Tag Archive for: Keflavík

Póstlúður

Í tveimur tölublöðum Faxa áriðð 1978 segir Guðsteinn Einarsson frá Grindavík frá „Einari pósti Árnasyni„:

Einar póstur gekk undir meiri þunga en hann gat lyft með handleggjunum

Guðsteinn Einarsson

Guðsteinn Einarsson.

„Einar Árnason f. 31. des. 1851, skírður 2. jan. 1852 í heimahúsum. Foreldrar hans voru Árni Jónsson og Helga Einarsdóttir búandi hjón í Vesturkoti.
Einar missti föður sinn 4 ára gamall, því að Árni dó 23. apríl 1856 þá talinn 36 ára gamall tómthúsmaður á Miðengi.
Helga giftist aftur 29. jan. 1859 þá 34 ára. Seinni maður hennar var Guðmundur Hannesson bóndi í Breiðagerði,
29 ára. Þau voru gefin saman í Kálfatjarnarkirkju.
Einar Árnason var fermdur á Trinitatis 1867. Og fær þá þessa umsögn hjá presti sínum, sr. Stefáni Thorarensen: „Lestur og kunnátta sæmileg. Skilningur daufur. Hegðun góð“.
Einar fluttist með móður sinni og stjúpa frá Breiðagerði að Vigdísarvöllum árið 1870.
Fyrir og upp úr síðustu aldamótum var hér á landi til nokkuð af fólki sem var talið sérkennilegt, þ.e. að það batt ekki sína bagga þeim hnútum er almennt gerðist.
Vitanlega var þetta mestmegnis það sem kallað er förufólk, þ.e. það flakkar bæ frá bæ og lifði á því sem því var gefið hverju sinni. Á þessu rjátli sínu, einsamalt að jafnaði, hefir það sennilega aldrei náð hugsunarhætti hins almenna borgara og þannig orðið einhvers konar utangarðs-manneskjur.
Mér duttu þessar manneskjur í hug í sambandi við skoðanakönnun „Vikunnar“ nú fyrir skömmu, þar sem segir frá skoðunum ungs fólks. Eitt af því sem þar kemur fram, er orðrétt: „Nú er svo komið, að allir skólar eru orðnir fullir af meðalmönnum.“

Grindavík

Grindavík 1925.

Vonandi verkar þetta þannig að þetta utangarðs-fólk aldamótanna sem ég var að geta um, nái meðalmennskunni, en vonandi standa þó topparnir upp úr. Í þessu sambandi datt mér í hug sérkennilegur maður, sem fyrst og fremst var bundinn við Grindavík, en almenningur nú mun ekki kannast við og gekk undir nafninu: Einar póstur. Það skal tekið fram, að hér er ekki um að ræða ævisögu Einars pósts, heldur minningar mínar eins og þær eru frá barnæsku til fullorðins manns, svo og sögusagnir sem í mér hafa loðað, frá árum Einars hér í Grindavík.
Upphaf Einars pósts mun það, að hann var fæddur á Vatnsleysuströnd, af hjónum sem hétu Helga og Árni. Föður sinn mun Einar hafa misst mjög ungur og stóð þá móðir hans uppi með 6 börn, öll ung.
Krýsuvík 1998
Á þeim tímum þýddi slíkt yfirleitt að fjölskyldum var sundrað og börnin boðin upp til lægst bjóðandi framfærslu, en fljótlega kom til maður sem giftist ekkjunni og tók hann jafnframt að sér framfærslu barnanna. Maður þessi var annálaður dugnaðarmaður, en jafnframt mjög harður við alla sér undirgefna, svo að segja mætti sögur af, en þessi lýsing ætti að nægja til að gera megi ráð fyrir að þessi fósturbörn hafi ekki alltaf átt sjö dagana sæla.
Nú var það Einar póstur, sem ég ætlaði að segja frá og verður þá fyrst að byrja á vaxtarlagi hans. Hann mun hafa verið um 150 cm á hæð, bolurinn eðlilega stór, höfuðið mjög stórt, en sá líkamshluti, er vantaði vöxtinn, var fæturnir. Klofið á Einari var ekki meira en í hné á meðal manni, en aftur á móti var hann svo handleggjalangur að hendurnar virtust koma við hnén á honum er hann bar á börum.
Vöxtur Einars mun kallaður dvergvöxtur nú til dags og efa ég ekki að það hafi verið beinkröm á uppvaxtarárunum sem hefur framkallað þennan vöxt.

Krýsuvík

Krýsuvíkurbærinn um 1914.

Um tvítugsaldur mun Einar hafa ráðist vinnumaður að Krýsuvík til Árna sýslumanns. Ekkert hefi ég heyrt um vinnu hans þar annað en að vori og sumri hafi hann að mestu gætt engjanna í Krýsuvík. Þrátt fyrir lélegan líkamsvöxt, lítur út fyrir að karlinn í Einari hafi verið fullgildur til kvenna, því í Krýsuvík er sagt að hann hafi verið trúlofaður vinnukonu að nafni Kristín og frá þeim tíma er fyrsta sérkennilega orðatiltækið sem ég hefi heyrt frá þeim tíma, en það átti að hafa verið þegar Kristín sveik hann, að eftir á hafi Einar sagt frá því þannig: „Hún sveik mig á mánudaginn í tólftu, helvítis mellan þessi“, og frá þeim tíma er vísa sem eignuð var Stefáni Stefánssyni, sem lengi gekk undir nafninu „túlkur“. Einhverntíma er Einar kom seinna heim en búist var við, kvað hann:
Nú er hann Einar durgur dauður,
dúkasólin grætur hann.
Kúfur er hinn eini auður
er hún Stína erfa kann.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Um 1880 er svo Einar kominn að Ísólfsskála til móður sinnar og fósturföður, sem þar bjuggu þá. Þá var á Ísólfsskála vinnukona sem Katrín hét, Þorkelsdóttir, og þar hitti Einar sína ektakvinnu, sem seinna varð.
Katrín þessi mun hafa verið ættuð úr Grindavík, en það sérstaka við þessi hjón var, að þau virtust sköpuð í sama farið, hvað hæð og vexti við kom. Með þeim var sem sagt fullkominn hjónasvipur. Ég varð nú ekki svo frægur að sjá uppi klobbann á Kötu, enda pínupilsin ekki komin til sögunnar, en segja mætti mér að fæturnir hefðu ekki haft eðlilega lengd frekar en á Einari.
Árið 1890 strandaði „Fransari“, þ.e. þrísigld skonnorta. Þau fóru í stórum flotum með fram ströndum landsins og fiskuðu á færi. Þetta skip hafði siglt upp í Hraunsand í góðu veðri seint í aprílmánuði. Mannbjörg varð. Leki mun hafa komist að skipinu. Skipshöfnin mun hafa unnið nokkuð að björgun úr skipinu og því verið þar nokkurn tíma.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.

Skipsstrand þótti ætíð athyglisvert og var því mjög fylgst með því frá nærliggjandi stöðum. Einar og Kata munu hafa komið þar á Hraunssand meðan Fransararnir dvöldu þar og frá þeim tíma er þetta haft eftir Einari um Kötu: „Þegar ég og Fransararnir hlupu á eftir henni austur um allan Sand, mikið anskoti var skepnan fljót.“
Eitthvað mun hafa dregist frá því að talið var að Einar og Kata væru að draga sig saman og þar til þau urðu hjón og einhver sem spurt hafði Einar um, hvað giftingu þeirra liði, hafði hann svarað svo: „Ég væri löngu giftur henni, ef ekki væri á henni anskotans hausinn.“. Þetta mun hafa verið í sambandi við að talið var að hún hefði geitur.

Einar póstur

Einar póstur.

Fljótlega eftir þetta munu þau hafa gift sig og hófu búskap í þurrabúð sem þá var kölluð svo, á Hrauni og hét það Hrauntún. Frá þeim tíma er þau bjuggu í Hrauntúni hefi ég heyrt að þá hafi Kata lagst á sæng til að eiga barn og eftir að ljósmóðirin hafði verið sótt og ekkert barnið kom, að þá hafi Einar sagt: „Ætli væri ekki reynandi að gefa henni lútsterkt baunakaffi til að snerpa á henni.“ Hvað sem kaffinu leið mun ekkert barnið hafa komið, en talið var að barnið hefði visnað upp með móðurinni. Í Hrauntúni og Melbæ munu þau Einar og Kata hafa búið hér í Grindavík, en árið 1910 munu þau hafa flutt til Keflavíkur.
Katrín ÞorkelsdóttirFrá búskaparárum þeirra í Grindavík hefi ég heyrt ýmislegt sem farið hefur í millum þeirra hjóna og virðist Einar þá farinn að beita sérstökum orðaforða og að kasta fram vísum. Þau hjón munu hafa haft skap stórt, þótt lítil væru og eitt sinn hafði Einar átt að segja við Kötu sína í orðasennu: „Farðu í hurðarlaust helvíti, hornafullt af skónálum, helvítis árans pístólan þín.“

Á þessum árum, sennilega 1905 eða 1906, gerist Einar póstur frá Keflavík, um Hafnir, Grindavík, Krýsuvík, Selvog, Þorlákshöfn og Eyrarbakka. Það má heita ótrúlegt að hann gæti þetta, þar sem pósturinn var talinn vera um 100 pund með útbúnaði, þegar lagt var af stað frá Keflavík, en það var þó staðreynd að þetta gat Einar og mun hafa byggst á því, að hann var skrokksterkur, þ.e. að hann gat staðið undir og gengið undir meiri þunga en hann gat lyft með handleggjunum. Um þessa eiginleika sagði faðir minn sögu af honum.

Einarsbúð

Einarsbúð t.v.

Pabbi var oft vor og haust við afgreiðslu í búð Einars í Garðhúsum og einhverju sinni hafði Einar póstur komið að fá einn hundrað punda poka af rúgmjöli. Pabbi sagðist hafa tekið pokann úr bing og kippt honum að tunnu sem höfð var til að ganga frá pokunum á bakið, því allt var borið á bakinu þá.
Nú, þegar Einar tók við pokanum gat hann aðeins draujað honum eftir gólfinu, en ekki lyft upp á tunnuna. Hann spurði hvort ekki ætti að skipta pokanum í tvennt og fara með í tveim ferðum. Nei, hafði Einar sagt, ég er góður ef þú hjálpar mér að koma honum á bakið.
Þegar það var búið, dáðist pabbi mikið að, hvað Einar var léttfetalegur með pokann á bakinu, þegar hann labbaði austur garðana, eftir að hafa séð hann glíma við pokann inni.
Einar mun ekki hafa þótt gengur í skipsrúm og segir sig því sjálft að tekjur munu hafa verið af skornum skammti hjá þeim hjónum og fátækt mikil, en til að halda sér uppi í erfiðleikunum mun Einar hafa haft einhverja hörku við tilveruna og er þetta til sannindamerkis um það: Einhverju sinni er Einar kom úr póstferð, hafði Kata farið að telja upp hvað blessað fólkið hafði gefið þeim. Þegar Einar hafði hlýtt á upptalningu Kötu, hafði hann sagt: „Ég held það sé rétt til þess, fyrst það getur það.“ Kata hafði sagt: „Mikil ósköp eru að heyra til þín, maður, en Einar svarað: „Ég sný ekki aftur með það, ég held það sé rétt til þess, fyrst það getur það.“

Reykjanesviti

Reykjanesviti í byggingu.

Árið 1907 skeður svo það að fólk hér í Grindavík og jafnvel um allan Reykjanesskagann fær peninga í hendurnar fyrir vinnu sína. Þetta var í sambandi við að á því ári var Reykjanesviti byggður. Sennilega hefir þessi nýbreytni leyst úr læðingi það bezta sem í hverjum einstaklingi bjó. Einar póstur var þarna í vinnu á milli póstferða og einmitt þarna komu fram tvær vísur hjá Einari, sem næstar munu því að þola bragarreglur. Sú fyrri var svona:

Þorsteinn hvíti þar með ýtum gengur.
Oft hjá Dísu una kann,
ekki tala ég meira um hann.

Þórkötlustaðir

Einland í Grindavík.

Þessi Þorsteinn var Steini í Einlandi og munu allir eldri Grindvíkingar muna eftir honum, en Dísa var vinnukona á Stað hjá séra Brynjólfi Gunnarssyni.
Önnur vísa Einars frá vitabyggingunni og sú er meiri eftirköst hafði fyrir hann, var um mann úr Höfnum. Sá hét Ketill Magnússon og er vísan svona:

Ketill Magnús kallaður
kempan magtar stinna
Einu sinni á ævinni
hann ætlaði að fara að vinna.

