Jörðin Úlfarsá norðan Úlfarsár var skoðuð. Á jörðinni eru minjar frá síðustu öldum, en heimildir eru um lengri búsetu á jörðinni. Fallega hlaðinn brunnur, væntanlega frá byrjun 20. aldar, er í túninu ásamt heillegum fjárhústóftum, auk nokkurra annarra jarðlægra útihúsa. Umhverfis norðan- og austanvert heimatúnið hefur verið hlaðinn garður, sem nú er nær jarðlægur. Nýbyggingasvæði Úlfarsfellshlíða er nú komið fast að jarðarmörkunum að vestanverðu.
Úlfarsá hét Kálfakot fram til ársins 1927 þegar núverandi nafn var tekið upp. Elsta heimild um Kálfakot er jarðabókin frá 1584 þar sem hún er nefnd Kálfastaðakot (Kalvestaedtkaedt). (Ólafur Lárusson, bls. 83-84). Í jarðabók frá 1590 er jörðin nefnd Kálfakot. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls III er hún í konungseign árið 1704 og ábúendur eru tveir (bls. 292-294). Þar segir m.a.: ”Ábúandinn Slbjörg Gunnlaugsdóttir, býr á hálfri, annar Einar Sveinbjörnsson búr á hálfri… Kúgildi iii, hálft annað hjá hverjum. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eður í Viðey, hvort heldur sem tilsagt verður. Kúgildin uppýngja ábúendur. Kvaðir allar sem um Reynisvatn greinir, nema hvað hestlán hafa ei af þessari jörðu kölluð verið jafnmikil síðan ábúendur voru so fátækir, að þeir áttu annaðhvort öngvan hest eður einn, og hann lítt eður ekki færan, og fóðrur minnast menn ei að verið hafi kýr að fullu. Engjar ærið litlar, útigangur lakur og landþröng mikil… Torfskurður til húsagjörðar og ediviðar nægilegur.”
Í jarðatali Johnsens frá 1847 er hún komin í bændaeign og ábúandi er einn leiguliði (bls. 96).
Fram til ársins 1927 hét jörðin Kálfakot er nafnið Úlfarsá var tekið upp (Ari Gíslason). Um þetta segir Ólafur Lárusson: ”… og það hefði eigi heldur verið neitt óeðlilegt, að jörðin Kálfakot eftir legu sinni hefði verið kennd við ána, enda hefir hún nýlega verið skýrð upp og nefnd Úlfarsá (bls. 83).
Úlfarsá hefur verð í ábúð fram á miðja 20. öld, en er nú í eigu ríkisins (Gæsluvistarsjóðs). Jón Guðnason og Jóna Þorbjarnardóttir bjuggu á Úlfarsá frá 1927-1944. Jörðin hefur verið án ábúðar frá árinu 1953. Þar var meðferðarheimili (drykkjumannahæli) frá Kleppsspítala (Jarðaskr. Landn. rík.) til ársins 1962. gestur Björnsson forráðamaður vistheimilisins var skráður fyrir nokkrum skepnum á jörðinni 1980.
Engin uppistandandi hús eru nú á jörðinni.
Í Sturlubók Landnámu segir m.a. (10. kafla): ”Þórður skeggi hét maður; hann var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur; Helga hét dóttir þeirra; hana átti Ketilbjörn hinn gamli.
Þórður fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár og Leiruvogs; hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komið á Íslandi.”
Einnig (kafli 34): ”Geirröður hét maður, er fór til Íslands, og með honum Finngeir son Þorsteins öndurs og Úlfar kappi: þeir fóru af Hálogalandi til Íslands. Geirröður nam land inn frá Þórsá til Langadalsár; hann bjó á Eyri. Geirröður gaf land Úlfari skipverja sínum tveim megin Úlfarsfells og fyrir innan fjall. Geirröður gaf Finngeiri lönd uppi um Álftafjörð; hann bjó þar, er nú heitir á Kársstöðum. Finngeir var faðir Þorfinns, föður Þorbrands í Álftafirði, er átti Þorbjörgu, dóttur Þorfinns Sel-Þórissonar.
Geirríður hét systir Geirröðar, er átt hafði Björn, son Bölverks blindingatrjónu; Þórólfur hét son þeirra.
Þau Geirríður fóru til Íslands eftir andlát Bjarnar og voru hinn fyrsta vetur á Eyri. Um vorið gaf Geirröður systur sinni bústað í Borgardal, en Þórólfur fór utan og lagðist í víking. Geirríður sparði ekki mat við menn og lét gera skála sinn um þjóðbraut þvera; hún sat á stóli og laðaði úti gesti, en borð stóð inni jafnan og matur á.
