Tag Archive for: kalkbrennsla

Kalkofninn

Kalknám var stundað í Sandhól við Djúpagil og við Mógilsá ofan Mógilsárfoss frá árinu 1873 í nokkur misseri og síðan aftur á árunum 1916-17. Kalkbrennsluofnar voru byggðir við Rauðará í Reykjavík (1873) og síðan neðan við Arnarhól (1876). Kalofnsvegur var nefndur eftir þessum gjörningi.

Í Víkverja 1873 er umfjöllun um „Kalk í Esjunni„:

Mógilsá

Mógilsá – kalknáma.

„Það er flestum kunnugt, að kalk fanst fyrir nokkrum árum í Esjunni. Það var í felli einu fyrir ofan Mógilsá, að menn þóttust sjá kalkberg koma fram í möl þeirri, er á er öllu fellinu. Landlæknirinn, dr. Jón Hjaltalín, lét höggva nokkur brot af berginu, og senda þau fræðimönnum erlendis til rannsóknar, og kom þá fram, að 90 hundruðustu partar af steininum voru hreint kalk; svo reyndist og í fyrra, þá er nokkrir steinar voru fengnir hinum útlensku vinnumönnum, er unnu að þinghúsgjörðinni fyrir austan Reykjavík, að ágætt kalk fékst af þessum steinum, þá er þeir voru brendir.

Egill Egilsson

Egill Egilsson.

Nú hefur herra kaupmaður Egill Egilsson (Sveinbjarnarson) hér í Reykjavík gjört gangskör að því, að kanna þessa kalknámu nákvæmar og nota hana. Kalkbergið er, svo sem vér áðr sögðum, í sérstöku litlu felli sunnan til í Esjunni. Hingað til hefir eigi komið mikið fram af því, en líkur eru til, að bergið nái langt inn í fellið, og merki hafa jafnvel sést til þess, að það nái í gegn um það. Sé það svo, munu margar miljónir tunna af kalki vera fólgnar í fellinu.
Herra Egill Egilsson hefir fyrir hálfum mánuði látið brjóta einar 50 tunnur af kalki úr berginu, og flutt þær ofan að sjó, en svo þungt var grjótið, að það voru klyfjar á 200 hesta. Þar voru 30 tunnur af grjótinu látnar í skip, er herra E. á, og eru þær nú fluttar fram að Rauðará; þar ætlar herra E. að láta gjöra kalkofn og brenna grjótið. Reynist það þá eins gott, og sagt er, mun verða stofnað hlutafélag til þess að vinna námuna enn betur.
Vér óskum herra Egli kaupmanni allrar hamingju til verks þess, er hann hefir gerst forgöngumaðr fyrir, og vér efum eigi, að hið mesta gagn geti hlotist að því, ef kalkbergið að eins að nokkru leyti svarar þeim vonum, er kunnugir menn hafa gert sér um það. Næst vegaleysinu getum vér talið vonda húsagjörð einn hinn mesta hnekki á öllum framförum vorum, en fari svo, að vér getum fengið kalk í hús vor á nokkurn veginn vægan hátt, er tvent áunnið; vér þyrftum þá eigi að skemma hagagöngur vorar með torfristum, og fengjum þá langtum hlýari og stæðilegri, og fyrir því og með tímanum, ódýrari hús, en vér höfum hér til haft.“

Í Þjóðólfi 1877 var eftirfarandi grein:

Vesturgata 52

En sá, sem fyrstur byggði hér íveruhús úr höggnu íslenzku grjóti, ætlum vér sé bóndinn Pétur Gíslason á Ánanaustum; sá þriðji sem á samskonar hús í smíðum er Jóhannes Zöega. Hús úr steini eru hér öllu ódýrari en timburhús, ef með hagsýni er byggt, og ætti það atriði eitt að vera nægilegt til þess að fá menn til að hætta við annað veggjasmíði en úr voru eigin ágæta, þjóðlega grjóti, sem helzt til lengi hefir legið eins og ónýtur «steinn í götu». Ýmsir fleiri eru farnir að byggja meira og minna úr þessu ótæmanlega og óslítanlega efni, enda skortir nú ekki hið bezta kalk, og það á staðnum.  Kalk > Steindir og bergtegundir með kalsínkarbónati (CaCO3). Brennt kalk > kalsíumoxíð (CaO), fæst við hitun kalks, notað m.a. í áburð. Slökkt kalk > kalsíumhýdroxíð (Ca(OH)2), vætt brennt kalk, notað sem steinlím Leskjað kalk > brennt kalk hrært í vatn, notað sem steinlím, til áburðar, til að sýrustilla jarðveg og til iðnaðar.

