Á Kársnesi í Kópavogi er upplýsingaskilti um hernámið. Þar stendur m.a. eftirfarandi um „Hernámið í Kópavogi 1940–1944“.
10. maí 1940 var Ísland hernumið af Bretum. Þá höfðu Þjóðverjar sigrað Pólland, Danmörku og Noreg. Óttast var að sömu örlög biðu Íslands en við það hefðu bandamenn misst yfirráð siglingarleiða á Atlantshafi.
Bretar lögðu því áherslu á að verða fyrri til. Bandaríkjaher tók að sér hersetuna sumarið 1941 samkvæmt samningi við Breta og ríkistjórn Íslands. Um 50 þúsund liðsmenn breska og bandaríska hersins, flotans og flughersins voru í landinu sumarið 1943. Þá voru Íslendingar 124 þúsund, um 43 þúsund bjuggu í Reykjavík en 314 manns í Kópavogi.
Bretar hófust strax handa við uppbyggingu flugvallar í Vatnsmýrinni og víða risu braggahverfi. Bretavinnan létti miklu atvinnuleysi sem hafði ríkt í landinu. Umsvif hersins hérlendis voru einna mest í nágrenni Reykjavíkurflugvallar við Fossvog. Í voginum var einnig aðstaða fyrir sjóflugvélar sem herinn notaði m.a. við kafbátaeftirlit. Á Kársnesi þar sem Siglingastofnun er núna var RAF Marine Craft Slipway. Þar má sjá skábraut þar sem flugbátunum var komið á land. Samskonar brautir voru í Nauthólsvík. Nokkur varnarbyrgi hersins voru við Fossvoginn.
Bandaríski herinn gerði kort og uppdrætti yfir athafnasvæði sín. Örnefni hersins á Kópavogssvæðinu sjást best á korti frá árinu 1943 í mælikvarðanum 1:25.000. Yfirmaður verkfræðideildar ameríska landhersins gerði kortið með aðstoð kortaþjónustu bandaríska landhersins í Washington. Ensku nöfnin sem herinn notaði hurfu eins og dögg fyrir sólu er hann hvarf á braut.
Herskálahverfi í og við Kópavog voru nokkur. Camp Fossvogur var í botni Fossvogs, í Sæbólslandi við Fossvogsbotn var Camp Bournemouth, utarlega á Kársnesi var Camp Kórsnes. Hæðin þar sem nú er Hamraborg er skráð á kortum hersins Skeleton Hill og þar var samnefnt herskálahverfi og loftvarnarbyssur. Nýbýlavegur og Kársnesbraut nefndust Skeleton Hill Road. Nokkur óvissa hefur ríkt um nafnið, t.d. fullyrti Hendrik Ottóson að braggahverfið hafi heitað Skelton Hill eftir örnefni í Englandi. Kópavogsháls vestan miðbæjar hlaut nafnið Mossley Knoll.
Digranes var kallað Whale Hill og vestasti hluti Kársness Whale Point. Þar sem nú er gróðrastöðin Storð við Dalveg var herskálahverfið Hilton Camp. Fífuhvammsvegur hét Hilton Road.
Sambúð Kópavogsbúa og setuliðsins var yfirleitt friðsamleg og höfðu heimamenn nokkurn ábata af hernum. Síðustu hermennirnir í Kópavogi fóru af landi brott í apríl 1944. Braggarnir sem herinn skildi eftir voru nýttir á ýmsan hátt. Framfarafélagið Kópavogur, sem varð til þess að sveitarfélagið Kópavogshreppur varð til 1948, var stofnað í bragga í Hilton Camp 13. maí 1945 og árið 1950 var búið í þremur bröggum í Kópavogi. Búnaður sem herinn skildi eftir var nýttur af Kópavogsbúum, skátaflokkurinn Fálkar notaði hertjöld á árunum 1947-1948.
Þjóðverjar gáfust upp 8. maí 1945 og styrjöldinni lauk í Evrópu. Bandaríkjamenn vildu þó hafa herstöð áfram og yfirgáfu síðustu hermennirnir Ísland ekki fyrr en 8. apríl 1947 í samræmi við Keflavíkursamninginn. Árið 1951, tveimur árum eftir að Ísland gekk í NATO, var gerður umdeildur samningur við Bandaríkjamenn um hervernd landsins sem stóð til 2006.