Tag Archive for: Jónsmessa

Jónsmessa

Jónsmessan er fæðingarhátíð Jóhannesar skírara enda eru Jón og Jóhannes tvö afbrigði sama nafns í íslensku. Í gömlum ritum er Jóhannes skírari oft nefndur Jón eða Jóan skírari eða baptisti. Dagsetningu Jónsmessu má rekja til ákvörðunar Rómarkirkjunnar að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á fornum sólstöðuhátíðum, á stysta og lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar. Samkvæmt Nýja testamentinu fæddist Jóhannes um það bil sex mánuðum á undan Jesú. Jónsmessuhátíðir voru bæði að sumri og að vetri.

Dögg

Dögg.

Að Jesús sé fæddur í svartasta skammdeginu þegar sólarganginn tekur að lengja, er auðvitað þrungið merkingu og táknar þá von sem Jesús færir mannkyninu samkvæmt kristinni guðfræði. Því passaði það fullkomlega að fæðing Jóhannesar skyldi tímasett þegar sólargangur væri sem lengstur.
Þegar júlíanska tímatalinu var komið á í Rómaveldi á 1. öld f. Kr., héldu Rómverjar upp á 24. júní sem lengsta dag ársins. Það tímatal lá til grundvallar ákvörðun Rómarkirkjunnar nokkrum öldum síðar að messudag Jóhannesar skírara bæri upp á þann dag. Menn gerðu sér þá ekki grein fyrir því að sumarsólhvörf höfðu færst fram um þrjá daga miðað við stjarnfræðilegar sólstöður. Jónsmessu ber því ekki upp á lengsta dag ársins fremur en jólin á stysta dag ársins.

Óskasteinn

Óskasteinn úr Esjunni.

Ýmis þjóðtrú tengist Jónsmessu. Alþekkt er trúin á að döggin sem fellur á Jónsmessunótt ætti að vera svo heilnæm að menn læknuðust af kláða og átján öðrum óhreinindum í holdi við aðvelta sér allsberir upp úr dögginni. Á Jónsmessunótt átti einna helst að vera unnt að finna svokallaða náttúrusteina, t.d. óskasteina, lífsteina og hulinhjálmsstein.
Árni Björnsson fjallar ítarlega um sögu Jónsmessunar, hér á landi sem erlendis, í bók sinni Saga daganna. Fróðleiksfúsum er bent á að kynna sér skrif Árna en hér verður stiklað á stóru í umfjöllun hans.

Sólstafir

Sólin hækkar á lofti.

Jónsmessan er 24. júní. Hún leysti af hólmi forna sólhvarfahátíð í Róm, og virðist einnig á Norðurlöndum hafa komið í stað slíkrar veislu. Suður í Evrópu var Jónsmessan talin miðsumarsnótt og var mikil alþýðuhátíð með brennum, dansi og svokölluðum nornamessum. Hérlendis var hátíðahald mun minna en í grannlöndunum.
Kann að hafa ráðið nokkru að á þjóðveldisöld lenti dagurinn á miðjum alþingistímanum. Á fyrra hluta 20. aldar byrjuðu nokkur félög að halda útihátíð á Jónsmessu en nánd við þjóðhátíðardaginn 17. júní hefur dregið úr slíku tilstandi eftir 1944. Jónsmessunótt, aðfaranótt 24. júní, er þó ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins, og fylgir ýmis þjóðtrú, meðal annars að kýr tali og selir fari úr hömum sínum. Þessa nótt á einnig að vera gott að leita töfragrasa og náttúrusteina, og Jónsmessudöggin þykir heilnæm til lækninga ef menn velta sér í henni allsberir. Jónsmessa var ekki numin úr tölu helgidaga fyrr en 1770.

Hestar

Hestar á Jónsmessu.

Jónsmessunóttin, aðfaranótt 24. júní, er ein þeirra fjögurra nátta í íslenskri þjóðtrú sem taldar eru hvað magnaðastar og þá geta alls kyns dularfullir hlutir gerst. Hinar næturnar eru allar í skammdeginu: Jólanótt, nýársnótt og þrettándanótt. Sagt er að á Jónsmessunótt fljóti upp ýmiss konar náttúrusteinar sem geta komið að góðu gagni. Þá má einnig finna ýmis nýtileg grös.
Samkvæmt íslenskri þjóðtrú er heilsusamlegt að velta sér upp úr dögginni á Jónsmessunótt.
Það er algengur hugsunarháttur í þjóðtrú að sé farið út fyrir það sem myndar einhverja heild skapist hættuástand; alls kyns öfl, bæði góð og ill, leysist úr læðingi eða hlutir öðlist sérstaka eiginleika. Þetta á til dæmis við þegar einu ferli lýkur og annað tekur við. Þegar einum degi lýkur og annar hefst, klukkan tólf á miðnætti, fara hin myrku öfl á stjá; hið sama gerist þegar árinu lýkur, á nýársnótt og þegar sólin nær hápunkti á hringferli sínum á Jónsmessunni.