“Byggingarframfarir í Reykjavík eru sýnilegar ár frá ári, og mundu svo fremur, væri árferði betra… Síðan herra E. Egilsson réðst í kalknámið í Esjunni og þeir konsúll Smith komu upp kalkbrennslunni, hafa menn þegar tekið að skilja hve ómetanlegur hagur – auk fegurðarinnar – er að byggja steinhús, og stöku menn teknir að gjöra það. Sá fyrsti hér í miðjum bænum, sem komið hefir upp steinhúsi, er Eyþór Felixson verzlunarmaður (fyrrum póstur). Hús það er 13 álna langt og 14 álna breitt með 12 álna háum veggjum, og er nú eitt hið laglegasta, en langsterkasta hús bæjarins.

Bergstaðastræti 24

Snemma árs 1884 fékk Jóhannes Pálsson, tómthússmaður, leyfi til þess að byggja sér steinbæ með timburstöfnum á Þingholtslóð.
Húsið er hlaðið úr steini, sléttað utan með kalki, að grunnfleti 12X9 álnir.

En sá, sem fyrstur byggði hér íveruhús úr höggnu íslenzku grjóti, ætlum vér sé bóndinn Pétur Gíslason á Ánanaustum; sá þriðji sem á samskonar hús í smíðum er Jóhannes Zöega. Hús úr steini eru hér öllu ódýrari en timburhús, ef með hagsýni er byggt, og ætti það atriði eitt að vera nægilegt til þess að fá menn til að hætta við annað veggjasmíði en úr voru eigin ágæta, þjóðlega grjóti, sem helzt til lengi hefir legið eins og ónýtur «steinn í götu». Ýmsir fleiri eru farnir að byggja meira og minna úr þessu ótæmanlega og óslítanlega efni, enda skortir nú ekki hið bezta kalk, og það á staðnum. Engir hinna ríkari bæjarbúa hafa þó enn látið til sín taka í þessu, heldur er það eptirtektavert, að þeir sem byrjað hafa, eru allir fremur félitlir menn, en þeir eru skynsamir, og vita vel hvað þeir gjöra.
Kalkbrennslan fór fram í tveimur ofnum. Fyrst var reistur tilraunaofn hjá Rauðará 1873 en 1876 var reistur varanlegri ofn hjá Arnarhólslæk (vatn þarf við kalkvinnslu). Þessi ofn var ámóta að stærð og gamli söluturninn á Lækjartorgi.“

Í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.:

Kalkofn

Kalkofninn að baki húsanna við Lækjargötu, neðan Arnahóls.

„Fram með Arnarhólstúni sjávarmegin liggur stígur, og er þar trébrú yfir lækinn; þessi stígur liggur að allmiklu timburhúsi, þar sem Björn múrari Guðmundsson verzlar með timbur; fyrir nokkrum árum var hér kalkofn, og átti að brenna þar kalkstein, sem fanst í Esjunni; var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir, bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn er óhreint, bæði úr tjörninni og svo blandað sjávarseltu, og óhæfilegt til kalkgerðar; varð kalkið þannig ónýtt eða miklu verra en þurft hefði. En þetta vildu forsprakkarnir ekki heyra, þótt sagt væri við þá.“

Í Ægi 1914 var fjallað um flutning kalksins frá Esjunni til Reykjavíkur:

Hótel Ísland

Hótel Ísland.

„Egill heitinn föðurbróðir minn átti franska loggortu, sem fyrst hjet »Ladon«, en síðar »Esja«. Hannes Hafliðason var þar skipstjóri 1876, en eftir hann tók við hr. Joh. Halberg, sem kom hingað til lands 1877. Var hann skipstjóri á því 1877 og ’78, var það haft til fiskiveiða og kalkflutnings úr Esjunni hingað til Reykjavíkur, því að þá var hjer kalkofn og brent hjer kalk. Hr. J.G. Halberg varð síðan eigandi »Hotel Íslands« og hjelt því í mörg ár.“

Í Tímariti iðnaðarmanna 1941 segir frá Birni Guðmundssyni, múrara, sem byggði kalkofninn við Kalkofnsveg:

Björn Kristjánsson

Björn Kristjánsson.

„Fyrsti útlærði múrarinn hér, sem ég man eftir, af ísl. bergi brotinn, var Björn Guðmundsson, sem þá líka var lengst af alþektur undir nafninu „Björn múrari“, einnig löngu eftir að hann var hættur að halda á múrskeiðinni og orðinn kola- og timbursali. Þótti Björn bráðduglegur og vandvirkur iðnaðarmaður. Hann setti hér upp kalkofn þann, sem Kalkofnsvegur er heitinn eftir og stóð rétt fyrir norðan Varðarhúsið á sjávarbakkanum.
Áður hafði Sverrir [Runólfsson] byrjað að reisa samskonar ofn inni undir Bauðará, þar sem seinna reis klæðaverksmiðjan „Iðunn“, en náði aldrei að fullgera ofninn, svo að ekki varð neitt úr neinu). Kalkið, sem brenna skyldi, var sótt upp í Esju, en forgöngumenn rekstursins voru þeir Marteinn Smith kaupmaður og Egill Egilsson borgari (í Glasgow). Þótti hið brenda kalk Björns fyrirtak að gæðum, en kostnaðurinn við kalkvinsluna úr námunni í Esjunni og flutningur kalksteinsins þaðan á bátum hingað, reyndist of mikill til þess, að fyrirtækið gæti borgað sig; því að vagnar voru hér engir til nema tvílijóla mókerrur og akvegir því síður.“

