Tag Archive for: Kalmannstjörn

Kotvogur

Gengið var um Ósa, Kirkjuvog og Kotvog, yfir að Merkinesi og Junkaragerði.

Hunangshella

Hunangshella.

Gangan byrjaði á Þrívörðuhæð ofan við Ósa, eða Kirkjuvog en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Gömlu leiðinni til Hafna var fylgt að þorpinu. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs. Næst veginum er vík sem nefnist Ósabotn. Hún liggur á milli Þjófhellistanga að vestanverðu og Steinboga sem er lítill klettatangi að austanverðu. Spölkorni lengra er Hunangshella, klöpp norðvestan vegarins. Á henni er vörðubrot.

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á háflóði eru 25-30 metrar á milli Hunangshellu og sjávarborðs. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina. Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis rennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.

Hafnir

Teigur.

Komið var að gamalli heimreið. Á hægri hönd er eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu landsins en fóðrið var matarúrgangar frá mötuneytum í herstöðinni á Vellinum (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi.

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Komið var í Kirkjuvogshverfi, sem nú nefnast Hafnir í daglegu tali, en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.

Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír. Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar.

Hafnir

Í Kotvogi.

Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Við Kotvog.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við fyrrum Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Kirkjuvogur

Kirkjuvogshreppur – herforningaráðskort 1903.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.
Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Merkines

Gengið að Merkinesi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey. Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð.

Merkines

Merkinesburnnur.

Eftir nokkra göngu vestur með ströndinni var komið að Merkinesi. Í Merkinesi bjó síðast (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson ásamt eiginkonu sinni Hólmfríði Oddsdóttur. Hinrik í Merkinesi var fyrrverandi hreppstjóri Hafnahrepps, þekktur sjósóknari, refaskytta, báta- og húsasmiður og hagyrðingur (faðir m.a. Ellýar Vilhjálms söngkonu og Vilhjálms Vilhjálmssonar flugmanns og söngvara en þau eru öll látin). Hlaðinn hringlaga steingarður sem er hægra megin vegarins spölkorn norðan Merkiness nefnist Skipagarður. Þetta var kálgarður en hér áður fyrr voru vertíðarskipin dregin upp og höfð í skjóli við garðinn. Skammt sunnan Merkiness er grasi vaxinn hóll vinstra megin vegarins. Hóllinn nefnist Syðri Grænhóll. Sunnan hans mun ekki hafa fundist stingandi strá, sem heitið gat, fyrr en melgresi fór að taka við sér en því var fyrst sáð til að hefta sandfok utar á skaganum fyrir rúmum 60 árum. Í túninu suðaustan við Merkines er forn brunnur, sem gengið er niður í, líkt og Ískrabrunnur á Snæfellsnesi.

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Spölkorn sunnan Grænhóls sér á þak Junkaragerðis en það er fornt býli og verstöð sem nú er notað sem íbúð. Upphlaðinn túngarður á hægri hönd eru einu minjarnar sem eftir eru af býlinu og verstöðinni Kalmanstjörn (þaðan var Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi og alþingismaður) en íbúðarhúsið var rifið 1990. Á Kalmanstjörn var búið fram á miðjan 8. áratug 20. aldar.
Gamli vegurinn út á Hafnaberg og áfram út á Reykjanes lá á milli Kalmanstjarnar og Junkaragerðis. Í lýsingu skráðri af Hinriki í Merkinesi fyrir Örnefnastofnun segir m.a: ,,Fyrr á öldum, er sagt, að ,,þýzkir“ hafi haft mikinn útveg á opnum skipum í Höfnum. Meðal annarra staða höfðu þeir búðir, þar sem nú heitir Junkaragerði, en svo voru þeir nefndir. Þessir menn voru ribbaldar miklir og ,,óeirðamenn um kvennafar“, þeir voru illa séðir af landsmönnum, sem vildu fyrir alla muni koma þeim af höndum sér.“ Til er þjóðsaga um hvernig Hafnamenn fóru að því að losa sig við Junkarana. Vestan vegarins, neðan við brekku, er Hundadalur. Þar er fiskeldisstöð.

Gömlu hafnir

Gömlu Hafnir.

Á vinstri hönd má sjá nokkrar vörður en við þær liggur Prestastígur – vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, um 5-6 tíma gangur.
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Hann liggur fjær sjó en sá gamli sem reyndar var ekkert annað en slóð og skurður á víxl. Eins og áður sagði tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar, Gömlu Hafnir. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-leoemm.com

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogskirkja.