Þórólfur kom til Íslands eftir andlát Geirríðar; hann skoraði á Úlfar til landa og bauð honum hólmgöngu. Úlfar var þá gamall og barnlaus. Hann féll á hólmi, en Þórólfur varð sár á fæti og gekk haltur ávallt síðan; því var hann bægifótur kallaður. Þórólfur tók land eftir Úlfar, en sum Þorfinnur í Álftafirði; hann setti á leysingja sína, Úlfar og Örlyg.”
Þótt nafnið Kálfakot sé hið gamla nafn á Úlfarsá hafa sumir vilja halda því fram að síðarnefnda nafnið hafi verið eldra nafn á jörðinni.
Svavar Sigmundsson, forstöðurmaður Örnefnastofnunar Íslands svarar fyrirspurn KI um Úlfarsfellsnafnið á eftirfarandi hátt á vefsíðu stofnunarinnar, www.ornefni.is: ”Úlfarsfell kemur hvorki fyrir í Landnámabók né fornsögum eða annálum, en Úlfarsá er nefnd í Landnámabók. Úlfarsfell er nefnt í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 (Íslenskt fornbréfasafn II, 220), og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 (III, 310). Nafnið er vafalítið dregið af mannsnafninu Úlfar, sbr. Úlfarsá, en fjórir eru nefndir með því nafni í Landnámu.”
Um örnefni í Keldnalandi lýsir Halldór Vigfússon viðtali við Björn gamla Bjarnason (þá 93 ára) að Grafarholti þann 27. ágúst 1949: ”Slöðrið eða slakkinn milli holtanna Grafarholts og Keldnaholts heitir Klofningur. Þar niður vildi Einar skáld Benediktsson veita Úlfarsá1), svo að hún félli í Grafarvog og mætti verða að góðri laxveiðiá í líkingu við Elliðaárnar. Einar eða faðir hans hafði keypt lönd á þessu svæði (Gröf og Keldur) og fengu þeir feðgar Björn, sem var þá ekki enn farinn að búa í Gröf, til að mæla fyrir þessari vatnsveitingu.
Birni mældist að skurðurinn þyrfti að vera 11 feta djúpur, þar sem þurfti að grafa dýpst. Var verkið hafið og nokkur dagsverk unnin, en aðrir, sem lönd áttu að Úlfarsá, munu hafa amast við þessari röskun og bannaði Benedikt þá frekari framkvæmdir.
Áður en sneiðin norðan af Keldnalandi var seld undir Korpólfsstaði (Thor Jensen), áttu Keldur slægjuland uppi við Úlfarsá, sem hét Tjarnengi.2)”
Meðfylgjandi eru eftirfarandi skýringar: ”1)Þetta er hið forna og upphaflega nafn árinnar (sbr. Landnámu) en hún er nú oftast nefnd Korpólfsstaðaá, Korpa, eða eftir öðrum bæjum sem eiga land að henni, einkum þar sem vöð voru á ánni. Björn segist hafa átt hlut að því að nafni Kálfakots var breytt í Úlfarsá til þess að festa hið forna nafn.
2) Samnefnt slæguland var einnig frá Grafarholti litlu ofar. Á þeim slóðum byggði tengdasonur Bjarnar (Hreiðar Gottskálksson) nýbýlið Engi.” Þar má einmitt sjá u.þ.b. 100 metra langan stíflugarð, gerðar úr torfi.
Nokkuð hefur verið ritað um nafnið Kálfakot. Um það segir Hannes Þorsteinsson árið 1923: ”Kálfakot. Matsbókin nefnir Kálfá og Kálfárkot, en hvorugt finnst annarsstaðar. Kálfastaðakot nefnist jörðin í JB. Jens Söffrenssonar 1639 og í Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar.” (Hanes Þorsteinsson, bls. 33). Um þetta atriði hefur Ólafur Lárusson einnig farið nokkurm orðu: ”Nafnið Kálfastaðakot er tilkomið fyrir nafnbreytingu þannig, að orðið hefir tengzt við eldra nafn Kálfastaðir, en Kálfastaðir er aftur afbökun úr eldra nafni Kálfarsstaðir, dregið af mannsnafninu Kálfarr… Mannsnafnið Kálfarr finnst nú eigi frá fornöld eða miðöldum hér á landi, en hefir hins vegar tíðkast lítilsháttar á síðarti öldum.” (Ólafur Lárusson, bls. 8?).
Mannsnafnið Kálfarr finnst ekki í Landnámu.
Mörk jarðarinnar eru nokkuð ljós. ”Samkvæmt konunglegu lagaboði eru landamerki á jörðinni þann 17. marz 1882 eptir 1. gr. Skrásett og undirskrifaðar lýsingu landamerkja á jörðinni Kálfakoti í Mosfellssveit innan Kjósar- og Gullbringusýslu, á móts við jarðirnar: Lambhaga, Lágafell, Úlfmannsfell og Reynisvatn, eru merkin eptir skýrslum, sem fyr ábúendur hafa ljáð frá ómuna tíð, þau er hjer skal greina.