Í Heilbrigðistíðindum 1973 fjallaði Jón Hjaltalín, landlæknir, um „Kalkbrennsluna„:

Jón Hjaltalín

Jón Hjaltalín, landlæknir.

„Fyrir 20 árum gat jeg þess í „Nýjum Félagsritum“, hversu nauðsynlegt það væri, að vjer yfir höfuð hefðum annað lag á húsagjörðum vorum, en hingað til hefur tíðkazt, og jeg tók það fram um leið, að eins og það lægi hverjum manni í augum uppi, að hjer væri gnægð af góðu byggingargrjóti, þannig mundi hjer og finnast nóg kalk í fjöllunum og landinu, ef vel væri að gáð, og áræðið og kunnáttuna að nota það vantaði eigi. Hjer um bil 8 árum eptir að jeg hafði ritað þá grein, er hjer um ræðir, í tjeðum fjelagsritum, fann jeg kalksteinslag hjer í Esjufjalli örskammt frá sjónum; jeg reyndi kalksteininn þá þegar eptir efnafræðisreglum, með því að leysa hann í saltsýru, og fann, að hann hafði í sjer yfir 90 hundruðustu parta af hreinu kalki, en slíkt eru hinir beztu kalksteinar. Seinna var hann prófaður í Kaupmannahöfn, og kom mönnum saman um, að svo væri, sem jeg hafði til tekið.

Sverrir Runólfsson

Sverrir Runólfsson.

Stiptamtið ljet um sama leytið herra B. Gunnlögsen og mig nákvæmar skoða námuna, og mæla hana og veginn niður að sjónum, og líka var hún grandskoðuð af enskum jarðfræðingi. Svona hefur þetta nú staðið þangað til í sumar; en nú hefur herra verzlunarstjóri E. Egilsson tekið sjer fyrir að brjóta kalkið, flytja það hingað, og er nú að láta byggja kalkofn til að brenna það í. Af þessu fyrirtæki má að minni hyggju mikið gott leiða, ef menn að eins vilja gefa því nægan gaum, og fara að ráðast í, að byggja steinhús, en þessa er nú því heldur væntandi, sem fleiri menn, er í fyrrasumar störfuðu hjer að hegningarhúsinu, námu af húsasmiðnum herra Bald þá aðferð, er menn nú almennt við hafa, að fleyga steina í tígulmyndað veggjagrjót. Jeg fæ og eigi betur sjeð, en steinhúsbyggingar fari að verða hin bráðasta nauðsyn, þar sem timbureklan er allt af að vaxa ár frá ári, enda ættu allir skynsarair menn fyrir löngu að vera orðnir sárleiðir á vorum ónýtu, óhollu og auðvirðilegu moldarkofum, sem nú í mörg hundruð ár hafa verið heilsu og lífi ilandsmanna til hins rnesta tjóns og auðsjáanlegasta niðurdreps í alla staði. Þær hafa verið og verða, svo lengi sem þær við vara, Íslands sannkallað krabbamein, sem gjörsamlega þarf að burt nema svo fljótt og rösklega sem unnt er.“

Árni Óla skrifaði ítarlega grein í Lesbók Morgunblaðsins 1949 um „Kalknám í Esjunni og Kalkbrenslu í Reykjavík“:

Esja

Mógilsá í Esju.

„Það mun hafa verið um 1863 að Jón Hjaltalín landlæknir fann kalkstein í Esjunni og taldi að þar mundi vera svo mikið af honum að það borgaði sig að hefja námagröft þar og brenna kalk.
Ástandið í byggingarmálefnum Reykjavíkur var þá þannig, að enn voru flestar vistarverur fólksins torfbæir. Innflutningur á timbri frá Noregi hafði farið minkandi árum saman og það timbur, sem fekst, varð æ ljelegra byggingarefni. Ýmsir menn skoruðu á kaupmenn að flytja inn kalk, svo hægt væri að reisa hjer steinbæi og steinhús, því að nóg var hjer af grjóti til að byggja úr og bygging hegningarhússins hafði sýnt þeim að hægt var að nota það. En það var eins og að klappa harðan steininn. Kaupmenn vildu ekki flytja inn kalk, nema þá af mjög skornum skamti, og svo var það svo dýrt, að enginn treystist til að ráðast í að byggja hús úr steini.

