Gengið var frá Ósabotnum að Hunangshellu, en við hana er gömul þjóðsaga um finngálkn kennd. Haldið var eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni um Draugavog og að Selhellu. Framan við tangann er tótt og önnur inn á honum. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp. Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, er tótt.
Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að Hestaskjóli og áfram fyrir Djúpavog. Í botni vogarins liggur girðing upp í he, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Hún var einkar falleg í kvöldsólinni. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels. Á landakorti frá árinu 1945, sem haft var meðferðis, er selið merkt þarna og reyndist það rétt vera. Í því eru a.m.k. þrjár tóttir. Vatnsstæði er bæði á klapparholti norðan við selið svo og á klapparhól svo til beint í vestur, ofan við Gamla Kirkjuvog. Þar er sögð hafa verið kirkja til forna.
Elstu heimildir um Vog er að finna í Landnámu. Þar segir að Ingólfur hafi gefið Herjólfi frænda sínum land á milli Vogs ok Reykjaness. Síðar breyttist nafnið í Kirkjuvog. Kirkjuvogur var fluttur suður yfir Ósa á seinni hluta 16 aldar, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Mannabein hafa fundist í uppblæstri á gamla bæjarstæðinu og voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800 að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt. Gengið var að gamla bæjarhólnum, en Kaupstaðaleiðin liggur rétt ofan við hólinn. Á honum er greinileg hleðsla á tveimur stöðum, sú efri hringlaga og sú neðrir ferhyrningslaga. Þarna gæti hafa verið kirkjugarður og kirkja eða bær. Neðan bæjarhólsins er þrjár tóttir. Í tveimur þeirra eru greinilegar hleðslur. Sú syðsta virðist hafa verið gerði. Í skýrslunni er þar sagður vera gamall kirkjugarður, sem verður að teljast vafasamt. Sunnan við gerðið er tangi. Fremst á honum er hlaðið gerði, en tanginn hefur greinilega sigið nokkuð eins og annað land á svæðinu, eða um 8 mm á ári skv. staðfestum mælingum.
Kirkjuvogssel er skammt sunnan þjóðvegarins að Höfnum, vestan undir hól inni á sprengisvæði varnarliðsins. FERLIR fékk þó góðfúslegt leyfi til að fara inn á svæðið s.l. sumar og skoða selið. Það hefur verið látið óhreyft. Um það er fjallað í annarri lýsingu.
Gömlu þjóðleiðinni var fylgt aftur til austurs. Þegar komið er upp lága brekku sést hlaðinn garður á hægri hönd. Sunnar sést í háan grashól. Á honum er tótt. Neðan hans, rétt ofan við sjóinn, en lítið norðar, er hlaðinn garður. Fer hann nú á kaf í flóði. Gatan liggur í átt að Stafnesseli, þó lítillega til hægri, og yfir holtið. Á holtinu liggur hún einnig til suðurs, að gerði og tótt norðvestan Djúpavogs, þeim sem minnst var á áðan og eru undir Illaklifi. Skammt austar er önnur tótt, mun stærri. Þarna er Gamli Kirkjuvogur sagður vera skv. fornleifaskýrslu. Í henni segir m.a.: “Til forna lá jörðin hins vegar inn með Ósunum að norðanverðu. Þar er mikil rústabunga, grasi gróin. Húsaskipan er ekki hægt að greina.
Vestan við bæjarhólinn, ca. 8 m, eru nokkrir steinar, en undir þeim er gamli bæjarbrunnurinn. Sunnan við bæjarhólinn má sjá leifar af því sem virðist vera forn kirkjugarður. Einnig má sjá leifar túngarðs norðan við hólinn og hlaðinn brunn vestan við hann, en tóttir enn lengra í vestur, sem gætu verið tóttir útihúsa. Greinilegar traðir eru frá bænum í norður upp á Kaupstaðaleiðina.
Fremur fátt er vitað um Kirkjuvog hinn forna. hans er ekki getið í öðrum fornritum en Landnámu. En árið 1334 segir frá því á annálum að Þorleifur nokkur hafi drepið Þorbjörn prest í kirkju og lagði sig síðan sjálfur með hnífi. Í Jarðabók 1703 er tekið fram að gamli Kirkjuvogur sé fornt eyðibýli í Kirkjuvogs landi. “Aðrir halda því fram að þetta bæjarstæði sé í Stafness landi”. Líklega er talið að jörðin hafi farið í eyði um 1580”.
Haldið var upp á og götuhlutanum fylgt áfram götuna austur fyrir Djúpavog. Þaðan var haldið beint yfir holtin, stystu leið.
Í leiðinni var gert kort af öllu svæðinu þar sem tóttir og einstakir staðir eru merktir inn á. Veður var frábært, logn, sól og stilla.