Tag Archive for: Kaldadý

Vatn

Farið var með heimildarmanni, Jóni Péturssyni frá Eyrarhrauni, að Kaldadý, sem vera átti upp af og til hliðar við hús nr. 53a við Suðurgötu.

Kaldadý

Kaldadý – steypt brunnlok.

Kaldadý er merkileg fyrir það að hafa verið fyrsta neysluvatnsveita Hafnfirðinga. Hún var „virkjuð“ um 1904 og þá af einkaaðilum undir heitinu Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið lét grafa brunninn og lögðu frá honum pípur vestur eftir bænum. Hér mun hafa verið um að ræða ein fyrstu vatnsveitu á landinu, sem í ár verður aldargömul. Vatnsveita Hafnarfjarðar keypti síðan holuna er byrjað var að reyna að leiða vatn úr Kaldárbotnum og sækja vatnið í Lækjarbotna.

Kaldadý

Kaldadý árið 2022.

Til langs tíma mátti sjá leifar Kaldadýjar. Steypt var ferningslaga þró umhverfis hana og bárujárnsplata sett yfir. Loks var holan fyllt upp til að minnka líkur á að einhver færi sér að voða í holunni. Nú stendur bílskúrinn að Suðurgötu 53a yfir Kaldadý. Tekinn var GPS-punktur.
Fólk sótti vatn í brunnholur og jafnvel í Lækinn. Það þótti hins vegar ekki gott vatn – mórautt. Einn góður brunnur var skammt frá Selvogsgötu, sem kallaður var Góðhola. Nú er búið að steypa hús á henni.
Haldið var út að Eyrarhrauni á Mölum. Hafnarfjarðarbær er nýbúinn að kaupa húsið, sem var byggt skömmu fyrir aldamótin 1900, og verður það rifið næstu daga. Umhverfis eru miklir grjótgarðar.

Eyrarhraunsbrunnur

Eyrarhraunsbrunnur. Jón Pétursson.

Framan við húsið er Eyrarhraunsvarðan. Á hana er markaður bókstafurinn E til minningar um Engeljón Sigurjónsson er byggði húsið upphaflega. Varðan, sem stendur á hraunhól, var hlaðin af Engeljóni, en hefur nú verið klædd steinsteypu.

Genginn var brunnstígurinn að brunninum í hraunhvilft norðan við bæinn. Hann var fallega hlaðinn – um þriggja metra djúpur. Fyllt var upp í hann með grjóti svo enginn færi sér þar að voða. Mosagróið er yfir grjótið. Auðvelt væri að fjarlægja það og opinbera brunninn. Tekinn var GPS-punktur og mynd af brunnstæðinu.

Allians

Allians-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Í kringum Eyrarhraun eru fallega hlaðnir garðar. Þar er og nafnlaus skúti, sem reyndist ungum uppalingum notadrjúgur fyrrum.
Nefndir voru nálægir fiskreitir, s.s. Allians reiturinn þar sem nú er nýbygging Hrafnistu (var mokað burt á einum degi fyrir skömmu). Á bakkanum voru hlaðnir garðar og eftir þeim gengu vagnar á teinum. Hefur líklega verið fögur sjón á þeim tíma.

Kaldadý

Kaldadý var aftan við þennan skúr við Suðurgötu.

Lækjarbotnar

Þegar gengið er upp með læknum er kemur úr Lækjarbotnum má sjá hvar hann liðast með norðurjaðri Stekkjarhrauns og Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru hleðslur undan timburhúsi, sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá trépípa niður til bæjarins. Sjá má leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið. Á skilti þarna stendur eftirfarandi:
Leifar vatnsstokksins frá Kaldá„Fram til 1904 var engin vatnsveita í Hafnarfirði en það ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar „Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar“. Félagið stóð meðal annars fyrir því að grafnir voru brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá tengd veitunni en auk þess voru settir upp vatnspóstar bíða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttu sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerðar.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu héðan ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landfræðings en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið frá Lækjarbotnum vegna hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár en þó þurfti að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna oftar en einu sinni.
Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóhannesar Reykdals og Jóns Ísleifssonar verkfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Sléttuhlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949 en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjáanlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951.“

Vatnspípan í Lækjarbotnum

Í Sögu Vatnsveitu Hafnarfjarðar segir m.a. um þessar framkvæmdir: „Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu.
Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.
Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan  sleppt við suðurenda Setbergshlíðar þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni. Undanfarin ár hefur verið nægilegt neysluvatn að fá í Hafnarfirði og talið að endurbætur á bæjarveitukerfinu hafi átt mestan þátt í því.“
Vatnspípan í Lækjarbotnum