Tag Archive for: Kálfstaðir

Úlfarsá

Í „Fornleifaskráningu Úlfarsárdals, Reykjavík 2017„, segir m.a. um Úlfarsá:

Úlfarsá

Úlfarsá – tóftir gamla bæjarins nær.

„Úlfarsá telst vera hluti af víðáttumiklu landnámi Ingólfs Arnarsonar en hann nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá. Samkvæmt þessu hefur landnám Ingólfs náð yfir alla Gullbringu- og Kjósarsýslu, ef frá er talið svæðið sem liggur milli Brynjudalsár og Botnsár, og Árnessýslu vestan við Ölfusá. Ingólfur gaf svo vinum og vandamönnum er síðar komu hluta af landnámi sínu.1 Svæðið sem jörðin Úlfarsá tilheyrir var því síðar land Þórðar skeggja Hrappssonar en hann hafði fyrst numið land austur í Lóni og búið þar í um tíu ár. Þegar Þórður skeggi frétti að öndvegissúlur hans hafði rekið á land í Leiruvogi seldi hann land sitt Úlfljóti sem þekktur var fyrir að hafa komið með lögin til Íslands. Þórður flutti svo suður og settist að, með ráði Ingólfs, á svæðinu milli Úlfarsár og Leiruvogs.

Úlfarsá

Úlfarsá – gatan að nýjasta bænum.

Við siðbreytinguna urðu þær jarðir sem áður höfðu tilheyrt kirkjunni eign konungs. Úlfarsá er ekki að finna í fógetareikningum, jarðaskiptabréfum né jarðaskrám kirkjunnar frá miðöldum. Jarðarinnar er fyrst getið í jarðabók 1584 og þá undir nafninu Kálfastaðakot og telst jörðin þá vera konungseign. En hvernig má það vera? Ólafur Lárusson hefur komið með skýringu á þessu. Hann taldi víst að jörðin hafi farið undir konung á árunum 1552-1584. Flestar jarðirnar í kringum Kálfakot tilheyrðu Viðeyjarklaustri á miðöldum og því nokkuð líklegt að það hafi einnig átt við Kálfakot. Ólafur bendir á að algengt hafi verið að bæjarnöfn fengju endinguna – kot við það að leggjast í eyði. Jörðin hafi því áður heitið Kálfastaðir en það gæti verið afbökun úr enn eldra nafni, Kálfarrstaðir sem sé þá dregið af karlmannsnafninu Kálfarr.
Hannes Þorsteinsson gerði nafn jarðarinnar einnig að umtalsefni í skrifum sínum um 1923. Hann benti á að jörðin nefnist Kálfastaðakot í jarðabókum frá 1639 og 1696 “og getur vel verið, að það sé upphaflega heitið, kennt við einhverja Kálfa(r)sstaði (eða Kálfsstaði), en nafnið horfið fyrir ævalöngu og Kálfakot komið í staðinn, sem heiti jarðarinnar.” Ólafur Lárusson taldi sennilegt að Kálfastaðir hafi lagst við nágrannajörðina Lambhaga þegar jörðin fór í eyði. Lambhagi tilheyrði Viðeyjarklaustri og fór svo undir konung og þannig hafi Kálfakot komist undir konungshendur. Þegar jörðin var aftur byggð þá var það undir nafninu Kálfastaðakot. Upp úr 1590 er farið að nefna jörðina Kálfakot og árið 1925 er jörðin nefnd Úlfarsá, þá átti hana Sigurjón Einarsson.

Úlfarsá

Úlfarsá (Kálfakot) – tóftir.

Samkvæmt jarðabókinni 1704 var jörðin þá konungseign. Ábúendur voru tveir, Salbjörg Gunnlaugsdóttir sem bjó á helmingi jarðar og Einar Sveinbjörnsson sem bjó á hinum helmingnum. Landskuld af allri jörðinni voru xl álnir og skiptist til helminga á milli ábúenda. Landskuld skyldi borgast í fríðu með sama taxta og gilti um Helliskot. Ábúendur skyldu leggja fram við til húsabóta. Kúgildi voru þrjú, eitt og hálft hjá hvorum ábúanda. Leigur skyldu borgast í smjöri heim til Bessastaða eða í Viðey eftir því sem fyrirmæli voru. Ábúendum bar að yngja upp kúgildin. Á jörðinni voru sömu kvaðir og á Reynisvatni nema hvað hestlán varðar en hestlán höfðu ekki verið á kvöð á jörðinni þar sem ábúendur voru svo fátækir að þeir áttu annað hvort engan hest eða einn og þá „lítt eður ekki færan, og fóður minnast menn ei að verið hafi kýr að fullu“. Engjar voru taldar „ærið“ litlar, útigangur lakur og landþröng mikil. Kvikfénaður Salbjargar voru tvær kýr en Einar var með fjórar kýr, eina kvígu veturgamla, einn hest, sjö ær með lömbum, tvær geldar ær, tvo veturgamla sauði og einn tvævetur. Talið var að á allri jörðinni gætu fóðrast sex kýr, 10 lömb og einn hestur. Tveir voru til heimilis hjá Salbjörgu og þrír hjá Einari. Torfskurður til húsagjörðar og eldiviðar var talinn nægilegur.