Mógilsá

Kort frá árinu 1909 sem sýnir staðsetningu bæja við Kollafjörð og austur með Esjunni. Á Mógilsá eru merkt inn þrjú hús innan túns og þjóðleiðin fyrir botn fjarðarins.

Kalkfundurinn í Esjunni kveikti því hjá mönnum von um það, að bráðlega mundi fást íslenskt kalk til húsbygginga. En enginn þóttist þó svo efnum búinn að hann gæti ráðist í það fyrirtæki að brjóta kalkstein og brenna kalk.
Þá var hjer hinn kunni dugnaðar og áhugamaður, Sverrir Runólfsson. Hann var steinsmiður og honum hefir sjálfsagt verið það allra manna Ijósast hver áhrif það gæti haft til batnáðar í byggingamálum höfuðstaðarins, ef hjer væri hægt að framleiða kalk. Hann fýstist því mjög til þess að ríða á vaðið og gera tilraun um það hvernig kalksteinninn í Esjunni mundi reynast. En þar sem hann átti ekki fje til að leggja í þann kostnað, sótti hann um 650 ríkisdala styrk hjá stjórninni í þessu augnamiði.

Mógilsá

Mógilsá – loftmynd 1963.

Umsókn hans kom fyrir dómsmálaráðuneytið danska, en það fól þeim Jóni Hjaltalín landlækni og Birni Gunnlaugssyni yfirkennara að skoða kalknámuna í Esjunni og láta í ljós álit sitt um það hvort nokkurt gagn væri í henni. Þeir sendu aftur nákvæma lýsingu og teikningu af námasvæðinu sumarið 1864. Þetta sendi svo dómsmálaráðuneytið til „Den polytekniske Anstalt“ í Kaupmannahöfn og bað um umsögn þess. Tveir danskir jarðfræðingar voru fengnir til að láta álit sitt í ljós og þeirra úrskurður var sá, að þetta væri ekki annað en vitleysa, því að á Íslandi fyndist ekkert námakyns. Og að þessum úrskurði þeirra fengnum neitaði stjórnin að veita Sverri hinn umbeðna styrk.

Mógilsá

Gamli bærinn á Mógilsá í júlí 1910. Bærinn stendur undir brekkunni, fyrir framan hann er kálgarðurinn og grjóturðin sem braust fram úr gilinu árið 1866. Á myndinni er hægt að greina sex hús, hlaðan austast sem var timburhús þá, vestar eru tvö torfhús með timburgöflum sem hafa verið íveruhús og líklega fjós vestan við þau, enn vestar eru tvö hús hlaðin úr torfi og grjóti með torfþökum, fyrir framan vestasta húsið er stór haugur og hefur það hús líklega verið hesthús. Þýskir ferðamenn í heimsókn.

Lá svo þetta mál í þagnargildi um nær 10 ára skeið. En það var ekki gleymt. Og sumarið 1873 rjeðist, Egill Egilson kaupmaður í það að leigja námarjettindin í Mógilsárlandi fyrir 40 kr. gjald á ári. Og hinn 10. ágúst fór hann við annan mann upp að Mógilsá til að skoða námuna og búa undir kalkvinslu þar. Viku seinna hafði svo verið brotinn svo mikill kalksteinn þarna að Egill sendi bát uppeftir og hafði 10 hesta heilan dag til þess að flytja á þeim kalkstein úr námunni niður að bátnum. Jafnframt byrjaði hann á því að reisa kalkbrensluofn hjá Rauðará. Þessi ofn var alls ekki fullkominn, því að hann var aðeins gerður í tilraunaskyni. En 109 dagsverk fóru þó í það að hlaða hann, draga að grjót, sand og deigulmó og ennfremur fóru 14 dagsverk í brenslu.

Mógilsá

Mógilsá árið 1945. Austast eru íbúðarhúsin tvö, þá kemur tengibygging vestan við sem líklega var fjós á tímabili, síðan hlaða sem er með gaflinn í suður og svo bygging með skúrþaki vestan við hlöðuna sem hefur verið nýja fjósið. Vestar má sjá hesthúsið úr torfi og grjóti og enn vestar sér í timburskúr líklega frá Kalknámufélaginu.

Var þar brent mó, spýtum, hrísi og kolum og segir Egill sjálfur svo frá að tilraunin hafi tekist vel. Geta má þess, að við vinsluna var brent 113 hestum af mó (hver hestur kostaði þá 50 aura) og 1 1/2 tunnu af kolum. En ekki hefi jeg getað fundið hve mikið kalk hafðist upp úr þessu. Kostnaður við námugröftinn þetta ár nam samtals 682.00 krónum og var þar með talin 40 kr. leiga. Áreiðanlega hefir kalknámið ekki borgað sig, enda var hjer aðeins um byrjunartilraun að ræða. Þó hafði Egill trú á fyrirtækinu, en treystist ekki til að leggja í það meira fje og fyrirhöfn að sinni. Og næsta ár, 1874, var ekkert unnið í námunni, og ekkert kalk brent í ofninum hjá Rauðará.