Vesturhlið landsins er þannig: Úr Tjörn í miðjum Þrætumóa; úr þeirri Tjörn í þúfu uppá holtinu þar beint upp af; úr nefndri þúfu vestan til í Leirtjörn; úr nefndri Leirtjörn í Djúpadalsbrún (eystri); úr nefndri brún í fjallsbrekku vestast í Hákinn; úr Hákinn í þúfu uppá fjallinu (norðan til við mýrarsund). Norðurhlið landsins er úr síðastnefndri þúfu, austur í Stórahnjúk; úr þeim hnjúk í Litlahnjúk.
Austurhlið landsins er úr Litlahnjúk og í Mýrdal, úr nefndum dal í fjárborgarbrot (stekk) niður við ána (skammt fyrir austan fossana). (Enn má greina stekkinn undir lágri brekku á austurmörkunum).
Suðurhlið landsins ræður Korpúlfstaðaá niður í fyrrnefnda Tjörn í Þrætumóa. Ennfremur hefur fylgt þessari ábýlisjörð minni frá ómunatíð ¼ hluti úr eiðijörðinnni Óskoti á móts við jarðirnar Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatn og hafa fyrri ábúendur á minni ábýlisjörð haft þar fjenaðarhús sín, óátalið af öllum samyrkingamönnum og hefur mjer verið leigt þetta nefnda ítak ásamt aðaljarðarlandinu, og lýsi jeg hjer einungis vesturhlið landsins (Óskots). Úr skógarvaði í stein beina leið í Litla-Skyggni fyrir sunnan Langavatn. Ritað í Kálfakoti 30. september 1886, Guðmundur Jónsson”. (Landamerkjabók).
Staðhættir við Úlfarsá eru þeir að bærinn hefur verið í skjóli fyrir norðanáttinni, í hlíð „Fellsins“. Fellið er helsta einkenni bæjarstæðisins, brekkan vestan undir því þar sem bæjarstæðið er og Gilið norðan þess. Að austan er annað fell (hóll), en lægra.
Samkvæmt Túnakorti frá 1916 er bæjarstæðið ofarlega í miðju túninu. Túnið er í brekku sunnan og vestan undir ”Fellinu”. Kálgarður er teiknaður neðan við íbúðarhúsin. Gata liggur í sneiðing upp hlíðina til austurs. Fjárhús eru sýnd norðaustan við bæjarstæðið sem og hlaðinn garður, sem enn sést. Á uppdrættinum stendur og: ”Timburhús neðst í túninu var byggt til ábúðar (Margréti Zoega) árið 191?, rifið aftur (Jón ?) 1917 og selt til Reykjavíkur.” Kálgarðar eru þá 950 m2. Að sögn Guðjóns Norðdahls frá Úlfarsfelli var nýtt hús byggt að Úlfarsá um 1930. Þar mun drykkjumannahælið hafa verið síðar.
Hlaðinn garður umlykur heimatúnið að norðaustanverðu. Gil (Kálfakotsgil) afmarkar túnið að norðanverðu.
Ofan túns eru minjar á gróðurtorfum, en umhverfis þær eru nú melar. Holt eru að austanverðu sem og að norðvestanverðu. Að vestanverðu, neðanvert, eru uppþornaðar mýrar ofan bakka Úlfarsár.
Ameríski herinn hafði mikil umsvif á og við Skyggni á stríðsárunum síðari. Kampurinn var við Leirtjörnina. Í dag eru þar stríðsminjar á svæðinu og þá sérstaklega steyptir grunnar eftir braggahverfin South Belvoir og Tientsin.
Heimildarskrá:
-Ari Gíslason. Úlfarsá og Lambhagi. Örnefnastofnun Íslands.
-Bisk.skjs. II,33. Jarðabók.
-Hannes Þorsteinsson. ”Rannsókn og leiðrjettingar á nokkrum bæjarnöfnum á Íslandi. Árbók Hins Íslenska Fornleifafjelags. Reykjavík 1923.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gefin úr af hinu íslenska fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn 1923-1924.
-Jarðaskrár 1958-1979. Landnám ríkisins hefur tekið saman eftir forðagæsluskýsrlum og skýrslum hreppstjóra um jarðir í ábúð og eyði. Óprentuð. Skráin er einungis til á Landnámi ríkisins.
-Jens Söffrensson. Jarðabók 1939.
-J. Johnsen: Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845. og skýrslum um sölu þjóðjarða í landinu. Kaupmannahöfn 1847.
-Landamerkjabók í afsals- og veðmálsbók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu 1890.
-M. Steph. 27,4 fo. Afskrift dr. Jóns Þorkelssonar í Þjóðskjalasafni.
-Ólafur Lárusson. ”Árland”. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess I. 2. Reykjavík 1939.
-Guðjón Norðfahl, f: 18.07.’52. (Munnleg heimild 07.09.’06).