Úlfarsá

Úlfarsá – fjárborg.

Árið 1882 var jörðin í eigu Jóns Péturssonar „háyfirdómara” og Tómasar Hallgrímssonar „læknaskólakennara” sem bendir til þess að þá hafi eigendur ekki búið á sjálfir jörðinni allt árið. Árið 1909 þegar Herforingjaráðskortið var gert af svæðinu, er Úlfarsáin nefnd Korpúlfsstaðaá og Úlfarsfell Hamrafell. Frá Vesturlandsvegi sem þá var orðinn vagnavegur liggja tveir vegir inn Úlfarsárdalinn að norðan, en við Lambhaga greinast þeir í tvær leiðir, önnur fer upp að hryggnum sunnan við Leirtjörn að Úlfarsfelli og áfram að Reykjarkoti og Syðri-Reykjum, en neðri leiðin fer beint að Kálfakoti.
Samkvæmt manntali frá árinu 1703 til 1920 bjuggu í Kálfakoti ein til tvær fjölskyldur frá 1703 til 1920, fæst fimm manneskjur en flest nítján.

Kálfakot

Kálfakot – túnakort 1916.

Túnakort var gert af jörðinni Kálfakot árið 1916, af Vigfúsi Guðmundsyni frá Keldum. Aðalbærinn er á miðju kortinu undir „Fellinu“ og samanstendur hann af sjö húsum sem hafa verið torfhús með standþili og snúa þau suður. Á hlaðinu eru auk þess tveir stórir kálgarðar, bæjartröðin lá í austur frá bænum. Norðaustur af bænum í Fellinu hefur verið annar bústaður, tvö hús og annað þá greinilega orðið tóft, en við það var lítill kálgarður.
Austur af bænum voru tvö útihús og hefur anað þeirra verið tóft. Suður af bænum neðst í túninu hefur verið lítið timburhús, þar suður af var skeifulaga skjólgarður og lítill kálgarður. Í athugasemdum við kortið kemur fram að timburhúsið neðst í túninu hafi verið byggt til íbúðar (Margrét Zoega) árið 191?, og rifið aftur (Jón Kr.) 1917 og selt til Reykjavíkur. Jaðar túnsins er markaður en einungis hefur verið hlaðinn túngarður frá Gili í austur að bústaðnum en þar hefur tekið við girðing. Í Gilinu hefur verið girðing eða aðhald. Túnið telst vera 3,2 teigar (hektarar) og er um helmingur sléttaður nýlega og kálgarðar hafa verið um 950 m2.

Úlfarsá

Úlfarsá – stekkur.

Á árunum 1915-17 bjó Margrét Zoëga í Kálfakoti, en hún flutti þangað í kjölfar brunans á Hótel Reykjavík, en hún var þá orðiðn ekkja (Einar Zoëga). Margrét átti þá tvær jarðir, Einarsstaði á Grímstaðholti og Kálfakot. Sjálf ræktaði hún garðávexti að Einarstöðum en hafið ráðsmann í Kálfakoti. Margrétt lét byggja lítið timburhús fyrir sig í túnfætinum á Kálfakoti trúlega árið 1915, en þar var síðar reist steinhús á Úlfarsá (1930). Árið 1918 reisti Margrét Zoëga síðan húsið Þrúðvang við Laufásveg 7 og flutti þangað í kjölfarið.
Í framhaldi eignast Jón Kristjánsson prófessor í Reykjavík jörðina árið 1918 og lætur hann rífa hús Margrétar og selur það til Reykjavíkur. Hann var stórhuga í búskapnum, og árið 1918 lét hann þurrka upp tjörn fyrir utan og ofan bæinn (Leirtjörn), sem var 18 dagsláttur að stærð. Þar ætlaði hann, ef honum hefði enst aldur til, að sá í hana höfrum. Að meðaltali fengust 18 hestar af hafragrasi af dagsláttunni hér á landi þá. Auk þess byggði hann, ásamt eiganda Reynisvatns, vatnsveitugarða og ætluðu þeir að veita Úlfarsá yfir allar engjarnar, sem liggja með fram henni.

Úlfarsá

Úlfarsá – stífla.