Mógilsá

Mógilsá árið 1965, útihúsin orðin hrörleg og bíða þess að verða rifin, þakið hefur fokið af fjósinu og hlöðunni. Næst eru hús Kalknámufélagsins og fjær sér í íbúðarhús, starfsmannahús og tilraunastöð skógræktarinnar sem voru reist 1964.

Árið 1875 kom Alþing saman og þar bar Jón Hjaltalín landlæknir fram frumvarp um bann gegn útflutningi á kalksteinum o.fl. í sambandi við það komst hann þannig að orði: „Menn vita lítið um aðra fjallkalksteina hjer á landi en kalklagið í Helgustaðafjalli, því að þótt kalklag hafi fundist í Esjunni, þá er það svo þunt, að það nemur að breidd varla 1/5 hluta af því, sem Helgastaðanáman er, enda vita menn eigi hve langt Esjukalksteinninn gengur inn í fjallið. Það ber öllum saman um, að kalkið og silfurbergið í Helgustaðafjalli sje hið hreinasta kalk, er fundist geti nokkurs staðar“. Hann segir og að kalk það, sem komi frá Danmörku sje leirblandað og magurt og mikið af því mjölkalk sem innihaldi meir en helming þunga síns af vatni. Mundi því kalk úr Helgustaðanámu verða helmingi betra. Danska kalkið kosti 8 til 16 kr. tunnan og sje ókljúfandi fyrir almenning að byggja úr svo dýru steinlími.
Þá fer hann mörgum orðum um óheilnæmi og endingarleysi torfbæja. Í Austfjörðum standi þeir ekki nema svo sem 10 ár, vegna úrkomu, og væri munur fyrir fólk þar og annars staðar að geta bygt úr steini, auk þess sem þá fengist heilsusamlegar íbúðir.

Sandhóll

Sandhóll við Djúpagil.

Eins og sjá má á þessu ber hann ekkert oflof á kalknámuna í Esjunni. En að hann hafi haft trú ú því að landinu væri hagur að því, að náman væri unnin, sjest á því, að á þessu sama þingi bar hann fram þá breytingartillógu við fjárlögin, að Agli væri veittur 1000 kr. styrkur til kalkbrenslu, á 10 gr. fjárlaganna undir ýmislegum útgjöldum.
Landshöfðingi lagðist á móti þessu. Ekki væri það af því að hann vildi ekki styðja fyrirtækið, eins og sæist á því, að í fyrra hefði hann heitið Agli 400 kr. styrk, með því skilyrði að fyrirtækið hefði einhvern framgang, en svo væri ekki enn. Auk þess ætti slíkur styrkur að veitast af því fje, sem veitt væri í 15. gr. til vísindalegra og verklegra fyrirtækja. Það fór því svo að tillaga J. H. var feld.
Egill mun hafa sjeð það, að ekki var heppilegt að hafa kalkbrensluofninn inn hjá Rauðará og að betra mundi að hafa hann niður við höfnina, hjá læknum. Fór hann því til landshöfðingja og bað um ofurlitla lóð úr Arnarhólslandi við lækjarósinn undir kalkbrensluofn og stíg frá honum niður að sjónum, svo gott væri að koma kalksteininum þangað.

Mógilsá

Námusvæðið við Mógilsá.

Landshöfðingi gaf honum kost á þessu með þeim skilyrðum, að þessi blettur væri girtur með 2 álna hárri trjegirðingu, að jafnstór blettur væri sljettaður í túni sínu (Arnarhólstúni) og að Egill greiddi 8 kr. leigu á ári til landsjóðs fyrir afnot kalkofnsblettsins. Þetta fundust Agli harðir kostir, þegar þess var gætt að þessi blettur, sem hann bað um, var ekki tún, heldur alfaraleið allra þeirra, sem fóru yfir lækinn neðst, allur troðinn og auk þess skemdur af sjávargangi. Þó taldi hann sjer nauðugan einn kost að ganga að þessum skilyrðum því að hvergi í Reykjavík miindi tiltækilegt að hafa ofninn nema þarna hjá læknum, vegna þess að mikið vatn verður að nota við kalkvinslu. Mun hann og ef til vill hafa litið svo á, að hann fengi ríflegri styrk hjá landshöfðingja fyrir vikið. Að minsta kosti sótti hann svo um að fá 1000 króna styrk úr landsjóði. Landshöfðingi svaraði því, að hann hefði ekki umráð nema yfir helming þess fjár, sem ætlað væri til styrktar atvinnuvegum (á 15. gr. fjárlaganna). Stjórnin í Kaupmannahöfn hefði umráð hins helmingsins. Gaf hann þó enn vilyrði fyrir 400 kr., en sækja þyrfti um til dönsku stjórnarinnar að fá viðbót úr hinum hluta sjóðsins.

Mógilsá

Norðurhlið bæjarins á Mógilsá 1910, austast er timbur hlaðan með opi fyrir hey í norður, fyrir vestan koma tvö íveruhús, og síðan fjósið. Mikið grjót er fyrir aftan bæinn og má greina eina tóft þar.

Alt þetta ár gekk í þetta og var lítið sint um námagröftinn. Þó telur Egill útgjöld sín vegna námuvinslu hafa numið kr. 396.66 (ásamt leigu), en ekkert sjest um það hvernig brenslan hefur gengið. — Sjálfsagt hefur Egill ekki verið ánægður með hana, og allra síst með ofninn, því að nú fær hann Björn Guðmundsson múrara til þess að fara utan og kynna sjer hvernig nýtísku kalkbrensluofnar væri, og læra að brenna kalk.
Næsta vor (21. apríl) fer Egill enn fram á það við landshöfðingja að fá styrk, og fekk nú þessar 400 krónur. En hann þóttist þó, sem von var, engu nær, því að alt þetta fje fór til þess að girða blettinn hjá læknum, og sljetta jafnstóran blett í túni landshöfðingja.

Mógilsá

Mógilsá árið 1945, búið að byggja við íbúðarhúsið í austur og steypa hlöðu og fjós, vestast er torfhús sem líklega var hesthús og var byggt fyrir árið 1910 og enn vestar eru skúrbyggingar líklega hús Kalkfélagsins.

Landshöfðingi skrifaði þá Íslandsráðgjafanum í Kaupmannahöfn og lagði til að hann veitti fyrirtækinu álíka mikinn styrk af þeim hluta fjárveitingarinnar á 15. gr., sem hann hafði yfir að ráða. Ráðgjafinn neitaði að verða við því, eins og sjest á brjefi frá landshöfðingja til Egils, dags. 19. júní 1876.
Þar segir svo: „Ráðgjafinn hefur tjáð mjer, að hann verði að vera þeirrar skoðunar, að ef yfir höfuð ástæða skyldi vera til fyrir stjórnina að styðja fyrirtæki einstakra manna, önnur eins og þetta, eigi þó að minsta kosti ekki að veita styrkinn að gjöf handa hlutaðeiganda, sem ræðst í fyrirtækið, með því að engin trygging er fyrir því, að eigi fari svo, að alt fyrirtækið, sem styrkurinn á að efla, hætti innan skamms. Ráðgjafinn hefur því eigi þóst geta veitt neinn styrk í þessu skyni af sínum hluta í 15. gr. fjárlaganna, en af því að það, að minni hyggju, sje mjög æskilegt, að farið yrði að vinna áminsta kalksteinsnámu, segist ráðherrann aftur á móti ekki vera því mótfallinn, að jeg láti yður fá 400 kr. lán úr viðlagasjóði, gegn tryggilegu veði.“

Oddgeir Stephensen

Oddgeir Stephensen – 1812-1885.

Ekki er að sjá að Egill hafi þegið þetta lán. Mun hann hafa verið gramur út af þessum undirtektum, og aðallega vænt Oddgeir Stephensen um að hafa spilt fyrir sjer hjá ráðherranum. Þá um sumarið (1876) er samt hafist handa um smíði hins nýa kalkofns. Var dreginn að leir innan frá Elliðaám og sandur innan frá Eiði. Jafnframt er farið að vinna að því af kappi að brjóta kalkstein í Esjunni. Var keypt mikið af púðri á Eyrarbakka til þess að sprengja þar. En þá kom í ljós að kalksteinninn var ekki eins mikill og menn höíðu haldið og þraut brátt fyrsta og annan ganginn. Sá Egill sjer því vænst að tryggja sjer einnig námarjettindi í Kollafjarðarlandi og leigði þau fyrir 20 krónur á ári. Margir menn voru hafðir þarna í vinnu um sumarið. Kaupið var lágt, aðeins 2 krónur á dag, en þó hafði einn maður (Egill í Arabæ) 256 kr. upp úr sumrinu.
Eftir þetta sumar taldi Egill að hann hefði lagt fram kr. 4010.95 í kostnað við námagröftinn, en getur þess ekki að hann hafi haft neinar tekjur af honum. Og þetta sumar hefur ekkert kalk verið brent, heldur kalksteinninn brotinn, fluttur sjóveg til Reykjavíkur og átt að geymast þar þangað til nýi ofninn væri fullger, en hann varð það ekki fyr en á árinu 1877.

Kalkofninn

Kalkofninn neðan við Arnarhól.

