Færslur

Kaðlakriki

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir m.a. af Kaplakrika:

“Garðar

Kaplakriki

Kaðlakriki – álfaborg.

Skráningarsvæðið er innan lands Garða en nær þó einungis inn á örlítinn hluta þess, þannig hér á eftir verður stiklað á stóru.
Fyrstu heimildir um Garða eru frá árinu 1307 en það var skjal um rétt til rekafjöru í landi Garða: „ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allan vidreka og hvalreka fra Ranganiogre ig (i) Leitu kvenna bása ad kalftiorninga fiouru.“
1367 var staðurinn metinn á 16 hndr. og átti kirkjan þá allt heimalandið.

Kaplakriki

Kaplakriki 1958 – loftmynd.

Í skjali frá 1558 var sagt að kirkjujörðin Hlíð var lögð til Bessastaða en Garðar fengu Vífilstaði í staðinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Garðar væru kirkjustaður í eigu kirkjunnar. Þá var sagt að jarðadýrleiki hafi verið óviss allt til ársins 1697 en þá var staðarins getið og var hann metinn af sex mönnum sem valdir voru til matsins af prófastinum á Kjalarnesþingi og sýslumanninum í Gullbringusýslu eftir tilmælum frá amtmanninum. Staðurinn var þá virtur að 60 hndr. að dýrleika. Ábúandinn var þá Sr. Ólafur Pétursson prófastur í Kjalarnesþingi, landskuld var engin og höfðu fyrrnefndir sexmenningar áætlað að leiga fyrir jörðina væri tveir hundruðustu. Kirkjan átti 20 kúgildi, þar af voru sum þeirra í leiguburði á kirkjunnar jörðum og líka á hjáleigum í kringum staðinn.
Garðar voru með selstöðu í Kaldárseli, þar voru bæði hagar og vatnsból mjög góð. Móskurður til eldiviðar var nægur en ef þurrt var fór hann og var erfiður. Heimræði var allt árið og lending góð. Róðrar voru fengsælir þegar fisk var að fá í Hafnarfirði.
Í Jarðabók Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 185 og var kirkjujörð. Dýrleikinn var 40, landskuld 2 og kúgildi 1.
Árið 1912 gaf Jens Pálsson, prófastur í Görðum, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi sem bærinn stóð á með beitarlandi fyrir 52.000 kr. og heimilaði Alþingi þessi landakaup með lögum þann 22. október sama ár. Landstjórninni veittist heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstaði land Garðakirkju sunnan og vestan þessara marka:

Hádegisvarða

Hádegisvarða.

1. Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veg inn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunholti, nálægt í hásuður frá bænum spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól sem er gamalt miðaftansmark miðað frá Vífilsstöðum; þá tekur við:
4. Urriðakotsland; þá
5. Setbergsland allt til Lækjarbotna og loks
6. Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegur.

Garðahevrfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Árið 1927 skoraði bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þingmenn Gullbringu- og Kjósarsýslu að flytja frumvarp á næsta Alþingi um að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi það land sem Garðakirkja ætti í miðjum bænum. Alþingi samþykkti söluna 1928 og bærinn keypti landið árið 1930 fyrir 12.000 kr.
Ekki er vitað með vissu hvað sagan um álfaklettinn við Fjarðarhraun er gömul en það birtist frétt í Fjarðarpóstinum þann 20. ágúst 1992 sem hét „Meintir álfar fá grið“. Þar var tekið fram að Vegagerð ríkisins hafi ákveðið að leyfa klettaborginni að standa, a.m.k. á meðan hún truflaði ekki umferð um Fjarðarhraunið. Einnig var fjallað um álfaklettaborgina í bók Bryndísar Björgvinsdóttur og Svölu Ragnarsdóttur og þar var einnig tekið fram að ekki væri vitað hve gömul þessi álfasaga væri.
Landamerkjavarðan er horfin en hún mun hafa staðið á því svæði sem er aftan við verslun Fjarðarkaupa.”

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VI; Kaplakriki, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-VI-Kaplakriki-2021.pdf (byggdasafnid.is)

Hafnnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni.