FERLIR hafði að þessu sinni það verkefni að leita uppi, staðsetja og teikna upp Kárastaðakot í fyrrum Þingvallasveit. Auk þess var ákveðið að skoða grjóthlaðna rétt ofan Brúsastaða.
Í Örnefnalýsingu Guðbjörns Einarssonar, bónda á Kárastöðum segir m.a. um Kárastaði og Kárastaðakot:
Kárastaðir – friðlýstar minjar.
„Miðsvæðis í Þingvallasveit, vestan vatns, er jörðin Kárastaðir. Hún liggur milli jarðanna Brúsastaða að austan, Skálabrekku að vestan og Þrándarstaða í Kjós að norðan, en takmarkast af Þingvallavatni að sunnan.
Kárastaðaás er misgengi ofan við bæinn og liggur frá suðvestri til norðausturs. Á honum eru Háás og Lágás. Á ská upp ásinn liggur Sniðgata, og vestar á honum heitir Jarðfall. Austan til á Háásnum er stór steinn, líkur húsi í laginu, og heitir hann Álfasteinn.
Kárastaðir.
Vestarlega undir Kárastaðaás er Nónmelur og Mógrafir. Gildrubrekkur liggja ofan við Kárastaðaás. Þar voru settar steingildrur fyrir refi í gamla daga. Suður undan Gildrubrekkum austan til er Þvergil, en vestur af þeim er Sæmundarflöt, og enn vestar Rjúpubæli. Ofan við Gildrubrekkur er Sandskeið. Norðvestur af Sandskeiði eru hvammar tveir, Hlíðarhvammur og Götuhvammur. Um Götuhvamm lá leiðin, þegar farið var með heybandslest úr Sökk, en það er mýrarslakki með fúamýri í. Selskarð er þar vestar. Um það var farið, þegar farið var í Selið, sem stóð í Selgili, og má enn sjá tóftirnar af Selinu.
Dalurinn milli Kárastaðahlíðar og Selfjalls heitir Lækir. Suður undan Selfjalli er dalkvos, sem heitir Skál, og skammt þar frá er Markagil, en þar eru mörkin milli Kárastaða og Brúsastaða.“
Hér að framan er ekkert minnst á Kárastaðakot.
Kárastaðir fyrrum.
Í skýrslu um „Lagningu jarðstrengs á Suðurlandi, deiliskráning… (Fornleifastofnun 2019) segir m.a. um Kárastaði:
„1570: Í máldaga frá árinu 1570 (og síðar) eru Kárastaðir eign Þingvallakirkju. DI XV, 644.
1695: Eign Þingvallakirkju og jarðardýrleiki 16 hdr. BL, 116.
1711: Jarðardýrleiki óviss. Jörðin átti þá afrétt með Grímsnesingum í Skjaldbreiðurhrauni. Eyðibýli: Kárastaðakot. JÁM II, 369.“
Hér að framan er sem sagt getið um Kárastaðakotið.
Í „Kortlagningu eyðibyggðarinnar á Þingvöllum segir Gunnar Grímsson í B.A-ritgerð sinni í fornleifafræði árið 2020 frá Kárastaðakoti:
„Kárastaðir og Kárastaðakot
Kárastaðakot.
Tæpum þremur kílómetrum norðaustan Skálabrekku eru Kárastaðir, sem eru enn í byggð í dag. Kárastaðabændur stunduðu seljabúskap í Seldal, suðvestan bæjarins og var það einfaldlega nefnt Selið („Kárastaðir“, e.d., bls. 3). Eyðihjáleiga Kárastaða, Kárastaðakot, var byggð upp úr stekk bæjarins milli 1685–1691 (JÁM II, bls. 369). Mögulegar rústir Kárastaðakots sáust á loftmyndum Samsýnar í október 2019 fyrir tilviljun við skrásetningu leiða á Þingvöllum. Rústirnar hafa ekki verið heimsóttar á vettvangi og frekari rannsókna er þörf til að ákvarða hvort þær séu í raun bæjarstæði. Rústirnar, sem eru mitt á milli Kárastaða og Brúsastaða, eru sambyggðar og þeim svipar nokkuð til Bárukots í útliti. Kárastaðakot og Bárukot voru byggð og fóru í eyði á sama áratugnum.“
Kárastaðakot – uppdráttur ÓSÁ.
Í Lögréttu 1919 er fjallað um Þingvelli við Öxará. Þar segir m.a.: „12. Kárastaðakot var bygt úr Kárastaðalandi um 1685. Þar var búið í 6 ár, svo lagðist það í eyði.“
Við vettvangssskoðun á tóftum Kárastaðakots var ljóst að um örkot var að ræða; húsakostur var þröngur; búr, baðstofa og útistandandi eldhús. Framan við kotið var fjárskjól og utan í því sauðakofi. Ofar var matjurtargarður og varða austar efst á mel. Neðar voru eldri minjar, greinilega stekkur. Minjarnar staðfestu framangreinda lýsingu um að kotið hafi verið byggð upp úr stekknum. Fjölmargar lýsingar eru um slíkt á Reykjanesskaganum í gegnum tíðina.
Brúsastaðr – réttin undir Réttrahól.
Þá var haldið að Brúsastöðum með það fyrir augum að finna, staðsetja og teikna Brúsastaðaréttina undir Réttarhól (Einbúa).
Í Örnefnalýsingu fyrir Brúsastaði segir Haraldur Einarsson, fæddur á Brúsastastöðum, m.a.:
„Þar austur undir á er Einbúi, stakur hóll. Áin beygir nú, og þar er annar hóll, sem réttin er við. Hann var ekki kallaður neitt. [Hann heitir reyndar Réttarhóll.] Kallaður er Albogi í beygjunni á ánni. Þar eru klettabelti og skriður.
Brúsastaðarétt.
Vestan við bæ er sagður gamall kirkjugarður. Þar er hringmyndaður kragi og þýft inni í. Í hringnum eru þrjár lautir, ein stærst. Enginn vildi hrófla við þessu, og hefur það ekki verið sléttað. Einu sinni átti að slétta utan í þessum kraga, en þá var komið niður á stein-hleðslu, líkt og tröppur, og var þá hætt við. Blótsteinn er stór og mikill steinn, þar sem gamli bærinn stóð, vestan við kálgarð. Í hann er klöppuð skál.“
Hoftóft? í kirkjugarði vestan Brúsastaða.
Augljóst má telja að framangreindur hóll vestan Brúsastaða er forn grafreitur. Skálalaga tóft í honum er mögulega hoftóft sú, sem fjallað hefur verið um, þrátt fyrir villandi örnefnin umleikis. Áhugaverður vettvangur fyrir fornleifafræðinga framtíðarinnar.
Brúsastaðir – hlautsteinn.
Gömlu bæjarhúsin á Kárastöðum voru friðlýst af forsætisráðherra 16. júlí 2014 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til ytra borðs, sambyggðs hlaðins útihúss og upprunalegra innréttinga gamla íbúðarhússins.
Kárastaðir.
Á vef Minjastofnunar segir: „Gamla íbúðarhúsið að Kárastöðum hefur varðaveislugildi sem mjög gott dæmi um steinsteypt sveitahús í burstastíl eftir Jóhann Fr. Kristjánsson húsameistara. Það stendur á áberandi stað og blasir við helstu aðkomuleið að þjóðgarðinum á Þingvöllum. Í grein sem birtist í Samvinnunni 1925 er fjallað um uppdrátt af Kárastaðahúsinu og það nefnt sem fyrirmynd framtíðarbygginga á Þingvöllum í þjóðlegum anda, Þingvallabæjarins og Hótel Valhallar. Húsið var teiknað og byggt sem sveitaheimili og gistihús og þjónaði lengi sem slíkt auk þess að vera samkomustaður sveitarinnar. Kárastaðahúsið er eitt örfárra gistihúsa þessarar gerðar sem varðveist hafa.“
Framangreind friðlýsing er einungis ein af fjölmörgum vitlausum er ráðamönnum hefur verið boðið upp á í seinni tíð, án tæmandi útskýringa.
Heimildir:
-Brúsastaðir – Örnefnalýsing; Haraldur Einarsson 1981.
-Lögrétta, 14. árg. 19. tbl. 07.05.1919, Þingvellir við Öxará, bls. 67.
-Kortlagning eyðibyggðarinnar á Þingvöllum… Gunnar Grímsson, B.A-ritgerð í fornleifafræði 2020.
-Ragnar Lundborg Jónsson, bóndi á Brúsastöðum.
-Lagning jarðstrengs á Suðurlandi, deiliskráning…Fornleifastofnun 2019.
-https://www.minjastofnun.is/hus-og-mannvirki/fridlyst-hus-og-mannvirki/sudurland/nr/1255
Kárastaðakot.