Hafnir

Bæjarsamfélagið Hafnir á Reykjanesi (Reykjanesskaga) gefur heilstæða mynd af búsetu- og atvinnuháttum íbúanna allt frá landnámi til þessa dags. Fjölmargar fornleifar á svæðinu endurspegla hvorutveggja, auk þess sem hús og önnur nútímamannvirki sýna þróun byggðarinnar á liðinni öld.

Hafnir

Hafnir fyrrum.

Nú er meginbyggðin umleikis Kirkjuvog og Kirkjuvogskirkju. Áður náði hún í vestri að Kalmannstjörn (Junkaragerði) og Merkinesi innar (og um tíma enn lengra vestur, að Skjótastöðum og gömlu Hafnabæjunum (Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyri (Eyrarhöfn)).
Í austri, handan Ósa, var Gamli Kirkjuvogur ásamt útstöðvum Hafnabæjanna, bæði við Djúpavog og Seljavog. Uppi í Hafnaheiðinni má enn sjá leifar Kirkjuvogssels, Merkinessels eldra og yngra, auk Möngusels. En þrátt fyrir að langmestu mannvistarleifarnar séu í og við Hafnir hefur sáralítið verið skrifað um mannlífið þar í gegnum aldirnar. Jón Thorarensen reyndi að bæta úr því og má sjá frásagnir hans í Rauðskinnu.

Hafnir-4

Í Höfnum má í dag sjá allnokkur gömul hús, s.s. Kirkjuból, Sjónarhól, Kotvog og Vesturhús. Vestar í byggðinni eru greinilegar tóftir annarra bæja, sem áhugasömu fólki um fyrri tíð er gert nánast ómögulegt að staðsetja með ákveðinni vissu. Ekki er vitað til þess að fornleifaskráning hafi farið fram í Höfnum, en sérstaklega miklilvægt er að það verði gerst sem og að svæðið í heild verði teiknað upp m.t.t. minja og örnefna. Slíkar upplýsingar þarf síðan að gera augljósar öllum þeim er heimsækja Hafnir.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni. Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Ekki liggur ljóst fyrir hvort af þessari skráningu hefur orðið eða hvort henni hafi verið lokið. Ef svo er myndi FERLIR fúslega fjárfesta í slíku eintaki því ætlunin er að teikna upp allt svæði svo fljótt sem auðið er.

Hafnir-5

Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í
lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi.
Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Hafnir-6Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara
tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.
Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir-7

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis.
Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í lj
ós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins.

Hafnir-10

Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og
norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skála ns til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Nöfn húsa, eyðibýlanöfn og afstöðulýsing í Kirkjuvogshverfi

Hafnir-11

Í lýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar í Merkinesi um Hafnir (Hafnahrepp) kemur eftirfarandi fram um byggðakjarnan: „Þegar komið er eftir þjóðveginum til Hafna, er fyrst farið framhjá býli á hægri hönd, sem heitir Teigur. Þetta er nýbýli úr landi Kirkjuvogs hins forna. Þá er Ósland á hægri, en Bræðraborg til vinstri.  Þá er Sjónarhóll til hægri, en Brautarhóll til vinstri.  Þar lítið sunnar var eitt sinn bær, sem hét Hraunprýði, og lítið eitt vestar var býli, sem hét Vífarskot. Á þeim rústum er nú hús, sem heitir Kalmanstunga. Móts við Brautarhól liggur vegur niður að höfninni.
Suðvestur frá Kalmanstungu er tún. Þar stóð bækorn, sem hét Bjarghús. Um 1930 og lengur var þarna fjárhús og hlaða, en allt hefur það verið jafnað út.
Samsíða veginum er markað fyrir tveimur vegastæðum og afmældar lóðir meðfram þeim fyrir smáíbúðir, og koma götur þessar til með að heita Seljavogur sú efri, en Djúpivogur hin lægri. Þrjú hús eru risin við Seljavog, en eitt við Djúpavog.

Hafnir-12

Frá vegamótum Reykjanessvegar ökum við að Kirkjuvogskirkju. Þá er fyrst við beygju vegarins á vinstri hönd Jaðar.  Þá er Garðbær fjær veginum og Kirkjuvogur, en uppi á hæðinni móti kirkjunni er Traðhús. (Gamli Kirkjuvogur stóð gegnt kirkjudyrum, en var færður 1943 þangað sem hann stendur nú.) Meðfram norðursíðu kirkjugarðsins stóð nokkuð stórt timburhús, sem hét Norðurhús, en var rifið 1929 og endurbyggt í Keflavík.

