Tag Archive for: Kaldárhöfði

Kvöldsól

Í „Fornleifaskráningu í Grímsneshreppi I: Fornleifar á Kaldárhöfða, Efri-Brú, Syðri-Brú, Ásgarði og Miðengi„, skráða af Fornleifastofnun Íslands árið 1999 segir eftirfarandi um kumlið að Kaldárhöfða, nánar tiltekið við Efra-Torfunes, en fundur uppgötvun þess er talinn einn sá merkasti hér á landi hvað varðar fjölda og tegundir gripa er í því voru:

Efra-Torfnes kuml/legstaður

Kaldárhöfði

Úlfljótsvatn – dys í landi Kaldárhöfða, nú komin undir vatn.

„Vestur af Vaðhól var Efra-Torfnes. Það er nú komið undir vatn nema lítill hólmi, þar sem það var hæst. Vestan í því var fornmannadys, sem fannst 1946. Þar sem dysin var, er nú komið undir vatn“, segir í örnefnaskrá. Hólminn sést vel frá brúnni yfir Sog við Úlfljótsvatn. Þar sem hann er næst landi eru um 80-100 m í hann. Hátt rafmagnsmastur trónir á hólmanum. Lítill hólmi, u.þ.b. 70×40 m. Sléttur og gróinn.

Eftirfarandi kafli er tekinn úr bókinni Kuml og haugfé eftir Kristján Eldjárn:
Kaldárhöfði er nyrzti bær í Grímsnesi. Í landi hans, rétt neðan við þann stað, þar sem Sogið rennur í Úlfljótsvatn, er lítill hólmi í vatninu og heitir Torfnes. Eins og nafnið bendir til, var hann áður landfastur, en þegar aflstöðin við Ljósafoss var reist (árið 1937), var vatnsborð Úlfljótsvatns hækkað nokkuð, svo að Torfnes losnaði frá landi og nýir bakkar mynduðust.

Fornminjar

Grafið í kumlið á Torfunesi við Kaldárhöfða árið 1946. Fornleifafræðingar munu seint verða á ný svona töff í tauinu.

Maður, sem var að vitja um silunganet við hólmann – því að silungsgengd er þarna mikil – varð þess var, að fornleifar stóðu út úr bakkanum, og þótti líklegt, að fornt kuml væri. Rannsakaði ég kumlið samdægurs fyrir Þjóðminjasafnið. Reyndist þetta vera einn hinn glæsilegasti kumlfundur, sem fram hefur komið hér á landi.
Kumlið stóð mjög lágt, aðeins 2-3 m ofar hinu upprunalega vatnsborði, í stórþýfðum, rökum móa. Lík og haugfé var mjög lítið niðurgrafið, en orpinn hafði verið lágur haugur með miklu grjóti í. Haugurinn var mjög siginn og vakti ekki lengur neina athygli í stórþýfinu, og líklega hefur hann aldrei verið meira en 1 m í hæsta lagi. Grjótið hefur verið tekið hér og hvar í vatnsbökkunum. Þegar vatnið fór að þvo moldina úr kumlinu, hrundi grjót þetta niður og skemmdi nokkuð þá forngripi, sem voru vestast í kumlinu. Einnig gæti verið, að eitthvað hefði með öllu skolazt í vatnið, en það mun varla hafa verið mikið.

Fornminjar

Grafið í kumlið á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn.

Að öðru leyti var kumlið algjörlega óhreyft frá upphafi vega. Höfðahlutinn einn er ekki alveg ljós vegna landbrotsins. Þá gerði það og myndina nokkru óskýrari, að allar líkamsleifar voru horfnar að undanteknum örlitlum beinögnum, er mettazt höfðu spanskgrænu. Fótleggir og lærleggir sáust þó sem svört strik í moldinni og sýndu, að þarna hafði verið grafinn fullorðinn maður, liggjandi á bakið, með höfuð til vesturs. Þetta mátti einnig að nokkru leyti ráða af niðurröðun haugfjárins. En við vatnsbakkann fundust tvær augntennur úr 7-8 ára barni, og má því víst þykja, að hér sé um tvíkuml að ræða, fullorðins manns og barns. Tennur hins fullorðna hljóta þá að hafa týnzt í vatnið, af því að þær voru vestast í kumlinu.

Kaldárhöfðii

Kumlið á Kaldárhöfða – uppdráttur.