Vegna þessara útgjalda, sem voru mikil á þeim dögum, bæði vegna þess að krónan var þá dýrari en nú, menn yfirleitt fátækari og hvergi lán að fá, sá Egill sitt óvænna að halda þannig áfram. En ekki var honum um það að gefast upp. Tókst honum þá að fá M. Smith konsúl í fjelag við sig þannig að Smith ætti fjórða hlutann í fyrirtækinu, en Egill þrjá fjórðu. Björn Guðmundsson vann að smíði kalkofnsins og varð það allmikið hús, turnlaga. Var ofninn vandaður að öllum frágangi og sem líkastur þeim ofnum, er notaðir voru erlendis. Sennilega hefur verið byrjað að brenna kalk í honum snemma á árinu 1877. Fer nú fyrirtækið fyrst að komast á rekspöl.

Reykjavík

Reykjavík 1887.

Kalksteinn var brotinn af kappi í Esjunni og eru þar allmargir menn við vinnu. — Kalksteinninn var sprengdur með púðri, því að dynamit þektist þá ekki. Var fyrst tekin fyrir kalkæð fyrir vestan ána og túnið á Mógilsá, en ganginn þraut brátt, eins og áður er sagt. Þá var kalkið sprengt í svonefndum Sandhól, upp af Djúpagili, en þar fór á sömu leið. Þá var farið að sprengja kalkstein fyrir ofan fossinn í Mógilsá. Var þetta miklu hærra í fjallinu og flutningar allir erfiðari fyrir vikið, Allur var kalksteinninn fluttur á hestum frá námunni niður að sjó. Var þaðbæði kvotlsamt og erfitt og reyndist dýrt. Og svo voru flutningar með bátum þaðan til Reykjavíkur. Voru hafðir tveir eða þrír bátar við flutningana, þar á meðal fröns loggorta, sem Egill átti.

Lækjargata 10

Eitt elsta íbúðarhús úr hlöðnu grágrýti í Reykjavík. Grjótið var fengð úr Skólavörðuholti, en kalkið til bindingar úr Esjunni. Húsið var síðar lengt til suðurs og kvistir gerðir árið 1904.

Til er yfirlit um reksturinn á þessu ári og hefur hann kostað kr. 5323-54 alls. En upp í það kemur selt kalk fyrir kr. 3778.89 og kalksteinn fyrir kr. 1200.00, eða samtals kr. 4978.89, svo að tap kr. 349.65 hefur orðið á rekstrinum. Kalkið var selt í smásölu til hinna og annara og kostaði hver tunna af því 6 krónur. Af því má sjá, að á þessu ári hafa fengist um 630 tunnur af kalki.

Bergstaðastræti 12

Á árunum 1880 til 1905 voru byggð allmörg steinhús og steinbæir í Reykjavík með tækni sem íslenskir steinsmiðir lærðu af byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg og Alþingishússins. Sérstaða steinbæjanna lá í því að þeir voru að miklu leyti eftirlíking torfbæjanna sem þeir leystu af hólmi. Veggir voru úr hlöðnu grjóti án glugga, gaflar oftst úr timri með gluggum og þakið bárujárnsklætt. Er því oft haldið fram að steinbæirnir séu eina sér-reykvíska húsagerðin. Talið er að um 170 steinbæir hafi verið byggðir á þessum árum en að aðeins 20 þeirra standi enn.

Til er nafnlaus grein um kalknámið,- skrifuð á dönsku þetta ár. Mun hún hafa átt að birtast (og hefur máske birst) í einhverju dönsku blaði. Er þar veist að stjórninni og yfirvöldum fyrir það hvað þau hafi sýnt lítinn skilning á þessu nauðsynjamáli, og jafnframt sýnt því beran fjandskap. Þykir mjer líklegt að greinin sje runnin undan rifjum Egils. Er því þar og lýst hvaða vonir hann hefur bundið við þetta fyrirtæki um bættan húsakost í Reykjavík. Segir þar m.a. svo: — Í Reykjavík hafa verið bygð nokkur steinhús í sumar. Þar á meðal íbúðarhús fyrir almúgafólk, og má það furðulegt heita í því árferði sem nú er, því að hjer er mjög þröngt í búi vegna þess að fiskveiðarnar brugðust algjörlega. — Enginn efi er á því, að framvegis munu menn byggja hús sín hjer úr steini og kalki. En það er ekki gott að segja hve fljótt steinhúsin munu útrýma torfbæunum. En hvort sem þess verður langt eða skamt að bíða, þá mun sú breyting hafa hin heillavænlegustu áhrif á kjör allra, því að bætt húsakynni er eitt af aðalskilyrðunum fyrir því, að hjer geti orðið menningarlegar framfarir. —

Benedikt Gröndal

Benedikt Gröndal.