Þetta þótti hitta, þannig að Ketill Magnús þessi hafi þótt heldur sérhlífinn við vinnu, en eftirköstin voru þau, að faðir Ketils Magnússonar var vel hagmæltur og sá gerði brag um Einar póst, svohljóðandi:

Þá Friðrik kóngur sigldi um sæ
og sá til Grindavíkur,
leit hann mann einn, langt frá bæ.
á leið til Keflavíkur.
„Cristiansen minn komdu hér“
kallaði sjóli glaður,
„líttu á hvernig labba fer
líkur dvergi maður.“
Christiansen með kíkirinn
kíminn glotti og sagði:
„Þetta er putti pósturinn
með prakkara látbragði.“
Ólafur með stóran staf
stendur upp úr fönnum,
en putti fer á kolsvart kaf
og kallast burt frá mönnum.
Póststjórninni skrifa skal
og skýra frá því betur,
ég held það mesta heimskuhjal
að hafa putta í vetur.
Eftirlaunin enginn fær
Einar þó að deyi,
en Ólafur í rósum rær,
svo raunum léttir eigi.

„Við köllum þetta hér í Keflavík, hús, en ekki bæ“, sagði Einar póstur við Grindvíkinginn
Keflavík
Ég man fyrst eftir Einari árin 1906 eða 1907, því hann kom alltaf að Húsatóftum þar sem ég er uppalinn. Raunverulega voru það hátíðisdagar, því Einar opnaði alltaf blaðatöskuna og skildi eftir öll blöð í Staðarhverfið, sérstaklega minnist ég blaðanna Lögbergs og Heimskringlu, sem pabba voru send öll póstár Einars, en í þeim voru mjög spennandi neðanmálssögur.
Þegar Einar var í póstferð, var full múndering hans blaðataska úr sverum striga, spennt um axlir og náði niður á rass á Einari, þá tösku mátti opna og skilja eftir blöð á viðkomandi bæi — 2. bréfataska, hana mátti ekki opna nema á bréfhirðingastöðum — 3. var lúður og þótti okkur strákunum það mikill merkisgripur og venjulega fengum við lúðurinn lánaðan til að blása í, en leyfðum okkur ekki að leita eftir að fá hann fyrri en farið var að bera á borð fyrir Einar og helst að hann væri byrjaður að borða.
Ég tel rétt að minnast á eina sérstaka minningu um Einar póst frá þessum árum, sem sýnir hvað lífsbaráttan var hörð, miðað við daginn í dag og einnig að Einar karlinn hefir ekki legið á liði sínu til sjálfsbjargar. Árið 1910 var kirkjan á Stað rifin. Hún var úr timbri og það var allt selt á uppboði. Á uppboðinu keypti Einar 10 eða 12 borð. Þau voru l0 eða 12″ og 8-12 fet á lengd.
Einar póstur.
Sem fyrri er sagt, fluttust þau Einar og Kata til Keflavíkur 1909 eða ’10 og árið 1910 var Einar farinn að byggja í Keflavík og borð þau er hann keypti úr Staðarkirkju, bar hann fyrst upp að Húsatóftum og geymdi þar og bar þau síðantvö og tvö til Keflavíkur, þegar hann var að koma að austan úr póstferðum. Ég og bróðir minn, Jón, minnumst þess, þegar Einar labbaði með borðin norður göturnar á Keflavíkurvegi, frá Húsatóftum. Göturnar voru um hnédjúpar meðalmanni, svo ekkert sást, nema borðin sem vögguðu sitt á hvað.
Niðurstaðan að áreynslu Einars varð svo sú, að hann kom húsi yfir sig og Kötu í Keflavík. Keflvíkingar voru á þeim tímum orðlagðir fyrirnafnagiftir og vitanlega var hús þeirra nefnt „Pósthús“. Með sínu pósthúsi fékk Einar um 3600 ferm. lóð og var eignalóð.
Einn öflugur peningamaður í Keflavík náði lóðinni undir sig, en hún er nú talin á 5-6 hundr. kr. ferm., svo hefði Einar lifað 40-50 árum lengur, hefði hann verið orðinn milljóneri. Í sambandi við hús Einars í Keflavík, hefi ég heyrt þessa frásögn: Grindvíkingur einn hitti Einar hjá húsi sínu eftir að það var byggt. Þeir hófu tal saman og þar kom að Grindvíkingurinn spurði Einar hvort þetta væri bærinn hans. Einar hafði svarað: Við köllum þetta hér í Keflavík hús, en ekki bæ.
Hér kemur svo síðasti kafli minn um Einar póst og hann er um það, þegar ég kynntist honum persónulega. Það gerðist þegar Grindavíkurvegurinn var lagður árin 1914 til 1917. Við vorum þar báðir öll árin, ég stráklingur, en Einar vitanlega fullorðinn.

Einar var ræðinn og laginn

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

Ég var hestasmali fyrsta sumarið, fór á fætur um 5 að morgni og átti að skila hestunum kl 7, þegar vinna byrjaði. Kl. 1 var skipt um hesta aftur. Þá voru morgunhestar fluttir, en kl. 2-3 átti það að vera búið og þá átti hestasmali að vinna til kvölds.
Einar póstur var venjulega látinn bera á börum á móti strákum og hann var sá sem ég bar venjulega á móti í þessum vinnutíma mínum. Einar var ræðinn og nokkuð laginn að segja frá, enda kunnugur langt út yfir það umhverfi, sem ég þekkti þá, en það sem mest sat í mér og gerði það að verkum að ég, stráklingurinn, fékk mig lítið til að gera grín að Einari að einhverju sinni er hann var að segja frá sínum uppvexti, endaði hann frásögu sína með þeim orðum, sem ég gleymi aldrei, en þau voru: „Ég ætla bara að segja þér það, að ég á engan þann óvin, að ég óski honum þess að búa við, það er ég átti í uppvextinum.“

Ég vinn það ekki fyrir heilagan anda…

Grindavíkurvegur

Búðastaður vegagerðarmanna við gerð Grindavíkurvegarins 1918 í Hrossabrekkum.

Öll árin í veginum var Einar í sér tjaldi, sýndist víst ekki heppilegt að hann væri innan um aðra sökum sinna sérkenna, en það vildi svo til, að hann var með í því tjaldi, sem ég var í þrjú seinni sumurin, svo ég vissi þess vegna svo vel hvað Einari leið. Öll haustin í veginum enduðu eins hjá Einari, þannig að þegar fór að gera rigningar, var ekki unnið í fasta rigningu, aðeins þegar gekk á skúrum, en Sigurgeir verkstjóri gekk eftir því, að allir væru í galla, þegar skúraveður var komið, en þá sagði Einar: „Það er enginn verri þótt hann vökni“. En þegar bleytur voru búnar að ganga nokkra daga og einar orðinn gegndrepa og allt í kringum hann í tjaldinu, þá var viðkvæði Einars: „Ég vinn það ekki fyrir heilagan anda að láta drepa mig“, og þar með var hann farinn. Sigurgeir sagði að svona hefði gengið öll sumur í restinni og Einar var alltaf farinn áður en vinnan raunverulega hætti.

Nokkur skáldaandi var yfir
Einari þarna í vegavinnunni, en
því miður man ég ekki nema
tvær vísur hans frá þessum
tíma. Þær eru svona:
Mangi langi, mjór og krangalegur
hleypur Voga horskur til,
hann í sogar veðrið sig.

Hin er svona:
Fjandans eru faularnir,
fullir með svik og pretti,
allir standa aularnir
undir sama kletti.

Stundum rann svona skáldskapur upp úr Einari, en vitanlega sat lítið af því eftir í manni.

Andskotinn hossi þér á hrossherðablaði

Kúadalur

Kúadalur í Grindavík.

Einar kom að jafnaði til að drekka kaffi í okkar tjaldi, því það var hitað fyrir allann hópinn og tvennt sem Einar sagði upp úr eins manns hljóði eða án þess að viðræður hefðu sveigt að því. Annað var að upp úr þögn sagði Einar: „Einu sinni var maður á Skálanum, sem ég réði við“. Við getum gert okkur í hugarlund að á bak við þessi fáu orð, sé raunverulega heil æfisaga lítilmagnans, sem undir niðri hafi fundið sitt getuleysi í sambandi við alla sem hann hafði umgengist. Hitt var eins til komið, að upp úr þögn sagði Einar: „Margt er það í koti karls, sem kóngs er ekki í ranni, og tvenn á ég hnífapörin.“ Þetta sýnir vitanlega takmarkalausa sjálfsánægju með sitt litla og má vera, að það hafi verið eitt af því sem gat haldið svona fólki uppi í lífsbaráttunni.
Síðasta minningin sem ég á af Einari pósti, frá vegavinnunni gerðist i Kúadal, rétt við Grindavík. Þá var Einar að fara vegna rigninga, eins og áður er sagt og hann var að labba af stað með sínar pjönkur á bakinu. Ég var að bera grjót á börum með stráki, sem nokkuð hafði strítt Einari. Þegar Einar fór framhjá, kallaði ég hvort hann ætlaði ekki að kveðja.
Jú, sagði Einar og kom og tók í hendina á mér, með viðeigandi formúlu, en labbaði svo af stað án þess að kveðja hinn, sem spurði þá hvort hann ætlaði ekki að kveðja sig líka, en þá svaraði Einar: „Nei, andskotinn hossi þér á hrossherðablaði helvítis árans kvikindið þitt.“
Þetta eru eiginlega síðustu kynni mín af Einari pósti. Hann mun hafa dáið einhverntíma milli 1920 og 1930, en hans ektakvinna dó á Karlsskála í Grindavík um 1934.“ – Guðsteinn Einarsson

Guðmundur Björgvin Jónsson segir frá Einari og hans fólki í bók hans „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“

Suðurkot í Vogum

Suðurkot

Suðurkot í Vogum.

Eftir aldamótin lét Benedikt [Pétursson] byggja upp gamla bæinn og var sá notaður til ársins 1927. Þá lét hann byggja það Suðurkot er nú stendur. Smiður að því húsi var Þorsteinn Árnason húsasmíðameistari úr Keflavík. Um 1930 fór að draga úr umsvifum Benedikts, enda var hann þá orðinn 63 ára. Þó hafði hann vertíðamenn í skipsrúmi hjá öðrum útgerðarmönnum, m.a. sjómann frá Skagaströnd, Kristmund Jakobsson ekkjumann, 34 ára. Árið 1944 hætti Benedikt búskap og tóku þá Guðrúnu dóttir hans og Kristmundur við og bjuggu þau í sambýli uns Kristmundur lést árið 1976. Guðrún bjó ein í nokkur ár eða þar til hún fór á elliheimilið Garðvang árið 1979 og þar er hún enn. Kristmundur vann síðustu árin, meðan heilsan leyfði, hjá íslenskum Aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli. Húsið Suðurkot var selt aðkomnufólki árið 1980.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Börn Benedikts og Sigríðar: 1) Guðrún Kristín, 2) Jón Gestur (látinn), einnig ólu þau upp Guðmund Marijón Jónsson sem var sonur Jóns Þorkelssonar og Mörtu Sigurðardóttur frá Flekkuvík.
Sigríður, kona Benedikts, var sem áður segir frá Vigdísarvöllum. Þar var selstaða frá fornu fari, en um 1830 var þar reist nýbýli og var það í byggð fram yfir aldamót. Þar var einnig hjáleiga er Bali hét. Um 1870 flutti Guðmundur Hannesson bóndi í Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, að Vigdísarvöllum með konu sinni Helgu Einarsdóttur. Þau voru þá nýgift og hún með 6 börn í ómegð frá fyrra hjónabandi. Eftir ár fluttu þau frá Vigdísarvöllum og að Ísólfsskála. Einar Árnason, sonur Helgu, kallaður Einar póstur, var vel þekktur í Grindavík og víðar um Suðurnes, fyrir dugnað þrátt fyrir að hann var ekki vaxinn eins og fólk er flest, og nokkuð sérkennilegur í háttum.
Að Vigdísarvöllum kom Sigríður Brynjólfsdóttir frá Árbæ í Landssveit, þá 14 ára, til föður síns, er þá bjó þar með þriðju konu sinni, og hafði hann átt dreng og stúlku með hverri. Hversu lengi hann bjó þar er mér ekki kunnugt. Síðasti ábúandi á Vigdísarvöllum mun hafa verið Ívar nokkur. Ég þekkti tvo syni hans, Bjarna, er réri margar vertíðir frá Vogum og víðar og hinn var Oddur, sem var lengi póstmeistari í Hafnarfirði og vel þekktur þar.

Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1978, Einar póstur… – Guðsteinn Einarsson, bls. 16-18.
-Faxi, 2. tbl. 01.03.1978, Við köllum þetta hér í Keflavík hús…-Guðsteinn Einarsson, bls. 16-17.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 40-41.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppu, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 248.
Faxi 1978

Vatnshólavarða

Gengið var eftir Melabergsleið (Hvalsnesleið), upp að Vatnshólavörðu og síðan var leiðinni fylgt áfram um Miðnesheiðina að hringtorginu austan við Leifsstöð.

Melaberg

Melaberg.

Vatnshólavarðan sést vel frá Melabergsvötum. Þegar komið var framhjá þeim blasti Leifsstöðin við – inngöngudyr ferðamanna til Íslands. Á leiðinni var tækifærið notað og vöngum velt yfir stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega hér á landi. Fjöldi þeirra er nú um 360.000 á ársgrundvelli og hefur verið að fjölga um 12-14% að jafnaði á milli ára. Ekki er því langt að bíða þangað til fjöldi þeirra verður kominn í milljónamarkið. Áður en það verður þurfa hagsmunaðilar ferðaþjónustunnar þó væntanlega að vera búnir að ákveða hvernig þeir vilja stýra ferðamennskunni og ferðum gestanna hér um land með hliðsjón að undirbúningi á einstökum svæðum.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkuflugvöllur.

Í ljósi breytinga í atvinnumálum og nær ótæmandi möguleikum á Suðurnesjum er ljóst að mikilvægt er að stuðla að eflingu atvinnulífsins t.d. með verulega aukinni þjónustu. Það er m.a. hægt að gera með því að nýta þá ótrúlegu kosti sem svæðið býður upp á. Aðstaðan er einnig mjög góð til fiskeldis, og svo er nauðsynlegt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er, þ.á.m. sjávarútvegi og iðnaði. Til að mæta samdrætti í starfsemi á Keflavíkurflugvelli þarf að skapa ný störf í öðrum greinum, einkum iðnaði og þjónustu, ekki síst ferðaþjónustugreinum.

Melabergsleið

Melabergsleið – vörður.

Eitt af forgangsverkefnunum er að að skapa Suðurnesjum jákvæða ímynd í hugum fólks og nýta vel þá kosti sem svæðið hefur upp á bjóða, s.s. alþjóðaflugvöllinn og nágrenni hans, orkulindir til iðnaðarframleiðslu, ágæta hafnaraðstöðu og hina einstöku sagnfræðilegu, náttúru- og jarðfræðilegu möguleika til að stórefla ferðaþjónustu, helsta vaxtarbroddinn í íslensku atvinnulífi.
Hingað til hefur mikið verið fjallað um vilja til aðgerða. Sumu hefur og verið komið í framkvæmd. Í skýrslum, sem gerðar hafa verið og gefnar út á undanförnum árum um þetta efni, má t.d. lesa um;
a) hugleiðingar Samgönguráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem fjallað er um framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu og m.a. fjallað um ímynd Íslands, umhverfismál, gæða- og öryggismál, menntamál, samgöngumál, byggðamál, skipulag ferðamála, rekstrarumhverfi og markaðsmál. Þá segir að meginþættir ferðaþjónustu séu fjórir: ferðafólkið, fyrirtæki og stofnanir, opinber þjónusta og áfangastaðurinn. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunnar er lögð til grundvallar framtíðarsýninni.

Brimketill

Brimketill.

b) efni Ferðamálaráðs Íslands 2002 um Auðlindina Ísland með hliðsjón af ferðaþjónustusvæðum þar sem markaðssvæðin eru skilgreind, sérstaða þeirra dregin fram, teknar saman fyrirliggjandi upplýsingar, seglar skilgreindir og tillögur gerðar.
c) framsetningu Samgönguráðuneytisins um íslenska strandmenningu árið 2004 þar sem er fjallað um gæðaferðaþjónustu, markaðsrannsóknir og frumkvöðlastarf.
d) fróðleik frá samgönguráðuneytsiins um menningartengda ferðaþjónustu 2002 þar sem er fjallað um íslenska menningu og ferðaþjónustu sem og nútímamenningu Íslendinga og nauðsyn stefnumörkunar.
e) tillögur samgönguráðuneytisins um stefnumörkun íslenskrar ferðaþjónustu 1996 þar sem er kannað með áhuga og möguleika hinna einstöku þjóða að nýta sér Ísland sem ferðamannaland.
f) og einnig má sjá rit frá ferðamálaráðstefnu Reykjavíkurborgar 2004 þar sem ræddir voru styrkleikar og veikleikar Reykjavíkur skilgreindir og gerðar tillögur um markaðassetningu borgarinnar til ferðamanna.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

En svo virðist sem eitt nærtækasta, en jafnframt eitt áhugaverðasta ferðamannasvæðið (a.m.k. fyrir Íslendinga), hafi orðið mikið til útundan, þ.e. Suðurnesin og Reykjanesskaginn allur. Yfirleitt er getið um að þar sé „útsýni mikið og fagurt“, þar megi finna „áhugaverða staði“ og eru þrír slíkir jafnan nefndir til sögunnar, þ.e. Svartsengi, Bláa lónið og Reykjanesviti. Jafnframt að á svæðinu sé fuglalíf og strandir.
Í raun býður svæðið upp á allflest það sem aðrir landshlutar hafa upp á að bjóða, hvort sem lýtur að jarðfræði, náttúru, menningu eða sögu. Dvalartími útlendinga er að styttast og margir koma hingað í öðrum tilgangi en áður, þ.e. til ráðstefnu eða fundarhalda eða í viðskiptaerindum. Þetta fólk þarf oft að bíða hálfan eða heilan dag eftir flugi. Hvaða svæði er þá nærtækara til að nota því til handa en Suðurnesin? Þar er hægt að fara í stuttar ferðir, hvort sem er akandi eða gangandi, skoða fallega hraunhella, þjóðsagnakennda staði, ómótstæðilega náttúru, fuglabjörg, minjar frá upphafi búsetu, nútímahraun, gamlar leiðir markaðar í bergið, eldgíga, atvinnu- og byggðasöguna, verstöðvar, sjóslys, drauga- og huldufólksstaði og svona mætti lengi telja – eða einfaldlega njóta útiveru í fallegu umhverfi. Þá eru afþreyingarmöguleikar sennilega hvergi meiri en á þessu svæði.
En þetta er s.s. allt vitað – og meira til – og eflaust munu hlutaðeigandi aðilar ætla að nýta sér þetta allt til handa framtíðargestunum að utan sem og landsmönnum öllum.
Umhverfið rann saman við vangavelturnar og ferðahugleiðingarnar á leiðinni, en veðrið var frábært.
Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Reykjanes

Á Reykjanesi.

Keflavík

Í Faxa 1991 er birt ritgerð Skúla Magnússonar um „Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð„:

Skúli MagnússonHér á eftir mun verða brugðið nokkru Ijósi á híbýli Suðurnesjamanna á 18. og 19. öld, eftir því sem aðgengilegar heimildir leyfa. Reynt hefiir verið að leita í gögn samtímamanna og sjónarvotta, stuðst við lýsingar þeirra. Heimildirnar mega því yfirleitt teljast trúverðugar. Að visu rituðu þrír sögumenn frásagnir sínar á gamals aldri en ekki er þó ástœða til að rengja þœr að svo komnu. Þessir menn voru: Finnur Jónsson frá Kjörseyri (1842-1924), Kristleifur Þorsteinsson frá Stóra-Kroppi (1861-1952) og Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (f. 1869, á lífi 1941).
Sjálfri ritgerðinni er skipt í tvo megin þœtti. Sá fyrri fjallar nokkuð um torfbæi og þurrabúðir á 18. öld. Síðari hlutinn segir einkumfrá upphafi timburhúsa og lítillega er minnst á steinhús á 19. öld. Kirkjum er sleppt. Eingöngu verður fjallað um híbýli til íbúðar.

Bæir og þurrabúðir á 18. öld – lýsingar húsa 1740
Jarðeignir á Suðurnesjum eyddust mjög er aldir liðu. Olli því geysilegt landbrot og foksandur sem bitnaði jafnt á býlum ríkra sem fátækra. Þess ber þó að geta að á sama tíma, frá 1300-1600, hækkuðu jarðirnar í verði vegna þess að gildi fiskveiða óx í hlutfalli við landbúnaðinn. Ríkismenn sóttust því eftir að koma ár sinni fyrir borð þar syðra.
Í byrjun 18. aldar átti konungur flestar jarðir frá Kirkjuvogi að Garðskaga og þaðan inn Vatnsleysuströnd allt að Sundum við Kollafjörð.
Þar sem jarðir þessar urðu mjög illa úti vegna eyðingar kvaddi amtmaður til 4 bændur á Miðnesi til að skoða þar 5 jarðir. Það var 1735. En ítarlegust var skoðunin 1740. Þá skoðuðu 6 menn 25 jarðir frá Stafnesi að Skaga og þaðan inn í Keflavík.
Gallinn á þessum úttektum er þó sá, að hjáleigum var að mestu sleppt, en stærri jarðir og höfuðból komust á blöð skoðunarmanna.

Bær

Innan við bæjardyr.

Alls staðar byrjuðu skoðunarmenn lýsingar sínar í bæjardyrum. Á flestum bæjum var skálinn þar fyrir innan, þá búr og eldhús, en baðstofan aftasta húsið að baki hinum. Þessi húsaskipan var á öllum bæjum sem skoðaðir voru, nema á Meiðastöðum í Garði. Þar var enginn skáli. Þar hafði um vorið 1740 verið reist nýtísku baðstofa sem var næst bæjardyrum. Á Stafnesi virðist baðstofan hafa verið á svipuðum stað.
Á þessum tíma var venja að gefa upp lengdir húsa í stafgólfum, þ.e. lengd á milli sperra eða bita, sem jafnvel gat verið ein rúmlengd í baðstofu. Svo einfalt var þetta byggingarlag í raun. Þetta bil var mælt í álnum og var hvert stafgólf 2-3 álnir, oftast 3 eða örlítið minna.

Bær

Þiljuð baðstofa.

Á mörgum bæjum voru bæjardyr ekki nema eitt stafgólf að lengd, en tvö til þrjú á sumum og fjögur á stærsta bænum. Skálar voru 3 eða 4 stafgólfa (8-10 álna langir) nema á Másbúðum á Miðnesi. Þar var skálinn 9 stafgólf og var trúlega ætlaður sjómönnum. Skálinn á Kirkjubóli virðist hafa verið að baki tveimur stofum er næstar voru taldar bæjardyrum. Á stöku bæ var og ein stofa. En bærinn á Kirkjubóli var þó bæði stærri og frágangur og efniviður í húsum þar mun betri en á öllum hinum bæjunum. Þar voru t.d. báðar stofur þiljaðar innan, 3 stafgólf hvor og með gluggum, sem voru á mjög fáum bæjum. Í fremri stofu var gluggi á hlið með karmi, en tveir á innri stofunni. Þar var líka háborð með sæti og pílárum. Enn fremur bekkir eins og hjá heldri mönnum. Á Kirkjubóli bjó þá Kort Jónsson lögréttumaður.
En skjótt bregður sól sumri. Árið 1837 var bærinn á Kirkjubóli færður af heimajörðinni á eina hjáleiguna. Svo mikið var landbrotið að þessi höfuðjörð Suðurnesja var að engu orðin.

Reykjavík 1835

Bær 1835.

Árið 1740 voru stofur og baðstofur yfirleitt óþiljaðar að innan að nokkru eða öllu leyti. Raftar en ekki súð var á þekjum. Þó var á nokkrum bæjum svokallað milliþil og á fáeinum bæjum alþiljaður endi í baðstofu.
Að Kirkjubóli frátöldu voru best húsakynni á Stóra-Hólmi í Leiru og á Bæjarskerjum á Miðnesi. Á síðari bænum var þiljuð stofa með glugga og tvær baðstofur.

Eggert og Bjarni lýsa þurrabúð

Torfbær

Torfbær frá 18. öld.