Óvíst er um afstöðuna milli líkanna tveggja, en þó hefur barnslíkið verið fremur vestarlega en austarlega í gröfinni. Ástæðan til þess, að bein fundust ekki í kumlinu, er eflaust sú, að jarðvegurinn hefur eytt þeim með öllu. Í kumlinu var mesti fjöldi gripa, enda má ætla þá haugfé tveggja manna. Þeir eru sem hér segir: Sverð af O-gerð, Sverd 104, knappur og hjölt silfurrekin, mjög fágætt vopn: Hafði verið við hægri hlið manninum, niður frá beltisstað. Spjót af I-gerð, Sverd 20, lá hægra megin við fætur og sneri oddi niður eftir. Leifar af skafti sáust. Örvaroddar, 5 heilir og tangi af þeim sjötta, af gerðinni Rygh 539. Tveir loða saman, og á þeim sjást leifar af leðri, líklega úr örvamæli. Heilu örvaroddarnir voru fjórir vestan við og einn austan við spjótið og sneru allir eins og það. Staki tanginn mun hafa verið í þeim hluta kumlsins, sem brotinn var.Öxi af G-gerð, Sverd 38, nú í brotum, af því að vatnið hafði fært hana úr stað og grjóthrunið brotið hana. Á öxinni sjást för eftir einskeftudúk, sams konar og einnig sjást á meðalkafla sverðsins. Leifar af skaftinu sjást í axarauganu.
FornminjarAxarblað þetta virtist munu hafa legið ekki allfjarri mitti mannsins. Beltishringja úr bronsi, í Borróstíl, mjög lík Rygh 605 og hringjum frá Gokstad og Borró. Svipt hringjunnar er úr bronsblikki, og innan í henni eru leifar af leðri. Hefur því maðurinn verið gyrtur leðurbelti. Hringjan lá í mittisstað. Beltissproti úr bronsi, skreyttur upphleyptri pálmettu, sem er ættuð frá frankversku skrautverki. Lá niður frá hringjunni. – Við smáhluti þessa úr bronsi höfðu varðveitzt pjötlur af dúk þeim, sem föt mannsins höfðu verið úr að einhverju leyti. Vendin er hin sama og á svokölluðum vormeldúk, sem notaður var í yfirhafnir á seinni tímum. Á þessu svæði, í kringum hringjuna, var einnig töluvert af litlum glimmerflögum, sem minna á síldarhreistur. Ekki er ljóst, hvernig á þeim stendur. Silfurvír, lítil hönk, 2,78 g að þyngd, virðist vera sams konar og vafinn var um sverðsmeðalkafla, t.d. á Hafurbjarnarstaðasverðinu. Lá rétt hjá hringjunni. Tveir molar af rauðum jaspis, eldfæri. Lágu hjá silfurvírnum. 80-90 rær úr járni og naglabrot með áföstum, ryðmettuðum viðarbútum.

Fornminjar

Sverð, sem fannst í kumli manns og ungs drengs, hjá Kaldárhöfða í Grímsnesi, sem grafnir höfðu verið í smábát ásamt veglegu haugfé. Hjölt og knappur eru úr bronsi og knappurinn með fimm tungum.

Gripir þeir, sem áður voru taldir, höfðu sýnilega allir legið hið næsta manninum. Rærnar og naglarnir lágu í breiðu norðan við þá og virtust augljóslega vera úr litlum bát, sem lagður hafði verið norðan við lík mannsins. Af bátnum var ekki annað eftir en saumurinn, og sennilega hafa aldrei verið í honum meira en um 100 járnnaglar. Aðeins 5 naglar eru heilir, og er lengd þeirra 2,4-8,0 sm. Vatnið hafði ekki þvegið burtu neitt af bátsleifunum, og kom svæði hans vel fram í odd í vesturendanum, en miður austast. Eftir nöglunum að dæma hefur bátslengdin verið um 2,80 m, en breiddin um 80 sm miðskips, mjög lítil fleyta. Öll smíði bátsins er annars óljós. Skjaldarbóla af gerðinni Rygh 562. Var við austurenda bátsins, líkt og skjöldurinn hefði verið reistur upp við hann.
FornminjarBrot af annarri skjaldarbólu lá frammi við vatnið, fært úr stað. Annar skjöldur virðist því hafa verið nær vesturenda. Spjót, eins konar afbrigði af K-gerð, lá norðan við bátssauminn, líkt og hefði því verið smeygt inn undir bátssíðuna. Öxi af H-gerð, Sverd 39, lá einnig norðan við sauminn. – Þessi tvö vopn eru minni en hin, sem fyrr voru talin, og gæti verið, að þau væru vopn barnsins (drengsins?), enda er í kumlinu alvæpni tveggja manna. Járnkrókur af krókstjaka, sem fylgt hefur bátnum. Öngull úr járni, margbrotinn, þræði (færi) vafið um legginn. Blýsakka með einföldu skrautverki. Tveir litlir hnífar úr járni. Tveir tinnumolar. Járnkekkir, ókennilegir.