Þrátt fyrir dugnað og áhuga Egils stóð fyrirtæki þetta ekki nema í nokkur ár. Björn Kristjánsson, síðar bankastjóri, var einn af þeim, sem vann við kalknámið í Esju, og segir hann að það hafi lagst niður vegna þess að það borgaði sig ekki, og kennir þar um óheppilegum vinnubrögðum og of miklum flutningskostnaði. Hann segir að kalksteinninn hafi sprengst illa með púðrinu, og í stað þess að reiða hann á hestum ofan úr námunni, hefði verið betra og kostnaðarminna að hafa þráðbraut niður brekkuna og renna honum niður.

Benedikt Gröndal, bróðir Egils, sem átt hefur að vera þessum málum kunnugur, segir svo um kalkvinsluna: „Fyrir nokkrum árum var hjer kalkofn og átti að brenna þar kalkstein, sem fanst í Esjunni. Var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn er óhreint, bæði úr tjörninni og svo blandað sjávarseltu og óhæfilegt til kalkgerðar. Varð kalkið þannig ónýtt, eða miklu verra en þurft hefði. En þetta vildu forsprakkarnir ekki heyra, þótt sagt væri við þá.“
Eitthvað hefur Gröndal sjálfsagt til síns máls um að vatnið úr læknum hafi skemt kalkið. En ekki hefur það verið altaf, því að sagt var að kalkið hefði verið betra og sterkara heldur en útlent kalk. Steinstjettin gamla í Bankastræti var límd saman með kalki úr Esjunni.

Trausti Ólafsson

Trausti Ólafsson í portinu við Hverfisgötu 44 Reykjavík, en þar bjó hann 1927 – 1934. Í bakhúsinu þar var Efnarannsóknastofa ríkisins til húsa til 1937 þar til að starfsemin var flutt í Atvinnudeild Háskólans. Trausti tók við forstöðumannastarfi á Rannsóknarstofunni er hann kom heim frá námi 1921. Efnarannsóknastofa ríkisins var stofnuð 1906 og var fyrsti forstöðumaður hennar Ásgeir Torfason Bjarnasonar skólastjóra í Ólafsdal. Ásgeir var fyrsti efnafræðingur landsins.

Þegar Bankastræti var breytt, var hún rifin upp, og brotnuðu þá steinarnir fyr en að samskeytin gæfu rig. Það sýnir að ekki hefur alt kalkið verið ljelegt. Og enn stendur steinhús Þorsteins Tómassonar í Lækjargötu 10. Það er límt saman með kalki úr Esjunni og hefur það ekki látið á sjá enn.
Löngu síðar, árin 1916—17, var gerð önnur tilraun með kalknám í Esjunni. Átti þá að brenna kalkið þar efra. „5 eða 6 menn unnu í 2 mánuði við að losa kalkstein úr ákveðnum gangi þar; var komið nokkuð djúpt niður í hann og var veggurinn því orðinn hár að ofanverðu. Verkamennirnir fundu nú upp á því að skjóta 30 dynamitpatrónum í einu í ganginn. Afleiðingin varð, að efri veggurinn hrundi ofan í ganginn og fylti hann. Fjelagið gafst svo upp við fyrirtækið.“

Nokkuð er af gulli í kalksteininum og kvarzgöngum, sem eru í sambandi við hann. Rannsakaði Trausti Ólafsson efnafræðingur sýnishorn úr námunni fyrir Björn Kristjánsson og reyndist gullmagnið í kalkganginum 10—19 grömm í tonni, en í kvarzinum nokkru meira eða alt að 26 gr. í tonni. En í gullnámum Suður-Afríku var þá meðaltal gullmagns 12 1/2 gramm í tonni.
Björn segir því: „Ef nú Egill Egilson hefði látið rannsaka kalksteininn fyrir gull þá hefði ágætlega borgað sig að vinna steininn þar á staðnum sem gullstein. Eins hefði sennilega vel borgað sig að brenna og leskja kalksteininn þar á staðnum og leysa gullið úr afganginum af steininum, sem ekki leskjaðist, með cyankalium.“ – Á.Ó.

Heimildir:
-Víkverji 28.08.1873, Kalk í Esjunni, bls. 82.
-Þjóðólfur 17.5.1877.
-Eimreiðin 01.01.1900, bls. 83.
-Ægir 01.06.1914, bls. 68.
-Tímarit iðnaðarmanna 01.04.1941, bls. 26-27.
-Heilbrigðistíðindi 01.07.1973, Kalkbrennsla, bls. 60-61.
-Lesbók Morgunblaðsins 23.10.1949, „Kalknám í Esjunni og Kalkbrensla í Reykjavík“, Árni Óla, bls. 461-464.
-Hndr. Lbs. 314 fol. Hndr. J. S. 133 fol., Reykjavík um aldamótin, Iðnsaga Íslands II, Alþtíð. 1875, Stjórnartíð, 1876.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við bæjarstæði Mógilsár, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2019.

Esja

Esja.