Jónsmessa

Á Jónsmessu.

Eitt af því sem magnast upp og öðlast sérstakan lækningamátt á Jónsmessunóttinni er döggin. Þess vegna er það gömul trú að mjög heilnæmt sé að velta sér nakinn upp úr dögginni þessa nótt. Geri menn það batna þeim allir sjúkdómar og þeim verður ekki misdægurt næsta árið á eftir.
Jónsmessa hefur alla tíð haft á sér aðra mynd á Íslandi en sunnar í Evrópu. Í Evrópu er hún miðsumarshátíð, samanber leikrit Shakespeares, A Midsummer Night’s Dream sem á íslensku nefnist Draumur á Jónsmessunótt. Þar tíðkuðust svallveislur miklar, brennur og dansleikir sem gjarnan tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum og djöflum.

Sólstafir

Myrkrið að víkja fyrir dagsbirtunni.

Skiljanlega leist mörgum kirkjumanninum illa á slíka hegðun á helgum degi. Marteinn Lúter sveiflaðist til dæmis milli þeirrar skoðunar að gleði alþýðunnar ætti rétt á sér og að hegðun hennar líktist mest hjáguðadýrkun. Þrátt fyrir viðleitni kirkjunnar manna er enn haldið upp á Jónsmessu með brennum, dansi og drykkju, en hátíðarhaldið hefur vissulega orðið hóflegra í löndum Evrópu eftir því sem aldirnar liðu.
Náttúrufar, atvinnuhættir og samfélagsforsendur hafa komið í veg fyrir að Jónsmessuhátíðin skipaði sama sess á Íslandi og annars staðar. Jónsmessan er ekki um miðsumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, sumarið er ekki hálfnað fyrr en um miðjan júlí. Á þjóðveldisöld hófst Alþingi dagana kringum 24. júní og því ekki tími fyrir almenn hátíðahöld kringum landið. Síðar seinkaði setningu Alþingis, líklega vegna kólnandi veðurfars sem tafði fyrir öllum vorverkum og kom enn frekar í veg fyrir að menn gætu gert sér glaðan dag á Jónsmessu.

Jónsmessa

Jónsmessubrenna – fagnað hækkandi sól og lengingu dagsins.

Strjálbýli landsins gerði samkomur allar erfiðar og vegna skógleysis voru litlar forsendur fyrir því að halda miklar brennur á þessum tíma með tilheyrandi söng og dansi.
Bjartar nætur hafa líka átt sinn þátt í því að máttur góðra sem illra vætta hefur þótt í lágmarki kringum Jónsmessu og því lítil ástæða til að þóknast þeim með dýrkun hverskonar sem einkenndist af svalli í Evrópu. Jónsmessunótt þykir þó enn með mögnuðustu nóttum ársins en þá yfirleitt tengd náttúrutrú ýmiss konar. Jónsmessunæturdöggin á að vera heilnæm, hvort sem fólk veltir sér upp úr henni nakið eða lætur sér nægja að ganga í henni berfætt. Jónsmessunótt er einnig góður tími til að finna steina með ýmsar heilsusamlegar náttúrur og til að tína grös til lækninga – sú venja gæti átt sér vísindalega stoð því efnasamsetning jurta er auðvitað breytileg eftir árstíma.

Jónsmessa

Hækkandi sól.

Nú á dögum ættu aðstæður að vera hátíðahöldum á Jónsmessu meira í vil en fyrr á tímum. Hlýrra veðurfar gerir það að verkum að vorverkum bænda er gjarnan lokið fyrir Jónsmessu og heyskapartíð ekki enn hafin. Það sem helst hefur staðið gleðskap á Jónsmessu fyrir þrifum er hve nálæg hún er þjóðhátíðardeginum 17. júní. En á móti kemur að sífellt fleiri kynnast Jónsmessuhátíðum erlendis, og betri efnahagur og styttri vinnutími eykur eftirspurn eftir skemmtunum þannig að krafan um gleðskap á Jónsmessu kann að styrkjast á næstu árum og áratugum.“

Jónsmessa

Jónsmessuhátíð á Þorbirni.

Ein af þeim vinsælu Jónsmessugöngum, sem fest hafa sig í sessi undanfarin ár, er för upp á Þorbjarnarfell ofan við Grindavík. Þátttataka hefur jafnan verið mjög góð.
Tilkoma nafnsins Þorbjörn hefur jafnan verið á reiki. Ein tilgátan er sú að fellið hafi fyrrum heitið Forn-Björn eftir Hafur-Birni þeim er þjóðsagan lýsir og skjaldarmerki Grindvíkinga síðar byggist á.

Heimildir:
-Árni Björnsson, Saga daganna, Mál og menning, Reykjavík 1993.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=5382.

Selur

Selur.