Kristján Eldjárn

Sverð úr fornmannagröf á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Þrátt fyrir merkilegheitin er nákvæmlega ekkert á vettvangi sem bendir til fundarstaðarins.
Svona er fornleifafræðin í dag…

Kaldárhöfðakumlið er eitt hinna örfáu bátkumla, er fundizt hafa á Íslandi. Eftirtektarvert er, að hvorugur mannanna, sem heygðir voru í kumlinu, höfðu þó verið lagðir í bátinn, heldur virðist hafa verið litið á hann þarna eins og hvert annað haugfé, enda var hann mjög lítill. Yfirleitt benda forngripirnir til fyrri hluta 10. aldar.

(Rannsóknarskýrsla höfundar og safnaukaskrá, sem eftir henni er gerð. Frétt í Morgunblaðinu 21.5. 1946. Alþýðleg frásögn: Vopngöfgir Grímsnesingar, Gengið á reka, bls. 25-44. 31. Kaldárhöfði, Grímsneshreppur. Þjms. 20.5.1946).

Sjá einnig HÉR.

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grímsneshreppi I: Fornleifar á Kaldárhöfða, Efri-Brú, Syðri-Brú, Ásgarði og Miðengi, Fornleifastofnun Íslands 1999.
Kuml og haugfé

Fornminjar

Í Samvinnunni árið 1956 eru skrif Kristjáns Eldjárns þjóðminjavarðar í bók hans „Kuml og haugfé –  úr heiðnum sið á Íslandi„. Blaðið „grípur niður í þessari jólabók Norðra þar sem höfundur fjallar m.a. um álitamál fornleifafræðinnar“:

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn (1916-1982).

„Öllum fornleifum fylgir sá kostur, að þær eru áþreifanlegar og ótvíræðar að vissu marki. Rituð heimild getur verið tilbúin eða ýkt, en sverð er sverð og spjót er spjót, hvorki meira né minna. Um sverð og spjót fornaldar er ekki til betri heimild en gripirnir sjálfir, sem varðveitzt hafa til þessa dags og fundizt við öruggar aðstæður.
Íslenzkar fornleifar úr heiðnum sið bregða skærara ljósi yfir tiltekin atriði í menningu fornmanna en hin bezta rituð heimild gæti gert. Þær sýna vopnaburð fornmanna, alvæpni þeirra, sverð, spjót, axir, örvar og skildi, hvernig allt þetta leit út og var smíðað. Á sama hátt sýna þær skartgripi karla og kvenna, skrautnælur margs konar, prjóna, bauga, festar og fleira, sem fólk bar á sér til skrauts og þarfa. Þær sýna list hins daglega umhverfis, í skartgripum og að nokkru leyti í hýbýlum, smekk og fegurðarskyn. Þær sýna verðmálminn, silfrið, hversu það var saman sett og með farið, vegið með smámetum á skálavogum. Þær sýna að nokkru dægrastyttingu manna, taflíþróttina.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn við uppgröft að Stöng í Þjórsárdal.

Þær sýna daglegan verkfærakost, þann sem ekki var smíðaður úr viðnámslitlu efni, jarðvinnslutæki, uppskeruáhöld, smíðatól, tóvinnutæki, jafnvel báta að nokkru leyti. Þær sýna samgöngutækið, hestinn altygjaðan, ójárnaðan á sumar, en bryddan á vetur, sömuleiðis járnaðan fót mannsins á ís eða hjarni. Loks veita þær glögga vitneskju um hina hinztu för, hversu búið var um lík dauðra og gengið frá kumlum þeirra.
Öll þessi atriði hafa verið gaumgæfð. Þegar þau koma saman, verður af býsna fjölbreytileg og skýr menningarmynd úr lífi hinna fyrstu kynslóða á Íslandi.
Það er því ómaksins vert að leggja rækt við fornleifarnar eins og hvern annan efnivið í íslenzka menningarsögu. En skylt er að hafa jafnan í huga, hve þröngum takmörkum þær eru háðar sem heimildir. Þótt sæmilega fjölbreytt sé, verður mynd fornleifanna af daglegu menningarumhverfi gloppótt sökum þess, að margir þættir þess voru gerðir af þeim efnum, sem tímans tönn vinnur á. Mörg verkfæri og annað, sem gert var af trjáviði einum, svo og klæðnaður manna, hefur að heita má horfið ummerkjalaust, og verður það skarð seint fyllt.