Árið 1755 ferðuðust Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson um Gullbringu-sýslu. Samkvæmt frásögn þeirra voru húsakynni við sjávarsíðuna yfirleitt „lélegri en í meðallagi“, en „lang lélegust og sóðalegust“ voru húsakynnin í verstöðvunum sunnan- og suð-vestanlands, þ.á m. á Suðurnesjum.
Meðal annars kvarta þeir Eggert og Bjarni undan ólykt sem hafi verið í þessum húsum, „einkum á vertíðinni…“. Eiga þeir félagar greinilega við fiskilykt sem gjarnan fylgir sjósókn og fískvinnslu. Hér, og að ofan, birtast m.a. hleypidómar og andúð þeira Eggerts og Bjarna gagnvart sjávarbændum. Viðhorf sem voru aldagömul og komu víða fram í hinu forna bændasamfélagi.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Í verstöðvunum voru víða verbúðir þar sem menn bjuggu á vetrarvertíðum, en á öðrum árstímum stóðu búðirnar auðar. Verbúðirnar voru oft í eign stórbænda er bjuggu á höfuðbóli þaðan sem útræði var stundað. Ennfremur fylgdu heimajörðunum oft kot eða hjáleigur. Ef hjáleigurnar höfðu ekki grasnyt voru þær kallaðar þurrabúðir. Þær voru víða á Suðurnesjum. Íbúar þeirra lifðu af afla er fékkst úr sjó. Ennfremur mikið á innfluttum vörum sem þeir fengu í skiptum fyrir fisk. Einnig á landbúnaðarafurðum er guldust með fiskmeti.
Þeir Eggert og Bjarni geta þess að þurrabúðir á Snæfellsnesi og á Suðumesjum hafi stundum verið 5 húsa. Göng í miðju en íveruhús út frá þeim til beggja handa. Næst dyrum voru skálar karlmanna og sjómanna, þá búr og eldhús. Innst og aftast var baðstofan. Hér er trúlega átt við þurrabúðir efnabetri manna en stærð búðanna fór að sögn eftir fátækt íbúanna.

Lýsing Skúla fógeta á betri býlum

Bær

Bæjargöng.

Á betri býlum í Gullbringusýslu voru bæjarhús oft 5 að tölu að sögn Skúla Magnússonar landfógeta. Göng voru í miðju á þeim bæjum, líkt og í þurrabúðum, en til beggja handa voru stofa og skáli, búr og eldhús, aftast var baðstofa.
Stundum var gler í gluggum en oftast líknarbelgir. Gler tíðkaðist einungis hjá mjög efnuðum bændum. Baðstofan var aftasta húsið svo þar héldist hiti, en göngin löng. Ofnar voru óþekktir. Hér er verið að lýsa eins konar gangabæ, forvera burstabæja, eins og þeir tíðkuðust síðará 19. öld.

Bæir og timburhús á 19. öld

Bær

Í bæjargöngum.

Árið 1880 skrifaði hinn aldurhnigni sveitarhöfðingi, Sigurður B. Sívertsen, þegar hann rifjar upp hvernig hfbýli manna voru 1830 er hann kom sem ungur prestur til Suðurnesja: „Húsakynni voru hörmuleg og engin herbergi í þeim er inn í væri bjóðandi. Allt torfbæir með löngum göngum og mjóum, eins og nú aumustu kotum (þ.e. árið 1880.).  Óþrifnaður átti sér víða stað og var eigi hægt annað, eins og átti sér stað í moldarkofum þessum. Voru forir þá víða fyrir utan bæjardyr hvar hellt var í skólpi og mykju undan kúm, einnig slori úr fiski. Í bæjardyrum var flórlagt gólf með hellum sem lagðar voru yfir forarræsi, sem lágu út í forina. Skinnklæði og færi voru látin hanga í bæjardyrum. Aðeins á Stafnesi var hreinlegur bær. Ekkert sást þá timburhús hjá bændum.“.

Grindavík

Bær

Timburhús.

Í Grindavík virtust ekki komin timburhús á helstu jarðirnar 1840-41 nema á Hrauni. Þar hafði Jón Jónsson hreppstjóri og eigandi hálfrar jarðarinnar „uppbyggt í seinni tíð þrjú stjór og reisuleg timburhús“. Rekaviður var mest notaður til húsagerðar en einnig borðviður úr kaupstað.

Hafnir

Bær

Samstæður bær frá 19. öld.

Þar virðast ekki komin timburhús 1839 þegar sr. Sigurður B. Sívertsen ritaði lýsingu Útskálaprestakalls.
Á höfuðbólinu Kirkjuvogi var þríbýli: Austur-, Mið- og Vesturbær. Sá austasti var næstur kirkjunni. Þar höfðu búið ríkir landsetar. Þarna var „reisulegur og vel húsaður bær“, segir sr. Sigurður. Fyrrum bjó þar Guðni Sigurðsson, (1714-80) sýslumaður og settur landfógeti 1749.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Árið 1859 kom Finnur Jónsson, fræðimaður, í Hafnirnar í fyrsta sinn, þá 17 ára. Þóttu honum hús þar reisuleg og einhver þau bestu er hann þekkti í sveitum hér á landi.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson (1812-1869) bjó þá í „stóru og vönduðu tvílyftu timburhúsi, og annað minna timburhús var þar, sem var geymsluhús hans, enda var fjáður vel…“.“, en Vilhjálmur bjó í Austurbænum í Kirkjuvogi. Ekki verður sagt hvenær Vilhjálmur reisti þetta stóra timburhús, en hann hóf sjálfur búskap þarna 1841. Ekki er fjarri lagi að áætla að hann hafi reist húsið á árunum 1845-55.
Ketill Jónsson (1793-1869) flutti suður í Hafnir um 1829 og bjó lengst af í Kotvogi í „stórum torf- eða grjófbæ, en á hlaðinu var snoturt timburhús með málaðri stofu, voru í henni sum húsgögn dýrmæt..“.
Gunnar Halldórsson (1824-76) hreppstjóri hóf búskap í Kirkjuvogi 1848. Hann reisti „stórt tvíloftar timburhús…“ og bjó þar til dánardægurs. Í þessu húsi bjó Gunnar 1859.
Á Kalmanstjörn var þá hjá Stefáni Sveinssyni (d. 1864) „reisulegur torfbær og allstórt timburhús við, með stofu laglegri í öðrum enda þess“.

Rekatimbur til húsa

Valahnúkur

Valahnúkamöl.

Eins og víðar á Suðurnesjum nýttu bændur í Höfnum rekavið til húsa. Ráku t.d. oft stór tré á fjörur Kalmanstjarnar. Þótti sá reki „allarðsamur til húsabóta…“.
Um nýár 1836 gerði ofsaveður á Suðurnesjum. Rak þá á Valahnjúkamöl syðst við Reykjanestá, svo mikið timbur að fáheyrt þótti. Var talið að farmur þessi væri úr þrímöstruðu skipi sem fórst suður af Indinu. Ekki er þess getið í heimildum að viðurinn hafi verið almennt notaður til bygginga, en mjög trúlegt er það.

James Town strandar

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd – eitt húsanna byggt úr timbri Jamestowns.

Að morgni 26. júní 1881, rak á land norðanvert við Ósabotna, stórt skip. Var það amerískt og hér James Town. Skipsstrand þetta markaði þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum og því er þess getið hér. James Town var upphaflega þriggja mastra, og allt úr timbri. Lestar og þrjú þilför voru full af alls lags viði. Heimildum ber ekki saman um stærð skipsins. Ólafur Ketilsson frá Kalmanstjörn í Höfnum, segir að skipið hafi verið 360 feta langt en 65 fet á breidd. (Gullfoss yngri, sem kom 1951, var 355 fet stafna á milli, en 47 1/2 fet á breidd.) SigurðurB. Sívertsen segir aftur á móti að James Town hafi verið 256 fet, en 54 fet á breidd jafnvel nokkru breiðari.™ Talið var að í skipinu væru alls um 100.000 plankar af öllum stærðum og gerðum. Auk plankabúta og borðviðar.

Sandgerði

Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.

Björgun hófst strax og veður leyfði. Þann 10. ágúst var mikið selt á uppboði af timbri er á land var komið. En 9. september gerði SV-ofsaveður sem braut skipið og bar timbrið um allar fjörur. Mest af timbrinu kom í hlut Hafnamanna. Þeir reistu úr því a.m.k. 9 hús. En mikið timbur barst um allt Suð-Vesturland. Þorvaldi Thoroddsen fannst hús Hafnarmanna „mjög vönduð“, er hann var þar á ferð 1883.
Sama ár getur sr. Sigurður B. Sívertsen þess í annál sínum, að mörg hús væru í smíðum hjá bændum um haustið. „Þeirra mest í Sandgerði hjá Sveinbirni bónda.

Miðnes
Sandgerði
Árið 1859-60 bjó Ketill Ketilsson (1823-1902) á Hvalsnesi. Þar reisti hann „timburhús og stóra steintóft við sjóinn fyrir sjávarafla, sömuleiðis heim við bæinn stórt fjós úr steini“. Þá var á Stafnesi „reisulegur torfbær nokkuð forn, með timburhúsi“.
Óvíst er að þetta hafi verið fyrstu timburhúsin á Miðnesi, en ekki er það ólíklegt. Ketill reisti síðar steinkirkju á Hvalsnesi.
Eins og áður sagði reisti Sveinbjörn Þórðarson (1817-93) veglegt hús í Sandgerði 1883. Líklega af timbrinu úr James Town. Þarna fékk Sveinbjörn efnivið fyrir lítinn pening. en sjálfur var hann svo auðugur að aðeins Hafnamenn stóðu honum framar. Sandgerðishúsið stendur enn í dag.

Garðurinn

Útskálar

Útskálar 1920 – Jón Helgason.

Ekki getur Sigurður B. Sívertsen um timburhús á bæjum í Garði og Leiru í lýsingu Útskálaprestakalls 1839. Líklega hafa þau hvergi verið komin þá. Þó segir klerkur að að Útskálum sé „all snotur timburkirkja og vel húsaður bær“. En 1859 voru komin timburhús í Garðinum „á stöku stað…“.
Árið 1871 var reist í Gerðum skólahús fyrir almenn samskot. Og árið 1878 var húsið endurbyggt úr grjóti með kalklími. Líklega er skólahús þetta fyrsta steinhús á Suðurnesjum.
Athygli vakti 1873, þegar Einar Sigurðsson, bóndi í Vörum, reisti sér „mjög vandað timburhús með prýðilegum herbergjum, eins og best mátti verða…“. Þrátt fyrir hátt verð á timbri.

Meiðastaðir

Þorsteinn Gíslason 7. nóvember 1855 – 30. janúar 1931. Útvegsbóndi á Meiðastöðum, Gerðahr., Gull. Fósturmóðir: Kristín Magnúsdóttir, f. 23.3.1823, d. 19.6.1877.

Árni Þorvaldsson (1824-1901) á Meiðastöðum lengdi timburhús sitt 1874 og setti á það kvist „í gegn“. Um svipað leyti létu margir bændur í Garðinum endurnýja baðstofur. Þrifnaður fór þá vaxandi. Þeir Árni og Einar í Vörum voru meðal ríkustu bænda á Suðurnesjum. Hjá Árna voru t.d. 50 manns í heimili á vertíðum.™
Árið 1879 reisti Einar í Vörum „mikla og vandaða bekkbaðstofu úr tilhöggnu grjóti lukt í kalk…“.
Var talið að kostnaðurinn hefði numið nærri 2000 kr. Alls var talið að Einar hafi lagt a.m.k. 7000 kr. í byggingar í Vörum.