Kirkjuvogskirkja var á öldum áður norðan við Ósa í Vogi, en sökum sjávarágangs og landbrots flutt á hól þann í Kirkjuvogi, sem hún stendur enn á.  Ekki er öruggt með, hvaða ár þetta hefur verið gert, en sr. Jón Thorarensen fullyrðir, að það gerist fyrir 1575. (Vilhjálmur Hákonarson byggði þessa kirkju 1861).

Hafnir-13

Ef við erum stödd við höfnina, förum við veg, sem liggur eftir endilöngu hverfinu.  Verður næsta hús Höfn,  þá Bakki, Sólberg, Sólbakki, en Kirkjuból heitir húsið á götuhorninu og uppi á hólnum sjávarmegin (nú) Hóll (áður Staðarhóll.
Öll þau hús, sem nú hafa verið nefnd, eru byggð á landhluta, sem hét  Búðabakki.  Öll þessi hús eru á hægri hönd.
Til vinstri eru tún, sem skipt er í skákir. Austast er Hjallatún, þá Kotvogstún, en syðst gengur horn eða tunga, sem er hæst, og heitir það Akrar. Þar eru oft haldnar álfabrennur á gamlárskvöld eða þrettánda.
Nú höldum við yfir vegamótin og eru þá miklar frystihúsbyggingar, þar á meðal geysistór bygging hlaðin úr holstein, en aðeins tóftin ein. Frystihús þetta hefir oft skipt um eigendur, en var byggt upphaflega 1943 af hreppsbúum. Síðasta nafn hlutafélags þess, er átti húsið, var Hafblik h/f.
Hafnir-15Vestar á sjávarbakkanum er Kotvogur og er hann nú ekki nema svipur hjá sjón. Fyrr á tímum var þetta stórbýli. Hinn 5. apríl 1939 brann íbúðarhúsið í Kotvogi, sem var timburhús. Þar fórst í eldinum Helgi Jónsson, kenndur við Tungu, þáverandi eigandi Kotvogs, og dóttir hans 7 ára, ásamt Guðjóni Guðmundssyni, sem var vinnumaður Helga. Stórt timburpakkhús var austast og fjarst eldinum og sakaði ekki. Þetta hús var síðar innréttað og er enn í dag íbúðarhús.
Nú ökum við áfram framhjá timburhúsi með kvist til suðvesturs. Þetta er á vinstri hönd og heitir Vesturhús. Þá er Staður og aðeins fjær Grund. Aðeins austar stóð lítið hús fram yfir 1940, sem hét Tunga.

Hafnir-15

Þegar við höldum áfram, er næst á vinstri hönd Sólvellir (steinhús), en á hægri hönd er nokkuð stórt steinhús.  Það er Staðarhóll. Þá er næsta hús sama megin, steinhús, Garðhús, og aðeins nær sjónum timburhús, sem flutt var á þennan stað fyrir fáum árum. Það heitir Sólheimar og þar næst einnig aðflutt timburhús, sem heitir Garður. Tún liggur milli sjávar og þessara húsa, sem nefnt er Garðhúsatún, og milli þess og Kotvogs er túnspilda, sem nefnd er Danskhúsavöllur. Rétt á móti Staðarhól er rofið og ónýtt lítið timburhús, sem hét Klöpp, og tímaspursmál, nær það verður afnumið. Túnin á vinstri hönd eru í ótal skákum og breytast nöfn þeirra mjög eftir eigendum þeirra hverju sinni, en þó eru tvö nöfn, sem haldast  enn, Skák, sem nær rétt að skólanum, sem var, heitir Faxagerði, og annað tún litlu vestar heitir Miðmundakrókur.
Nú eru þrjú hús ótalin á vin
stri hönd. Þá er næst Hvammur, póst- og símstöð.  Lítið eitt fjær veginum Nýlenda (246) og þar rétt vestar Ragnheiðarstaðir. Þeir standa í samnefndu túni. Sjávarmegin við Garðhús er klapparhóll grasi vaxinn, sem heitir Bóndhóll. Fyrir tæpum mannsaldri byggðu sér bæ á hól þessum hjón þau, sem hétu 