Fornminjar

Silfurnæla, kringlótt og kúpt, skreytt með upphleyptu mynstri sem er bönd er ganga undir og yfir hvert annað í hring út frá miðju. Nælunni fylgir brotin nál. Fannst við rannsókn á hestkumli hjá Mið Sandfelli.

Og manninn sjálfan að öðru en ytra menningargervi megna fornleifarnar ekki að sýna nema í mjög daufri birtu. Það er rétt, að með fornminjunum fylgja oft líkamlegar leifar fyrri manna, meira og minna heillegar beinagrindur. Þetta eru merkilegar heimildir um útlit og sköpulag fornmanna, og mu nú þær reynast drjúg uppspretta þekkingar um ætternislegan uppruna landnámsmanna.
En bæði fornleifar og mannfræðilegar leifar hafa lítið til mála að leggja um andlega menningu þeirra manna, sem þetta hafa eftir sig látið. Raunar er enginn smíðisgripur svo með öllu vesæll, að ekki sé einhver mannleg hugsun forsenda hans. En sú hugsun, sem dylst að baki hversdagslegs nauðsynjagrips, er hluti af verkmenningu smiðsins, en ekki andlegri menningu.
FornminjarFornminjarnar birta listasmekk og veita nokkra sýn til trúarsiða, einkum í sambandi við útför og legstað, en að öðru leyti er hugsunarlíf og andleg menning utan seilingar fornleifafræðinnar. Af þessu stafar það, að menningarmynd fornleifafræðinga af fjarlægum forsöguskeiðum hættir til að vera mjög einhæf. Fræðigreininni verður þó ekki gefið þetta að sök, meðan hún ætlar sér af í samræmi við þau takmörk, sem efniviðurinn setur henni.
Fornleifafræði víkingaaldar er ekki forsöguleg fornleifafræði í strangasta skilningi. Menningarmynd vora af Íslendingum 10. aldar þarf ekki að draga af fornleifum einvörðungu. Af sögum og kvæðum og lögbókum þekkjum vér andlega menningu þessa tíma eins vel og verkmenningu hans og list af fornleifum. Þegar öll kurl koma til grafar, er nú tiltækur ekki lítill forði þekkingar á andlegum og líkamlegum högum þjóðarinnar, þegar hún hóf vegferð sína í landinu.
FornminjarÞað er fyrsta skylda fornleifafræðinnar að draga öll gögn, sem hún ræður yfir, að sem heillegastri mynd af menningarbrag þess tímabils, sem hún fæst við hverju sinni. En hún getur ekki látið þar við sitja, heldur hlýtur hún að spyrja, hvers vegna hvað eina sé eins og það er, hverjar forsendur þess á fyrri skeiðum og hver afdrif þess. Hún reynir að rekja þróunarferil menningarinnar, og kemst þá óhjákvæmilega inn á svið sagnfræðinnar, enda keppir hún að sama aðalmarki. Hún reynir að leggja nokkuð til mála um rás viðburða, skapa sögu.

Fornminjar

Grafið í kumlið á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Kaldárhöfði er bær gegnt Dráttarhlíð austan við Sogið. Þar var einn bezti veiðistaður árinnar áður en   Steingrímsstöð var byggð.
Árið 1946 fannst eitt verðmætasta kuml úr heiðni (10. öld) hérlendis á hólmanum Torfnesi rétt hjá þessum veiðistað. Þarna voru grafin fullorðinn maður og barn í litlum báti. Meðal muna, sem voru lagðir í hauginn með þeim, var alvæpni og silungadorg. Þessi fundur er oftast kenndur við Úlfljótsvatn, þótt hólmurinn sé í landi Kaldárhöfða.
Skammt frá bænum er tótt vöruhúss Skálholtsstaðar við ferjustaðinn yfir Sogið. Ein þjóðsaga Jóns Árnasonar segir frá gíg ofarlega í Soginu, þaðan sem bitmýið við ána sé upprunnið.