Keflavík
Keflavík
Keflavík hafði sérstöðu, þar var döns verslun og timburhús komin þegar á 18. öld. Tómthúsfólk þar bjó í litlum torfbæjum.
Árið 1839 voru í Keflavík fjögur verslunarhús „og hefur fjölgað þar timburhúsum á seinni árum. Þau eru nú 16″.
Árið 1859 voru auk þriggja verslana komin þar 5-6 lítil einlyft timburhús, en þorri fólks bjó í bæjum.
Árið 1871 byggði Skotfélagið í Keflavík samkomuhús er kostaði 900 dali. Svendsen byggði pakkhús. (Líklega svonefnt Miðpakkhús, sem nú er horfið.) Hans Duus byggði nýja sölubúð, er enn stendur endurbyggð eftir bruna. Húsið er sennilega fyrsta portbyggða húsið í Keflavík. Skammt frá reisti Duus tvílyft pakkhús 1877. Kostaði það a.m.k. 16.000 kr. Stendur það enn og er það fyrsta tvflyfta húsið í Keflavík, að höfundur þessarar ritgerðar telur.
Keflavík
Alls var talið að H.P. Duus hefði varið um 30.000 kr. fram til ársins 1880 til húsabóta á lóð sinni í Keflavík.
Sumarið 1881 lét Fischer kaupmaður reisa stórt tvflyft verslunarhús á lóð sinni. Talið eitt vandaðasta timburhús sunnanlands á þeim tíma. Kostaði það a.m.k. 20.000 rk. Stendur húsið enn í dag. Árið 1888 reisti Knudtzon kaupmaður nýtt einlyft verslunarhús á sinni lóð. Lét hann þá rífa gamalt verslunarhús, er líklega var reist snemma á 19. öld og því komið til ára sinna. Segir í Suðurnesjaannál að 1888 sé íbúðarhús Duus kaupmanns eina húsið í „fornum stíl“ sem eftir sé í Keflavík. Það er: Með háu risi og lágum veggjum. Um leið getur hann þess að nú séu öll hús í Keflavík „byggð í nýju formi eins og í Reykjavík“.
Keflavík
Ljóst er að mikið hefur verið byggt í Keflavík á 8. og 9. tug síðustu aldar. Þrjár aðalverslanir þorpsins endurnýjuðu húsakost sinn að mestu leyti.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn 1987.

Í sóknarlýsingu Njarðvíkur- og Kálfatjarnarsókna 1840 getur sr. Pétur Jónsson á Kálfatjörn þess að sléttun túna og hleðsla grjótgarða hafi smám saman aukist í sóknunum, svo og byggingar timburhúsa.
Mest notuðu bændur innflutt timbur til húsagerðar enda reki lítill á Ströndinni.
Munur ríkra og fátækra var mikill þar syðra á 19. öld. Kristleifur Þorsteinsson fullyrðir að allt fram á sjöunda tug 19. aldar hafi þar eingöngu verið búið í torfbæjum.
Brunnastaðaskóli
Finnur frá Kjörseyri segir að 1859-64 hafi timburhús í sveitum inn með Faxaflóa verið tiltölulega fá. Ágúst Guðmundsson staðhæfir að fyrsta timburhúsið hafi verið reist á Kálfatjörn, en getur ekki hvenær. Faðir Ágústs, Guðmundur Ívarsson, reisti á Neðri-Brunnastöðum, timburhús 1865 og annað jafnstórt“ 1869. Segir Ágúst að þessi hús hafi verið næst í röðinni á eftir húsinu á Kálfatjörn. Kristleifur segir að eftir 1865 hafi stöku bændur reist lítil og íburðarlaus timburhús.
Sumarið 1872 var reist skólahús úr timbri á Brunnastöðum. Lárus Pálsson, hómópati, reisti nýbýlið Hellur 1873. Varð það „loftbyggður bær úr grjóti og sementi…“.

Fyrsta húsið af því tagi á Ströndinni

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar.

Um 1880 reisti Ari Egilsson frá Minni-Vogum fyrsta steinhúsið á Vatnsleysuströnd til íbúðar. Stóð það á hraunklöpp rétt inn við Vogabæina. Hét húsið Grænaborg. Það brann 1882 og urðu af því hörmuleg eftirmál sem ekki verða rakin hér. Líklega var þetta fyrsta húsið úr steini sem búið var í á Suðurnesjum.

Lokaorð

Bær

Þiljaður gangnabær með baðstofustiga.

Á 18. öld voru algengir svokallaðir gangabæir, forverar burstabæja á 19. öld. Báðar þessar húsagerðir tíðkuðust á Suðurnesjum. Á
milli 1835-40 komu fyrstu timburhúsin ef frá eru talin timburhúsin í Keflavík sem komin voru þegar á 18. öld. Um 1860-70 birtust fyrstu steinbæirnir. Á árunum 1880-90 náðu húsbyggingar á Suðurnesjum hámarki, ekki síst eftir að James Town strandaði við Ósabotna 1881. Það skipsstrand markar þáttaskil í sögu húsagerðar á Suðurnesjum. Þaðan fékk almenningur ódýrt timbur. Um þetta leyti endurnýjuðu kaupmenn í Keflavík húsakost sinn að mestu leyti. Farið var að reisa tveggja hæða timburhús. Á sama tíma var reist fyrsta steinhúsið til íbúðar. Tvær veglegar steinkirkjur voru reistar. Hér höfðu einstakir efnamenn oftast forystu, einkum í Höfnum og Garði. Virðist sem metnaður hafi ríkt á milli þeirra um að byggja sem veglegast. – Samið á Nýja-Garði (okt. 1990).

Heimild:
-Faxi, 5. tbl. 01.09.1991, Híbýli á Suðurnesjum fyrr á tíð – Skúli Magnússon, bls. 142-146.

Bær

Ljár ofan við hlóðir í eldhúsi.

Keflavík

Gengið var frá höfninni í Keflavík neðan við Stekkjarhamar sunnan Vatnsness yfir að Grófinni, fæðingarbletti hins gamla bæjarhluta og rót byggðarinnar norðan Njarðvíkur.

Keflavíkurhöfn

Keflavíkurhöfn – 1959-1960.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana með tímanum að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Höfuðstaður svæðisins var þó eftir sem áður í Grindavík á sunnanverðu nesinu þar sem fólkið átti sér lengri undangenginn uppruna og betri samsvörun með landinu. Í Keflavík vann fólkið aðallega við sjósókn og fiskveiðar, líkt og í Grindavík þar sem fólkið þekkti auk þess menningu í raun, en faldi hana þó lengst af fyrir öðrum – undir steini. Menningin í Keflavík var af öðrum toga. Hún var lengi vel að mestu tengd versluninni og staupgjafmildi kaupmanna, en síðar barst hún niður í byggðalagið með öldum ljósvakans yfir girðingu umleikis Háaleiti.

Keflavík

Keflavík – Norðfjörðsverslunin.

Rekja má verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnarkaupmönnum. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Sjósókn var þar jafnan mikil, einkum eftir árið 1800 og þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur 1907 markaði það tímamót í þróun staðarins.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Vatnsnesviti

Vatnsnesviti.

Frá því að Keflavík varð kaupstaður hefur hann verið stærsti kaupstaðurinn á Reykjanesinu. Afkoma bæjarins byggist enn nokkuð á sjósókn og vinnslu sjávarafla en einnig á margvíslegri þjónustu ekki síst í tengslum við Keflavíkurflugvöll, en vægi fiskvinnslu og útgerðar er ekki mikið í atvinnulífi bæjarins í dag.
Keflvíkingar voru mjög framarlega í saltfiskvinnslu og í byrjun 9. áratugarins var Keflavíkurhöfn önnur mesta útflutningshöfn sjávarafurða landsins. En í kjölfar kvótakerfisins fór að síga á ógæfuhliðina í þessari undirstöðuatvinnugrein á svæðinu og hefur bátum fækkað og flest fiskvinnslu- og frystihús hætt störfum.
Sjósókn Suðurnesjamanna á sér langa sögu. Frá Keflavík, Garði, Leiru, Njarðvíkum og Ströndinni var lengst af gert út fremur litla báta, tveggja manna för, fer- og sexæringa, og sóttu þeir mest í Garð- eða Leirusjó. Verslunin H.P. Duus í Keflavík keypti fyrstu skútuna til staðarins árið 1898, en útgerð hennar, og fleiri skipa sem verslunin eignaðist, var að mestu flutt til Reykjavíkur. Vélbátaútgerðin varð fljótlega mun mikilvægari fyrir Keflavík, en fyrsti vélbáturinn, Júlíus, var keyptur til staðarins frá Borgundarhólmi árið 1908, og frá árinu 1910 stækkaði flotinn ört.
Fyrir 1920 komu fáar nýjunar fram í fiskverkuninni, og mestallur afli sem átti að selja var saltaður og sólþurrkaður. Útvegsbændur lögðu fiskinn inn hjá kaupmönnum á ýmsum verkunarstigum.

KeflavíkÍ Lesbók Morgunblaðsins, 23. ágúst 2003 er grein um “Hugsunarlaust örlæti hafsins”. Í henni segir m.a. að “Íslendingar hafa átt í aldalöngu, óttablöndnu ástarsambandi við sjóinn. Öldum saman hafði þjóðin framfæri sitt aðallega af jörðinni, hún var bændaþjóð, svo að sjósókn skipti ekki miklu máli fyrir afkomu landsmanna. Bændur reru sumir til fiskjar handa sjálfum sér, en bátar þeirra voru jafnan litlir og leyfðu þeim ekki að róa langt frá landi. Þegar fram liðu stundir, stækkuðu bátarnir og sjósókn efldist verulega og varð sums staðar að álitlegri aukabúgrein meðfram ströndum landsins. Þó urðu ekki umtalsverð brögð að bátaútgerð fyrr en um miðja 19. öld; orðið útvegsbóndi birtist ekki á prenti fyrr en þá. Um þær mundir var vistarbandið enn við lýði. Bændur gátu beitt vinnuhjú sín hörðu og gerðu það margir, enda áttu þau ekki í önnur hús að venda. Vinnumenn voru gerðir út til fiskjar á opnum bátum og beinlínis sendir út í opinn dauðann í stórum stíl. Mannfallið var gríðarlegt: staðtölur sýna, að tíunda hverju karlmannslífi lauk með drukknun talsvert fram eftir öldinni sem leið“.

Keflavíkurhöfn

Keflavíkurhöfn fyrrum.

Halldór Laxness skrifaði magnaða ritgerð um málið lýðveldisárið 1944 og nefndi hana ,,Hvert á að senda reikninginn?” Þar lýsir hann því, hversu ,,mannfólkinu er kastað í sjóinn gegndarlaust eins og ónýtu rusli. Þessi sóun mannslífa er talin nokkurs konar sjálfsagður skattur, sem þjóðin greiðir útgerðinni.” Hann heldur áfram: ,,Upp og ofan er heimsstyrjöld meinlaust grín hjá því að veiða fisk á Íslandi. Hvern er verið að afsaka og fyrir hverjum að hræsna með því að prýða þessa sóun mannslífa með heitinu ,,fórn” og öðrum hátíðlegum nöfnum? Væri ekki nær að spyrja: Hvar er morðinginn?”

KeflavíkSjósókn á vondum bátum hjó djúp skörð í þjóðlífið. Þess voru ófá dæmi, að feður færu í sjóinn með fullorðnum sonum sínum og skildu ekkjurnar eftir með lítil börn. Það kom fyrir, að sjávarpláss misstu flestar fyrirvinnur sínar í einni og sömu sjóferðinni. Eigi að síður héldu menn áfram að æða til sjós í óhæfum bátum.
Hvers vegna? Ætli skýringin sé ekki sú, að menn þekktu ekki annað. Þessum ósið – að halda til hafs á ófærum bátum – var í fyrstu þröngvað upp á ófrjálsa vinnumenn í krafti vistarbandsins. Mannfallið komst í vana. Og þegar vinnumenn voru loksins orðnir frjálsir að því að velja sér búsetu og verkveitendur á eigin spýtur og vélbátar höfðu leyst skúturnar af hólmi, þá var ósiðurinn búinn að taka sér bólfestu í vinnumenningunni og þjóðarsálinni, nokkurn veginn eins og drykkjuskapur, skuldasöfnun og slagsmál á okkar dögum.

Keflavík

Fiskvinnsla í Keflavík fyrrum.

Sjávarútvegur átti drjúgan þátt í umsköpun íslenzks samfélags á öldinni sem leið, enda þótt forsenda framsóknarinnar í efnahagslífinu væri aukin verkmenning og menntun og fiskivæðing landsbyggðarinnar hæfist ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 1970. Fram að þeim tíma var Reykjavík helzti útgerðarstaður landsins. Gjafir náttúrunnar geta þó reynzt vera blendin blessun. Ofveiði á tækniöld sýnir að örlæti getur snúist upp í andhverfu sína. Mikið mannfall við sjósókn á sinni tíð ýtti undir umburðarlyndi gagnvart þessum atvinnuvegi. Slíkt var hugsunarlaust örlæti hafsins.”
Gengið var framhjá Vatnsnesvita, en hann var byggður 1922 og mun vera 89 metra hár.