Hafnir-16Guðmundur Salómonsson og Sigurlaug Þórðardóttir. Settust þau þar að, en höfðu skamman tíma verið þar, er þau fluttu þaðan og gengu svo frá, að ekki sér verksummerki. Fátöluð voru þau hjón um orsök þess, en þeir, sem kunnugastir voru þeim hjónum, gáfu í skyn, að þeim hafi ekki verið vært þar, og ollu því draumar tveir og jafnvel sýnir. Síðan hefur aldrei verið hróflað við neinu á hól þessum.
Suðvestan við Garðhúsatún er talsverður túnblettur og vestan til í honum miðjum var bækorn fram yfir 1930. Þar bjó Vilhjálmur Jónsson.  Bærinn hét Í Görðum, en í daglegu tali Villabær. Út við veginn innan túnsins var lægð ofan í klöpp og hélzt þar oft vatn í með ólíkindum, þó þurrkar væru. Þetta heitir Prettur. Enn er túnskák vestur af Villabletti. Hún tilheyrir Kotvogi, en er nafnlaus.  Hér endar vegurinn, en við sjáum mikla grjótgarða og innan þeirra er tún.  Í því nær miðju var eitt sinn bær, sem hét Réttarhús. Jörð þessa keypti eigandi Nýlendu, en bæjarrústir voru jafnaðar út.
HafnirÞar skammt suðvestur af eru rústir af bæ, sem hét Vallarhús. Hann mun hafa farið í eyði upp úr aldamótum síðustu. Nú fyrir fjórum árum var byggður þarna sumarbústaður.
Vorhús voru rétt hjá Ragnheiðarstöðum; nú er þar skúr.
Þá taka við Haugsendar. Þar kvað hafa verið byggð fyrir ævalöngu, en enginn veit nú, hvar sá bær hefur verið.  Máske sjór hafi brotið upp land, eins og víða gerist hér með ströndinni, en geta má þess, að svo sem 150 metrum suðvestur frá horni garðlags þess, er liggur frá Bræðrum og niður undir sjó, má sjá, sjávarmegin við veginn, litla rúst, svo sem grænan hrygg, og ef vel er gaumgæft, sést móta fyrir garðlagi niður að sjó.“
Réttin í Höfnum var notuð fram til 1969. Þá gerði þar mikið óveður um veturinn og skemmdi sjórinn hana að hluta. Braut hann niður varnargarða og ýmsar minjar. Þrátt fyrir það má enn sjá móta greinilega fyrir réttinni – norðvestan við byggðakjarnan.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur) Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði.
-Landnámsbærinn Vogur í Höfnum, Byggðasafn Reykjanesbæjar.

Ketill

Í Höfnum.

Kalmannstjörn

Um skipstapann frá Galmannstjörn 10. þ. mán. 1865, (eptir kandid. Odd V. Gíslason).
Hafnir-spil-221Þann 10. þ. m. milli dagmála og hádegis, fórst skip á Gálmatjörn í Hafnahrepp með 15 manns, af hverjnm að 7 náðust lifandi, en 8 drukknuðu og vorn þeir: 1. Formaðurinn Þorgils Eiríksson frá Kambi í Holtum, 2. Hannes Ólafsson, vinnumaður á Gálmatjörn, 3. Ólafr Snjólfsson vinnumaður á Gálmatjörn, 4. og 5. bræðurnir Sigurður og Ísleifur Árnasynir vinnum. frá Garðsauka í Hvolhrepp, 6. Guðmundur Sigurðsson frá Götu í Holtum, 7. Jón Hinriksson frá Ölversholti í Holtum, 8. Jón Vigfússon vinnumaður í Miðkrika í Hvolhrepp. Allir þessir menn voru í bezta aldri frá 20 — 50 ára og voru allir ókvæntir.
Skipstapinn orsakaðist þannig, að sjó tók að brima, og þegar á sund það kom, sem farið var inn um á lendingu, varð frákastið að norðanverðu svo mikið í ólaginu að eigi neitti stjórnar og barst skipið að nefinu, sem er að sunnanverðu við sundið, stóð þar og hvolfdi allt í einu; komust nokkrir á kjöl, og nokkrum varð náð úr landi og á áttæring sem fram var settur, því eigi höfðu aðrir róið þennan dag, og náðust allir.
Þeir sem dauðir voru, voru bornir heim að bæ og var nú óðar sent til Vilhjálms bónda Hákonarsonar í Kirkjuvogi, og brá hann við snögglega, þótt hann væri sjálfur nýkominn úr skinnklæðunum, hljóp suður að Gálmatjörn og að hans tilstuðlan var allt það reynt sem unnt var, til að endurlífga hina drukknuðu, opnuð æð á handlegg, lagðir á tunnur til þess að ná úr þeim sjónum; þarnæst voru spenntir handleggir þeirra fram og upp með höfðinu og svo niður aptur til þess að hleypa lopti í lungun, burstaðir á fótinn, handleggjum og herðum og var þessum tilraunum haldið áfram allan daginn en allt til einskis. Ekki varð vart við nokkurt lífsmark.“

Heimild:
-Þjóðólfur, 18. árg. 1865-1866, bls. 103.

Junkaragerði

Junkaragerði og Kalmanstjörn.