En sú saga, sem sögð er eftir heimildum fornminja einum, er ófullkomin og öðruvísi ásýndar en sú, er styðst við ritaðar heimildir. Því verður þó að taka, þegar fengizt er við hin löngu forsögulegu skeið mannkyns, sem enginn ritaður stafur bregður birtu yfir. Þá verður að reyna að nota fornminjar til að rekja hina stærstu sögulegu drætti ásamt menningarsögulegri þróun.
Nú er tímabil það í ævi íslenzku þjóðarinnar, sem fengizt er við í þessari bók, ekki forsögulegt skeið. Um það eru ritaðar heimildir, hvenær landið fannst, hvenær þjóðin tók kristni, hvaðan landnámsmenn komu og hverjir voru helztu viðburðir hér á 10. öld. í samanburði við þessar heimildir eru fornleifar tímabilsins engin undirstaða undir sögu þjóðarinnar. En þær fylla þessar heimildir á sinn hátt og eru mikilsverður mælikvarði á gildi þeirra, geta eflt eða veikt traustið á áreiðanleik þeirra.
Kunnugt er af sögulegum heimildum, að írskir munkar fóru til Íslands ekki síðar en í lok 8. aldar, og slæðingur af þeim var hér á landi á seinni hluta 9. aldar.

Fornminjar

Grafið í kumlið á Torfnesi við Kaldárhöfða árið 1946. Fornleifafræðingar munu seint verða á ný svona töff í tauinu. Þarna var þó ærið tilefni til viðeigandi klæðnaðar!  Kumlið er sagt „Vestur af Vaðhól við Efra-Torfnes. Það er nú komið undir vatn nema lítill hólmi, þar sem það var hæst. Þar sem dysin var, er nú komið undir vatn“, segir í örnefnaskrá. 

Norrænir menn settust að í landinu um 870, en landnám þeirra hófst þó fyrst að marki um 890, og byggðu þeir síðan landið allt á næstu áratugum. Landsmenn tóku kristni árið 1000. Ef mælikvarði fornleifafræðinnar er lagður á þessar niðurstöður, kemur þetta í ljós: Rómverskir peningar frá um 300 e. Kr., fundnir á Austfjörðum, vekja grun um, að Ísland hafi fundizt, líklega frá Englandi, löngu áður en fornir sagnaritarar vissu. Byggð varð þó engin. Írskra einsetumanna sér ekki stað í fornminjum, en það hnekkir engan veginn sögulegum heimildum um þá. Norðurlandamenn nema allt landið um 900. Aðeins í einu kumli hafa fundizt gripir, sem taldir mundu vera frá fyrri hluta 9. aldar eða um 850, ef þeir hefðu fundizt á Norðurlöndum. Það eru Berdalsnælurnar frá Skógum í Flókadal, í Ásubergsstíl.

Fornminjar

Tveir möttluskildir eða nisti fundnir á uppblásnum stað nálægt Skógum í Flókadal.

Þessi eina undantekning styrkir aðeins þá meginreglu, að íslenzkir forngripir sögualdar eru 10. aldar gripir, sumir þó ef til vill frá lokum 9. aldar (Borróstíl). Annars hafa þær forngripagerðir, sem auðkenna 9. öld á Norðurlöndum, aldrei fundizt hér. Nefna má til dæmis jafnarma nælur, ýmsar gerðir kúptra nælna, spjót eins og Rygh 517 og Rygh 518, margar gerðir sverða. Það er 10. aldar byggð, sem blasir við í íslenzkum forngripgripum, heiðin, norræn 10. aldar byggð og menning, sú sem löngum er kennd við víkinga eða víkingaöld.
Fornminjarnar staðfesta söguna: landið hefur byggzt norrænum mönnum nálægt aldamótunum 900.

Fornminjar

Kúpt næla, forn, að gerðinni Rygh 656, Smykker 56. Úr kumli í Syðri-Hofdölum, Viðvíkurhreppi.

Í aðeins einu fornmannskumli hefur fundizt hlutur af þeirri tegund, sem yfirleitt er talin frá 11. öld á Norðurlöndum. Það er kúpta nælan Rygh 656 úr kumlinu í Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Þó er ekki loku fyrir skotið, að sú gerð hafi eitthvað verið farin að láta á sér brydda seint á 10. öld, og má því kuml þetta vera frá því fyrir 1000. En þótt svo væri ekki og þarna væri ein undantekning, sýna kumlin sem heild, að heiðnir grafsiðir hafa ekki haldizt hér fram á 11. öld að neinu ráði. Haugféð er frá 10. öld. Þannig kemur vitnisburður fornleifanna einnig ákjósanlega heim við hið sögulega ártal um lok heiðins siðar.