KeflavíkÞegar komið var að Stokkavör var rifjuð upp lýsing þess er Hallgrímur Pétursson steig þar á land 1637 ásamt nokkrum öðrum þeim, sem leystir höfðu verið úr haldi Tyrkjanna, þ.á.m. Guðríði Símonardóttur. Þar er og minnismerki um sjómenn þá, sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl árið 1930. Þegar komið var að Grófinni voru þátttakendur komnir með saltbragð í munninn og búnir að fá nokkuð góða tilfinningu fyrir aðstæðum sjómanna fyrr á öldum, þótt ekki hafi verið fjallað um verklagið eða fiskvinnsluna að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimildir m.a. :
-Lesbók Morgunblaðsins, 23. ágúst 2003.
-Saga Íslands á 20. öld eftir Helga Skúla Kjartansson.
-Saga Keflavíkur, Bjarni Guðmarsson.

Keflavík

Saga Keflavíkur.

Helguvík

Gengið var upp á Keflavíkurbjarg norðan við Grófina og síðan sem leið lá yfir og framhjá Helguvík, yfir á Hólmsberg og að Stakksnípu. Þar undir er kletturinn Stakkur í sjónum, en af honum dregur fjörðurinn nafn sitt. Þjóðsaga tengist klettinum. Þá var gengið áfram til norðurs eftir bjarginu þangað til komið var að Helguvík.

Keflavíkurberg

Vatnsskál á Keflavíkurbergi.

Fremst á berginu, eftir að skoðaðir höfðu verið drykkjarsteinn og handgerður brunnur, tóftir og Stekkjarlág, fyrrum samkomustaður Keflvíkinga, var komið að Brennunípu. Líklegt er að nafnið sé tilkomið líkt og önnur brenninefni, s.s. Brennuhóll og Brenna, en slíkir staðir eru venjulega gegnt gömlum innsiglingum við varir eða lendingar. Kveikt var í bálkesti á þessum hólum þegar farið var að rökkva eða myrkur var skollið á til að leiðbeina þeim, sem enn voru á sjó og voru að róa í land, réttu leiðina. Einnig stærri skipum, sem enn var von á af hafi, við sömu aðstæður.
Stakksfjörður, sem er hafssvæðið utan við bergið (bergin), er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi að vestan.

Stakkur

Hellunef er skammt norðar. Þar eru mörk hinnar gömlu Keflavíkur. Náðu mörkin til suðurs að Stekkjarhamri þar sem Ytri-Njarðvík tók við. Gengið var áfram til norðurs á bjarginu, að Helguvík. Hún er lítil hamravík þar sem nú er ætlunin að byggja upp blómlegt atvinnulíf í kringum stórskipahöfn, loðnubræðslu, loðnuflokkunarstöð, sementssölu, steypustöð og malbikunarstöð. Til stendur að fjölga enn stórum fyrirtækjum í Helguvík. Víkin var áður falleg hömrum girt náttúruvík, sniðin af eðlilegum ástæðum, en nú er hún dæmi um niðurbrotna hugmyndastefnu.

Hólmsbergsviti

Stakksnípuviti.

Norðan við Helguvíkina tekur Hólmsbergið við. Syðst á því er Stakknsípa. Undir henni er klettadrangurinn Stakkur. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af Stakki.
Í þjóðsögunni af Rauðhöfða, sem gerast á í fornöld, segir m.a. að löngum aðdraganda gegnum er gerist á Hvalsnesi og varðar afleiðingar hans í samskiptum við álfkonu í Geirfuglaskeri, að hann tók undir eins á rás og æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við.

Keflavíkurberg

Keflavíkurberg – Stekkjalág.

Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur. Eftirmálar af sögunni urðu síðan í Hvalfirði.
Önnur saga segir að þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Í enn annarri frásögn segir að er upp komast svik mannsins, er hér nefnist Helgi, segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags.
Gangan endaði að þessu sinni við við vitann á Hellisnípu. Þar undir að norðanverðu er Selvík. Hægt er að ganga niður í víkina og er hún hin fallegasta – í góðu verði.
Ofan Grófarinnar er Keflavíkurborg, gömul fjárborg við Sandgerðisveginn fyrrum.
Í rauninni er þetta svæði ein hin dýrmætasta útivistarperla Keflvíkinga, en of fáir þeirra virðast því miður gera sér grein fyrir því. Fjölmargt er að skoða á annars ekki lengri leið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=226
-Jón Árnason I 82.

Keflavíkurberg

Brunnur á Keflavíkurbergi.

Hafnir

Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna.

Keflavík

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok.
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús. Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ.

Keflavík

Gamli Keflavíkurbærinn.

Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn.
Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík.

Gamlabúð

„Bryggjuhúsið fékk nýtt hlutverk eftir að nýjir eig. tóku við Duus-eigninni 1920. Þurrkun saltfisks hófst þar (um 1930?) og þá var reikst ketilshús úr steypu sunnan við, hvítt að lit. Húsið var brotið nál. 1969 – 1970. Myndin tekin eftir lagningu Vesturbrautar nálagt 1941. Skífur úr steini á þaki gömlu búðar og bryggjuhúss. Skífur af bryggjuhúsi rafnar af og fleygt niður í fjöruna líkl.1968-1970 þegar ketilhúsið var rifið og þakið járnklætt í fyrsta sinn.“

Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.

Hröð aukning hefur verið í ferðaþjónustu og eru þar nú hótel í háum gæðaflokki og úrvals veitingastaðir sem og önnur gisting og tjaldsvæði. Keflavík hefur löngum verið nefndur bítlabærinn en þar má segja að sé vagga rokksins og bítlaæðisins hérlendis. Ein fyrsta, og vinsælasta, rokkhljómsveit landsins, Hljómar, var stofnuð í Keflavík og er ávallt kennd við staðinn. Hin árlega Ljósanótt í Reykjanesbæ nýtur sívaxandi vinsælda.
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.

Stjáni blái

Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989.
Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”

Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana. Við enda Hafnargötunnar er Grófin og jafnframt elsti hluti Keflavíkur. Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið. Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar.
Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús, sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.

Keflavík

Keflavík – listaverk.

Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð, sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fyrst reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þat hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls.

Keflavík

Upplýsingaskilti við gamla Keflavíkurbæinn.

Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.

Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Keflavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.
Fjölmörgu öðru má geta um Keflavík fyrrum, sem síðar verður lýst á vefnum.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu. Ofan við Grófina er Keflavíkurborgin og Rósasel við Rósaselsvötn.
Sorphirðustöð Reykjanesbæjar heitir Kalka eftir kalkaðri vörðu, sem stóð utan í stórum fallegum eldgíg efst á Háaleiti. Þegar Keflavíkurflugvöllur var lagður var gígurinn flattur út, líkt og svo margt annað á þeim tíma.

Njarðvík

Njarðvík

Frá Innri-Njarðvík.

Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Njarðvík

Minnismerki um Thorkelli í Innri-Njarðvík.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu. Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík.
Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík. Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag.
Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur. Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag. Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot verið endurbyggð.

Bolafótur

Bolafótur í Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.

Hallgrímur Pétursson, prestur í Hvalsnesi, bjó um tíma á Bolafæti þar sem nú er skipasmíðastöðin. Öllum minjum þar hefur verið spillt. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot er tilgátuhús, byggt eftir tilsögn konu, sem bjó þar í kringum 1920. En kotið er að stofninum til frá 19. Öld. Þetta er eitt af hinum fjölmörgu smákotum, sjávarbýlum, sem einkenndu byggðina hér áður fyrr. Kotbúar lifðu aðallega á sjósókn sinni, en flestir stunduðu einhvern búskap samhliða þótt eflaust hafi einnig verið svokallaðar þurrabúðir þar sem eingöngu var lifað af því sem sjórinn gaf.
Fitjarnar eru að ganga í gegnum umbreytingu þar sem stefnt er að gera þær aðlaðandi til útivistar og í framtíðinni mun Naust Íslendings rísa á þessum slóðum. En það er stefna bæjaryfirvalda að þessi staður verði fyrsti og síðasti viðkomustaður ferðamanna sem fara um leifsstöð.

Hafnir

Kotvogur

FERLIRsfélagar á ferð í Höfnum.

Hafnir byggðust upp í kringum mikið útræði. Hefur byggðin nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Sandhöfn og Kirkjuhöfn, sem nú eru í eyði. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.
Hafnir, Keflavík og Njarðvík runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi (sjá nánar). Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.

Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði.
Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Þar bjuggu m.a. 3 forríkir útvegsbændur mann fram af manni, þeir hétu allir Ketill og eru oftast nefndir Katlarnir þrír.

Kotvogur

Kotvogur og Kirkjuvogur.

Annað stórbýli var Kirkjuvogur í Höfnum þar sem búið hafa margir höfðingjar. Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Christinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja 1960.

Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

Hafnir

Kirkjuvogur 1873.

Sem dæmi um stærð Kotvogs á dögum Mið-Ketils á 19. öld má nefna að þá var bærinn alls 16 hús og mörg þeirra stór, 38 hurðir á lömum og 72 í heimili á vertíðinni. Bærinn í Kotvogi var enn reisulegur og stór um aldamótin 1899/1900. Hinn 3. apríl 1939 brann íbúðarhúsið og fórst þrennt í brunanum. Pakkhús úr timbri var austast og fjærst eldinum og skemmdist því ekki . Því var breytt í íbúðarhús og notað sem slíkt til 1984. Það stendur enn ásamt nokkrum útihúsum en allt er það illa farið og ekki svipur hjá sjón (stendur á kampinum strax vestan við Sæfiskasafnið). Stór grasi vaxinn hóll rétt hjá Kotvogi hægra megin götunnar þegar horft er í vestur nefnist Virkishóll.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – kort.

Gamli Hafnahreppur var stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum mælt í ferkílómetrum – víðáttumikil hraunúfin flatneskja og sandflæmi að stórum hluta. Nyrðri hluti landsins er nokkuð gróið hraun en syðri hlutinn eldbrunnið, uppblásið og hrikalegt svæði. Strandlengjan er einn stærsti skipalegstaður landsins, hrikalegir klettar, sker og boðar þar sem þung úthafsaldan myndar oft tilkomumikið og rosalegt brim.

Á sl. 25 árum hefur hraunið ofan við Hafnir tekið stakkaskiptum vegna aukins grasvaxtar sem er árangur landgræðslu sem stunduð hefur verið með flugvélum á Reykjanesskaganum auk þess sem sáð hefur verið í vegkanta af starfsmönnum Vegagerðar ríkisins. Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Mikið og fjölbreytt fuglalíf er í hrauninu, m.a. talsvert af rjúpu í góðum árum, talsvert af kjóa og einstaka smyrill. Nokkuð er um æðarfugl við Ósa en æðarvarp er ekki svipur hjá sjón eftir að minnkurinn kom á svæðið. Mikið er um sjófugl og mest byggð í Hafnabergi og Eldey.
Hafnir eru eitt af mestu veðravítum landsins og þar er sjaldan logn. Hvöss austanátt með rigningu getur staðið svo dögum og vikum skiptir, einkum á haustin og eirir engu sökum vindálags. Oft bresta stórviðri á fyrirvaralaust eins og hendi sé veifað. Mest og hættulegust veður nefna Hafnamenn ,,aftakastórveltu af suðvestri“ (í einni slíkri eyðulögðust tún að vestanverðu í Kirkjuvogshverfi og í Merkinesi). Hríðarbyljir og skafrenningur eru algengir að vetri – snjói á annað borð. Og þótt ekki séu nema 9 km frá Höfnum til Njarðvíkna er veðurfar gjörólíkt.
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja.

Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Það tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld.

Kotvogur

Kotvogur.

Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur. Það var talið fullvíst að lögbýlin hafi verið fleiri, enda mörg örnefni sem benda til þess að svo hafi verið. En með Reykjaneseldum á 13. öld eyddist byggðin sunnan Kalmannstjarnar.

Heimildir m.a.:
-www.nat.is
-www.leoemm.com
-Sigrún Ásta Jónsdóttir, Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Keflavík

Frá Keflavík fyrrum.

