Færslur

Gullbringuhellir

Farið var að jaðri Hvammahrauns austan Kleifarvatns til að leita Hvammahraunshellis.

Jón Bergsson leiddi leitarhópinn, en hann hafði rekist á hellisop þarna á leið sinni um Gullbringur nokkrum áratugum fyrr. Hann var þá ljóslaus og gat ekki kannað nánar.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Þarna, norðan Gullbringu (ranglega merkt á landakort), liggur Dalaleiðin í fleyg upp gras- og lyngbrekku, upp með suðurjaðri hraunsins og áfram norður yfir það allnokkru ofar, neðan hinnar eiginlegu Gullbringu. Norðan hennar er Gullbringuhellir (Jónshellir).

Greinilegt var að engin umferð hefur verið um hellisopið í langan tíma. Dýjamosi er á steinunum innan við opið, en þar voru hvorki spor og né önnur ummerki. Haldið var niður í hellinn, en nokkuð hrun er í fremst í honum. Komið var niður á slétt gólf stórrar hraunrásar. Hraunstrá voru í loftum. Innar þrengist rásin. Þar var hlaðið sporöskjulaga fleti á þurrum stað. Gólfið undir er slétt og grjótið var greinilega týnt til og flórað þarna undir fleti. Ofan við fletið var fúin spýta, en til hliðar við þar voru nokkur smábein. Haldið var innar í hellinn, en eftir u.þ.b. 40 metra lækkar hann og þarf að skríða að opi þar sem rásin hallar niður á við og víttkar á ný (eftir um 70 metra). Ákveðið var að fara ekki lengra að sinni, en skoða bælið betur. Ofan við það virtist hellisveggurinn vera svartur af sóti á kafla. Fallið hafði úr loftinu að veggnum. Góð birta er allt að bælinu og sést vel frá því að opinu, en ekki sést í fletið ef staðið er við opið og horft inn.

Gullbringuhellir

Í Gullbringuhellir.

Hellirinn var nefndur Jónshellir þangað til annað kemur í ljós. Jafnframt var ákveðið að láta Hellarannsóknarfélagið vita um hellinn því skoða þarf hann nánar, einkum innan og neðan við þrengslin. Þegar haldið var upp frá jarðfallinu birtist um 10 m. hellisrás.
Á næstunni verður reynt að grafa upp sögur og sagnir af notkun hellisins, en allt eins er víst að þarna hafi forðum verið athvarft eða skjól fyrir vegfarendur á leið um Dalaleiðina sunnanverða.
Skammt ofar og norðar í Hvammahrauni er Hvammahraunshellir (lýst síðar).
Í bakaleiðinni var litið ofan í Brunntorfuhelli, en hann er á um fimm metra dýpi. Sá hellir bíður enn nákvæmari skoðunar.
Veður var frábært – hlýtt og bjart.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir. Nafnarnir Jón Bergs og Jón Svanþórsson við opið.