Fornminjar

Þríblaðanæla frá 10. öld með sérstæðum skrauthnút, fundin hjá Hóli í Hjaltastaðarþinghá í Norður-Múlasýslu en fundaraðstæður ókunnar. Mun þó úr kumli konu.

Af þessum samanburði sést, að fornleifafræði og sagnfræði fylla hvor aðra í smáatriðum, en ber algjörlega saman um aðalatriði, sem hvor um sig gæti borið sjálfstætt vitni um. Þótt ekki væru sögulegar heimildir, gætu fornleifarnar veitt örugga fræðslu um, að land þetta byggðist Norðurlandamönnum um 900 og hér bjó heiðin þjóð á 10. öld. Þegar nánar er eftir innt, gerist ógreiðara um svör, og verður þó einhvers í að leita.
Hér að framan hefur verið reynt að sýna, að íslenzkir grafsiðir stangist ekki við hina fornu arfsögn, að Íslendingar séu af Norðmönnum komnir. Er þá röðin komin að haugfé og öðrum forngripum heiðins tíma, þeim er á Íslandi hafa fundizt.

Fornminjar

Sverð, sem fannst í kumli manns og ungs drengs, hjá Kaldárhöfða. Hjölt og knappur eru úr bronsi og knappurinn með fimm tungum.

Sami svipur er á norrænni víkingaaldarmenningu, hvar sem hennar verður vart, enda er fjöldi íslenzkra forngripa af samnorrænum gerðum og hefðu getað fundizt hvar sem er á öllu svæði þessarar menningar. Aðrar forngripategundir eru aftur þannig, að þær virðast hafa verið algengastar í einhverju tilteknu landi en finnast þó oft utan þess. Enn eru svo aðrar, sem hægt er að marka þrengri bás.“

Heimild:
-Samvinnan, 12. tbl. 01.12.1956, Kuml og haugfé – úr heiðnum sið á Íslandi; Kristján Eldjárn, bls. 29-31.

Kaldárhöfði

Úlfljótsvatn – dys í landi Kaldárhöfða, við Torfunes. Fundarstaðurinn nú komin undir vatn.

Kerin

Gengið var frá Vatnsskarði til norðurs með vestanverðum Undirhlíðum, áleiðis að Kaldárseli. Undirhlíðar og Sveifluháls mætast í Vatnsskarðinu. Fylgt var nokkurn veginn gömlu þjóðleiðinni, Undirhlíðarvegi, sem lá frá Krýsuvík að Kaldárseli vestan við Sveifluháls og Undirhlíðar.

Vatnsskarð

Vatnsskarð og Undirhlíðar – kort.

Haldið var inn með hlíðunum eftir slóða, sem liggur með þeim að Bláfjallavegi um Óbrinnisbruna. Markrakagil er á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.

Stóri-Skógarhvammur

Piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógræk í Undirhlíðum undir leiðsögn Hauks Helgasonar.

Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Stakur er á vinstri hönd og fær má sjá Óbrinnishólana.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu, um 700 metra vestan við Undirhlíðar, og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krýsuvíkureldstöðvakerfinu, sem var virkt á u.þ.b. 25 km langri sprungurein frá Gvendarselsgígum við norðurenda Undirhlíða að Ögmundarhraunsgígunum suðaustan í Núpshlíð í suðri.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum.

Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík. Í hrauntröð sunnan við hólanna er fallegt fjárskjól.

Ker

Kerin.

Gengið var yfir Bláfjallaveginn og framhjá Kerjunum. Þau eru tveir fallegir gígar utan í Undirhlíðum og munu vera hluti af fyrrnefndu eldstöðvarkerfi. Sjá má slétt helluhraun framundan, en það mun hafa komið úr gígum þessum.
Gengið var framhjá Kýrskarði og Kúadal og síðan haldið eftir Kúastígnum áleiðis í Kaldársel.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi.

Óbrinnishólahellir

Óbrinnishólahellir.

Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta. Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918.

Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgadalur, sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðrar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Vestan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Undirhlíðar

Undirhlíðar – Stóri-Skógarhvammur.