga mér niður um strompinn, eins og þeir gera í útlöndum, jólasveinarnir. Þá þarf ég ekki að vekja neinn til þess að opna fyrir mér.“
-„Niður um strompinn,“ sagði snjókarlinn, -„hvernig í ósköpunum ætlar þú að fara að því? Þú, sem ert svona feitur“.
-„O, við jólasveinar kunnum nú ráð við slíku,“ sagði Jóli, -„við getum gert okkur stóra og litla eftir þörfum“.
-„Jæja, þú um það,“ sagði Snjólfur, -„en hræddur er ég um að þú verðir allur kolsvartur á þessu“.
-„Við sjáum nú til,“ sagði Jóli -„en nú verð ég að fara að koma mér að verki, því að víða verð ég að koma í nótt. En heyrðu kunningi, það verður nú hálf kuldalegt fyrir þig að híma þarna úti um jólin.
jólasveinn-Viltu ekki koma í jólaveislu til hans Narfa nátttrölls í Valabóli?“
Jú, snjókarlinn vildi það og svo klifraði Jóli upp á þak og stakk sér niður í strompinn. Þetta gekk nú ekki eins vel og til stóð. Jóli stóð nefnilega fastur í strompinum. Í ákafanum hafði hann gleymt að gera sig lítinn. „Æ, hver skollinn,“ sagði hann og gerði sig svo lítinn að hann losnaði. En þá tók ekki betra við. Hann gerði sig of lítinn, svo að hann datt nú allt í einu niður og valt með brauki og bramli inn á mitt stofugólf.
-„Æ, þetta var nú meiri klaufaskapurinn,“ hugsaði Jóli -„nú vakna krakkarnir“. Og það var einmitt það sem skeði. Jói, Gréta, Tóta og Iðunn hlupu öll fram í gang. Hurðin á stofunni var opin og þau sáu jólasveininn sitja á gólfinu. „Það er bara jólasveinninn,“ sögðu þau „við megum ekki trufla hann, þegar hann er að koma með jólagjafirnar“.
Og svo fóru þau öll í bólin sín aftur og sofnuðu. En morguninn eftir sögðu þau öll að þau hefði dreymt að jólasveinninn hefði komið.

Valaból

Valaból.

En það er af jólasveininum að segja að hann hét því að gera betur næst.
-„Þá hef ég æfinguna,“ sagði hann. Svo flýtti hann sér að útbýta öllum gjöfunum úr stóra pokanum sínum, og þegar því var lokið hélt hann aftur til fjalla til þess að sitja jólaveisluna í Valabóli.
– Og svo komu sjálf jólin. Öll góð börn fengu einhverjar jólagjafir. Það voru jól í hverju húsi og það voru líka jól í Valabóli. Narfi nátttröll var ánægður með jólaveisluna sína. Það var nóg að borða og það var svo gaman að fá að tala við einhvern, þegar maður hefur þagað í fjögur hundruð ár. Allir í Valabóli skemmtu sér vel. En Snjólfur snjókarl var samt dálítið hræddur um að hann myndi bráðna áður en veislan væri búin. Honum þótti vissara að sitja næst dyrunum og hann borðaði lítið af heita hangikjötinu, sem hann Kjötkrókur hafði sent, en hann át mest af eftirmatnum, sem var rjómaís. Það var óhætt fyrir snjókarl.“

Góða nótt og gleðileg jól
gott er sig að hvíla.
Ef krakkar eru komin í ból
kemur engin Grýla.

Höfundur texta og mynda er Þórarinn Reykdal. Sagan hefur ekki áður komið út á prenti og er birt með leyfi afkomenda.

Heimild:
-Fjarðarfréttir 20 des. 2022, Jólasveinninn í Helgafelli, Þórarinn Reykdal, bls. 15 og 19.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.