Herdísarvíkursel

Gengið var frá Herdísarvíkurvegi neðan við Sýslustein suður í Seljabót, með ströndinni til vesturs yfir í Keflavík og síðan upp (norður) Klofninga í Krýsuvíkurhrauni, upp á þjóðveginn og gamla þjóðleiðin síðan gengin til baka að Sýslusteini.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Girðing er á sýslumörkum Ánessýslu og Gullbringusýslu. Þjóðvegurinn liggur í gegnum girðinguna. Ofan við þjóðveginn er stór rúnaður kleprasteinn; Sýslusteinn. Um hann liggja sýslumörkin úr Seljabót og upp í Kóngsfell. Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu og landamerkjadeilur þeirra segir að “svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn”.
Gengið var niður hraunið með girðingunni. Að austanverðu heitir hraunið Herdísarvíkurhraun, en Krýsuvíkurhraun að vestanverðu. Í raun eru ekki skörp skil á hraununum, auk þess sem um mörg hraun er að ræða, hvert á og utan í öðru.
Eftir u.þ.b. 20 mín gang er komið niður fyrir neðsta hraunkantinn. Á vinstri hönd, undir honum, eru tóftir Herdísarvíkursels.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir að “allar gamlar menningarminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarðar verbúðir, tættur af íveruhúsum, peningshúsum og öðrum útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót voru friðlýstar af Þór Magnússyni 7.9.1976.” Skammt frá hraunkantinum eru fleiri tóftir, s.s. stekkur og hús. Vatnsstæðið er skammt vestar.
Sjávarmegin við selið er eldra hraun, slétt og greiðfært. Í því eru nokkrir skútar og merkt greni. Seljabótin er í grónum krika undir nýrra hrauni og Seljabótanef þar framan við að vestanverðu. Í gömlum sögnum segir að Krýsuvíkurhellir hafi verið við Seljabót.

Seljabót

Seljabót undir Seljabótarnefi – gerði.

Landamerkin eru um Seljabótanefið. Þar er merkjastaur. Eini hellirinn á svæðinu er lágur skúti vel austan markanna, í Herdísarvíkurlandi. Ofan við hann er manngerður gróinn hraunhóll. Hafi hellirinn verið í berginu er hann löngu horfinn, enda sér sjórinn um að brjóta það markvisst niður. Líklegra er að þarna hafi einhver villst á Seljabót og Bergsendum í Krýsuvíkurlandi. Við þá er hellir með mannvistarleifum. Hann nær bæði inn í gamla bergið og er ofan við það.

Seljabót

Gerði í Seljabót.

Gerði eða rétt er í Seljabótinni. Orðið “bót” virðist vera til allvíða um land, en í mismunandi merkingum eftir því hvar er. Það getur bæði þýtt ‘hvilft, dalbotn’ og ‘vík, smávogur’, skylt orðinu bugt, sbr. Þórkötlustaðabót. Stundum er það notað um fiskimið, en sennilega er orðið hér notað um hvilftina þar sem gerðið er.
Af fiðrinu að dæma virðist refurinn una hag sínum vel þarna. Af Seljabótanefi er fagurt útsýni austur með Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í Keflavík.

Gengið var til vesturs ofan við bjargið, áleiðis að Keflavík. Umhverfið er stórbrotið. Skammt austan við Keflavík er stór “svelgur” og gatklettur. Hvorutveggja eru ágætt dæmi um hvernig sjórinn hefur náð að brjóta sig í inn undir bergið og upp úr því, en skilið eftir stöpul líkt og eyju utan við það. Síðan mun hann smám saman leika sér að því að brjóta hana niður líkt og aðra hluta bergsins.
Gatklettur er austan við Keflavík. Niður í víkina er stígur, en þangað hefur rekaviður án efa verið sóttur fyrrum. Nóg er af keflunum í víkinni. Í henni er og gott skjól. Utan við hana er lágbarið stórgrýti, gott dæmi um bergmola sem sjórinn hefur “tuggið” og hnoðað smám saman og í langan tíma, en síðan kastað á land. Hluti af mun eldra bergi er þarna í og við víkina. Geldingar heita glæðuklæddir steinar vestan og ofan við Keflavík. Þeir standa á þessu gamla bergi, sem nýrra hraun, er nú myndar bergvegginn, hefur runnið að og útvíkkað landið.

Gvendarhellir

Gvendarhellir/Arngrímshellir – tóft.

Gengið var upp Klofninga í Krýsuvíkurhrauni með viðkomu í Arngrímshelli (Gvendarhelli) á leiðinni upp á þjóðveginn og til baka eftir gömlu þjóðleiðinni milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur. Hún liggur að mestu skammt ofan núverandi vegar.
Í þjóðsögunni um Herdísi og Krýsu segir að “Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Ásgeir Bl. Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989.

Herdísarvíkurbjarg

Gatklettur í Herdísarvíkurbjargi.

Keflavík

Í áfangaskýrslu fyrir Reykjanesbæ um byggða- og húsakönnun gamla hverfisins í Keflavík frá árinu 2012 má lesa eftirfarandi um sögu þess og byggðaþróun:

Sögubrot
Keflavík
„Keflavíkur er fyrst getið í rituðum heimildum um 1270 og þá í sambandi við reka og skipti á hval á Romshvalanesi. Þá er staðarins getið um 1420 þegar enskir fiskimenn fóru að venja komur sínar á Suðurnesin og sóttu þaðan á fiskimið.
Um 1450 voru Þjóðverjar komnir á þessar slóðir og hófu verslun. Skömmu eftir 1600 tóku Danir við og einokunarverslunin hófst formlega árið 1602.
Upphaflega mun jörðin Keflavík hafa verið í eigu Skálholtsstóls, en verður eign konungs við siðaskiptin. Keflavíkurjarðarinnar er fyrst getið í jarðamatsbókum árið 1597. Þá er hún konungsjörð og gjöld af henni greidd til Bessastaða. Hún tilheyrði Rosmhvalaneshreppi til ársins 1908 þegar Keflavík og Njarðvíkurhreppur hinn eldri voru sameinaðir í Keflavíkurhrepp. Búskapur lagðist niður á jörðinni árið 1780.

Keflavík

Duushús og tóftir gamla Keflavíkurbæjarins neðst.

Með einokunarverslun Dana var mælt fyrir að siglt skyldi á tuttugu hafnir á landinu og var Keflavík ein þeirra. Verslun komst þá í hendur kaupmanna frá Kaupmannahöfn.
Efling fiskveiða varð að frumkvæði danskra kaupmanna og ráðamanna. Sem dæmi um hve Keflavík hefur verið eftirsóttur verslunarstaður er að árið 1624 er aðeins einn verslunarstaður með meiri ágóða, þ.e. Ísafjörður.
Fyrsti búfasti kaupmaðurinn í verslunarþorpinu Keflavík var Jacobæus sem þangað fluttist samkvæmt ákvörðun Almenna verslunarfélagsins árið 1787, í lok einokunarverslunarinnar, en Danir héldu uppi verslun í Keflavík allt fram til ársins 1919.
Keflavík
Segja má að Jacobæus hafi lagt grunn að framtíðarbyggð, en þrjú hús voru í Keflavík og komin forsenda varanlegs þéttbýlis.
Um 1800 kom breskur ferðamaður, Henry Holland, til Keflavíkur og segir þar vera 15-20 timburhús og nokkra torfbæi.
Á fyrstu áratugum 19. aldar byggðist upp þorp í Keflavík. Verslunarþorpið dró að sér handverksmenn og ýmsa þjónustu auk þess fólks sem stundaði sjómennsku og fiskverkun.

Keflavík

Keflavík 1890.

Jacobæus lét reisa sjóvarnargarð og uppskipunarbryggju. Þá lét hann stækka tún og gera matjurtargarða og girti af með grjóthleðslum.
Í tengslum við verslunina voru reist verslunar- og pakkhús og og á síðasta áratugi 19. aldar voru þar þrjár verslanir sem sjá má merki um í dag, þ.e. Knudzon, Duus og Fischers verslanir.
Útræði var ekki mikið í Keflavík fyrr en eftir 1800, þegar verslun hafði verið gefin frjáls. Fram að þeim tíma var róið út frá verstöðvum í kring, í Höfnum, Njarðvíkum, Miðnesi og Görðum. Í kjölfar aukinnar útgerðar fjölgaði íbúum ört og fór úr 35 manns um 1800 í 130 manns um 1830. Áramótin 1900 voru íbúar um 300 talsins. Um helmingur íbúa kom úr öðrum sýslum og nærsveitum.Keflavík
Skaftáreldar sköpuðu slíka neyð að fólk flúði heimahaga sína og flutti fjöldi fólks af Suðurlandi til Suðurnesja. Til Keflavíkur fluttist margt fólk utan að landi sem taldi hag sínum og fjölskyldu sinnar betur borgið í Keflavík þar sem uppgangur var, m.a. vegna útgerðar. Þá komu menn til útræðis annars staðar að s.s. frá Mýrum og Borgarfirði.
Keflavík
Mikil fátækt var í Keflavík á 19. öld. Íbúar voru annarsvegar fátækir daglaunamenn og hinsvegar verslunarstjórar og kaupmenn. Framan af bjó alþýðan í torfhúsum eða tómthúsum. Tómthúsmannabyggðirnar voru einkum sunnan og vestan Duushúsa. Ekki eru til neinar minjar um þá byggð nú, en elsta byggð Keflavíkur stendur á því svæði. Árið 1800 eru talin 30 kot í Keflavík, mest torfbæir með timburgafli og 6 hús eingöngu úr timbri Hans Duus keypti Keflavíkurverslun um 1850. Duus verslun starfaði fram til ársins 1919. Þá var verslunin búin að kaupa upp aðrar verslanir ásamt lóðum og lendum og átti því mest allt land undir húsum Keflvíkinga. Árið 1920 lýkur að fullu danskri verslun í Keflavík. Kaupfélag Suðurnesja var stofnað árið 1928.

Keflavík

Vegna hafnleysis var útgerð þilskipa ekki vænleg og sjósókn eingöngu á opnum árabátum fram til 1907, þegar fyrsti vélbáturinn var keyptur til Keflavíkur. Hafnaraðstaðan var þó slæm og lágu bátarnir við bauju á Keflavík milli róðra.
Árið 1905 var kauptúnum sem töldu fleiri en 300 íbúa heimilað að verða sérstakt sveitarfélag og árið 1908 varð Keflavíkurhreppur til. Stærsti útgjaldaliður hins nýja sveitarfélags var fátækraframfærsla. Verkefnin voru ærin svo sem atvinnumál, brunavarnir, hafnargerð og umbætur í vatnsbólum svo eitthvað sé nefnt. Vegna aðstæðna í Keflavík var erfitt með vatnsöflun. Framan af var einungis einn brunnur í þorpinu sem staðsettur er inni í Bryggjuhúsi Duusverslunarinnar.

Keflavík

Keflavík – brunnurinn við Brunnstíg.

Árið 1907 lét Duusverslun grafa brunn við Brunnstíg og dregur gatan nafn sitt af honum.
Um 1930 voru byggðar steinbryggjur á Vatnsnesi og í Grófinni. Í kjölfar þessara hafnarbóta fjölgaði vélbátum. Á fjórða tug 20. aldar var fyrsta hraðfrystihúsið reist og fjölgaði þeim hratt og voru orðin fimm þegar mest varð. Hafskipabryggja var byggð í Keflavík árið 1932 og hófst þar með bygging núverandi hafnar.
Árið 1949 fékk Keflavík kaupstaðarréttindi. Gífurlegur vöxtur hljóp í byggðina á árunum eftir 1950 vegna uppbyggingar Keflavíkurflugvallar og veru varnarliðsins þar.

Þróun byggðar

Keflavík

Keflavík – húskönnunarsvæðið 2012.

