Á Miðbakka í Reykjavík eru nokkur skilti um „fornbáta“ í eigu einstaklinga. Þar á meðal er sagt frá „Kálfatjarnarbátnum„; grásleppubát á Vatnsleysuströnd:
„Báturinn er opinn vélbátur, smíðaður 1942. Smiður var Ingimundur Guðmundsson í Litlabæ, Vatnsleysuströnd, þ.e. nágranni Kálfatjarnarfólksins: Hann smíðaði marga báta bæði með og án vélar. Stærð: 1.5 tonn. Lengd, breidd og dýpt í m: 6.9 x 1.86 x 0.57.
Báturinn er úr eik og furu, súðbyrtur, með Engeyjarlagi. Vélin frá sex hestafla bensínvél af Göta-gerð. Hún hefur verið í bátnum frá upphafi. Stýri vantar, sennilega týnt.
Víða í landi Kálfatjarnar eru garðar, vörður, sjóbúðir og aðrar minjar um sjávarútveg á árabátatímanum. Kálfatjarnarvör er í fjörunni vestan til á jörðinni. Út af vörinni er Lónið innan stærsta skersins, Markakletts. Báturinn var líklega smíðaður fyrir bóndann á Kálfatjörn, Erlend Magnússon (1892-1975). Árið 1920 flutti hann að Kálfatjörn ásamt fjölskyldu sinni. hann rak eigin útgerð um tíma en aflagði jana um 1946.
Kálfatjarnarbáturinn var notaður til grásleppuveiða. Hann var síðasti báturinn sem tekinn var upp í vörina á Kálfatjörn, 7. ágúst 1974. Eftir það var hann notaður á Þingvallavatni.“
Báturinn er nú geymdur í skemmu við Halakot á Vatnsleysuströnd.