Í Fasteignamatsbók Kjósarsýslu frá 1918 er jörðin nefnd Kálfá en svo innan sviga (=rkot) þannig að bæði nöfnin hafa verið þekkt á þeim tíma. Að auki hefur nafninu Úlfarsá verið bætt við fyrir aftan og er það líklega gert árið 1930, þegar athugasemdum var bætt inn í bókina. Í matsbókinni kemur fram að jörðin sé norðanvert í Úlfarsdalnum, um 11 km frá Reykjavík, eigandi og notandi sé Jón Kristjánsson. Jörðin er skattsett 200 krónur. Svo virðist sem enginn búi á jörðinni á veturna. Tún voru 3,2 teigar, hölluðu til suðurs og tæplega helmingur var sléttaður og taða var um 130 hestburðir. Sáðreitir voru 800 m2 og uppskeran um 12-15 tunnur. Miðað við stærð sáðreita hefur þetta verið lítill hluti af Leirtjörninni sem sáð var í. Útslægjur voru taldar fremur þýfðar en nokkuð samfelldar og mest var af þeim hafa um 300 hestburði. Land var ekki mikið, og fremur rýrt, sunnan í Úlfarsfelli. Tún var girt á tvo vegu, mest var notast við þriggja strengja vír en restin var grjótgarður. Aðrir kostir eða ókostir voru „varla teljandi“ en mótak talið sæmilegt, vatnsból gott, byggingarefni lélegt og „hægt um tún útfærslu“. Bent er á að foss sé í ánni á merkjum og mögulegt væri að veita á slægjublett. Árið 1918 er engin áhöfn á jörðinni um veturinn en talið að hún fóðri þrjár kýr og einn vetrung, þrjú hross og 100 fjár. Hvað húsakost varðar var hann metinn á 1100 krónur en hann samanstóð af timburhúsi í smíðum úr fremur lélegu efni, 4,4 x 6,9 m metið á 500 krónur, hlaða fyrir 250 hesta metin á 300 krónur, fjós fyrir tólf nautgripi (sumarfjós) metið á 160 krónur, hesthús fyrir fimm hross metið á 40 krónur. Jarðabætur voru metnar á 300 krónur og heildarmat var því um 6000.

Úlfarsá

Úlfarsá – stíflugarður fyrir vorflæðið.

Björn Bjarnason segir svo í riti sínu Sagnir, ljóð o.fl. frá 1931: „Úlfarsá (áður Kálfakot). Þar bjó lengi Guðm. Jónsson á síðari hluta 19. aldar. Síðan hafa ýmsir búið þar, sumir eigendur, þar á meðal Margrét (Tómasd.) Zoega. Hún færði bæinn, er var ofarlega í túni, á lítinn bala neðst í því. Byggði þar timburh. og leiddi vatn inn. Það hús var síðar rifið, og byggt annað minna. Síðar var annað íbúðarhús byggt við það, en eldra húsið gert að geymslu. Fjós og hlaða er nú steypt. Eig. + ábúandi nú Jón Guðnason hefur gert nýrækt allmikla. Túnið að mestu sléttað. Var 3 kúa tún, nú 10-12. Talsvert sauðfé. Girðingar miklar.“
Ljóst er af þessum lýsingum að staðsetning bæjarins hefur ekki verið samfelld á einum bæjarhól. Bærinn var að hluta færður um 1916 þar sem síðar var steypt hús á Úlfarsá. Þar byggði Margrét Zoega fyrst 1915 það hús var síðan rifið og nýtt í byggingu 1918 þegar úttektin fór fram, sjá hér að framan, sama ár létust hjónin Jón Kristjánsson lagaprófessor og kona hans Þórdís T. Benedikts. Jörðin var síðan auglýst til sölu í desember 1918 metin á 12,2 hr. að dýrleika og átti að seljast hvort sem er með eða án áhafnar. Þá virðist ekki hafa fundist kaupandi, því jörðin var boðin upp 8. maí árið eftir og þá eru þar 6 kýr 25 kindur, 2 vagn hestar og 6 hænsni auk vagna, plóga, herfis, reipa og annarra húsmuna.

Úlfarsá

Úlfarsá – kennileiti.

Jón Guðnason og Jóna Þorbjarnardóttir bjuggu á Úlfarsá frá 1927-1944 og byggðu þau upp jörðina. Árið 1930 var búið að byggja tvö íbúðarhús annað úr timbri en hitt steypt, auk steyptar hlöðu og fjóss. Vatnleiðsla lá heim að bænum og búið að stækka túnin frá fyrra mati.
Fjárhús var á jörðinni auk þess sem búið var að ryðja bílfæra braut að bæjarstæðinu. Úlfarsá var í ábúð til ársins 1953.
Á árunum 1948-50 fékk Atvinnudeild Háskólans að gera ræktunartilraunir á Úlfarsá og var dr. Áskell Löve þar fremstur í flokki með ræktun, t.d. á jarðaberjum, eplatrjám ásamt 97 afbrigðum af kartöflum.
Upp úr 1950 var farið að huga að byggingu fyrir drykkjumannahæli í nágrenni Reykjavíkur og árið 1979 var Gæsluvistarsjóður orðinn eigandi Úlfarsár. Jörðin var þá nýtt sem útibú frá Kleppspítala og var drykkjumannahæli þar til ársins 1962. Gestur Björnsson forráðamaður vistheimilisins var skráður fyrir nokkrum skepnum á jörðinni 1980.
Jörðin tilheyrði Mosfellssveit til ársins 2001, þegar sveitafélagsmörkum var breitt. Uppbygging á íbúðahverfi innan jarðamarka Úlfarsár hófst í kjölfar samþykktar á deiliskipulags fyrir Úlfarsárdal árið 2006.“

Heimild:
-Fornleifaskráning Úlfarsárdals, Reykjavík 2017.

Úlfarsá

Úlfarsá – brunnur.