Keflavík byggðist upp meðfram strandlengjunni eins og flest sjávarþorp á Íslandi. Hús verslananna stóðu meðfram götu sem síðar var nefnd Hafnargata. Þar fyrir ofan reis hin eiginlega íbúðarbyggð.
Um aldamótin 1900 var byggð tekin að myndast sem tengd var saman með gatnakerfi. Byggðin afmarkaðist af Vesturgötu í norðri, Kirkjuvegi til vesturs, Tjarnargötu til suðurs og strandlengjunni til austurs. Skólinn stóð við Íshússtíg, miðsvæðis í byggðinni á milli verslananna.
KeflavíkKauptúnið skiptist í tvö hverfi sem kölluð voru austurplássið og vesturplássið. Mikið tún, Norðfjörðstún, kennt við Ólaf Norðfjörð, faktor, klauf byggðina í tvennt. Eftir aldamótin 1900 fór byggðin að færast lengra suður og upp á melinn til vesturs. Edinborgarverslun ásamt bryggju reis við Hafnargötu og vegurinn í byggðina frá Reykjavík var að öllum líkindum úr suðri.
Að undirlagi Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og eiganda Keflavíkurjarðarinnar gerði prófessor Guðmundur Hannesson læknir skipulagsuppdrátt að Keflavík árið 1920. Var uppdrátturinn fyrsti vísir að skipulagi fyrir Keflavík. Þar voru teiknaðar götur yfir Norðfjörðstún þar sem nú eru Túngata, Norðfjörðsgata og Vallargata. Árið 1935 var Norðfjörðstúnið nánast fullbyggt.
Árið 1929 var fyrst kosið í sérstaka byggingarnefnd hreppsins. Engin byggingarsamþykkt var þá til í Keflavík en nefndinni var falið að kveða á um hvar og hvernig byggingum skyldi háttað. Árið 1930 fól hreppsnefnd byggingarnefnd að gera skipulagsuppdrátt að Keflavík.
KeflavíkJón J. Víðis mældi og dró upp Keflavík 1932 fyrir Skipulagsnefnd (Íslands). Um sama leiti var hafist handa við að semja byggingarsamþykkt fyrir Keflavík og tók hún gildi 27. júlí 1932. Þar kom fram að gerður yrði skipulagsuppdráttur samkvæmt skipulagslögum og færi skipulag kauptúnsins að því búnu eftir honum og ákvæðum skipulagslaga. Allar byggingar í kauptúninu skyldu vera samkvæmt uppdrættinum á því svæði sem hann næði yfir en annarstaðar skyldi byggingarnefnd ráða legu gatna og húsa. Sérstakt leyfi byggingarnefndar þurfti til að gera íbúðir í kjöllurum. Kröfur voru settar um að allar íbúðir nytu birtu og að hverri íbúð skyldi fylgja nokkur lóð.
Þegar Guðmundur Hannesson vann að skipulagi Keflavíkur 1932 skrifaði hann greinar í Morgunblaðið þar sem hann dró upp eftirfarandi mynd af bænum: „Keflavík er allstór og myndarlegur bær og hefur vaxið mikið á undanfarandi árum. [….] Ég hafði séð bæinn fljótlega fyrir nokkrum árum. Virtist mér hann þá skipulagslítill og bjóst því við, að ekki yrði hlaupið að því að gera þar skipulag. En þegar ég fékk nú tækifæri til þess að athuga hann nánar, þá reyndist mér hann hálfu betri en ég hafði búist við.
KeflavíkBæjarstæðið er tiltölulega flatlent og götur hafa verið lagðar út og suður og austur og vestur. Flestar göturnar eru 15m breiðar, ef mælt er milli húshliða, og er það meira en víðast í Reykjavík. Byggingareitir hafa ríflega breidd. Þeir hafa ekki verið skyni skroppnir mennirnir sem sáu um allt þetta, jafnvel séð lengra en Reykvíkingar þó sums staðar hafi þeim mistekist. Það varð þá fyrir, eins og vant er, að hyggja að bryggjunum og þörfum útvegsins.
Aðstaðan við sjóinn er erfið, höfnin ekki annað en opin vík, og lítil von um að þar verði fyrst um sinn gerð góð höfn. Við land er fremur útgrunnt í sjálfri víkinni, hraun undir og skerjótt við ströndina. Það búa margir við betra en bjargast þó miður en Keflvíkingar.
Aðalbryggjan er utan til í víkinni og er þar nóg dýpi fyrir báta um háfjöru. Önnur bryggja er þar utar, kynlega lögð og hlykkjótt, en með háfjöru er hún á þurru landi. Hún verður vafalaust lengd áður langt um líður, og getur þá komið að gagni. […….]
Keflavík
Sjálfur [er] bærinn ærið fyrirferðarmikill. Það er nálega 20 mínútna gangur eftir honum endilöngum. Þessi dreifing byggðarinnar er varasöm, því götur verða þá dýrar, ekki síst er ræsi og vatnsveita verða lögð. Hér, eins og víðar, er orsök dreifingarinnar sú, að lóðir fást ódýrari í suðurhluta bæjarins og þar vex því byggðin, en hins vegar eru húsin hvergi sambyggð, þó bæði sé það ódýrara og hlýrra“.
Skipulagsnefndin vann áfram með skipulagshugmyndir Guðmundar Hannessonar. Lögð var áhersla á að aðgreina íbúðar- og atvinnusvæði.

Keflavík
Útgerðinni var ætlað svæði í Grófinni og á Vatnsnesi nærri hafnarmannvirkjum. Iðnaði var valinn staður á Vatnsnesi.
Verslunin átti að vera áfram við Hafnargötu þar sem gert var ráð fyrir sambyggðum húsum með vörugeymslum bakatil. Gert var ráð fyrir íbúðarbyggð á svæði sem afmarkaðist af Vesturgötu til norðurs, Hringbraut til vesturs, Vatnsnesvegi til suðurs og Hafnargötu til austurs. Teiknuð var ný íbúðarbyggð á Duus-túni þar sem fyrir var byggð. Götur lágu í beinum línum frá austri til vesturs og norðri til suðurs. Skipulagið var auglýst eins og lög gerðu ráð fyrir og gerðu hagsmunaaðilar, byggingarnefnd og sjálf hreppsnefndin athugasemdir. Voru menn ósáttir við breytingar frá upphaflegum hugmyndum Guðmundar Hannessonar sem flestar væru til þess að gera uppbyggingu dýrari. Ósátt var um að á helmingi svæðisins væri gert ráð fyrir tvílyftum húsum og sambyggðum húsum.
KeflavíkAðkoman að bænum var um Hafnargötu sem þá þegar var orðin aðalgata bæjarins og hefur ávalt verið það síðan. Skipulagið gerði ráð fyrir tveim opnum svæðum, annars vegar við kirkjuna við Kirkjuveg og hins vegar við bæjarvöll sem afmarkast af Suðurgötu, Tjarnargötu, Sólvallagötu og Skólavegi. Lögð var áhersla á að hagkvæmis[-] og fegurðarsjónarmið skyldu höfð að leiðarljósi við framtíðaruppbyggingu. Fyrsta skipulag Keflavíkur var staðfest í júní 1934.
Á vegum Skipulags ríkisins og Samvinnunefndar um skipulagsmál Keflavíkur, Njarðvíkur og Keflavíkurflugvallar voru síðan unnar aðalskipulagsáætlanir sem staðfestar voru 1973 og 1983 svo Aðalskipulag Reykjanesbæjar 1995-2015.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.

Í núgildandi Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008 – 2024 segir: “Þéttbýli í Reykjanesbæ hefur markast af byggð í Keflavík, Innri Njarðvíkum, Ytri Njarðvíkum og Höfnum. Fram til þessa hefur byggðin fyrst og fremst verið austan og norðan Reykjanesbrautar. Þessi fyrrum sveitarfélög voru sameinuð í Reykjanesbæ árið 1994. Njarðvíkurfitjar mynda afgerandi skil í byggðinni, en eru um leið dýrmæt náttúruperla sem gefur bænum ómetanlegt gildi.
Byggð í Reykjanesbæ er fremur lág og eru einnar til þriggja hæða hús áberandi. Bygging hærri húsa hefur þó farið vaxandi á síðast liðnum misserum með allt að sjö til átta hæða húsum við strandlengju.
Fjölbýlishúsahverfi frá sjöunda áratug er í suðurhluta gömlu Keflavíkur og stórt fjölbýlishúsahverfi í norðri frá níunda áratuginum. Þéttleiki byggðar er nokkuð mismunandi eftir hverfum, á bilinu 10 til 30 íbúðir á hektara. Gott samhengi er í ákveðnum bæjarhlutum og fjölbreytni er í húsa- og íbúðargerðum, sérbýli og fjölbýli.
Keflavík
Heildstæður byggðarkjarni eldri timburhúsa er upp af gömlu Keflavík, en elstu hús bæjarhlutans eru timburhús frá því kringum aldamótin 1900. Bærinn byggðist á sínum tíma nokkuð þétt út frá víkinni í eins konar geislum. Uppgangstíma í útgerð má m.a. sjá í íbúðarbyggingum á fimmta áratuginum. Vaxtarkippur varð svo í íbúðarbyggingum á sjötta áratuginum með komu varnarliðsins og aftur í byrjun sjöunda áratugarins þegar fólk flutti frá Vestmannaeyjum eftir gos.

Keflavík

Keflavík – Hafnargata 2020.

Hafnargata, Hringbraut og Njarðarbraut eru helstu götur bæjarins með líflegan bæjarbrag og öflugan þjónustukjarna með blandaðri byggð. Hafnargata og Njarðarbraut mynda upphaf lífæðar bæjarins sem teygir sig til austurs að Tjarnarbraut og Dalsbraut, þar sem ný íbúðarbyggð hefur risið undanfarin ár og er enn í byggingu. Þar er mikilvægi lífæðarinnar fyrir samhengi byggðarinnar fylgt eftir, svo sem við mótun göturýmis, í húshæðum og þéttleika, sem er mestur við lífæðina. Í Höfnum eru elstu íbúðarhúsin frá um 1920 og nokkur ný hús hafa verið byggð á þremur síðastliðnum áratugum.
Trjágróður er ekki áberandi í bæjarlandinu, en víða má sjá myndarleg tré í húsagörðum. Nálægðin við sjó, hafnir, heiðar og berg gefur bæjarumhverfinu sérkenni og margbreytileika”.“

Heimild:
-Reykjanesbær – byggða- og húsakönnun, áfangaskýrsla, febrúar 2012.

Keflavík

Keflavík – loftmynd 1954.

Reykjanesskagi

Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:

Sjávarhæð

Sjávarhæð – mismundur.

„Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.

Landnám Ingólfs

Þorlákshöfn

Gægst um í Þorlákshöfn.

Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.

Víkarskeið

Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.
Ós árinnar hefur hlaupið til og frá í tímans rás.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll.
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.

Selvogur

Selvogur

Selvogur.

Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir. Borgirnar eru nú nánast komnar undir kampinn.

Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).

Herdísarvík

Herdísarvík. Sjórinn hefur rofið grandann milli sjávar og Tjarnarinnar.

Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.

Grindavík

Grindavík

Grindavík.

Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir nýlega loftmynd. Gamli brunnurinn er kominn undir kampinn. ÓSÁ

Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – brak.
Sjórinn hefur brotið framan af Nesinu.

Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin“. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir.

En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,“ segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur.

Staðarhverfi

Staðarhverfi suðvestan við Grindavík. Litlagerði og Kvíadalur er nú nánast komnir í sjó fram.

Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,“ en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi“. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.“ Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.“ Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.

Staður

Staðarhverfi.

En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru.

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.

Hafnir

Hafnir

Hafnir.

Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.

Miðneshreppur

Stafnes

Stafnes.

Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það „af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.“

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.“ Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.“
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.“

Básendar

Básendar

Básendar.

Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðan, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint.

Básendar

Básendar. Land, sem áður var gróið, er nú nánast horfið.

Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.

Másbúðir

Másbúðir

Másbúðir.

Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“

Másbúðarhólmi.

Másbúðarhólmi var áður landfastur.

Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.“

Sandgerði

Sandgerði.

Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti“. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir“. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði. Sjórinn hefur verið að grafa sig inn í kirkjugarðinn.

Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.

Gerðahreppur

Gerðahreppur

Gerðahreppur.

Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.“ Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: „Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).“

Garður

Vatnagarður – loftmynd 2022. Sjórinn brítur ströndina.

Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið.

Garður

Garður – kort 1903.

Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina“. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni.

Leiran

Leiran – loftmynd.

Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.

Keflavík og Njarðvíkur

Keflavík

Keflavík.

Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.

Bergsendi

Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.

Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur

Vatnsleysustrandarhreppur.

Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
VogarJarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,“ og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.

En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.“ (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)

Garðahreppur

Garðahreppur

Garðahreppur.

Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina“ og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga“.

Bessastaðahreppur

Álftanes

Bessastaðahreppur.

Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, „og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn“. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.

Álftanes

Álftanes – kort frá 1796.

Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.

Álftanes

Álftanes 2021.

Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.“ Höfn þessi er nú ekki lengur til.

Sjávarvíkur, sem heita tjarnir

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.

Hlið

Hlið – Álftanesi.

Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.“ Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.

Melshöfði

Álftanes

Álftanes – Melshöfði. Gömlu verbúðirnar eru nú komnar út í sjó.

Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.

Laug í fjörunni

Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part af engjunum.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.“ Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.“

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.

Niðurlagsorð

Þórkötlustðahverfi

Þórkötlustaðahverfi .

Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn 1913.

Víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.

Selvogur

Selvogur – fjaran.

Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.